Sunnudagur 15.02.2015 - 16:56 - 30 ummæli

Morgunblaðshöllin

1506774_892354684118835_8727896406039333206_n

Myndin að ofan varð á vegi mínu í vikunni. Hún er af nýbyggingu Morgublaðsins eins og hún var hugsuð á sínum tíma fullgerð, alls 11-12 hæðir.

Bygginguna teiknaði Gunnar Hansson 1953 meðan hann var enn við nám í byggingalist.

„Morgunblaðshöllin“ hefur verið umdeild allt fá því að hún var byggð. Það var einkum stærð hennar og  ósamræmi við næsta umhverfi sem fólk gerði athugasemdir við. En í því sambandi ber að hafa í huga að tíðarandinn, sem er oft versti óvinur byggingalistarinnar, kallaði á gjörbreytingu miðbæjarinns þar sem allt átti að víkja fyrir nýju. Og svo var líka einhver pólitísk andstaða við húsið vegna þess að Morgunblaðið var þar til húsa. En það kemur byggingalistinni ekkert við.

En varðandi hugmynd Gunnars, eins og hún kemur fram á uppdrættinum að ofan, er í mínum augum augljós tengsl milli byggingarinnar og verka Oskars Niemeyer. Það sér maður á hlutföllunum og formmáli og ekki síður efstu hæðinni og hvernig hann lætur bygginguna „mæta himninum“ eins og það er oft orðað.

Þegar kom í ljós að byggingin yrði ekki meira en 7 hæðir hefur Gunnar líklega áttað sig á því að það þyrfti að gefa efsta hluta hússins eitthvað form sem segði okkur að hér endar byggingin eins og upphafleg teikning gerði ráð fyrir. Hann var eflaust líka meðvitaður um að hér endar aðalgata borgarinnr, Laugarvegur, Bankstræti og Austurstræti. Hann hefur leitað hagkvæmrar arkitektónisrarlausnar til bráðabirgða full viss um að byggingin yrði kláruð samkvæmt frumteikningunni síðar. Þetta gerði hann á sérlega fallegan og einfadann hátt með hallandi veggfleti þar sem lengi stóð „Morgunblaðið“.

Nú hefur húsinu breytt og einni hæð bætt við. Ég hef nokkrar efasemdir um lausnina. Í henni felast ekki markmið upphaflegra hugmynda um að húsið endi aðalgötur borgarinnar. Hafi hatt eða mæti himninum á viðeigandi hátt.

Þetta vekur athygli einkum vegna þess að öllum sem kynna sér upphaflegu hugmynd húsinns sjá hve mikilvægt þetta grundvallaratriði í hugverki Gunnars er. Byggingi stendur jú við enda mikilvægustu og lengstu verslunar- og miðborgargötu landsins. Eftir breytinguna er húsið eins og hauslaust eða ófullgert og er ekki það kennileiti sem það var áður.

Kannski er það einmitt málið!

+++++

16.02.2015

Bætt hefur verið við færsluna afstöðumynd sem gerð var þegar Morgunblaðshöllin var teiknuð í öndverðu. Þar má sjá forvitnilegar hugmyndir sem lýsa tíðarandanum um miðja síðustu öld. Hryllilega rottækar. Ég hélt reyndar að framlenging Suðurgötu í gegnum Grjótaþorpið hafi verið ein af hugmyndum Aðalskipulagsins frá 1962.

+++++

Gunnar Hansson (1925-1989) var flinkur fagmaður sem hannaði mörg ágæt hús. Þeirra á meðal Fossvogsskóla, Hólabrekkuskóla og Ölduselsskóla í Reykjavík. Hann teiknaði líka Umferðamiðstöðina, Búnaðarbankann við Hlemm, DV-húsið við Þverholt, kirkju óháða safnaðarins og biðstöðina við Hlemm sem fékk Menningarvrðlaun DV á sínum tíma og m. fl. Hann nam á Berkley háskólanum í Kaliforníu á stríðsárunum og hélt svo áfram námi í Þrándheimi eftir dvölina vestanhafs.

Neðst er ljósmynd af Gunnar Hanssyni framan við Morgunblaðshöllina í byggingu.

a6-breyting_opt

Á myndinni að ofan og strax að neðan sést hvernig  Gunnar Hansson hefur hugað að því hvernig byggingin endar og“mætir himninum“.  Myndin þar fyrir ofan er af húsinu eftir breytingu.

10689800_891805250840445_4243076957695678846_n

Að neðan er byggingin eftir breytingu. Hún virðist vera hálfköruð. Samanborið við byggingarnar til sitt hvorrar handar er eins og það eigi eftir að bæta einhverju sem skiptir máli ofan á Morgunblaðshúsið til þess að klára það.

10313129_891800954174208_4315131634252007817_n

Viðbót 16.02.2015

Hér að neðan kemur afstöðumynd sem gerð var vegna byggingu hússins. Hún er sérlega athyglisverð og segir ýmislegt um tíðarandann um miðja síðustu öld. Guðni Vilberg bendir á þetta í athugasemd. Hér sést hvenig Suðurgaran er framlengd í gegnum grjótaþorpið og nánast öll hús í grendinni komin á aftökulistann.

untitled

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (30)

  • Kristján Gunnarsson

    Því verður ekki haldið fram að nýja ofanábygging Morgunblaðshallarinnar sé vel hugsuð. Þvert á móti er hún vanhugsuð. Ég hef tekið eftir því að þegar pistlahöfundur er ánægður nefnir hann gjarna nafn höfunda en þegar hann er ekki ánægður þá sleppir hann að nefna þá sem gert hafa axarskaftið (skiljanleg tillitssemi). Þannig er það núna. Ég sló upp Teiknistofu Gunnars Hanssonar og sé að hún er í rekstri. Því spyr ég beint hvort þarna sé sama Teiknistofa sama Gunnars á ferðinni og teiknaði Moggann í upphafi eða fólk á hans vegum, því hann er jú látinn samkv. pistlinum?

    • Hilmar Þór

      Nei þakhýsið er ekki teiknað á Teiknistofu Gunnars Hanssonar.

      Annars erum við minna fyrir að fara í manninn hér á þessum vef, höldum okkur meira við boltann. 🙂

  • Hilmar Thor Bjarnason

    Ef til vill er ég ögn undarlegur, en Morgunblaðshúsið við Aðalstræti hefur aldrei farið í taugarnar á mér. Vissulega er húsið ákveðið stílbrot við umhverfið, en það er óneitanlega tákn síns tíma og sem slíkt finnst mér það bara ágætt. En þetta er bara mín persóuleg skoðun.

    • Þú ert ekkert „undarlegur“ Hilmar Thor:húsið og ekki síst framhliðin að torginu er góður arkitektúr af því að það er heilsteypt og sjálfum sér samkvæmt.Varla er hægt að fullyrða það um nýrri húsin beggja vegna að ekki sé minnst á húsið sem snýr hakhliðinni í torgið og framhlið að Fógetatorgi.
      Gunnar Hansson var frábær akitekt þó að hann hafi verið „barn síns tíma“ eins og flestir aðrir.Ég nefni sem dæmi íbúðarhúsið við Sólheima 5 í Rvík og ekki síst Ísólfsskála á Stokkseyri:slík hús þyrfti að „vernda“,sem fyrirmyndardæmi um módernisma 50. áratugar.

  • Hvað svo sem má segja um þessar breytingar á húsinu, þá eru þær mjög líkar eldri teikningum GH, eins og sjá má hér:

    http://skjalasafn.reykjavik.is/fotoweb/Grid.fwx?archiveId=5001&SF_LASTSEARCH=aðalstræti+6&SF_FIELD1_GROUP=1&SF_GROUP1_BOOLEAN=and&SF_FIELD1_MATCHTYPE=exact&SF_FIELD1=aðalstræti+6&SF_SEARCHINRESULT=0&SF_GROUP2_BOOLEAN=and&SF_GROUP2_FIELD=FQYFT&SF_FIELD2_GROUP=2&SF_FIELD2_MATCHTYPE=exact&SF_FIELD2_BOOLEAN=and&SF_FIELD2=&SF_FIELD3_MATCHTYPE=exact&SF_FIELD3_BOOLEAN=and&SF_FIELD3_GROUP=1&SF_FIELD3=&doSearch=Leita#Preview93

    Ef skoðaðar eru fleiri eldri teikningar af Aðalstræti 6 á Teikningavef Reykjavíkurborgar má t.d. sjá samþykktar teikningar af húsinu eftir GH frá 1951 þar sem húsið er einungis fjögurra hæða. Svo má einnig sjá afstöðumynd sem sýnir þáverandi framtíðarsýn af skipulagi Kvosarinnar þar sem ekki aðeins allar eldri byggingar á svæðinu víkja fyrir nýjum heldur er gatnakerfinu breytt talsvert sem útskýrir t.d. af hverju húsið situr ekki hornrétt á Aðalstræti.

    • Hilmar Þór

      Þakka þér fyrir þessar athyglisverðu upplýsingar Guðni Valberg. Ég hefði svosem átt að rýna í þessi gögn áður sen ég setti þetta á netið. Þetta er afskaplega áhugavert og kastar aðeins öðru ljósi á verk Gunnars þarna við Austurstræti.

      En það breytir ekki því að þegar maður „les“ húsið þá blasir við áherslan sem lögð á staðsetningu þess við enda Austurstrætis.

      Ég þakka þér aftur fyrir innleggið Guðni og bið áhugasama um að opna slóðirnar sem hann bendir á.

    • Hilmar Þór

      Ég bætti gamalli afstöðumynd við færsluna þar sem sjá má betur þær hugmyndir sem láu að baki hönnunarinnar.

    • Þóroddur

      Sérlega fróðlegt að skoða þessa afstöðumynd sem bætt hefur verið inn í færsluna. Hún er í raun ógnvekjandi. Þarna er saga borgarinnar þurrkuð út í bókstaflegri merkingu. Bílum gefið gott rými en ekki er að sjá nein bílastæði. Það skelfilegasta er að þetta eru skipulagsáætlanir sem lagðar eru fram af sérfræðingum. Mönnum sem um þessi mál hugsuðu og framkvæmdu vegna þess að almenningur hafði „ekki þekkingu á þeim“. Þetta segir okkur að við eigum ekki að treysta sérfræðingunum eða stjórnmálamönnum. Við eigum að taka þátt í umræðunni og þeir sem fjalla um málin í pólitíkinni eiga að hlusta á grasrótina. Grasrótin hefur nefnilega oftast rétt fyrir sér.

    • Helgi Gunnars

      Vonandi dragast framkvæmdir við Landspítalann við Hringbraut það lengi að menn átti sig á hverslags vitleysa það er. En vitleysan við Aðalstræti og vitleysan við Hringbraut eru af sama toga!!

  • Jón Sigurðsson

    Eitthvað þessu líkt var sungið á sínum tíma:

    Water, water everywhere,
    platan fæst í Vesturver,
    sungin af honum Tomma Stíl,
    sem keyrir kassabíl.

    Maður hefur heyrt ýmsar útgáfur af síðuslu línunni.

  • Mamma sagði mér að það hafi verið svo falleg kvöldsólin í Asturstrætinu áður en Morgunblaðshöllin reis. Austurstrætið fannst henni ekki svipur hjá sjón síðan

  • Hilmar Þór

    Mig minnir að það hafi verið Alvar Aalto sem sagði að öll hús hefðu fimm hliðar; Suðurhlið. norðurhlið, vesturhlið, austurhlið og þak sem er mikilvægasta hliðin vegna þess að hún sést frá öllum hinum hliðunum fjórum.

    Menn gleyma oft mkilvægi þaksins. Einkum á síðari árum.

    En samhengi hlutanna skiptir höfuðmáli og svo er það tíðarandinn. Byggingar þykja góðar þegar þær eru nýjar og svo tveim, þrem áratugum síðar þykja þær kannski slæmar og svo fá þær nýtt og betra líf. Þegar þær eru 100 ára þykja þær yfirleitt allar góðar.

    Varðandi funktionalismann sem margir eru eitthvað að argast út í þá ber að hafa í huga að arkitektúr er fyrst og fremst nytjalist þó hann hafi á öldum áður oft verið nytjalist bara að öðrum þræði þegar byggt var fyrir aðra en sauðsvartan almúgann (!)

  • Satt að segja finnst mér í æ ríkari mæli að hús séu sjaldnast falleg eða ljót. Þau geta verið flott, áhrifamikil, stórkostleg eða lágkúruleg. Það er umhverfið sem þau skapa sem skiptir máli. Þar skiptir staðsetning hússins og ytri aðstæður (td veðurfar og sólarhæð) mestu máli og getur verið notalegt og eftirsóknarvert eða óaðlaþandi eftir því hvernig tekst til.

  • Anna Th. Rögnvaldsdóttir

    Undir Morgunblaðshöllinn er alveg gríðarlegur kjallari, gott ef ekki á tveim hæðum. Alveg afskaplega massívt mannvirki. Maður áttar sig ekki á tilganginum. Skyldi þetta hafa átt að vera kjarnorkubyrgi?

    • Þóroddur

      Kjallarinn er sýndur á teikningu sem Guðni Valberg vísar til að neðan. Sennilega var prentsmiðjan í kjallaranum.

  • Egill Helgason

    Ég veit ekki með fúnksjón, en húsin sem eru nefnd í þessari grein eru að mínu viti mjög fráhrindandi og ekki hef ég orðið var við sérstakt notagildi Búnaðarbanka við Hlemm eða DV hússins – hvað þá Umferðarmiðstöðvarinnar. Mætti jafnvel segja að þetta séu allt frekar léleg hús. Biðstöðin við Hlemm er svo eitthvað ömurlegasta mannvirki á Íslandi og ætti helst að rífa það tafarlaust.

  • Hlöðver Stefán Þorgeirsson

    Ég hef aðeins búið í Reykjavík í einn og hálfan vetur og er ennþá að uppgötva hana.

    Um daginn gekk ég upp frá Ingólfstorgi og eftir götunni sem liggur samsíða Aðalstræti á bak við Morgunblaðshöllina.

    Mér brá allverulega þegar bakhlið hússins kom í ljós aftan við eitt af smágerðu húsunum þarna í Grjótaþorpinu. Mér fannst húsið miklu stærra frá því sjónarhorni heldur en af Austurstræti eða Ingólfstogi. Heljarinnar álma gengur aftur úr húsinu sem er jafn há og framhliðin. Ég er ekki að ýkja þegar ég segi að í smá stund hélt ég að þetta væru einhverjar sjónhverfingar.

    Ég held að þessi risahús séu helst áskorunin í frekari þróun Kvosarinnar. Morgunblaðshöllin, stóra brúna og gráa húsið á milli Ingólfstorgs og Fógetagarðs, húsið þar sem Íslandsbanki er við Lækjargötu, Héraðsdómur og aðliggjandi hús þar sem er 10-11 verslun, svarta húsið við Lækjartorg o.s.frv. Minni húsin í Kvosinni njóta sín í dag mörg hver illa innan um þessi hús. Það er samt engu líkara en að þau séu viðmiðin þegar kemur að því að byggja ný hús á svæðinu. Það er ótrúlega mikill munur á tveggja til fjögurra hæða viðmiði og þriggja til sjö hæða viðmiði á þessu svæði.

    • Gatan bak við MBL heitir Mjóstræti og þar ólst ég upp til 1951 ( fæddur 1940 ) er ég fluttist í Bústaðahverfið. Gatan niður með Fjalakettinum sáluga heitir Brattagata og hinsvegar er Fischersund báðar voru góðar sleðagötur fyrir okkur krakkana en mikil heppni yfir okkur að lenda ekki undir bílum við þessa iðju. Ég heyrði aldrei um þessa teikningu um að Suðurgata færi í gegnum Mjóstrætið og að Brattagata og Fischersund yrðu aflagðar en hinnsvegar var rætt um að rífa þyrfti Fjalaköttinn og allt suðurúr og Aðalstræti yrði tenkt við Suðurgötu og hún breikkuð. Ekki gekk þetta allt eftir en of margt samt. Varðandi Bröttugötu byrjaði Ottó Michelsen þar með ritvélasölu í bakskúr efst í götunni og síðar kom Einar J Skúlason einnig þekktur í þeim bransa. Svo var nú það.

  • Þorvaldur Magnússon

    Þegar manni er sagt þetta þá er það augljóst. Eina ástæðan fyrir því að þetta hús er hærra en önnur hús við götuna og með þessum krúsidúllum á þakinu hlýtur að vera einstök staðsetning þess við enda gatnaraðarinnar. En þetta hefði þurft að vera merkilegra hús. Hótel gengur varla eða pólitískt dagblað! Ímyndið ykkur til dæmis aðalstöðvar Arionbanka efst við enda skólavörðustígs!!!!!

  • Stefán Benediktsson

    Sumarhús Páls Ísólfssonar á Stokkseyri eftir GH er/var einhvert besta hús arkitekts á Íslandi fyrir utan Bakkaflötina hennar Högnu. Fegurð Egill er orð sem ekki ætti að nota þegar talað er um Arkitektúr. Form/funksjón sem er meira en 20 rúmmetrar að stærð á betri orð skilið en fallegt og ljótt. Málverk, tónverk verða heldur ekki afgreidd með fallegt eða ljót. Gott eða vont er betra ef nota á gildishlaðin orð.

    • Keopspýramídinn er fallegur. Eiffelturninn líka.

    • Ekki er ég sammála þeirri skoðun að form/funksjón sem er meira en 20 rúmmetrar að stærð eigi ,,betri orð“ skilið en fallegt og ljótt.

      Hafi skýjaborgin Hindenburg verið falleg held ég að Morgunblaðshöllin geti alveg verið ljót.

  • Halldór Guðmundsson

    Takk fyrir þetta Hilmar. Mjög athyglisvert. Hef aldrei áttað mig á því hvernig Gunnar hafði hugsað þetta hús.

  • Sigurður Guundsson

    Þarna við endan á auðvitað að vera hús sem er vikilvægt og sérstakt. Ekki endilega stórt. Þjóðleikhúsið hefði verið flott þarna. Breytingin er ekki til bóta fyrir götumyndina.

  • Egill Helgason

    Mjög forvitnileg grein. En ansi eru þau ljót flest húsin sem liggja eftir arkitektinn.

    • Orri Ólafur Magnússon

      Egill, fólk af minni kynslóð ( f. 1946 ) og einnig þinni sem hefur fengið sig fullsatt upp í kok af fúnksjónalisma eftirstríðsáranna finnst þessar byggingar sem hannaðar voru með vinkilmáli og reglustriku algörlega „sterílar“ ( geldar ? ) . Fyrir samtímamenn Gunnars Hanssonar og annarra byggingameistara um miðja síðustu öld, – fólk sem kom fálmandi eftir ljósinu og birtunni út úr þunglamalegum og dimmum steinsteypubyggingum með fráhrindandi framhlið og örsmáum gluggum – næstum því „skotraufum“ ( dæmi : Politigaarden í Kaupmannahöfn ) voru þessar glerhallir gríðarlegar framfarir fyrir mannkynið. Látum byggingameistara þessara ára njóta sannmælis.

    • Egill Helgason

      Ég veit ekki með sannmæli fyrir þessa menn. Sumir voru góðir arkitektar, aðrir lélegir eins og gengur og gerist. Og það er rétt með bakhlið Moggahússins. Hún er hrikaleg.

    • Kirkja Óháða safnaðarins er falleg. Kannski í og með af því að hún er passlega stór.

  • Man einhver eftir Vesturveri sem endurvakti Aðalstræti sem aðalstrætið!

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og þremur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn