Föstudagur 11.04.2014 - 11:54 - 23 ummæli

Nýr og Betri Borgarbragur

Hamburg is virtually to become a car-free city in 20 years

 

Félagsskapur sérfræðinga sem nefnist Betri borgarbragur  skilaði af sér rannsóknarvinnu um skipulags- og umferðamál í Reykjavík nú í vikunni.

Því miður gat ég ekki verið á staðnum en ég hef fylgst með hópnum úr fjarlægð og skrifað allmarga pistla um verkefnið eftir framvindunni.

Af tilefni skilanna birti ég hér tvö myndbönd.

Annað sem er unnið af hópnum og og segir frá Miklubraut og umhverfi hennar. Hitt sem tengist sama efni og segir frá því hvernig fólk er að leggja niður hraðbrautir og mislæg gatnamót innan borga í landi einkabílsins BNA.

Í myndbandinu eru sagðar reynslusögur af afkastamiklum umferðagötum sem felldar hafa verið niður eða hætt var við að byggja í nokkum borgum í Bandaríkjunum.

Þarna er því haldið fram af hinum færustu mönnum að þær borgir sem ekki hafa þjóðvegi innan sinna marka hafi minni umferðavandamál en hinar.  Greint er frá dæmum þar sem fasteignaverð hefur hækkað og smávöruverslun dafnað við að fella þjóðvegi og afkastamiklar umferðagötur út úr skipulagi borganna.

Því er einnig haldið fram að þegar stórar umferðaæðar eru lagðar niður bitnar það ekki á samgöngum borganna. Því er líka haldið fram að þó hætt sé við að byggja afkastamiklar umferðagötur inni í borgum fer allt betur en ráð var fyrir gert. (Dalbraut, Hlíðarfótur og Fossvogsbraut svo íslensk dæmi séu tekin).

Þetta er skemmtilegt og fróðlegt myndband sem tekur tæpar sex mínútur í spilun. Mögum mun koma margt sem fram kemur á óvart og vekja upp spurningar um stöðuna hér á höfuðborgarsvæðinu.

Þetta er athyglisvert í ljósi þess að enn erum við að velta fyrir okkur mislægum gatnamótum og öðrum nýframkvæmdum innan þéttbýlisins sem annarsstaðar er verið að leggja niður.

Efst er ljósmynd sem sýnir hvernig borgaryfirvöld í Hamborg hugsa sér að nota það land í framtíðinni þar sem áður var hraðbraut innan borgarmarkanna. Þetta er hluti af 20 ára áætlun borgarinnar í samgöngumálum.

Að neðan koma myndböndin tvö.

Fyrra er um hraðbrautir og mislæg gatnamót innan borga í BNA sem hafa verið lagðar niður eða unnið er að leggja niður þvert á stefnuna hér á höfuðborgarsvæðinu.

Neðra myndbandið er úr smiðju faghópsins Betri Borgarbragur og fjallar um Miklubrautina og nágrenni hennar,

Bæði myndböndin eru skemmtileg, fróðleg, horfa til betri vegar(gatna) og eru lausnamiðuð.

Hér er slóð að færslum um Miklubrautina og skýrslu Betri borgarbrags sem getið er í upphafi

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2011/04/08/miklabraut-thjodvegur-eda-borgargata/#comments

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2011/04/14/borgarbragur-a-miklubraut-%E2%80%93-bio/#comments

[/embed]

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (23)

  • Sigrún Guðmundsdóttir

    Bíð spennt eftir andsvörum sérfræðinganna við innleggi Sigurðar Inga (ráðherra(?)). Guðmundar Kristjáns, Sigbjörns, Hilmars og fl.

  • Sigurður Ingi Jónsson

    Ég vil þakka Guðmundi Kristjáni fyrir greinargott svar og um leið hvetja hann til frekari þátttöku í umræðunni því góða rökræður eru vandfundnar, en til mikils gagns, bæði fyrir þá sem takast á og fyrir þá sem lesa. Sá hópur er mun fjölmennari en fjöldi athugasemda gefur til kynna. Ég hef farið í gegnum nýtt aðalskipulag, einnig lesið búsetukönnunina sem framkvæmd var sl. sumar og skýrslu Úttektarnefndar borgarstjórnar á stjórnkerfi og stjórnsýslu Reykjavíkurborgar. Niðurstöður búsetukönnunar og markmið aðalskipulags stangast á í veigamiklu atriðum, einkum er varðar áhrifa staðsetningar á starfsstöð við val á búsetu, löngunar til að byggja á þéttingareitum og val á ferðamáta. Þá tel ég aðferðarfræðina við að ná slíkum grundvallarbreytingum á ferðavenjum fólks, að rúmlega þrefalda gangandi, auk 50-60% fjölgunar á farþegum í strætó og hjólandi vera byggða á þvingunaraðgerðum, en ekki umbótum sem sjálfkrafa leiða af sér breytingu í þá átt. Einnig pirrar mig að í ferðavenjukönnunum er talið saman allt sem er á tveimur hjólum, reiðhjól, vespur, rafmagnshjól og mótorhjól, en síðan er flokkurinn ætíð kallaður „hjólandi“. Hvað um það. Þegar talað er um að gera öllum ferðamátum jafn hátt undir höfði, þá er Borgartún nýjasta dæmið um slíkt. Þar fá þau 10% sem eru gangandi eða „hjólandi“ nokkurn veginn jafn stóran hluta af þversniði götunnar og hin 90% sem eru akandi eða í strætó. Þetta samræmist ekki mínum skilningi á jafnræði. Að lagatúlkun, Guðmundur Kristján getur sér rétt til um að ég átti við skipulagslög varðandi skyldu sveitarfélags til að meta aðalskipulag eftir hverjar kosningar, þó ég hafi kallað það endurskoðun. Annað sem í þessum lögum felst er að sitjandi sveitarstjórn getur ekki bundið hendur framtíðarsveitarstjórnar í skipulagsmálum. Þannig getur núverandi meirihluti ekki ákveðið fyrir hönd borgarstjórnar 2022 að flugvöllurinn verði rifinn það ár. Þannig var kosningin 2001 um það hvort rífa ætti Reykjavíkurflugvöll 2016 alger markleysa. Þrátt fyrir að þetta hafi verið vitað, þá hafa kjörnir fulltrúar gert borgarstjórn bótaskylda með samningum sem ekki var á hendi borgarstjórnar að efna, svo sem gagnvart Valsmönnum. Í skýrslu Úttektarnefndar borgarstjórnar á stjórnkerfi og stjórnsýslu Reykjavíkurborgar er margt gagnrýnt. Eitt er áhugaleysi borgarstjórnar á samstarfi um svæðisskipulag. Virk þétting byggðar á höfuðborgarsvæðinu felst ekki í því að einblína á Vatnsmýri og gefa sér þær forsendur að fólk sem þangað flytti mundi ekki reiða sig á einkabíla til að fara sinna ferða. Ein sviðsmynd á Vatnsmýrarbyggð sem ekki er mikið rædd, en gæti vel átt við miðað við það lóðaverð sem þarna er hampað og byggingarmagn, því einsýnt er að fasteignaverð muni verða um kr. 600.000 á fermetra. Þeir sem kaupa eignir í þeim verðflokki yrðu að líkindum eldra fólk, á eftirlaunaaldri, sem selur einbýlishús í úthverfi og kaupir íbúð fyrir svipað verð í Vatnsmýri. Þetta fólk hefur ekki áhrif á umferð á álagstímum, en þeir sem kaupa einbýlið verður að líkindum barnafólk sem verður í því að sækja og senda í fiðlu, fimleika og fótbolta, á sínum einkabíl. Nettó áhrif af þessari sviðsmynd er aukin umferð. Kemur þá að því sem gæti dregið hvað mest úr akstri barnafjölskyldna, en það er samþætting skóla og frístunda- / félagsstarfsemi á grunnskólastigi. Ég sé að þetta er orðinn óttalegur langhundur svo ég læt staðar numið að svo stöddu.
    Hlekkir:
    Búsetukönnun: http://eldri.reykjavik.is/portaldata/1/Resources/umhverfissvid/myndir/skyrlsur/Busetukoennun2013.pdf
    Stjórnsýsluúttekt: http://vefbirting.oddi.is/reykjavikurborg/skyrsla_uttektarnefndar/index.html

    • Sæll Sigurður
      Ég sé ekki betur en að aðalskipulagið sé í fínu samræmi við búsetukönnunina þegar horft er á hvar fólk býr og hvar það vill búa. Stefnt er að því að fjölga íbúðarhúsnæði vestarlega í borginni en fólk virðist vilja búa þar skv. könnunum.
      Að breyta ferðavenjum er hinsvegar langhlaup og tekur áratugi.
      mbk

    • Guðmundur Kristján Jónsson

      Ég hvet sem flesta til að kynna sér tillögu um nýtt svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins sem finna má hér http://ssh.is/svaedisskipulag/2040

      Annars kjarnar Sigurður hér að ofan ágætlega áskoranirnar sem felast í skipulags- og hönnunarvinnu með þeirri sviðsmynd sem hann dregur upp með hugsanlegum afleiðingum uppbyggingar í Vatnsmýri. Þetta er ein sviðsmynd af mörgum sem stöðugt er verið að velta upp í skipulagsvinnu og má heimfæra yfir á aðra þéttingareiti, t.d. við gömlu höfnina. Í tilfellum sem þessum reynir auðvitað mikið á arkitekta og aðra hönnuði að finna lausnir sem stuðla að því að ný hverfi verði ekki félagslega einsleit með því að hanna íbúðir í mismunandi stærðum og verðflokkum. Eins eru ýmis verkfæri í verkfærakistu skipulagsfræðinga sem í samstarfi við sveitarfélög geta beinlínis tryggt félagslega fjölbreytni í íbúðarhverfum, t.d. með ákvæðum um lágmarksfjölda smáíbúða, nemendaíbúða eða íbúðum fyrir eldri borgara. Dæmi um slík ákvæði má finna í aðalskipulagi Reykjavíkur. Með svipuðu móti má tryggja að uppbygging félagslegra íbúða verði innan þéttingareita. Galdurinn við gott skipulag felst í að samræma þessa þætti og þar reynir á samstarf mismunandi fagaðila og sveitarfélaga.

  • Jón Eiríksson

    Svona eiga vefsíður að vera.

    Efnistengdar.

    Maður nennir ekki að fara inná bloggsíður sem fjalla um allt mögulegt.

    Það er þægilegt að geta flett upp í fatabloggi, íþróttabloggi, matarbloggi, bílabloggi og arkitekrabloggi eins og þessu.

    Ég sakna designbloggs sem fjallar um allskonar vöruhönnun.

    Svo mætti vera læknablogg og kynlífsblogg.

    En það er löngu komið nóg af þessu bloggi sem fólk skrifar og þykist hafa vit á öllum hlutum og vill hafa vit fyrir fólki, oft með skítkasti, um alla hluti.

    Þetta er hér fyrirmyndarblgg.

  • Guðmundur Kristján Jónsson

    Sæll Hilmar og aðrir sem hér hafa tekið þátt í umræðum. Hér er kallað eftir aukinni þáttöku skipulagsfræðinga og annarra sérfræðinga í skipulagsmálum og ég vil gjarnan svara því kalli. Sjálfur er ég langt kominn með fimm ára nám í borgarskipulagsfræði og er annars vegar búsettur í nágrenni við Toronto í Kanada og hinsvegar í Vestubæ Reykjavíkur. Toronto er í dag talin mesta umferðarborg Norður Ameríku og ég þekki því vel vandamálin sem fylgja mikilli umferð innan borga. Frá og með áramótum hef ég starfað hjá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar í tengslum við nám mitt og ég hef einnig fengist við skipulagsvinnu í Ontario í Kanada.

    Ég fylgist vel með þessari síðu og þeirri umræðu sem hér fer fram og ég veit að kollegar mínir gera það einnig. Ég get eingöngu talað fyrir sjálfan mig en stór ástæða þess að ég tek ekki oftar til máls hér er sú að ég sé ekki tilgang með því. Hér tjá sig oft miklir harðlínumenn sem eru fyrir löngu búnir að mynda sér skoðanir sem verður ekki haggað. Hér er fær t.d. nýtt aðalskipulag oft harða útreið án nokkurs rökstuðnings og ótal skýrslum og rannsóknum er hafnað af því að virðist eingöngu vegna þess að þær eru ekki viðkomandi að skapi. Auðvitað hafa allir rétt á að mynda sér skoðanir og tjá þær á þessum miðli sem og öðrum, en persónulega forðast ég umræður þar sem viðhöfð eru gífuryrði, alhæfingar og rangfærslur.

    Ég tek sem dæmi ummæli Sigurðar Inga Jónssonar hér að ofan. Þar byrjar hann á að vísa í lög um endurskoðun aðalskipulags án þess þó að vísa í lögin sjálf. Ég geri ráð fyrir að hann sé að vísa í 35. grein laganna sem eru eru nr. 123 frá árinu 2010. Þar segir orðrétt:

    “Þegar að loknum sveitarstjórnarkosningum metur sveitarstjórn hvort ástæða sé til að endurskoða aðalskipulagið. Skal sú ákvörðun m.a. taka mið af því hvort landsskipulagsstefna kalli á endurskoðun aðalskipulagsins. Um málsmeðferð á endurskoðaðri áætlun fer sem um gerð nýs aðalskipulags sé að ræða. Ef niðurstaða sveitarstjórnar er að aðalskipulagið þarfnist ekki endurskoðunar heldur það gildi sínu. Tilkynna skal Skipulagsstofnun um þá niðurstöðu.”

    Það er því ekki rétt hjá Sigurði að það sé “bundið lögum að aðalskipulag skuli endurskoðað eftir hverjar sveitarstjórnarkosningar” Sveitarstjórn er einungis skylt að meta hvort að ástæða sé til að endurskoða skipulagið, ef ekki, þá heldur það gildi sínu.

    Í bókum Sigurðar fær einnig nýtt aðalskipulag Reykjavík “falleinkunn” og það sagt “keyrt áfram af einhverjum isma sem útilokar raunveruleikann á sama tíma og draumsýn fámenningshóps, sem markvisst syndir á móti straumnum, fær að ráða niðurstöðu.” Aðalskipulagið er að sjálfsögðu ekki yfir gagnrýni hafið en í ljósi þess hve gríðarlega umfangsmikið skipulagið er og til hversu ótal marga þátta það tekur þá hlýtur öll gagnrýni á skipulagið í heild sinni að þurfa að byggja á ítarlegum rökstuðningi. Öðru máli gildir um gagnrýni á einstaka hluta skipulagsins, en þá verður líka að tilgreina þá sérstaklega til að halda umræðunni á faglegum forsendum. Í skipulaginu eru um 550 bindandi markmið sem eru sett fram á rúmlega 300 síðum í núverandi útgáfu, sem enn sem komið er eingöngu aðgengileg á vefnum (www.adalskipulag.is). Ég vil gjarnan nefna nokkur þeirra markmiða sem oft eru gagnrýnd og snúa beint að þessari umræðu og biðja lesendur um að gera það upp við sig hvort að þetta sé raunverulega framtíðarsýn sem þeir eru mótfallnir:

    „Hlutdeild almenningssamgangna í ferðum til vinnu og frá vaxi úr 4% í 12%, hlutdeild gangandi og hjólandi vaxi úr 19% í yfir 30%.“

    „Dregið verði úr nettólosun gróðurhúsalofttegunda um 35% til ársins 2020 og 73% til ársins 2050 miðaða við losunina 2007.“

    „Dregið verður úr úrgangi til urðunar og endurnýting og endurvinnsla aukin. Gert er ráð fyrir að 80% af pappír og pappa, 60% af plasti og allur lífrænt-niðurbrjótanlegur úrgangur verði endurnýttur árið 2020.“

    „Notkun einkabílsins dragist saman, þannig að hlutdeild bílferða af öllum ferðum lækki úr 75% árið 2011 í 58% árið 2030.“

    „Auka hlutdeild almenningssamgangna í samgöngum borgarinnar með markvissum og fjölþættum aðgerðum. Hlutdeild strætisvagna í öllum ferðum verði amk. 12% árið 2030.“

    „Hlutdeild gangandi í öllum ferðum verði amk 22% árið 2030.“

    Þessi markmið miða að því að Reykjavíkurborg verði á svipuðum stað hvað samgöngur og losun gróðurhúsalofttegunda varðar og og Þrándheimur og Álaborg eru í dag, en eins og kunnugt er búa þær borgir yfir svipuðum mannfjölda og Reykjavík og eru einnig á svipaðri breiddargráðu. Reykjavíkurborg stefnir því á að hafa svipaðar ferðavenjur og sambærilegar nágrannaborgir okkar, eftir 15 ár. Árið 2030 verður einkabíllinn ennþá helsta samgöngutæki borgarbúa, og ef áætlanirnar ganga eftir verður mun rýmra um þá sem kjósa/þurfa að nota bíl á götum borgarinnar og umferðarflæði því betra. Fyrrnefnd markmið aðalskipulagsins snúa eingöngu að því að tryggja fjölbreytni í ferðavenjum og stuðla að sjálfbærri þróun án þess þó að gera einum ferðamáta hærra undir höfði en öðrum, líkt og undanfarna áratugi.

    Hér hefur einnig verið óskað eftir umræðu um þéttingu byggðar og ég vil gjarnan nefna nokkur markmið úr aðalskipulaginu sem lúta að fyrirhugaðri þéttingu og færa rök fyrir því afhverju að þessi markmið eru sett fram:

    „Útþennslu byggðarinnar verði hætt og amk 90% nýrra íbúða verði innan núverandi þéttbýlismarka.“

    „Uppbygging atvinnusvæða í grennd við íbúðarbyggð, draga þannig úr vegalengdum á milli heimila og vinnustaða.“

    „Að skapa heildstæða samgöngutengingu milli miðborgar og lykilþróunarsvæða í austri og vestri með áherslur á vistvænar samgöngur.“

    Í aðalskipulaginu sjálfu má finna eftirfarandi rökstuðning um ástæður þess að þétta á byggð og í raun hef ég litlu við eftirfarandi málsgrein að bæta sem finna má á bls. 24-25 í A-hluta skipulagsins:

    „Stefna um þéttari og sjálfbærari byggð verður ríkjandi í skipulagsáætlunum flestra vestrænna borga á síðustu 20-30 árum. Á undanförnum árum hefur aukist verulega andstaða við útþenslu borga og stöðugt landnám nýrra opinna svæða í útjaðri þeirra, með tilheyrandi aukningu í vegalengdum, orkunotkun og kostnaði við vega- og veitukerfi. Þétting byggðar er talin lykil aðgerð í að sporna við þessari þróun. Á sama tíma hefur stuðningur aukist við umhverfisvernd, sjálfbæra þróun, endurreisn miðborga og almennt mannvænni borgir. Þétting byggðar eða endurnýjun byggðar getur verið margþætt og ekki liggur fyrir einhlít skilgreining á hugtakinu. Tæknilega séð merkir þétting byggðar betri nýtingu lands, að fleiri íbúar búi á viðkomandi reit eftir uppbyggingu en áður, fleiri störf séu unnin á svæðinu eða meira sé þar af húsum (þ.e. hærra nýtingarhlutfall, fleiri fermetrar húsnæðis á einingu lands). Þessar skilgreiningar eru nytsamlegar þegar þétting byggðar er athuguð út frá hagrænum eða umhverfislegum sjónarhóli, fyrir borgina sem heild. Þétting byggðar þýðir að fjárfestingar sveitarfélagsins nýtast betur, getur leitt til þess að samgöngukostnaðar minnkar, bætir skilyrði almenningssamgangna og dregur úr umhverfisáhrifum bílsamgangna, og sparar land.“

    Að gefnu tilefni er rétt að taka fram að skipulagið var samþykkt af 12 borgarfulltrúum og að baki því liggur gríðarlega mikil greiningarvinna og mat á mismunandi valkostum sem bæði verkfræði- og ráðgjafastofur komu að, ásamt sérfræðingum Reykjavíkurborgar. Ber þar helst að nefna umhverfismatið sem unnið var af VSÓ ráðgjöf og finna má hér: http://reykjavik.is/sites/default/files/adalskipulag/c1-umhverfisskyrsla.pdf

    Með hliðsjón af umhverfisskýrslunni er rétt að ítreka að skipulagsfræðingar lúta siðareglum sem kveða á um að almannahagsmunir og umhverfisvernd séu ofar öðrum hagsmunum við gerð skipulaga. Mörg hver lútum við skipulagsfræðingar einnig erlendum siðareglum sem kveða mun fastar að orði í þessum efnum en siðareglur Skipulagsfræðingafélags Íslands. Arkitektar lúta að sjálfsögðu einnig ströngum siðareglum, sem og verkfræðingar. Allar þessar siðareglur snúa með einum eða öðrum hætti að umhverfisvernd, sjálfbærni og ábyrgri nýtingu auðlinda.

    Ég tek það fram að það er ekki ætlun mín að taka Sigurð Inga fyrir með neinum hætti þó svo að ég nota dæmi úr svari hans máli mínu til stuðnings. Ef að hann hefur lesið aðalskipulagið í þaula og er svo mótfallinn þeirri framtíðarsýn sem þar birtist að hann kýs að gefa því í heild sinni falleinkunn þá virði ég þá skoðun einlæglega. Að sama skapi þá væri það umræðunni til góðs ef hann og önnur skoðanasystkini hans kæmu orðum að sinni framtíðarsýn, þó svo að það sé auðvitað ekki forsenda þess að hafa skoðun á núgildandi skipulagsáætlunum.

    Ég biðst forláts á því hversu langt svar mitt er, en staðreyndin er hinsvegar sú að umræða um skipulagsmál er flókin og margslungin og verður ekki afgreidd með góðu móti í stuttu máli. Ég tel reyndar að það sé fyrst og fremst ástæða þess að skipulagsfræðingar og arkitektar tjái sig ekki hér í ríkum mæli. Þ.e. vönduð umræða um þessi mál er þess eðlis að athugasemdirnar verða oftar en ekki lengri heldur en upphafsfærslan sem kom umræðunni af stað.

    Ef það er eftirspurn eftir löngum og ítarlegum svörum og raunverulegur vilji til að ræða málin af þunga og alvöru þá grunar mig að fleiri “sérfræðingar” tækju þátt í umræðunum hér. Í hraða nútímasamfélags eru slíkar umræður hinsvegar á undanhaldi og hefur það sína kosti og galla. Hvað borgarskipulag varðar þá er auðvitað gríðarlega mikilvægt að umræðan sé opin og aðgengileg og ef öll svör væru eins og mitt hér að ofan þá væri það sennilega ekki tilfellið. Galdurinn felst væntanlega í því að finna samtalinu farveg þar sem allir fá sitt pláss, þessi heimasíða er mikilvægur liður í því og kann ég Hilmari bestu þakkir fyrir sitt starf í þágu umræðunnar.

    • Mér finnst þetta málefnalegt innlegg, sem sýnir vel hve erfitt getur verið að koma með örinnlegg sem segja alla söguna. Takk fyrir Guðmundur Kristján!

    • Hilmar Þór

      Ég þakka Guðmundi fryrir vel skrifað og málefnalegt innlegg og falleg orð í garð vefsíðunnar.

      Hugmyndin að baki vefsíðunnar er að ná til almennings. Þess vegna reyni ég að stytta mál mitt og hafa hverja færslu milli 300 og 500 orð. Það geri ég til þess að ná til sem flestra.

      En mér dettur ekki í hug að ég geti sagt „alla söguna“ í 300-500 orðum.

      Fyrir utan að öll sagan verður aldrei sögð. Jafnvel aðalskipulag Reykjavíkur AR 2010-2030 sem er upp á meira en 300 síður og segir ekki nándar nærri alla söguna.

      Á þessari vefsíðu er ég að reyna að opna einn þátt umræðunnar í hverri færslu og alls ekki að segja alla söguna. Og ég trúi því að það sé hægt og ekki erfitt að kommentera á hann í stutu máli.

      Til þess að því sé til haga haldið þá finnst mér innlegg Guðmundar hér að ofan ekki langt þegar til þess er tekið hvað það er innihaldsríkt.

      Það bíða nokkrar færslur eftir fagfólk birtingar hér á vefnum. Ein er meira en 8000 orð. Hún verður sennilega birt í nokkrum köflum til þess að fanga áhuga lesandans. Hún verður einskonar framhaldsfærsla og er mjög áhugaverð.

      Málið er að arkitektar eiga það til að tala til hverds annars. Þeir notatungutak og tilvitnanir sem leikmenn skilja varla.

      Fagmen eiga að sýna ábyrgð eins og Guðmundur gerir hér og taka þátt í umræðunni og upplýsa fólk m alla þá flækju sem skipulags og byggingarmál eru.

      Og helst í sem stysstu máli.

    • Djúpalæk á þetta innlegg Guðmundar Kristjáns Jónssonar !

  • Sigurður Ingi Jónsson

    Það er góðra gjalda vert að endurskoða skipulag, enda bundið lögum að aðalskipulag skuli endurskoðað eftir hverjar sveitarstjórnarkosningar. Nýtt aðalskipulag fær þó falleinkunn í mínum bókum. Það virðist keyrt áfram af einhverjum isma sem útilokar raunveruleikann á sama tíma og draumsýn fámenningshóps, sem markvisst syndir á móti straumnum, fær að ráða niðurstöðu. Þannig er framtíðarsýn fólks í nýjum úthverfum afmáð með einu pennastriki þannig að fólk sem hélt það væri að skapa sér framtíð í fallegu umhverfi með ýmissi nærþjónustu er nú strandaglópar á bak við heilt hreiður af hringtorgum. Svokallaður borgarhönnuður, sem er svo lánsamur að hafa heilsu til að hjóla milli sveitarfélaga árið um kring, endurhannar Borgartúnið með því hugarfari að faregar í strætó séu á einhvern máta rétthærri en fólk ein bíl. Samkvæmt ferðavenjukönnun frá í fyrra þá ferðast 7% gangandi og 4% á reiðhjóli, vespu eða mótorhjóli (andbílistar tala ætíð um þennan hóp sem hjólreiðafólk). Það vill meina að þessi hópur er í besta falli 10% af heildarfjöldanum. Samt fær þessi hópur jafn mikið pláss í Borgartúninu og hin 90% sem fara með einkabíl eða strætó. Athugið að þetta er þjónustugata, þar sem fólk er að koma og fara allan daginn til að sækja þjónustu einkafyrirtækja og stofnanna. Þá er orðin lenska að setja flæðisker á allar götur. Það er sama hvort er Nauthólsvegur, Ánanaustin eða hin eyðilagða Snorrabraut, svo einhver dæmi séu tekin. Þar er búið að setja flæðisker, ferkanntaða hnalla í miðja akrein til að spilla fyrir umferðarflæði, en rétt eins og með Hofsvallagötuvitleysuna, þá finnur fólk sér lausn. Um 1.000 bílar á dag fluttu sig af Hofsvallagötu yfir á íbúðargöturnar þar sem börn eru að leik, eða á leið til og frá skóla. Flæðiskerslausnin er að aka eftir miðri götu því þá sleppur venjulegur fólksbíll á milli hnalla. Þannig er búið að setja upp aðstæður sem virka eins og einbreiðar brýr út um allan bæ. Í stjórnsýsluúttekt á Reykjavíkurborg, sem kom út sl. vor, fá kjörnir fulltrúar og embættismenn falleinkunn á nánast öllum sviðum. Eitt þeirra er svæðisskipulag. Ef það væri vitglóra í þeim sem koma að skipulagi höfuðborgarsvæðisins, þá væri unnið að þéttingu byggðar út frá Mjódd. Þar hefði átt að byggja skrifstofur stofnanna sem nú eru í Borgartúni. Það liggja tveir ásar um borgina, annar er á myndskeiði hér að ofan, hinn liggur frá Mosfellsbæ að Hafnarfirði. Það er, hins vegar, ekki von á góðu þegar skipulag er á ábyrgð fólks eins og oddvita Bjartrar framtíðar, Birni Blöndal, en þetta gullkorn er haft eftir honum á visir.is í dag, 12.04.14 „Sannleikurinn er hins vegar sá að borgin hefur þróast með þeim hætti að miðja hennar liggur nú við Vatnsmýrina.“ Ég gæti rasað allnokkuð meira á þessum nótum, en ætla að láta hjá liggja í bili. Mér þætti þó vænt um ef þeir sem hér líta við og hafa vit á skipulagi væru til í að deila sínum skoðunum á hugmyndafræðinni að baki þéttingu byggðar og hvað ber að varast í þeirri viðleitni.

  • Halda arkitektar virkilega að það sé auðvelt að halda þjóðfélagsumræðunni lifandi og áhugaverðri? Það er misskilningur. Páll les fjölmiðlamönnum verðskuldað pistilinn. En hann losar ekki arkitekta undan þeirra ábyrgð og skyldum með því að segja að atvinnumenn í fjölmiðlum standist ekki hans væntingar þegar hans verk eru eða eru ekki í sviðsljósinu.

  • Veit ekki hvort ég á að blanda mér í þessa umræðu .. þetta er sjóðheit kartafla. Gísli Marteinn kom með svipað komment á BBB-fundinum og ég ákvað að láta kjurt liggja. Málið er (eins og ég hef stundum sagt áður) að það þýðir ekkert að rökræða á þessum vettvangi. Gísli spurði: Af hverju takið þið ekki þátt í umræðum … og spurði svo (eins og segir í kvæðinu) af hverju hrósið þið ekki aðalskipulaginum? Af hverju takið þið ekki þátt í umræðunni? Egill Helgason, fundarstjórinn okkar (sem við vorum þakklát fyrir, því EH er einn af þeim sem halda umræðu opinni) hefur stundum verið á sömu nótum.
    Kannski sé best að ég segi mína skoðun hér. Vil afgreiða fyrst: Að skrifa greinar í dagblöð er dautt form. Þú skrifar í Moggann til að láta vita að þú ert enn Sjálfstæðis. Enginn les hann lengur. Í Fréttablaðið skrifar þú einhvern stytting sem lendir á milli alls konar umræðu .. ef þú þá kemst að þegar málið er aktúelt. Engin viðbrögð. Þegar kemur að sjónvarpi eða útvarpi þá er enginn áhugi á umræðu. Amk ekki um skipulagsmál.
    Nokkur dæmi:
    1. Stór hluti félaga Betri borgarbragshópsins varð hlutskarpastur í samkeppni um nýjan Landspítala. Við höfum unnið svo árum skiptir að þessu verkefni en hver er áhugi fjölmiðla á umræðu? Dregnir eru upp „fyrrverandi formenn Arkitektafélags Íslands“ (formaður 1982) og upphrópendur sem hafa allt á hornum sér til umræðu í fjölmiðlum. Enginn hringir í okkur eftir upplýsingum .. við sem þó kannski vitum best hvert markmiðið er! Það hefur enginn fjölmiðill (eða fjölmiðlamaður) áhuga á að spyrja hvað vakir fyrir þeim sem eru að vinna verkið. Þetta geta bæði Egill og Gísli Marteinn tekið til sín.
    2. Hluti (ekki stór kannski en samt, en félagar í BBB unnu 1. og 2. verðlaun .. 68 tillögur (í alþjóðlegri samkeppni bárust)) vann samkeppni um skipulag Landsímareits í Kvosinni. Hverjir hafa fengið plássið í fjölmiðum aðrir en vinir fréttamanna? Enginn (eða ótrúlega sjaldan) hefur einhver áhuga á að vita hvað við sem unnum tillöguna vorum að hugsa. Sjónvarpið (eða RÚV eins og það heitir) hafði fyrir því að búa til teikningar að forskrift þáverandi forseta Alþingis sem sýndu (að hans mati) hvernig tillögur okkar litu út. Það voru til fínar teikningar sem við höfðum gert .. en þeim fannst það símtal tímafrekt að sögn! Þessar teikningar grafíkdeildar RÚV eru enn sýndar þó nú liggi fyrir nýtt deiliskipulag (með fullt af myndum) og að ekki sé talað um aðalteikningar af fyrsta hluta uppbyggingar.
    3. Kannski má bæta við að hluti BBB hópsins vann (ásamt öðrum) lokaða samkeppni um endurnýjun Vogahverfis í Reykjavík. Samkeppni sem snýst um einmitt það sem við erum að tala um: Umbreytingu uppgjafa svæða í nútíma borgarbyggð. Veit ekki til að nokkur fjölmiðill hafi sýnt því áhuga … eða sjónvarpsmaður.
    Stundum er talað um að menn kjósi með fótunum eða veskinu, en ég tel þennan hóp hafa sýnt og sannað að hann er heill í sínum hugsjónum. Vandamálið er að fjölmiðlarnir hafa engan áhuga! Hver nennir að pexa við leyátmann á dagblöðum til að koma að „lærðri“ grein um skipulagsmál .. vitandi það vinur hans er mættur daginn eftir með rappgræjurnar til að hrauna yfir hann? Hver hringir í sjónvarpsmann og segir: Ég er með rosalega hugmynd: Viltu ekki tala við mig?
    Mér sýnst við tala með verkum .. en í auglýsingunni segir: Látum verkin tala (eða var það ekki auglýsing?). Við gerum það. Fjölmiðlamenn: Komið og þér munið uppskera!

    Þetta var kannski lengra en ég áætlaði til að byrja með. Var að skoða þetta í „teljaranum“ og sé að þetta slyppi ekki inn í eina grein í dagblað!
    Húrra fyrir samfélagsmiðlunum … og pulsugerðarmanninum!

    Annars er ég bara góður!

    • Hilmar Þór

      Hressileg yfirferð hjá Páli hérna. Hann upplýsir ýmislegt sem kom mér nokkuð á óvart. Við tveir ræðum það kannski seinna og á öðrum vetvangi.

      En ég vil benda Páli og fleirum á að þessi vetvangur er öllum opinn og að hann hefur það framyfir ljósvakamiðla og prentmiðla að hann er gagnvirkur. Hér geta men andmælt og lagt eitthvað til málanna samstundis og þegar þeir eru innblásnir.

      En þegar málum er svoleiðis háttað flýtur auðvitað allskonar vanhugsaðar hugmyndir með sem er auðvitað galli en það fljóta líka gullkorn með.

      En ég býð þér eins og Magnúsi fyrr í þessari runu plass hér á miðlinum þegar þún óskar um hvað sem vera vill og varðar efnið. Milli færslna eru 1500-3000 flettingar sem fara oft hærra. Flestar urðu flettingarnar tæplega 12000 milli færslna. Ég fyrir minn hlut er afar ánægður með áhugann fyrir þessu sérsniðna bloggi um efni sem ekki er almennt séð mikill áhugi fyrir í samfélaginu.

      En Páll, „The floor is yours“ og annarra sem hafa eitthvað að segja um arkitektúr, skiðpulag og staðarprýði og þora.

      Í lokin vil ég segja það að mér finnst arkitekta skorta samfélagslega ábyrgð þegar þeir segja ekki skoðanir sínar á skiulagsmálum og byggingamálum. Umræða um orðin hlut eins og sjónlínur við Frakkastíg eru ágætar en of seint fram komnar. Það slys ætti að vera tilefni til þess að skoða skipulagshugmyndir sem ekki er byrjað á. Af því að ég er að svara þér Páll, þá nefni ég deiliskipulag Landspítalans Ég hef líka miklar áhyggjur af Austurhöfn þar sem kollegar okkar hafa sest í sæti verkkaupans og geta því ekki sem sjálfstæðir óháðir ráðgjafar lengur veitt verkkaupa faglegt aðhald þar sem samfélagið og hagsmunir þess eru varðir.

  • Nei, Magnús, það skyldi ekki vera.

  • Magnús Birgisson

    Gerði tilraun til að horfa á þetta og byrjaði á seinna myndbandinu. Sýnt á tvöföldum hraða með tónlist undir sem hljómar eins og úr hryllingsmynd…gafst upp með æluna í kokinu.

    Það er til skammar að kynna að þetta sem einhverskonar „rannsóknir sérfræðinga“ þegar það er augljóst að þetta er sett saman af fólki sem hefur farið af stað að leita að rökum sem styður fyrirfram mótaðar hugmyndir þeirra um borgarskipulag og fyrst og fremst skellt fram í áróðursskyni en ekki til upplýsingar.

    Afhverju er svona erfitt fyrir arkitekta og skipulagsfræðinga eða aðra „sérfræðinga“ á Íslandi að standa fyrir óhlutdrægum og upplýsandi umræðum um skipulagsmál?

    Skyldi það vera að sú staðreynd að það borgarskipulag sem við búum við í dag er hannað af þessum sömu sérfræðingum eða kolleggum þeirra og feðrað af núverandi stjórnendum í Rvk…sérstaklega Samfylkingunni. Nú vill enginn kannast við krógann og blekkingarleikurinn og flóttinn frá raunverleikanum hafinn á fullu í þeim tilgangi að afla atkvæða? Ég vona að fólk sjái í gegnum þetta fyrr en síðar…

    • Hilmar Þór

      Þakka þér kærlega fyrir þáttöku þína í umræðum hér Magnús Birgisson. það er mikill fengur að þínum sjónarmiðum sem eru málefnaleg og vel fram sett.

      Mikið væri ég þakklátur kollegum mínum ef þeir hrysstu af sér slyðruna og tækju hér til máls. Og upplýstu almenning um sjónarmið og stefnur.

      Ekki veit ég hver ástæðan er fyrir þeirra þögn, en trúlega er hún sú að þeir þora ekki vegna viðskiptahagsmuna eins og einn kollega minnn sagði á kynningunni að mér er sagt „maður bítur ekki í hendina sem matar mann“!!!!!

      Ég held að hendin vilji frekar fóðra þá sem eru gagnrýnir, skapandi og lausnamiðaðir en þá sem gera „bara“ það sem þeim er sagt.

      Hver vill þjónustu þeirra sem eru útreiknanlegir? (predictable)

      En Magnús, það er auðvitað þannig að það eru alltaf einhver trend í gangi varðandi öll mál og sjónarmið. Og ég verð að viðurkenna að ég hef um áratugaskeið verið hissa á því hvað borgarskipulag Reykjavíkur hefur miðast mikið við einkabílinn og styð að skipulagið sé þannig hugsað að borgararnir hafi val um hvort þeir hafi einkabíl til umráða eða ekki. Nú á borgarinn ekkert val. Hann verður að hafa einkabíl til umráða vilji hann búa í höfuðborginni.

      Þurfum við ekki að breyta þessu án þess að ganga á hagsmuni þeirra sem vilja ferðast allar sínar leiðir með einkabíl?

      Og af þessu tilefni býð ég þér að birta pistil þar sem þú kynnir þína sýn á skipulagsmálin. það mega gjarna verða nokkrir pistlar. Svona 300-500 orð hver.

      Kk.
      HÞB

    • Eindregið mæli ég með að Magnús kynni sér efnið sem vísað er til, það er að finna á heimasíðunni bbb.is – og tjái sig svo um inntak þess.
      Það hefur örugglega hver sín mótíf fyrir að taka eða taka ekki þátt í umræðu eins og á þessarri síðu Hilmars Þórs, ég leyfi mér nú að halda að meintur doði stafi ekki af þrælslund einni saman.

    • Hilmar Þór

      Magnús, ég gleymdi einu.

      Endilega horfðu á myndböndin tvö til enda og segðu mér hvað þér finnst um hvort um sig.

    • Magnús Birgisson

      Takk Hilmar…þetta er vel boðið. Ég skal skoða hvort ég finn einhvern vinkil á þetta. Ég vil líka taka fram að ég átta mig alveg á að þú bíður upp á vettvang en það sé ekkert endilega allt sem hér birtist í samræmi við þínar eigin skoðanir…

    • Hilmar Þór

      Auðvitað er það ekki útaf þrælsóttanum einum saman, Sigbjörn Kjartansson, því efur mér aldrei dottið í hug en hann er vissulega hluti af vandamálinu.

      Ég veit það vegna þess að margir kollegar mínir hafa sagt mér það og líka hitt að ég og mín stofa höfum fundið fyrir því sjálf að það orgar siog ekki að koma með málefnalega gagnrýni.

      En það var á árum áður og er ekki til lengur svo ég taki eftir.

      Nú sýnist mér stjórnendur hjá fyritækjum borg og ríki fagni gagnrýnni uppbyggjandi og jafnvel kvassri umræðu.

      Kollega okkar sem eru hræddir þurfa að átta sig á breyttum tímum hvað þetta varðar og taka þátt í umræðu sem verður sífellt opnari og málefnalegri öllum til gagns, þó sérstaklega notendum skipulags og bygginga.

  • Sigrún Guðmundsdóttir

    „Þetta er athyglisvert í ljósi þess að enn erum við að velta fyrir okkur mislægum gatnamótum og öðrum nýframkvæmdum innan þéttbýlisins sem annarsstaðar er verið að leggja niður“

    Jahérnahér…

    Sundabraut

    Vegur um Gálgahraun

    Nýr Arnarnesvegur

    Fjölmörg mislæg gatnamót

    og margt fl.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og fimm? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn