Þrátt fyrir að langmesti hluti af eignum og skuldum fólks sé bundin arkitektúr og skipulagi er málaflokkurinn nánast aldrei á dagskrá. Hann er sjaldan í umræðunni. Það er jafnvel eins og arkitektúr skipti ekki máli eða gleymist í önnum dagsins.
Þrátt fyrir að flest fólk verji meira en 95% af tima sínum í eða við hús eða á milli húsa lætur það sig litlu skipta um hvernig næsta umhverfi er mótað. Maður gæti haldið að fólk telji að skoðanir þess og þarfir skipti ekki máli og það geti ekkert við þróunina ráðið.
Arkitektúr er eina listgreinin sem ekki er hægt að ver án. Það er heldur ekki hægt að sniðganga hann. Hann er allt um kring og enginn lifandi maður á kost á að leiða hann hjá sér.
Byggingalistin er eina listgreinin sem allir þurfa að kunna njóta og læra að þola.
Ef þér leiðast bókmenntir þá hættir þú að lesa. Sama á við um tónlist, leiklist og myndlist. Ef þessar listgreinar fanga þig ekki lætur þú þær eiga sig. Lokar bókinni, sleppir að fara í bío, leikhús eða hljómleika.
En þú ert alltaf umkringdur arkitektúr, háður honum skuldar í honum eða átt eignir í honum en þú hefur engan áhuga á honum og villt ekkert ræða hann eða kynna þér ef marka má það rými sem málaflokknum egr gefið í umræðunni.
Af hverju er ég að segja þetta hér.
Það er vegna þess að ég er forviða hversu lítið er fjallað um byggingalist og skipulag í dægurmálaumræðunni. Nánast enginn fjallar um arkitektúr hér á landi með reglulegum hætti þannig að hægt sé að ganga að umræðunni á vísum stað. Það er ekkert fjallað um arkitektúr i fjölmiðlum nema þegar einhverjir aðrir hagsmunir tengjast efninu. Hagsmunir verktaka eða efnissala, pólitískir hagsmunir eða þá að það eru enhverjir beinir fjárhagslegir hagsmunir sem er umræðuefnið þegar arkitektúr eða skipulag skýtur upp kollinum í dægurmálaumræðunni. Aldrei byggingalistin eða skipulagið sjálft.
Og hver er ástæðan fyrir því?
Hún hlýtur að vera sú að fólki finnst þetta óinteressant og að byggingalistin skipti ekki máli eða komi því ekki við. Kannski heldur fólk að umræða hafi engin áhrif eins og þarna séu náttúruöfl á ferðinni eða að skipulag og arkitektúr komi frá Guði. Það er auðvitað tóm vitleysa og eina sem getur bætt ástandið eða haft áhrif er gagnrýnin uppbyggileg umræða.
Það er lítil eftirspurn eftir umfjöllun um bygingalist. Ég verð þó að upplýsa að ég er afar ánægður með lesturinn á þessum vef og mér er því óskiljanlegt áhugaleysi fyrir efninu á öðrum á öðrum miðlum. (ég vil árétta að ég held þessum vef úti einungis sjálfum mér til gamans þó það gleðji mig einnig að nokkur viðvarandi og vaxandi áhugi sé fyrir efninu)
Sjá einnig:
http://blog.dv.is/arkitektur/2009/10/16/byggingarlistin-er-utundan/
http://blog.dv.is/arkitektur/2011/04/13/arkitektur-i-grunnskolunum/
Efst í færslunni er ljósmynd af hluta Safnahússins við Hverfisgötu sem tekið var í notkun fyrir rúmum 100 árum. Fjallað er lítillega um bygginguna á þesari slóð.:
http://blog.dv.is/arkitektur/2009/10/23/%e2%80%9cde-gustibus-non-est-disputandum%e2%80%9d/
Ég held að mest af áhugaleysinu felist í tvennu.
Í fysta lagi þá telja flestir að Arkitektúr sé skrautið sem bætt er við bygginguna eftirá. Arkitektúr er ekki til að finna alvöru lausnir, heldur er þetta skrautlist. Þeir sem halda þetta eru líka margir hverjir arkitektar sjálfir. Póst Módernisminn eyðilagði margt.
Það er hins vegar grundvallar munur á „List“ og „Hönnun“. List spyr spurninga, hönnun reynir að finna svör við spurningum. Það væri óskandi að margir „hönnuðir“ skyldu þetta sjálfir.
Í öðru lagi þá einfaldlega eyðilögðu margir skipulagsfræðingar og arkitektar alla samúð með þessum fræðum í gegnum tíðina. Höfuðborgin er illa skipulögð og sérstaklega ljót borg ef horft er á heildina. Ljótar og illa hannaðar skeinsteypublokkir umkringdar ljótum og illa hönnuðum vöruhúsum með verslunarstarfssemi, Allt umhverfið er annaðhvort umferðareyjur eða einkabílamannvirki. Lítið að gerast, lítið sem laðar að eða gefur umhverfinu líf. All er þetta „hannað“ af arkitektum.
Af hverju í ósköpunum ættu landsmenn að hafa áhuga á þessari grein.
Þegar manni heyrir orðið arkitekt dettur manni í hug eitthvað sem kostar hundrað sinnum meira að það þarf að kosta. Þess vegna forðast fólk arkitektur helst eins og geislavirkan úrgang.
Það þarf að gefa fólki þá hugmynd að arkitekur kosti ekkert eða lítið meira.
Til fróðleiks – ekki síst fyrir leikmenn.
http://www.akureyri.is/is/moya/page/byggingarlistarstefna-akureyrarbaejar-1
Takk fyrir Árni, mjög áhugavert fyrir leikmann – sem eitt sinn lék sér á eyrinni.
Ég held að umræðu um arkitaktúr þurfi arkitektar sjálfir að leiða. Það hefur vantað upp á það finnst mér. Ef til vill er fólk hrætt um missi verkefna ef það er of bersögulit eða hrætt um að særa kollegana með því að gagnrýna verk þeirra. Myndlistarmenn hafa sem dæmi verið mjög duglegir að fitja upp á málþingum af ýmsum toga um málefni sem hafa brunnið á þeim, t.d. um stöðu myndlistar, um list í almannarými, um höfundarrétt og margt fleira. Ég man ekki eftir mörgum málþingum um íslenska byggingarlist, þó oft hafi verið tilefni til. Eiginlega ætti það að vera verkefni byggingarlistardeildarinnar í Listasafni Reykjavíkur að halda amk eitt árlegt málþing (þeir héldu nú reyndar einhver málþing á sínum tíma). En fyrst og fremst þarf fólk að þora að taka umræðuna á opinberum vettvangi, þora að segja það sem því býr í brjósti, frekar en halda þétt um kaffibollann í öruggu rúmi og meðal félaga og jásystkina……….þessi bloggsíða sýnir að áhuginn er fyrir hendi…..
Ég tel að hluti af skýringunni fyrir áhugaleysinu sé að hérlendis hefur skilningur og virðing fyrir arkitektúr og hönnun lengst af verið af skornum skammti, ólíkt því sem hefur verið t.d. í Finnlandi. Þar hefur arkitektúr og hönnun mótað menningu og efnahagslíf Finnlands frá seinni hluta 19. aldar og fram á daginn í dag. Í því ferli hefur arkitektúr og hönnun orðið óaðskiljanlegur hluti af sjálfsmynd og alþjóðlegri ímynd lands og þjóðar. Hönnun og arkitektúr Finna er þekktur víða um lönd og ber þar hæst verk arkitektsins Alvar Aalto.
Menningarleg sjálfsmynd og ímynd Íslendinga tengist bókmenntum fremur en hönnun og arkitektúr. Margt bendir til þess að hér séu nú að verða sinnaskipti. Með tilkomu hönnunar- og arkitektúrdeildar við Listaháskóla Íslands 2001-2002, stofnun Hönnunarsafns Íslands 1998 og Hönnunarmiðstöðvar Íslands 2008 hafa á skömmum tíma skapast alveg nýjar aðstæður hérlendis. Árið 2007 var jafnframt gefin út stefna stjórnvalda í byggingarlist og nú er von á stefnu stjórnvalda í hönnun.
Eftir bankahrunið 2008 stendur atvinnu- og efnaghagslíf Íslendinga á tímamótum nýrra tækifæra. Með tíð og tíma tekst vonandi að byggja hér upp öflugt menningar- og atvinnulíf sem byggir í auknum mæli á hönnun og öðrum skapandi greinum. Af 140 ára reynslu Finna getum við ýmislegt lært m.a. það að uppbygging hönnunarsamfélags er langhlaup sem gerir kröfur um úthald, öguð vinnubrögð og gagnrýna hugsun. Ef rétt er haldið á málum bendir því margt til þess að hönnun og arkitektúr gætu skipað veglegri sess í íslensku samfélagi en verið hefur.
Áhugaverður pistill (eins og alltaf). Annars hef ég verið mikið að hugleiða arkitektúr upp á síðkastið, enda var ég að klára fyrir stuttu bókina The Fountainhead eftir Ayn Rand.
Kannski er þetta ekki alslæmt. Það spruttu upp líflegar umræður um Byggingarreglugerðirnar og uppskeran var að gildistökunni var slegið á frest. Þetta gerist hvergi annarsstaðar en á Íslandi, svo gott sem ég veit. Þessi vefur sem Hilmar heldur úti, átti sinn þátt í að koma þeirri umræðu af stað.
Annars er erfitt að halda úti gagnrýninni umræðu í litlu samfélagi. Það eru flestir sammála um að þáttaka arkitekta í opinberri umræðu er lítil sem engin.
Eins og kemur fram hérna að ofan verðlaunar Akureyrarbær byggingarlist og einnig Kópavogsbær. Kannski ættu fleiri bæjarfélög að sína metnað sinn í að stuðla að góðri byggingarlist í heimahögunum ? Svo mættu þessir atburðir (byggingarlistarverðlaun) fá meira rými á ljósvökunum. Það vill nefnilega bregða þannig við að neikvæð umræða fái meiri byr en jákvæð.
Hér fer fram umræða eins og hún best gerist. Fólk segir sína skoðun, kemur með önnur sjónarhorn, tekur þátt
á upplýsandi hátt án þess að reyna að „vinna“ umræðuna. Svona samtal ætti að eiga sér stað sem víðast, á kaffistofum, við kvöldmatarborðið, i fermingarboðum og brúðkaupum sem eðlilegt samtal hversdagsleikans. Þetta segi ég þó ég sé alls ekki sammála öllu sem hér hefur verið sagt.
Gaman að lesa svörin her að ofan, lýsandi fyrir áhuga fólks, ekki satt. Þetta er mjög góð síða, ahugaverðir vinklar.
Getur verið að arkitektar hafi gengið fram af Íslendingum með hriplekum húsum sem teiknuð voru við hæfi í sólarlöndum en ekki með tilliti til íslenskra aðstæðna. Húsin í Tjarnargötu eru liklega norsk a.m.k. „arkitektúrinn“ með vatnshalla á þökum. Einnig á nokkrum stöðum úti á landi eins og t.d. Seyðisfirði. Sennilega teiknuð og reist af byggingameisturum sem þekktu byggingarefnið og eiginleika þess. Ég þekki engan íslenskan arkitektúr nema helst torfbæina og einstaka hús í Reykjavík eins og t.d. Bjarnaborg.
Hvaðan sem byggingarlistin kemur, frá mönnum eða guðum, þá þakka ég guði fyrir elju og dugnað Hilmars Þórs að halda þessu hans frábæra bloggi gangandi, honum og okkur hinum (og líkast til guði) til mikillar gleði 🙂
Og vitaskuld tek ég heils hugar undir orð Hilmars í þessum pistli og einnig undir orð þeirra sem vildu sjá meira fjallað um byggingarmál og arkitektúr og helst á þann hátt sem Árni Ólafsson orðar svo vel í sinni athugasemd, sem hinum „praktíska veruleika á þessu sviði“, en ekki bara um eina og eina morðdýra Hörpu og allan glamúr snobbtískunnar.
Fólk veit meira um grillið á svölunum hjá sér en húsið sem það býr í.
Er flest fólk ekki bara búið að sjá of mörg skipulags og arkitektaklúður ?
Allir vita að þeir vinna bara svipað og aðrir verktakar, hanna það sem hentar eiganda og eða greiðanda verksins. Oftast til að græða sem mest.
Sem fólki líkar ekki, því að lítið tillit er tekið til þeirra hliðar, þeirra sem eiga að nota hlutina,
„Arkitektúr er eina listgreinin sem ekki er hægt að vera án.“ Þessi fullyrðing er ansi breið en ekki mjög djúp. Hellar eru ekki „list“ en menn voru farnir að setja „listrænt“ mark sitt á efni og tól áður en þeir fluttu úr hellum í hús.
„Byggingalistin er eina listgreinin sem allir þurfa að kunna njóta og læra að þola.“ Þessi fullyrðing er aftur á móti sannari en hin og nær utanum umræðuvandann.
Grunnskólagenginn íslendingur ber afar lítið skynbragð á form enda orðið fengið að láni úr etrúsku minnir mig og segir okkur ekki mikið (ógagnsætt). Ég skoða mikið af íbúðum í dag (tilviljun) og þar hafa víðast verið fagmenn að verki sem bera gott (svolítið einsleitt) skynbragð á form og liti en hafa engan skilning á starfsemi (funktion). Algengt er t.d. að þú gangir inn í svefndeild íbúðar og stofur/eldhús oft mjög illa afmarkað rými að lögun og stærð.
Burtséð frá „huggulegheitum“ er heimili starfsemi sem eðlilegt er að skipuleggja þannig að þar rekist ekki hvað á annars horn. Þetta er ekki erfitt að kenna í grunnatriðum og er verkefni sem er tengir líf okkar við geometríu, og mengjafræði.
Formskynjun er vanrækt verkefni í þroska og menntun. Verkefni sem þarf að byrja snemma og vinnast í efnum, ekki bara á pappír. Húsaskoðun ætti að vera skólaverkefni eins og fyrirtækjaheimsóknir.
Ég skal viðurkenna það að mér finnst arkitektar vera alltof uppteknir af sjálfum sér, og því að vera listamenn.
Sem húsbyggjanda hef ég lítinn áhuga á því að hlusta á arkitekt tala um það hvað hann sé mikill listamaður, eða hvað hann geti gert framúrstefnulega hönnun.
Sleppið listamannavælinu úr umræðunni og fleira fólk fær áhuga.
Eitthvað er til í þessu Brjánn og það má bæta því við að það voru líklega mistök að einangra arkitektanámið í ListHáskanum á sínum tíma
Eg tek undir með þer að byggingarlist ætti að eiga stærri sess i umræðunni, en þurfa þa arkitektar ekki að lita i eigin barm?
Þegar tekið er tillit til þess að arkitektar hafa verið fremstir i flokki husafriðunar og stöðnunar i faginu skýtur skökku við að þeir séu að kvarta undan ahugaleysi um byggingalist. Nu er svo komið að kaffibollinn er orðinn viðmið um nýtingarþörf húsnæðis og þá expressobolli.
Ef menn hugsa ekki stærra hvernig geta þeir ætlast til að sauðsvartur almenningur syni málefnum husagerðarlistar einhverja virðingu?
EES telur að ástæðuna sé að finna í sögegri geymd. Ætli það sé ekki rétt. Einhver hlýtur skýringin að vera. Og hún hlýtur að liggja djúpt í þjóðarsálinni.
Matargerðalist, tónlist, skáklist, myndlist, leiklist, ritlist, danslist eða hvaða
listar sem er verður ekki notið án „móður listanna“ ; byggingalistar
Áhugaverð tenging við náttúruöflin og finnst mér nokkuð til í því. Það virðist vera að sem flestar meiriháttar byggingar (Harpa, hátæknisjúkrahús) og sum stærri deiliskipulög detti bara af himnum ofan og erfitt að hafa áhrif á það. Þó getur líka verið vegna þess að maður veit ekki alltaf hvað væri best að gera í staðinn og þá margar ólíkar hugmyndir sem erfitt er að sameinast um ef þess yrði krafist. Aftur er hátæknisjúkrahúsið ágætis dæmi því þótt það megi deila um stærð þess og staðsetningu hefur ekki reynst svo auðvelt að velta upp annarri staðsetningu sem starfsmenn og háskóli yrðu ánægð með. Þar með er hin opinbera andstaða gegn öðrum hugmyndum orðin nokkuð sterk.
Fólk ræðir samt oft arkitektúr sín á milli en þó stundum hvað hefði mátt fara betur og þá einkum varðandi praktísku hliðina. Þar er þó ekki alltaf við arkitektinn að sakast heldur verkkaupa sem er kannski ekki með nógu ljós hugmynd um hvað hann vill eða hvað húsnæðið á að gera. Gott dæmi um það er baðhúsið við Ylströndina sem á sínum fyrstu árum átti að borga inn í en byggingin öll er þannig gerð að þar er ókeypis eða frjáls framlög (ekkert eiginlegt afgreiðsluborð/andyri sem þarf að fara framhjá til að fara inn í klefa).
En að því sem EES segir að þá er ekkert óeðlilegt að líta á suman arkitektúr sem birtingarmynd valdsins samanber Orkuveituhúsið, Ráðhúsið, Perluna og nú síðast líklega Hörpuna. Sjálfum finnst mér margar þessara bygginga bruðl og sumar hreint ljótar eða óspennandi og fellur Harpan í þann hóp (hún reyndar fær hjá mér ósanngjarnan samanburð við óperhúsið í Osló sem sló mig algjörlega út laginu hvað varðar væntingar til fallegra tónlistabygginga)
En þetta er mjög skemmtileg síða.
Þjóðarsál
Íslendingar er haldnir þeirri fóbíu sem hefur heldur magnast heldur en hitt eftir Hrun að telja allar framkvæmdir sérstaklega hús eigi helst ekki að kost neitt. Og ef kostnaður er nefndur þá er strax farið að tala um bruðl flottræfilshátt.
Ég tel að þetta sé í genum Íslendinga sem bjuggu kynslóð eftir kynslóð við húsakost sem sótti efnivið í umhverfið og var því framan af erfitt að átta sig á hvort um var að ræða hól eð hús í landslaginu.
Þegar menn fóru að byggja hús sem skáru sig úr landslaginu þá voru það embættismenn og efnameiri bændur og húsið varð táknmynd valds og litið á það sem valdatákn að búa í húsi.
Því drakk íslenskur almenningur það í sig með móðurmjólkinni að láta sér nægja hól í landslaginu sem hyrfi af yfirborðinu þegar hann væri yfirgefinn.
Arkitektúr er því í undirmeðvitund Íslendinga tengdur bruðli og sóun sem ekki er sæmilegt að ræða hvorki hversdags eða á hátíðarstundum. Við ræðum um veðrið, afla til lands og sjávar og bókmenntir.
Það þarf að breyta þessu hugafari. Það gerir það engin annar en VIÐ.
læt fylgja með rúmlega 110 ára gamla ljósmynd úr leiðangri F.W.W Howll um þar síðustu aldamót af bænum í Krýsuvík.
http://www.flickr.com/photos/cornelluniversitylibrary/4558902480/in/set-72157623945632982/
Akureyrarbær hefur veitt byggingarlistarverðlaun frá árinu 2000 með það að markmiði að vekja athygli á góðri byggingarlist og vekja umræðu um efnið í samræmi við byggingarlistarstefnu bæjarins. Þar hefur boltinn verði gefinn upp – en fáir hafa tekið við og haldið umræðunni áfram.
Dagblöðin gætu komið sér upp byggingarlistargagnrýnendum !! Annars er þetta mjög sjónvarpsvænt efni – en snobbtíska og fullkomnunarárátta eru þröskuldar á þeirri leið (sbr. stöku sjónvarpsþætti um stjörnuarkitekta en ekkert um alþýðuarkitektúr eða nokkuð sem snýst um praktískan veruleika á þessu sviði).
Já, enginn kemst af án arkitetúrs í dag. Og víst er það merkilegt hvað lítið
er fjallað um þennann málaflokk.
Hafa td. nokkurn tímann verið gerðir sjónvarpsþættir um arkitektúr ?
Þetta er jú myndrænt efni sem ætti að geta gert sig ágætlega í sjónvarpi, og tiltölulega ódýrt í framleiðslu.
Á Íslandi er úr nógu efni að moða eins og þessir fróðlegu pistlar Hilmars hafa margsýnt.