Mánudagur 27.09.2010 - 13:28 - 5 ummæli

Nýsköpun, framþróun, fagmennska, gæði

Formaður Arkitektafélags Íslands, Sigríður Magnúsdóttir, skrifaði grein á heimasíðu félagsins sem á erindi langt útfyrir stétt arkitekta. Sérstaklega til þeirra sem starfa í stjórnsýslunni og þeirra sem er annt um umhverfi sitt. Ég hef verið beðinn um að birta greinina hér á þessum vettvangi og gerið það nú með leyfi höfundar. Myndin sem fylgir er valin af höfundinum og er hún einnig birt með leyfi teiknarans, Halldórs Baldurssonar.

511Arkitektar-590x491

Grein formannsins ber yfirskriftina NÝSKÖPUN OG FRAMÞRÓUN, FAGMENNSKA OG GÆÐI, og fer hér á eftir:

“Arkitektafélag Íslands hefur vakið athygli á mikilvægi þess að vel sé staðið að undirbúningi framkvæmda, faglegur metnaður hafður að leiðarljósi og að gætt sé jafnræðis- og samkeppnissjónamiða við val á arkitektum. Lagaumhverfið ásamt Menningarstefnu í mannvirkjagerð, stefnu íslenskra stjórnvalda í byggingarlist á að tryggja að ofangreindum markmiðum sé náð.

Verklag opinberra aðila við kaup á þjónustu arkitekta og verkfræðinga er ógegnsætt, þrátt fyrir gildandi lög sem eiga að tryggja að faglega sé staðið að undirbúningi framkvæmda og að fylgt sé gagnsæju ferli. Lög um opinber innkaup, lög nr. 84 30. mars 2007 gæta almennra hagsmuna seljenda og kaupanda, sem eru opinberir aðilar og stuðla að því að ákveðin framþróun eigi sér stað í samfélaginu.

“1.gr. Tilgangur laganna

Tilgangur laga þessara er að tryggja jafnræði fyrirtækja við opinber innkaup, stuðla að hagkvæmni í opinberum rekstri með virkri samkeppni og efla nýsköpun og þróun við innkaup hins opinbera á vörum, verkum og þjónustu.” lög nr. 84 30. mars 2007

“3. gr. Opinberir aðilar sem lögin taka til.

Lög þessi taka til ríkis, sveitarfélaga, stofnana þeirra og annarra opinberra aðila, sbr. 2. mgr. Lögin taka einnig til samtaka sem þessir aðilar, einn eða fleiri, kunna að hafa með sér.” lög nr. 84 30. mars 2007

Arkitektafélag Íslands hefur óskað eftir upplýsingum frá ráðherrum og bæjarstjórum um hvernig staðið verði að undirbúningi nokkurra framkvæmda með hliðsjón af Lögum um opinber innkaup og Menningarstefnu í mannvirkjagerð. Spurt var um öryggisfangelsi, samgöngumiðstöð og fjögur hjúkrunarheimili fyrir  60, 45 og tvö 30 hjúkrunarrými. Auk þess var borgarstjóranum í Reykjavík send fyrirspurn þar sem óskað var eftir sambærilegum upplýsingum varðandi þjónustu- og menningarmiðstöð í Grafarvogi.

Í svari Félags- og tryggingamálaráðuneytis kemur fram að ráðuneytið sé hlynt opinni samkeppni um hönnun og nefnir nýafstaðna samkeppni um hjúkrunarheimili á Eskifirði með 20 hjúkrunarrýmum. Aðkoma ráðuneytisins að undirbúningi hjúkrunarheimila í Mosfellsbæ, Hafnarfirði, Akureyri og Reykjanesbæ er með öðrum hætti. Þar hafa viðkomandi sveitafélög tekið að sér byggingu húsnæðisins, sem skal hannað skv. leiðbeiningum í ritinu “Skipulag hjúkrunarheimila” frá 2008. Hvert sveitafélag ber ábyrgð á verkframkvæmdum og Framkvæmdasýsla ríkisins mun fylgjast með gæðum og að viðmiðum við hönnun sé fylgt eftir. Einungis Mosfellsbær hefur svarað bréfi Arkitektafélagisns. Í svari Mosfellsbæjar kemur fram að bæjarfélagið hafi í þrígang beitt opnu samkeppnisferli við val á tillögu og arkitekt á síðustu tveimur árum.  Ekki var unnt að beita þeirri aðferð við val á arkitekt til hjúkrunarheimilisins. Rökin voru að samkeppnisferlið tæki of langan tíma, þar sem hjúkrunarheimilið skyldi rísa á skömmum tíma, fjármögnun verkefnisins væri ekki vísitölutryggð og tengja ætti hjúkrunarheimili við mannvirki sem standa fyrir. Allir þættir verksins að undanskilinni arkitektahönnun verða boðnir út og stendur nú yfir útboð á verkfræðihönnun.

Hafnarfjarðarbær hefur farið þá leið að setja hjúkrunarheimilið í einkaframkvæmdarútboð, rekstur, bygging og hönnun húsnæðisins er boðin út samtímis og verður því þetta allt í höndum sama aðila.

Dómsmálaráðuneytið vinnur að frumathugun vegna byggingu skammtímavistunar- og gæsluvarðhaldsfangelsis. Í lok september verður boðin út bygging og leiga á nýju fangelsi.

Af þeim svörum sem borist hafa við bréfi AÍ má draga þá ályktun að það sé ekki mikið kappsmál að hálfu framkvæmdavaldsins að fara að lögum um opinber innkaup við kaup á þjónustu arkitekta, hvað þá að fylgja Mannvirkjastefnu í mannvirkjagerð, stefnu íslenskra stjórnvalda í byggingarlist.

Ríkiskaup auglýsir nú rammasamningsútboð á aðkeyptri þjónustu sérfræðinga í umhverfis-, skipulags- og byggingarmálum. Arkitektar eru meðal þeirra sérfræðinga sem koma til greina. “Ekki er ljóst hvaða magn verður keypt á grundvelli útboðs þessa, þar sem rammasamningar eru gerðir um tiltekna vöru- eða þjónustuflokka í tiltekinn tíma, án þess að magntölur séu þekktar.” (Ríkiskaup útboð í auglýsingu 14794). Innan rammasamningskerfisins er möguleiki á örútboðum, það eru útboð þar sem aðeins rammasamningshafar geta tekið þátt og meira frjálsræði ríkir um útboðstíma og fleiri atriði. Ekkert þak er á hámarskfjárhæð verkefna sem fara í örútboð. Með örútboði leggur Ríkiskaup til leið þar sem áskrifendur rammasamningskerfis Ríkiskaupa þurfa ekki að framfylgja öllum ákvæðum laga um opinber innkaup við kaup á þjónustu yfir lágmarksviðmiðunarfjárhæð. Ekkert í rammasamningsútboðsgögnum gefur til kynna að gagnsæi verði aukið við úthlutun verkefna á vegum opinberra aðila. Það er áhyggjuefni á hvaða grundvelli áskrifendur að rammasamningskerfi Ríkiskaupa munu velja sér ráðgjafa. Rammasamningskerfið treystir rekstrargrundvöll Ríkiskaupa þar sem rammasamningshafar skulu greiða Ríkiskaupum 1% þóknun af allri vinnu sem þeir vinna fyrir áskrifendur rammasamningskerfisins auk þess sem tæplega þúsund áskrifendur greiða áskriftargjald til Ríkiskaupa.

Það er umhugsunarvert að opinberir aðilar virðast hafa einbeittan vilja til að sniðganga og fara í kringum lög við kaup á þjónustu arkitekta. Það er lítil viðleitni til að gera kröfur um gæði hvað þá að stuðla að framþróun og nýsköpun. Þannig bendir fátt til þess að breyting sé á þeirri venju sem skapast hefur og að stjórnsýslan færist til betri vegar hvað varðar gegnsæi og fagleg vinnubrögð.

Við hrun íslenska fjármálakerfisins haustið 2008 gafst einstakt tækifæri til að meta og endurskoða  ríkjandi viðhorf og gildismat. Hrunið hefur haft víðtæk áhrif um allt samfélagið og ekki síst á störf arkitekta. Nú er gerð krafa um fagleg og yfirveguð vinnubröð, sem byggja á gildum, fylgja stefnu og fara að lögum og reglum.

Sigríður Magnúsdóttir, Formaður Arkitektafélags Íslands”

Rétt er að vekja athygli lesenda á heimasíðu Arkitektafélags Íslands slóðin er:

http://ai.is/

Þar er ýmsan fróðleik að finna um starfið og félagsmenn.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (5)

  • Hilmar Þór

    Þetta eru athyglisverðar upplýsingar sem Dennis færir okkur hér að ofan.

    Það má kannski bæta því við að það er eins og útbjóðandinn, Ríkiskaup, haldi að það sé hægt að verðleggja vinnu arkitekta á sama hátt og verkfræðinga. Þetta rökstyð ég með því að verkfræðivinna og margskonar ráðjafaþjónusta önnur er spyrt saman í eitt rammasamningsútboð.

    Það gengur sennilega ekki.

    Það hefur lengi verið vitað að stærstu ákvaraðnir við hvert hús liggja í frumdrögum arkitektsins. Í frumdrögunum er sennilega nálægt 90% byggingakostnaðarins ákveðinn. Árni hér að ofan gengur lengra(1-10-100). Frumdrög arkitektsins valda mestu um hvort betra sé af stað farið eða heima setið.

    Ef maður getur leyft sér að einfalda málið má segja að eftir frumdrögin er bara vinnan eftir og hana er auðvelt að verðleggja. Óvissan liggur í frumdrögunum.

    Þegar arkitektinn hefur vinnu sína þá byrjar hann á auðu blaði. Verkfræðingurinn byrjar fyrst eftir að allar meginlínur og meginákvarðanir liggja fyrir. Þess vegna er aðkoma verkfræðinganna auðveldari og betur til þess fallin að áætla eftirleikinn.

    Er ekki rétt að skoða hvort það væri ekki skynsamlegt fyrir Ríkiskaup að bjóða arkitektavinnu út sérstaklega?

    Svo er líka umhugsunarvert að ríkið skuli vera að bjóða út óskilgreinda vinnu fyrir arkitekta á tímum þegar stéttin glímir við um 80% atvinnuleysi. Samkvæmt útboðinu er hugsanlegt að samningurinn verði notaður næstu tvö árin. Þetta minnir á vistarbönd þar sem fólk var fast í aðstæðum sínum.

  • Í þessari of löngu grein er formaðurinn að segja tvennt:

    Í fyrsta lagi að stjórnvöld eru að reyna með einbeittum vilja að sniðganga og fara i kringum lög um kaup á þjónustu arkitekta. Þetta styður hún með dæmum og vísan til laga. Eftir að hafa lesið greinina getur maður ekki annað en tekið undir áhyggjuefnið og fordæmt hegðun sveitarfélaga og ríkisins. Það er eins og opinberir aðliar gangi á undan í því að brjóta og sniðganga lög.

    Hitt sem hún hefur áhyggjur af er illa hugað rammasamkomulag um kaup á arkitektaþjónustu sem gengur einna helst út á að treysta rektrargrundvöll Ríkiskaupa. Hún hefur áhyggjur af rammasamningnum og framkvæmd hans. Áhyggjur hennar eru skiljanlegar og það er full ástæða til þess að arkitektar íhugi vel hvort þeir eigi að taka þátt í útboðinu sem er slæmt fyrir stéttina.

    Það hefið verið skynsamlegt að skpita þessari grein í tvennt. Það hefði gefið tilefni til almennrar umfjöllunar í fjölmiðum.

  • Í dag átti ég ítarlegt samtal við Preben Dahl, Chefjurist hjá Danske Arkitektvirksomheder (Danske Ark) um danska rammasamninginn sem er fyrirmynd þess íslenska (heimild: Ríkiskaup). Preben sagði m.a. eftirfarandi:

    1) Danskir arkitektar voru ekki með í rammasamningsútboðinu á sínum tíma, þar sem það þótti óaðgengilegt og danskir arkitektar ekki verið með í ráðum við gerð þess. Danske Ark er afar ósatt við Ski (danska Ríkiskaup) og vinnubrögð þess. Ekki væri mikil skilingur á störfum arkitekta hjá Ski og stofnunin hefði oft verið staðin að því að fara á svig við eigin reglur í útboðsmálum. Ski ætti afar erfitt með að skilja að arkitektinn væri aðalhönnuður o.fl. Samningurinn snerist of mikið um þóknun og ekki nóg um gæði. Auk þess hefði samningurinn ekki staðist EU reglugerðir um útboð að öllu leiti og danska samkeppniseftirlitið hefði gert athugasemdir við hann. Danskir verkfræðingar hefðu hins vegar verið með í rammasamningsútboðinu, þótt þeir væru ekki alls kostar ánægðir með það. Þeir sjá m.a. í honum tækifæri til að fara inn á svið arkitekta og nálgast verkkaupa.

    2) Danskir arkitektar hafa hins vegar áttað sig á því að þeir geta ekki staðið utan við rammasamningsútboðin til lengdar, þar sem dönsk útboðslög séu þannig úr garði gerð. Þau séu töluvert stífari en t.d. í Bretlandi og hinum Norðurlöndunum sem eru þó á EES-svæðinu. Danskir arkitektar hafa því ákveðið að reyna að fá Ski til að gera sérstakt rammasamningsútboð sem væri sniðið sérstaklega að þeirra starfssviði. Það á þó eftir að koma í ljós hvort þetta tekst.

    3) Öll meiri háttar verkefni á vegum danska ríkisins færu hins vegar í arkitektasamkeppnir en nú væri t.d. verið að gera stórátak í að byggja spítala víðs vegar um landið. Rammasamningsútboðin næðu hins vegar aðallega til viðhaldsverkefna og smærri nýbygginga.

    Fróðlegt gæti verið að fylgjast með hvernig Danske Ark vegnar í samningum við Ski sérstaklega þegar haft er í huga að Ríkiskaup tekur sér samninga Ski til fyrirmyndar.

  • Árni Ólafsson

    1 – 10 – 100

    Leggið þessa talnarunu á minnið.
    1: Undirbúningur, hönnun og eftirlit.
    10: Byggingarkostnaður.
    100: Rekstar- og viðhaldskostnaður á „líftíma” byggingarinnar.

    Þetta eru grófar kostnaðarhlutfallstölur með hæfilegri ónákvæmni. Með því að vanda sig á frumstigi (hlutfallstalan 1), meta kosti, leita góðra eða nýrra leiða, nýta fyrirliggjandi þekkingu og reynslu, vanda sig og setja fram alvöru gæðakröfur (efnisgæði, form, útlit, notagildi o.s.frv.) má e.t.v. hafa talsverð áhrif á þann lið sem er með hlutfallstöluna 100. Það þarf ekki mikið frávik í þeim lið til þess að ná hærri krónutölu en í þeim fyrsta.

    Það er ótrúlegt hve opinberir aðilar hamast á undirbúningsliðnum, sem í reynd er lykillinn að hagkvæmri heildarútkomu úr dæminu. Þetta heitir annað hvort að „hagræða sig í hel” eða „spara sér til óbóta”.

  • Þorsteinn

    Fín grein

    Ég hjó eftir umfjöllun um “Örútboð”!!
    Það eru til:
    Opnar samkeppnir.
    Lokaðar samkeppnir.
    Boðskeppnir,
    Samkeppnir að undangengnu forvali,
    Alútboðssamkeppnir,
    Einkaframkvæmdar samkeppnir.
    Samanburðarsamkeppnir.

    Og nú koma “Örútboð” eða “Örsamkeppnir” opnar fyrir suma, með engu kostnaðarþaki og nýliðar í arkitektastétt komast ekki að.

    Þarf ekki að skoða þetta betur?

    Svo á hátíðarstundum er boðað til alþjóðlegra samkeppna. Það er sérstaklega sérkennilegt þegar opinberir aðilar eiga í hlut vegna þess í eðli sínu eru nánast allar samkeppnir alþjóðlegar með vísan til EES.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og átta? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn