Mánudagur 12.09.2011 - 15:12 - 5 ummæli

Nýr Landspítali við Barónsstíg og Eiríksgötu

 

Páll Torfi Önundarson yfirlæknir og prófessor við læknadeild Háskóla Íslands sendi síðunni hjálagða grein. Hér fjallar hann um tvo staðsetningarvalkosti á lóð gamla Landsspítalans sem hann telur kunni að vera enn hagkvæmari og falla betur að byggðinni en sú staðsetning sem nú er til umræðu. 

Inngangur

Ný skipulagstillaga Landspítala hefur nú verið kynnt og sýnist sitt hverjum og ekki er laust við að sundurlyndisfjandinn leik lausum hala. Með þeim breyttu byggingaráformum, sem fyrir liggja mun afleit aðstaða sjúklinga og sérhæfðustu lækninga á Íslandi vonandi færast í nútímahorf og talið er að veruleg hagræðing náist vegna samlegðaráhrifa. Þótt ég styðji eindregið byggingu nýs spítala ætla ég þó í þessari grein að benda á annan staðsetningarvalkost á lóð gamla Landspítalans, sem ég tel að kunni að vera enn hagstæðari og falla betur að annarri byggð heldur en sú staðsetningartillaga, sem unnið er eftir á neðri lóð sjúkrahússins. 

 

Forsaga og staðsetningarákvörðun

Landspítali er endastöð sérhæfðustu lækninga á Íslandi og aðal-kennslusjúkrahús landsins. Þótt rekstur Landspítala hafi verið sameinaður árið 2000 og álag og umfang starfsins hafi aukist árlega, starfar sjúkrahúsið í gömlu, óhentugu, þröngu og bókstaflega sjúklingafjandsamlegu húsnæði, sem dreift er um Reykjavík. Það var ljóst frá upphafi, að ef sameining sjúkrahúsanna ætti að skila fullum árangri, faglega og rekstrarlega, þá yrði að koma sem mestri bráðastarfsemi, þ.e. flestöllum sérgreinum lækninga, sem fyrst í eitt hús. Það er ógerningur í núverandi húsnæði. 

 

Í grein í Morgunblaðinu 29. mars 2001 gerði ég að tillögu minni að strax yrði hafist handa við byggingu “bráðaþjónustuhúss án legudeilda, sem byggðar yrðu síðar” á efri hluta lóðar gamla Landspítalans.  Tillagan hlaut ekki undirtektir stjórnenda, sem notuðu næstu misserin til þess að vinna miklu stærri nýbyggingu fylgis og til þess að skoða framtíðarstaðsetningu sjúkrahússins á öllu Reykjavíkursvæðinu. Árið 2002 ákváðu stjórnvöld, að framtíðaruppbygging sameinaðs Landspítala yrði á lóðinni “við Hringbraut”, þ.e. milli Barónsstígs, Eiríksgötu og Hringbrautar.  Sú ákvörðun byggði m.a. á þeirri staðreynd, að á Hringbrautarlóð væri þá þegar miklu meira nýtanlegt byggingamagn (um 60.000 fermetrar, 67%) heldur en á lóðinni í Fossvogi (um 30.000 fermetrar, 33%).  Einnig var tekið tillit til staðsetningar kennsluspítalans í nálægð við Háskólann og flugvöllinn, nýr barnaspítali hafði verið reistur við Barónsstíg og uppbyggingarsjónarmið í miðborg Reykjavíkur vógu nokkuð.

 

Vorið 2006 var svo kynnt tillaga um að byggja upp frá grunni nýtt risastórt (um 135.000 fermetra) kennslusjúkrahús neðan gamla Landspítalans á stækkaðri “Hringbrautarlóð”, sem fól m.a. í sér flutning Hringbrautar í suður skv. nýju deiliskipulagi. Óskað var eftir athugasemdum við deiliskipulaginu.  Að áliti undirritaðs vék þetta deiliskipulag einni aðalforsendu ákvörðunar um staðsetningu Landspítala í miðbænum til hliðar því sú tillaga gerði ráð fyrir tiltölulega litlum notum af eldri byggingum á efri hluta lóðarinnar á Hringbraut. Gerði ég þá aftur tillögu um minni og að mínu mati hagsýnni stækkun spítalans með aðaláherslu á byggingu bráðaþjónustuhúss á efri (þ.e. núverandi) hluta lóðarinnar í fyrsta áfanga.  Kynnti ég hugmyndina á fundum og birti ég um hana grein í Morgunblaðinu 2. júní 2006). Þessi tillaga var lík gamalli tillögu White arkitekta um áratug fyrr.  Aftur hlaut tillagan engar undirtektir stjórnenda.  En eitthvað stóð stórbyggingin í æðstu ráðamönnum og í ljósi efnahagsaðstæðna haustið 2008 frestaði Alþingi svo nýbyggingunni við setningu fjárlaga.

 

Bráðaþjónustuhús við Hringbraut

Eftir að hafa metið stöðuna og kynnt sér fyrri tillögur, þ.á.m. tillögur undirritaðs, gerði Hulda Gunnlaugsdóttir þáverandi forstjóri Landspítala snemma árs 2009 í samvinnu við norska arkitekta formlega tillögu um byggingu bráðaþjónustuhúss, þ.e. um 66.000 fermetra nýbyggingu á neðri hluta Hringbrautarlóðar í stað þeirrar 135.000 fm byggingar sem áður var fyrirhuguð á sama stað.  Það er þessi tillaga, sem er í hönnun sem fyrsti áfangi hins nýja skipulags, sem kynnt hefur verið. Bráðaþjónustuhúsið við Hringbraut verður hjarta hins nýja sjúkrahúss, þ.e. bráðamóttaka, röntgendeildir, skurðstofur, gjörgæsludeildir og rannsóknastofur og einnig nýjar legudeildir. Ólíkt tillögu minni gerir “norska tillagan” ráð fyrir því, að bráðaþjónustuhúsið verði byggt á reit rétt sunnan við gamla spítalann en neðar í brekkunni. Tillagan leysir brýnasta vanda sjúkrahússins næstu árin og tryggir faglega sameiningu stórs hluta bráðastarfseminnar í eitt nútímalegt hús. En ásýnd spítalans og Reykjavíkur breytist mikið verði neðri hluti lóðarinnar valinn – og nýting gömlu húsanna verður e.t.v. ekki jafn góð eins og ef efri lóðin væri valin.

 

Er annar valkostur á Hringbrautarlóð?

Þótt ég styðji eindregið áform um byggingu bráðaþjónustuhúss sem allra fyrst leyfi ég mér í þessari grein að ítreka staðsetningarmöguleika bráðaþjónustuhússins á efri hluta lóðarinnar. Staðsetning á nýbyggingum efri hluta lóðarinnar myndi hugsanlega leysa mesta húsnæðisvandann miklu fyrr en norska tillagan. Á efri lóðinni má nefnilega byggja sjúkrahúsið upp í smærri áföngum sem komast strax í gagnið með áherslu á bráðastarfsemi í fyrsta áfanga, þ.e. annað hvort við Barónsstíg þar sem “Kringlan” er núna eða við Eiríksgötu í framhaldi af W-væng.  Með staðsetningu húsanna á efri lóðinni skapast strax styttri og betri innanhústengingar við núverandi húsnæði, t.d geðdeild og barnadeildir. M.ö.o. nýtast eldri byggingar miklu betur næstu árin, sem gæti verið skynsamlegt í brimróti skuldadaga Íslendinga.  Stækka mætti K-byggingu sem rannsóknastofubyggingu en stækkun er fullhönnuð og með byggingarleyfi. Eins fljótt og auðið er mætti svo byggja nýjar byggingar og tengibyggingar á efri hluta lóðarinnar (þar sem gamli Hjúkrunarskólinn stendur nú og í suðurátt) eða þar sem gamli blóðbankinn og líffærameinafræðin er nú. Staðsetning spítalans við Eiríksgötu hefði einnig mun minni áhrif á ásýnd spítalans í heild, Skólavörðuholtsins og Þingholtanna heldur en bygging neðan gamla spítalans en það hlýtur að skipta borgarbúa máli.

 

Lokaorð

Bygging þjóðarsjúkrahúss er verkefni, sem skilur eftir sig risaspor til framtíðar. Byggingin er nauðsynleg en deila má um staðsetninguna en þó ekki út í það óendanlega. Undirritaður styður nýbyggingu sjúkrahúss en ítrekar skoðun tillögu þess efnis að staðsetja mætti hjarta sjúkrahússins á efri lóð Landspítalans milli Barónstígs og Eiríksgötu en ekki neðar á lóðinni við Hringbraut eins og núverandi tillögur ganga út á.  Með því myndi gamla Hringbrautin og sjónlínur frá 1930 til gamla spítalans haldast lítt breyttar. Mikilvægt er þó að tillaga sem þessi leiði ekki til seinkunar byggingaráforma.  Því þurfa skipulagsyfirvöld Reykjavíkurborgar að taka af skarið hið fyrsta þannig að hagkvæmnis- og ásýndarsjónarmiðum sé mætt

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (5)

  • Magnús Karl Magnússon

    Minn góði félagi Páll Torfi bendir hér á frumlega lausn. Ég hef ekki skoðun á staðsetningu húsanna á lóðinni – ég læt mér fróðari mönnum (arkitektum / skipulagsfólki) um slíkt mat. Við Páll Torfi erum samstíga um nauðsyn þess að byggja sem fyrst og að Hringbrautarstaðsetning sé besta lausnin.
    Þakka Hilmari Þór fyrir að koma fjölbreyttum sjónarmiðum til skila og ég vona að umfjöllunin haldi áfram að vera málefnleg og án upphrópana.

  • Jón Guðmundsson

    Bottom line: professorarnir tveir eru sammála um staðinn en ekki stærðina

  • Arkitektar, þá er bara að fara að ydda blýantana og vinna út frá þessari hugmynd, sem mun greinilega tengja alla starfsemi spítalans vel saman innandyra. Og utandyra mun hún ekki þenja sig út um alla mýri. Hér er greinilega „kompakt“ og hagkvæm lausn.

  • Mér sýnist -að teknu tilliti til allra þátta- að hér sé kominn
    vísir að Salómons-dómi,
    sem allir ættu að geta þolanlega vel við unað.
    Megi Páll Torfi hafa þökk fyrir.

  • Páll Torfi Önundarson

    Þakka birtinguna. Athugið að þetta er greinin sem birtist í Morgunblaðinu þ. 10. september sl. Sé efri hluti lóðarinnar valinn fyrir stækkun sjúkrahússins má koma þar fyrir 40-60.000 fermetrum í viðbót við gömlu húsin. Til samanburðar eru núverandi byggingar í Fossvogi 30.000 fm og á Hringbraut 60.000 fm. Ásýnd borgarinnar þyrfti ekki að breytast mikið.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og einum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn