Mánudagur 20.06.2016 - 12:10 - 20 ummæli

MÓTUN FRAMTÍÐAR.

11225725_173710526295825_7102508128324779405_n

MÓTUN  FRAMTÍÐAR.

Fyrir tæpu ári kom út stórmerkileg bók Trausta Valssonar arkitekts sem starfað hefur sem prófessor í skipulagsfræðum við Háskóla íslands um áratuga skeið.

Þetta er þrettánda bók Trausta um efnið.

Bókin fjallar um æfistarf Trausta og skipulagshugmyndir frá öndverðu með áherslu á tímabilið frá stúdentabyltingunni 1968. En um það leiti hóf Trausti nám í arkitektúr í Berlín. Trausti getur horft stoltur um farinn veg.

Þetta voru miklir umrótatímar þarna á árunum milli 1968 0g 1975 þar sem allt var litið gagnrýnum augum. Menn tóku ekkert sem gefið og allt var gagnrýnt með lausnamiðuðum hætti í mjög víðu samhengi. Menn horfðu til langrar framtíðar.

Ég hóf mitt nám á Listaakademíunni í Kaupmannahöfn á svipuðum tíma. Menn sögðu reyndar að það hafi tekið stútentabyltinguna heilt ár að komast frá París til Kaupmannahafnar þar sem hún byrjaði fyrir alvöru haustið 1969. Þarna breyttust allar áherslur. T.a.m var maðurinn og hans þarfir settar í fókus, einkabíllinn var látinn víkja í öllu samhenginu. Menn fóru að hugsa meira um mengun og auðlyndir jarðar, ást og frið.

Þetta smitaðist út í samfélagið. Sagt er  að aðgerðasinnarnir sem björguðu Bernhöftstorfunni á sínum tíma hafi verið afsprengi studentabyltingarinnar og hippakyslóðarinnar.

Trausti hóf nám í Berlin 1967 fyrir byltingu og lauk árið 1973. Hann hóf því nám sitt á gamla skólanum og lauk í nýju og öðru félagslegu umhverfi þegar byltingunni var farið að lægja.

Í mínum huga er þetta eitt merkilegasta skeið síðustu aldar. Þarna varð til kynslóðagjá eða múr. Múr sem byggður var af nýrri tónlist, nýrri myndlist, öðrum klæðaburði, öðrum markmiðum en áður tíðkuðust og nýrri sýn á byggingalist og skipulag.

Þetta var upphaf hippakynslóðarinnar.

Þetta tímabil hefur markað marga okkar og það má sjá af bók Trausta að þessi tími og þessi tíðarandi hefur markað allt hans professinella líf og viðhorf, sem betur fer.

Eftir nám í Berlín starfaði hann allnokkur á að skipulagsverkefnum hér á landi og skoðaði sérstaklega viðfangsefnið í stóru samhengi. Síðan var haldið til Berkeley í Californiu sem stundum hefur verið kallað Mekka umhverfistengds skipulags og lauk þaðan doktorsprófi árið 1967.

MÓTUN FRAMTÍÐAR er frábær bók sem opnar hugmyndaheim umhverfismótunnar fyrir fólki þannig að það skilur samhengið betur eftir að hafa lesið hana. Eftir lesturinn á fólk auðveldara með að skilja samhengið, taka þátt í umræðu um þetta, sennilega mikilvægasta hagsmunamál alls almennings, sem er skipulag borga, bæja og landsins alls.

Trausti gagnrýnir modernismann harkalega og nokkuð verðskuldað.

Ég hef samt nokkrar áhyggjur af því að menn spyrði modernismann og funktionalismann saman eins og um sé að ræða sama stílinn. Þetta er ekki að mínu mati ekki alveg sami hluturinn. Þessar tvær kenningar komu upp á svipuðum tíma og er modernisminn sennilega afleiðing eða jafnvel orsök funktionalismans sem Louis Sullivan setti fram um aldamótin 1900. Ég hygg að flestir arkitektar sem sitja nú sveittir við tölvurnar sínar vinni í anda Sullivans og gömlu meistaranna þó þeir hafi aldrei heyrt þá nefnda. Svo mikilvægir eru þeir í öllum störfum arkitekta.

Mér finnst þessum tveim stefnum oft ruglað saman og líður funktionalisminn oft  fyrir það.  Það örlar á þessu í doktorsritgerð Ævars Harðarsonar í ritgerð hans  frá háskólanum í Þrándheimi sem hann nefnir „Dristige Detaljer“.  Ritgerðin fjallar um galla í nútímabyggingum og þar er fjallað sérstaklega um Falling Water og modernismann.

Trausti gagnrýnir snillingana Le Corbusiere og Walter Gropius og segir hugmyndir þeirra hafi leitt til mikilla hörmunga í skipulagi. Stefna þeirra hafi þýtt að nú búa milljarðar manna í óhagkvæmu, ljótu og vélrænu umhverfi úthverfa um allan heim. Það er nokkuð til í þessu en kannski ofmælt. Því hefur til dæmis verið haldið fram að hugmyndir Le Corbusiere um uppbyggingu í Mýrinni í París hafi í upphafi verið „case study“ sem gekk  lengra en að var stefnt. Þessir menn lögðu drög að mörgum frábærum hugmyndum en því miður gerðu þeir líka mistök eins og allir snillingar. Mér finnst menn oft  horfa meira til mistaka þeirra en þess sem þeir gerðu vel.

++++++

MÓTUN FRAMTÍÐAR er skemmtileg bók sem vert er að kynna sér. Hún er óvenju aðgengileg miðað við bók af þessu tagi. Fróðleg, skemmtileg og nær tíðarandanum vel. Hún er góður vetvangur til skoðanaskipta og ætti að geta lífgað upp á umræðuna en það hefur Trausta tekist betur og oftar en flestum öðrum.

Þetta er önnur bókin um efnið sem kemur út hér á landi á stuttum tíma. Hin er bók Bjarna Reynarssonar sem fjallað hefur verið um hér á þessari síðu. Það er óhætt að mæla með báðum bókunum.

++++++

Það má til gamans lista hér upp nokkrar stefnur sem stuðst er við í byggingalistinni nú á dögum:

Funktionalismi,

Modernismi,

Postmodernismi,

Metafysik,

Brutalismi,

Minimalismi,

Dekonstruktivismi,

New Wave,

Biomorf arkitektúr,

Nýrationalismi,

Internationalismi sem er að mínu mati afskaplega slæmur og stuðlar að einsleitni um allan heim,

og Regionalismi sem er sennilega áhugaverðastur af þeim öllum og er um leið einhver staðbundin blanda af öllum stefnunum.

++++++

Sjá eftirfarandi slóðir sem tengjast efninu.

Hér er fjallað um doktorsritgerð Ævars Harðarsonar:

http://blog.dv.is/arkitektur/2013/01/14/gallar-i-nutimalegum-byggingum/

Og hér er umfjöllun um bók Bjarna Reynarssonar „Borgir og borgarskipulag“:

http://blog.dv.is/arkitektur/2014/10/06/ny-bok-borgir-og-borgarskipulag/

Og tengt:

http://blog.dv.is/arkitektur/2010/03/19/regionalismi/

http://blog.dv.is/arkitektur/2009/10/19/varist-stjornuarkitekta/

Og að lokum um funktionalismann:

http://blog.dv.is/arkitektur/2010/02/26/form-follows-function/

 

 

 

 

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (20)

  • Takk Hilmar fyrir mjög góðar athugasemdir. Þú segir „Myndbandið gengur eiginlega þvert á gagnrýni Trausta Valssonar á funktionalismann“. Hér er ég ekki sammála því, því ég ræði aðallega hið ljóta form af funktionalismanum sem hugsar nánast um húsið sem verksmiðjubyggingu án tengsla við sögu, fegurðarsjónarmið, lífræn byggingarefni og staðhætti.
    Það kemur vel fram í myndbandinu að Aspilund gerði öll þessi atriði að meginforsendu í hönnun sumarhúss síns ásamt mjög skýrri greiningu á starfrænum funktionum hússins… Enda segir í myndbandinu að Aspelund hafi horfið frá hinum vélræna funktionalisma, og notað „form follows feelings“. Í bandinu kemur fram að fordæmi Aspelunds hafi verið Aalto og Jacobsen hvatning og úr hafi orðið hinn stórkostlegi skandinavíski arkitektúr „functionalism with a human face“. Ég er sammála því. Módernisminn mótaðist mikið af hinu vélræna í funktionalismanum og vegna spennings fyrir „framtíðarvísandi“ hlutum vildi, og vill, hann ekki vinna úr sögunni og staðháttum. Þetta veður að mikilli meinsend þegar er verið að hanna inn í gömul hverfi eins og er í Reykjavík núna.
    Menn segja að þetta sé í lagi fjarri gömlum hverfum… en mér finnst að líka þar þurfi að hanna útfrá sögunni og umhverfinu. Mér finnst margir íslenskir arkitektar hálfgerð tískufífl sem grípa upp útlitsdellur upp úr erlendum tímaritum í hönnun sinni.

  • Hilmar Þór

    Hér kemur aldeilis flott myndband um Gunnar Asplund sem af mörgum er skilgreindur sem modernisti en ég álít frekar vera funktionalista.

    Mér finnst nefnilega vera sá munur á modernismanum og funktionalismanum (nytjastefnunni) að modernisminn lítur frekar lögmálum framleiðslunnar og framleiðninnar.

    Myndbandið gengur eiginlega þvert á gagnrýni Trausta Valssonar á funktionalismann og segir það sem ég hef alltaf sagt að „modernisminn“ og funktionalisminn er ekki nákvæmlega það sama.

    Funktionalisminn gefur tilfinningum og manneskjmunni rými (form follows feelings) meðan modernisminn er frekar tengdur framleiðslunni sjálfri þar sem manneskjan og hennar þarfir eru víkjandi.

    Það er líka áberandi í hugsun Asplunds (og Aalto‘s og Viggo‘s og Bo‘s) að efniskenndin er mikilvæg (kallað stoflighed held ég á dönsku) og þar sem maður skynjar efnin og handverkið.

    Maður finnur fyrir handverkinu og verki mannanna sem byggðu. Hefilförin, hamarsförin, sagarförin og pensilförin. Það er gott að snerta þessi efni og skynja með öllum skynfærum.

    Þetta sést ekki á nútímabyggingaefn sem sver sig oft að modernismanum.

    Álplötur, álgluggar og sprautulökkun firrir mannsekjuna og handverkið frá umhverfinu. Mannshöndin er hvergi sjáanleg.

    Asplund og þeir sem ég nefndi hafaeinhver þau tök á funktionalismanum sem svo hefur þróast í eitthvað sem ég kalla modernisma. Sem vissulega er böl eins og Trausti segir. Enda eins og fyrr segir tók funktionalisminn stefnu til þess að auka framleiðnina og auðvelda framleiðsluna. Ekki endilega að búa til ramma um betra líf fyrir notendurna.

    En kannski hef ég rangt fyrir mér þarna eins og oft áður.

    Ég mæli með myndbandinu sem er hér:

    http://www.svtplay.se/video/2594127/nordiska-hus/nordiska-hus-sasong-1-avsnitt-1?info=visa

  • Takk fyrir mjög góða grein HÞB um Mótun framtíðar! Það hafa komið mörg góð komment t.d. eftir Dennis, Örnólf og V.F. Örnólfur kemur aftur og aftur með mjög gagnleg dæmi um það hvernig málin hafa gengið fyrir sig í öðrum löndum, og svo er hann af elstu kynslóð arkitekta og mjög mikilvægt að reynsla hennar heyrist í umræðunni. Það hafði mikil áhrif á mig að lesa að Gunnl. Halldórs, sem var höfuð-módernistinn og í nefnd fjögurra arkitekta sem hönnuðu móderníska kassann á Torfunni, hafi snarsnérist í málinu og gengið fremstur í flokki í Torfusamtökunum. Einnig mundi ég ekki að Hannes Davíðsson hafi barðist hatrammur á móti Seðlabankabyggingunni, og var þó einn af helstu módernistunum. Nú eru mjög margir arkitektar ofl. enn á ný slegnir blindu á skelfilegar módernískar tillögur í miðbænum. Maður vildi óska að áhrifamenn af stærð Gunnl. og Hannesar stigu nú fram til að reyna að létta af blindunni og reyna að bjarga því sem bjargað verður.

  • Örnólfur Hall

    – Takk fyrir vinsamleg ummæli (flottur?), kollegi kær Hilmar Þór, sem ylja framorðnum kollega óverðskuldað !

  • Örnólfur Hall

    Stiklur um bókina MÓTUN FRAMTÍÐAR & höfundinn dr.TRAUSTA

    MÓTUN FRAMTÍÐAR er mögnuð bók eftir hugmyndaríkan skipulagshugsuð, sem fjallar um hugmyndasögu skipulags og myndun og sköpun (mótun) umhverfis manna; frumleika í skipulagi og hönnun; stórar hugmyndir og hugsmíðar um skipulag framtíðarinnar. – Boðberi nýrra tíma í manngerðu skipulagi sem arkitektar framtíðar eiga eflaust eftir að lesa oft í.
    Bókin er mjög tilgengileg með hundruðir mynda og disk með efni úr skipulags – og hönnunarsögu Íslands og byggðarmál.

    I-Skipulagsprófessorinn og kennarinn. :
    Sonur undirritaðs, sem var í skipulagsfræðiönn hjá Trausta í H.Í., sagði að hann hefði verið hress og eftirminnilegur kennari sem opnaði nemendunum sýn í margbreytileika manngerðs skipulags.

    II-Trausti, Kvosin, Miðbærinn, Austurhöfnin o.fl. :
    Undirritaður samsinnir Trausta með það sem hann segir um þessi mál.

    Hann er uggandi um kynslóðina sem hann segir að sé mjög ónæm á þörfina á að nýtt verði lagað að gömlu í miðbænum og að kynntar tillögur þar stefni í að verða mikið slys.
    Trausti bendir m.a. á Alþingisreitinn og Alþingi í þessu sambandi og má þá nefna þrengingu Kirkjustrætis (áður mótmælt af Alþingi) og hótelútbelgingu Landssímahússins flatmagandi á fornum Víkurkirkjugarði með grafir 30 kynslóða sem m.a. erlendir fjölmiðlar hafa hneykslast á.

    -Víti til varnaðar:
    Það má vera víti til varnaðar að Danir naga sig nú í handarbökin yfir því sem þeir kalla „Historieløshed i danske byggerier“ m.a. yfirfylltar hafnir af slíkum byggingum.
    Í Evrópu tala m.a. þýskir- og austurrískir kollegar um ´Investment-Architektur´ sem svo almenningur hefur hafnað í atkvæðagreiðslum (t.d. í Frankfurt).
    Margir sjá sláandi líkingu með svokölluðum ´fjárfestinga-arkitektúr´ (hafnaðri torgtillögu í Frankfurt) og með tillögum á Hafnartorgi.
    Uggur er líka í mörgum kollegum um að slíkt sé að fara að gerast við Austurhöfnina: Ofhleðsla allskonar illa aðfallandi bygginga á svæðinu og engin söguleg skírskotun við gömlu Borgina og gömlu Vík.

    -Af ´stjörnutísku‘legum arkitektúr og eldri byggingum með staðaranda:

    Austur-þjóðverjar (skítblankir eftir Kommúnismann og sameininguna) hrósuðu happi yfir því að hafa ekki flotið út í þá strauma módernísku stjörnutískunnar sem réð ríkjum í Vestur-Þýskalandi og margar hverjar eru hrað- og illa byggðar og hafa kostað mikið í viðhaldi og breytingar. – Þeir (austurþýskir) endurbyggðu úr rústunum og/eða hönnuðu inn í í anda (karater) umhverfisins.

    III- Dr. Trausti um fyrri skipulagshugmyndir:
    Hann bendir á óhugnanlegar tillögur sem þá lágu fyrir um t.d.Torfuna og Seðlabankann og að tekist hafi að afstýra stórum slysum sem hefðu nær eyðilagt miðbæinn.
    Tíðarandinn var þá sá að hér væri um danskar fúaspítur að ræða sem minntu á danskan bæ og drottnun o.fl. sem mættu gjarnan hverfa á haugana.
    Trausti o.fl. komu inn nýrri hugsun og opnaði augu fólks (Torfusamtökin) .

    Undirritaður nýkominn frá námi var ráðinn arkitekt hjá Gunnlaugi Halldórssyni og þremur öðrum arkitektum (4 arkitekta nefnd) um byggingu Stjórnarráðshúss þegar þetta gerðist.
    Hann ar vitni að því að Gunnlaugur snarsnérist í málinu og gekk fremstur í flokki í Torfusamtökunum með Guðrúnu Jónsdóttur arkitekt og fleiri góðum kollegum og áhugafólki . Það varð sem betur fór ekkert af Stjórnarráðs-húsinu og nefndin leystist upp.

    Það hefði verið skelfilegt ef Thor Jensenshúsið hefði verið rifið fyrir Seðlabankabygginguna, en kollegi Hannes Davíðsson o.fl. barðist hatrammur á móti því og hætt var við.
    Það er rétt að þetta hefði nær eyðilagt borgina.

    IV- Djarfar tillögur o.fl. :
    Djarfar skipulagstillögur hans og róttækar fóru fyrir brjóstið á sumum Landanum hér fyrr á árum. En nú er að koma fram að hann sá fram í tímann m.a. um Grímsey sem er víst komin að fótum fram sem byggðareining. – Ekki hefur allt verið þar sem sýndist áður!

    • Þetta er merkilegur pistill frá reyndum manni. Hin „sögulega skýrskotun“ er mikilvægari nú en nokkurn tíma áður. „Historilöshed“ í íslenskum byggingum er ægileg og meiri en í Danmörku. Eldri arkitektar þurfa að kenna yngri mönnum á söguna og kilgreina staðarandann eins og gömlu mennirnirgerðu um aldir. Það hlýtur að vera meginverkefni arkitektúrdeildar Listaháskólans þó það sjáist trauðla í útskriftarverkefnunum.

    • Hilmar Þór

      Þú ert alltaf flottur Örnólfur og kemur hér með tvö hugtök inn í umræðuna: „Historilöshed i byggeriet“ annarsvegar og „Investment-architekturen“.!

    • Örnólfur Hall

      -Takk fyrir ummæli þín um pistilinn V.F: !

  • Hilmar Þór

    Ég man eftir því þegar Peter Cook kom til landsins.

    Ég held að það hafi verið á vegum Steve Christer .

    Hann hélt erindi í Norrænahúsinu fyrir fullu húsi arkitejkta enda áhryfamikill arkitekt á ferð. Það voru leyfðar spurningar en komu fáar.

    Margrét Harðardóttir tók mig tali eftir fyrirlesturinn og kynnti fyrir Cook. Svo sagði hún við mig.: Viltu ekki nota tækifærið og spyrja hann einhvers? Henni þóttu umræðurnar allt of litlar í kjölfar erindisins.

    Ég gerði það auðvitað. Lagði fram eina eða tvær gagnrýnar spurningar um „Walking City“. Hann tók gagnrýninni auðvitað fagnandi.

    Af hverju er ég að ryfja þetta upp? Jú það er vegna þess að það virðist vera einhver landlæg hræðsla við að taka þátt í umræðu um skipulagsmál hér á landi. Það er eins og fólk, einkum arkitektar, séu hræddir við skoðanir sínar. Óttast tjáninguna.

    Ég man líka eftir því þegar einn helsti stjörnuarkitekt samtímans, Jean Nouvel, hélt erindi í Öskju fyrir einum 10 árum. Þá komu kannski bara 2-3 spurningar úr sal. Hefðu átt að vera minnst 100.

    Ég spyr hvernig á að vekja umræðuna um þessi mikilvægustu hagsmunamál fólks í landinu.

    Ég hef vakið arhygli á þvi að ráðhússalurinn við Tjörnina stendur oftast tómur. Þarna ætti að vera stöðug og síbreytileg sýning sem skipulags og byggingamál eru á dagskrá.

    Grunn- og framhaldsskólar borgarinnar gætu nýtt sér sýninguna sem kennsluefni. Þannig næðust tengsl við foreldra og við fengjum upplýsta notendur skipulagsins og upplýsta umræðu.

    Í bók Trausta Valssonar er reynt að opna augu fólks fyrir firringu modernismans með því að kafa djúpt í ríkjandi stefnur og heimsmynd nútímans. Eins og sjá má hér að ofan er bók Trausta nú fáanleg á netinu þannig að takmarkað aðgengi að henni á ekki að koma i veg fyrir umræðu.

    Hér er slóð að pistli um skipulagssýningu í París:

    http://blog.pressan.is/arkitektur/2016/02/19/skipulagssyning-upplystur-almenningur/

  • Dennis Davíð Jóhannesson

    Bókin hans Trausta er fróðleg og ekki síður skemmtileg fyrir margra hluta sakir. Fyrir mig er hún sérlega áhugaverð þar sem við Trausti erum af sömu kynslóð, vorum samtíma í MR og fórum til náms í arkitektúr að loknu námi, ég til Skotlands (Glasgow) og hann til Þýskalands (V-Berlín). Þetta voru miklir umbrotatímar og margir af okkar kynslóð stóðum í þeirri meiningu, að við værum að breyta heiminum og ekkert var heilagt í þeim efnum. Við, nemarnir í Glasgow, neituðum t.d. að teikna einbýlishús, sögðum þau ekki skipta máli fyrir samfélagið (not socially relavant ) og komumst upp með það. Verndun byggðar og umhverfismál voru ofarlega á blaði og alls konar pælingar sem tengdust sálfræði, félagsfræði og heimspeki svo að eitthvað sé nefnt Þetta voru spennandi tímar og Trausta tekst ágætlega að greina þá í bókinni. Ég hef þó grun um að Þjóðverjar hafi tekið þetta allt ögn alvarlegar en Bretar sem höfðu tónlistina (Bítlana og Rolling Stones) og húmorinn (Monty Python’s Flying Circus) með í farteskinu að ógleymdum arkitektinum Peter Cook, sem stofnaði Archigram og átti eftir að verða kennari Steve Christer á Studio Granda og þar liggja áhrif hans á Íslandi. Bókin hefur mörg einkenni bóka frá þessum tíma en þá voru tímarit og bækur um arkitektúr og umhverfismál (t.d. frá Archigram) gjarnan skrifaðar í „scrapbook“ stíl. Trausti tekur saman upplýsingar úr ýmsum áttum og vefur þær saman við sitt lísfhlaup á frjálslegan en hispurslausan hátt. Mér finnst þessi stíll að mörgu leiti henta viðfangsefninu sem er áhugavert innlegg í nútíma umræðu um arkitektúr, skipulags- og umhverfismál í víðastasta skiningi þess orðs.

  • Þakka þér Hilmar fyrir mjög góða grein um bók mína. Já, ég held að við getum lært af því hvernig okkur hippunum tókst að opna augu fólks fyrir fegurð gömlu byggðarinnar. Tillögurnar um ömurlegan módernískan kassa á Bernhöftstorfunni höfðu legið fyrir lengi en er menn bentu á fegurð og sögulega rót húsanna þar, var eins og hulu væri svipt frá augum fólks og það sá þessa fegurð og um leið hve móderníski kassinn var ljótur og úr takt við staðarandann. Flestir sjá að þarna var e-h mesta skemmdarverki á miðbænum afstýrt. Enn á ný er margt fólk orðið blindað á hið vélræna í módernismanum, og nú koma fram í röðum tillögur sem eru í litlum tengslum við staðaranda og arkitektónískt myndmál Kvosarinnar.
    Nú þarf á ný að verða álíka bylting og varð með Torfunni, þannig að fólk nái að sjá betur hve módernísku tillögurnar nú eru að vinna mikið skemmdarverk á fegurð og byggingarlegu samræmi í gamla miðbænum. Ég heyri að flestum hryllir við módernísku tillögunum núna… og nú þyrfti að verða álíka bylting og varð neð Torfu-umræðunni til að þrýstingur myndist á byggingaraðila og borgaryfirvöld um að láta breyta tillögum sínum til að þær falli að staðarandanum, en vegi ekki að honum, etv á hátt sem aldrei verður úr bætt.

  • Er þetta ekki þannig að fyrst komu funktionalistarnir og síðan modernistarnir? Modernistarnir voru svo misnotaðir af verktökum, fjárfestum og verkfræðingum. Arkitektarnir (Le Corbusiere og fl) urðu verktaka- og framleiðslusinnaðir og misstu tökin á rótinni. Funktionalisminn vék fyrir gróðahyggjunni og kröfu um skilvirkni og efnahagslegan árangur. Pöpullnn hélt eðlilega að vélrænar og fjöldaframleiddar byggingar væru ódýrari og betri vegna þess að þær báru ekkert óþarfa skraut og hver fermeter átti að nýtast til fulls. Afurðin varð hinsvegar leiðinlegar og lélegar byggingar (Ævar) sem milljarðar manna þjást í, efnahagslega, listrænt og félagslega?

  • Árni Ólafsson

    Ekki gleyma absúrdismanum Hilmar ! (Frank Gehry o.fl. :))

    • Hilmar Þór

      Jú Árni ég steingleymdi absúrdismanum og gámismanum sem mikið er tekin hér á landi nú um stundir 🙂

    • Hilmar Þór

      Hér er ágæt ahugasemd sem þú kannst kannski við Árni Ólafsson! Þarna er talað um funktionalismann sem hugmyndafræði annarsvegar og funktionalismann sem stílbragð hinsvegar. Kannski má segja að modernisminn sé stílbragð funktionalismans. Eða hvað?

      „Hin praktísku not hafa alltaf mótað arkitektúrinn. Skrautið, sem varð svo yfirgengilegt að engu tali tekur t.d. í barrokkinu, hafði í sjálfu sér ákveðna „fúnksjón”. Upplifun og skynjun er „fúnksjón”.

      Fúnksjónalismi sem hugmyndafræði er eitt – fúnksjónalismi sem stílbragð í arkitektúr er annað. Stílbragð sem íslenskir arkitektar og húsateiknarar hafa étið yfir sig af undanfarin ár.

      Fúnksjónalísk hugsun í borgarskipulagi, þ.e. nútímaborgarskipulag, hafði hins vegar enn afdrifaríkari breytingar í för með sér en húsatískan. Og ekki jafn jákvæðar þótt allt virtist rökrétt og nauðsynlegt á sínum tíma. En að öllu gamni slepptu fylgir hér ágæt greining:
      http://www.teikna.is/Ymislegt/pity.jpg

  • Hvenær kemur framtíðin? Er hún kannski núna? Hver er svo framtíðin? Mig langar að kynnast henni. T. D. Hvenær fáum við að sjá Marriothótelið við höfnina? Heildarmynd að svæðinu með Hörpu, Hafnartorgi og Kvosinni allri í einni tölvumynd. „Aðgerðarsinnar allrar Reykjavíkur sameinist“

  • Hlöðver Stefán Þorgeirsson

    Trausti hefur gert bókina aðgengilega á vefsíðu sinni. Hlekkur á hana er hér fyrir neðan. Sjálfum finnst mér þó sjálfsagt að kaupa prentuðu útgáfuna svo höfundurinn fái eitthvað í sinn hlut. Ég hvet áhugasama til að gera það.

    https://notendur.hi.is/~tv/Content/Books/Book.pdf

  • Sigrún Gunnarsdóttir

    Þetta er vissulega skemmtileg bók. Ég fletti henni fyrir nokkrum mánuðum. Ég er full aðdáunar á hippunum, stúdentabyltingunni, Bítlunum og „Make Love Not War“ hugsuninni. Líka deilihagkerfinu og naumhyggju hippanna. En ég spyr: Mistókst þeim ekki að ala upp börnin sín? Héldu þau ekki út í baráttunni? Gáfust þau bara upp. Þau redduðu Torfunni og stofnuðu Torfusamtökin og svo dó allt. Sjáið bara það sem er að gerast í Reykjavík núna!

    • Hilmar Þór

      Eitthvað hefur mistekist í uppeldinu og menn misstu aðvitað kraftinn smátt og smátt. ‘Eg er sammála þér Sigrún um að það vantar meiri kraft í aðgerðarsinna almennt, Torfusamtökin og hverfasamtök almennt, Kannski hefur þetta internet og samfélagsmiðlar dregið kraftinn úr fólki. Málefnin lifa nú styttri tíma á netinu en í raunheimum áður. Annars skil ég þetta aðgerðarleysi ekki alveg. Kannski hjálpar bók Trausta eitthvað.

    • Það er mikil þörf á að rifja upp þá hugmyndafræði sem kom til sögunnar með okkur hippunum, því við komum inn nýrri hugsun og opnuðum augu fólks fyrir ónæmi fólks og fagmanna fyrir mjög óhugnanlegum tillögum sem þá lágu fyrir um t.d. Torfuna og Seðlabankann. Tókst með því að afstýra stórum slysum… slysum sem annars hefðu nær eyðilagt miðbæinn.
      Gaman er að lesa hérna lýsingu jafnaldra minna og kollega, Hilmars og Dennisar, á því hvernig þeir upplifðu opnunina í átt til meiri næmni á umhverfi og samfélag í sínum námsborgum. Þrátt fyrir að umhverfismálin hafi gert ljóst að fara verði fram með mikilli gát er varðar náttúrulegt og byggt umhverfi, er nú komin fram kynslóð sem er mjög ónæm á þörfina á að nýtt verði lagað að gömlu í miðbænum, svo mjög… að nú hafa verið kynntar tillögur sem stefna í að verða mikið slys.
      Til að geta séð í gegnum þá grunnu módernísku tískustrauma sem nú um mundir eiga hug ungra hönnuða og mótenda hjá Reykjavíkurborg, þarf að setja sig í fræðilegar stellingar, bæði er söguna og hugmyndafræði varðar, eins og við hipparnir gerðum.
      Slíka greiningu gerði ég í dr.ritgerð minni í Berkeley og segi frá í bók minni. Aðeins með slíkri greiningu náum við að sjá hvað við erum að upplifa hættulegt og yfirborðskennt tímabil núna. Bók mína er hægt að lesa ókeypis á: https://hi.is/~tv/ þó enn betra sé að kaupa bókina og fá þar yfirlit yfir hinar 700 myndir.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og átta? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn