Nýlega voru tilkynnt úrslit í alútboði vegna stúdentagarða við Sæmundargötu við Háskóla Íslands í Reykjavík.
Alútboð er útboðsform þar sem teymi ráðgjafa og verktaka bjóða til sölu heildstæða lausn. Þ.e.a.s. undirbúning, hönnun og framkvæmd. Þetta er vinsælt útboðsform hjá sumum verkkaupum og á stundum við. Einkum þegar um er að ræða einföld hús eða starfssemi þar sem ekki eru margar óþekktar breytur sem auka á óvissuna.
Þau fimm teymi sem tóku þátt í útboðinu voru
- IAV verktakar með VA arkitekta sem ráðgjafa
- Ístak með Yrki arkitekta sem ráðgjafa
- JÁ verk með Arkís sem ráðgjafa
- SS verktaki með arkitektana Hornsteinar sem ráðghjafa.
Í alútboði eru verkin metin útfrá verði og gæðum. Þ.e.a.s. að bæði efnisleg og arkitektónisk gæði ásamt byggingarkostnaði er sett á vogarskálarnar og lausnin metin heildstætt.
Í þessu alútboði hlutu besta dóminn SS verktakar ásamt arkitektastofunni Hornsteinum. Fagdómarar voru þeir Páll Gunnlaugsson og Sigurður Hallgrímsson arkitektar.
Í dómnefndaráliti segir m.a. um vinningstillögun:
„Tillagan er sérlega vel unnin og uppfyllir óskir um fjölbreytilegt útlit. Frávik frá stífum línum deiliskipulags í Klasa 3 (K3) er ögrandi og skemmtilegt „stílbrot“. Íbúðir eru vel leystar, þó dómnefnd þyki gangar full langir. Sameiginleg eldhús eru skemmtilega staðsett með góð tengsl við umhverfi. (….) Inngarðar eru vel leystir og tillagan hefur allar forsendur til að vera skemmtileg umgjörð fyrir stúdenta“.
Eftir að hafa skoðað tillögurnar sýnist mér dómnefnd hafi komist að skynsamlegri niðurstöðu. Húsin eru vel hönnuð og nemendaíbúðirnar glæsilegar.
Þó átti ég ekki auðvelt með að átta mig á meginatriðinu sem er spurningin hvernig allt þetta byggingarmagn fer á svæðinu. Ég skil hvorki hvernig dómurunum eða þáttakendum tókst að meta það vegna þess að engin snið eða uppdrættir sýndu tengsl húsanna við umhverfið. Snið í gegnum Suðurgötu, Aragötu, Oddagötu, Sæmundargötu og alla leið niður á sléttlendið að IE, hefði hjálpað. Þetta skapar mikla óvissu sem gerir það að verkum að maður veit ekki hvort hér er um góða framkvæmd að ræða eða slæma. Auðvitað liggur fyrir deiliskipulag sem húsin eru hönnuð inn í. Maður verður að treysta því að deiliskipulagið sé í lagi.
En það er ekki alltaf hægt að treysta deiliskipulagi. Svipað var uppi á teningnum þegar stúdentagarðar við Lindargötu voru byggðir fyrir örfáum árum. Þar lá fyrir deiliskipuilag sem hönnuðir teiknuðu húsin inn í. Maður sér nú að það deiliskipulag var gallað.
Ég vil bæta því við að þetta er ein fjögurra samkeppna sem ég man eftir þar sem dómnefnd (útbjóðandi) breytir samkeppni í miðju ferli úr eins þreps samkeppni í tveggja þrepa. Þarna er mikill munur á. Það er auðvitað tóm vitleysa og rangt vinnulag. Hinar samkeppnirnar voru um flugstöð Leifs Eiríksonar, Laugarnesskóla og skóla í Norðlingaholti.
Svona verklag rýrir traust verkkaupa og þáttakenda á samkeppnisforminu og ber að fyrirbyggja enda ófaglegt. Þegar niðurstaða liggur fyrir í samkeppni þá eiga að hefjast viðræður milli verðlaunahafa og verkkaupa. Ef samningar takast ekki á að ræða við þá sem eru í öðru sæti. Að bæta við nýju þrepi í samkeppninni miðri eru einkennileg vinnubrögð sem ekki er gert ráð fyrir í reglum og leiðbeiningum.
Efst er tölvumynd sem sýnir útlit húsanna þar sem horft er suður Oddagötu og neðst er tölvumynd af hjónaíbúð.
Á slóðinni að neðan má kynnast deiliskipulaginu og verða lesendur að nota ímyndunaraflið til þess að átta sig á því hvernig húsin falla að byggðinni.
http://blog.eyjan.is/arkitektur/2010/05/12/visinda-og-studentagardar-vid-hi/
hvað haldiði að veslings vigdís fyrrum forseti haldi um þetta *snökt*
Ég hef ekki kynnt mér tillögurnar en af þessum myndum að dæma virðist vinningstillagan einföld og litríkt. Vonandi ekki of einföld ?
Metnaðarfull grafík !
Svona íbúðir henta líka ekkjum og ekklum. Fyrir fólk sem ekki er tilbúið að fara á elliheinil. Er ekki tækifæri þarna fyrir byggingaiðnaðinn?
Veikasti hlekkurinn í borgarumhvrfinu er skipulagið sem ætti að vera óþarfi. Ef stúdentagarðarnir við Lindargötu eru hannaðir samkvæmt eihverju deiliskipulagi ætti að taka réttindin af skipulagshöfundunum ef ekki er þegar búið að því. En þessi hús lofa góðu. Ég skoðaði sýninguna á Háskólatorgi sem ég held að standi enn.
Þetta er allt í áttina. Sumir stúdentagarðarnir sem hafa verið byggðir eru agalega ljótar byggingar (stúdentagarðarnir á Lindargötu minna t.d. frekar á fangelsi en venjuleg híbýli).
Það er fullt af fólki, einhleypu og fráskildu, sem sárvantar svona íbúð. Líka ungt fólk sem vill flytja að heiman og fólk utan af landi sem þarf afdrep i borginni. Þetta eru flottar teikningar.
Af hverju er ekki byggðar svona litlar flottar íbúðir fyrir almennan markað? T. d. í allskonar innfill í eldri hverfum.