Sunnudagur 06.05.2018 - 18:04 - 11 ummæli

Niðurrif í Reykjavík – Þétting byggðar

„Ert þú ekki mikið fyrir nútíma arkitektúr?“ spurði einn áhrifamesti maður skipulagsmála Reykjavíkur fyrir helgi þegar ég lýsti áhyggjum mínum af gríðarlega miklu niðurrifi húsa í Reykjavík innan Hringbrautar.

Þessi spurning kom mér mjög á óvart og lauk samtalinu sem hafði verið ágætt þar sem við töluðum um Borgarlínuna og þéttingu byggðar þar sem við vorum mjög sammála í megindráttum. Honum fannst greinilega umhyggja mín fyrir sögunni og hinni sögulegu vídd væri merki um að ég væri andstæðingur nútíma byggingalistar.

Skrýtið.

Mér fannst líka að hann skildi ekki alveg það sem stendur í AR2010-2030 um nýbyggingar í eldri hverfum. Að minnstakosti ekki eins og ég skil það.

Ég svaraði því til að ég væri auðvitað ekki á móti nútímaarkitektur en ég vildi helst ekki að gamlar byggingar væru látnar vikja fyrir nýjum. Það ætti að þétta byggðina með nýjum húsum sem væru viðbyggingar við gömlu húsin eða væru byggð á auðum og vannýttum lóðum þannig að þau féllu að umhverfinu eins og skilgreint er í Aðalskipulaginu. Þetta verklag þekkir maður vel erlendisfrá.

Í aðalskipulaginu AR2010-2030 stendur nýjar byggingar skuli lagaðar að „einkennum byggðarinnar þannig að þær verði til bóta fyrir umhverfið og sagt að hér sé átt við einkenni grunnbyggðarmynsturs, hæð og hlutföll og eftir atvikum stíl.“ Þar er líka lögð sérstök áhersla á að virða einkenni Reykjavíkur innan Hringbrautar með lágreista byggð og að ekki sé „heimilt að reisa hærri byggingar en 5 hæðir.“ Austurhöfn og Skúlagötuskipulagið er samt utan þessarra marka. Þetta er ekki hægt að túlka sem svo að byggja eigi gamaldags hús í gömlu Reykjavík. Hús sem falla að umhverfi sínu geta vel verið mjög nútímaleg.

Manni finnst að mörg ákvæði í þessu ágæta aðalskipulagi hafi gleymst í öllum látunum. Stjórnmálamennirnir og ráðgjafar þeirra virðast vera að flýta sér svo mikið að þeir hafa tapað áttum eða gleymt sér.

+++

Það er almenn sátt meðal borgarbúa um þéttingu byggðar en menn deila um aðferðina og hraðann. Oft virðist bera á vissu hugsunarleysi í önnum dagsins.

Borgarbúar vita að þétting byggðar eykur lífsgæðin í borginni. Þéttleiki styður við blómlega þjónustukjarna, líflegri borgarhluta og almenningssamgöngur – því verslun og þjónusta þarfnast fólksfjölda.

En ég held að þeir hafi ekki skilið hugmyndina þannig að það ætti að rífa gömlu húsin og byggja ný, stærri og fyrirferðameiri í þeirra stað eins og raunin virðist vera.

Þeir vildu byggja á auðum og vannýttum reitum og milli þeirra húsa sem þegar standa og í samræmi við þau eins og kveðið er á um í AR2010-2030.

+++

Hjálagt eru myndir af 6 ágætum húsumog rústum þeirra sem hafa verið rifin innan Hringbrautar á síðustu 10 dögum eða svo. Það eru húsin Vitastígur 3. Skúlagata 28, Laugavegur 51, Laugavegur 95, Laugavegur 97 og Laugavegur 99. Sennilega hafa verið rifin hús undanfarin svona 2 ár sem telja má í tugum.  Líklegar hefur aldrei verið rifin eins mörg hús í Reykjavík en á síðustu tveim árum.

+++

Þetta niðurrif var að mestu óþarfi og endurspeglar virðingarleysi við aðalskipulagið, virðingaleysi við gengnar kynslóðir og virðingaleysi við komandi kynslóðir og er slæmur vitnisburður um hugarfar nútímans. Menn eru of mikið í framtíðinni og hugsa lítið um nútímann og fortíðina. Víðast eru áform um að í nýbyggingunum verði hótel. Allavega heyrist ekki neinn orðrómur um að á þessum stöðum muni verða íbúðir ætlaðar ungu fólki eða öðrum sem eru í húsnæðishraki.

+++

Efst er mynd af húsunum Vitastígur 3 og Skúlagata 28 sem nú hafa verið rifin. Þetta voru kannski ekki merkileg hús útaf fyrir sig en höfðu sterk tengsl við atvinnusöguna og þeim hefði átta að gefa framhaldslíf. Ég var í New York í vikunni sem leið og fór mikið um West Side þar sem mikið er um vöruskemmur og iðnaðarhúsnæði allskonar. Þar er mikið verið að byggja, einkum í Meatpacking District meðfram The High Line en lítið virðist vera rifið. Menn byggja ýmist umhverfis gömlu húsin eða ofan á þau. Þarna í New York virðast menn vera mjög hikandi við að rífa gömlu byggingarnar, heldur endurnýja þeir þau og gefa þeim nýtt hlutverk.

Laugavegur 99 á síðustu metrunum. Ekki veit ég hvað á að koma í staðinn. Teikningarnar af nýbyggingunni var ekki að finna á netinu þegar ég gáði að fyrr í dag en þarna mun vera gert ráð fyrir hóteli með rúmlega 90 herbergjum.

Laugavegur 95 og 97 eru rústir einar.

Hús Gunnars í Von að Laugavegi 55 var rifið í vikunni sem leið. Þar á að rísa hótelbygging sem er 5 hæðir að Laugavegi sem er hámark samkvæmt aðalskipulagi en húsið verður 6 hæðir að norðanverðu. Þarna mun 55 herbergja hótel opna á vormmánuðum 2019.

Vitastígur 3 er horfinn og það er langt komið með niðurrif Skúlagötu 28. Góðum húsum er þarna fórnað fyrir hvað?

 

 

 

Húsið sem kemur í stað húsanna Vitastígur 3 og Skúlagata 28 kemur til með að líta einhvern vegin svona út.  Áform eru um að í háhýsinu verði hótel.

Eins og öllum er ljóst brýtur þessi útfærsla aðalskipulag Reykjavíkur AR2010-2030 sem staðfest var 24. febrúar 2014,  fyrir aðeins 4 árum. Í fyrsta lagi eru húsin ekki lagaðar að einkennum byggðarinnar þannig að það verði til bóta fyrir umhverfið og í samræmi við einkenni grunnbyggðarmynsturs, hæð og hlutföll og eftir atvikum stíl eins og sagt er í AR2010-2030.  Í aðalskipulaginu  er líka lögð sérstök áhersla á að virða einkenni Reykjavíkur innan Hringbrautar með lágreistri byggð og að ekki sé heimilt að reisa hærri byggingar en 5 hæðir innan vissra marka. Þessi hús eru að mestu 7 hæðir og hæst einar 15-16 hæðir. Maður spyr sig af hverju menn lögðu á sig að breyta nýsamþykktu aðalskipulagi til þess að koma þessu fyrir. Sagt er að ástæðan hafi verið gamalt deiliskipulag sem heimiluðu mikið byggingamagn sem borgin treysti sér ekki til að breyta. Mín skoðun er sú að borgin átti skilyrðislaust að standa með AR2010-2030 og láta eigendur byggingaréttsins sækja málið fyrir dómstólum og ef það tapaðist opna á samninga um að bæta byggingaréttin með heimildum annarsstaðar á stað sem ekki braut aðalskipulagið. Mér dettur strax í hug lóðir við Kirkjusand. En borgin stóð ekki í lappirnar og gaf eftir með þessum árangri og því að AR2010-2030 missti trúverðugleika sinn.

 

 

 

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (11)

  • Hlöðver Stefán Þorgeirsson

    Er það í deiliskipulagi sem kveðið er úr um hvort rífa megi hús eða ekki?

    Ef svo er, þá myndi ég vilja vita hvort þetta niðurrif sé arfur frá eldra deiliskipulagi, eða hvort þetta séu nýlegar ákvarðanir.

    Lísa Pálsdóttir hefur margoft fjallað um það í sínum þætti á Rás 1 að margt af því sem við sjáum gerast í miðbænum var ákveðið í deiliskipulagi fyrir mörgum árum síðan, og að svo virðist sem ómögulegt sé að vinda ofan af því nema með samkomulagi við lóðarhafa.

  • Sveinbjörn

    Niðurrifið gengur of hratt.

  • Pétur Örn Björnsson

    Borg sem eyðir jafnóðum sögu sinni veit ekki hvert hún stefnir.
    Borg sem þjónar einungis fjármálaöflunum, trylltri von um gróða
    gleymir rótum sínum og verður engum til gleði.
    Allt samhengi hverfur, allt verður tvist og bast, ekkert er jafn hallærislegt á morgun og sundurlaus samtíningur nýjustu tísku dagsins í dag, ekkert er hverfulla.

    • Hilmar Þór

      Þarna hittir þú naglann á höfuðið kollegi með mikilli orðsnilld.

  • Gunnar Guðmundsson

    Þetta er tímabært umræðuefni. Ef rífa þarf hús vegna skipulags þá er eitthvað að skipulaginu. Á skipulagið ekki að aðlaga sig umhverfinu og öfugt?
    Maður saknar ummæla frá einhverjum sem unnið hafa að þessu, samþykkt eða stutt þetta. Gaman væri að kynnast þeirra sjónarmiðum því varla er þetta svart eða hvítt. Vonandi eru einhverjir grátónar þarna.

  • Hilmar Þór

    Þetta er ótrúleg frétt þarna í Morgunblaðinu í október 1968.
    Þakka þér fyrir að benda á þetta Sveinn Ólafsson.
    Þetta mun ég skoða betur.

  • Sveinn Ólafsson

    51 hús rifið á árinu 1968 – sjá baksíðu Mogga 11. október það ár.
    http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=1397474

    • Sigrún Gunnarsdóttir

      Hús verslunarinnar Von þótti mér alltaf sérlega vinalegt þó það hafi ekki verið fallegt. Þarna var búð Gunnars og svo Amatörbúðin sem verslaði með ljósmyndavörur fyrir áhugaljósmyndara. Er þetta ekki rétt munað hjá mér?

  • Orri Ólafur Magnússon

    Þakka þér fyrir afar athyglisverða ábendingu á það hugarfar „vandalisma“ og vanvirðingar á sögulegum byggingum þeirra sem fara hér með skipulags – og byggingar mál, Hilmar Þór . Því miður er þess ekki að vænta af hálfu núverandi borgarstjóra að hér verði breyting á til batnaðar . Það mætti svo sem gera því skóna að vandinn muni leysast af sjálfu sér innan fárra ára : Þegar borgin verður orðin svo forljót sakir staðlaðra háhýsa handa túristum
    – þau minna helst á austan-tjalds bragga ( „Plattenbau“ ) – jú, þá mun allur ferðamannaskarinn snúa baki við andstyggð eyðileggingarinnar og leita annað – til að mynda til New York sem þú réttilega bendir á sem fyrirmynd í varðveislu gamalla iðnaðarhverfa

  • Haraldur

    Það eru tvö ár liðin síðan aðalskipulagið var staðfest og allt er komið á hliðina. Ég segi líka af hverju liggur svona mikið á að umbylta miðborginni? Það liggur ekkert á því. Það liggur mikið á að byggja hús fyrir húsnæðislausa. Vantar ekki 10 þús íbúðir? Væri ekki skynsamlegra að nýta fjármunina og verktakana til þess að leysa þau mál í stað húsnæðismála túrista?

    • Hilmar Þór

      Þarna er misskilningur á ferðinni hjá þér Haraldur. Aðalskipulagið var staðfest fyrir rúmum fjórum árum en mesta niðurrifið hefur átt sér stað síðustu tvö árin.

      Annars er ég sammála þér.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og einum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn