Föstudagur 21.03.2014 - 14:07 - 7 ummæli

Mygla í útveggjum – Minnisblað.

 Ríkharður Kristjánsson verkfræðingur sendi síðunni eftirfarandi minnisblað vegna skoðunnar á einangrun útveggja.

Minnisblaðið er tekið saman af hóp sérfræðinga sem benda á að vandamál vegna myglu í útveggjum fara vaxandi hér á landi. Orsökin telur hópurinn að liggi í  frágangi á einangrun og rakavörn innan á veggjunum þar sem tekin er mjög mikil áhætta.

Minnisblað um einangrun útveggja

Þann sjöunda febrúar 2014 komu  sérfræðingar saman til fundar til þess að ræða rakaþéttingu og myglu í útveggjum

Allir þessir aðilar hafa stundað rannsóknir og/eða sérhæft sig í byggingum, eðlisfræði bygginga, einangrun, raka og myglu hver á sínu sviði.

Tilgangur fundarins var að ræða vissa aðferðafræði í uppbyggingu einangrunar á útveggi, einangraða að innan.

Það var ekki tilgangur fundarins að ræða í þetta sinn spurninguna um einangrun að innan eða utan á steinveggi heldur einungis eina lausn í einangrun útveggja að innan.

Fundarmenn vilja þó drepa á eftirfarandi. Bent hefur verið á að hljóð berist milli hæða í fjölbýlishúsum vegna eigintíðni í plasteinangrun og pússningu innan á útveggjum sem einangraðir eru að innan og aðferðin brjóti ákvæði reglugerða og staðla. Okkur er kunnugt um að reynt sé að leysa þetta með því að punktlíma einangrunina sem liggur þá ekki þétt að steinveggnum. Við viljum benda á að þetta kunni að vera óheppilegt með döggunarhættu í loftbilinu í huga.

Upp úr 1955 kom einangrunarplast á markaðinn á Íslandi og upp úr 1960 varð það ráðandi einangrunarefni innan á útveggi steyptra húsa. Einangrunin var límd á steypuna með rappmúr og síðan var pússað á plastið og málað. Lagnir voru gjarnan fræstar inn í einangrunina.

Það var sæmileg rakavörn í þessari uppbyggingu vegna plast einangrunarinnar, múrsins og málningar og væri ekki þeim mun meiri  rakamyndum inni í húsunum náði steypti útveggurinn að losa sig við rakann sem safnaðist upp í honum að vetrarlagi. Mikilvægt var einnig að þessi uppbygging var loftþétt og lagnirnar fóru almennt ekki út í kalda vegginn.

Það myndast töluverður raki inni í húsnæðinu með þessari vinnuaðferð, hún er óþrifaleg og það gat dregið úr byggingarhraða þar sem pússningin þurfti að þorna út. Skortur hefur einnig verið á múrurum og það leiddi til þróunar þar sem einangrað var í timbur- eða blikkgrind innan á útvegginn og þá alltaf ætlast til þess að sett væri rakavarnarlag innan á grindina og þar innan við lagnagrind ef setja átti lagnir í vegginn.

Þessi frágangur ætti að geta verið til friðs ef allur frágangur rakavarnarlagsins er vandaður.

Undanfarin ár virðist sem byggingaraðilar og stundum hönnuðir sleppi því að setja lagnagrind fyrir innan rakavörnina til sparnaðar og öllum lögnum komið fyrir utan við rakavörnina, stundum út í köldum útveggnum eins og mynd 1 hér á eftir sýnir.

mynd 1

 Mynd 1. Raflagnir lagðar út að og í kaldan útvegg.

Síðan er skorið gat á rakavörnina fyrir lögnum og rafmagnsdósum. Þær eru oft festar á krossviðarkubb sem festur er á kaldan útvegginn, sjá mynd 2, og myglar krossviðurinn hratt ef raki kemst að honum, sjá mynd 3.

Þessi frágangur brýtur allar góðar venjur um vandað rakavarnarlag í byggingarhluta þar sem utarlega er efnislag með meðal- eða mikla rakamótstöðu.

Rakaöryggi byggingarhlutans er minna en ella og lítið má út af bregða svo ekki komi til rakaskemmda og myglu.

 

mynd 2

Mynd 2. Göt eru skorin í rakavörn til að koma fyrir rafmagnsdósum.

mynd 3

Mynd 3. OSB-krossviður er festur á kaldan steinvegginn og hann myglar og steypan einnig

Nauðsynlegt er að rakavörn sé órofin en í þessari uppbyggingu er það mjög erfitt og komist heitt og rakt loft út í gegnum göt í rakavörninni getur rakinn dreifst um allt rýmið utan við rakavörnina þar sem steinullin er ekki loftþétt.

Þá eru rafmagnsdósir ekki loftþéttar og raki kemst í gegnum þær og síðan eftir rörunum og út í kaldan útvegginn.

Oft er þetta umtalsverður raki sem kemst að útveggnum. Við höfum séð ryðgaðar stoðir og festingar, mynd 4, jafnvel ísbrynjur innan á veggnum.

mynd 4

Mynd 4. Ryðgaður festivinkill í nýlegu húsi

Margir telja að mygla þrífist ekki á yfirborði steypu en það er alrangt eins og myndir 5 og 6 sýna. Ryk og aðrar agnir á yfirborði steypunnar eru nægilegt æti fyrir mygluna.

Myglan þarf hins vegar raka og það virðist nóg af honum í veggjum byggðum upp á þennan hátt. Þessi mygla er hins vegar ekki sýnileg fyrr en veggirnir eru opnaðir og oftast eru það heilsufarsvandamál sem fyrst vekja athygli á því að eitthvað sé ekki í lagi og það gerist í sívaxandi mæli.

mynd 5

Mynd 5. Mygla á yfirborði steypts útveggs í nýlegu húsi.

mynd 6

Mynd 6. Mygla á yfirborði steypts útveggs í nýlegu húsi.

mynd 7

 

Mynd 7. Rennblautur útveggur rétt eftir að hann var opnaður.

Plastið í rakavörninni hindrar ekki eiturefni eða rokgjörn efni myglunnar að smjúga inn í hýbýli fólks. Gró myglusveppanna geta að auki smogið inn ef rakavörnin er óþétt.

Enginn burðarþolshönnuður myndi voga sér að velja lausn sem áhöld eru um að sé í lagi. Öryggiskröfur í þeim geira eru að bilanalíkur séu einn á móti milljón eða minni. Í þeirri lausn sem lýst hefur verið hér að framan eru bilanalíkur hins vegar svo háar að sums staðar hafa allar íbúðir nýlegra húsa, þar sem útveggir hafa verið opnaðir, sýnt myglu.

Í öllum tilfellum eiga notendur bygginganna að njóta vafans og eiga að geta búist við því að ýtrustu kröfur um öryggi og hollustuhætti séu uppfylltar.

Enginn ætti að fá leyfi til að velja lausn sem sparar honum byggingarkostnað en er líkleg til að valda grunlausum íbúum heilsutjóni síðar meir.

Hver ætlar að bera ábyrgð á hugsanlegu heilsutjóni barnafjölskylda sem kunna að búa í slíku húsnæði. Kaupendur íbúðanna geta ekki séð að útveggir séu byggðir upp á þennan hátt.

Undirritaðir sérfræðingar beina þeim tilmælum til yfirvalda að fjármagni verði veitt til að kanna hvert öryggi þessarar uppbyggingar útveggja gegn myglu og raka er í raun og veru. Á meðan niðurstaða liggur ekki fyrir verði gefin út tilskipun um að þessi uppbygging sé ekki leyfð og byggingarfulltrúum verði gert að hafna úttekt á þessum frágangi þar sem hann hugsanlega brjóti gegn byggingarreglugerð sem bannar að hanna og byggja hús sem mygla

Við beinum einnig þeim tilmælum til hönnuða að hanna ekki steypt hús með þessum frágangi því við teljum þetta brot á reglugerð og við því eru ströng viðurlög, sektir, fangelsi og svipting starfsleyfis.

Reykjavík í mars 2014.

Eftirfarandi sérfræðingar komu að minnisblaði þessu:

Agnar Snædahl, verkfræðingur hjá verkfræðistofunni Verkís. Björn Marteinsson, arkitekt og verkfræðingur á Nýsköpunarmiðstöð Íslands og dósent við HÍ. Jón Guðmundsson, deildarstjóri hjá Mannvirkjastofnun. Jón Sigurjónsson, sérfræðingur á Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Jón Viðar Guðjónsson, tæknifræðingur hjá verkfræðistofunni Eflu. Ríkharður Kristjánsson, verkfræðingur hjá verkfræðistofunni Eflu. Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir, líffræðingur hjá Húsum og heilsu.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (7)

  • Sveinbjörn

    Málningin er örugglega viss orsakavaldur.

    Man einhver eftir „kalksem“? Efni sem var borið á utaná hús á árum áður. Það var efni sem andaði en entist ekki lengi. Borið á svona á þriggja ára fresti. Engan myglusvepp var að finna í þeim húsum sem kalksem var notað.

  • Held það sé hæpið að kenna málningunni um.

    Frekar blöndu af græðgi og fúski.

  • Sælir.

    Vinsamlegast skoðið síðuna mína mat.is myglusveppur og að sjálfsögðu hana alla.

  • Jón Ólafsson

    Það vaknar spurning um málningu. Í gamla daga voru múraðir veggir fyrst málaðir með „fernis“ og síðan grunnaðir með olíugrunni og lokst málaðirmeð tveim til þrem umferðum af olíumálningu. Einangrunin var þá tveggja tommu kork.

    Það kom enginn myglusveppur í þessa útveggi.

    Spurningin er hvort þetta sé ekki líka um að kenna lélegri málningu?

    • Hilmar Þór

      Ég átti heima í húsi sem var svona byggt eins og Jón nefnir.

      Það er Dunhagi 11-17 í vesturbænum, Símablokkin.

      Fyrir utan þennan frágang að innan sem Jón nefnir þá var húsið steinað að utan þannig að ekki varð töf á rakaflæðinu þar vegna málningar.

      Maður veltir fyrir sér hvort plastmálning og önnur núrímaleg gerfiefni eigi einhvern þátt í þessum vaxandi mygluvandamálum síðari ára.

    • Mig langar að taka afstöðu til spurningarinnar hvort olíumálning innan á veggi sem einangraðir eru að innan hafi úrslitaáhrif á mygluhættu innan á útveggjunum. Ég svaraði þessari spurningu fyrir 35 árum í riti RB um rakastreymi í steypu. Rétt er að olíumálningin hefur töluverð áhrif. Gamla uppbyggingin sem lýst er í athugasemdinni var betri en sú sem tók við. Á hinn bóginn er þar um að ræða rakastreymi með tiltölulega litlu rakamagni. Sú uppbygging, sem við erum að berjast á móti og vonum að arkitektar teikni ekki meir og engin byggi, ber hins vegar í sér hættu á loftleka gegnum göt á rakavörninni. Slíkur loftleki ber í sér margfalt rakamagn miðað við það sem streymir gegnum pússningu og einangrunarplast. Þetta þekkja allir úr þökum.
      Með þessari uppbyggingu hefði olíumálning innan á gifsplöturnar hverfandi áhrif. Rakinn fer aðra leið.

  • Rúnar Ingi Guðjónsson

    Þessar myndir eru ljótur vitnisburður um hvernig hægt er að hanna venjulegt íbúðarhúsnæði og gera það að heilsuspillandi umhverfi. Sennilega er þetta ástæðan fyrir því að við höfum byggingareglugerð?

    -Svo er góð ádrepan varðandi einangrunarplastið og hljóðeinangrun, að plastið „magni“ upp hljóðið og þannig verði þessi fíni hljóðburður á milli hæða í fjölbýlishúsum. Ég þekki til þar sem fólk gat talað saman á milli íbúða (75 mm plasteinangrun á veggjum,170mm steypt plata með límdum flísum á gólfi)

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og fjórum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn