Fimmtudagur 13.09.2012 - 21:18 - 18 ummæli

Nýtt rammaskipulag-Reykjavíkurhöfn

 

Það eru margir góðir hlutir að gerast í skipulagsmálum í Reykjavík þessi misserin. Ég nefni aðra áherslur en ríkt hefur í samgöngum, þéttingaráform við Þverholt, studentagarðar við Sæmundargötu og uppbyggingu við Ingólfstorg.

Merkilegasta skipulagið sem nú er til umfjöllunar var kynnt í borgarráði fyrr í dag.  Það er rammaskipulag fyrir hafnarsvæðið sem kynnt var í borgarráði um hádegið.

Þetta er skipulag sem unnið er í nánu samstarfi milli Reykjavíkurborgar og Faxaflóahafna.  Rammaskipulagið er unnið  á grundvelli tillögu Graeme Massie, skoskum arkitektum sem unnu hugmyndasamkeppni um hafnarsvæðið fyrir fáum árum.

Þetta er viðamikið verkefni sem fjallar um viðkvæman stað í borginni, sjálfa Reykjavíkurhöfn. Eftir að hafa kynnt mér þetta nokkuð sýnist mér hér vera fetuðð skynsamleg slóð sem færir miðborgina nær höfninni þannig að hún og borgin færa hvoru öðru líflegt umhverfi þar sem manneskjan og hafnarstarfsemi fá notið sín. En það er mjög mikilvægt að starfssemin tengist höfninni og að þau hús sem þarna komi taki mið af staðaranda Kvosarinnar.

Hér birtast nokkrar myndir ásamt formála sem Hjálmar Sveinsson formaður Faxaflóahafna og varaformaður skipulagsráðs skrifar.

Gefum Hjálmari orðið:

„Á ljómyndum sést að miðborg Reykjavíkur var hafnarborg lengst af á 20 öldinni. Þar áður hafnlaust sjávarpláss. Götur og sund teygja sig alveg að sjónum og húsin standa á hafnarbakkanum. Landfyllingar, plássfrek hafnsækin starfsemi og hönnun Geirsgötu sem borgarhraðbrautar rufu þessi tengsl borgar og hafnar.

Breytt skipulag hafnarstarfseminnar, aukinn áhugi borgarbúa og ferðamannaá hafnarsvæðinuog breytt viðhorf til borgarumhverfisins hafa á undanförnum árum myndað ný tengsl. Segja má að nú sé stöðugur straumur fólks niður að höfninni við verbúðirnar í Suðurbugt og að Hörpu yst á Austurbakka. Gamla hafnarsvæðið er að verða ný þungamiðja borginni.

Markmið rammaskipulagsins er að gera borgina að hluta af höfninni og höfnina hluta af borginni. Húsin standa aftur á hafnarbakkanum og göturnar teygja sig að sjónum. Við það opnast þægilegar leiðir niður að hafnarkantinum og skemmtilegir sjónásar niður að sjó verða til. Til að það takist er lykilatriði að Geirsgötu verði breytt úr fráhrindandi hraðbraut í  aðlaðandi borgargötu með hægri umferð. Sú umbreyting ein og sér er mikilvægur liður í því að byggja upp borg fyrir fólk frekar en bíla. Hún er mikilvæg yfirlýsing um nýja stefnu í skipulagsmálum borgarinnar

Rammaskipulagið gefur borgarbúum kost á að njóta þeirra eftirsóttu lífgæða sem góð hafnarhverfi skapa. Svæðinu milli Sjóminjasafns og Hörpu er skipt upp í fjögur hafnarhverfi sem kallast: Vesturbugt, Suðurbugt, Miðbakki og Austubakki. Skipulagið leggur áherslu á að hvert þessara hverfa hafi sinn karakter en öll einkennast þau af fjölbreytni, skemmtilegum almenningsrýmum og greiðum leiðum fyrir fótgangandi vegfarendur og hjólandi. Bílastæði eru nær alfarið í bílakjöllurum og kveðið er á um að þau skuli vera að hámarki eitt á íbúð.

Uppbyggingnýju hafnarsvæðanna fellur vel að markmiðum endurskoðaðs aðalskipulags borgarinnar til ársins 2030.  Þar er gegndarlausri útþennslu borgarinnar snúið við. Borgin á ekki lengur að byggjast út á við heldur inn á við. Gert er ráð fyrir að allt að 90% nýrra íbúða rísi innan núverandi þéttbýlismarka. Eingöngu verður byggt á auðum og illa nýttum svæðum. Hafnarsvæðið er vestast á mikilvægum þéttingarás sem teygir sig frá höfininni og austur að Elliðaárósum.

Með rammaskipulaginuer ennfremur snúð frá þeirri stefnu að rífa allt sem fyrir er og byggja allt nýtt frá grunni. Áhersla er lögð á að byggja inn í það sem fyrir er og sýna því tilhlýðilega virðingu. Gömlu verbúðirnar við Suðurbugt halda sé allar sem ein og spilhúsin í Slippnum. Og Slippurinn sjálfur verður fyrst um sinn áfram á sínum gamla stað. Einnig er vandlega passað upp á að húsahæðir séu í klassískum reykvískum skala: þrjár til fimm hæðir. Götur er hafðar fremur þröngar, eins í Grjóaþorpinu, og inn á milli húsanna eru hér og hvar lítil og nett torg.

Mikil áhersla er lögð á fjölbreytni eins og fyrr segir, og byggðin á að vera sem blönduðust: Íbúðir, verslanir, handverkstæði, skrifstofur, hótel, slippur, ferðaþjónusta, söfn, kaffihús, gallerí, veitingastaðir, fiskmarkaður og jafnvel útisundlaug. Félagslegur margbreytileiki er ekki síður mikilvægur. Þetta eiga ekki að vera hverfi þar sem eingöngu sterkefnað fólk hefur efni á að búa. Mikilvægt er að tryggja það í deiliskipulagsskilmálum og úthlutun lóða.

Í deiliskipulagsvinnu er einnig mikilvægt að gerðar verði sem vandaðastar úttektir á skuggavarpi og vindstrengjum.

Mikilvægt er að hafa í huga að í næsta nágrenni við þessi svæði eru nokkrar stórar, auðar lóðir sem bíða eftir uppbyggingu. Á næstu árum gætu byggst þarna upp samanlagt 1000 til 1500 íbúðir. Það kallar augljóslega á lausnir varðandi leikskóla og grunnskólapláss.

Uppbyggingin á hafnarsvæðinu er áfangabundin. Reiknað er með að vestasta svæðið, milli Slipps og Sjóminjasafns, byggist fyrst upp. Þar gætu risið allt að 250 íbúðir.

Vegna uppbyggingaráforma samkvæmt gildandi deiliskipulagi á austasta svæðinu, Austurbakka, var ákveðið að taka það svæði út fyrir sviga og skila auðu. Engu að síður liggur einnig þar fyrir rammskipulagstillaga í þeim anda sem hér hefur verið lýst. Hugsanlega mun hún einhvern tíma koma að notum“.

Ég mun birta frekari upplýsingar um þetta metnaðarfulla skipulag á næstu dögum.

Lesa má um Reykjavíkurhöfn á þessum slóðum:

http://blog.dv.is/arkitektur/2009/12/18/gamla-hofnin-samkeppni/

http://blog.dv.is/arkitektur/2010/11/18/reykjavikurhofn/

http://blog.dv.is/arkitektur/2011/08/15/reykjavikurhofn-myrargotuskipulagid/

http://blog.dv.is/arkitektur/2011/10/06/matarmarkadur-vid-reykjavikurhofn/

Geirsgata eins og hún er nú

Geirsgata eftir breytingu. Þarna er nýja byggðin á Miðbakka sýnd til vinstri. Til hægri má sjá að búið er að byggja í skarðið vestan við Borgarbókasafnið. Samkvæmt hugmyndunum hefur Geirsgötu verið breytt í borgarstræti með gróðri vaxinni eyju í miðjunni. Samkvæmt útreikningum á flutningsgetan að aukast við þessa aðgerð fyrir utan hvað gatan er öll manneskjulegri.

Hér sést austur yfir hafnarsvæðið. Næst eru stölluð hús í anda þeirrar byggðar sem fyrir er og einkenna svæðið. Slippurinn og gömlu verbúðirnar eru á sínum stað. Sjá má að stefnt er að lifandi hafnarstarfssemi í bland við íbúðabyggð og margskonar þjónustu.

Á nokkrum stöðum er gert ráð fyrir að fólk geti nálgast sjóinn á göngu. Gönguleiðir og áningarstaðir eru klæddir bryggjutimbri. Mismunandi hæð húsanna við höfnina tryggir að sólin nær að slá geislum sínum á svæðið á mismunandi stöðum háð sólagangi.

Fyrr á tímum var borgin og húsin mjög tengd höfninni eða lendingunni. Þessar aðstæður eru einn þáttur í hugmyndinni sem að baki rammaskipulagsins liggur.

Eitt af fjölmörgum torgum sem gert er ráð fyrir í skipulaginu.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (18)

  • ívar markússon

    tek það fram þrátt fyrir neikvætt fyrra svar mitt að ég hef gríða gaman af þessu bloggi og kann höfundi þess mestu þakkir fyrir,

  • Kristján Arngrímsson

    Hvernig er það, er ekki hægt að mata þessi forrit á atriðum á borð við norðan hríðarveður, hnattstaða, veðurlag og fleira? Kannski líka efnisatriðinu „bílaeign og -notkun Íslendinga“?

    Þetta er einmitt gallinn: Þessir staðbundnum, idíósynkratísku og mannlegu þættir eru ekki til í forritunum. En það eru einmitt þessir þættir sem ráða úrslitum um hvort skipulag verður að góðum veruleika.

    • Guðmundur Gunnarsson

      Þetta er alveg rétt athugað. Þessar teikningar eru söluteikningar af svipaðri gerð og þegar er verið að auglýsa bíla eða annað. Þarna eru engir rónar eða „bag ladies“, engir skítugir bílar eða vanhirt hús. Alltaf gott veður og vel klætt, fallegt fólk. Allar götur vel sópaðar og gangstéttarhellurnar flúgta.

      Þetta er hættulegar teikningar sem ber að taka með varúð.

      En skipulagi er gott þó vafi leiki á Mýrargötuhlutanum.

  • Kristján Arngrímsson

    Sýndarveruleiki er gott orð til að lýsa því sem þarna virðist vera á ferðinni. Tek undir það. Myndirnar eru líklega eins og þær eru vegna þess að efnisþættir þeirra eru í tölvuteikniforritinu. Maður fóðrar forritið á tölulegum forsendum og svo spýtir það út úr sér teikningu sem hefur enga skírskotun til staðar og stundar – einungis til talna. Blasir við hvað þetta er galið.

  • Magnús Skúlason

    Ég verð að taka undir hjá Jóni að nærvera Slippsins og skipanna við Slippahúsið sem nú er Hótel Marina er skemmileg, en einnig eru breytingar á húsinu afar vel heppnaðar einkum að innan. Reykjavíkurhöfn er líka heldur betur á lífi. Það þekki ég mæta vel enda með bát á floti í Suðurbugt. Endurnýjun Gömlu verbúðanna er til fyrirmyndar og eiga Faxaflóahafnir heiður skilið fyrir alla framgöngu í því máli.

    Þegar til framtíðar er litið er stór slippur hins vegar varhugaverður þrátt fyrir ákveðinn sjarma. Þar tek ég undir orð Guðlaugs Gauta ásamt flestu öðru í hans máli. Eigi að síður er full þörf á líttilli dráttarbraut á svæðinu vegna allra bátana sem þar eru. Hvað er bátamenning án dráttarbrautar? Einfalt væri að finna henni stað í hinni metnaðarfullu skipulagstillögu. Það var auðvitað gráupplagt að halda í Daníelsslipp í smækkaðri mynd og tengja hann Sjóminjasafninu ásamt almennri notkun. Menjar þess slipps er nú að finna í aflokuðu sjávarrými þar sem Gullborgin fær að grotna niður. Því vaknar sú spurning hvar við erum eiginlega stödd sem eyjaþjóð með okkar bátaarf? Þar erum við því miður með allt niður um okkur, en það er efni í aðra umræðu.

    Að ráðgera lúxusíbúðir við sjávarsíðu upp í fimm hæðir, við rætur hæðar, fyrir framan eitt af elstu hverfum borgarinnar, sem einkennist af tveggja hæða húsum með risi á kjallara, getur tæplega kallast metnaðarfullt skipulag,heldur fremur úrelt. Hefur það ekki verið reynt m.a. við Skúlagötu, í Hafnarfirði og víðar og eru ekki flestir sammála um að það séu mistök? Gildir einu hvort um er að ræða fimm hæðir eða tuttugu.

    Er ekki einnig tímabært að það skiljist að mannlíf utan dyra þrífst ekki í þröngum götum innan um fimm hæða hús á okkar breiddargráðu.

    • Í athugasemd sem ég skrifaði við pistil Hilmars um þéttingu byggðar og BÚR-lóðina (hér)kom ég inná gæði húsnæðis, einkum íbúðarhúsnæðis. Ég kom líka aðeins inná þróun skipulags á síðustu öld og kemst að því að í Borginni hafi ríkt einskonar gullöld í skipulagsmálum á áttunda og níunda áratugnum. Mörg okkar bestu hverfa eru frá þeim tíma og ég held að þeir sem stjórna skipulagsmálum í Borginni þessi misserin mættu og ættu að líta aðeins til baka.

      Ég minnist líka á það unga fólk sem var áberandi í skipulagsmálum á þessum tíma og Magnús Skúlason, sem hér talar af hógværð og þekkingu, var ásamt mörgum öðrum frumkvöðull í þeirri vösku sveit. Það má vel hlusta þegar hann talar.

  • Jón Guðmundsson

    Það er gleðilegt að sjá að gert er ráð fyrir Slippnum á sínum stað. Að draga skip þarna upp er í raun lengsti óslitni gjörningur gjörvallrar íslandssögunnar. Þarna hafa skip verið dregin á land allt frá dögum Hallveigar og Ingólfs. Að sjá ný skip þarna í hverri viku er eitt magnaðasta sjónarspil sem hægt er að upplifa í Reykjavík.

    Reykjavíkurhöfn er sprellifandi með virka fiskihöfn og alla tilheyrandi þjónustu, smábátahöfn, skemmtibátahöfn, hvalveiði og hvalaskoðunarbryggju. Hér er kemst fólk í snertingu við raunverulega lifandi höfn með öllum sínum blæbrigðum og þversögnum. Hér er bærinn í Kvosinni að koma aftur til uppruna síns og nálgunin er á forsendum lifandi hafnar. Þetta lofar góðu.

  • Ég kann ekki að „læka“ á svona bloggi en é læka tvöfalt Magnús og Guðl

  • Hvaða rugl er eiginlega í gangi í skipulagsmálum Borgarinnar? Hafa menn endanlega sagt skilið raunveruleikann? Lifa menn og hrærast í sýndarveruleika þar sem allir eru léttklæddir og sötra kaffi úti á götu norðan við húshlið sem veitir skjól gegn rigningu og útsynningsroki? Og svo er vísað til Grjótaþorps! TIL GRJÓTAÞORPS! Hefur það farið framhjá mönnum að einnar- og tveggjahæða stakstæð timburhús einkenna byggðina í Grjótaþorpi? Göturnar geta verið mjóar vegna þess að húsin eru lág og það er mikið bil á milli þeirra. Þess vegna eru skuggarnir stuttir og hverfið sólríkt.

    Það er ekki hægt að átta sig á öllu skipulaginu eftir upplýsingunum sem fylgja greininni. Það kemur þó fram að það á að fylla í skarðið vestan við Borgarbókasafnsins með fimm hæða byggingu og byggja að mestu samfellda húsaröð í svipaðri hæð hinumegin Geirsgötu. Þar með hafa menn náð að gera þennan hluta Geirsgötunnar að dimmu, köldu og óaðlaðandi skuggasvæði líkt og vestasti hluti Austurstrætis er núna. Með því að hækka byggðina og loka öllum bilum milli húsa er auðvelt að ná þessu.

    Maður spyr sig reyndar hvort þetta sé markmið skipulagsins því það virðist vera stefnt að svipuðum árangri á slippsvæðinu með því að framlengja Slippfélagshúsið í það óendanlega til vesturs. Þar með er líka búið að loka fyrir útsýni til norðurs svipað og gert var með vöruhúsunum við Kleppsveginn í samræmi við hið alræmda aðalskipulag 1962-83. Ekkert útsýni til norðurs og engin innsýn inn á slippsvæðið, en í barnaskap mínum hélt ég að slippurinn væri etv staðsettur þarna til að auka á fjölbreytileika og skapa lifandi umhverfi fyrir borgarana.

    Slippurinn er amk ekki staðsettur þarna til að auka á íbúðagæðin. Í fljótu bragði dettur mér ekki í hug nein starfsemi nema grófur iðnaður sem þolir slippstarfsemi rétt fyrir utan gluggana hjá sér. Og varla er hægt að ímynda sér starfsemi sem fer verr með íbúðabyggð. En kannske eiga ekki að vera íbúðir við hliðina á slippinum? Hvar eiga þær eiginlega að vera og af hvaða gæðum? Ég sé ekki einar einustu svalir á þessum myndum sem bendir til þess að þarna eigi alls ekki að vera íbúðir.

    Ég ráðlegg þeim sem vilja byggja bryggjuhverfi eindregið að fara og skoða Bryggjuhverfið. Hafnarstarfsemi, jafnvel þótt hún sé bara fyrir smábáta, ferjur, hvalaskoðun og útsýnisferðir, þarf þjónustu. Það þarf aðkomu og athafnasvæði fyrir hópferðabíla, sendiferða- og minni vörubíla. Þessi starfsemi er ekkert lík þeirri sem kemur fram á sýndarveruleikanum á myndunum.

    Ég er ekki í vafa um að það er markaður fyrir íbúðir á þessu svæði jafnvel þótt ekki sé hægt að opna glugga og fólk þurfi að gera sérstakar ráðstafanir gegn hávaða og mengun. En fyrir hverja er þetta svæði? Varla fyrir venjulegt fjölskyldufólk. Stefnir kannske í það að öll þéttingarsvæðin bjóði eingöngu íbúðir sem henta mjög takmörkuðum hluta borgarbúa? Margt bendir til þess.

    Um leið og ég tek undir hvert orð hjá Magnúsi Skúlasyni (báðar færslurnar) hér að ofan vil ég í lokin segja að það er kaldhæðni í því fólgin að nokkrum dögum eftir að Hilmar Þór skrifar sína ágætu grein um Þéttleika byggðar og BÚR-lóðina við Aflagranda á þessari vefsíðu þá er boðið uppá þessar kræsingar. Annarsvegar skynsamlega byggð þar sem boðin eru fyrstaflokks gæði á skynsamlegan máta og hinsvegar sýndarveruleiki sem virðist ekki eiga sér stoð í raunverulekanum.

    • ívar markússon

      Bravó guðlaugur og magnús. loksins kemur eitthvað úr sama raunveruleika og ég bý í.

      þessar myndir eru voða falegar og allt það, en það eina sem ég sé þarna eru gjörsamlega fráleitar hugmyndir sem eru ekki í nokkru samhengi við raunveruleikan. og það af mörgum ástæðum,
      einmitt bætum við fullt af íbúðum þarna, en ekki bílastæðum. það væri alveg frábær viðbót við nú þegar stórt bílastæðavandamál á þessu svæði,

      ég hef unnið á þessu svæði, bæði við höfnina sem og á grandanum og að ætla hafa slippinn þarna inní er alveg fráleitt, hefur fólk einhverja hugmynd um hvað fer fram þarna í slippnum, þessar blokkir yrðu útataðar í ryði og málningaflögum og ekki síst skipalakki sem dreifist reglulega um allt hverfið frá slippnum, ég veit það vel því það var standandi vandamál á grandanum að það væri að úðast lakk yfir hús og bíla Þarna,

      annað er svo að gluggar þessara húsa væru sem og í saltpækli meirihluta ársins,

      það lýtur voða vel út á myndunum að spranga þarna um í sólini á kvartbuxum en í raunveruleikanum væri rok og kuldi þarna meirihluta ársins, fyrir utan sjórok, ég veit ekki með aðra en það er eitthvað sem veitir mér afar takmarkaða ánægju og nóg af því að fá annarstaðar á þessu landi,

  • Magnús Skúlason

    Gamla sagan er að endurtaka sig. Nú er búið að eyða svo miklu fé í delluskipulag við Mýragötu að ná þarf því fé til baka með byggingu 250 íbúða á svæðinu. Hafa menn ekkert lært af fyrri mistökum. Hvers á gamli vesturbærinn að gjalda að fá allt að fimmhæða vegg bygginga við sjóinn með tilheyrandi útsýnisskerðingu. Ný byggð sem er algjörlega úr takt við það sem fyrir er. Ég vísa enn og aftur á Norðurbakkann í Hafnarfirði. Fimmhæða stórkarlaleg byggð sem breiðir sig fyrir gamla vesturbæinn þar. Svo er næsti bær við sem er Kaupmannahöfn. Þar er nóg af góðum, ég meina vondum, sams konar dæmum til að læra af.

    Er ekki kominn tími til að fara eftir ýmsum fögrum fyrirheitum um virðingu við eldri byggð þ.m.t. eftirfarandi úr Menningarstefu um mannvirkjagerð, stefna íslenskra stjórnvalda í byggingarlist (Menntamálaráðuneyti 2007), en þar segir m.a. : “ Áhersla skal lögð á heildarmynd og mælikvarða þegar byggt er í og við eldri byggð. Til að tryggja heildrænt og sögulegt yfirbragð húsa er nauðsynlegt að stjórnvöld fylgi skýrri stefnu þar um.“
    Það kostar sitt að leiðrétta fyrri skipulagsmistök en er ódýrara þegar til framtíðar er litið.

  • Flott!, nema Slippurinn. Að hann sé starfræktur áfram í breyttu umhverfi er út úr kú. Tilvitnun Hilmars um flutningsgetu Geirsgötu er jafn ankanalega og snjógæsir á flugi yfir Reykjavík á fremstu mynd. 🙂

  • Það er nú ekki allt sem frá skipulagsráði kemur gott.

    Landspítaladeiliskipulagið er bæði umdeilanlegt og umdeilt. ‘Eg held að ástæðan sé sú að ráðið hefur tök á rammaskipulaginu en hefur misst tökin á deiliskipulagi landsspítalans. Verkefnisstjórnin og arkitektarnir þar hafa sýnt óbilgirni og frekju sem ekki er við ráðið. Sennilega af því að spítalinn tengist landsmálunum og stjórnmálamenn eiga ekki gott með að skilja á milli borgarmála og landsmála þegae hagsmunir stangast á.

    það verður að stöðva þetta landspítalamál áður en byrjað verður að hanna byggingarnar. Strax og fyrstu drög að byggingunum liggja fyrir verður baráttan erfiðari.

  • gamall vesturbæingur

    veit ekki alveg hvað mér á að finnast um þetta, finnst allt í lagi að byggja eitthvað þarna og lappa meira uppá þetta og skapa búsældarlega stemmningu en byggingarmagnið er bara fáránlega mikið, 1500 íbúðir, svo mikið að það þarf að leita lausna í skólamálum! Bezt að reyna að troða þrengingum, meiri bílaumferð og meira stressi á okkur í gamla vesturbænum (eitt stæði á mann á eftir að valda því að nýríku hipsterarnir sem vilja flytja í 101 og eiga 3 bíla eiga eftir að valda keðjuverkun og bílastæðavandamálum sunnar í gamla vesturbænum þegar þeir leggja þar, en auðvitað talar maður fyrir daufum eyrum því að bezti hefur fyrir löngu hafið hatursherferð sína gegn bílum og bílastæðum, vill máske helst ekki að fólk eigi bíl og komist ekki út úr borginni), hvernig væri nú að einbeita sér að öðrum hverfum sem eru hreinlega ekki jafn þétt en ekki þéttustu hverfum landsins, hér þarf ekkert að þétta mikið meira. Það eru ekki rök að hér þurfi að þétta svo að borgin þenjist ekki út, borgin þarf ekki að þenjast út meira, það er hægt að þétta á óþéttustu svæðunum fyrst og fremst, af hverju að þétta á þéttustu svæðunum? Ég get sætt mig við þriðjung þess magns sem er í þessari tillögu, ekki meir það væri sennilega bara mátulega fínt.

    p.s. veit einhver hvað verður um gamla lýsisreitinn og reitinn bakvið loftkastalann, af hverju stendur þetta svona autt lengi eins og einhverjar rústir

  • Magnús Skúlason

    Metnaðarfullt skipulagt.
    Já og nei. Það er margt jákvætt í umferðarstefnu, tillögum um borgargötur ofl. En eins og við var að búast þrátt fyrir fögur orð um tilhlýðilega virðingu fyrir því sem fyrir er farið í fimm hæða byggingar á viðkvæmum svæðum eins og milli Slipphússins og Sjóminjasafns með lítil nett torg inn á milli. Hefur gleymst á hvaða breiddargráðu við erum. Þetta virkar vel í Róm en varla í Glasgow þaðan sem tillögurnar eru ættaðar.

    Mikilsvert er að hafa í huga að að byggðin ofan Mýragötu einkennist af tveggjahæða húsum með risi á kjallara utan fáein skipulagsslys. Tillaga um allt að fimmhæða byggingar á því svæði merkir ekki annað en veggmyndun milli sjávar og núverandi byggðar eins og Norðurbakkinn í Hafnarfirði sem flestir telja stórslys. Gildandi skipulag minnti óþyrmilega á það. Ekki er nóg að hið nýja sé skárra en hið fyrra, eða er kannske verið að miða við stórslysið Mýragötu 26 sem fer upp í 6 hæðir miðað við Mýragötu en 7 að norðan og allt út í lóðarmörk ? Og engin hefur getað stöðvað. Allt skárra en það?

    Eðlilegast væri að byggðin frá Landakotshæð fengi að leggjast sem teppi fram til sjávar með hinum gömlu sjónlínum um Bakkastíg og Brunnstíg þar sem tekið væri mið af húsahæðum og mælikvarða þeirrar byggðar.

    Hugmyndir að fimm hæða húsum á Miðbakka eru sömuleiðis varhugaverðar vegna vegna skugga og vinda þótt hæðir nálægðra húsa séu í þá veru. Mun betur færi á því mælikvarði gömlu verðbúðanna fengi að njóta sín þar. Af hverju skyldi mannlífið vera svona skemmtilegt í Suðurbugtinni Skyldi stærð og hæð húsa skipta máli?

  • Óvenju skýr sýn sem kemur fram í greinargerp Hjálmars:

    „Rammaskipulagið gefur borgarbúum kost á að njóta þeirra eftirsóttu lífgæða sem góð hafnarhverfi skapa. Svæðinu milli Sjóminjasafns og Hörpu er skipt upp í fjögur hafnarhverfi sem kallast: Vesturbugt, Suðurbugt, Miðbakki og Austubakki. Skipulagið leggur áherslu á að hvert þessara hverfa hafi sinn karakter en öll einkennast þau af fjölbreytni, skemmtilegum almenningsrýmum og greiðum leiðum fyrir fótgangandi vegfarendur og hjólandi. Bílastæði eru nær alfarið í bílakjöllurum og kveðið er á um að þau skuli vera að hámarki eitt á íbúð“

    ath :“hámark eitt stæði á íbúð“, helst minna.

  • Þórður Jónsson

    Ef samkeppnistillagan frá í desember 2009 er borin saman við þetta deiliskipulag ar samanburðurinn rammaskipulaginu hagstæður. Hugmyndin um íbyggð á tanga út í sjó og á HB-Grandalóðinni var vægt sagt mjög vitlaus. En þetta skipulag bara gott…húrra!

  • Steinarr Kr.

    Gaman væri að sjá útreikninga sem sýna það að fækka akgreinum á Geirsgötu úr 4 í 2 auki flutningsgetu.

    Gruna að þarna hafi sömu reiknimeistarar verið að verki og reiknuðu út verðið á Hörpu og öðrum fleiri opinberum framkvæmdum.

    Hilmar geturðu sagt okkur eitthvað um myndina efst í færslunni. Hún er mjög skemmtileg.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og átta? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn