Mánudagur 24.10.2016 - 00:03 - 4 ummæli

Pælingar um fagurgala í skipulagi og verklag stjórnvalda

Miðbær-1963lett

Hér kemur annar hluti greinar Hjörleifs Stefánssonar arkitekts um fagurgala í borgarskipulaginu og verklag stjórnvalda. Hér er beitt gagnrýni fagmanns á ferðinni um verklag þegar kemur að skipulagi borgarinnar og endurskoðun fyrri skipulagsákvarðanna. Hjörleifur er lausnamiðaður og skapandi í skrifum sínum.

+++++

Þegar stjórnendur borgarinnar eru spurðir hvers vegna sífellt sé gengið á söguleg gildi miðborgarinnar með alltof stórum byggingum er svarið oftast á þá leið að nýtingarhlutfall lóðanna hafi verið ákveðið fyrir löngu og ekki sé hægt að skerða það nema greiða eigendunum stórfé í skaðabætur. „Þetta er fyrri borgarstjórn að kenna” er sem sagt svarið!!!

Þeir kjósa að líta svo á að tímbundin skipulagsákvörðun um heimild til að auka nýtingu lóðar sé eign sem ekki verði aftur tekin nema gegn endurgjaldi.

Þetta nær auðvitað ekki nokkurri átt.

Borgaryfirvöldum ber lagaleg skylda til að endurskoða skipulagsákvarðanir eftir því sem þörf krefur, meðal annars þegar gildismat samfélagsins tekur breytingum. Þetta gildir jafnt um nýtingarhlutfall lóða sem og aðra þætti skipulagsins.

Skipulagsákvæði um að byggja megi meira á tiltekinni lóð er vísbending um að verðmæti húsa á lóðinni geti vaxið að uppfylltum margvíslegum skilyrðum. Til að svo verði þarf eigandinn að hafa getu og vilja til að ráðast í framkvæmdir og hann þarf að láta af því verða.  Þegar hann hefur með lögmætum hætti aukið við húsakost lóðar sinnar hefur verðgildi eignar hans vaxið.

Ef hann ræðst ekki í framkvæmdir eykst ekki verðgildi eignarinnar.

Það er því vægast sagt undarlegt að Reykjavíkurborg kjósi að líta svo á að henni sé ekki heimilt að skerða nýtingarhlutfall lóða nema gegn endurgjaldi.

Um þetta atriði hafa menn rætt í að minnsta kosti 30 ár. Engu máli skiptir hvaða stjórnmálaflokkur fer með völd í borgarstjórn, alltaf er sagt að eignarrétturinn sé varinn í stjórnarskrá okkar og alltaf er látið sem skipulagsákvæði um nýtingarhlutfall lóða skapi eignarrétt á því sem lóðareigandi getur haft væntingar um að gerist þegar hann hefur aukið við byggingar á lóð sinni. Það er hreint út sagt með ólíkindum að svona málflutningur viðgangist og ber vott um að samfélag okkar sé gegnsýrt af hagsmunagæslu fyrir hönd braskara. Ég veit ekki hvaða önnur orð sé hægt að hafa um þetta.[2]

Hugsum okkur dæmi:

Borgarhverfi er endurskipulagt og gert ráð fyrir verslunarmiðstöð og almenningsvagnastöð. Húseignir og lóðir í nágrenninu hækka í verði vegna væntinga um þróun hverfisins sem skipulagið vekur.

Hækkandi orkuverð, umhverfismál og breytt gildismat í víðum skilning leiðir síðar til þess að almenningssamgöngur eru endurmetnar og skipulagáætlunum breytt. Almenningsvagnastöðin verður byggð á öðrum stað en áður var ætlað. Væntingar manna um verðgildi lóðanna bregðast. Markaðsverð þeirra lækkar vegna brostinna vona en lóðir í námd við nýja staðinn hækka í verði vegna nýrra væntinga.

Ég býst við flestum þætti fráleitt að samfélaginu bæri að greiða lóðaeiendum bætur fyrir brostnar vonir í tilviki sem þessu. Ótal atriði hafa áhrif á vonir og væntingar manna og jafnvel olíukreppa í Miðausturlöndum getur leitt til breytinga á lóðaverði í New York og Reykjavík.

Skipulagsáætlanir eru nefnilega alls ekki jafngildi loforða. Þær eru hins vegar lögformleg, samfélagsleg yfirlýsing um hvert skuli stefnt í uppbyggingu og þróun borgarinnar hverju sinni miðað við gefnar forsendur. Breytist grundvallarforsendur ber að breyta skipulaginu út frá hagsmunum heildarinnar.

Þegar sett voru ný skipulagslög árið 2012 gafst tækifæri til þess að taka af allan vafa í málum af þessum toga. Hægt hefði verið að kveða skýrt á um að skaðabótaréttur myndist ekki þótt skipulagsákvæðum sem lóðahafar byggja væntingar á sé breytt vegna almannahagsmuna.

Umhverfisráðherra sem lagði fram lagafrumvarpið var gerð grein fyrir mikilvægi þess að það yrði gert en kaus að gera það ekki.

Ráðherrann hafði áður setið í skipulagsnefnd Reykjavíkur og hefði átt að skilja hversu mikilvægt væri að nota ný skipulagslög til þess að leiðrétta þennan hræðilega “misskilning” sem notaður hefur verið áratugum saman til þess að réttlæta ákvarðanir sem heimila einstaklingum og fyrirtækjum að byggja þannig að það veldur skemmdum á miðbænum.

Hann kaus að gera það ekki.

En það dugir ekki að láta deigan síga.

Við megum ekki láta þennan vesældóm viðgangast lengur. Nú skulum við vona að þeir sem skilja nauðsyn nýrrar stjórnarskrár og eru reiðubúnir til þess að berjast fyrir henni, taki í taumana og sjái til þess að næsta borgarstjórn verji sameign okkar í miðbænum fyrir ágirndinni.

++++++

Efst í færslunni er mynd af hugmyndum ungra efnilegra arkitekta um  uppbyggingu í miðborg Reykjavíkur frá árinu 1963.  Þessi mynd er 20 árum yngri en hugmyndir Einars Sveinssonar húsameistara Reykjavíkur frá 1943 sem sýnd var með fyrri færslu Hjörleifs. Þessar  myndir og fyrirhugaðar framkvæmdir við Austurhöfn segja okkur að við þurfum að halda vöku okkar og veita stjórnmálamönnunum aðhald. Hér er slóð að pistli sem fjallar um þetta:

 

 

Reykjavík 1963 – framtíðarhugmyndir

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (4)

  • Það hafa verið nefndar margar leiðir. Skúli Magnússon lögfr. og dómari hefur fjallað um þetta margsinnis útfrá lögfræðinni. Og svo HS hér. Hvað tefur menn?

  • Hilmar Þór

    Magnus G. Bjornsson

    Þessi athugasemd kom annarsstaðar á netinu. Hún er frá Magnúsi G. Björnssyni arkitekt sem starfar í Astralíu og hefur gert um áratugaskeið. Það er margt til í þessu hjá Magnúsi.:

    „Thetta er god grein og virdist eiga erindi til radamanna a Islandi ef thad er rett ad their seu svo audtrua ad their sitji valdlausir vegan adgerda theirra sem undan foru.

    Thad er otrulegt ad lesa ad skypulagsyfirvold og/eda borgarstjorn beiti fyrir sig afsokunum sem thessum. — Er thad byggt a aliti fra logfraedingum?

    Er fordaemi fyrir thvi ad baeta skuli folki fyrir ryrnun a nytingarhlutfalli?

    Ef thad verdur lagarlegur rettur fyrir landeigendur og ryrnun a nytingarhlutfalli loda yrdi baettur af almannafe, er tha ekki lika rett ad skattleggja lodir um leid og nytingarhlutfall er aukid og haekka lodagjold tilsvarandi?“

  • Steingrímur Jónsson

    Ágirndin, tíðarandinn og duglausir stjórnmálamenn eru verstu óvinir menningararfsiins þegar kemur að húsum og byggingalist.

    Flottur pistill.

  • S. Ólafsdóttir

    Af hverju sýna þeir ekki karlmannslundina og höggva á þennan hnút í stað þess að láta þennan ótta smátt og smátt farga borginn á altari græðginnar…nú eða kjarkleysis!

    Efti lestur pistilsins vaknar von í brjósti.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og þremur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn