Miðvikudagur 10.08.2011 - 11:59 - 5 ummæli

Nýtt vestnorrænt menningarhús í undirbúningi

Nú er undirbúningur að byggingu vestnorræns menningarhúss í Danmörku á lokastigi.

Um miðjan júlí s.l. lá fyrir hvaða fimm teymi voru valin til þess að leggja fram tillögur að húsinu sem rísa mun í Odense á Fjóni.

Enga arkitektastofu frá Grænlandi, Færeyjum eða Íslandi er að finna í teymunum.

Þetta vekur athygli þegar um er að ræða byggingu sem á einmitt að kynna vestnorræna menningu.

Arkitektastofurnar sem valdar voru eru allar danskar: Aart Architects A/S, Gassa arkitekter, PLH Arkitekter, Isager arkitekterAps og SHL architects.

Það er þó huggun í því að Gassa Arkitekter í Kaupmannahöfn er rekin af íslendingunum Guðna Tyrfingssyni arkitekt og Auði Alfreðsdóttur innanhússhönnuði.

Vestnorræna menningarhúsið á í senn að vera samkomustaður Grænlendinga, Íslendinga og Færeyinga jafnframt því að vera sýningargluggi vestnorrænnar menningar í Danmörku.  Stefnt er að því að húsið verði sjónarhóll og kennileiti vestnorrænnar menningar í Danmörku og að það verði “fallegt og nútímalegt þannig að fólk vilji sækja það heim”

Ástæðan fyrir því að engar íslenskar, færeyskar eða grænlenskar arkitektastofur eru í teymunum er sú að valin var alútboðsleiðin þar sem verktakar velja hönnuðina.

Alútboðsleiðin á oft vel við, en alls ekki þegar um menningarhús á borð við þetta á í hlut. Hér hefði verið viðeigandi að halda opna samkeppni meðal arkitekta í vestnorrænu löndunum þrem hugsanlega með danskar stofur sem undirverktaka. Túlka má þá leið sem farin er sem skilningsleysi undirbúningsnefndarinnar á vestnorrænni menningu.

Í undirbúningsnefndinni sitja fjórir danir og einn fulltrúi frá hverju landanna þriggja sem framkvæmdin snýst um. Íslenski fulltrúinn er  Sigríður Anna Þórðardóttir fyrrv. umhverfisráðherra.

Nánar má lesa um framkvæmdina á þessari slóð:

http://nordatlantiskhus.dk/

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (5)

  • Arkitekt fagnar niðurstöðu í fangelsismálum

    Arkitektar stóðu sig vel varðandi fangelsið sem ekki fer í alútboð samkvæmt þungri ósk sumra. Ögmundur innanríkis sýndi festu í málinu og skilning á mikilvægi málsins og lagði til góða lausn.

  • Hilmar Þór

    Samkvæmt auglýsingu vegna forvalsins er farið fram á að húsið skuli endurspegla náttúru vestnorrænu landanna í sínum arkitektúr. Þar með talið vatn, ljós, eld og jörð á áberandi hátt. Eða orðrétt:

    ”Bygning og udeareal skal have kraftig signalværdi og gøre det attraktivt at træde indenfor på øen. Nordatlantisk Hus skal signalere Nordatlanten i både arkitektur, udeareal og materialevalg. Den nordatlantiske natur og elementerne – vand, lys, ild og jord afspejles i arkitekturen og inddrages aktivt i bygningen. Materialer og æstetiske kvaliteter skal bære præg af Nordatlanten og signalere de tre kulturer Huset har rødder i.”

    Þessum markmiðurm er trauðla hægt að ná með þeirri aðferðarfræði sem hér er lögð til, þ.e.a.s. alútboði. Ég er alveg hissa á því að menn hafi sæst á þessa leið og spyr sjálfan mig hver ástæðan sé?

    Dennis hér að ofan fer vel yfir málið og við V.F. og Einar erum honum sammlála. Það eru einnig Jóhannes Þórðarsson deildarforseti LHÍ og framkvæmdastjóri Arkitektafélagsins Hrólfur Cela sem báðir hafa skrifað greinar í blöð vegna alútboðs á fangelsi.

    Af hverju hefur undirbúningur að Vestnorrænu menningarhúsi í Danmörku ekki verið í umræðunni hér á landi? Af hverju láta menn sér það í léttu rúmi liggja að menningarhús fari alútboðsleiðina?

  • Góð yfirferð hjá Dennis Davíð að ofan um alútboð. Yfirferð Dennis virðist samhljóma því sem Jóhannes Þórðarsson arkitekt skrifar í Fréttablaðinu í gær. Hrólfur arkitekt (man ekki hvers son) fjallaði einnig um þessa alútboðsleið nýlega í blaðagrein og var þá að tala um fangelsi. Allir þessir menn voru á svipaðri skoðun. Því spyr maður hvort þeir sem velja alútboðsleiðina séu að misskilja eitthvað.

  • Er að velta fyrir mér hver sé aðkoma íslenska rikisins að þessu máli og hvort þessi framkvæmd falli að einhverju leiti undir stefnu íslenskra stjórnvalda í byggingarlist. Í þeirri stefnu stendur að hönnunarsamkeppni sé góður valkostur sem hvetji til fjöllbreytni, nýsköpunar og frumlegra lausna. Að fara með svona verkefni í alútboð tel ég vera slæman kost.

    Alútboð fellur ekki undir skilgreiningu Arkitektafélags Íslands á hönnunarsamkeppni. Í alútboði semur alverktakinn sjálfur við hönnuði og skilgreinir þjónustu þeirra og umfang hennar. Verkkaupinn semur þannig aðeins við einn aðila um allt verkið en innsýn hans og möguleikar til að hafa áhrif á hönnunar- og framkvæmdastig eru mjög takmarkaðir.

    Alútboð fellur ekki undir hönnunarútboðs- eða hönnunarsamkeppni samkvæmt þeim reglum sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu en EES-samningurinn felur í sér að opinberar verkkaupar eru skyldugir til að efna til hönnunarsamkeppni vegna allra meiri háttar byggingaframkvæmda.

    Í Bretlandi eru alútboð notuð um mjög einfaldar byggingar af ýmsum stærðum, svo sem vöruskemmur og þess háttar mannvirki. Þar á bæ falla alútboð ekki undir skilgreiningu breska arkitektafélagsins RIBA á hönnunarsamkeppni frekar en hér. Í handbók, sem gefin er út af Breska ríkinu er varað við notkun alútboðs þegar um flóknar eða vandaðar byggingar er að ræða.

  • Þetta er ekki beint menningarleg byrjun. Að láta verktakana velja arkitekta menningarhúss. Uss bara.

    Sváfu nú lobbýistar arkitektafélaganna vestnorrænu alægerlega á verðinum.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og fimm? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn