Þriðjudagur 16.06.2015 - 12:47 - 11 ummæli

Nýr spítali á 173 dögum!

u00-fig2

Í lok nítjándu aldar var krafan um sjúkrahús í Reykjavík mjög hávær.

Þörfin var mikil.

Bæjarstjórn Reykjavíkur var tilbúin að leggja til fé en Alþingi ekki. Árið 1901 kom tilboð frá St. Jósefssystrum í Landakoti um að reisa og reka fullkomið sjúkrahús í Reykjavík. Alþingi tók því tilboði fegins hendi en vildi þó hvorki veita kaþólikkum styrk eða lán til verkefnisins. Spítalinn var reistur 1902 fyrir söfnunarfé frá Evrópu.

Margir höfðu horn í síðu systranna vegna trúar þeirra.

Hornsteinninn var lagður í upphafi framkvæmdanna þann 26 apríl 1902, reisugildi var haldið eftir 44 daga eða 9. júní 1902 0g húsið vígt, fullbúið og tekið í notkun 16. október 1902 eða réttum 173 dögum síðar.

Á þessum tíma voru engin rafmagnsverkfæri, engir kranar, engar tölvur og engin gæðakerfi. Í þessu samhengi veltir maður fyrir sér hvort maður hafi gengið götuna til góðs.

Spítalinn var stórhýsi á sínum tíma. Það var kjallari, tvær hæðir, og ris. Í upphafi voru 40 sjúkrarúm í byggingunni en fjölgaði ört eftir þörfinni. Spítalinn sem á horni Túngötu og Ægisgötu.

Þegar sjúkrahúsið var opnað bjuggu 7296 manns í Rykjavík en nú búa þar 122 þúsund eða 17 sinnum fleiri.

40 rúma sjúkrahús árið 1902 svarar til 686 rúma sjúkrahúss í dag.

+++++

Nú 113 árum síðar er verið að ræða staðsetningu nýs Landspítala og hefur sú umræða staðið nánast stanslaust í 13 ár.

Maður spyr sig hvernig standi á því?

++++

Efst er mynd af Landakotstúni, tekin milli 1920 og 1930. Frá vinstri eru Landakotsskóli,
prestbústaðurinn, spítalinn og Landakotskirkja sem síðar varð íþróttahús ÍR.
Sigurjón Jónsson bóksali tók myndina.

photo d

 

photo b

Landakotsspítali var stórhýsi á sínum tíma ens og má sjá á myndinni að ofan.

photo a

Að ofan er skemmtileg mynd sem tekin er á Túngötunni framan við spítalann. Takið eftir moldargötunni og girðingunum. Sennilega hefur fé gengið laust í borginni á þessum tíma.

Spítalinn var rifinn árið 1964.  Að neðan er mynd af rústum hans.

u00-fig4

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (11)

  • Annað sem er merkilegt í þessari frásögn er að Íslendingar voru ekki tilbúnir til að leggja fé í þessa framkvæmd.

    Þannig hefir það löngum verið.

    Hugsum til Hringsins (Barnaspítalans) og þeirra fjölmörgu félaga sem fjármagnað hafa tækjakaup og uppbyggingu heilbrigðiskerfisins á Íslandi.

    Og vitanlega stendur þjóðin í ævarandi þökk við kirkju katólskra og systurnar.

    Oftast hafa félög kvenna komið að þessari uppbyggingu þótt ekki sé það einhlítt.

    Íslendingar hafa verið sinnulausir um þetta sem flest annað sem einhverju varðar í þessu lífi.

    Sennilega er fleiri atkvæði að kaupa með fjölgun bótaþega.

    Þeir komast á kjörstað.

  • Held þú náir þessu ekki alveg.

    Það vill enginn beita 100 ára gömlu vinnulagi og byggja þjóðarsjúkrahús á 183 dögum.

    Miklu fremur hafa endalausar skýrslur, „greiningar“ „grenndaráhrifaskoðanir“ osfrv skilað rangri niðurstöðu.

    Og að þessari niðurstöðu gefir tekið óheyrilegan langan tíma að komast,

    Hugsun þín er fyrirfram gefin og hringlæg – forsenda er í niðurstöðu og öfugt.

    Slík hugsun er ófær um að geta af sér endurskoðun, hvað þá breytingar.

    Og sennilega ertu andvígur þeim eins og þorri Íslendinga.

    • Óskar Þorsteinsson

      Þið frjóa fólkið eruð í því að hugsa í beinni línu meðan við hin hugsum í hring.

  • Óskar Þorsteinsson

    Ég skil ekki alveg hvað þetta á að sanna. Spítali á 173 dögum. Það væri vafalaust hægt að hrófla upp svipuðu húsi á styttri tíma í dag. Það væri líka hægt að ryðja veg þar sem Miklabrautin er núna á nokkrum dögum. Ég held að hvorug þeirra framkvæmda yrði til mikils gagns fyrir nútíma þjóðfélag. Ef byggja á nútímahús sem þjónar nútíma þjóðfélagi og ef á að leggja veg sem hæfir nútíma umferð þá þarf það undirbúning, skipulagningu eins og til dæmis aðalskipulag, deiliskipulag og svo framvegis. Það þarf að tryggja að framkvæmdin uppfylli lágmarkskröfur um gæði og öryggi og svo framvegis. Kannski viljið þið hafa þjóðfélagið eins og það var fyrir 100 árum. Ég vil það ekki.

  • Excel-þjóðfélagið, teknókratismi og reglugerðavitfrring nútímans kemur vel fram í þessum fróðleik um byggingu spítalans.

    Framfarahugtakið er lífslygi samtíma.

    „Kerfið“ þjónar sjálfu sér og gerir líf hinna flóknara en umfram allt leiðinlegra.

    Setjum lífið allt í „ferli“.

    Þá fáum við „niðurstöðu“.

  • Pétur Örn Björnsson

    Það var reynt að fá borgaryfirvöld á sínum tíma (árið 1998 eða svo) til að samþykkja að ÍR húsið yrði flutt á sama stað og kirkjan stóð áður fyrr, sbr. myndina efst á síðunni, nokkurn veginn til móts við Ægisgötu. Það mál rakst um stund í kerfinu og dagaði svo þar uppi.

  • Árni Ólafsson

    Jón Sveinsson, Nonni, stóð fyrir söfnun ytra til byggingar spítalans.

    • Hilmar Þór

      Hárrétt hjá þér Árni Ólafsson, Jón Sveinsson kom þarna vissulega til sögu.

      Ég fékk allarupplýsingarnar í færslunni úr Læknablaðinu. Þar var Jóns Sveinssonar getið fyrir söfnunarátakið.

      Myndirnar tók ég hinsvegar í Landakoti í morgun á síma minn þegar ég átti leið þar um. Þær voru allar í ramma með gleri sem glöggir menn sjá á mndunum.

      Ég þakka Árni þér að minna á þetta.

  • Þetta hefur líka verið fallegt hús og spilað vel með Íþróttahúsi ÍR.
    Gaman hefði verið að hafa húsin bæði þarna í dag

  • Halldór Pálsson

    Við nútímamenn skiljum ekki svona vinnulag. það tekur 2 ár að byggja 100 m2 sumarbústað núna á 21. öldinni þó allar teikningar (margir tugir) liggi fyrir og rafmagnsverkfæri séu við hendina.

    En til að svara spurningunni um lóðarvalið. Svarið er að staðurinn við Hringbraut er ekki góður og verður verri og verri með hverju árinu. Hann var ágætur 2002 miðað við þáverandi stöðu en er alslæmur miðað við aðstæður í dag.

    Það verður að endurskoða staðsetninguna strax svo hægt sé að hefja framkvæmdir.

    • Hilmar Þór

      Ætli það taki ekki 173 daga að gera bygginganefndaruppdrætti af svona húsi í dag og eitthvað svipaðan tíma að fá það samþykkt hjá bæjaryfirvöldum!

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og átta? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn