Sunnudagur 25.11.2012 - 22:51 - 36 ummæli

Ný byggingareglugerð í kreppu.

Síðastliðinn  föstudag var haldinn fundur um nýju byggingareglugerðina sem er nr.: 112/2012.

 Samtök iðnaðarins, Mannvirkjastofnun, Arkitektafélag Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga og Félag byggingarfulltrúa stóðu fyrir fundinum.

Þetta var fjörugur, skemmtilegur og upplýsandi fundur. Öllum sem fundinn sóttu sáu að það var margt gott og skynsamlegt að finna í reglugerðinni nýju, en þeim var jafnframt jóst, að enganvegin er tímabært að taka reglugerðina að fullu í gagnið að svo stöddu.

Fyrir því liggja margar ástæður sem vel var gerð grein fyrir í erindunum.

Það skal af gefnu tilefni taka fram að sú flökkusaga að arkitektar séu steinar í götu framfara i málefnum fatlraðra er algerlega úr lausu lofti gripin. Þvert á móti eru arkitektar upp til hópa mjög meðvitaðir um baráttumál fatlaðra og styðja þau af öllu afli.

Í upphafi fundar flutti Friðrik Ágúst Ólafsson, forstöðumaður Meistaradeildar Samtaka Iðnaðarins, gott erindi um þá kostnaðarauka sem fylgja nýju reglugerðinni og margt fleira. Björn Karlsson, forstjóri Mannvirkjastofnunar, brást til eðlilega varnar verki sínu og gerði hann það af miklu kappi. Jóhannes Þórðarson, arkitekt FAÍ,  flutti síðan vel rökstutt erindi þar sem hann lagði til grundvallar hugtök í „Menningarstefnu í mannvikjagerð” frá árinu 2007.  Jóhannes sýndi fram á hvað stefnan vegur lítið í umræddri reglugerð og víðar í umhverfi byggingamála. Mér til mikillar gleði nefndi hann sérstaklega byggingaráform Landspítalans í því samhengi.

Því hefur verið haldið fram að þeir sem komu að samningu byggingareglugerðarinnar hafi verið andvígir því að á Menningarstefnuna væri minnst í reglugerðinni og að hugtök á borð við fegurð, smekkvísi, menningarverðmæti eða byggingarlist fengju þar eitthvað vægi.

Síðastur frummælanda var Magnús Sædal, formaður félags byggingafulltrúa sem sagði reynslusögur úr starfi sínu og taldi nýju reglugerðina góða og að hún ætti að taka gildi  sem fyrst. Magnús veittist nokkuð hart að verktökum og mátti skilja að reglugerðin væri að hluta viðbrögð við starfssemi þeirra

Mín upplifun á fundinum var sú að þarna væru embættismenn með öll tök á reglugerðarsmíðinni og að hún þjónaði einkum hagsmunum þeirra sjálfra og eftirlitskerfinu. Manni virtist þeim vera sama hvað breytingarnar munu kosta húsbyggjendur og kostnað vegna aukinna umsvifa  hins opinbera við margskonar eftirlitsstörf.

Guðrún Ingvarsdóttir glæsilegur fulltrúi kvenna í arkitektastétt lagði sitt til málanna, setti fram vel rökstuddar spurningar og sjónarmið, hikaði ekki við að mótmæla staðhæfingum embættismannanna sem virtust ekki átta sig á því að þeir eru og eiga að vera þjónar almennings og neytanda. Ekki boðberar embættismannavalds.

Guðrún í samvinnu SI lagði fram óháða og að því er virtist vel unna úttekt á hvað byggingareglugerðin kostaði neytendur. Úttektin gerir ráð fyrir að byggingakostnaður aukist um ein 10% þegar viðmiðið var hefðbundið þriggja hæða fjölbýlishús.

Því hefur verið haldið fram að þessi breyting á reglugerðinni muni leiða af sér framkvæmdastoppp hjá verktökum, auk þess sem því er haldið fram að neysluverðvsvísitala mun rjúka upp um 3-4 % með tilkomu reglugerðatinnar með tilheyrandi hækkun fyrir alla lántakendur.

Ein nýjung reglugerðarinnar er stóraukin krafa um einangrun húsa og skal hún vera sú sama hvar á landi sem er. Gildir einu hvort byggt sé þar sem er næg orka  sé í túnfætinum eins og t.a.m í Hveragerði eða á afskekktum stöðum þar sem upphitun er með olíu og niðurgreidd af hinu opinbera.

Í viðtali á Stöð2 í kvöld sagði Guðrún Ingvarsdóttir arkitekt.:  „Orkukostnaður þyrfti að áttfaldast til að sá sparðnaður (sem aukin einangrun veitir) færi að skila sér. Það er það mikill aukinn fjármögnunarkostnaður og stofnkostnaður við bygginguna. Og ef við horfum til íslenskrar orku, sem við teljum nokkuð vistvæna, þá skýtur þetta nokkuð skökku við”.

Á fundinum kom fram að staðan í byggingaiðnaðinum og fjárhagsleg staða notenda almennt á Íslandi í dag er þannig að við höfum ekki efni á þessum breytingum. Krafan var frestun á gildistöku.

Eftir fundinn á föstudag get ég ekki séð annað en að nauðsynlegt sé að mæta kröfunni um frestun þar til sátt hefur náðst um reglugerðina og efnahagsástand verði með öðrum hætti hér á landi en nú er.

Sjá hér útskrift úr fréttum Stöðvar2 í kvöld:

http://www.visir.is/reglugerdin-gerir-husnaedi-dyrara-og-ovistvaenna/article/2012121129331

Hér er færsla þar sem fjallað er um ýmis atriði í nýju byggingareglugerðinni:

http://blog.dv.is/arkitektur/2012/06/18/ologlegir-heitir-pottar-byggingareglugerd/

Og eldri færslu um mannvirkjalög:

http://blog.dv.is/arkitektur/2011/08/27/mannvirkjalog-%e2%80%93-ekki-fyrir-arkitekta/

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (36)

  • Hilmar Þór

    Þetta er skarplega athugað hjá þér HG. Það eru líkur til frekari undanþága eftir því sem reglugerðin er fyrirferðameiri.

    Og annað er að þegar ég var að byrja í mínu fagi var arkitektahlutinn iðulega um 60% af hönnunarkostnaðinum. Nú er hann að nálgast 40%. Það er meðal annars vegna þess að öll kerfin sem verkfræðingarnir hanna eru orðin fyrirferðameiri en áður. Og líka það að verkfræðingar selja sig dýrara en arkitektar sem eru auk þess byrjaðir að undirbjóða eins og dæmin sanna.

    Arkitektar þurfa að halda vöku sinni varðandi verkfræðinga. Það höfum við ekki gert og mér sýnist að ekki sé von á breytingu hvað það varðar. Og ekki síst að að varast að selja sig ekki of billega. Þegar vænkast hagur Strumpu verður ekki létt verk að koma þóknuninni aftur upp í eðlilegt horf.

    Verkfræðingar eru að auki sífellt að færa sig inná okkar svið. Ég þekki dæmi um að verkfræðingar séu að leggja mál fyrir skipulags og bygginganefndir kinnroðalaust.

    Þetta með einangrunina er athyglisvert. Ég tók elkki eftir neinu sértöku varðandi bókasafnið í Seattle sem varðaði einangrun. En þetta er skemmtilegt að vita þó seint sé.

  • BTW Hilmar:

    Það er aerogel í bókasafninu sem þú sóttir heim í Seattle eftir OMA 😉

  • Reglugerðin var unnin af norsku fyrirmyndinni. Þar er reglugerðarbáknið hreint svakalegt. Orðið á götunni er að flestar metnaðarfullar byggingar í Noreg þurfi að sækja um undanþágur frá reglugerðinni. Svoleiðis ferli eru kostnaðarsöm. Allur þessi sustainable pakki er mikill teknókrata bissness.

    Þegar ég var í skólanum voru arkitektanemarnir að eyða tíma sínum í að teikna diagrömm af því hvernig affallsvatn var leitt niður í salernið í byggingunum sínum. Ég hef aldrei skilið svona. Mér finnst aðrir hlutir verðskulda meiri tíma og athygli.

    Verkfræðihluti byggingarkostnaðar fer ört vaxandi á kostnað hönnunarhluta arkitekta. Í Noregi er þróunin þannig að verkfræðistofur eru byrjaðar að opna arkitektastofur/avdeling. Þetta er til marks um breytta tíma.

    Annars er aerogel-ið er algert snilldarefni. Það hefur verið töluvert notað af stjörnuarkitektunum. Hægt er að nefna nöfn eins og Steven Holl, Herzog and De Meuron, David Chipperfield og marga fleiri.

    Hérna er dæmi um notkun á Aerogel:

    http://www.archdaily.com/4369/the-nelson-atkins-museum-of-art-steven-holl-architects/

  • Guðrún Ingvarsdóttir

    Takk fyrir ábendinguna um areogel kæri Þodnjoð – áhugavert !

  • Hilmar Þór

    Þetta er spennandi mál sem Þodnjoð bendir á. Sérstaklega í ljósi þess að kollegar mínir í DK hafa haldið því fram að Rockwool í Skandinavíu hafi lobbýað þessum kröfum fram í, allavega dönsku, reglugerðinni. Þetta er sjálfsagt ekki auðvelt að sannreyna en þessu hefur verið haldið fram. En ef á markaðinn er að koma efni sem er fimm sinnum betra en steinull hvað þetta varðar þá koma þessar kröfur vel á vondan.

    En spurningin er hvort rétt sé að bregðast við „væntanlegri“ orkuhættu með þessum hætti. Ætli nærtækara sé ekki að minnka húsin.

  • Þodnjoð

    aerogel.se

  • Þodnjoð

    æ þetta var ekki rétt hjá mér. Heimasíðan fyrir framtíðareinangrun er areogel.se….ekki aspen.com

  • Þodnjoð

    Já fyrirgefðu mér Guðrún…höfum það þá þannig að þessir útreikningar eru ýktir og byggja á gömlum steinaldar aðferðum steinullar útreijkninga, hver svo sem setti þá fram.

  • Þodnjoð

    Ef einhver hefur áhuga á einangrunarumræðunni þá er til Aspen.com, en þeir framleiða nýja tegund sem er 5 sinnum betri enn steinull.

    Ég fékk einu sinn spurningu á prófi: Nefnið þrjár aðferðir að færa kubb yfir borð? Svar: Toga í kubbinn, ýta á kubbinn…..en hver er þriðja aðferðin?
    (bannað að lyfta kubbnum)

    Þessi spurning var til að kanna hvort maður gæti hugsað útfyrir kassann.
    Komið ykkur út úr steinullarumræðunni. Þetta er vara á útleið.

    Leiðrétting á fyrri sendingu: arðsemisútreikningar, steinullin

  • Guðrún Ingvarsdóttir

    Ég vil taka það skýrt fram Þodnjoð að ég hef enga arðsemisreikninga gert – byggi þetta á útreikningum mér fróðari aðila og vona að rangt reynist og við séum ekki að kasta krónunni.

  • Pétur Örn Björnsson

    Þarna komum við líkast til að kjarna málsins Guðrún.

    Reglugerðin tekur mið af aðlögunarferlinu að reglugerðarverki Brussel.

    Meðan það aðlögunarferli heldur áfram, með samþykktum þingmanna Alþingis á tilskipunum, þá geta kannski embættismennirnir ekkert annað gert en að umbreyta reglugerðum hér til samræmis við það. Því má kannki segja að ég hafi verið of hvass við þá, en mér hefur reyndar virst hingað til að oft er erfitt að átta sig á hvort kemur á undan eggið eða hænan og er það sígilt rökfræðilegt deilumál.

  • Þodnjoð

    Síðan plasteinangrun og síðar steinullinn komu á markað höfum við hönnuðir einangrað hús undir máli og gerum enn. Ég efast um að hönnuðir setjist niður og reikni út einangrunagildin með I i, þ.e.a.s. eins og þau raunverulega eru. Yfirleitt er þetta staðlaður texti frá okkur sem engir útreikningar eru á bakvið. Nú þegar orkuverð fer hækkandi með einkavæðingunni fer þetta að skipta verulegu máli fyrir húsbyggjendur. Ég held að aðsemisútreikningar Guðrúnar séu ýktir. Svo þarf ekki lengur að þykkja einangrun til að fá hærra einangrunargildi. Komin eru nýrri efni sem þvert á móti þynnir einangrunina. Nú eru til efni sem eru bara tomma en einangra 5 sinnum betur en sama tomma í steinull.

  • Guðrún Ingvarsdóttir

    Hvað varðar einangrun og lækkaðan upphitunarkostnað er áhugavert að lesa um grein Sigurðs Ingólfssonar framkvæmdastjóra Hannarrs í Morgunblaðinu fimmtudaginn 19 júlí s.l. þar sem hann reiknar út aukinn bygg.kostnað vs. svokallaðan sparnað á rekstrartíma byggingar. Hér má m.a. sjá umfjöllun um greinina:
    http://agbjarn.blog.is/blog/agbjarn/entry/1250186/

    Ef orkan sem um ræðir væri fengin úr olíu eða kjarnorkuverum líkt og víða í Evrópu má leiða að því líkum að þjóðhagslega hagkvæmt væri að draga úr upphitun. Ég er hins vegar efins um að svo sé einnig þegar horft er til jarðhitans okkar.

  • Pétur Örn Björnsson

    Ég er sammála þér Þodnjod, að reglugerðin nýja er fáránlega löng, en hvenær telur þú að „einangrun nái máli“? Hvert er þitt mál hvað það varðar?

    Aukin eingrunarkrafa er komin út í algjörar öfgar og þar tek ég fullkomlega undir sjónamið Guðrúnar:

    „Í viðtali á Stöð2 í kvöld sagði Guðrún Ingvarsdóttir arkitekt.: „Orkukostnaður þyrfti að áttfaldast til að sá sparðnaður (sem aukin einangrun veitir) færi að skila sér. Það er það mikill aukinn fjármögnunarkostnaður og stofnkostnaður við bygginguna. Og ef við horfum til íslenskrar orku, sem við teljum nokkuð vistvæna, þá skýtur þetta nokkuð skökku við”.“

  • Þodnjoð

    Furðuleg árátta okkar Íslendinga að apa eftir öðrum norðurlöndum því sem þeir eru í þann mund að leggja niður. Maður var bara stoltur þegar ég sýndi skólafélögunum í Svíþjóð, íslensku byggingarreglugerðina fyrir 30 árum. Ekkert óþarfa kjaftæði þar. 30 árum síðar hefur þetta hreinlega snúist, algjörlega. Nú er sænska reglugerðin orðin þunn eins og sú íslenska var fyrir 30 árum, en okkur hefur loksins tekist að breyta okkar reglugerð í þykka bók.

    Annars er þreytandi að lesa um þessi „Möppudýr“ hjá sumum. Fólkið sem fengið er til að semja þetta eru ekki möppudýr, ekki frekar enn að viðmælendur okkar hér á síðunni eru „skriðkvikindi“ af annarlegri sort.

    Hvaða aðferðum þurfum við að beita til að skapa betri byggingar fyrir fólk?
    Er ekki tímabært að auka einangrun húsa ef hún nær ekki máli eins og hún er í dag? Getum við hönnuðir ekki sparað annars staðar á móti?

  • Pétur Örn Björnsson

    En af því að ég ber svo mikla virðingu fyrir þér Hilmar og góðum pistlum þínum, þá skal ég, bara þín vegna mýkja mitt mál og skella hér inn einu litlu ljóði (eftir sjálfan mig eins og þar stendur):

    AÐ LEITA LJÓÐS

    Á skýjuðum breiðum
    gróinna urða
    og sitrandi spræna

    flakka ég um
    síkvikur
    vart sýnilegur.

    Vomi yfir bráð minni
    eins og músarrindill.
    Finn kannski lítið kvik-
    yndi í gogginn.

    Byrja svo að tala
    töfrum slunginn
    – um stund –
    flakka svo um
    síkvikur
    vart sýnilegur.

  • Pétur Örn Björnsson

    Ég var nú bara að taka bókmenntalega myndlíkingu út frá Kafka,
    en kannski það megi ekki nota bókmenntamál hér Hilmar.
    Það veldur mér vonbrigðum, ef menn eru orðnir svo heilagir í skinhelginni.

  • Hilmar Þór

    Jú Pétur, en það gengur ekki að kalla þann sem þú átt samtal við „kvikindi“ og „leiðinleg möppudýr“

    Hættum því. Það gengur ekki.

    Þetta er allt sómafólk sem er að gera sitt besta. Það sem við þurfum að gera er að aðstoða embættismennina við að afla fjár til þess að kosta aðkomu fleiri að smíðinni. Embættismennirnir munu fagna því.

    Til að svara spurningu þinni þá erum við Guðrún bæði að taka þátt í smíðinni og breytingum með þvi að leggja orð í belg, á vonandi uppbyggjandi, framfarasinnaðan og lausnamiðaðan hátt.

  • Pétur Örn Björnsson

    Nei ræðum það málefnalega, en málefni eru ekki til án mannlegra gjörða. Er Guðrún að breyta reglugerðinni? Er Hilmar að breyta reglugerðinni?

    Hver er að breyta reglugerðinni?
    Hver er sá er veldur? Er það ekki sá sem á heldur?
    Eða á að taka vaðalinn á þetta?

  • Pétur Örn Björnsson

    Hermaðurinn skaut. Hverjum var það að kenna? Engum?

  • Hilmar Þór

    Ég tek undir með Guðrúnu Ingvarsdóttur hér að ofan. Embættismennirnir eru ekki óvinurinn. Þeir eru að gera sitt besta. Þeir eru samstarfsmenn.

    Í raun er enginn óvinur í þessu máli. Þetta er bara verkefni sem þarf að vinna.

    Það er skynsamlegt að sem flestir kunnáttumenn komi að svo mikilvægum málum sem laga og reglugerðasmíði er. Ég held að þeir sem þurfa að vinna eftir reglunum ættu að hafa stærra hlutverk í þessum ferlum en verið hefur og það á að greiða fyrir vinnuna.

    Tilvitnun sú sem Þorbjörg vitnar í og er úr einni færsla minna ber að lesa með það í huga að þar er ég einmitt að gagnrýna að ekki sé kallað eftir fólki úr atvinnulífinu til þess að smíða reglugerðir og lög. Þessi færsla fjallaði um Mannvirkjalög þar sem nær eingöngu embættismenn komu að. Mér þótti það einsleitt en var alls ekki að gagnrýna vinnu þessa ágæta fólks. Gagnrýni Halls, Péturs og jafnvel Þorbjargar á embættismenn er ekki málinu til framdráttar.

    Ég fagna leiðbeinandi og lausnamiðaðri umræðu þar sem áhersla er lögð á “boltan í stað mannsins” eins og það er oft orðað.

  • Guðrún Ingvarsdóttir

    Mér finnst mikilvægt að við munum að þeir embættismenn sem vinna að þessum málum eru að gera sitt besta – þeim er mjög þröngt sniðinn stakkur bæði í mannskap og ekki síst tíma og eru alls ekki öfundsverðir af sínu hlutskipti. Gefin hafa verið tæp tvö ár í vinnslu þessarar stóru reglugerðar sem er gríðarlega stuttur tími fyrir jafn umfangsmikið verk. Til samanburðar fóru um 6 ár í undirbúning sambærilegrar reglugerðar í Svíþjóð.

    Ég er sannfærð um að með því að gefa þessu betra tímarúm megi ná að styrkja það sem gott er og raunhæft í reglugerðinni – og setja upp áfangaskipta áætlun um það sem við viljum sjá til framtíðar en þarf e.t.v.að hluta að bíða vegna aðstæðna í hagkerfinu. Ég tel t.d. að aðgengimál fatlaðra séu meira aðkallandi mál í okkar þjóðfélagi en t.d. tvöföldun einangrunar og aukið umfang loftræstikerfa í almennum íbúðum. Sýnum skynsemi og forgangsröðum – og númer eitt: höldum umræðunni á málefnalegu plani.

  • Pétur Örn Björnsson

    Jú Þorbjörg, fyrst þú spyrð mig sérstaklega, þá rímar þetta við mín sjónarmið.

  • Þorbjörg

    Í færslunni um Mannvirkjalög sem vísað er í stendur:

    „Ef listinn að ofan er skoðaður þá einkennist hann af kerfisköllum. Ég vek athygli á að af þessum 16 er ein kona. Konum er ekki treyst!

    Er það virkilega svo að kerfiskallar eru helstu áhryfavaldar í löggjöf hér á landi?. Og hverjir eru helstu hagsmunir kerfiskalla? Eru þeir ekki einmitt að viðhalda kerfinu!“

    Umhugsunarvert!

    Rýmar þetta ekki við þín sjónarmið Pétur?

  • Pétur Örn Björnsson

    Allt venjulegt fólk þolir ekki leiðinlegu möppudýrin.

    Hver gaf þessum kvikindum leyfi til að níða almennig?
    Í umboði hverra vinna möppudýrin?

  • Pétur Örn Björnsson

    „Sjálfbærni“ gráu möppudýranna, er alltaf söm við sig:

    „… embættismenn með öll tök á reglugerðarsmíðinni og að hún þjónaði einkum hagsmunum þeirra sjálfra og eftirlitskerfinu. Manni virtist þeim vera sama hvað breytingarnar munu kosta húsbyggjendur og kostnað vegna aukinna umsvifa hins opinbera við margskonar eftirlitsstörf.“

    Allt helvítis gumsið hrundi haustið 2008 og enginn ber ábyrgð, en möppudýrin tímgast og fjölga sér sem aldrei fyrr og eru orðin algjör plága.

    Þða verður að fara að hafa samband við meindýraeyði.
    Kannski Kafka umbreyti sér bara í risapöddu og gleypi möppudýrin í smellinum Kafka´s Revenge? Mikið væri það gaman 🙂

  • Torfi Hjartarson

    Hafa heildargæði bygginga síðustu áratugi aukist í samræmi við síauknar kröfur og endurskoðaðar reglugerðir? Mitt svar er nei. Það hefur hins vegar byggingarkostnaðurinn gert. Höfundarnir hafa væntanlega ekki litið á það sem hlutverk sitt að skrifa byggingarreglugerð sem gerir almenningi kleyft að eignast sem hagkvæmast húsnæði.

  • Hilmar Þór

    Það má bæta því hér við að það kom fram í máli Magnúsar Sædal að hann taldi að byggingaiðnaðurinn muni ekki rétta alminlega úr sér fyrr en eftir 7-8 ár eða um 2020. (Þarna á hann vonandi einkum við hönnun þó hann hafi ekki tekið það fram). þetta er sennilega rétt hjá Magnúsi. Það er fyrir hendi tæplega þrefalt meira húsnæði fyrir verslun en þörf er fyrir. Það er búið að einsetja alla grunnskóla, íbúðir sem standa tómar eða eru í byggingu skipta þúsundum fyrir utan allt það húsnæði af öllum gerðum sem þegar er búið að hanna að fullu en ekki er byrjað á.

    • Einar Jóhannsson

      „Þrefalt meira húsnæði fyrir verslun“

      Er hægt að fá nánari skýringu á þessu!

      Hvernig er þetta fengið og af hverju var svona mikið byggt?

    • Hilmar Þór

      Samkvæmt reynslutölum er talið að um 3,5 femetrar verslunarhúsnæðis nægi á hvern íbúa í vestrænum samfélögum.

      Í Reykjavík var þetta komið eitthvað vel rúmlega átta fermetrar á árinu fyrir hrun (Heimildin er Morgunblaðið á miðju ári 2007 að mig minnir). Sjálfsagt hefur þetta verið komið eitthvað á tíunda fermetra á mann þegar loks spilaborgin hrundi.

      Einar Jóhannsson spyr af hverju var svona mikið byggt. Miklu meira en þörf var á. Skýringin er sennilega sú að þetta var stjórnlaust. Verslunarmenn vildu byggja og fengu að byggja, skipulagsyfirvöld útveguðu lóðir, sveitarfélagið gatnakerfi, verktakarnir vildu framkvæma og síðast en ekki síst vildu bankarnir lána til framkvæmda sem auggjóslega var ekki þörf fyrir.

      Þessi sorgarsaga átti ekki einungis við um verslunarhúsnæði heldur að því er vistðist um nánast alla húsagerð nema hjeilbrygðisstofnanir og byggingar vegna ferðamála.

      Ég botnaði reyndar aldrei neitt í þessu.

    • Einar Jóhansson

      Já það var allt stjórnlaust hér á landi í aðdraganda hrunsins. Verst var að öll umræða féll niður eftir að Mammon tók völdin.

  • Hér birtist fáránleiki reglugerðarríkisins í allri sinni eymd. Þarna er gengið allt of langt. Nær væri eftirlitsaðilum að sinna eftirlitshlutverki sínu betur á byggingarstað en verið hefur. Eftirlit á ekki að vera eingöngu kontórvinna. Og þessi ákvæði að allar byggingar eigi að henta hreyfihömluðum er lúxus sem við höfum ekki efni á. Um opinber mannvirki gegnir auðvitað öðru máli en því fylgir þá að allar opinberar byggingar verða í opinberri eigu. Ríki og bær myndu væntanlega hætta að leigja fasteignir sem myndu þarfnast kostnaðarmikilla breytinga.

  • Óþekki embættismaðurinn.

  • Þorbjörg

    Þetta er tvíræð yfirskrift. Annarvegar er reglugerðin sjálf í kreppu og svo ríkir hér á landi kreppa….sérstaklega í byggingaiðnaði. Þetta er góðærisreglugerð sem hefur neyðarnúmerið 112. Að láta hana taka gildi nú er það sama og að leggja dauða hönd á framkvæmdir í byggingaiðnaði hér á landi. Við þurfum ekki á því að halda.

  • Ég spyr hvort það sé skynsamlegt verklag að fela embættismönnum reglugerðasmíð almennt?

    Hvort ekki næðist skynsamlegri og hagstæðari niðurstaða ef notandinn semdi reglugerðirnar. Í þessu tilfelli yrðu köflunum skipt milli arkitekta, verkfræðinga. verktaka, húsbyggjenda (þ.m.t. fatlaðir húsbyggjendur) og þeirra sem málið varðar í þeirra daglegu störfum og daglega lífi?

    Síðan yrði embættismönnum falið að samræma og ritstýra.

    Endilega lesið færsluna um heitu pottana.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og sex? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn