Sunnudagur 09.01.2011 - 23:00 - 8 ummæli

Nýtt Fangelsi í Danmörku

Arkitektastofan C.F. Möller, í Danmörku, hefur unnið samkeppni arkitekta um nýtt fangelsi þar í landi.  Þetta er í sjálfu sér ekki merkilegt nema fyrir þær sakir að nú eru fangelsisbyggingar líka á dagskrá hér á landi.

Fangelsið í Danmörku er ætlað fyrir 250 fanga og á að byggja á eynni Falster fyrir sunnan Sjáland.

Vinningstillagan setur fram hugmynd um fangelsi í  dreifðri lágri byggð.  Það er að segja að fangelsinu er gefið bæjarlegt yfirbragð  og  er byggt umhverfis kjarna sem inniheldur  aðstöðu fanga til  margskonar menntunar-,  íþrótta og tómstundaathafna.  Þetta á að vera einskonar þorp eða samfélag.  Lóðin er um 15 hektarar með sex metra háum vegg umhverfis.   Þetta var að verulegum hluta landslagsverkefni þar sem áhersla er lögð á að draga úr áhrifum byggingarinnar í viðkvæmu demigerði dönsku landbúnaðar landslagi.

Talsmaður höfunda, Mads Mandrup arkitekt hjá C.F. Möller, segir  að byggingalistin skipti miklu máli fyrir fangana og þeirra upplifun og þroska innan múranna.  Þess vegna er lögð áhersla á mismunandi rými innan byggðarinnar þar sem sköpuð eru tækifæri til þess að njóta og upplifa á jákvæðan hátt rými og náttúru, skerpa sýn fanganna á félagslegu og náttúrulegu umhverfi sínu.  Sjálf byggingalistin vegur þungt þarna að mati Mandrups.

Að undangengnu forvali voru átta arkitektastofur valdar til þátttöku í samkeppninni. Það vekur athygli að þær eru allar danskar. Þarna var engin erlend stofa. Maður veltir fyrir sér hvernig þeir hafa farið að því frændur vorir, Danir, að sneiða frá reyndum fangelsisarkitektum Evrópusambandsins sem starfa utan Danmerkur. Það læðist að manni sá grunur að þarna hafi verið beitt einhverjum skynsamlegum tæknilegum viðskiptahindrunum.

Dönsku stofurnar voru auk C.F.Möller: Arkitema, schmidt hammer & lassen, Lundgaard & Tranberg, Erik Møller Arkitekter, PLH Arkitekter, Kjær & Richter og Henning Larsen Architects/Friis & Moltke saman.

Ég þekki sumar þessar stofur en veit ekki til þess að þær hafi komið að fangelsisbyggingu svo nokkru nemi eða séu sérfræðingar á því sviði. En arkitektar eiga að kunna að afla sér upplýsinga um það sem þeir taka sér fyrir hendur.  Og það geta þeir flestir með miklum ágætum. Það er einmitt einkenni starfs arkitekta að kunna að setja sig inn í og meta aðstæður og  starfrænar kröfur og spinna svo gott umhverfi sem fullnægir væntingum.

Samkeppnin var haldin í samvinnu við Danska Arkitektafélagið

Afstöðumynd

Ein  af sex fangaeiningum

Fangaklefar

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (8)

  • Atvinnumaður-Project manager

    Það hefur verið upplýst að fangelsismálastofnun hyggst ekki fara sömu leið og danir (helstu ráðgjafar þeirra í fangelsismálum) og halda hreina arkitektasamkeppni að undangengnu forvali.

    Fangelsismálastofnun ætlar auglýsa verkið til alútboðs þar sem arkitektar og aðrir ráðgjafar verða ráðnir af verktökum. Í samræmi við það munu ráðgjafarnir vinna með hagsmuni verktakana að leiðarljósi en ekki ríkisins eða skjólstæðinga þess, fangana.

    Trúnaður ráðgjafanna verður við verktakana frá fystu stundu þar til síðasti naglinn er negldur og út verkábyrgðartímann.

    Af hverju vill fangelsismálastofnun fara þessa leið? Hefur hún spurt ráðgjafa sína í DK ráða? Sennilega ekki því svar þeirra liggur fyrir.

  • Mikið eru Danir góðir.

    Er til sú bygging í Danmörku sem ekki er glæsileg, svona fyrir utan nokkrar byggðar á sjötta og sjöunda áratuginum.

  • Sveinbjörn Sigurðsson

    Í Fréttablaðinu í morgun er viðtal við tvo menn um fangelsismál. Annarsvegar formann arkitekta sem virðist vera skynsamur og umburðalyndur varðandi aðkomu stjórnvalda að málinu og tekur vægt til orða og kallar stjórnsýsluna hingað til “óheppilega”. Þarna er lausnamiðaður taktiker á ferðinni. Hinsvegar er rætt við Jón Magnússon hjá Dómsmálaráðuneytinu sem virðist líka vera að leita lausna á þessu klaufalega máli.

    Stóra fréttin er sú að talsmaður dómsmálaráðuneytisins segir “íslenska arkitekta muni nú taka við málinu”. Þetta er ekki hægt að skilja öðruvísi en svo að þetta verði opin samkeppni arkitekta án þáttöku verktaka. Þarna er verið að ráðuneytið sé að fara sömu leið og danirnir og bjóða út samkeppni arkitekta án aðkomu verktaka (Alútboð). Danirnir fóru forvalsleið til þess að velja arkitekta þar sem erlendir ráðgjafar duttu út.

  • Þetta hlítur að vera rekstrar- og viðhaldslega afar dýr lausn. Ég vona að við lendum ekki í svona rugli.

  • stefán benediktsson

    Þetta er drelliflott (borið fram dredli). Hér eru þegar risin gámahótel. Gámar væru held ég ágætis lausn fyrir fangelsi. Skil ekki alveg þetta kristilega refsiviðhorf varðandi aðbúnað. Hér á landi er t.d. þrátt fyrir lélegan aðbúnað stefnt að betrun afbrotamannsins og refsingin eingöngu falin í frelsissviptingu. Þekki engan sem er atvinnulaus, matarlaus og húsnæðislaus utan múra en myndi ráðleggja honum að tala við þau yfirvöld sem veita atvinnuleysisbætur. framfærslu- og húsnæðisaðstoð, það er enginn lúxus en menn eru frjálsir ferða sinna sem er þó skömminni skárra en að vera lokaður inni.

  • Nei, þetta er ekki slæmt
    þrívíddar tölvugimmikk
    með meme og mömö
    á sölumyndinni
    en hvað er a týra?
    Eru menn alveg hættir með ballúna og blöðrur
    og börnin með ískrímið
    í kramarhúsunum?

  • Tek undir með Guðmundi G.,
    sem vísar skemmtilega til bágborins atvinnuástands íslenskra arkitekta
    … greinilega mun betra að vera danskur kríminal … í tæt lav hygge.

  • Guðmundur G.

    Þetta er ekki slæmt. Öll aðstaða fyrsta flokks eins og á lúxus heilsuhæli.Einkaherbergi með baði auk allrar luxusaðstöðu og þjónustu!! Það er í öllu falli betra að vera þarna en atvinnulaus matarlaus og húsnæðislaus utan múranna. Er þetta ekki of langt gengið? Hefur eitthvað samfélag efni á þessu?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og fjórum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn