Fimmtudagur 08.11.2012 - 14:16 - 11 ummæli

Nýtt hverfaskipulag í Reykjavík

Síðastliðinn föstudag var haldin ráðstefna við arkitektaskólann í Árósum þar sem ræddur var „arkitektúr hversdagsleikans“, „spariarkitektúr“, umbreytingu eldri hverfa  o.fl.

Það vekur sífellt athygli, að megin fókusinn á byggingalist er stilltur á „spariarkitektúr“. Það er að segja listasöfn, kirkjur, ráðhús, dómhús, tónlistarhús, æðri menntastofnanir o.s.frv.

Arkitektúr sem allir nota á hverjum degi eins og eldri hverfi (utan miðborganna), íbúðahúsin, verslanir, göngu- hjóla- og akstursleiðir og hinn mikilvægi félagslegi þáttur byggingalistarinnar fær yfirleitt minni athygli.

Um 200 arkitektar mættu á fundinn í Árósum til þess að ræða málin og ekki siður til þess að hlusta á Jan Gehl segja frá áratuga reynslu sinni af því að bæta „hversdagsarkitektúrinn“ og gera lífið betra á alla lund fyrir fólkið í hverfunum.

Fundarstjóri var hinn stóryrti, margyrti og stórmynnti sjónvarpsmaður, Clement Kjersgaard, sem margir kannast við. Með sínum þekkta bægslagangi og byrjaði hann á að spyrja Gehl:

“Hvernig notar maður arkitektúr til að breyta umhverfinu svo um munar fyrir allan almenning, þ.e.a.s. notendurna?”

Og Jan Gehl svaraði um hæl:

“Ég hef meira en 40 ára reynslu af því að leysa vandamál í skipulagi og arkitektúr. Það sjá ekki allir notendur vandamálin sem við er að stríða og enn síður tækifærin. Meginverkefni arkitektsins er að upplýsa íbúana um vandamálin og lausnirnar. Ef þessu er miðlað til íbúanna vaknar nánast alltaf áhugi þeirra fyrir verkefninu og áhugi fyrir arkitektúr og skipulagi vex almennt gríðarlega”.

Jan Gehl  telur kynningarferlið mikilvægan hvata til þess að breyta umhverfinu til hins betra og leggur hinn reyndi arkitekt áherslu á kynninguna, umræðu og þáttöku allra í ferlinu.

 Hann telur framgöngu og skoðanir arkitektanna og valdhafanna skipta minna máli. Ef ekki er tillit tekið til íbúanna og þeir fá ekki örvun til þáttöku í ferlinu verður niðurstaðan ekki eins farsæl. Það hefur margsinnis verið sýnt fram á að það eru gríðarleg tækifæri að finna í eldri hverfum og  eldri húsum.

Það þurfi bara að vekja athygli á tækifærunum og beina umræðunni að þeim þá fara hlutirnir af stað.

Ástæðan fyrir að ég vek athygli á þessu nú er að Reykjavíkurborg er að fara að taka á umbreytingu hverfanna í borginni.  Reykjavíkurborg hefur auglýst eftir teymum arkitekta og sérfræðinga til þess að ráðast í gerð hverfaskipulags fyrir ein 8 hverfi borgarinnar. Í markmiðum borgarinnar er lögð áhersla á samráð við íbúana eins og Gehl leggur áherslu á. Borgin stefnir beinlínis að því að virkja „áhugasama hverfaforkólfa“  eins og það er orðað í þétt samstarf  með hönnunarteymunum.

Markmiðið er að auka gæði hverfanna með vistvænum úrlausnum að leiðarljósi. Vistvænnni og sjálfbærri lausnir geta falist samgöngum og þéttinu, eða annarri dreifingu þjónustu svo dæmi séu tekin.

Þetta er mjög spennandi mál sem fróðlegt verður að fylgjast með í náinni framtíð. 

Efst er ljósmynd af Jan Gehl sem tekin var á ráðstefnunni í Árósum.

Hér eru slóðar á tvö dæmi sem gefa visbendingu um hverfaskipulag sem fjallað hefur verið um á þessum vef.

Fyrst vesturbær sunnan Hringbrautar:

http://blog.dv.is/arkitektur/2011/10/19/vesturbaer-sunnan-hringbrautar/

 og skólavekefni þar sem Spöngin í Grafarvogi er viðfangsefnið:

http://blog.dv.is/arkitektur/2012/05/11/spongin-endurskodun-skipulags-2/

Og loks færsla sem fjallar um matvöruverslun og íbúðahverfin.

 http://blog.dv.is/arkitektur/2012/10/10/hafnarsvaedi-steinn-i-gotu-skipulagsstefnu/

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (11)

  • Fyirgefið nafnleyndina, en ég held að með því að opna umræðuna um skipulagsmál með þessum hætti þá er von á betri tíð í skipulagsmálum borgarinnar. Skipulagsráð á heiður skilinn. Það hefur nánast ríkt þöggun um þessi mál í umræðunni áratugum saman. Nú sér maður ljós við enda gangnanna. Það er eftirteknarvert að arkitektar tjá sig ekki mikið undir fullu nafni á þessum vef. Það er örugglega ekki af ástæðulausu,

    enda er allt fullt af „helvítis fokking fokk“ enn á fullu hér í landinu okkar.

  • Skipulagssvid Reykjavikurborgar a hros skilid fyrir framfarir a svidi skipulagsmala og mættu fleiri taka vinnubrøgd theirra ser til fyrirmyndar.

    Hugmyndin um ad færa teiknistofuna i hverfid og til folksins er frabær. Thad er varasamt thegar arkitektinn hefur hreidrad um sig i filabeinsturninum.

  • Smá hér um hverfaskipulag niðri í bæ og samspil milli íbúa og ráðamanna: http://www.visir.is/ad-stjorna-skipulagi/article/2012711089989, borgin hefur ekki kommenterað ennþá, en reikna fastlega með að hún geri það hafi hún raunverulegan áhuga á því að fá innspil frá þeim sem nota svæðið

  • Borghildur Sturludóttir

    Elsku Jón!

    Viltu benda mér á hvaða greinar/umfjallanir sem voru í ARKITEKTÚR ríma við glans, annað en pappírinn?

    með vinsemd
    Borghildur Sturludóttir

    • Hilmar Þór

      Ég bíð spenntur eftir svari frá Jóni við spurningu Borghildar.

  • Guðmundur Gunnarsson

    Þetta er stórviðburður í skipulagsmálum hér á landi. Þetta hefur verið gert erlendis með áætum árangri. Minnisvert er þegar Ralph Erskine var að vinna í svipuðum málum í Svíþjóð og UK. Til þess að ná þéttum tengslum við íbúana staðsetti hann teiknistofu sína í hverfinu sem hann var að vinna með. Oftast verslunarhúsnæði á þannig að allir íbúar sem vildu kynna sér málið eða koma með hugmyndir væru í góðum tengslum við ráðgjafana. Það væri ráð fyrir borgina að gera eins og Erskin. Reynsluboltinn Gehl veit hvað hann syngur þegar hann segir að ekkert gerist nema íbúarnir séu virkir og sáttir.

    • jens helgi

      Þetta er spennandi.

      Gaman væri að fá að fylgjast með þessu starfi frá degi til dags og geta litið inn á vinnustað skipulagssérfæðinganna í hverfinu sem verið ar að skipuleggja.

      Það er allt of breið gjá milli skipulagssérfræðinga og fólksins.

      Sjáið bara Landspítalann og deilurnar varðandi hann. Það er gleðilegt ef borgin ætlar loks að lúta niður til okkar borgaranna og tala við „hverfaforkólfana“

      Batnandi borgarstjórn er best að lifa.

  • Fínt myndband með fyrirlestri Jan Gehl þar sem hann útskýrir hugmyndir sínar: http://fora.tv/2011/05/02/Jan_Gehl_Cities_for_People

    Mbk.

    • Hilmar Þór

      Þakka þér fyrir að benda á þetta Davíð. Ég horfði á það og fannst gaman að. Þetta er langt en áhugavert. Hann talar um „fly in, fly out architecture“,Baráttu Jane Jacops fyrir 50 árum fyrir að koma í veg fyrir hraðbraut á manhattan en Jacobs bjó einmitt í í hverfinu Greenwich village og skrifaði bókina „The live and death of american cities“ Ég mæli með myndbandinu.

  • „Það vekur sífellt athygli, að megin fókusinn á byggingalist er stilltur á „spariarkitektúr“. Það er að segja listasöfn, kirkjur, ráðhús, dómhús, tónlistarhús, æðri menntastofnanir o.s.frv.“

    Þetta er akkúrat það sem kom fram í síðasta eintaki tímaritsins ARKITEKTÚR. Glans á glans ofan án nokkurrar tegingar við veruleikann í dag

    • Hilmar Þór

      Það er ekki rétt hjá þér, Jón, að ARKITEKTÚR tímaritið sé bara glans á glans ofan. Þú ættir að fletta tímaritinu aftur. Þá sérðu að það eru þarna allnokkrar greinar sem eru þvert á móti glansímyndinni og munu lifa lengi.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og einum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn