Föstudagur 26.07.2013 - 00:20 - 9 ummæli

Ný randbyggð

dezeen_Housing-in-Emmen-by-MVRDV_1

Í síðustu færslu var fjallað um randbyggð og mátti kannski skilja að höfundi þætti það skipulagsform nánast ógerlegt. Það er miskilningur. Höfundur taldi hinsvegar að illmögulegt væri töfra fram götulíf í nýjum hverfum sem stæðist samanburð  við það sem við þekkjum í skipuilagi gömlu borganna í Evropu þar sem göturnar iða af mannlífi.

Höfundur telur vel mögulegt að skapa góða byggð í randbyggðaskipulagi og vísaði til Sluseholmen í Kaupmannahöfn og Bryggjuhverfisins í Grafarvogi. Hann gæti vel hugsað sér að búa í slíku hverfi. Hinsvegar telur hann að markmiðið í Vatnsmýrarskipulaginu um  blandaða notkun með verslun, þjónustu, menningu og afþreyingu  sem  verði aðgengileg á jarðhæð en skrifstofur og íbúðir þar fyrir ofan séu skýjaborgir eða markmið sem erfitt verður að ná. Enda margreynt.

Hinsvegar er randbyggð skipulagsform sem menn nýta sér nokkuð í nútíma skipulagi þó þeir séu meðvitaðir um að andrúmið á götum Barcelona og Glasgow séu ekki á boðstólnum af ástæðum sem tíundaðar voru í síðasta pistli.

Hé er eitt slíkt dæmi frá borginni Emmen í Sviss. Þar var efnt til samkeppni um  nýja íbúðabyggð. Þetta var samkeppni sem haldin var í samvinnu bæjarfélagsins og fjárfestingarfélags og var niðurstaðan kynnt í síðustu viku. Vinningstillagan er unnin af hollensku teiknistofunni MVRDV.

Þarna eru íbúðir af 16 mismunandi gerðum frá 130 fermetrum niður í öríbúðir sem eru 30 fermetrar.

Skoðið myndirnar og tvísmellið til að sjá þær betur.

dezeen_Housing-in-Emmen-by-MVRDV_2

dezeen_Housing-in-Emmen-by-MVRDV_8

dezeen_Housing-in-Emmen-by-MVRDV_9

 

dezeen_Housing-in-Emmen-by-MVRDV_7

Þar sem bifreiðastæðum fyrir allar íbúðir er komið fyrir í kjöllurum verður mannlíf á götum minna en ella og íbúarnir fara um lengri veg til þess að sækja sér þjónustu.

dezeen_Housing-in-Emmen-by-MVRDV_3

 

dezeen_Housing-in-Emmen-by-MVRDV_50

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (9)

  • Varla er ætlunin að allar götur í 102 verði verslunargötur eins og Laugavegurinn. Ég bjó lengi í Kaupmannahöfn og fannst frábært að vera í þessu mannvæna og umhverfisvæna umhverfi. Þar eru aðalgötur (Vester-, Nørre- og Østerbrogade) með verslunum á neðstu hæð með tilheyrandi mannlífi en hliðargötur ekki. Í hliðargötum eru húsin með geymslum og þvottahúsum í kjallara en fyrsta hæðin er hálfa hæð upp þannig að ekki sést inn af götunni. Sunnanverð Ásvallagata er ágætt dæmi um þetta.

    Ég er sammála Þuríði að ekki megi vera hús inn í garðinum, það gerir þetta alltof þröngt. Garðurinn er heilagur og hann má alls ekki vera opinn almenningi, þar kynnist maður nágrönnum og geymir útidótið án þess að hafa áhyggjur. Síðan mega vera lítlir almenningsgarðar um hverfið, sem vantar í Barcelona. Sú borg er með þéttustu íbúabyggð í Evrópu og því ekki góð til samanburðar.

    Bryggjuhverfið er of lítið og einangrað og þannig mun þetta hverfi vera þar til öll Vatnsmýrin verður byggð. Svona hverfi verða að vera hluti af stærri heild,… borg.

  • Hilmar Gunnarsson

    Mér verður bara illt á að horfa á þessar myndir. Ekki gæti ég hugsað mér að búa þarna.

    Við búum í Noregi og það eru þó nokkur svona skipulög í gangi, þéttar randbyggðir með raðhúsum og einbýli í bland. Við höfum skoðað flest þessara hverfa og við hjónin erum sammála um að þarna gætum við aldrei þrifist. Ég hafði alltaf einhverja tilfinningu eins og ég væri að aka inn í flóttamannabúðir, einhvern veginn.

    Smekkur fólks er misjafn en mig grunar að amk Íslendingar meti prívasí mikils og maður sér fyrir sér allar háu Byko-girðingarnar sem myndu rísa eftir augnablik. Eins væri fokdýr gluggatjöld fyrir hverjum einasta glugga. Ég myndi ekki veðja á þetta byggingarfyrirkomulag. Svo hlýtur þetta að vera dýr lausn ef maður hugsar til brunavarnarreglugerða ofl.

    Kannski er mikilvægt að pæla í gluggalausnunum í svona skipulagi?

    • Þú segir nokkuð. Stenst svona skipulag með lokuðum innigörðum nútíma brunareglugerð?

    • Hilmar Gunnarsson

      Ég hef mínar efasemdir.

  • Þuríður

    Ef byggingunum inni í randbyggðinni miðri væri sleppt og innigarðurinn opnaður t.d. í einu horninu væri þetta fínt.

  • Ég mundi vilja benda á nýja randbyggð sem mér finnst vel heppnuð, byggð eftir 1990 í Solna í Svíþjóð:

    https://maps.google.com/maps?q=3+Brevduvegatan,+Solna,+Stockholm+County,+Sweden&hl=en&ll=59.368193,18.017278&spn=0.008397,0.023882&sll=59.368193,18.017278&sspn=0.00844,0.023882&t=h&hnear=Brevduvegatan+3,+169+72+Solna,+Sweden&z=16&layer=c&cbll=59.368218,18.017081&panoid=DimTcxKm3SYAWXJU8u2TkA&cbp=12,106.52,,0,8.94&source=gplus-ogsb

    Þar er verið að byggja íbúðarhverfi með skóla og leikskóla og starfsemi í sumum húsum meðfram aðalgötunni (Gustaf III boulevard) á neðstu hæð en annars eru íbúðir í flestum húsum á neðstu hæð. Hæðir húsa eru frá 3-6 hæðir. Bakatil er svo garður með leiksvæði, grilli o.s.frv. Breið port tengja garða og götu og þar eru geymd reiðhjól. Meðfram hraðbrautinni E4 var byggt skrifstofuhúsnæði. Það bæði skermar fyrir hávaða og færir fólk inn í hverfið og skapar aukin rekstrargrundvöll fyrir veitingahús og verslanir í hverfinu. Flest bílastæðin eru í kjöllurum og þau eru ekki mörg á íbúð og það sem meira er menn þurfa að kaupa eða leigja þau sérstaklega. Síðan eru bílastæði í götu og menn geta keypt íbúðarkort fyrir bílastæði í götu sem kostar sitt. Bílastæðaeftirlit er einkarekið og mjög virkt.

    Almenningssamgöngur eru með lest í um 5-10 min göngufjarlægð eða með strætó sem ekur eftir aðalgötunni. Fjarlægð frá miðborg Stokkhólms er um 8 km. Fljótlegast er að fara á staði í miðborginni á hjóli auðvitað en tekur kannski 15-25 min með lest á aðalbrautarstöðina og um 25-30 min með strætó (göngu og biðtími innifalin).

    Ég held það sé fyrst og fremst áskorun fyrir skipulagsyfirvöld og hönnuði að búa til randbyggð sem virkar. Sumstaðar er ólíkegt að randbyggð virki sem skyldi og gæti svæðið sunnan við flugvöllinn í Skerjafirðinum verið dæmi um slíkt. Það er samt ekki þar með sagt að randbyggð þar sé verri en eitthvað annað byggðarform á þeim stað. Væri einbýlishúsabyggð eða blokkir skárri? Kannski þarf einfaldlega að skoða það vandlega hvernig uppbyggingin þar á að vera til að hún virki vel.

    Fyrst rætt er um randbyggð finnst mér áhugavert að skoða hvernig hægt er að auka nýtingu „vannýttra“ lóða með blokkum og húsum í borginni. Væri ekki hægt að byggja á grasflötum og bílastæðum vel hönnuð minni hús með fjölbreyttari starfsemi og minni íbúðum og færa þar með nýtt líf inn í hverfin. Bílastæðin má færa í opin bílastæðahús. Eigendur núverandi fasteigna myndu fá greitt fyrir hluta af lóðinni sinni en myndu stundum í staðinn þurfa að greiða fyrir dýrari bílastæði, ef þeir telja sig þurfa þau. „Tómu“ skólarnir í þessum hverfum myndu fá nýja nemendur og íbúasamsetning breytast.

    Nefni sem dæmi Bólstaðarhlíð, Álftamýri, Álfheima, Háaleitisbraut, Stóragerði og margar götur í Breiðholti. Þessi hús einkennast af háum húsum á stórum lóðum sem eru nær eingöngu bílastæði og grasflöt. Nýtingin á þessum lóðum virðist lítil sem engin nema sem geymslustaður fyrir bíla og grasslátt.

  • þorgeir Jónsson

    Charles-Édouard Jeanneret-Gris betur þekktur sem Le Corbusier (1887-1965) taldi okkur trú um að randbyggð væri óhentugt form á byggð í styrjöldum. Margar randbyggðar borgir Evrópu fóru einmitt illa í loftárásum seinni styrjaldar. Þær féllu eins og spilaborgir. Hann setti fram nýja nálgun sem miðaðist við að fela húsin í landaslaginu svo erfiðara væri í framtíðinni að eyða þeim í loftárásum. Þetta hefur verið ríkjandi form í skipulagi æ síðan. Hér sjáum við svo skipulagsform þar sem kostir randbyggðar og garðhugmynda Le Corbusier eru sameinaðar. Hver veit? Gæti þetta verið lausnin eða er þetta álíka galið í næstu styrjöld?

  • Loftur Þorsteinsson

    Ég vil vekja athygli á Västra Hamnen í Malmö (við Turning Thorso) sem vel heppnað skipulag á randbyggð. Þarna eru ólíkar húsagerðir að stærð og formi, en samt er svæðið heilstætt og spennandi.

  • Fagleg umræða er hér án yfirgangs sérfræðinga. Takk fyrir það

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og þremur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn