Föstudagur 12.08.2016 - 23:47 - 7 ummæli

Nýtt hótel nálægt Jökulsárlóni

FossHotel-GLACIER-35-800x450

Nýlega var tekið í notkun nýtt hótel, Fosshotel Jökulsárlón sem stendur á Hnappavöllum við rætur Öræfajökuls. Hnappavellir eru á milli Skaftafells og Jökulsárlóns.

Það er ástæða til þess að vekja athygli á þessu hóteli vegna þess að það kveður við nokkuð annan tón en gengur og gerist í hótelbyggingum á Íslandi.

Hér hafa arkitektarnir Bjarni Snæbjörnsson og Snædís Bjarnadóttir nálgast verkefnið með óvenjulegum hætti. Þau hafa skoðað staðinn og umhverfið og látið það ráða hugmyndavinunni.  Húsin eru brotin upp í einingar og form og efisval kallast á við næsta umhverfi. Þarna er svart timbur sem hljómar með svörtum sandinum og gras á þakinu eins og tíðkast hefur á Íslandi um aldir. Útveggjunum er hallað lítillega og kallast þannig á við fjöllin í grenndinni.

Þetta er tiltölulega einfalt eins og allt sem vel er gert. Allt er hógvært og án prjáls eða tilvitnanna í þá stjörnuarkitekta sem margir eru sífellt að apa eftir og einkenna tíðarandann.

Regionalisminn er í raun svo sjálfsagður að maður áttar sig varla á því hvernig stendur á að menn eru að velta einhverju öðru fyrir sér.

Það þarf að vanda betur til hótelbygginga á Íslandi. Það þarf að gæta að sérkennum staðanna og Íslands sem áfangastaðar og ferðamannastaðar. Líta þarf á gistinguna sem mikilvægan hluta af ferðalaginu, jafnvel þann mikilvægasta.

Kunningi minn sagði mér frá vellauðugum ítala sem hefur vanið komu sína hingað til lands. Hann taldi aðeins tvö hótel á landsbyggðinni vera þess virði að heimsækja þau. Það voru Búðir á Snæfellsnesi annarsvegar og Franski spítalinn á Fáskrúðsfirð hinsvegar. Hann hafði ekki komið á Hótel Flatey og sennilega hefur hann ekki enn gist á því hóteli sem hér er fjallað um. Kannski hann geti innan tíðar nefnt fjögur hótel á landsbyggðinn sem vert er að gista á.

 

excellent-new-hotel-with

fosshotel-glacier-lagoon-2

Efniskenndin er mikilvæg. Hér er nánast óunninn borðaviðurinn málaður svartur og kallast á við svartann sandinn og berg fjallanna. Á þökum er torf eins og tíðkaðist um aldir hér á landi. Í klæðningunni má lesa vöxt viðarins, hamarshögg smiðsins, greina námdina við handverkið. Klæðningin mun grána og eldast, taka á sig „patínu“ tímans með reisn og veðrast og eldast eins og henni ber. Þessi gæði hafa nútímabyggingarefni á borð við ýmsar málm- og plastklæðningar ekki uppá að bjóða frekar en álgluggakerfi þau sem mikið eru tekin á gjörvallri jarðarkringlunni á okkar dögum.

FossHotel-GLACIER-18-800x534

FossHotel-GLACIER-30-800x534

Innréttinga eru margar hannaðar af Leif Welding.

FossHotel-GLACIER-Suite-800x466

Dæmi um herbergi þar sem útsýni er óheft og rúmgóðum „windowseats“. Rúllugardínur er hægt að draga fyrir glugga fyrir ljósfælna og hlédræga.

 

Glacier-Lagoon-Sheep-800x800

Sauðkindin mun hafa óheftan aðgang að húsinu eins og aðliggjandi náttúra.

FossHotel-GLACIER-15-800x534

Myndirnar í færslunni eru flestar teknar af Eddie Peter Hobson og Unni Evu Arnarsdóttur.

Sjá einnig þessa færslu en þar segir m.a.:

„Víða á landsbyggðinni er ferðaþjónustan að vinna með staðinn sérstaklega af miklum metnaði. Þar er ferðamennskan tekin lengra þannig að sjálf gistingin verður hluti af upplifun ferðamannsins. Húsin eru það sem kallað er á ensku “site specific” og henta þeim eina stað sem þau eru reist og staðsett.

Stefnt er að því að laða að ferðamenn sem kunna að meta sérstöðuna og anda staðarins þannig að þeir geti einnig notið sjálfrar gistingarinnar í þvi samhengi. Þetta er metnaðarfullur þankagangur sem mun skila miklu til langs tíma litið litið“.

Vinnubúðahótel ?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (7)

  • Jón Eiríksson

    Það gleður fátt meira en góður arkitektúr.

  • Gaman að sjá metnað og hugkvæmni fara saman í íslenskri húsagerð.

  • Stærð glugganna svo ekki sé talað um gluggasætin gera mikið fyrir herbergin, eiginlega lyfta þeim upp um tvo, þrjá gæðaflokka.

    Gluggasætin/bekkirnir leysa líka krónískt pirringsvandamál við hótelherbergi: Hvert maður á að setja ferðatöskuna og opna hana þegar maður kemur inn (annars staðar en á gólfið eða rúmið).

  • Gaman og fróðlegt að lesa þetta. En er til skilgreining á íslenskum „regionalisma“?

    • Hilmar Þór

      Ég hef ekki séð neina skilgreiningu á íslenskum regionalisma Sigrún.

      Hinsvegar skynjar maður hann þegar maður sér hann eða hvort arkitektar séu að leita hans í verkum sínum. En þessi spurning er vissuleg áhugaverð og ég geri ráð fyrir að flestir arkiektar og nemendur í arkitektaskólunum séu sífellt að velta þessari spurningu fyrir sér

  • Hafið þið séð nýlega hótelið í Vik?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og fimm? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn