Sunnudagur 01.02.2015 - 11:27 - 24 ummæli

Nýr Laugavegur

aLaugarvegur01_1-1000x709

Reykjavík er að breytast úr þorpi í borg. Aðalskipulagið AR 2010-2030 gerir ráð fyrir að greiða götur gangandi, hjólandi og þeirra sem velja að ferðast með almenningsvögnum og bæta mannlíf á götunum.

Aðalskipulagið frá 1962- 84 gerði ráð fyrir því að allir hefðu yfir einkabifreið að ráða. AR 2010-2030 gerir ráð fyrir nútímaborg þar sem fólk getur ferðast um og sótt alla þjónustu án þess að hafa einkabíl til afnota.

Í samræmi við þetta er borgin víða að hlúa að þessum markmiðum. Ett átakið snýr að því að festa Laugarveginn í sessi sem göngugötu og var boðin út samkeppni meðal arkitekta um útfærslu hugmyndarinnar

Sú lausn sem dómnefnd valdi sem sigurvegara er í anda þess sem var að gerast víða um lönd fyrir svona 20-40 árum. Lausn sem menn hafa víða snúið baki við.

Fyrir áratugum teppalögðu menn göturnar með einhverju hellumunstri  með það að markmiði að leysa upp hefðbundnar stefnur sem gangandi og akandi þurftu að fara áður en bílarnir hurfu úr götunum og fótgangandi tóku rýmið yfir.

Aðstandendur samkeppni um nýjan Laugarveg hafa gleymt  hinni sögulegu vídd í hugmyndafræðinni. Þeir gleymdu gömlu götunni og sáu ekki heildina og þau skilaboð sem sjálf gatan sendi vegfarendum. Svipað og húsin gera. Sjálf gatan er jú meira en 1/3 af ásýnd götunnar og hefur ekki minna sögulega þýðingu en húsin sem við hana standa.

Áfyrie 20 árum voru menn, og eru kannki enn,  uppteknir af sögu húsanna og gerð þeirra. Byggingarefni, bjórum við glugga, portlistum, steinun, þakrennum, gluggum, hurðum og handverki húsanna og sögu þeirra. En þeir gleymdu sjálfri götunni og sögu hennar. Þeir teppalögðu allt með sama hætti eins og um væri að ræða værðarvoð eða teppi eða nýja götu í úthvefi þar sem aldrei var gert ráð fyrir bílum. Komu svo fyrir götugögnum í samræmi við tíðarandann en ekki sögu götunnar. Menn hafa sagt þessa nálgun vera stílbrot.

Við þekkjum þetta frá Strikinu í Kaupmannahöfn og víðar. En síðan Strikið var hannað sem göngugata hafa menn áttað sig á því að hin sögulega vídd sjálfrar götunnuar skiptir ekki síður máli en saga húsanna sem við hana standa. Nýrri göngugötur í nágrenni Striksins eru hannaðar með öðrum hætti.

+++++

Eitthvað það skemmtilegasta við umræðu um arkitektúr og skipulag er einmitt það að allir hafa að vissu marki rétt fyrir sér þó þeir séu ekki sammála.

Ég er í þessu máli ósamála dómnefnd sem ber ábyrgð á forsendunum og niðurstöðunni. Ég er  þeirrar skoðunnar að  innan nokkurra ára munu menn sjá að sér og endurgera götuna í samræm við sögu hennar og sögulega vídd.

„Maður flýr ekki uppruna sinn“.

+++++++

Maður spyr sig hvort fulltrúi Minjastofnunnar hafi omið að samkeppninni? Þetta er jú meira en 1/3 af ásynd götunnar og er ekki síður merkileg en húsin sem við hana standa!

+++++++++

Strax hér að neðan koma þrjár ljósmyndir.

Sú fyrsta er af nýlegri gönguleð á Manhattan í New York, High Line Park. Þar hafa hönnuðirnir látið járnbrautarteinana halda sér eftir endilangri gönguleiðinni til þess að minna á tilurð hennar og sögu.

Á næstu mynd er gata í Mýrinni í París þar sem með áberandi hætti er bent á upprunan hennar um leið og augljóst er að fótgangandi vegfarendum er vísað á það svæði sem ætlað var bílum (hestvögnum) áður.

Og loks mynd frá einni dýrustu verslunargötu í Bandaríkjunum, Rodeo Drive í LA, þar sem litlum hluta götunnar er ætlaður fótgangandi. Grunndvalaratriðum og sögu götunnar er haldið til haga.

Í öllum dæmunum hafa menn ekki gleymt hinni sögulegu vídd eins og menn hafa gert í samkeppninni um nýjan Laugarveg.

++++++

Allar myndirnar eru fengnar af vefnum.

1069995_10153136621680122_2060447907_n

Hvergi hafa hönnuðir The High Line Park látið framhjá sér fara tækifæri til þess að minna á að þarna gekk  í öndverðu járnbraut að hafnarsvæðinu á West Side. Járnbrautarteinarnir er hvarvetna sýnilegir og á þá er minnt.

http://www.viaggiareliberi.it/Ospiti/FrancoPaolotti/zc.LosAngeles.RodeoDrive.JPG

Hér á Rodeo Drive í LA, sennilega dýrustu verslunargötu Bandaríkjanna,  er engum menningarminjum kastað á glæ. Þvert á móti eru þær upphafnar þannig að engum getur dulist að þarna fóru bílar um á árum áður.

http://www.carfree.com/cft/ParisPedestrianStreet2b-480.jpg

Nýuppgerð göngugata í Mýrinni í París þar sem hönnunin leggur áherslu á að gatan sem áður var fyrir bíla er nú ætluð fótgangandi. Granítlagðar göturnar bera merki þess að þær eru slitnar af hjólum hestvagna aldanna. Hér er ekki verið að fela ea endurskrifa söguna eins í verðlaunatillögu Laugarvegar heldur að minnt á hana og ekkert gefið eftir í þeim efnum.

Að neðan koma nokkrar myndir af verðlaunatillögu um nýjan Laugarveg til upplýsingar og skýringar. Saga götunnar er afmáð eftirlitslaust að því er virðist meðan saga flestra húsanna er vandlega varðveitt, mörg í umsjá Minnjaverdar.

 

 

Laugarvegur03-1000x468

 

Laugarvegur05-1000x707

 

 

 

Laugarvegur06-729x1352

 

Laugarvegur07-717x617

Laugarvegur08-715x609

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (24)

  • Guðrún Þorsteinsdóttir

    Mér finnst Aðalstræti við Víkurkirkjugarð vel heppnuð gatnahönnun. Þar er hæðarmunur og spil í götunni. Lítillát hönnun og falleg sem er í góðu samræmi við húsin við Aðalstræti. Af hverju þarf alltaf að gera eitthvað sem aldrei hefur verið gert áður? Af hverju ekki byggja á fyrri reynslu og endurskoða þær hugmyndir og bæta?

  • Steinarr Kr.

    Það verður alltaf erfitt að gera fallegar götur á Íslandi sem eiga að endast eitthvað út af nagladekkjunum. Nagladekkin mynda alltaf sltirásir, hvor sem um er að ræða malbik eða steypu. Helst þyrfti að vera mjór slitrenningur til akstur sem malbikaður væri árlega eða annað hvert ár.

  • Takk fyrir pistlana þína Hilmar. Þeir eru alltaf mjög áhugaverðir og skemmtilegur léttur tónn í skrifunum:)

    Los Angeles, París og Kaupmannahöfn. Við erum, held ég, á rangri leið með að loka fyrir alla bílaumferð. Við miðum okkur við borgir þar sem veðurfar er allt annað og betra. Kannski hef ég rangt fyrir mér en ég hef ekki áhuga á að ganga Laugaveginn í nístingskulda og norðangarra. Göngugötur eru þó fallegri en bílagötur ef einhver nennir í Kraftgallanum að versla.

    • Hilmar Þór

      Kannski er þetta lausn sem má nota á Laugavegi?

      http://blog.pressan.is/arkitektur/2012/12/11/laugavegur-a-adventu-pps-gata/

    • Mér líst vel á að hafa Laugaveginn PPS á jólum og aðventu, enda þá það mikil umferð gangandi vegfarenda, að erfitt er að sameina hvoru tveggja. Ég á hinsvegar erfitt með að sjá fyrir mér hvernig ‘Shared Street’ virkar í framkvæmd. Ætla að lesa mér til um það hvernig þvíumlíkt hefur tekist annarsstaðar.

      Ég verð að skjóta því inn hér hvað mér finnst glimrandi hugmyndin í síðasta pistlinum þínum um að hafa matvörumarkað á Miðbakka. Veit um marga sem hafa mikinn áhuga á því að fá slíka þjónustu.

  • Full ástæða er til að taka ábendingu Hilmars alvarlega.
    Tillagan hefur vankanta,sem sennilega má lagfæra.
    Vel gerð göngugata á að „binda húsin saman“.Dæmi um slíkt má upplifa í mörgum borgum Miðjarðarhafslanda,frábært dæmi er Dubrovnik.
    Með því að setja vatnsrennunrnar nærri „gömlu“ mörkum gangstétta er vissri
    „sögulegri vídd“ gerð skil á einfaldan og mjög eðlilegan hátt.
    Forðast á að „mynstra“ götuna eins og „tilvijunarkennt design“,slíkt þekkist ekki í borgum eins og t.d. á Ítalíu,sem enn eru fyrirmyndir þó gamlar séu.

  • Birgir Örn Jónsson

    Reykjavík er enn að fæðast, hún hefur tæpast getað kallað sig borg fyrr en á allra síðustu áratugum, ef þá það.
    Af hverju hverfist gagnrýni um byggingar og götur yfirleitt um þessa sögulegu vídd, eða skort á henni? Í hvað viljum við halda? Viljum við gera borgarmótunina svo stirða, að hvert einasta verkefni þurfi að vísa í allt það sem á undan kom, sama hvers eðlis það var? Maður hlýtur að velja það sem gagnlegt og áhugavert er á hverjum tíma, og bæta svo við, og halda áfram.

    Sagan er leið til þess að ljá umhverfinu merkingu, en hún er bara ein af mörgum leiðum, og hún hefur ekki merkingu í sjálfu sér. Við munum ekki setjast með kaffi á sigið og forljótt malbik bara af því að þannig hefur miðja götunnar verið meðan fólk man. Það er heldur ekki hætta á öðru en að það verði næg ummerki um bílamenningu 20. aldar í Reykjavík um ókomna framtíð, ef maður vill eitthvað halda sérstaklega í það.

    Það þarf að tækla svona verkefni út frá hönnunarlegum, fagurfræðilegum og starfrænum sjónarmiðum. Þau standa og falla ekki með innhaldi eða skorti á sögulegri vídd, heldur hvaða sýn þau birta um borgarlífið og hvernig þau eru útfærð. Þessar langhellur virka til dæmis svolítið klunnalegar, en það er teikningarlegt og handverkslegt vandamál fremur en nokkuð annað, og vonandi að það verði þróað fremur í ferlinu sem er framundan.

    • @Birgir Örn Jónsson: ,,Viljum við gera borgarmótunina svo stirða, að hvert einasta verkefni þurfi að vísa í allt það sem á undan kom, sama hvers eðlis það var?“

      Nei, það viljum við ekki. Heldur að sum verkefni vísi í sumt af því sem á undan kom, einkum ef þau er sérstaks eðlis og varða til dæmis elstu götur borgarinnar.

  • Stefán Benediktsson

    Tek undir með Hilmari. Tók þátt í gerð fyrstu göngugötunnar (Austurstræti, Lækjartorg) 1974 og þá rifum við upp gömlu götuna hellulögðum (á ská) með röndum og hlóðum síðan upphækkaðar gryfjur og settum í þær gróður. áhrifin, fyrirmyndirnar, voru erlendar (sixties) og löngu löngu seinna sá ég í Þýskalandi þessa nálgun sem Hilmar nefnir. Halda gamalli skiptingu götunnar með efnisvali, hellur, steinar, malbik. Fynnst að ætti að varðveita Kjörgarðskaflann. Hann var stærra framfaraskref en annað sem áður hafði verið gert, Eins mætti setja koparplötu í Austursrætið til heiðurs fyrsta græna borgarstjóranum Birgi Íslefssyni.

  • Laugavegurinn er náttúrulega gata og hefur líklega verið það alla tíð frá landnámi. Eftir þessa skynsamlegu ábendingu finnst mér augljóst að hún eigi ekki alltíeinu að hætta að vera það sem hún hefur alltaf verið og breytast í hellulagt útivistarsvæði.

  • Anna Th. Rögnvaldsdóttir

    Þessi verðlaunatillaga er einföld og afar praktísk. Veitingahúsa- og jafnvel verslunareigendur norðan megin við götuna setja út borð og stóla á sumrin og hér er þeim gefinn kostur á að teygja þessi útikaffihúsasvæði sín út á miðja götu. Þannig að þau verði á tveim stöllum, „gangstétt“ og götu. Rauðbrúna röndin virkar svona eins og viðvörun, að þarna sé brún. Svo kaffihúsagestir misstígi sig ekki.

    En frá estetísku sjónarmiði er ég ekki ýkja hrifin (í grunninn er ég sammála Hilmari og Dennis, að það vanti tengslin við söguna og hefðbundinn frágang gatna). En að miklu leyti er þetta spurning um efnisval og kannski er efnisval eitthvað sem verður endurskoðað.

    Persónulega leiðist mér teppalagning í mynstruðu og í þessu tilfelli er hún í hrópandi ósamræmi við húsin, umhverfið. Laugavegurinn er mjög mjó gata og það er stór partur af sjarmanum (og ekki síst það sem gefur vísbendingu um 19. aldar upprunann). En hér virðist verið að reyna að streða við að láta götuna sýnast breiðari en hún er með því að leggja þessar langhellur þvert á hana. Til hvers?

    Af hverju ekki gangstétt sunnanmegin? Og af hverju ekki tilhoggna kantsteina upp á gamla móðinn fremur en þessar steyptu lengjur?

    Gangstétt sunnanmegin myndi skipta göngusvæðinu í tvær brautir, hæga braut fyrir þá sem eru á hægu rölti að skoða í hvern einasta búðarglugga og svo hraðbraut í miðju götunnar.

  • Árni Ólafsson

    Um 1980 var Hafnarstræti á Akureyri breytt í göngugötu. Gatan var teppalögð út í horn eins og tíðkast hafði undanfarandi áratug til þess að undirstrika endurheimt götunnar frá bílaumferðinni. Allt var gert öðru vísi en í hefðbundnum bílagötum. Rúðumynstur var gert með mislitum hellum, sem síðan máðist út og hvarf á nokkrum árum. Þetta mætti kalla 1. kynslóð göngugatna.

    Er frá leið fóru menn að huga að endurnýjun með hefðbundnu miðjusvæði og hliðarsvæðum (sbr. akbraut og gangstéttir) en ekkert varð úr. Upp úr 2000 var göngugatan opnuð fyrir bílaumferð. Nokkrum árum seinna var gatan illa farin og hellulögnin slitin. Þá var brugðið á það ráð að malbika miðjusvæðið, akbrautina. Við þetta skánaði yfirbragð götunnar til muna – þótt ótrúlegt sé – jafnvel þótt gömlu helljujaxlarnir væru áfram á hliðarsvæðunum. Þessi hefðbundna deiling, eins og sést á myndinni sem Hilmar birtir frá París, er í flestum tilvikum viðeigandi lausn í gömlu eða miðaldra bæjarumhverfi. Frákvikin eiga hins vegar betur við á torgum og þar sem sérstök tilefni eru til – sem vart getur átt við Laugaveginn allan.

  • Dennis Davíð

    Ég tel að gera eigi frekar við gamlar byggingar en að endurgera þær. Þannig verði öll saga þeirra vernduð sem menningararfur. Það sama gildir um gamlar götur eins og Laugaveginn sem er ein elsta gata Borgarinnar og á sér merka sögu ekki síður en byggingarnar sem við hana standa. Samkvæmt nýja aðalskipulaginu nýtur þetta svæði verndunar ef ég skl það rétt. Þarna hefði þurft að vera fulltrúi frá Minjastofnun Íslands í dómnefndinni til að gæta sjónarmiða verndunar. Í Skotlandi, þar sem ég þekki til, er þetta viðtekin venja eins og sjá má t.d. á göngugötunni þekktu „The Royal Mile“ í Edinborg. Þetta er ein elsta gata borgarinnar og liggur hún frá Edinborgarkastala og að konungshöllinni Holyrood. Þarna má lesa í sögu götunnar ekki síður en húsanna sem við hana standa. Þar halda menn í gömlu slitnu kantsteinana þó engin bíla-eða hestaumferð sé þar leyfð í dag.

    • Orri Ólafur Magnússon

      Ég forðast það eftir fremsta megni að ganga eftir Laugarveginum – sama í hvora áttina. Gatan er gjörsneydd þeim glæsileika sem einkennir verslunargötur í stórborgum erlendis : Königsallee í Duesseldorf, göturnar meðfram vatninu í Genf og Zuerich svo dæmi séu tekin að ógleymdum rándýrum verslunargötunum í París ( til Lundúna hef ég ekki komið í heilan mannsaldur ) Andlit Laugarvegsins er aftur á móti „afmyndað“ af „Bónus-eringu“, subbulegum veitingastöðum og sjoppum með nauðaómerkilegu túristaglingri. Þau fáu gömlu og upphaflegu hús sem enn standa við götuna eru plástruð upp að þakskeggi með æpandi auglýsingaletri – hvergi er rólegan eða heildstæðan punkt að finna í þessum götusirkus. Svona er reyndar yfirbragð „verslunar-mílunnar“ íslensku frá Morgunblaðshöllinni í Aðalstræti alla leið að Hlemmi ; rusl á rusl ofan. Af einhverri ástæðu hefur Skólavörðustígurinn sloppið mun betur frá túristavæðingunni – hversu lengi sem það kann svo að vara. Spurningin um hellulagningu – „værðarvoð“ – með ýmiss konar sviðs – ( theater )- dóti svo sem blómapottum úr steinsteypu ( Bankastræti & Lækjartorg ) eða malbiki á Laugarveginn breytir hér engu um. Tillaga þín, Dennis, um að skipa minjavörð í dómnefnir er að mínu mati bráðnauðsynleg og þyrfti að taka yfir langtum víðara svið en spurninguna um malbik eða hellur.

  • Bjarki Gunnar Halldórsson

    Ég skil ekki alveg hvert þú ert að fara þegar þú talar um “sögulega vídd” götunnar. Eftir að hafa skoðað gamlar ljósmyndir þá var Laugavegurinn lengi vel þakinn malbiki og hefðbundinni gangstétt en þar áður var einfaldega möl. Í dag er þarna hellulögn, lögð fyrir ca. 20 árum, sem er hvorki áhugaverð né til þess fallin að kalla fram “sögulega vídd”.

    Í þessu sögulega ljósi er samanburður við erlend dæmi, með gömlum járnbrautarteinum og graníthellum, furðulegur. Það er ennfremur ósanngjarnt að saka verðlaunahafa um að reyna að endurskrifa eða fela söguna án þess að útskýra betur í hverju þessi sögulega vídd er falin. Hver eru þessi skilaboð sem gatan (þegar hún var möl eða malbik) sendi vegfarendum? Það verður líka að benda á það að verðlaunatillagan vinnur með söguleg minni eins og þvottalaugarnar sem gæti komið vel út ef útfærslan verður hugsuð til enda.

    • Hilmar Þór

      Sæll Bjarki Gunnar.

      Ég vil byrja á því að taka upp varnir fyrir þá sómamenn Jóhannes heitinn Kjarval og Kristján Ásgeirsson arkiekta sem báru hitann og þungan af endurmótun Laugavegar fyrir allmörgum árum sem þú telur “ekki áhugaverða” sem er gildishlaðinn sleggjudómur manns sem augljóslega þekkir ekkert til málsins. Sleggjudómur manns sem ekki virðist átta sig á hjartslætti tímans.

      Ég get upplýst það hér að þeir félagar unnu þrekvirki með hönnun sinni. Þetta hafði ekki verið reynt áður í þessu mæli. Þeir þurftu að berjast fyrir öllu. Pollunum á gangstéttarbrúnum, flísunum svo maður tali nú ekki um rósetturnar umhverfis trjástofnana sem voru (eru) úr steypujárni.

      Þetta var stríð þar sem um ofurefli var að etja og að mínu viti unnu þeir félagar sigur, ÁHUGAVERÐAN SIGUR.

      Ég var ekki þáttakandi í samkeppninni sem hér er til umfjöllunar og þekki hvorki forsögn né dómsorð en ég leyfi mér að hafa skoðun á verkinu sem ég svo rökstyð.

      Ég er ekki þeirrar gerðar að telja þá sem hafa aðra skoðun en ég á málum “furðulega”. Þvert á móti fagna ég þeim og tel þá sem eru á annarri skoðun en ég skapandi og fallna til þess að breikka og dýpka umræðuna.

      Ég vil nota tækifærið og beda þér á athugasemdir Dennis, Önnu Th og Árna Ólafssonar hér við færsluna. Þær eru allar uppbyggilegar of hlaðnar umburðalyndi sem færir umræðuna áfram,

    • Eysteinn Gunnarsson

      ???
      Voru þvottalaugar einhverntíma á Laugaveginum?

      Er ekki verið að rugla saman Laugavegi og Laugadal?

    • Bjarki Gunnar Halldórsson

      Sæll Hilmar,

      Takk fyrir svarið. Ég var að einfaldlega að kalla á eftir frekari útskýringu á að hvaða leyti þér fannst skorta sögulega vídd, sérstaklega í ljósi þess að það eru stór orð að segja að verðlaunahafar hafi verið að fela eða endurskrifa söguna. Þín útskýring er góð og upplýsandi að því leyti. Ég sé betur hvaða gæði þú ert að benda á.

      En þrátt fyrir góða útskýringu þína þá höfðar núverandi fyrirkomulag á Laugavegi ekki til mín. Þetta fyrirkomulag er alveg ágætt en samt sem áður hefur það aldrei fengið mig til að hrífast með. Kannski er hjartsláttur minn svona ónæmur fyrir tímanum. Ég er jú enn frekar ungur. Engu að síður er þetta mín skoðun á sama hátt og það er þín skoðun að verðlaunatillagan skortir sögulega vídd.

    • Hilmar Þór

      Jú Bjarki Gunnar. Hver lítur silfrið með sínum augum og það er einmitt það skemmtilega við svona umræðu. Við t.a.m. erum ekki alveg sammála um allt en getum örugglega mæst einhversstaðar.

      Þú fyrirgefur mér fyrra svar mitt. Athugasemd þín um verk þeirra Jóhannesar og Kristján skapraunaði mér vegna þess að ég veit hvað þeir höfðu mikið fyrir því að ná fram hugmyndum sínum. Flestir voru fullir aðdáunar á framgöngu þeirra í því umhverfi sem þeir störfuðu að teknu tilliti til andstöðunnar.

      Og í lokin vil ég segja að þetta er bara mjög fínnt enn þann dag í dag þó gæin í seinni áföngum hafi verið minni en í þeim fyrsta eins og þú hefur tekið eftir.

  • Hermann Ólafsson

    Sæll Hilmar,
    Lofsvert að þú skulir halda úti þessum vettvangi fyrir gagnrýna umfjöllun og umræðu um arkitektúr og landslagsarkitektúr. Ekki veitir nú af!

    Eins og þú kannski veist er undirritaður einn af höfundum vinningstillögunnar Laugavegsins og því sérstakur áhugamaður um efnið 😉

    Það er sannarleg athyglisvert sjónarmið að „teppalagning“ Striksins í Kaupmannahöfn og annarra svipaðra verkefna sé úrelt aðferð, og jafnvel röng út frá sögulegu samhengi. Ekki hefur borið mikið á gagnrýni eða óánægju almennings eða fagfólks í þá veru síðustu árin a.m.k.

    Vel má vera að þetta sé aðferð sem „margir hafi snúið baki við“, en ég vil nú samt halda til haga að víða er þetta stundað ennþá þar sem unnið er út frá hugmyndinni um „shared space“.

    Mig langar, með athugasemd þessari, samt aðallega að vekja athyggli á einni forsendu sem mikil áhersla hefur verið lögð á síðustu misserin, og sem eflast markar þessa tillögu Laugavegarins (og reyndar flestar aðrar líka), en þar eru aðgengismál í víðum skilningi. Þau geta bæði verið viðkvæm og flókin í útfærslu, sérstaklega þar sem um er að ræð endurgerð gamalla húsa, eða gatna.

    • Hilmar Þór

      Þakka þér þáttökuna í umræðunni Hermann Ólafsson og ég vil nota tækifærið og óska þér og félögum þínum til hmingju með sigurinn. Þið eruð vel að honum komin enda hinir bestu fagmenn.

      Ég þekki þig vel af þínum góðu verkum enda höfum við unnið saman að nokkrum verkum með aldeilis ágætum árangri.

      Þá er líka tilefni til þess að árétta það hér að landslagsarkitektar hér á landi eru afar sterkir og hafa styrkt stöðu sína faglega hér á landi undanfarna svona tvo áratugi.

      En varðandi efnið þá hef ég orðið var við gagnrýni á teppalagningu Striksins í Kaupmannahöfn um margra ára skeið. Sérstaklega á Amagertorgi þar sem Storkagosbrunnurinn er. Þetta hefur augljóslega farið framhjá þér. Ég man að mönnum þótti gosprunnurinn í lausu lofti strax eftir breytinguna. Taka verður samt fram að mynstrið hefur alltaf þótt fallegt. En menn hafa gagnrýnt lausnina. Sama á við um Exebition Street í London sem er tiltölulega nýtt og ég hef skrifað um.

      En skoðun mín á meðhöndlun á götufleti borgargatna á borð við Laugaveg rýrir ekki ykkar vinnu heldur er frekar hugsuð til þess að opna umræðun um málið og varpa á það öðru ljósi. Mínar hugmyndir eru hvorki betri eða verri en ykkar .

      Kærar þakkir fyrir þáttöku í umræðunni Hermann.

  • Mjög áhugaverð ábending og rökin sannfærandi.

  • Finnbogi

    Mér finnst þetta ágætt samspil gamalla húsa og nýrra lausna. Sjónarmið um sögu götunnar er samt mjög athyglisvert.

  • Sigríður Halldórsdóttir

    Þessi hönnun er fín og frumkvæðið lofsvert en hönnunin gengur of langt þó falleg sé.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og tveimur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn