Mánudagur 11.01.2010 - 14:09 - 5 ummæli

Óróleiki í Alþingishúsinu

 

Fyrir utan pólitískan óróa í Alþingishúsinu er þar einnig nokkur arkitektóniskur órói.

Ég nefni dæmi.

Ef grannt er skoðað sést að hlið Alþingishússins til norðurs er samhverf og sömuleiðis hliðin til suðurs. En það er eins og suðurhliðin og norðurhliðin séu ekki á sama húsinu. Þegar horft er á norðurhliðina blasir við tveggja hæða hús. Þetta kemur fram í gluggasetningu hússins. Þegar suðurhliðin er skoðuð sér maður að Alþingishúsið er þriggja hæða. Sami munur er á austur og vesturhliðinni. Austurhliðin er þriggja hæða meðan vesturhliðin sýnist tveggja hæða.

Til þass að skýra þetta nánar ber ég saman tvö skyld hús, Safnahúsið við Hverfisgötu (1909) og Alþingishúsið (1881). Þau eru bæði teiknuð af dönskum arkitektum og hafa sömu grundvallarform, hlutföll og þakform. Svo eru þau samhverf.

Safnahúsið byggir á gullna sniðinu, er mjög agað, rólegt og víkur hvergi frá grundvallaratriðum þeim sem lagt var af stað með. Alþingishúsið byggir á því sama en hrekkur úr stílnum á nokkrum stöðum. Það er nokkur óróleiki þar. Arkitekt Safnahússins Johannes Magdahl Nielsen gaf hvergi eftir í þessum málum meðan arkitekt Alþingishússins, Friðrik Meldahl, fór frjálslegar með.

Það væri fróðlegt að vita hverjar hugrenningar arkitektsins voru þegar hann gekk frá teikningunum. Hann hefur sennilega ekki verið rólegur vegna þessa óróleika.

Þetta væri ekki stórmál í dag en hlýtur að hafa valdið hugarangri fyrir 130 árum þegar lögmál byggingarlistarinnar voru allt önnur en í dag og undantekningar illa séðar.

Ef bornar eru saman myndirnar tvær í þessari færslu sést að Alþingishúsið er eins og það sé tvö hús. Annað tveggja hæða og hitt þriggja. Gluggasetning og gluggaform er með tvennum ólíkum hætti. Efnisvalið bindur þetta saman.

Húsið talar tungum tveim eins og sumir þeirra sem innifyrir starfa.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (5)

  • Stefán Benediktsson

    Þetta eru byggingarsögulega merkar uppgötvanir(í alvöru)því það eru ástæður fyrir þessu og þær snerta meistaramnn frekar en arkitektinn trúi ég

  • Mjög kúnstukt.

    Eru ekki til teikningar af Alþingishúsinu?

    Ég veit að Forngripasafnið fékk inni í húsinu og var á 3. hæð. Og fleiri söfn, gott ef ekki Landsbókasafnið líka.

    Getur skýringin á gluggaleysinu á vesturhliðinni legið í því að íslendingar hafi viljað spara, hugsað sem svo að það þyrfti ekki glugga vegna þess að þessi hluti hæðarinnar væri bara geymsla?

    Svo er annað.

    Gluggar á 2. hæð, Dómkirkjumegin eru ferhyrndir og múrað upp í steinbogann sem toppar þá.

    Gluggar á 2. hæð vestanmegin virðast vera bogadregnir efst, glerjaðir uppúr.

    Eða er þetta missýn?

  • Einar Einarsson

    Gudjon, eru til teikningar af þessu? Og af því að ég er latur og er uppi á 21. öld, þá er ég auðvitað að falast eftir hlekk á þessu blessaða alneti…

  • merkilegt , aldrei tekið eftir þessu.

  • Það sem er ennþá verra við þessa byggingu er að það vantar á hana fæturnar. Hlutfallslega virkar hún hokin, enda átti hún upphaflega að standa á stalli með tröppur upp að aðaldyrunum eins og eðlilegt er með opinberar ný-klassískar byggingar. Stallurinn, sem átti að vera undir bygginguni u.þ.b. hálf hæð, var fjarlægður úr hönnuninni til að spara peninga. Byggingin hefði verið mun veglegri, og krippu laus með stallinum. Kannski það sé því einnig hægt að segja að það vanti allan virðugleika í bygginguna, og kannski íbúana líka?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og átta? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn