Er ekki ráð að byggja “ósýnilegt” hótel og veitingahús á Þingvöllum?
Eins og flestir vita eru Þingvellir á heimsminjaskrá UNESCO. Það eru líka Píramítarnir í Egyptalandi og Stonehenge á Bretlandseyjum.
Allt mikil veraldarundur.
Krónborgarkastali í Helsingör á Sjálandi er einnig á heimsminjaskrá UNESCO. Þar í næstu grösum var áveðið fyrir nokkrum árum að byggja sjóminjasafn.
Ein megin krafan sem gerð var, sem kom að mér skilst frá UNESCO, var að sjóminjasafnið yrði ekki sjáanlegt þegar horft var til kastalans eða frá honum. Safnið átti að vera “invisible”!
Efnt var til samkeppni meðal arkitekta þar sem hinn ungi dani Bjarke Ingels bar sigur úr bítum. Safnbygging hans er eins og óskað var eftir, ósýnileg.
Lengi hefur staðið til að byggja hótel og þjónustuhús í tengslum við þjóðgarðinn að Þingvöllum. Áformin hafa verið rædd síðan löngu áður en Valhöll brann fyrir nokkrum árum. Það eru 42 ár síðan sameppni var haldin um framtíð Þingvalla og þar með staðsetningu hótels.
Mikið væri það ánægjulegt ef UNESCO gerði svipaðar kröfur og í Danmörku og krefðust þess að nýtt hótel á Þingvöllum yrði ósýnilegt þeim sem fara um svæðið til þess að njóta þess sem það hefur upp á að bjóða.
Fyrir nokkru var frá því sagt í Morgunblaðinu að Þingvallanefnd væri að velta fyrir sér staðsetningu byggingar sem koma á í stað göml Valhallar. Í blaðinu kom fram að þjóðgarðsvörður hafi snúið sér til verkfræðistofu til þess að meta hvar best væri að byggja. Já “verkfræðistofu” var falið að finna hentugan stað fyrir hótel og veitingahús á Þingvöllum. Þetta er furðulegt þegar það er vitað að hér á landi er fjöldi landslagsarkitektastofa, arkitektastofa og fleiri sem búa yfir sérfræðiþekkingu um staðsetningu bygginga í landslaginu.
Ef ég skildi fréttina rétt þá nálguðust verkfræðingarnir lausnina með verklagi verkfræðinnar og á hennar forsendum í stað þess að nálgast lausnina á forsendum náttúrunnar, sögunnar og staðarins og ekki síður (listrænna) tilfinninga (kannski mikilvægasta forsendan). Verkfræðileg nálgun er auðvitað kolvitlaust í þessu tilfelli. Mátti jafnvel skilja á Morgunblaðinu að niðurstaða verkfræðinganna hafi verið að byggja ætti í grennd við Hakið og vógu frárennslismál þar þungt(!).
Við Krónborgarkastala var farin önnur leið. Þar sneru menn sér til fagmanna, arkitekta og landslagsarkitekta og báðu þá um að koma með tillögu um nánast ósýnilegt hús samkvæmt ósk UNESCO ef ég skil rétt.
Haldin var samkeppni sem arkitektinn Bjarke Ingels vann. Bjarke brá á það ráð að nýta sér þurrkví fyrir skip sem þarna var og koma safninu fyrir neðanjarðar í tengslum við kvínna. Markmiðið var, eins og það var orðað, að byggja “ósýnilegt” safn á þessum stað.
Það má segja að það hafi tekist.
Að neðan eru nokkrar ljósmyndir af byggingu arkitektsins ásamt slóð að stuttu myndbandi þar sem Bjarke Ingels útskýrir vinningstillögu sína í samkeppninni. Það er alltaf gaman að hlusta á Bjarka, hann hefur afskaplega sterka sýn á verk sín og mikinn sannfæringarkraft. Í ljósi niðurstöðu í nýafstaðinni samkeppni um Sundhöll Reykjavíkur er fróðlegt að kynna sér niðurstöðuna hér, en Bjarke braut keppnislýsinguna sem gaf honum tækifæri til þess að hugsa út fyrir rammann og laða fram betri lausn en dómnefnd sá fyrir.
Kröfur um ósýnilegt hús og þessi nálgun leiðir hugan að því hvort ekki sé ráð að fara svipaða leið á Þingvöllum. Fá sérfræðinga til þess að velja byggunum stað og bjóða svo hugmyndaríkum arkitektum til þess að hanna hús sem er nánast ósýnilegt.
Neðst koma nokkrar myndir af nýlegum hugmyndum arkitekta um hvernig þeir sjá fyrir sér byggingu í Þjóðgarðinum.
Hér er slóð að frekara efni um sjóminjasafnið:
http://www.wired.com/design/2013/11/this-museum-is-invisible-until-you-look-down/#slideid-299491
Og ér er stutt skemmtilegt myndband þar sem Bjarke Ingels segir frá húsi sínu og samkeppninni.
http://arkitekturtv.dac.dk/video/422439/sfartsmuseum-i-helsingr
Hér að neðan koma nokkrar myndir af hugmynd arkitekta um byggingu í þjóðgarðinum á Þingvöllum. Þessar myndir eru settar hér inn til þess að skýra þessar tvær nálganir sem vissulega ganga í sitt hvora áttina. Önnu er svo hógvær að maður gæti haldið að höfundurinn sé fullur lotningar og jafnvel haldinn svo mikilli minnimáttarkennd að hann skammist sín fyrir verk sitt og svo hinn sem er fullur sjálfstrausts og telur sig valda öllu sem fyrir hann er lagt.
Ég skrifaði um þessa tillögu fyrir þrem árum. Þar spunnust förugar umræður og sitt sýndist hverjum. Slóðin er þessi:
http://blog.dv.is/arkitektur/2010/10/12/thingvellir-stadarvitund/
Á afstöðumyndinni sést Þingvallabærinn efst til hægri og kirkjan. Síðan brúin yfir Öxará og flötin sem gamla Hótel Valhöll stóð og loks nýbyggingin sem þverar Almannagjá.
„Byggingin leggst þvert á landslagið, inn í bakkann og spannar yfir Almannagjá. Með þessu þversniði verður úr árekstur náttúru og kúltúrs, þar sem elementin vega hvort annað upp“ segja höfundarnir um þetta snið. Sem sagt þá telja þeir að byggingin styrki og lyfti sjálfri Almannagjá upp í æðra veldi!.
Athyglisvert að í umfjöllun þinni um Þingvallarverkefnið þá samlíktir þú vöntun á staðarvitund verkefnisins við mörg verkefni Bjarke Ingels, sem er vissulega rétt. Bjarke virðist vera að rétta úr kútnum núna hvað það varðar.
Hólel Valhöll tók þátt í að móta anda staðarins – og það á jákvæðan hátt. Sjá myndina efst í færslunni. Ég skil ekki hræðslu eða fælni gagnvart því að byggja nýtt hús á sama stað. Mér finnast Þingvellir fátækari eftir að hótelið brann. Staðurinn hafði ákveðið aðdráttarafl í sjálfu sér – fyrir utan það hversu magnað það var að búa á þessum stað í eina eða tvær nætur. Forréttindi að búa við slíkan möguleika.
Legg til að verkfræðingar verði fengnir til þess að skoða hvort ekki megi leysa fráveitumálin þar 🙂
Það er vissulega rétt að gamla Hótel Valhöll tók þátt í að móta anda staðarins og byggingin kallaðist ágætlega á við aðrar byggingar þarna, kirkjuna og Þingvallabæjiinn.
Það er að mínu mati fullkomlega eðlilegt að skoða þann kost aftur með það i huga að húsið verði ekki stærra og að það hæfi staðarandann.
Á nokkuð að byggja í þjóðgarðinum annað en snyrtilega litla aðstöðu á Valhallarreitnum eins og Breyskur nefnir?
Þessi ádeila á verkfræðingana er réttmæt. Maður skilur ekki af hverju þeir taka þetta að sér!
Væri ekki réttast að byggja hótel í jaðri þjóðgarðsins?
Þó þetta sé skemmtileg hugdetta að troða því ofan í Almannagjá þyrfti stórt hótel með þeim aðflutningum sem til þarf mun meira rými en völ er á án þess að þrengja allt of mikið að þessum gersemum sem Þingvellir eru.
Vallhallarreiturinn væri hins vegar frábær til að byggja veitinga og mótöku hús. Þar væri hægt að kaupa gott sunndagskaffi fyrir bíltúra, halda giftingar og afmælisveislur og mótökur erlendra gesta.
Þótt hótelið hafi verið orðið hálfniðurnýtt undir það seinasta féll stærðin og útlitið ágætlega að staðnum og var til staðar þegar Þingvellir komust á þennan ágæta lista UNESCO. Væri því sjálfsagt að nota það sem útganspunkt og byggja nýjan gesta skála með innblæstri frá Vallhöll.
Athyglisverð hugmynd hjá Breyskum hérna að ofan, en merkilegt að spjalla undir nafnleynd á þræði eins og þessum.
Ég vil minna á að forfeður okkar veittu Öxará ofan í Almannagjá. Þeir voru sko engar rolur.
Arkitektar geta sjálfum sér um kennt að verkfræðingar vinni á daginn og grilli á kvöldin á meðan við keppum við hvorn annan, án endurgjalds. Kannski ættu arkitektar að flippa borgurum hjá grillmeisturunum eða skríða niður úr fílabeinsturnunum og vinna að hagsmunum sínum saman.
Það verður spennandi að sjá hvernig málin þróast á þessum fallega stað.
Takk fyrir bloggið nafni.
Til hamningu með daginn. 1. des, og útspil ríkisstjórnarinnar í gær,
Nú er ekkert annað að gera en að hefja umræðu um uppbyggingu á Þingvöllum og leita til sérfræðinga og áhugafólks um hjarta Íslands, Þingvelli.
Nýja hótelið við Mývatn er eitthvað í áttina, það a.m.k. liggur á maganum í landslaginu! Og einhver smá hluti þess er ósýnilegur.
http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2013/10/08/reisa_80_herbergja_hotel_vid_myvatn/
Er ekki nýlega búið að opna hótel á Nesjavöllum?
http://www.ioniceland.is/IS/
Það ríkir mikil oftrú á verkfræðistofum hér á landi og vantraust í garð arkitektastofa. Hver er skýringin á því? Það er rétt að verkfræðistofur eiga ekki að taka svona að sér frekar en hárgreiðslustofur.
Ef þú ætlar að nálgast verkefnið á forsendum náttúrunnar, sögunnar og staðarins þá byggir þú ekki næst gamla þingstaðnum. Þú staðsetur hótel þar sem nú er rekinn þjónusta eða fjær. Annað er fyrra. Sama hver að verkinu kemur.
Hótel ofan í „gjá“ … ekkert er í reynd eðlilegra á Þingvöllum en það
þegar maður byrjar að hugsa málið ofan í kjölinn
samhliða lestri þessa enn eins góða og þarfa pistils þín kollegi Hilmar Þór.