Þriðjudagur 17.05.2011 - 18:01 - 14 ummæli

Önnur HARPA

Árið 2003 efndi fyritækið Austurhöfn-TR  til hugmyndasamkeppni um ráðstefu og tónlistarhús sem þróaðist í samningskaupaferil árið 2004.  Samningskaupaferlið var einkaframkvæmd (3P eða Public Private Partnership) þar sem fjögur fyritæki lögðu fram tillögu og tilboð í byggingu og rekstur hússins í áratugi.  

Íslendingum var sem sagt boðið uppá fjórar útgáfur af þessu mikla húsi sem allar voru unnar af hinum færustu arkitektum.

Nú þegar Harpan hefur verið tekin í notkun og hún blasir við er gaman að skoða aðrar tillögur sem fram komu í útboðinu. Ég ætla að birta grunnmynd og afstöðumynd ásamt nokkrum tölvumyndum af einu tilboðanna sem barst og vakti athygli mína fyrir einhvern léttleika og flug meðan sú sem við sjáum núna virka nokkuð klossuð. Þetta er sagt með fyrirvara vegna þess að ég á von á því að húsið sé mjög breytilegt eftir árstíðum. Sennilega verður það áhugaverðast á dimmum vetrardögum. En það á eftir að koma í ljós.

Tillagan sem myndirnar eru af barst  frá eignarhaldsfélögunum Fasteign og Klasi sem fengið höfðu íslensku teiknistofuna THG arkitekta og stofu Schmith, Hammer og Larsen til verksins.  Aðalverktaki var E. Phil & Sön ásamt ÍSTAKI

Þetta er hið glæsilegasta hús og ekki er nokkur vafi á því í mínum huga að það hefði ekki síður verið sómi af því en núverandi byggingu.

Til gamans má geta þess að sú tillag sem endanlega var byggð er 50% stærri en sú sem hér er kynnt.  Núverandi hús tekur til að mynda um 1800 gesti í sæti í aðalsal meðan sú sem hér er kynnt tekur 1500 gesti eða 20% færri gesti.

Afsöðumyndin vekur athygli vegna fíngerðrar byggðar sunnan tónlistarhússins þar sem borgarbragur er mótaður annarsvegar og svo falleg græn tenging frá Arnarhól til norðurs, meðfram tónlistarhúsinu og svo austur með Sæbraut.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (14)

  • Þorgeir Jónsson

    Þessi tölvumyndbönd eru ekki byggingarlist. Umræða um þau er ekki réttlát gagnvart Hörpunni í dag og samanburður er rangur.
    Með allri virðingu fyrir teiknistofu Halldórs þá sjá allir að „léttleikinn“ er blekking sem er algerlega óframkvæmanleg. Hver rúða slagar í tonn á myndunum. Ef við hefðum byggt eftir henni færi léttleikinn lönd og leið.
    Við skulum vera stolt af Hörpunni. Það sannar, að þessi þjóð kann að byggja yfir menninguna sína. Auk þess er hið heilaga hlutfall komið heim í hús…hugsið ykkur! Með gullinfangið fullt af list.

  • Þakka ágætar upplýsingar Stefán Benediktsson. Eflaust á bílakjallarinn á 3 milljarða rétt á sér, svona mv kostnað á hvert bílastæði í borginni. En það breytir ekki því að þetta hús mun kosta hátt í 30 milljarða. Og af því að það þótti til vinsælda fallið í Icesave kosningum, þá eru það einmitt barnabörnin (líka Egils :)) sem þurfa að borga. Mun hærri upphæð en Icesave, hefði það verið klárað.
    Meginhugmyndin var þessi, svona hús á fullan rétt á sér, en það má vel gera það fyrir minni pening. Alveg eins og höfuðstöðvar OR áttu rétt á sér, en hús er illa hannað þótt einhverjum þyki það flott, enda arkitektar að leika sér og menn láta alltaf glepjast. Jafnvel þótt bent sé það að svona byggingarlag, kosti mikið og vind-og veðurálag verði mikið.
    En það er ekki við núverandi stjórnvöld og borgaryfirvöld að sakast varðandi Hörpuna, enda ekkert annað hægt en að klára dæmið. Svo því sé haldið til haga. Það voru ýktar hugmyndir um Íslendinga fyrir hrun sem fór svona með þetta hús. Því miður. Og herfilega illa hugsuð einkaframkvæmd, sem almenningur borgar alltaf.

  • María Jónsdóttir

    Kannast einhver við þetta hús:

    http://www.youtube.com/watch?v=9vdY9wvKaxI

    Ekki ég.

    En svona var þetta dómnefndin heilluð.

    Sjokkerandi

  • Eyjólfur Guðmundsson

    Þetta er skemmtileg uppryfjun sem er nánast gleymdri sögu þó stutt sé síðan. Allir eru dolfallnir yfir því sem þeir fá en það sem þeir höfðu völ á er gleymt. Ég verð að segja að eftir að hafa skoðað myndirnar og lesið athugasemdirnar hér þá er ég tvístígandi. Nú erum við með þetta bjarg við hafnarkjaftinn sem var lýst í tölvumyndum sem leiftrandi gegnsæjum demanti. Þegar maður ber þetta augum í dag sér maður dökkann þungan skakkann ógegnsæjann glerklump.
    Ég tek undir þá skoðun að Askinasí og Ólafur hafi vegið þarna þungt og bæti því við vegna athugasemdar Halldórs að sennilega hefur eitthvað verið frjálslega reiknað af þeim ICESAVE mönnum í Landsbankanum þegar þeir reiknuðu 50% stærra hús út þannig að reksturinn yrði hagkvæmari (ódýrari) enn minna húsið. Afstöðumynd THG/SHL er trúverðug hér en í THL/Batt tillögunni er fullkomin óvissa.

  • Af þeim tillögum sem bárust á sínum tíma, voru þessar tvær tillögur valdar til frekari úrvinnslu. Þær voru mjög ólíkar sérstaklega hvað varðar stærð og skipulag umhverfis.
    Dómnefnd sem dæmdi tillögurnar var skipuð fagfólki á sviði tónlistar, skipulagsfræða, arkitektur og ekki síst á fjármálasviði. Tillögurnar hlutu nokkuð jöfn stig að mig minnir, en núverandi bygging skoraði betur út frá rekstrarlegu sjónarmiði og THG/SHL tillagan skoraði betur m.a. í skipulagslausnum.
    Það er dapurlegt að hafa misst af THG/SHL byggingunni því ekki var það bara minni og viðráðanlegri bygging, heldur fylgdi henni tillaga að miðbæjarskipulagi, sem fallið hefði mikið betur að bæjarmyndinni, heldur en sú lausn sem fylgir núverandi byggingu.

  • Viðar Halldórsson

    Ég hef ekki séð fullbyggða Hörpu að innan og spyr.

    Er starfrænn munur á þessum tveim húsum aðallega sá að fólk sem sækir tónleika í THG/SHL húsinu gengur sjávarmegin inn í salina meðan í Hörpu THL/Batt er gengið frá Kalkofnsvegi? Og í hléum horfa gestir í húsi THL/Batt á Seðlabankann og umferðina við Kalkofnsveg en í tillögu THG/SHL horfir fólkið til sjávar, Akrafjalls og Skarðsheiði?

    Þarna er ólíku saman að jafna.

    Þar fyrir utan að þetta hús er eins og höfundur pistilsins nefnir með meira flugi og léttara en núverandi hús sem er nokkuð klossað og virðist byggt úr grænu Coca Cola gleri.

    Það ber ekki að túlka þessi orð mín svo að mér líki ekki núverandi hús. Það er vafalaust hin besta bygging en mér þóknast hús THG/SHL betur.

  • ekki er snobb snopp nema snoppufrítt sé…

  • Stefán Guðmundsson

    Það sem olli mestu um val tillögu á sér stoð í djúpum rótum snobbs í menningarelítu landsins. Þar voru nöfnin Vladimar Askinasy og Ólafs Elíassonar sem skiptu sköpum. Valnefndin féll fyrir þessum stjörnum og valdi dýrasta húsið.

    Báður þessir menn eru ofmetnir.

    Og snobbið á eftir að halda áfram þarna á þeim stað þar sem menn unnu baki brotnu við uppskipun á árum áður fyrir nánast engin laun.

    Ég er sannfærður um að hús THG/SHL hefði fallið betur að staðnum enda betri arkitektúr. En það er önnur saga.

    Gaman væri að sjá hér kynnta tillögu Jean Nouvele.

  • Ég varð fyrir vonbrigðum með rýmismyndunina og rýmistilfinninguna í húsinu þegar ég kom í það um helgina. Það er eins og allt hafi snúist um þessa blessuðu strendinga sem ég hef ekki náð að fatta enn þá. Mér fannst eins og hönnuðirnir hefðu ekki náð tökum á því að hafa andyirið bæði hrátt og glæsilegt. Ég á eftir að koma í 3 sali af 4. En ég fer ekki ofan af því að utan frá séð er þetta rosalegt hrúgald. Sorry.

  • stefán benediktsson

    Útlitið er léttara en Hörpunnar, en enginn stórmunur á grunnhugmyndunum. Bíð framhaldsins.

    Gunnar! Kostnaður glerhjúpsins er bara lítill hluti heildarinnar. Dýrari útveggur en útveggir gerast, en annað ekki.
    Það sem kostar lang-, langmest er einmitt það sem gerir þetta hús að frábæru tónleikahúsi. Húsið er í raun mörg hús, allir salir eru „box in a box“, sem margfaldar kostnað þess, auk allrar þeirrar yfirburða tækni sem gerir húsið nánast að hljóðfæri.

    Auk þriggja milljarða bílakjallara, en í Reykjavík eru til fimm bílastæði fyrir alla bíla í borginni, þannig að borgarbúar geta ekki hneykslast, á kostnaði kjallarans, því að þeir hafa glaðir þegar greitt 25 milljónir í bílastæði fyrir hvern bíl í bænum, áður en við byggðum bílakjallara Hörpunnar.

  • Hilmar, það gengur ekki lengur að arkitektar fái endalaust að leika sér með fé almennings, sbr. Hörpuna nú og þá tillögu sem þú sýnir. Það átti að vera tónlistarhús og ekkert annað og vel hefði verið hægt að gera það fyrir minna en 10 milljarða ISK. Í staðinn er verið að kynna einhverja arkitekta-framúrstefnulist sem á víst að vera flott en alveg herfilega dýrt byggingarlag.
    En það alveg sama hvar fæti er niður drepið hér á landi. Allt á að vera svo flott og æðislegt svo eigum við ekki efni á að reka herlegheitin. Þar sem þekki þennan bransa aðeins hef ég orðið var við það að fáir þora að andmæla, af ótta við það að vera kallaðir smáborgarar. En allar þessar byggingar eru á kostnað skattgreiðenda og það er eins og enginn ætli að taka málstað þeirra. Mál að linni.

  • Flottari bygging en Harpan

  • Maria Sigurðardóttir

    Gaman væri að fá svipaða uppryfjun á því hvernig hinar tvær tillögurnar litu út.

  • Andrés Jónsson

    Finnst þessi tillaga draga dám af nýlegri höll BMW í Munchen Sjá hér http://en.wikipedia.org/wiki/BMW_Welt

    Smá Frank Gehry stemning í hvoru fyrir sig, tillögunni sem þú nefnir og BMW höllinni.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og fimm? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn