Allt var fyrirséð og það sem menn óttuðust kom á daginn. Íslenskir arkitektar leiða aðeins tvö teymi af sjö í arkitektasamkeppni um LHS. Líkur eru á að erlendir arkitektar séu í öllum teymunum.
Síðastliðinn mánudag var skilað inn umsóknum í forvali um að fá að taka þátt í samkeppni um skipulag og nýbyggingar Landspítala Háskólasjúkrahúss við Hringbraut. Vegna þröngra skilyrða forvalsins sóttu aðeins sjö teymi sérfræðinga um að fá að gera tillögu að sjúkrahúsinu. Ef allt hefði verið með felldu hefðu umsækjendur bara frá Íslandi verið um tuttugu.
Í forvalinu um sama verkefni árið 2004 bárust alls 18 umsóknir um svipaða vinnu en þá var mikið að gera á arkitektastofunum og eftirspurn eftir verkefnum almennt í lágmarki.
Eins og áður hefur komið fram gerði forvalsnefndin kröfur til teymana sem eru þannig að engin íslensk arkitektastofa gat fullnægt kröfunum. Það er auðvitað léleg stjórnsýsla. Með því gerir nefndin tilraun til þess að beygja arkitekta undir erlenda aðila eða aðra sem fullnægt geta skilyrðum forvalsins. Arkitektafélagið gagnrýndi forvalsgögnin og sagði að engin íslensk arkitektastofa gæti fullnægt skilmálum útboðsins óstudd. Engin íslensk arkitektastofa gæti orðið ábyrgðaraðili síns teymis í arkitektasamkeppninni.
Tvö teymanna sem sóttu um eru merkt arkitektum og því ber að fagna. Það sýnir útsjónarsemi og vilja þeirra sem að þeim standa til þess að verja heiður stéttarinnar í þessu útboði.
Arkitektateymin tvö eru mynduð af hópum arkitekta sem hafa snúið bökum saman og myndað teymi sem vonandi ná að fullnægja skilyrðum forvalsnefndarinnar. Vonandi tekst öðru hvoru þeirra í framhaldinu að laða fram sigurtillöguna.
Þær arkitektastofur sem að þeim standa hefðu ekki getað komist í gegnum forvalið óstuddar. En með því að slá sig saman eiga þær möguleika á að komast að tillögugerðinni. Þessi tvö teymi verja stöðu stéttarinnar með framgöngu sinni. Þau eiga hvað þetta varðar heiður skilinn.
Þetta eru teymi undir forystu Guðjóns Bjarnasonar arkitekts og teymi sem kallar sig TBL og er myndað af arkitektastofunum TARK, Batteríið arkitektar og Landslag. Ekki veit ég hverjir fylla teymi Guðjóns Bjarnasonar en það mun vera allnokkur hópur íslenskra arkitekta og annarra sérfræðinga.
Hin teymin fimm bera sig öðruvísi að.
Þar hafa arkitektar látið beygja sig og ætla að etja kapp um framúrskarandi arkitektúr undir nafni og á ábyrgð verkfræðifyritækja. Þetta er alger nýlunda bæði hér á landi og erlendis, svo mér sé kunnugt um. Sennilega áttu þessar stofur ekki annarra kosta völ eins og atvinnuástand arkitekta er á landinu þessi hörmungar misserin. Nauðsynlegt er að hafa það í huga þegar um þetta er fjallað. Stofurnar höfðu ekki um marga kosti að velja m.t.t. forvalsgagna og ástandsins á byggingamarkaði.
Í forvalsgögnunum er farið fram á að arkitektar séu í teymunum. Þó það nú væri þegar um arkitektasamkeppni er að ræða! En aðrar kröfur eru eins og margoft hefur komið fram, ekki sniðnar að getu og skipulagi íslenskra arkitektastofa.
Það blasir við að verkfræðingar hafa nýtt sér sterka stöðu sína og innlimað arkitektastofurnar í teymi sín eða opnað þeim leið að verkinu.
Ég var á fundi fyrir stuttu þar sem mættar voru stjórnir Félags sjálfstætt starfandi arkitekta og Arkitektafélags Íslands.
Í léttu spjalli komu fram áhyggjur af slæmri ímynd arkitekta í samfélaginu. Ég er þeirrar skoðunar að ímynd arkitekta í þjóðfélaginu sé spegilmynd þeirrar ímyndar sem þeir hafa á sjálfum sér. Sjálfsmynd arkitekta er að því virðist svo slæm að þeir láta yfir sig ganga að taka þátt í samkeppni, þar sem 75-95% vinnunnar er á þeirra höndum, og að hún verði unnin í nafni og á ábyrgð verkfræðifyrirtækja. Þegar ég segi þetta þá á ég við að sjálfsmynd stéttarinnar sé léleg þó einstakir arkitektar margir hverjir séu býsna kotrosknir.
Á mánudag fáum við svo að heyra niðurstöðu forvalsins og hvernig teymin eru samsett. Hvaða arkitektastofur hafa sótt um í nafni og á ábyrgð verkfræðinganna, hvaða erlendar arkitektastofur koma að verkinu og hvaða arkitektastofur vilja afsala sér höfundarrétti sínum?
Við arkitektar höfum verið iðnir við að grafa okkar eigin grafir. Það er engin furða að bankamenn sem gert hafa stórt upp á bak eru kallaðir „arkitektarnir“ á bak við herlegheitin hverju sinni. Starfsheitið hefur rótfest sig í tungumálinu sem samnefnari allsherjar klúðurs. Þetta getum við kennt okkur sjálfum um. Flestir þjóðfélagsþegnar að okkur arkitektum undanskildum virðast hafa einhverjar skoðanir á skipulagsmálum. Við þegjum yfirleitt þunnu hljóði og þorum ekki að blanda okkur í umræðuna. Fyrir bragðið stöndum við nú uppi sem marklaus stétt. Stétt sérfræðinga sem varla er treyst til að taka þátt hringavitlausum „hátækniáformum“ um mikla steypu stál og gler á umferðareyju við hraðbrautina í Vatnsmýrinni.
ps.
Þakka þér fyrir að opna þennan nauðsynlega umræðuvettvang Hilmar, þú átt heiður skilinn.
@Magnús. Takk fyrir hlý orð. En ég vona að okkur gangi öllum vel að reyna að hafa áhrif á trölla-heimskuna. Ég held að við vitum það öll, innst inni, að þetta er eitt alls herjar rugl, sem á sér stað núna.
EiríkurJ. hefur reyndar aðra sýn, lesið aths. hans alveg endilega. Viljum við þannig framtíð? Viljum við enda sem undirlægjustétt, bara svona „fasöðu-skreytarar“ á stökkbreyttum verkfræðistofum?
Vinna að langtímamarkmiðum virðist eini kosturinn fyrir arkitekta, til að klúður sem þetta geti ekki endurtekið sig…
Menn virðast sjálfum sér verstir, en það verður nátturulega niðurstaðan þegar að menn eru ekki færir um annað en að hugsa um skammtímahagsmuni. Aðstæður eru vissulega gífurlega erfiðar, en það þarf samt að gera aðeins betur.
Pétur, mikið er ég glaður að heyra þetta. Gangi þér vel í þínu verkefni.
@Magnús. Við vitum þá báðir við hvaða þursa við erum að berjast.
En, það máttu vita að ég hef lengi dúndrað póstum og bréfum á þingmenn stjórnarliða, ma. út af þessu, en þó aðallega Ísþrælnum. Og ég er alls ekki hættur. Því lítið vinnur maður við sitt fag í dag, en skrifa þeim mun meira (lítið um arkitektúr, kannski seinna, meira í ljóðum, enda bókmenntafræðingur líka).
Ég ætlast til að einhver vitræn framtíð verði í þessu landi. AGS stórkarla-brölt mun fyrr en síðar heyra sögunni til. Fleiri eru í pólitík en hinir áráttu-þrjóskuröskuðu Stakhanov J Sigfússon og Co.
Ég er á fullu að berjast gegn trölla-heimsku og hugsana-leti.
Pétur: Já Stalín ræður ríkum (Steingrímur og Co.) ríkið sem verkkaupi getur sett þau lög sem það vill um þessi mál og lokað fyrir aðkomu t.d. arkitakta að verkum fyrir ríkið. Þetta er ekki annað en viðauki við nugildandi lög og færi inn með „bandorminum“ næsta haust.
Ríkið vildi ekki aðkomu arkitekta frá Íslandi en það vildi aðkomu íslenskra verkfræðinga (samkeppnismálið var íslenska og verkfræðingarnir uppfylla allar kröfur keppninar). Þetta liggur í auum uppi.
Já þetta ferli er ótrúlegt frá upphafi til enda. Frá því DO kom af spítalanum um árið og vildi koma lánspeningunum, sem ríkið fékk fyrir Símann í lóg, og þar til enn ein samkeppnin um spítalann fer í gang.Væntanlega lendir hönnunin að mestu í höndum erlendra stofa,bæði arkitektúr og verkfræðin eins og hönnun stórbygginga síðustu ára hefur gert. Nú síðan verða herlegheitin boðin út á EES svæðinu samkvæmt tilskipunum sem við höfum samþykkt og hver verður þá ávinningurinn?
Lítill, en gengdarlaus austur á gjaldeyri í aðföng til byggingarinnar á tímum gjaldeyrisskorts,lágs gengis krónunnar
og erfiðrar útvegunar lána, nema á háum vöxtum, mun halda okkur á botninum um langa framtíð. Tek að öllu leyti undir skoðanir Péturs Arnars um að taka þetta í minni skömmtum og víðar.
Magnús, mér finnast rök þín harla undarleg. Ef…þá…og aftur ef…þá… Þú gefur þér forsendur og dæmir að óreyndu.
Hefði nú svo farið, sem þú gefur þér, þá segi ég að arkitektar hefðu haft mikið svigrúm til að bæta stöðu sína og ímynd, í stað þess að tvístrast sem sundurlaus hjörð. Því allt snýst þetta um sundurlyndis-fjandann.
Og hver hefði sett á okkur sér-lög og hver hefði gert okkur brottræka? Einhver Stalín?
Ræður einhver Stalín hér ríkjum? Og þess vegna skuli arkitektar þegja? Og hver er þá okkar Stalín, mér er spurn?
Ef arkitektar hefðu verið með derring í þessu máli og ættlað að reyna að stoppa það á grundvelli aðkomu þeirra að skipulags- og byggingarlögum sem gilda um allar byggingar hefði bara eitt gerst. Þessi framkvæmd heði fengið á sig sér-lög sem undanskildi aðkomu arkitakta að henni með öllu og hún færð yfir til verkfræingana með formlegum hætti.
ERGO: aðkoma arkitekta er í óþökk verkkaupa.
Seinni hættan í þessu er svo sú að arkitektar verða með öllu gerðir brottrækir frá opinberum verkefnum með sambærielgum sér-lögum (leysu).
Eigum við skattgreiðendur ekki frekar að gleðjast yfir því að hönnun LSH verði ekki eingöngu gerð á forsendum fagurfræðilegra sjónarmiða arkitekta. Hef aldrei skilið það sjónarmið að allt annað en fagurfræði sé afgangsstærð þegar dæma á gæði hönnunar bygginga. Flestar byggingar eru ekki bara til horfa á þær, um það atriði er ágætt að arkitektar véli frekar en aðrir, en þar sleppir líka því sem þeir hafa einhverja sérstaka yfirburði til að fjalla um. Finnst það bara ómerkilegt sjónarmið að þáttaka verkfræðinga í hönnun bygginga eigi að verða þess valdandi að arkitektar geti ekki leyst sinn þátt í verkinu. Held ég hafi varla séð þess dæmi að verkfræðingar sem tekið hafi þátt í hönnun bygginga með arkitektum hafi verið að skyggja á „höfundinn“.
Ef þú veist það ekki Þorsteinn, þá er ég arkitekt og hef verið stoltur af því að titla mig þannig í 24 ár. Mér finnst sýn þín dapurleg á stöðuna.
Kannski skiljanleg, en arkitekta-stéttin íslenska átti víst þann valkost, að halda reisn sinni með því að standa saman og hunsa þetta forval 100%.
Hafi þessi stétt áður búið við fremur lítið orðspor, að mínu mati í lang flestum tilvika ómaklega, þá óttast ég að nú sé fyrst illa fyrir þessari stétt komið, hvað orðspor og virðingu varðar til framtíðar. Það finnst mér afskaplega dapurlegt.
Skammsýni nokkurra, sem skemma fyrir hagsmunum og virðingu stéttarinnar til frambúðar, getur aldrei verið ferð til virðingar.
Staðan er bara þannig hjá arkitektum að þeir eru að berjast fyrir lífi sínu. Þegar þannig stendur á er ekki von á samstöðu. Þegar skipið er sokkið þá verður hver að sjá um sjálfan sig. Reyna að bjarga sjálfum sér. Arkitektum var ekki boðið upp á að halda reisn sinni. Það var ekki valkostur í þessu forvali.
Það var bent á aðra góða kosti en þeim var ekki sinnt. Fróðlegt væri að fá efnisleg rök fyrir höfnun verkefnastjórnar á öðrum leiðum.
Verkfræðistofurnar eru ekki margar hér á landi. Þær fimm sem hér sækja um að gera tillögu að sjúkrahúsinu sinna sennilega nálægt 60% af þjónustusviði verkfræðinga ef mælt er í veltu.
Ef skoðað er hvað stofurnar þjóna ríki og sveitarfélögum þá eru þessar stofur sennilega með enn stærri hlutdeld.
Líkur eru á því að einhver…eða margar verkfræðistofanna séu vanhæfar vegna fyrri aðkomu að verkefninu LSH á fyrri stigum.
T.d. er mér sagt að VSO hafi komið að ráðgjöf um staðsetningu sjúkrahússins og umsögn vegna niðurstöðu samkeppninnar 2005.
Gengur að VSÓ sé keppandi nú ef þetta er tilfellið?
Á nýja Íslandi á enginn að njóta vafans þegar vanhæfi er annarsvegar.
Þið fyrirgefið nafnlendina.
Óskaplega eru menn hálf-volgir hér.
Hvorki með né á móti?
Annað er víst dónaskapur að mati hinna heilögu.
Auðvitað áttu íslenskir arkitektar að standa saman og ekki láta sig dreyma um að verða taglhnýtingar stökk-breyttu verfræðistofanna.
Það heitir stéttar-vitund, en ekki dónaskapur!
Ég tek undir með Árna, sem hefur verið þungavigtarmaður hér á þessum vettvangi. Fólk þarf að gæta sín í ummælum sínum.
En ég verðsamt að segja að þeir arkitektar sem sóttu um hljóta að halda að afsal á höfundarrétti sé góður bissniss.
Siðaðra manna háttur að þegja? Setur þú Árni reglurnar. Ert þú hinn heilagi maður?
Þótt mönnum sé heitt í hamsi er ástæðulaust að vera með gífuryrði og dónaskap. Hingað til hefur þessi vettvangur verið laus við slíkt. Eigum við ekki að halda því þannig eins og tvær af þeim þrem færslum sem eru hér fyrir ofan bera með sér.
Það er rétt hjá Hilmari að það eru verkfræðingar sem opna dyr fyrir íslenska arkitekta að samkeppninni og það ber að þakka verkfræðingum fyrir það. Það eru ekki mörg skjól að finna fyrir arkitekta um þessar mundir.
Og að arkitektar afsali sér höfudarréttinum er neyðarúrræði. Það vill þetta enginn arkitekt. Enda ósangjarnt og ofbeldisfull krafa forvalsnefndarinnar í umboði ríkisins.
Forvalsnefndin virðist hafa stefnt að þvi að útiloka íslensk arkitektafyritæki.
Það er staðreynd.
Það er ekki hægt að skilja forvalsgögnin öðruvísi.
En auðvitað höfðu arkitektar þetta í sínum höndum. Það verður engin samkeppni án aðkomu íslenskra arkitekta. Arkitektar áttu að standa saman og hafna forvalinu eins og Jóhannes bendir á að ofan.
Af hverju höfnuðu arkitektarnir ekki forvalinu?
Hvar var forysta arkitekta var í öllu þessi ferli?
Svaf hún?
Allt þetta mál sýnir ofur-vald verkfræðinga í stjórnsýslunni.
Þegar saman fara pólitíkusar, sem hafa bara getu til að eiga við stóru excel-tölurnar, og stökkbreyttar verfræðistofur með stórveldis-drauma, þá getur það aldrei leitt neitt annað af sér en „monster“ hugsun, vélræna og ferlega og tröll-heimska í stórmennsku-brjálæðinu.
Ég hafði vonað, að engir íslenskir arkitektar létu leiða sig inn í þessa niðurlægingu. Með algjörri höfnun á því að taka þátt í vitleysunni, hefði það leitt af sér umræðu um hvert íslensk þjóð vill stefna, ma. í atvinnumálum.
Mín skoðun er sú, að í okkar litla samfélagi þjóni það hagsmunum þess best, að menn sníði sér stakk eftir vexti. Margt smátt gerir eitt risa-stórt og fallegt og búsældarlegt og er okkur öllum til hagsbóta.
Mér dettur td. í hug óteljandi byggingar í eigu opinberra aðila, sem grotna niður út um allt land. Væri nú ekki nær að huga að þeim og endurbæta og hugsanlega byggja við, allt eftir þörfum á hverjum stað?
Nei, það eru víst bara trölla-tölurnar í excelnum sem gadd-freðin heilabú vald-herranna og stökkbreyttu verkfræðingann sjá. Og mikil er blinda þeirra.
Að maður minnist nú ekki á það að oft er betra að gera skipulag fyrst.
Að maður minnist nú ekki á byggingarmagnið á þessum stað.
Að maður minnist nú ekki á allar gatna-slaufurnar og stökkbreyttu vafningana neðan- og ofanjarðar.
Þar fá þeir fyrst úr onum stökkbreyttu verkfræðingarnir, en kannski það komist á skipulagsstig og umræðu-grundvöll áður en af þeim ósköpum verður?
Kannski maður fái að heyra eitthvað fyrst í Borgarskipulaginu, eða þegir það alltaf, nema þegar einhvern vesaling út í bæ dreymir um einn lítinn kvist?
Þá sýnir það amk. mjög vald sitt og fylgir öllum stífustu prótókollum og reglugerðum og fundahöldum til að taka saman ráðin til að eyðileggja draum einhvers vesalings um einn lítinn kvist.
Kominn tími til að arkitektastéttin vinni betur saman og sýni samstöðu.