
Eitthvað merkilegasta framtak umhverfis og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar undanfarin misseri er útgáfa hefta sem bera nafnið Borgarsýn. Þetta eru rit sem allir ættu að kynna sér sem áhuga hafa á skipulagsmálum. Á dögunum kom út hefti númer sex í röðinni og ber heitið “Borgarsýn 06”
Þetta er bæði upplýsandi og fróðlegt rit þar sem kallað er á umræðu.
Það er þrennt sem er sérstaklega athyglisvert í nýjasta heftinu. Í fyrsta lagi könnun um húsnæðis- og búsetuóskir borgarbúa. Í öðru lagi grein um yfirstandandi gerð hverfaskipulaga og loks stutt grein um nýja íbúðabyggð í Skerjafirði.
Síðastnefnda greinin vakti sérstaka athygli mina. Það var einkum vegna eftirfarandi setningar sem er í samræmi við þá meginhugmynd sem verðlaunatillaga Graeme Massie gerði ráð fyrir:
“Heildarskipulag Vatnsmýrarinnar einkennist af þéttum og fjölbreytilegum borgarkjarna sem samanstendur af mishárri randbyggð með blandaðri notkun. Verslun. Þjónusta,menning, og afþreying verði aðgengileg á jarðhæð en skrifstofur og íbúðir þar fyrir ofan”.
Ástæðan fyrir því að ég vek athygli á þessu er sú að ég óttast að þessum markmiðum sé nánast ómögulegt að ná í nýrri byggð.
Ef horft er til þeirra skipulaga sem hugmynd Massie byggir á þá verður að horfa á þær í sögulegu samhengi. Ég held að það sé ekki hægt að bera þessi meira en 100 ára gömlu randbyggðarskipulög (Barselona, Glasgow, Kaupmannahöfn og víðar) við eitthvað sem áformað er á næstu árum hér í borg og kemur þar margt til. T.a.m. næst aldrei fram svipuð félagsleg samsetning íbú í nýrri byggð og í aldagamalli byggð.
Ég vil drepa á öðru atriði sem skiptir hér máli.
Fólk átti almennt ekki bíla fyrir 100 árum og alls ekki fyrir 130 árum þegar fyrirmyndirnar voru byggðar. Þess vegna voru allar verslanir og markaðir í göngufæri frá heimili. Sama átti við um mikinn hluta atvinnutækifæra. Uppúr miðri síðustu öld varð einkabíllinn almenningseign og fólk gat ferðast lengri leiðir til þess að sækja þjónustu og atvinnu. Þá hófst hningunartímabil þessarra hverfa. Húsaleiga í gömla verslunarhúnæðinu á jarðhæðum féll niður í nánast ekkert.
Í þetta ódýra húnæði komu allskonar einsmannsfyritæki og fjölskyldufyritæki. Þessi fyritæki voru rekin í húsnæði sem var leigt eða selt á mjög lágu verði eða að húsnæðinu var breytt í mjög slæmar íbúðir eins og gerst hefur víða í Reykjavík undanfarin ár. Í þetta húsnæði komu sér fyrir listamenn, skósmiðir og lítil verkstæði og veitingahús. Þetta eru fyritæki með litla veltu og eru flest rekin frá hendinni til munnsins með engum hagnaði og oft ekki einusinni með hagnaðarvon.
Ein af ástæðunum fyrir líflegu götulífi gömlu randbyggðarhverfanna í borgum Evrópu má rekja til þess að einkabíllinn er á undanhaldi þannig að samgöngur eru að mestu að verða eins og á þeim dögum sem þau voru byggð, þ.e.a.s. fótgangandi, hjólandi og með almenningsflutningakerfi.
Ný randbyggð getur ekki boðið uppá nánast ókeypis húsnæði á jarðhæð. Það er bara þannig eins og dæmin sanna. Ég tala nú ekki um ef selja á lóðirnar á svo háu verði að hægt sé að byggja nýjan flugvöll annarstaðar fyrir andvirðið.
Það er búið að margreyna nýja randbyggð með þá sýn sem fram kemur í tilvitnaðri setningu úr Borgarsýn 06. Það hefur aldrei tekist að töfra fram það andrúm sem við þekkjum víða í gömlu borgunum í Evrópu á nýbyggingarsvæðum.
Ég nefni Albertslund (1965) nálægt Kaupmannahöfn. Þar varð húsnæði í nýja hverfinu svo dýrt að enginn smákaupmaður, skósmiður eða reiðhjlólaverkstæði hafði efni á að reka fyrirtæki sitt þar. Plássin leigðust ekki út og stóðu tóm síðast þegar ég vissi, 30 árum eftir að það vat byggt.
Svo maður færi sig nær í tíma og skoðar Sluseholmen (2006-2008) í Kaupmannahöfn þar sem allir færustu arkitektar Danmerkur teiknuðu sín hús í randbyggðinni. Þó þeir sem þar búa séu almennt ánægðir þá er sú byggð ekki á nokkurn hátt lík randbyggðinni í gömlu borgarhlutunum. Í Sluseholmen eru fáir á gangi (allir aka beint niður í bílakjallarann) og verslun er ein (síðast þegar ég gekk þar um var þar ein IRMA verslun) og hverfisknæpan hundleiðinleg vegna fámennis og einsleits viðskiptamannahóps.
Svo getum við fært okkur til Reykjavíkur og skoðað bryggjuhverfið við Grafarvog sem vissulega er skipulagt sem randbyggð þó ekki sé það með grindarskipulagi eins og fyrirhugað er í Vatnsmýri. Þar er heldur enginn á gangi (allir í bílakjöllurum) og húsnæði fyrir verslun og þjónustu notað til annars.
Það hefur ekki tekist að ná upp götulífi gömlu borganna í Sluseholmen og ekki í Bryggjuhverfinu við Grafarvog og ég óttast að það muni ekki heldur takast í nýrri Skerjafjarðarbyggð.
Endilega kynnið ykkur BORGARSÝN 06 sem hægt er að nálgast á þessari slóð: http://www.reykjavik.is/Portaldata/1/Resources/skipbygg/frettir/2013/Borgarsyn_06_2013_03.pdf
Efst er skönnuð mynd úr Borgarsýn 06 sem sýnir hvernig ný byggð í Skerjafirði gæti hugsanlega litið út. Að neðan kemur ein mynd af skipulagi Barcelona sem er að vissu marki fyrirmynd randskipulaga í dag ásamt Glasggw, Kaupmannahöfn m.m. Síðan koma tvær myndir úr Súseholmen í Kaupmannahögfn. Annarsvegar skipulagið og hinsvegar ljósmynd af þeim veruleika sem blasir við. Neðst síðan kemur ein mynd af bryggjuhverfinu í Grafarvogi.





Bryggjuhverfið í Grafarvogi er vissulega skemmtilegt og góður staður að búa. En markmiðin um randbyggð með blandaðri notkun svo sem verslun, þjónustu, menningu og afþreyingu á jarðhæð gengu ekki eftir. Nú er verið að breyta þessu þjónustuhúsnæði í íbúðahúsnæði og bjóða það til sölu. Ég veit ekki hvort líklegt sé að þessi markmið gangi frekar eftir í Vatnsmýrarskipulagi skotanna.