Fimmtudagur 16.05.2013 - 18:31 - 10 ummæli

Ný Hverfisgata – Laugarvegur

Hverfisgata-Frakkastigur-gatnamot-teikn-vef

 

Í sumar verður unnið að endurbótum á fyrsta áfanga Hverfisgötu. En Hverfisgatan hefur lengi verið í mikilli skipulagslegri óvissu. Hlutverk hennar hefur ekki verið skilgreind sýnist manni. Hún hefur hvorki verið alminnileg umferðagata, verslunargata eða borgargata (Boulevard).

Kannski er það að breytast nú þannig að hún verði bóulevard með þægilegu flæði bifreiða og hjólandi þar sem götutré verða áberandi og á jarðhæð húsa verði verslun og þjónusta. Svona götur eru algengar í borgum Evrópu. Ég nefni Boulevardana inna Periferique i París og t.a.m Vesterbrogade í CPH.

Framkvæmdirnar við Hverfisgötu eru löngu orðnar tímabærar og taka til yfirborðs götu og gangstétta, hitalögnum verður komið fyrir, gatnamót steinlögð og upphækkuð, götutré verða gróðursett, hjólareinar verða beggja vegna götu og margar fleiri bætur verða gerðar.

Það verður spennandi að fylgjast með þessu frábæra framtaki hjá borginni og sjá hvaða afleiðingar þetta hefur hvað varðar hlutverk Hverfisgötu í framtíðinni.

Manni finnst að borgarskipulagið megi ekki stoppa við yfirborð götunnar og trjágróðurinn,  heldur skilgreina hlutverk hennar til langrar framtíðar og hliðra til í þeirri þróun hvort heldur þetta verði borgargata (Boulevard) með verslunum eða umferðagata sem þjónar  Laugavegi og svæðunum í grenndinni.

Mér hefur alltaf fundist Hverfisgatan sitja hjá í allri umræðu um borgarlífið. Þegar reitirnir meðfram götunni voru skipulagðir á síðustu árum var ekki tekið á Hverfisgötunni sem heild frá Arnarhól að Hlemm og hlutverki hennar í stærra samhengi, heldur einungis í einhverjum bútum. Það var eiginlega hálf hallærislegt að taka ekki á framtíð götunar samfara þeirri vinnu. En það er annað mál og nú eru aðrir tímar og betri.

Ég vil leyfa mér að varpa fram hugleiðingu um að Hverfisgatan taki við sem verslunargata þar sem viskiptavinir vilja komast að verslunardyrum á bifreið sinni meðan Laugavegurinn sinnti hinum sem vilja njóta þess að ganga í friði frá veggný bifreiðanna.  Laugavegur sem „PPS gata“ (sjá slóð neðst). Þetta gæti verið sáttatillaga í langri deilu um bifreiðaumferð um Laugaveg.

Þannig væri hægt að mæta óskum verslunareigenda sem vilja hafa bílaumferð og öflugar almenningssamgöngur fyrir framan verslanir sínar og hinum sem vilja ekkert frekar en að losna við þá.

Ráðgjafar eru  frá Mannviti og Arkís

Sjá „Laugarvegur PPS gata“:

http://blog.dv.is/arkitektur/2012/12/11/laugavegur-a-adventu-pps-gata/

Og um vistgötur:

http://blog.dv.is/arkitektur/2011/03/30/shered-street-vistgata/

 

 

M-3_mid

 

M-1_mid

 

 

Hverfisgata_endurn-vefst

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (10)

  • Guðmundur Einarsson

    Manni finnst upplagt að hafa göturnar með tvennum hætti. Laugaveginn sem PPS og hverfisgata borgargata með þéttri bifreiðaumferð.
    „lets do it“

  • Hilmar Gunnarsson

    Skipulagsdeild Reykjavíkurborgar stóð fyrir tilraunaverkefni sem var grænmálaður reiðhjólastígur sem lá niður Hverfisgötuna frá Hlemmsvæðinu. Þetta vara eitt af fyrstu biðstöðu/meanwhile verkefnunum sem Reykjavíkurborg hefur staðið fyrir árlega. Það var vel haldið utan um verkefnið og það skrásett á meðan á því stóð.

    Það væri gaman að vita hvort að þessi reynsla hafi skilað sér inn í þetta verkefni og hvort að meanwhile-aðferðin sé ekki sniðugur undanfari umfangsmikilla breytinga í borgarrými?

  • Mjög gott framtak. Helst ætti að rífa þá kumbalda sem setja ljótan svip á götuna og byggja íbúðahús í gömlum stíl 3-4 hæða með suðurgörðum í anda Notting Hill! Gera Hverfisgötuna að alvöru íbúagötu. Þurfa ekki að vera dýrar byggingar. Það er alls ekki lögmál að varðveita alla gamla kofa en útlitið getum við varðveitt að einhverju leiti. Útlit gæti tekið mið af t.d þjóðmenningarhúsinu. Er sannfærður að með slíkri uppbyggingu erum við komin með annan“ Laufásveg“!!

  • Ólafur Jónsson

    Sammála þessu með bílastæðahúsin. Það þarf ekki fleiri á svæðið en gott væri ef þjónusta almenningsvagna yrði betri með tíðari ferðum og minni vögnum.

  • Á að gera Hverfisgötu aftur að einstefnu?

  • Steinarr Kr.

    Sannarlega kominn tími á Hverfisgötuna. Verst er að þar er mikið af húsakosti sem er orðinn ansi lúinn. Vonandi verður hresst upp á hann í leiðinni.

    Ég leyfi mér að mótmæla frekari bílastæðahúsum. Það eru tvö bílastæðahús núna við Hverfisgötu, Annað heitir Vitatorg að mig minnir og hitt er á móti Þjóðleikhúsinu.

    Það bílastæðahús er eitt af mestu skipulagsslysum sem gerð hafa verið í miðborginni og ef af nægu að taka. Að setja þetta skrímsli þarna niður á móti þessum fallegu húsum sem eru þarna. Þjóðmenningarhús, Þjóðleikhúsið, danska sendiráðið og húsið sem hýsti um tíma Alþjóðahús. Þetta er synd.

    Svo mætti skoða svæðið sem afmarkast af Hverfisgötu, Barónstíg, Skúlagötu og Vitastíg. Þarna er stór lóð sem er illa eða vannýt og mætti gera eitthvað skemmtilegt við. Huga þó að nálægðinni við Bjarnaborg og húsið sem 10/11 eru í en þau eru gömul og hafa eflaust menningarsögulegt erindi. Gaman væri að sjá götumynd sem rýmar við þessi gömlu hús.

  • Atvinnulaus

    Hvað hafa ARKÍS og Mannvit unnið til þess að vera valdir til verksins?. Ég get nefnt nokkra sem sérstaklega hafa kynnt sér gatnahönnun m.t.t. mannlífs á svona götum. Borgin hlýtur að þekkja þá líka. Hvernig getur borgin gengið framhjá þeim þegar valdir eru ráðgjafar?

  • Jens Helgason

    Þetta lofar góðu. Það þarf bara að koma upp stóru bílastæðahúsi innar á hverfisgötu. Kannski fyrir neðan Laugarveg 77.

    • Arnþór Tryggvason

      Mér þætti afar vitlaust að setja bílastæðahús þar. Af hverju er það eitthvað sem þú, Jens, heldur að sé gott fyrir svæðið?
      Eins og Steinarr Kr. segir þá eru tvö stór bílastæðahús og ég þykist vita að það sé oftast nóg pláss í þeim.
      Þar að auki finnst mér að þeir sem hafa áhrif í að móta manngerða umhverfið, og þá sér í lagi í miðborginni, ættu að stuðla að því að gera fólki kleift velja sér mismunandi ferðamáta.

  • Jón Ólafsson

    Húrra fyrir Besta og Næst besta. Verst að eiga ekki þolinmótt fjármagn til að kaupa eignir við Hverfisgötu. Þar blasa tækifærin nú við.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og fjórum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn