Sunnudagur 9.3.2014 - 22:28 - 4 ummæli

„Tveir apar“ – Magnús Kjartansson í Listasafni Íslands

photomaggi

„Þegar ég málaði stærsta verkið hér á sýningunni var ég að hugsa um lýðræðið á Ísland. Hvort hér væri yfirleitt nokkuð lýðræði. Þess vegna málaði ég tvo apa sem eitthvað eru að ráðskast með þetta og þar með held ég að ég hafi sagt allt sem ég hef að segja um þá mynd“

Þetta sagði Magnús Kjartansson um mynd sína „Lýðræði götunnar/Jungle democracy“ frá árinu 1989. Ljósmyndin efst í færslunni er af þessu verki sem er í eigu Listasafns Íslands

Síðastliðinn föstudags var opnuð yfirlitssýning á verkum Magnúsar sem lést 57 ára gamall árið 2006. Þetta er ein alfallegasta yfirlitssýning sem ég hef nokkurntíma sótt. Sýningin spannar verk Magnúsar frá því hann var ungur nemandi í MR þar til hann hætti að mála.

Ég var svo heppinn að kynnast Magnúsi ágætlega. Við þekktumst frá frumbernsku þar sem foreldrar okkar voru miklir vinir. Feður okkar stunduðu flugnám í Þýskalandi fyrir heimstryrjöldina síðari. Leiðir okkar Magnúsar  lágu svo aftur saman á Akademíunni í Kaupmannahöfn á árunum uppúr 1970.

Magnús var einstakur maður eins og allir vita sem til hans þekktu og skoða myndlist hans. Hann var vel gefinn, næmur, skemmtilegur, gáskafullur  og tilfinningaríkur. Hann var síleitandi eins og allir sjá sem skoða þessa merkilegu sýningu og þróun myndlistarinnar. Manni fannst stundum þegar hann skipti um stíl, sneri við blaðinu, að hann væri að feta ranga slóð. En eftir smá skoðun og ef maður leyfði myndunum að tala til sín sá maður að listamaðurinn vissi hvert hann hélt.

Það má enginn láta þessa sýningu fram hjá sér fara. Það ríkir skemmtilegt og uppörfandi andrúm í sýningarsölunum sem gesturinn getur ekki látið hjá líða að taka með sér heim. Þetta eru pólitísk verk, trúarleg og svo eru þarna nánast fjölskyldumyndir og samfélagslegar pælingar. Allar mjög persónulegar.

Þetta er órtæmandi brunnur fyrir þá sem kunna að njóta og kunna að sjá.

Væntanleg er bók sem gefin er út af tilefni sýningarinnar.

Tvær myndanna með færslunni tók ég á farsíma minn í dag.  Síðan kemur samsett mynd af listamanninum og einu verka hans sem ég fann á netinu og neðst er einnig mynd sem ég fann á netinu.

Sjá einnig þessa sóð: http://blog.dv.is/arkitektur/2013/05/24/myndlist-magnus-kjartansson/

photo

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 6.3.2014 - 23:02 - 9 ummæli

70 manns, 3 ferðamátar: AR 2010-2030

 

Síðssumars 2010 stóðu Samtökin um bíllausan lífsstíl fyrir skemmtilegri tilraun á Melhaganum. Þar mættu  alls 70 manns til sérstakrar myndatöku. Þau lokuðu götunni, færðu bílana burt og stilltu sér svo upp með þrennskonar faratæki fyrir aftan sig.  Í fyrsta lagi einkabíla fyrir  70 manns. Í öðru lagi einn strætó sem tekur auðveldlega 70 manns og að lokum  reiðhjól fyrir 70 manns.

Myndin að var tekin í tengslum við málþing sem haldið var undir yfirskriftinni „Myndum borg“ um miðjan september 2010.

Fyrirlesarar voru sjö sem nálguðust efnið hver með sínum hætti en voru sammála um að stefna að betri, grænni borg til þess að bæta hana og gera skemmtilegri.

„Samgöngurnar eru sóknarfæri Reykvíkinga í grænu málunum, lýðheilsa eykst og umhverfið batnar,“ sagði Jón Gnarr borgarstjóri þegar hann setti málþingið. Hann dró upp mynd af borginni þar sem 40% borgarbúa færu til og frá staða gangandi, hjólandi, í strætó eða samferða öðrum í bíl. „Hvernig yrði þá um að litast?“ spurði hann. Þessi hugmynd Jóns um samgöngur sem sóknarfæri í grænum málum er nú komin inn í AR 2010-2030.

„Taka þarf upp hverfaskipulag, færa skipulagsvinnuna út í hverfin, nær notandanum sem jafnframt er greiðandinn,“ sagði Ólafur Mathiesen arkitekt og lagði jafnframt áherslu á að allir þyrftu að vinna saman, þvert á flokka, þvert á öll svið. Hugtakið hverfaskipulag er verkfæri til að vinna að sjálfbærni og nefndi Ólafur nokkra þætti sem í því felast t.d. ferðamynstur, tenging við opin rými og torg, starfsemi og hvernig tekið er tillit til óska og þarfa íbúa. „Árangursríkt hverfaskipulag byggir á gagnvirku samráði við íbúa og markvissri samvinnu „þvert“á sérfræðigreinar,“ sagði Ólafur.

Þessi hverfaskipulagshugmynd er nú komin á fullt skrið í reykjavíkurorg. Hér er slóð að glærum hans: Glærur úr fyrirlestir Ólafs Mathiesen

Gísli Marteinn Baldursson borgarfulltrúi sem er einn þeirra sem átti frumkvæði að ljósmyndinni að ofan sýndi svart á hvítu hversu mikið pláss mismunandi ferðamátar taka og sagði. „Ef við greiðum ekki götu þeirra sem vilja ferðast á hjóli eða í strætó, þá er ekkert val um samgöngumáta í borginni,“ Gísli Marteinn var virkur í gerð AR 2010-2030 og sést þess greinileg merki í skipulaginu þar sem áhersla hefur farið frá einkabílnum yfir til strætó og hjólreiða.

Myndbandið má sjá á eftirfarandi slóð: Myndbandið Myndum borg

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra var einn ræðumanna  á málþinginu og ræddi um áhrif vistvænna samgangna í hnattrænu samhengi og um nýja samgöngusamninga við starfsfólk í Umhverfisráðuneyti og Páll Hjaltason formaður skipulagsráðs Reykjavíkur fjallaði m.a. um almenningsrými. Sigrún Helga Lund frá Samtökum um Bíllausan lífsstíl og Bergur Ebbi Benediktsson lögfræðingur fluttu einnig erindi á málþinginu.

Það er gaman að rifja þetta upp nú af því tilefni að nýtt aðalskipulag Reykjavíkur hefur verið samþykkt.

Það er ekki nokkur vafi í mínum huga að þetta málþing hafði áhryf á aðalskipulagsvinnuna sem þá var í gangi og er ný lokið. Ég heyri á mörgum að þeir líta ýmsa aðgerðarsinna og grasrótaramtök hornauga.  Þeim finnst aðgerðarsinnar og þeir sem hafa skoðanir þvælast fyrir. Það er óþarfi. Réttara vær að líta á þetta fólk sem samstarfsaðila skipulagsyfirvalda. Án þeirra fórnfúsa sjálfboðastarfs væri ekkert aðhald og skipulagsmálin í slæmu umhverfi. Borgin og sveitarfélög almennt eiga að líta á gagrýnendur sem samstarfsaðila sína. Þeir eiga að þakka öllm sem leggja á sig að segja sína skoðun og svara þeim málefnalega með þakklæti og fullri virðingu. Þeir borgarar sen nýta sér tækifæri til athugasemda við skipulagsáætlanir eru gegnir borgarar sem ber að þakka. Þeir eru fulltrúar þeirra sem óska eftir samtali og samráði við meðborgara sína og fulltrúa þeirra i sveitarstjórnum og borgarstjórn.

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 3.3.2014 - 19:34 - 23 ummæli

Mikilvæg sjónlína skert í Reykjavík.

 

 

 

Sagt er að glöggt sé gests augað.

Þegar ég var á Akademíunni í Kaupmannahöfn hélt ungur danskur arkitekt, Alfred Homan, fyrirlestur um Reykjavík.

Hann skýrði upplifun sína af borginni með ljósskyggnum sem hann hafði tekið á göngu sinni frá Hlemmi niður á Hallærisplan.

Hann benti á hluti sem við hinir  höfðum ekki leitt hugan að áður.

Það þurfti útlending til, dana.

Hann lýsti göngunni niður Laugarveg þar sem með jöfnu millibili opnaðist sýn niður eftir þvergötum Laugarvegar þar sem voru fíngerð gömul hús í forgrunni, hafið í miðgrunni og svo stoppaði augað á bakgrunni sem var og er Esjan.

Þetta endurtók sig með vissu millibili eins og stef tónlistar og upplifunin jókst og varð áhryfameiri við hver gatnamót þar til komið var að gatnamótum Pósthússtrætis og Austurstrætis.

Þá var boðið uppá aðra upplifun. Farskip við kajan til norðurs og flugvélar að hefja sig til flugs til suðurs þar sem dómkirkjan og Alþingishúsið blöstu við.

Alfred Homan sagði að tilfinningin fyrir að vera komin í miðborgina hafa verið mjög sterk. Sterkari en almennt gerist í bæjum og borgum.

Svo hélt hann áfram til vesturs að aðaltorgi bæjarina, Hallærisplaninu. Og þar endar miðborgin mjög ákveðið. Morgunblaðshúsið er endi þessa áss. Hóman sagði þetta einstakt og einstaklega gott bæjarskipulag og gatnakerfi. Honum fannst reyndar að ásinn ætti frekar að enda á einhverri þýðingarmeiri byggingu en skrifstofuhúsi. T.d. tónlistarhúsi, réðhúsi eða slíku.

Það verður að segjast eins og er að arkitektinn, Alfred Homan, opnaði augu okkar íslensku arkitektanemanna við skólanum fyrir einhverjum mestu gæðum borgarskipulags Reykjavíkur innan Hringbrautar. Við höfðum ekki tekið eftir þessu áður.

Nú hefur annar kollegi kvatt sér hljóðs. Það er Jon Kjell Seljeseth sem er norðmaður. Hann er reyndar ekki gestur lengur heldur búsettur hér í borginni.

Jon Kjell Seljeseth og kona hans Elín Ebba Ásmundsdóttir hafa vakið rækilega athygli á þessum gæðum sem Hóman benti á. Þessum gæðum er nu ógnað með fyrirhuguðum háýsum sem verið er að hefja byggingu á.

Þau segja að nýbyggingar við Skúlagötu sem nú er verið að byggja muni  skyggja á útsýnið frá Skólavörðuholtinu og niður Frakkastíg að sjónum og um leið eyðileggja eina mikilfenglegustu sjónlínu borgarinnar. Þetta skýra þau með samsettri mynd sem sjá má efst í færslunni.

Það er mat hjónanna, sem vöktu fyrst athygli borgaryfirvalda á málinu í ársbyrjun 2008 að þarna stefni í óefni.

„Þetta skemmir ekkert fyrir okkur persónulega“ segja þau  „en það er verið að stúta svo miklum verðmætum borgarinnar og borgarbúa“ segir Jon Kjell í umfjöllun um mál þetta í viðtali í Morgunblaðinu í dag.

Þarna er verið að trufla sjónræn tengsl milli Sólfars Jóns Gunnars og Leifsstyttu Calders.

Það hefur lengi verið meginmarkmið arkitekta að styrkja gæði umhverfisins og stuðla að því að draga úr göllum þess með tillögum sínum.  Í þessu tilfelli sem Jon Kjell bendir á er þessu þveröfugt farið. Það er bætt við gallana og dregið verulega úr kostunum.

Þetta er einmitt dæmi um hversu fólk er illa að sér um skipulagsáætlanir. Það er eins og fólk átti sig ekki á hlutunum fyrr en kemur að framkvæmd. Dæmin eru mörg.  Skúlagötuskipualgið er áratuga gamalt að stofni til. Því hefur verið margbreytt síðan í upphafi. Oftast til verri vegar. Þegar svona stendur á missir fólk sjónar á aðalatriðunum eða missir áhuga og einbeitingu.

Og áttar sig svo þegar tækifæri til andmæla er nánast engin.

Þarf ekki að skoða allt  þetta samráðs- og athugasemdferli eitthvað betur?

++++

Á myndinni að ofan sést til vinstri  útsýnið frá Skólavörðuholti niður Frakkastíg að Sólfarinu eins og það er í dag. Hægra megin sést hvernig útsýnið, eða sjónlínan, yrði þegar framkvæmdum við háhýsið yrði lokið.

 

Sjá einnig:

http://blog.dv.is/arkitektur/2010/02/09/gildistimi-deiliskipulaga/

http://blog.dv.is/arkitektur/2010/09/13/kemur-adalskipulagid-fra-gudi/

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 28.2.2014 - 08:24 - 21 ummæli

Nýtt aðalskipulag og hænsnarækt.

 

Nýtt aðalskipulag Reykjavíkur var samþykkt með formlegum hætti síðastliðinn mánudag þar sem það var undirritað í Höfða.

Þessu ber að fagna sérstaklega, enda um vandað aðalskipulag að ræða sem hefur verið í smíðum í á annan áratug.

Ég hef fylgst vel með gerð aðalskipulaga Reykjavíkur allt frá Bredstorf skipulaginu svokallaða 1962-1983. Þar var lagt útfrá einkabílnum sem aðalsamgöngutæki og miklum aðskilnaði atvinnu-,  þjónustu- og íbúðasvæða.

Síðan hafa verið samþykkt allnokkur aðalkipulög fyrir Reykjavík.

Ég verð að segja að AR 2010-2030 er sennilega það merkilegasta og skemmtilegast þeirra allra. Nú er stefnt að borgarmenningu í höfuðborginni og horfið frá þeirri útþennslu sem hefur verið ráðandi áratugum saman.

Í aðalskipulaginu AR 3010-2030, er gerð tilraun til þess að draga úr mikilvægi einkabílsins í borginni. Yfirráð einkabíls á ekki lengur að vera  forsenda búsetu í borginni. Boðið er uppá aðra kosti yil samgangna.

Þá er gert ráð fyrir samgönguás sem verður ballest og kjölfesta skipulagsins. Samgönguásinn á eftir að binda borgina saman í alvöru fullorðins borg, ef vel tekst til.

Það sem gerir þetta aðalskipulag skemmtilegt er framsetning þess og innihald. Aðalskipulagið er óvenju skýrt og það er skrifað á máli sem allir skilja.

T.a.m er fjallað sérstaklega um skipulag  einstakra borgarhluta þannig að borgarbúar geta nú með auðveldum hætti áttað sig á við hverju þeir meiga búsast í sínu næsta nágrenni.

Ég vek  athygli á kafla í skipulaginu sem heitir „Borgarbúskapur“.  Þar er opnaður möguleiki borgarbúa til þess að hafa matjurtagarða og halda hænsni til eggjaframleiðslu á lóðum sínum innan borgarinnar  og margt fleira skemmtilegtí þeim dúr sem mun auðga mannlífið.

Til stendur að gefa skipulagið út á bók sem verður til sölu í vor. Þá bók þurfa sem flestir að eignast. Bókina þurfa allir arkitektar, verktakar og fasteignasalar að eignast og kynna sér. Annars ættu þeir að finna sér annan starfsvetvang.

++++

En þetta mikla verk er vissulega ekki fullkomið. Mér sýnist ýmislegt þurfi að lagfæra. Sumt smátt og annað stórt.

Ég nefni þrennt.

Í fyrsta lagi eru það áform um að hætta alveg útþennslunni. Þetta er óskynsamleg ákvörðun vegna þess að það eru alltaf einhverjir borgarar sem kjósa að búa í jaðri borgarinnar og það á ekki að hindra þá í því. Þess  utan var búið að lofa íbúum Úlfarsárdals að hverfi þeirra yrði klárað. Það má ekki ganga að baki orða sinna í aðalskipulagi frekar en öðru þó svo að áherslubreytingar eigi sér stað.

Útþennslan mun auðvitað hætta af sjálfu sér af margvíslegum ástæðum. T.a.m þeim að óhagstætt er að búa í úthverfi vegna samgangna og þjónustu. Borgin á ekki að stöðva þessa stefnu algerlega og einhliða, heldur hægja á henni. Breyta um stfnu. Það á auðvitað að klára Úlfarsárdalinn hægt og rólega. Ekki stöðva hana algerlega með pólitískri ákvörðun og þar með dreifða byggð í eitt skipti fyri öll.

Annað sem mér sýnist ekki ganga upp er fyrirhuguð samgöngumiðstöð við Hringbraut. Með tilkomu samgönguáss frá Vesturbugt að Keldum verður gamla umferðamiðstöðin útúr og ekki í tengslum við samgönguásinn. Samgöngumiðstöð á að byggja í nánum tengslum við samgönguásinn. 

Annars virkar hvorugt.

Hvorki samgönguásinn né umferðamiðstöðin.

Í þriðja lagi eru hugmyndir um að leggja Reykjavíkurflugvöll niður enganvegin tímabærar eins og margsinnis hefur verið bent á og rökstutt. Flugvöllurinn fer auðvitað einhverntíma en ekki á þessu skipulagstímabili.

 

+++++

 

Ég ber þá von í brjósti að þessi þrjú atriði munu leysast þegar frekari vinna við endurskoðun þess fer fram. Liklegt er líka að staðsetning Landspítalans verði endurskoðuuð í ljósi þessa bráðgóða aðalskipulags sem nú liggur fyrir. Ef AR2010-2030 er skoðað aukast efasemdir um þá staðsetningu spítalans sem ákveðin var.

Það gengur varla að byggja tæplega 300 þúsund fermetra byggingu samkvæmt skipulagstillögu frá árinu 1927,  tæplega öld síðar þegar umferðakerfinu hefur verið bylt í nýju aðalskipulagi.

Það ber að fagna þessu aðalskipulagii sem hefur náðst með þverpólitískri, þrotlausri  og faglegriskipulagsvinnu allt frá árinu 2002. Maður hefur orðið var við breytingu á áherslum í skipulagsmálum í borginni frá því skömmu eftir aldamót. Allt til betri vegar. Maður hefur á tilfinningunni að áður hafi eitthvað óskiljanlegt tengslanet haft meiri áhrif skipulagið en fagleg nálgun og fagleg sýn með opinni umræðu og aðhaldi eins og nú.

 ++++

Efst er mynd af nokrum landnámshænum sem við eigum vonandi eftir að sjá innan borgarinnar á komandi árum. Og að neðan er loftmynd af höfuðborginni sem á eftir að verða þéttari, skemmtilegri og hagkvæmari ef ASR2010-2030 gengur eftir.

Sjá einnig eftirfarandi tengla að pistlum sem fjalla um aðalskipulagið og skild efni:

 

http://blog.dv.is/arkitektur/2013/06/02/nytt-adalskipulag-reykjavikur-ar-2010-2030/

og

http://blog.dv.is/arkitektur/2013/06/05/nyr-throunar-og-samgonguas-i-adalskipulaginu/

og

http://blog.dv.is/arkitektur/2013/06/07/vatnsmyrin-og-adalskipulagid/

.

Yfirlitsmynd af Reykjavík

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 23.2.2014 - 23:03 - 9 ummæli

Bílar án bílstjóra.

 

XchangE-Car_dezeen_ss2

Það er þekkt víða að reknar séu lestar af ýmsu tagi án þess að nokkur sé lestarstjórinn. Þetta þekkja margir af flugvöllum og lestarkerfum borga. Bæði stórra og lítilla borga.

Í Kaupmannahöfn hefur verið rekið Metrókerfi að franskri fyrirmynd í nokkur ár, án lestarstjóra.

Undanfarið hefur víða um heim verið unnið að hugmyndabílum sem eiga að geta ekið hvert sem er án bílstjóra.

Svisslendingar hafa lagt fram nokkuð unnar hugmyndir sem ganga út á þetta. Þeir hafa tekið frámúrstefnubílinn TESLA sem maður sér á götum Reykjavíkur og þróað hann áfram í að vera bílstjóralausan bíl. Sissneska fyritækið Rinspeed stefnir á að sýna bílinn á bílasýningu í Genf í næsta mánuði. Geneva International Motor Show

Það er ekki ólíklegt faratæki án ökustjóra eigi eftir að líða um götur Reykjavíkur áður en langt um líður. Byrja mætti á almenningsvögnm sem gengju eftrir fyrirhuguðum samgönguás Aðalskipulags Reykjavíkur eftir borginni endilangri frá Vasturbugt til Keldna á 5-7 mínútna fresti í báðar áttir. Mengunarlaus, hljóðlaus og ökumannslaus ferðamáti. Vagnarnir fullir  af ánægðum farþegum sem nota vistvænt samgöngutæki nánast frítt.

Hjálagt eru nokkrar myndir af hugmyndabíl svisslendingan sem gaman er að skoða og velta fyrir sér hvernig samgöngur og öryggismál munu breytast þega og ef af þessu verður. Stýrið er á rennibraut og það er hægt að hafa það hægra eða vinstramegin eftir atvikum. Á efstu myndinni snúa farþegarnir baki í akstursáttinna og njóta afþreyingar á ferðalaginu. Innbyggð kaffivélin bruggar kaffið.

XchangE-Car_dezeen_1

XchangE-Car_dezeen_ss5

XchangE-Car_dezeen_ss12

XchangE-Car_dezeen_4

Luxury self-driving XchangE Cars to become offices of tomorrow

XchangE-Car_dezeen_ss6

XchangE-Car_dezeen_13

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 21.2.2014 - 14:27 - 9 ummæli

Skipulag og saga við Aðalstræti

Mynd I

Hér birtist grein eftir Örnólf Hall arkitekt sem hefur kynnt sér vel sögu Víkurkirkjugarðs og sögu Aðalstrætis Þetta er bæði skemmtileg og fróðleg grein eftir mann sem er uptekinnn af sögunni. Eins og allir vita þá skal að fortíð hyggja ef vel á að byggja.

SKIPULAG & SAGA við AÐALSTRÆTI

Víkurkirkjugarður, Víkurkirkja og Landssímareitur

— Saga Víkurkirkjugarðs er afar merkileg fyrir það að þar hvíla jarðneskar leifar rúmlega þrjátíu kynslóða Reykvíkinga.

— Við lögtöku kristni á Alþingi árið 1000 var Þormóður sonur Þorkels mána allsherjargoði. Talið er að hann hafi búið á ættarsetri  sínu, Reykjavík. Sem allsherjargoði var hann æðsti embættismaður þjóðarinnar og skyldi hann helga Alþingi í hvert sinn. Á honum hefur því (fyrst og fremst) hvílt sú skylda að reisa kirkju við bæ sinn. Af þeim sökum má fastlega ætla að ein fyrsta kirkjan, sem reist hafi verið í nýjum sið, hafi verið kirkjan við ættarsetrið í Reykjavík.

Jafnframt má geta sér þess til að hún hafi verið reist fljótlega eftir kristnitökuna.

— Frá upphafi var það fastur siður að hafa grafreit umhverfis hverja kirkju. Ekki hefur fundist annar forn grafreitur í landi Reykjavíkur en sá sem er við suðurenda Aðalstrætis. Það bendir sterklega til þess að þar hafi kirkjastaðið frá upphafi.

— Elstu heimildir um kirkjuna eru kirknatal Páls Jónssonar frá því um 1200 og elsti máldagi hennar er frá 1379. Kirkja sú var torfkirkja sem stóð í Kvosinni á horni Aðalstrætis og Kirkjustrætis, í miðjum kirkjugarðinum gegnt Víkurbænum.  Í Biskupaannálum segir að Stefán Jónsson, næstsíðasti kaþólski biskupinn í Skálholti, hafi vígt Víkurkirkju þriðja febrúar árið 1505.

Yfirlitsmynd af Reykjavík frá 1789

— Á mynd Sæmundar M. Holm, sem var prestur og málari, af Reykjavík frá 1789 (Endurgerð af A.N. Edwin) má sjá að kirkjugarðurinn hefur verið nær jafn á báða vegu, um það bil fjörutíu metrar á hvorn kant. Kirkjan hefur staðið miðlægt í garðinum. Við gröft fyrir stöplum styttu Skúla fógeta var komið niður á gamlan suðurvegg kirkjunnar og mátti þar sjá að dyraop hafi verið í veggnum. Á sömu mynd má sjá girðingu að vestanverðu við kirkjuna en enga austanmegin. Garðurinn hefur smám saman verið stækkaður um helming og varð um 60 metrar að lengd í austurátt.

— Um margar aldir hefur söfnuðurinn í Reykjavík verið fámennur en það breyttist þegar Innréttingar Skúla fógeta komu til sögunnar og fólki fór að fjölga á svæðinu.

Þrír söfnuðir um eina kirkju

— Sóknarkirkjurnar í Laugarnesi og Nesi voru lagðar niður rétt fyrir aldamótin 1800 og söfnuðirnir sameinaðir í einn Reykjavíkursöfnuð. Má ætla að þá hafi kirkjugarðurinn verið breikkaður. Árið 1798 var Víkurkirkja felld og rústir hennar jafnaðar út. Þá átti dómkirkjan, sem lokið var við 1796 að duga söfnuðunum þremur. Enginn kirkjugarður var í kring um Dómkirkjuna og það þrengdist stöðugt í þeim gamla – auk þess sem það styttist niður á fast eftir sem austar dró. Gerð var tilraun með nýjan garð vestan Hólavallaskóla en hætt við þær framkvæmdir vegna móhellu sem kom í ljós. Hagkvæmari staður fannst svo á melunum sunnan Hólavallar (Hólavallargarður). Svo fór samt að í tvo áratugi vildi samt enginn láta grafa sig þar.

Tveir nafnfrægir sem hvíla í Víkurkirkjugarði

— Narfi Ormsson, síðasti óðalsbóndinn í Reykjavík var jarðsettur í Víkurkirkjugarði líklega árið 1613, en rótað var í leiði hans við gröft og legsteinn hans var færður að suðurvegg Dómkirkju, (að sögn dansks rannsóknarmanns fornleifa, að nafni Theilmann, sem var hér árið 1820). Hvorki er vitað lengur um leiðið né steininn.

— Geir Vídalín góði, Reykjavíkurbiskup, sem varð gjaldþrota sökum gjafmildis við snauða í Reykjavík, lét stækka kirkjugarðinn til austurs, þegar þrengja fór að greftr-unarplássi. Hann lést í örbyrgð í einu af húsum Skúla fógeta, frænda síns, árið 1823 og var jarðaður í þeim hluta garðsins sem hann hafði látið stækka og síðan vígt (Reit Geirs biskups).

— Espólín greinir frá útför Herra Geirs biskups á þá leið að engum hafi verið boðið til hennar nema þeim sem honum skyldu fylgja. Embættismenn og stúdentar skiptust þá gjarnan um að bera níðþunga kistuna sem var gerð af þykkum plönkum með skrúfnöglum og vó umgerðin nærri fjórum vættum. Þrekinn og gildur Geir vó sjálfur fullar fjórar vættir. – Fjórar vættir töldust um 160 kg. og biskup og kista vógu því saman um 320 kg. Því þurfti til heila tylft embættismanna eða stúdenta til burðar til skiptis.

Af stærð og staðsetningu  Víkurkirkna
— Upp úr miðri síðustu öld fjallaði Árni Óla fræði- og blaðamaður, í greinum sínum um sögu Víkurkirkju og – garðs (og um gömlu Vík o.fl.) – Hann segir m.a.: “Fyrsta kirkjan sem getið er um í Vík er í Kirknatali Páls biskups Jónssonar um 1200. Þar var ekki getið stærðar (ca 40 fm að ágiskun höfundar).
— Stærsta og seinasta kirkjan sem þarna stóð var reist árið 1720 og síðan rifin 1796. Var hún 11 stafgólf (ca 20 metrar – og þá ca 15 m á breidd að ágiskun höfundar).

Skrúðgarður Schierbeck landlæknis

— Árið 1883 fékk Schierbeck landlæknir garðinn leigðan með því skilyrði að hann skyldi láta girða hann laglega. Hann lét svo gera fagran skrúðgarð með blómum og trjám. Eftir að landlæknir fór alfarinn af landi brott fékk Halldór Daníelsson bæjarfógeti garðinn fagra til umsjónar. Eftir það var hann kallaður Bæjarfógetagarðurinn. Skrúðgarðurinn hefur verið af svipaðri stærð og upprunalegi garðurinn.

Fyrri byggingar og framkvæmdir í Víkurgarði

— Lyfsalinn Oddur Thorarenssen fékk leyfi til að reisa lyfjabúð við Austurvöll árið 1833 (nr.1 á skýringarmynd). Síðar fékkst þar svo leyfi til að reisa vöruhús og efnarannsóknarstofu sem brann 1882.

— Árið 1915 fékk Christensen lyfsali leyfi til að gera vörugeymslukjallara á sama stað og þar sem brunnið hafði (nr.2).

— Árið 1931 var bakhús Landssímastöðvarinnar reist, og var þá gerð akbraut inn í portið. Við gerð akbrautarinnar fundust fjórar járnhellur með grafskriftum sem lágu í jarðveginum. Þá var Guðmundur Hlíðdal landssímastjóri og spurði hann Mattías Þórðarson, þjóðminjavörð hvað skyldi gera við hellurnar. Vildi Matthías að þær yrðu geymdar sem næst leiðunum. Var síðan gerður múrveggur (nr.3) sem hellurnar voru svo festar á í röð. — Þegar Síminn lagði símakapal skáhallt í gegn um garðinn komu upp mergð mannabeina. Einnig fannst legsteinn Gunnlaugs Oddssonar dómkirkjuprests (nr.4) í raskinu, og var hann færður á sinn stað.

Svæðisuppdráttur Ásgeirs Magnússonar

— Eftir uppgröft járnhellnanna lét Landssíminn Ásgeir Magnússon gera uppdrátt af öllu svæðinu milli Aðalstrætis og Thorvaldsenstrætis og merkja inn á hann hvar minnismerkin fundust, ennfremur merkja þar inn vegginn sem þau voru fest á og merkja inn leiði þeirra Gunnlaugs Oddssonar dómkirkjuprests (nr.4) og Marie konu Krügers lyfsala og ungs barns þeirra (nr.5). Jafnframt merkti hann inn bragga, geymslur og söluturn sem var þarna (nr.2).

Landssímahúsið sem hafið var að reisa 1967 og nú áætluð stækkun sem hótel

— Nýbyggingin náði alllangt inn í garðinn (Sjá slitróttar línur á mynd).

— Samkvæmt nýju skipulagi Landssímareits er gert ráð fyrir viðbót við gamla Landssímahúsið. Í þessari stækkun á að vera hótel. Ef af verður væri æskilegt að það yrði á súlum vegna mikilvægis garðsins.

— Víkurkirkjugarður fær svokallaða hverfisvernd samkvæmt skipulaginu, sem yrði sama eðlis og gildir fyrir Hólavallakirkjugarð s.s. að menningarsagan, minningar-mörkin og sérstakur trjágróður verði vernduð.

Nýtt umhverfi og Víkurkirkjugarður

— Full ástæða er að farið sé með hægð í framkvæmdir og að könnuð verði eins og nokkur kostur er mörk kirkjugarðsins. Gengið verði síðan frá honum með þeirri virðingu og fegrun sem kirkjugarði með aldagamla sögu þrjátíu kynslóða sæmir.

— Minna skal á tillögu um fornleifagröft á svæðinu sem lögð var fyrir borgarráð fyrir rúmum áratug. Eins má nefna að nú er komin til sögunnar jarðsjártækni sem hefur verið beitt með góðum árangri um alllangt skeið.

++++++++

Myndirnar eru fengnar frá höfunsi og skýra sig sjálfar.

Það hefur áður verið fjallað um Víkurkirkjugarð á þessum vef. Ég minni á eftirfarandi slóðir:

http://blog.dv.is/arkitektur/2013/08/12/vikurkirkjugardur-og-landsimareitur/

og

http://blog.dv.is/arkitektur/2013/08/30/vikurgardur-tillaga-grabensteiner/

 

Mynd IIIlett

Mynd IIlett

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 18.2.2014 - 08:59 - 14 ummæli

Steinar, timbur og ilmur jarðar.

 

20140214135945_00001

Hér birtist grein eftir Gunnlaug Stefán Baldursson arkitekt sem starfað hefur í Þýskalandi undanfarna áratugi.

Steinar,timbur og ilmur jarðar.

Tækniþróunin á 20.öld hefur haft í för með sér, að samband manns og náttúru hefur  smám saman slitnað. Náttúran hefur verið notuð eins og leir,  sem hnoða má eftir geðþótta, oft til hagnaðar.

Samband byggðar og náttúru er allstaðar tímabært umræðuefni, ekki síst á Íslandi, því á næstu árum  verður þróuð stefnan um það hvernig Íslendingar og gestir þeirra umgangast landið.

Íslenskt landslag kveikir á hugmyndafluginu.  En hugmyndir eru lítilsvirði,  ef innihaldið er ekki skoðað í samhengi við hefð og staðhætti í landinu og mál til komið,  að byggja með og ekki móti náttúrunni.

Með nærgætni var byggð reist í aldaraðir á Íslandi: byggingarnar voru hluti af náttúrunni,  efnisval var takmarkað: torf, steinn, timbur.  Þegar steinsteypan tók við í byrjun 20. aldar var íslensk byggingarhefð alveg útrýmd af þeim,sem þá höfðu vald og áhrif.

Fellowship og Studio Mumbai

Lífrænn arkitektúr „fléttar saman byggingar og landslag, úti og inni, í eina heild“ sagði F. L. Wrigth, einn fjölhæfasti og frumlegasti brautryðjandi byggingarlistar á 20.öld. Náttúran og staðareinkenni voru hans  inspiration, innblástur. Steinar, tréviður og önnur byggingaefni staðarins voru ekki síður innblástur. Hann stofnaði eigin skóla, Fellowship,  en hluti námsins voru pratísk störf ekki síst á byggingastöðum, þannig vann ungt fólk  bæði við teikningar og handverk.

Í dag er rekinn stofnun í svipuðum anda:  Unesco Laboratorium Workshop, nálagæt Genua. Með opinberum styrkjum frá Unesco eru nýjar leiðir í arkitektúr kannaðar og námskeið fyrir fagmenn og almenning haldin.

Sérhæfingin í dag bindur arkitekta eins og aðra fremur einhæft við tölvur.  Á Indlandi starfar fyrirtæki,sem fer óvenjulegan, en mjög athyglisverðan veg.

Studio Mumbai, stofnað 1995, vinnur  í anda Fellowship Wrights: arkitektar, trésmiðir og aðrir handiðnaðarmenn vinna saman undir einu þaki, handverk og hönnun eru í samfloti.

Fyrirkomulagið hefur m.a. þá kosti, að  handverk nýtist og stjórnun á útfærslu er auðveld.

Stefnt er að því að halda byggingahefðinni á staðnum, frumleiki er ekki aðalmarkmið. Árangurinn er  sannfærandi, af því að byggingarnar koma beint úr umhverfinu, og eru alltaf í manneskjulegum hlutföllum. Margt sem Studio Mumbai byggir er til fyrirmyndar, af því að steinar, timbur og ilmur jarðar mynda magnaða heild, dæmi: Tara House, wellness vin umhverfis innigarð, en hluti neðanjarðar.

Mest um vert er: verkin eru langt frá kuldahroka þess „fotocopy design“,sem óháð staðaranda er söluvara út um allan heim í dag.

Stofnandinn, Bijon Jain, heldur áfram verki brautryðjandans Geoffry Bawa á Sri Lanka (1919/2003).

Bawa talaði um,að allir girnast að „hlaupa á eftir nýjungum að utan og týna þannig eigin eðli“.

Hann byggði m.a. mörg hótel, sem eiga rót sína að rekja til hefðbundins arkitektúrs á staðnum.

Kandalama hótelið (opnað 1995) fékk fyrst allra gististaða heims, „green globe 21 “. Bawa var Manrique Asíu hvað túristaaðstöðu snertir og frumkvöðull í hugsun og verki. (um Manrique: Eyjan “fléttað inní landslagið“).

Studio Mumbai ,trúlega merkilegasta stofnun síðstu ára hvað „arkitektúr+hefð“ varðar , var nýlega afhent „global award for substainaible architecture“.

Leiðarljós

Hvernig má skilningur á sérkennum bygginga og umhverfis á Íslandi aukast ?

Ég tel, að tími sé kominn til að sérstök stofnun haldi utan um fortíð og framtíð bygginga á Íslandi.

Íslendingar hafa efni á  að reka dýrt tónlistarmusteri, Hörpuna, stóra bókmenntastofnun, fjölmörg listaverka og byggðasöfn. Ég spyr: Gleymdist móðir alla lista, arkitektúrinn, á Íslandi ?

Slík arkitektúrstofnun kannar leiðir og eflir þá byggingalist, sem hæfir landinu. Árangrinum má miðla áfram til almennings og yngri kynslóða, t.d. skólabarna með námskeiðum o.fl.

Stofnunin væri stoð og grundvöllur fyrir það að vel og skynsamlega sé byggt á landinu.

….

Hér er slóð að tveim pistlum Gunnlaugs um sviðað efni.:

http://blog.dv.is/arkitektur/2013/12/29/flettad-inn-i-borgarvefinn/

http://blog.dv.is/arkitektur/2014/02/04/flettad-inn-i-landslagid/

 

Efst er ljósmynd af Fellowship Frank Lloyd Wight. Neðst er svo ljósmynd frá Studio Mumbai sem fjallað er um í textanum.

Bild_00001

 

kandalama-hotel-1

013.tif

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 15.2.2014 - 13:13 - 3 ummæli

HÖNNUNARSJÓÐUR

 

Athygli er vakin á auglýsingu sem birtist í dag frá Hönnunarsjóð þar sem hugmyndaríku fólki á öllum aldri er gefin kostur á að sækja um styrki til þess að vinna að sínum hugðarefnum. Það er að segja aukinni þekkingu og verðmætasköpun á sviði hönnunar og arkitektúrs.

Sjóðurinn styrkir einnig markaðsstarf og kynningarvinnu.

Hér er opnað tækifæri sem ég hef ekki séð áður. Margir kollegar mínir og vinir í hönnunargeiranum hafa lokast inni með sínar hugmyndir vegna þess að örlítinn fjárhagslegan stuning vantaði upp á til þess að raungera hugyndir þeirra í prótotýpu, líkönum  eða framsetningu á annan hátt. Svo ekki sé talað um markaðssetningu.

Hér eru stóra fjárhæð að ræða. alls 20 milljónir króna.

Aglýsingin er hér að ofan.

Nánar má kynna sér sjóðinn á þessari slóð:

sjodur.honnunarmidstod.is

 

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 11.2.2014 - 09:15 - 15 ummæli

Fljótandi sauna í Nauthólsvík?

The sauna will be reached by kayak

Fátt er eins afslappandi og að baða sig  í sauna.

Láta hitann ganga inn í skrokkin og  njóta friðar frá umhverfinu.  Gjarna í félagsskap trúnaðarvina eftir eitthvert líkamlegt álag.

Bandaríska arkitektastofan goCstudio í Seattle USA, ætlar að hleypa af stokkunum, síðar á þessu ári, fljótandi Sauna baðstofu. Höfundarnir telja að fátt geti verið betra en að fara í fljótandi saunu sem maður nálgast á kajak eða syndandi.

Ég gæti vel séð að það gæti verið mikið og gott aðdráttarafl í Fossvoginum.  Að eiga kost á fljótandi saunabaði í Nauthólsvók eða á Laugarvatni framan við Fontanabaðið þar væri heillandi afslöppun og líkamlegt konfekt.

Þegar synt er í sjónum í Nauthólsvík vantar áfangastað, „a sense of arrival“.  Maður hefur ekki á tilfinningunni að maður komi nokkurntíma á leiðarenda á sundinu.

T.d. í sjósundinu fer maður eitthvað út og snýr svo við „einhversstaðar“ og syndir  til baka. Gaman væri að synda svona 50-80 metra, fara í saunu um stund, stinga sér svo i kaldann sjóinn og synda til baka. Áfanga er þá náð.

Að neðan eru nokkrar ljósmyndir sem skýra hugmyndina. Þær eru fengnar af heimasíðu GoCstudio arkitekta í Seatte sem hefur netfangið.: www.gocstudio.com

Heimasíða baðhússins á Laugarvatni er www.fontana.is

Sjá einnig umfjöllun um Fontana: http://blog.dv.is/arkitektur/2013/07/14/gufubadid-a-laugarvatni-fontana/

 

The sauna space features tiered seating, a cool-down hatch and a wood-burning stove

goCstudio says the sauna will provide, 'an enticing refuge from the city, a moment to esca...

The construction includes the sauna space itself, an outdoor platform and and a upper deck...

 

goCstudio has designed a floating sauna that it plans to launch on Lake Washington, Seattl...

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 7.2.2014 - 22:13 - 19 ummæli

Noregur: Aðstaða ferðamanna

 

Í framhaldi af umræðu hér á vefnum um hönnun fyrir ferðamenn og aðstöðu á ferðamannastöðum birti ég hér nokkrar ljósmyndir af norsku vegakerfi og umhverfi þess sem innlegg í umræðuna hér á landi.

Norska vegageðin leggur áherslu á að vegir liggi fallega og séu aðlaðandi þannig að ferðalagið snúist ekki um einungis um áfangastaðina heldur ekki síður um sjálft ferðalagið.  Mannvirkin styrkja upplifunina og það er vandað til þeirra.

Þeir leggja vegi og stíga þannig sjálft ferðalagið er upplifun. Maður sér þetta vissulega víða hér á landi en ekki í eins ríku mæli. Norðmenn skilja að áfangastaðurinn er einungis endastöð ánægjulegs ferðalags. Þeir koma fyrir útihúsgögnum, upplýsingaspjöldum  og listaverkum þannig að allt hefur sérstöðu og er með skýrskotun til staðarins.

Mér er sagt að þessar metnaðarfullu framkvæmdir sé að verulegum hluta kostaðar af norska olíusjóðnum. (er einhver raforkusjóður til hjá Landsvirkjun?)

Þetta eru kostnaðarsamar frakvæmdir sem ferðamenn hafa aðgang að, þeim að kostnaðarlausu en laða vissulega að ferðamenn sem skila sínu þegar til langs tíma er litið.

Hér er ekkert grín á ferðinnni eins og eldfjallið utan við Selfoss. Það ber að geta þess að bæjarráð Árborgar þótti þetta ekki fyndið og slóu hugmyndir um nýtt manngert eldfjall og verslunarmiðstöð úti á túni af borðinu í gærmorgun.

Það ber að þakka bæjarráðinu fyrir það.

Myndirnar eru sýnishorn sem fengnar víðsvegar að á netinu.

 


Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn