Kennileiti í Reykjavík.
„Ætlunin er að byggingin kallist á við Hallgrímskirkjuturn og Hörpu og verði þannig eitt af þremur helstu kennileitum miðborgarinnar“ segir arkitektinn Tony Kettle um fyrirhugaða nýbyggingu sína á horni Vitastígs og Skúlagötu í Reykjavík sem kynnt var í fjölmiðlum í gær.
Og hann heldur áfram og segist vera að skapa „einstaka byggingu sem komi til með að tengja saman Reykjavík og náttúru Íslands. Hann segist sækja innblástur í íslenska byggingalist og jarðfræði Íslands; basalt og hraunrennsli, rautt og svart“
Mér var nokkuð brugðið við að lesa þetta í fjölmiðlum í gær.
Þetta er dæmigert viðhorf svokallaðra „Touch and Go“ arkitekta sem fara með himinskautum um heimsbyggðina og slá sig niður á viðkvæmum stöðum og fá góðar móttökur vegna frægðar sinnar. Heilla fólk með orðagjálfri, byggja sína byggingu og yfirgefa svo svæðið og skilja fótspor sitt eftir á svæðinu.
Tony Kettle sem er að sögn heimsfrægur arkitekt les Reykjavík með þeim hætti að helst mætti trúa að hann hafi aldrei komið hingað. En svo er ekki að hans sögn. Hann segist hafa komið hingað og átt samskipti við skipulagsyfirvöld sem tekið hafa hugmyndum hans vel.
Nú ætla ég ekki að láta neina skoðun í ljós hvað mér finnst um þetta 203 herbergja hótel hans sem byggja á hér í miðborginni. Þetta er eflaust ágæt bygging í alþjóðlegum stíl.
Það sem mig langar til að benda á að hann les borgina á undraverðan hátt. Hann sér Hörpu og Hallgrímskirkju sem tvö helstu kennileiti borgarinnar, sem er að vissu leiti rétt. Hann vill skapa það þriðja sjálfur. Og það er hótel. Hans hótel.
Hótel eiga ekki að vera helstu kennileiti borga. Þau hótel sem gera það eru frekjur í borgarlandslaginu. Þau geta verið kennileiti á borð við t.a.m. Hótel Sögu eða Hótel Borg, en ekki helstu kennileiti borganna eins og Kettle og verkkaupar hans stefna að. Helstu kennileiti borga eru torg, kirkjur, ráðhús, þinghús og mennigarhús. Aðalkennileiti borga er samt og verður alltaf fyrst og fremst mannlífið og staðarandinn. Hér í miðborg Reykjavíkur eru það smá- og fíngerð húsin í mismunandi stærðum og gerðum, Tjörnin og Sundin svo maður tali nú ekki um staðsetninguna með Esjuna, Bláfjöll og Reykjanesið og Snæfellsjökul. Helstu byggingarnar eru Hallgrímskirkja. Ráðhúsið, Dómkirkjan Alþingishúsið og auðvitað Harpa svo maður nefni nokkrar. Ekkert hótel getur eða á að geta toppað það.
Þetta er einkar athyglisverður hugsanaháttur hjá arkitektinum. Hann lýsir í reynd því hvað honum finnist lítið varið í Reykjavik þegar hann telur hótel í alþjóðlegum stíl geta orðið eitt þriggja helstu kennileita borgarinnar! Það er eins og hann langi til þess að að Reykjavík verði stór og eins og allar aðrar borgir. Vilja menn það? Hann vill ekki að borgin verði eins og hún er með öllum sínum sjarma, sérkennum og kostum. Hér er á ferðinni arkitekt sem teiknað hefur hæsta hús í Evrópu fyrir einhverja oligara í Rússlandi. Nú á hann að hanna helsta kennileiti Reykjavíkur sem á að vera hótel í einkaeign. Þetta mundu borgaryfirvöld í Skagen í Danmörku eða Rothenburg í Þýskalandi aldrei gera. Þau vita að það er allt önnur íþróttagrein að hanna hús í gömlum miðborgum en hæstu byggingu í Evrópu í Rússlandi eða umhverfi eins og er í Dubai. Það er ekki öllum gefið að hanna byggingar á viðkvæmum stöðum gömlu borganna en það getur nánast hver sem er teiknað sæmileg hús í borgum á við Dubai.
Það skondnasta við kynninguna í blöðunum í gær er myndin efst í færslunni sem er skrýtin svo vægt sé til orða tekið. Þarna eru sýnd norðurljós í nánast hitabylgju eins og það sé daglegt brauð. Þarna situr fólk á sautjandu hæð hótelsins, léttklætt í kvöldkyrrðinni og nýtur norðurljósanna. Borgarlandslagið og fjöllin sem sjást á myndinni er tómur skáldskapur sem virðist gerður af fólki sem aldrei hefur hingað komið. Svo er það myndin sem tekin er að kvöldi til og vísar niður Vitastíginn. Þar er léttklætt fólk á reiðhjólum í hita og logni með tindrandi norðurljós á himni. En á þessa mynd vantar eitt helsta kennileiti borgarinnar, sjálft bæjarfjallið, Esjuna sem ætti að blasa þarna við.
Hvenær hætta arkitektar að plata sveitamanninn? Hversu lengi ætlar sveitamaðurinn að láta erlenda sérfræðinga plata sig.
Reykvísk einkenni byggingarinnar eru torséð og arkitektósniskt vönduð hús Sigurðar Björgúlfssonar heitins og Hróbjartar Hróbjartssonar arkitekta virðast staðbundin og hlýleg við hliðina. Líklega er Tony Kettle arkitekt sá eini sem sér hvernig einstök bygging hans tengir saman Reykjavík og náttúru Íslands eða tengslin við íslenska byggingalist og jarðfræði Íslands; basalt og hraunrennsli, rautt og svart. Ekki sé ég það.
Léttklæddir hjólreiðamenn á ferli í norðurljósaskimunni á Vitastíg. Þarna koma arkitektarnir fram með þá stórgóðu hugmynd að hafa norðurljós að sumri til meðan laufið er safaríkt á trjánum. Hvergi er Lexusa, Teslur aða Range Rovera að sjá. Hvað þá fljúgandi gæsir eða loftbelgi. Það er ekki lengur í tísku hjá þeim sem gera svona myndir. Aðalatriðið frá þessu sjónarhorni er ekki þarna lengur, Esjan. Bæjarfjallið er farið. Hvergi sjáanlegt. Maður spyr sig hvort arkitektarnir hafi nokkurntíma komið til Reykjavíkur.
Þetta minnir mig á aðkomu að hóteli sem ég bjó á í Singapore fyrir nokkrum misserum. Þessi verönd er norðan við húsið og veitir að Skúlagötu. Vek athygli á vitanum sem stendur þarna við húsvegginn,
Svo er það þakbarinn þar sem fólk getur notið kaldra drykkja á veröndinni og notið norðurljósanna og útsýnis. En er þetta útsyni til í Reykjavík? Þarna eru fjöll á Álftanesinu og borgarlandslagið annað. Ásýnd Hallgrímskirkju er ekki eins og það er í raun frá horni Vitastígs og Skúlagötu.
++++
++++
Það skal tekið fram að þetta er ekki gagnrýni á sjálfa bygginguna heldur er hér vakin athygli á sjálfumgleði arkitektsins og hvernig honum hefur tekist að sannfæra verkkaupa sinn og borgaryfirvöld um ágæti og mikilvægi verks hans. Hann lýsir í reynd því hvað honum finnist lítið varið í Reykjavik þegar hann telur hótel í alþjóðlegum stíl geta orðið eitt þriggja helstu kennileita borgarinnar! Þarna sé lítið annað en Harpa og Hallgrímskirkja. Ætli margir ferðamenn laðist til Íslands til þess að mynda og njóta þessa þriðja helsta kennileitis Reykjavíkurborgar?
++++++
Hér að neðan er þekkt bygging eftir Tony Kettle og félaga. Þetta er Lakhta Center í St. Pétursborg sem er 462 metrar á hæð. Þó einhver hafi hæfileika til þess að hanna svona hús einhversstaðar út í hinum stóra heimi er ekki víst hvort hann hafi burði til þess að hanna hús í gamalli viðkvæmri borg eða borgarhluta.
Rita ummæli