Fimmtudagur 24.03.2011 - 19:27 - 3 ummæli

NEW YORK by Gehry

“NEW YORK by Gehry” er 76 hæða bygging  sem var formlega opnuð á laugardaginn var, þann 19 mars.  Þann dag átti arkitektinn afmæli og varð 82 ára gamall.

Byggingunni var vel tekið og var lofuð af gagnrýnendum byggingalistar.  Gagnrýnandi NY Times áleit þetta besta skýjaklúf í NY síðan Ero Saarinen teiknaði CBS bygginguna fyrir 46 árum og The New Yorker taldi þetta fallegasta háhysi borgarinnar frá öndverðu.

Hundruð gesta voru viðstaddir opnunina og fögnuðu afmæli stjörnuarkitektsins í leiðinni og voru þar á meðal stórstjörnur stórborgarinnar á borð við Bono frá U2 og fl.

Margir gagnrýnendur byggingalistar hafa sagt “farðu nú á eftirlaun Frank Gehry” eftir að hafa skoðað síðari verk arkitektsins sem þeim þótti bera keim af elliglöpum.  Þegar þessi bygging hefur risið spyrja sömu gagnrýnendur “Hver er svona góður sem vinnur hjá Gehry um þessar mundir?“

Færslunni fylgja nokkrar myndir og stutt myndband með viðtali við stjörnuarkitektinn þar sem sjá má ægifagrar hreyfimyndir af húsinu og umhverfi þess.




Stjörnurnar laðast að stjörnunum. Þarna er Bono og frú ásamt stjörnuarkitektinum að fagna 82 ára afmæli listamannsins. Í tilefni dagsins var hönnuð terta í anda Gehry

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (3)

  • Guðmundur G.

    82 ára og enn að vinna. Spurningin er hvort hann hafi ekki borgað í lífeyrissjóð???

    En án gríns þá er þetta mjög vel gert og aðdáunarvert hvað hægt er að gera með litlum aðgerðum. Nýhyggjan og frumlegheitin virðast samt ekki tiltakanlega áberandi í grunnmynd íbúðarinnar sem fylgir færslunni. Íbúðin er bara venjuleg blokkaríbúð. Þarna er brotið blað hvað útlit varðar eins og í mörgum verka Gerhys en innihaldið er gamalt og leiðinlegt, en íhaldssamt og traust

  • Hilmargunn

    Áhrifaríkt, einfalt og fallegt !

  • Það þarf oft ekki mikið til þess að gera eitthvað sérstakt. Þarna eru gerðar lóðréttar brotalínur í klæðninguna. það er það eina. Þetta eina gerir bygginguna að „fallegasta háhýsi NY frá öndverðu“. Þetta gerir húsið að listaverki. Það þarf oft ekki meira en þetta til. Án brotanna væri þetta bara eitt venjulegt háhýsi í viðbót.

    Það er reglulega gaman að þessu.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og tveimur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn