Föstudagur 26.02.2016 - 08:00 - 14 ummæli

„Nýbyggingafíkn“

IMG_7775

Ég hef átt skemmtileg samtöl við kollega mína hér í París að undanförnu þar sem við ræddum aðallega um starfið og það umhverfi sem við vinnum í.

Hér eins og víða er offramboð af arkitektum. Einn sem ég talaði við sagði að einungis um það bil 30% af þeim sem útskrifast úr arkitektaskólunum vinni við sitt fag. Og ekki bara það, heldur væri um 70%  af þeirra vinnu tengd endurnýjun og uppbyggingu gamalla húsa eða viðbyggingar við eldri hús. Það er að segja að einungis um 10% útskrifaðra arkitekta vinnur við uppbyggingu á “green field” með svipuðum hætti og sennilega um 97% íslenskra arkitekta gera.

Þetta kemur mér ekki á óvart vegna þess að mér hefur verið tjáð að á Bretlandseyjum vinni um 70% arkitekta við eldri byggingar. Í Danmörku er sagt að á arkitektaskólunum séu deildirnar fyrir efndurnýjun eldri húsa vinsælastar allra deilda af nemendum skólanna.

Eftir því sem mér er sagt fer lítil kennsla í þessum fræðum fram á byggingalistadeild Listaháskólans.

Hvernig ætli standi á því að þetta sé með öðrum hætti á Ísland en víða annarsstaðar?

Einhver sagði að það væri vegna þess að við erum haldin “nýbyggingarfíkn”.  Við viljum að allt sé nýtt og berum litla virðingu fyrir gömlu og sérstaklega gömlum húsum. Þetta er sennilega rétt vegna þess að við sjáum að allstaðar er verið að byggja ný hús og okkur er ekkert sérlega umhugað um að leyfa eldri húsum að standa. Þess vegna eigum við  ekki mörg gömul hús.

Menn hafa jafnvel flokkað þjóðina í þessu samhengi í tvo andstæða flokka, „verndunarsinna“ og „uppbyggingarsinna“ þar sem uppbygginarsinnar þykja smart. En svona er þetta ekki í Frakklandi. Þar eru verndunarsinnar álitnir uppbyggingarsinnar og þeir þykja smart her í Frakklandi.

Þrátt fyrir offramboðið af arkitektum er ekki mikið um undirboð þegar kemur að þjónustu arkitekta. Þeir reikna sér rúm 10% af framkvæmdakostnaðinum í þóknun. Það er allnokkru meira en á Íslandi en á móti kemur er að frönsku arkitektarnir vinna fleiri verkþætti en þeir íslensku, ef ég skil þá rétt.

Á Íslandi er hægt að telja þá á fingrum anarrar handar sem hafa fullt starf við endurbyggingu eldri húsa.

+++

Færslunni fylgja þrjár ljósmyndir sem teknar voru síðdegis í gær. Þær eru innan úr verslun UNIQLO í Le Marais hér í borginni. Versluninn er innréttuð í gömlu verksmiðjuhúsi sem er inni í húsagarði og er með hlið að götunni sem er einungis um 4 metrar. Í miðju rýminu er gamall skorsteinn sem hefur verið gefið framhaldslíf í tískuversluninni, þó svo að hann hafi ekki annan tilgang en að minna á sögu hússins og útvíkka hina sögulegu vídd. Húsið hefur ekkert útlit en þeim mun glæsilegra „innlit“

IMG_7777

 

IMG_7778

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (14)

  • Hilmar Þór

    Það er kannski ástæða til þess að geta þess að í húsnæðinu var málmbræðsla. Þar var fyrir meira en hundrað árum steypt svalahandrið og annað sem notað var í byggingariðnaði. Þarna var líka brætt gull.

  • Þetta er kostulegur samanburður. Á íslandi er yfir 90 prósent bygginga reistar eftir 1960. Við höfum einfaldlega ekki úr mörgum gömlum bygginga að moða.

    • Sigurlaug

      Einmitt. Þess vegan eigum við að fara okkur sérstaklega hægt þegar kemur að niðurrifi eldri húsa og innréttinga!

  • Orri Ólafur Magnússon

    Jón Jónson. Þakka þér fyrir áhugaverða athugasemd um varðveislu – og förgun – innréttiganna úr gamla Reykjavíkurapóteki . Þetta er skelfilegt ! Því miður hef ég enga minnstu ástæðu til að efast um frásögn þína ; afdrif þessara sögulegu minja og algjört skeytingarleysi ( þáverandi ) eiganda hússins eru í fullu samræmi við villimennskuna sem ríkir á þessu skeri. Augljóst er að Þjóðminjasafnið hefur þarna brugðist hlutverki sínu. Vitaskuld kann svo að hafa verið að þjóðminjavörður hafi á þessum árum ekki haft neitt handhafavald yfir þessum munum. Nú er það því miðu um seinan. Það er grátlegt að Íslendingum hefur tekist að farga og eyðileggja annað eins af sögulegum verðmætum sínum með fávitaskap sínum einum og tortímdust í loftárásum allra stríðsaðila í síðustu heimsstyrjöld – auðvitað miðað við fólksfjölda og það sem litla var fyrir hendi hér á landi.

  • Torfi Hjartarson

    Það liggja víða glötuð tækifærin sem mönnum hafa yfirsést í borginni til nýsköpunar í eldri byggingum. Þess vegna fannst mér gríðarlega áhugavert þegar prófessor úr LHÍ ásamt fleirum hafði frumkvæði að endursköpun gamla Marshallhússins úti á Granda en húsið verður opnað almenningi auk þess sem þar verður rekin menningar- og listamiðstöð. Menn þurfa bara að fókusera á tækifærin en ekki hvort hulstrið verður ungt eða gamalt.

  • Jon b g Jonsson

    Í Stokkhólmi er verið að byggja hús fyrir Nóbelsnefndina. Við hliðina á gömlu húsi. Fara þeir ekki Sigmunds leiðina sem margir eru hrifnir af. Nei auðvitað ekki. Framsæknir menn svíar. Samkeppni og arkitektastofa frá Bretlandi vann með mjög nýtískulegri hönnun. Við hliðina á gömlu húsi..
    Í Helsinki er verið að byggja nýtískulegt og modern hús í borg þar sem allt úir og grúir af gömlu. Finnar alltaf flottir. Norðmenn lifa líka í nútímanum. verið er að byggja í Oslo framúrstefnu byggingu. Ekki er nú skortur á gömlu þar.
    Í öllum þessum borgum er verið að blanda saman nýju og gömlu á flottan hátt. Má það bara alls ekki í Reykjavík? Eða er heimóttarskapurinn svo yfirgengilegur hér að margir kjósa helst burstabæjarstílinn.

    • Sigmar H.

      Það er himin og haf á milli þess sem gert er í þessum löndum og því sem gert hefur verið í Reykjavík. Öfgakassahyggja er mun verri en „heimóttarskapurinn.“ Kannski eru betri arkitektar þar að verki? hmmm

  • Nýbyggingafýkn er, held ég, undirdeild í nýjungafýkn, sem við Íslendingar eru mjög haldnir af… sem hefur bæði jákvæðar og neikvæðar hliðar. Við hendum öllu gömlu út og hlaupum í ÍKEA að kaupa nýtt (sem er oft ekki merkilegur varningur… en margt af því gamla er oft merkilegt handverk og hefur mikla sögu… t.d. eldhúsinnréttingar).
    Svolítið erum við búin að læra að meta gömul hús utanfrá, en við höfum verið mjög dugleg henda gömlum innréttingum, t.d. barrokk innréttingu úr Bessastaðakirkju og trébekkjum úr Fríkirkjunni þar sem „mjög flott“ stálhúsgögn voru sett í staðinn… og málað yfir helgimyndirnar með hvítu.
    Í miðbænum hafa geysisöguríkar innréttingar fengið að fjúka nýlega (t.d. úr Tösku- og hanzkabúðinni og Geysisbúð, „ísl. kúltúr“ hannaður á auglýsingastofu… er að koma í staðinn). Listi þessara hryðjuverka er mjög að lengjast um þessar mundir: Fatabúðin, Vísir, Apótekið, Herkastalinn…
    Við arkitektar berum ábirgð og látum lítið heyra frá okkur. Er LHÍ e-h að reyna að gera til að opna augu fólks fyrir þessum menningararfi? Ágætt væri að sýna það besta úr gömlum byggingum og innréttingum í byggingarsögutímum, sem þyrftu þá að fjalla að mestu um ísl. menningu á þessu sviði.
    Hörður Ágústsson ofl. vöktu þjóðina er varðar stök hús, nú vantar vakningu er varðar þau menningarverðmæti sem gamlir bæjarhlutar, eins og t.d. miðbærinn í Rvk er, en þar eru arkitektar í óðaönn að hanna byggingar sem taka ekkert tilllit til einkenna hans. Svo virðist að þetta muni eyðileggja yfirbragð hans mjög fljótlega, nema núna sé mjög fast spyrnt við.

    • Orri Ólafur Magnússon

      Ég er svo hjartanlega sammála þér, Trausti. Engu að síður má greina ljósglætu við sjóndeildarhringinn ; ég hef heyrt það, enda þótt það hafi ekki verið staðfest, að eitthvað af þessum sögulegu innréttingum verslana í miðbænum hafi verið bjargað – þær séu einhvers staðar ( ? ) í vörslu Þjóðminjasafnsins ( ?) eða borgarinnar, eða, eða. „Módernisering“ og „parkettisering“ Bessastaðakirkju var vissulega mikið slys. Því miður voru Íslendingar á þessum árum – miðja síðustu öld – enn ekki orðnir meðvitaðir um aðra og nýrri minjar en þær frá „Söguöld“ . Ég hef ekki komið inn fyrir dyr á nýja hótelinu þar sem áður var Reykjavíkurapótek – eftir því sem ég hef lesið hafa þeir sem reka hótelið tekið tillit til fyrri innanstokksmuna og það er vel.

    • Jón Jónsson

      Ég væri gjarnan til í að fá að vita _hvar_ friðuðu innréttingarnar sem voru teknar niður séu geymdar. Ég hef sterkan grun um að það sé aðeins krafa um að þær séu „teknar niður og varðveittar“ en akkúrat engin eftirfylgni sé með því hvar þær séu geymdar og/eða hversu lengi áður en þær eru látnar hverfa.
      Ég var fyrir ca. 10 árum síðan að vinna á ónefndum lager í Reykjavík þar sem amk. hluti af innréttingunum úr Apótekinu voru í hrúgu úti í horni undir lekum glugga. Þær voru þar á vegum þáverandi eiganda hússins, og var þaðan hent í Sorpu þegar lagerinn var tæmdur og húsið rifið. Þegar ég spurði út í þetta var mér sagt að skipta mér ekki af þessu, það „væri öllum drullusama“.
      Sama skildist mér að væri uppi á teningnum með innréttingarnar úr Ömmu Lú og fleiri húsum, það sem væri til einhversstaðar væri í ódýrum geymslum og lægi þar undir skemmdum.
      Ég þekki líka rafvirkja sem vann við enn einar breytingarnar á Apótekinu í fyrra. Hann vitnaði um þegar kjarnaborað var í gegnum friðuðu loftlistana fyrir nýjum ofna og vatnslögnum „óvart“, og það svo falið á bak við klæðningar.
      Svo virðist sem brotalöm sé á því að hlutir séu friðaðir, en enginn sé að fylgjast með því hvað verði um innréttingarnar eftir 2-3 ár.

  • Orri Ólafur Magnússon

    Merkileg hugleiðing um byggingaframkvæmdir í Frakklandi annars vegar og Íslandi hins vegar. Enda þott ég hafi ekki kannað málið ofan í kjölinn, sýnist mér að það sama sé upp á teningnum í Þýskalandi. Eftir sameiningu Austur – og Vestur-þýskalands féll þessu nýja og stærra sambandslýðveldi í skaut gríðarlega mikið af gömlum, sögulegum en niðurníddum byggingum, t. d. borgin Erfurt í Thueringen. Þjóðverjar sáu sóma sinn í því að koma þessum byggingum í upphaflagt horf með ærnum tilkostnaði. Þess vegna má oft finna bestu dæmin um „rómanískan“ bindiverks – arkítektúr í austurhluta Þýskalands. Ef til vill væri það ráð að „punta upp á“ byggingar á ladsbyggðinni hér á landi – gera húsin eftirsóknarverð til íbúðar – og með því stemma stigu við flóttanum úr dreifbýlinu ?

  • Góð og tímabær hugleiðing.

  • Helgi Mar

    Mikið til í þessu. Margar horfnar byggingar sem koma upp í hugann sem hefðu getað fengið gott framhaldslíf ef þær hefðu ekki verið rifnar.

  • Sigurlaug

    „Nýbyggingafíkn“…… Fræabært og velviðeigandi hugtak!

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og fimm? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn