Mánudagur 08.04.2013 - 13:11 - 6 ummæli

Myndlist á Hólmsheiði

index

Kristinn E. Hrafnsson myndlistarmaður hefur sent síðunni eftirfarandi pistil um samkeppnismál og stöðu listamanna í því samhengi. Þetta á erindi til allra sem hugsa eitthvað um þessi mál.  Á margan hátt eru arkitektar í svipaðri stöðu og hér er fjallað um.

BESTU SYNIR OG DÆTUR ÞJÓÐARINNAR – um samkeppnismál á Hólmsheiði.

Það var haft eftir Ögmyndi Jónassyni í hádegisfréttum RÚV 5. apríl sl. að hann sæi ekki ofsjónum yfir því að eitt prósent af áætluðum byggingarkostnaði færi í listskreytingar við nýtt fangelsi á Hólmsheiði, enda færu peningarnir „til bestu sona og dætra Íslands – góðra listamanna.“  Hann sá meira að segja ástæðu til að fagna því sérstaklega að farið væri að lögum um listskreytingar og opinberar framkvæmdir í þessu tilfelli.

Það ber vissulega aðfagna því ef farið er að lögum í þessu samhengi, en ég vil minna á að þetta fé er ekki ætlað í listamennina, heldur framkvæmdina – það eru ekki sömu vasarnir hjá hugmyndasmiðunum og verktökunum. Langstærstur hluti upphæðarinnar fer til annarra en listamanna, s.s. verktaka, efnissala og iðnaðarmanna. En hvað um það.

Ég sat í vikunni kynningarfund Framkvæmdasýslu ríkisins á samkeppni um þessi listaverk fyrir fangelsið. Í stuttu máli kom þar fram að upphæðin til framkvæmda er ekki á hreinu, enda háð útboðskostnaði við bygginguna sjálfa og kemur þ.a.l. líklega til með að lækka frá því sem auglýst er. Í öðru lagi kom fram að kostnaður við samkeppnina er dreginn frá framkvæmdafénu og í þriðja lagi að samanlagt verðlaunafé til listamanna sé ein milljón króna og að lágmarki 200 þús. á verðlaunaða tillögu. Sú upphæð er einnig dregin frá framkvæmdafénu. Niðurstaðan er því sú að heildarframlag til listaverka er að hámarki 22,5 milljónir og að öllum líkindum nokkru lægra. Af þessu fé er listamönnunum ætlað að reikna sér einhverja þóknun. Ef verkið og þóknunin til listamannsins reynist svo hærri en framkvæmdaféð (að afloknu útboði byggingarinnar) verður líklega að lækka höfundarþóknunina til listamannsins, enda er það eini kostnaðarliðurinn sem er verulega sveigjanlegur – og þá aðallega niður á við.

Það er vel til fundið að fangelsið og fangarnir á Hólmsheiði fái sín listaverk og það er því rétt að leita til listamanna um gerð þeirra. Það er hinsvegar ekki gert í þessu tilfelli. Samkeppnin er galopin fyrir hvern sem er og ekkert er greitt fyrir tillögugerðina. Tillögugerð að listaverki fyrir svona stofnun er ekki einfalt mál og því blasir við að þetta samkeppnisform hentar ekki – verkefnið er stórt, það er flókið og því fylgir mikil ábyrgð. Starfandi listamenn geta ekki með góðu móti tekið á sig svona stór verkefni án nokkurrar greiðslu. Þar á ofan er þessi samkeppni ekki unnin samkvæmt samkeppnisreglum sem myndlistarmenn hafa sett sér og öðrum og farið hefur verið eftir svo árum skiptir, enda er þar ekki boðið upp á galopnar samkeppnir.

Hér er unnið samkvæmt samkeppnisreglum Arkitektafélags Íslands sem Framkvæmdasýsla ríkisins hefur ákveðið að henti myndlistarmönnum. Samkeppnin um fangelsisbygginguna var hinsvegar uppspuni Framkvæmdasýslunnar og alls ekki eftir samkeppnisreglum Arkitektafélags Íslands. Það var opin samkeppni þar sem öllum var boðin þátttaka og mér er vel kunnug andstaða arkitekta við það samkeppnisform. Verðlaunafé í arkitektasamkeppninni var 10 millj. kr. sem skiptust á þrjá aðila og því má ætla að það hafi náð utan um kostnað við gerð þeirra tillagna.

Verðlaunaféð í myndlistarsamkeppninni fer hinsvegar ekki nálægt því að dekka kostnað við tillögugerð verðlaunahafa og aðrir fá að sjálfsögðu ekki neitt upp í framlagða vinnu. Hverjum þykir svona hringlandaháttur eðlilegur? Innanríkisráðherra? Er hugmyndin um bestu syni og dætur þjóðarinnar yngri en samkeppnislýsingin eða eiga listamenn ekkert betra skilið? Getur Framkvæmdasýsla ríkisins upplýst hversvegna hún kaus að víxla svona samkeppnisformum og um leið sagt okkur hvort það er einörð stefna stofnunarinnar að fara helst aldrei eftir vinnureglum þeirra sem hún leitar til?

Ég held að menn hafi misst af góðum tækifærum til að vinna þetta verkefni í heild á betri og skilmerkilegri hátt en hér er gert. Í upphafi hefði mátt gera kröfu um að arkitektar og myndlistarmenn stæðu saman að tillögugerðinni um fangelsið. Það er aðferð sem mjög hefur rutt sér til rúms og mér er vel kunnugt um að þannig er oft unnið að svona stórum verkefnum. Þá væri kostnaður við byggingu og listaverk ekki skilinn í sundur, heldur væri hvort hluti af hinu. Önnur samkeppnisform, s.s. þrepaskipt samkeppni eða boðs-/forvalssamkeppni hafa einnig reynst skilmerkilegri en sú sem var valin.

Ég frétti það á skotspónum að Listskreytingasjóður ríkisins hefði eindregið ráðlagt Framkvæmdasýslunni að fara í lokaða samkeppni með þetta verkefni, enda er það bæði stórt og byggingin var ekki fullhönnuð þegar málið var rætt á þeim vettvangi sl. haust. Á hvaða forsendum er því hafnað þegar ráðist er í framkvæmd upp á 2.5 milljarða, að frádregnu 1%, og nægur tími framundan til góðra verka? Þarna hefði verið eðlilegt að fara fyrr af stað og greiða ca. 10 listamönnum samtals um 4-5 milljónir í þóknun fyrir tillögugerð, svo ég slái fram hugmynd af einhverri ábyrgð. Í slíkri samkeppni er verðlaunum sleppt ef menn kjósa svo. Valnefnd hefði vel getað náð þar saman breiðum hópi eldri og yngri listamanna og útkoman hefði án alls vafa uppfyllt alla villtustu drauma stjórnmála- og embættismanna um góð listaverk, vandaða stjórnsýslu og hagsýni með almannafé.

En á málinu er líka hlið sem snýr að listamönnum. Það þarf varla að minna á jafn sjálfsagðan hlut og þann að samkeppnisreglurnar eru stefna myndlistarmanna í svona málum og þessvegna er það ótrúleg niðurstaða að samtök þeirra leyfi Framkvæmdasýslu ríkisins að hunsa eigin samkeppnisreglur og bæti svo gráu ofan á svart með því að skipafulltrúa í dómnefnd. Samband íslenskra myndlistarmanna hefur hér enn og aftur opinberað vanhæfni sína í að standa vörð um helstu hagsmunamál myndlistarmanna. Raunar held ég að sama gildi um Arkitektafélagið, þó ég ætli mér ekki að fjalla frekar um þá hlið málsins hér.

Almennt eru þessi mál í miklum ólestri og það er eins og menn átti sig ekki á því á hvaða vegferð þeir eru. Samkeppnir eru leið til að laða fram hugmyndir og hugmyndir eru verðmæti í sjálfu sér. Það er því ekki heiðarlegt af ríkisstofnun að ætlast til þess að bestu synir og dætur þjóðarinnar gjósi sínum hugmyndagosum þegar einhverjum stofnunum hentar án þess að fá svo mikið sem sápustykki fyrir. Listamenn lifa á hugmyndum sínum og þeir setja nöfn sín á þær og þeir lifa ekki á því að gefa þær frá sér, nema í óeiginlegri merkingu.

Fangelsi á að vera manneskjulegt og það á að vera ákveðin króna í mannréttindamálum þjóðarinnar. Það er mikilvægur staður þar sem saman koma ákveðnir angar samfélagsins sem annars eiga ekki samleið – dæmd lögleysa og menningarlegt umhverfi. Þannig staður á að endurspegla það besta úr samfélaginu og þar á að fara fram öflugt uppbyggingarstarf. Listin skiptir miklu máli í slíku umhverfi og það er þessvegna algerlega út úr korti að opinberir aðilar standi ekki betur að málum og leiti ekki beint til margnefndra sona og dætra þessa lands til að vinna listaverk á opinberum vettvangi, þó lokaður sé almenningi.

Kristinn E. Hrafnsson

Kristinn E. Hrafnsson hefur nokkrum sinnum áður ritað pistla á þennan vef. Ég vek athygli á tveim.

http://blog.dv.is/arkitektur/2012/11/29/frystigeymsla-og-myndlist-a-grandanum/

http://blog.dv.is/arkitektur/2012/12/27/horft-i-nordur/

Efst í færslunni er tölvumynd sem sýnir hluta af útliti fangelsisins á Hólmsheiði og að neðan úr líkamsræktarsal fanganna.

ImageHandlerCAVI2WVI

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (6)

  • Helgi Hallgrímsson

    Varðandi vinnuframlag í samkeppnum þá mætti vera meira um tveggja þrepa keppnir að mínu mati, eins og Ingólfstorgskeppnin er dæmi um. Þá er hægt að taka þátt í fyrra þrepi án óhóflega mikillar vinnu og þeir sem valdir eru áfram fá svo greitt fyrir vinnuna.

    • Þetta er alveg rétt hjá Helga Hallgrímssyni.

      Reglan á að vera tveggja þrepa samkeppni þar sem fyrra þrepið er með mjög litlu framlagi.

      Tilgangurinn með fyrra þrepinu er annarsvegar að finna áhugasamt fólk fyrir verkinu (arkitekta/listamenn) og hinsvegar að fá fram meginhugmynd þeirra að nálguninni eða lausninni og sýn höfundarins. Gæti þessvegna að mestu verið skrifaður texti.

      Svo eru valdar út svona 5-10 eða kannski allt að 20 sem keppa svo áfram og fá fyrir það einhverja þóknun sem dekkar í það minnsta útlagðan kostnað. Svo er besta lausnin fundin og engin peningaverðlaun veitt en viðkomandi fær verkið. Það er auðvita alltaf gultótin

      Í fyrra þrepi væri um mun minna framlag að ræða en við Ingólfstorg. kannski bara eitt til tvö A3 blöð.

      Lokaðar samkeppnir á beinlínis að banna með öllu enda ólýðræislegar og stuðla að því að lyfta stóru stofunum og að því að halda hæfileikaríkum litlum stofum niðri og frá frá kjötkötlunum. (sjáið bara Landspítalaósköpin og allt það ferli frá A-Ö)

    • Hilmar Þór

      Ég held að Helgi og Björn ættu að hittast og þróa þessi mál og þessar hugmyndir eitthvað. Þeir eru á mjög áhugaverðri braut sýnist mér.

  • Hilmar Þór

    Eins og Kristinn og Páll Gunnlaugson segja þá er samkeppnisformið mikið álag á þáttakendur fyrir utan virðinarleysi sem þeim er sýnt á margvíslegan hátt. ‘Eg nefni samkeppnisreglurnar þar sem oft hallar á þáttakendur. (t.a.m. með skipun trúnaðarmanns sem nú er kallaður umsjónarmaður eða verkefnisstjóri) Ég hef líka margoft verið forviða á því virðingarleysi sem útbjóðendur sýna þáttakendum með fram komu sinni. Í umsögnum um tillögur eru höfundar stundum niðurlægðir í texta í dómnefndarálitinu. (dómnefndarálit um fangelsið)

    Ég og mín stofa hefur verið 9 sinnum í fyrsta sæti í arkitektasamkeppnum en verðlaunaféð hefur aldrei staðið undir kostnaði við tillögugerðina. Ég endurtek „aldrei“.

    Við höfum unnnið til peningaverðlauna alls 35 sinnum í arkitektasamkeppnum og samt þurft að borga stórfé með þeim öllum.

    Það er ekki bara þannig að við teiknum „fyrir skúffuna“ kauplaust eins og Páll nefnir heldur borgum við með okkur til að geta skilað inn tillögu í samkeppnum.

    Nú þegar umhverfið fer fram á auknar kröfur um grafiska framsetningu er svo komið að útlagður kostnaður er t.a.m. orðinn svo mikill að við hér á minni stofu höfum varla efni á þáttöku þó svo við gefum alla okkar vinnu.

  • Páll Gunnlaugsson

    Eitthvað kannast ég við vandamálið. Þetta höfum við arkitektar búið við í áratugi. Samkeppnir þar sem ekkert er greitt .. og fæstir bera e-ð úr býtum. Samt hafa arkitektar líka deilt um lokaðar samkeppnir þar sem allir fá greitt, því þá er „nýliðun“ erfið. Erum við ekki einu stéttirnar sem teikna fyrir skúffuna .. kauplaust? Flestar tillögur arkitekta að nýju fangelsi hlutu þau örlög!

  • Þetta er aldeilis flott hjá arkitektunum. Ég er eiginlega sammála Júlíusi Sólnes og spyr hvort þetta sé ekki aðeins of flott?

    Svo er þetta ómögulegt nafn “ Fangelsið á Hólmsheiði“. Fyrir austan er „Litla Hraun“ ágætt. Það vita allir hvað það er.

    Ég er með uppá stungu um nafn á nýja fangelsinu.

    Það er „Hótel Rimlaskjól“

    Annars án gríns þá er þetta góð grein hjá Kristni.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og sjö? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn