Fimmtudagur 15.8.2013 - 07:13 - 3 ummæli

1. Fækkun flugvalla – Almennt

Síðunni hefur borist nokkuð ítarleg umfjöllun um flugsamgöngur á Íslandi og tengsl þeirra við skipulagsmál.

Höfundurinn er Sigurði Thoroddsen arkitekt sem  er einn reyndasti skipulagsmaður íslendinga. Hann vann nánast alla starfsæfi sína hjá Skipulagi rikisins (nú Skipulagsstofnun), mestan hluta sem aðstoðarskipulagsstjóri.  Þetta er fróðleg umfjöllun þar sem minnt er á ýmislegt sem varpar ljósi á þróun í flugsamgöngum og núverandi ástand.

Umsjónarmaður síðunnar hefur skipt henni niður í kafla og myndskreytt.

Kaflarnir sem verða settir á vefinn á hverjum morgni næstu daga bera eftirfarandi yfirskriftir:

  1. Fækkun flugvalla – Almennt
  2. Keflavíkurflugvöllur
  3. Reykjavíkurflugvöllur
  4. Aðalskipulag Reykjavíkur 2001-2024
  5. Samkeppni um skipulag Vatnsmýrar og fl.
  6. Bygging flugvallar á Hólmsheiði og  flutningur innanlandsflugs til Keflavíkur til bráðabirgða
  7. Landsskipulag
  8. Niðurstaða

bird-radar-area

Fækkun flugvalla – Almennt

Ísland gegnir mikilvægu  hlutverki í tengslum við  flugumferð yfir Norður-Atlantshaf og hefur svo verið um áratuga skeið. Veitt er  þjónusta vegna flugumferðaryfir hafið,  auk þess sem landið er viðkomustaður  flugvéla á leið milli Evrópu og Bandaríkjanna.

Á suðvestur-horni landsins eru 2 stærstu  flugvellirnir, eða Keflavíkurflugvöllur og  Reykjavíkurflugvöllur,  og hafa þeir báðir  sitt  afmarkaða hlutverk. Um   flugvellina  fer fram millilanda-   og innanlandsflug með farþega,  auk þess sjúkraflug, vöru- og póstflutningar, ferjuflug, leiguflug,  kennsluflug, almennt flug og einkaflug.

Samspil flugvallanna vegna flugumferðar  um Norður-Atlantshaf og innanlands  er mikið,  auk þess sem landið veitir þjónustu á sviði flugumferðarstjórnunar og flugöryggis. Báðir flugvellirnir eru varavellir  innbyrðis og út á við.  Til að  flugvellirnir  geti gegnt því hlutverki sem þeir er ætlað,  verða þeir  að  uppfylla alþjóðlegar  öryggiskröfur  sem Alþjóða flugmálastofnunin  ICAO setur. Ennfremur annast Landhelgisgæsla Íslands   björgunar- og öryggisþjónustu  á svæðinu

Umhverfis landið eru 4 ratsjárstöðvar sem byggðar voru af   Atlantshafsbandalaginu og  veita borgaralegu flugi mikilvæga þjónustu.

Sérstaða landsins á þessu sviði er,  að öll helstu mannvirki í tengslum við flugið, báðir  flugvellirnir  og ratsjárstöðvarnar,  voru reist af erlendum þjóðum og afhent íslenskum stjórnvöldum endurgjaldslaust til eignar  og/eða  afnota.

Myndin efst í færslunni sýnir það svæði sem heyrir undir flugumferðastjórn íslendinga. Þarna fer langstærsti hluti flugumferðar um Atlandshafið.

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 12.8.2013 - 19:55 - 12 ummæli

Víkurkirkjugarður og Landsímareitur

Geir biskup góði (1761-1823)

Eftirfarandi grein barst síðunni frá Örnólfi Hall arkitekt f.a.í.  Í fylgibréfi segir höfundur að ekki megi túlka skrifin sem gagnrýni á það vandaða  deiliskipulag sem nýlega var samþykkt á svokölluðum Landsímareit, heldur er tilgangurinn með greininni að minna á minninga-og sögulegt gildi Víkurgarðs. En eins og fram kemur eru þarna jarðsettar 30 kynslóðir Reykvíkinga. Þetta er fróðleg og skemmtileg grein sem hér má lesa. Efst er mynd af Geir Vídalín, biskupi góða (1761-1823) og neðst er teikning höfundar sem sýnir umfang Víkurkirkjugarðs á sínum tíma.

Um Víkurkirkjugarð

Á upplýsingasíðu Reykjavíkurprófastsdæma frá 2002 er saga kirkjugarða í Reykjavík rakin í stuttu máli. Segir þar um kirkjugarðinn við Aðalstræti að kirkja hafi risið við höfðingjasetrið í Reykjavík eftir að kristni var innleidd á Þingvöllum árið 1000. Talið er að Þormóður, sonur Þorkels mána, hafi látið reisa kirkju framan við bæ sinn og reist grafreit umhverfis hann. Staður þessi var þar sem nú eru mót Aðalstrætis og Kirkjustrætis. Segir þar að Víkurgarður hafi síðar verið nefndur Fógetagarðurinn og hann hafi enst Reykvíkingum til greftrunar í rúm 800 ár. Var hann 40×80 metrar að flatarmáli þegar hætt var að nota hann árið 1838. Þá segir einnig að ætla megi að jarðneskar leifar 30 kynslóða Reykvíkinga hvíli í garðinum.

Samkvæmt uppgefinni stærð hefur garðurinn náð vel undir núverandi byggingar til norðurs og austurs og að hlið Austurvallar sem snýr að Thorvaldsenstræti.Schierbeck landlæknir fékk svo leyfi bæjaryfirvalda árið 1883 til breyta kirkjugarðinum í skrúðgarð.

Á fræðsluskildi í Fógetagarðinum stendur: Kirkjugarður Reykvíkinga frá upphafi kristni til 1838. Síðast jarðsett 1883. Hér stóð Víkurkirkja til 1796.

Geir Vídalín biskup og kirkjugarðurinn

Einn þeirra merku manna sem hvíla í Víkurkirkjugarði er Geir biskup Vídalín (1761-1823) sem alþýðan kallaði „hinn góða“ vegna manngæsku hans og örlætis.

Geir biskup góði lét stækka kirkjugarðinn til austurs þegar þrengja tók um greftrunarpláss í garðinum. Síðar tóku ráðamenn af honum völd, og jafnframt fjárráð, þegar í óefni var komið varðandi fjármál biskupsstólsins. Geir er sá eini af biskupum landsins sem hefur verið úrskurðaður gjaldþrota, sökum gafmildi sinnar og gæsku. Boð Herra síns rækti hann út í ystu æsar. Við öreigakost bjó hann síðan í einu af húsum Skúla fógeta, frænda síns, til dauðadags 1823 og var jarðaður í þeim hluta (Reit Geirs) garðsinssem hann hafði látið stækka og svo vígt.

 Hjá Espólín má finna frásögn af útför Herra Geirs en þar segir á þá leið að engum hafi verið boðið til hennar nema þeim sem honum skyldu fylgja. Embættismenn og stúdentar skiptust þá gjarnan um að bera níðþunga kistu sem var gerð af heilum plönkum með skrúfnöglum og vó umgerðinnærri fjórum vættum. Þrek- og gildvaxinn Geir var fullar fjórar vættir sjálfur. – Fjórar vættir töldust um 160 kg. Þannig að biskup og kista hafa vegið um 320 kg. Hér mun því hafa þurft til heila tylft embættismanna eða stúdenta.

 Gæti  það gerst að kista og bein biskupsins góða og velgjörðarmanns hinna snauðu í Reykjavík kæmu í ljós þegar farið verður grafa fyrir nýbyggingum eða kemst hann hjá yfirvofandi raski og fær að hvílaþarna áfram í ró og spekt og þá e.t.v. með spaka túrista sem nágranna?

Nýja deiliskipulagið á Landssímareitnum

Mönnum hefur verið tíðrætt um nýja deiliskipulagið á Landssímareitnum og menningar-verðmætin þar, Víkurkirkjugarð og legstaði.- Samkvæmt þessu skipulagi fær Víkurkirkjugarður svokallaða hverfisvernd sem á að vera sama eðlis og gildir fyrir Hólavallakirkjugarð (þ.e.a.s. vernd frá sjónarmiði menningarsögu, minningarmarka og skipulögð vöktun sérstaks trjágróðurs).

Við lagningu símalína (undir gangstéttum) umhverfis garðinn, á 6. áratugnum, virðist lítil nærgætni eða virðing (grafarhelgi) hafa verið viðhöfð. Mannabein, leggir og jafnvel höfuðbein, lágu á víð og dreif í uppmokstrinum eins og fram kemur í fréttum á þeim tíma.

 Þór Magnússon fv. þjóðminjavörður skrifaði athyglisverða grein í Mbl. fyrir nokkru undir fyrirsögninni: Hver á kirkjugarðinn? Þar segir Þór meðal annars: „Nú er boðað að breyta eigi Landsímahúsinu í hótel og viðbygging skuli ná út að Kirkjustræti. Ef að líkum lætur mun það stórhýsi fara verulega út í kirkjugarðinn. Þá má spyrja: Hver á kirkjugarðinn? Mega skipulagsyfirvöld ráðstafa kirkjugarðsstæði, legstöðum, eftir sinni þóknan?“

Rétt er að árétta orð Þórs í greininni: „Ástæða er til að fara sér hægt, kanna mörk hins gamla kirkjugarðs og ganga síðan frá honum eins og kirkjugarði sæmir.“

 Hver er aðkoma  Biskupsembættis og viðkomandi sóknarnefndar að þessu skipulagi?

Hvað varð um tillögu um fornleifagröft á svæðinu semlögð var fyrir borgarráð fyrir rúmum áratug?

 

30 kynslóðir Reykvíkinga hvíla í garðinum-lett

 

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 9.8.2013 - 12:00 - 7 ummæli

HEKLA – 50 ára íslenskur lampi vekur alþjóðlega athygli

Hekla

 

Fyrir skömmu hélt alþjóðlegt fyrirtæki  í Svíþjóð upp á tímamót í starfsemi sinni með því að gefa út mjög vandað rit, sem sýnir úrvals hönnun frá Skandinavíu sem kom á markað árið 1963. Fyrirtækið Iggesund Paperboard framleiðir hágæða pappírs karton sem nefnast Invercote og Incada. Þetta karton er aðallega notað í umbúðir fyrir háhæða vörur, t.d. ilmvötn og eru helstu framleiðendur slíkrar vöru meðal viðskiptavina þeirra.

Á síðasta ári þegar hugað var að útgáfu þessa rits var ákveðið að sýna í því úrvals hönnun frá öllum Norðurlöndunum. Þar var auðvitað um auðugan garð að gresja, nema frá Íslandi. Ljósmyndarinn sem kom að vali hlutanna, sá á Netinu mynd af lampa sem nefndist Hekla og er verk tveggja íslenskra hönnuða, þeirra Jóns Ólafssonar og Péturs B. Lútherssonar.

Lampinn reyndist við nánari athugun hafa komið á markað 1963 eins og Invercote kartonið. Fyrirtækið Fog & Mörup A/S í Danmörku framleiddi lampann í um það bil 15 ár, eða til um 1980 og seldi lampann í Evrópu, Bandaríkjunum og í Japan þar sem hann var framleiddur um tíma. Á níunda áratugnum hætti fyrirtækið framleiðslunni, enda komu mjög ódýrir lampar á markaðinn, aðallega frá Ítalíu. Heklu lampinn er að áliti þeirra félaga Jóns og Péturs sennilega fyrsta íslenska nútíma hönnunin sem fær viðlíka útbreiðslu á heimsmarkaði.

Ljósmyndarinn frá Svíþjóð hafði samband við þá félaga Jón og Pétur og kom síðan sjálfur til Íslands til að taka myndir af lampanum, enda markmiðið að fá sem heildstæðast útlit á ritið sem síðan var prentað á hágæðapappír frá fyrirtækinu Iggesund.

Forsaga Heklu lampans er sú, að Jón og Pétur voru í námi í húsgagna- og innanhússarkitektúr við Listiðnaðarskólann í Kaupmannahöfn þegar þeir ákváðu að taka þátt í samkeppni um nýja lampa. Þá voru þeir á öðru ári við skólann og ártalið var 1962. Skemmst er frá því að segja að þeir lögðu allt kapp á að vinna samkeppnina og gerðu líkan af  lampa úr hvítu kartoni sem skorið var til og límt saman. Líkanið var með ljósi og við fyrstu sýn virkaði það eins og fullkominn lampi. Þeir unnu samkeppnina og fengu fyrstu verðlaun fyrir lampann Heklu og líka 3. verðlaun fyrir annan lampa sem nú er löngu gleymdur. Það varð síðan að ráði að þeir sömdu við fyrirtæki sem hét Fog & Mörup A/S í Danmörku og hófu þeir að framleiða Hekluna. Framleiðsla fyrirtækisins var mjög vönduð og var mikill hluti framleiðslunnar fluttur út frá Danmörku, aðallega til Þýskalands. Nafnið á lampanum var ekki tilviljun, samanber formið og ljósið sem minnti á eldfjallið þekkta, en þetta var áður en annar hver hlutur heitir efir kennileitum á Íslandi.

Fyrirtækið Fog & Mörup var með sýningarsal á Strikinu í Kaupmannahöfn við hliðina á Illums Bolighus, sem enn er þekkt víða um heim. Heklulampanum var árum saman stillt út í gluggann þarna, enda einn dýrasti lampinn í þeirra framleiðslu. Lampinn varð brátt mjög vinsæll og var seldur víða um heim. M.a. var hann seldur með framleiðsluleyfi á markað í Japan um nokkurra ára skeið. Lampinn var einnig snemma seldur til Íslands og mun hann hafa verið á söluskrifstofu Loftleiða h/f við Vesturgötu þar sem fyrstu 3 eintökin voru til sýnis. Fyrirtækið Fog & Mörup A/S er ekki lengur til.

Heklu lampinn hefur verið töluvert til sölu á Netinu síðustu ár á antikmarkaðnum. Hann er þá seldur á háu verði, en eingöngu er þar um notaða hluti að ræða. Sem kunnugt er, er ekki framleiðsla raflampa sem nokkru nemur lengur á Íslandi, en sjálfsagt er að skoða það í ljósi þess að hér er um hágæða, klassiska hönnun að ræða.

Hætt var að framleiða Heklulampann fyrir 33 árum. Það er full ástæða til þess að hefja framleiðslu á honum að nýju. Maður velir því fyrir sér hvort ekki sé lag núna á 50 ára afmæli lampans að hefja framleiðslu á honum hér á landi fyrir alþjóðamarkað. Byrja mættui á að semja við utanríkisþjónustuna, ríki og sveitarfélög um kaup á fyrstu 200-500 lömpunum sem í framhaldinu gætu orðið táknmynd íslenskrar snildar á hönnunarsviðinu svipað og PH lampinn er fyrir dani.

Tíminn mun leiða það í ljós.

Efst er mynd af  HEKLU lampanum og kynning Iggesund í umræddu riti.

Að neðan koma ljósmyndir og frekari upplýsingar um þá hluti sem valdir voru sem bestu hönnunarhlutirnir í Skandinavíu árið 1963 eða fyrir réttum 50 árum. Allt eru þetta mjög þekktir hlutir sem vakið hafa athygli um víða veröld. Neðst koma svo tvær myndir. Önnur úr auglýsingabæklingi þegar íslenski lampinn HEKLA fór á markað og hin af frumútgáfu sem hönnuðirnir gerðu vegna samkeppninnar árið 1962.

Upplýsingar um fyrirtækið

www.iggesund.com

Til þess að að sjá ritið á Netinu: http://www.iggesund.com/Invercote/1963/

Hægt er að panta eintak á þessari slóð: http://www.iggesund.com/1963-Kit.aspx

 

Ballchair

Ericofon

 Hasselblad

 CH07

 Gomulmynd

 Að ofan er ljósmynd sem notuð var í sölubæklingi þegar lampinn var settur á markað fyrir réttum 50 árum.

HEKLA, fyrsta model 1962lett

Myndin að ofan er af líkani sem þeir félagar, Pétur B. Lútersson og Jón Ólafsson, gerðu af lampanum þegar þeir voru á öðru ári í námi í Kaupmannahöfn árið 1962. Líkanið var í fullri stærð með ljósi og hlaut fyrstu verðlaun í lampasamkeppni.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 30.7.2013 - 06:58 - 17 ummæli

Deiliskipulag í Vatnsmýri – önnur nálgun?

 

dezeen_South-Chase-housing-by-Alison-Brooks-Architects_16

Margir hafa látið þá skoðun í ljós að drög að deiliskipulagi sem lögð eru til grundvallar í fyrirhugaðri byggð í Vatnsmýri sé einsleit og óreykvísk og jafnvel leiðinleg.

Ég er einn þeirra sem tel að þessi fyrirliggjandi skipulagshugmynd sé áhugaverð, svona almennt séð, sem umræðugrundvöllur en það sé mikil áhætta falin í því að „teppaleggja“ ef svo má að orði komast, alla Vatnsmýrina með sama mynstri, alla 140 hektarana eins og drögin gera ráð fyrir.

Ég kalla eftir fjölbreyttara umhverfi á þessu svæði með margvíslegri húagerðum og götumyndum.

Það er verið að vinna að stórum íbúðasvæðum víðsvegar í heiminum alla daga þar sem fjölbreytilega nálgun er að finna.

Eitt þeirra er íbúðasvæði við Essex í Englandi eftir Alison Brooks Architects. Þessi íbúðabyggð fékk nýlega viðurkenningu sem besta nýja íbúðabyggðin í Englandi.

Þetta eru rúmgóð hús með meiri lofthæð en gengur og gerist. Þéttleikinn er 56 íbúðir á hektara sem er mjög mikið á reykvískan mælikvarða. Sérstaklega er eftir því tekið hvað íbúðirnar eru bjartar og samskipti íbúanna og götulíf þægilegt. Húsin eru laus við alla stæla og tilgerð og sem meira er þá eru þau byggð úr staðbundnum efnum sem hæfa staðarkúltúrnum.

Skipulagið byggir á gamalli skipulagshugmynd sem kölluð var „Back-to-back“,  þar sem húsin snéru bökum saman. Hún var illa þokkuð á árum áður vegna þess að húsin höfðu einungis dagsbirtu frá einni hlið og einungis forgarð. Húsin áttu rætur sínar að rekja til iðnbyltingarinnar. Uppúr 1960 var gert átak um að útrýma þessu húsnæði á Bretlandseyjum.

Arkitektarnir hafa endurskoðað þessa gömlu (úreltu að flestra mati(!)) skipulagshugmynd, losað um húsin, gefið kost á dagsbirtu frá fleiri hliðum inn í hýbýlin og gert þakgarð og fl. þannig að sólar nýtur vel úr öllum rýmum húsanna og á útisvæðum, svölum og veröndum.

Hér hefur arkitektunum tekist að laða fram manneskjulega þétta byggð sem er eftirsóknarverð.

Er ekki rétt að leggja til hliðar stórkallalegar hugmyndir um einsleitt „kanoniskt“ skipulag sem fyrir liggur í Vatnsmýrinni og leita í þeirra stað annarra og fjölbreytilegri lausna í hverfaskipulaginu?

Hjálagt eru nokkrar myndir sem skýra sig sjálfar. Neðst er afstöðumynd af hverfinu í Essex þar sem eru 85 íbúðir ásant nærliggjandi skipulagi. Grunmyndir og snið er einnig að finna í færslunni. Allt mjög áhugavert.

Ég minni aftur á að þarna eru 56 rúmgóðar íbúðir á hverjum hektara.

Ég vil sérstaklega benda á skemmtilegt og upplýsandi myndband með viðtölum við íbúa húsanna og atkitekta þeirra. Myndbandið má einnig sjá neðst í færslunni:

http://vimeo.com/70482013

Sjá einnig:

http://blog.dv.is/arkitektur/2013/07/23/borgarsyn-06-ny-byggd-i-skerjafirdi/

Og hér er uppryfjun varðandi stóru samkeppnina um skipulag og landnotkun í Vatnsmýri:

http://blog.dv.is/arkitektur/2012/01/13/vatnsmyrarsamkeppnin-upprifjun/

Og færsla með tölum um þéttleika hverfa borgarinnar:

http://blog.dv.is/arkitektur/2013/02/11/landnotkun-thetting-byggdar-borgarbragur/

 

dezeen_South-Chase-housing-by-Alison-Brooks-Architects_1sq

dezeen_South-Chase-housing-by-Alison-Brooks-Architects_8

dezeen_South-Chase-housing-by-Alison-Brooks-Architects_10

 Að ofan eru tvær myndir sem sýna verandir á jarðhæð og á annarru hæð húsanna.

dezeen_South-Chase-housing-by-Alison-Brooks-Architects_17

C147_LG_6

 Að ofan eru fallegar grunnmyndir þar sem má sjá flæðið inni í íbúðunum og hvernig dagsbirta og verandirnar fléttast inn í starfssemina og heimilislífið. Að neðan kemur snið sem sýnir lofthæðir. Ef snið og grunnmynd er lesið saman áttar maður sig á spennandi flæði rýmanna. Þetta má einnig upplifa á meðfylgjandi myndbandi.

C147_LG_4

 

 

C147_LG_5

 

dezeen_South-Chase-housing-by-Alison-Brooks-Architects_19

 

 

dezeen_South-Chase-housing-by-Alison-Brooks-Architects_20

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 26.7.2013 - 00:20 - 9 ummæli

Ný randbyggð

dezeen_Housing-in-Emmen-by-MVRDV_1

Í síðustu færslu var fjallað um randbyggð og mátti kannski skilja að höfundi þætti það skipulagsform nánast ógerlegt. Það er miskilningur. Höfundur taldi hinsvegar að illmögulegt væri töfra fram götulíf í nýjum hverfum sem stæðist samanburð  við það sem við þekkjum í skipuilagi gömlu borganna í Evropu þar sem göturnar iða af mannlífi.

Höfundur telur vel mögulegt að skapa góða byggð í randbyggðaskipulagi og vísaði til Sluseholmen í Kaupmannahöfn og Bryggjuhverfisins í Grafarvogi. Hann gæti vel hugsað sér að búa í slíku hverfi. Hinsvegar telur hann að markmiðið í Vatnsmýrarskipulaginu um  blandaða notkun með verslun, þjónustu, menningu og afþreyingu  sem  verði aðgengileg á jarðhæð en skrifstofur og íbúðir þar fyrir ofan séu skýjaborgir eða markmið sem erfitt verður að ná. Enda margreynt.

Hinsvegar er randbyggð skipulagsform sem menn nýta sér nokkuð í nútíma skipulagi þó þeir séu meðvitaðir um að andrúmið á götum Barcelona og Glasgow séu ekki á boðstólnum af ástæðum sem tíundaðar voru í síðasta pistli.

Hé er eitt slíkt dæmi frá borginni Emmen í Sviss. Þar var efnt til samkeppni um  nýja íbúðabyggð. Þetta var samkeppni sem haldin var í samvinnu bæjarfélagsins og fjárfestingarfélags og var niðurstaðan kynnt í síðustu viku. Vinningstillagan er unnin af hollensku teiknistofunni MVRDV.

Þarna eru íbúðir af 16 mismunandi gerðum frá 130 fermetrum niður í öríbúðir sem eru 30 fermetrar.

Skoðið myndirnar og tvísmellið til að sjá þær betur.

dezeen_Housing-in-Emmen-by-MVRDV_2

dezeen_Housing-in-Emmen-by-MVRDV_8

dezeen_Housing-in-Emmen-by-MVRDV_9

 

dezeen_Housing-in-Emmen-by-MVRDV_7

Þar sem bifreiðastæðum fyrir allar íbúðir er komið fyrir í kjöllurum verður mannlíf á götum minna en ella og íbúarnir fara um lengri veg til þess að sækja sér þjónustu.

dezeen_Housing-in-Emmen-by-MVRDV_3

 

dezeen_Housing-in-Emmen-by-MVRDV_50

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 23.7.2013 - 16:21 - 24 ummæli

Borgarsýn 06 – ný byggð í Skerjafirði

Skerjafjörðurlett

Eitthvað merkilegasta framtak umhverfis og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar undanfarin misseri er útgáfa hefta sem bera nafnið Borgarsýn.  Þetta eru rit sem allir ættu að kynna sér sem áhuga hafa á skipulagsmálum. Á dögunum kom út hefti númer sex í röðinni og ber heitið “Borgarsýn 06”

Þetta er bæði upplýsandi og fróðlegt rit þar sem kallað er á umræðu.

Það er þrennt sem er sérstaklega athyglisvert í nýjasta heftinu. Í fyrsta lagi könnun um húsnæðis- og búsetuóskir borgarbúa. Í öðru lagi grein um yfirstandandi gerð hverfaskipulaga og loks stutt grein um nýja íbúðabyggð í Skerjafirði.

Síðastnefnda greinin vakti sérstaka athygli mina. Það var einkum vegna eftirfarandi setningar sem er í samræmi við þá meginhugmynd sem verðlaunatillaga Graeme Massie gerði ráð fyrir:

“Heildarskipulag Vatnsmýrarinnar einkennist af þéttum og fjölbreytilegum borgarkjarna sem samanstendur af mishárri randbyggð með blandaðri notkun. Verslun. Þjónusta,menning, og afþreying verði aðgengileg á jarðhæð en skrifstofur og íbúðir þar fyrir ofan”.

Ástæðan fyrir því að ég vek athygli á þessu er sú að ég óttast að þessum markmiðum sé nánast ómögulegt að ná í nýrri byggð.

Ef horft er til þeirra skipulaga sem hugmynd Massie byggir á þá verður að horfa á þær í sögulegu samhengi. Ég held að það sé ekki hægt að bera þessi meira en 100 ára gömlu randbyggðarskipulög (Barselona, Glasgow, Kaupmannahöfn og víðar) við eitthvað sem áformað er á næstu árum hér í borg og kemur þar margt til. T.a.m. næst aldrei fram svipuð félagsleg samsetning íbú í nýrri byggð og  í aldagamalli byggð.

Ég vil drepa á öðru atriði sem skiptir hér máli.

Fólk átti almennt ekki bíla fyrir 100 árum og alls ekki fyrir 130 árum þegar fyrirmyndirnar voru byggðar. Þess vegna voru allar verslanir og markaðir í göngufæri frá heimili. Sama átti við um mikinn hluta atvinnutækifæra. Uppúr miðri síðustu öld varð einkabíllinn almenningseign og fólk gat ferðast lengri leiðir til þess að sækja þjónustu og atvinnu. Þá hófst hningunartímabil þessarra hverfa. Húsaleiga í gömla verslunarhúnæðinu á jarðhæðum féll niður í nánast ekkert.

Í þetta ódýra húnæði komu allskonar einsmannsfyritæki og fjölskyldufyritæki. Þessi fyritæki voru rekin í húsnæði sem var leigt eða selt á mjög lágu verði eða að húsnæðinu var breytt í mjög slæmar íbúðir eins og gerst hefur víða í Reykjavík undanfarin ár. Í þetta  húsnæði komu sér fyrir listamenn, skósmiðir og lítil verkstæði og veitingahús. Þetta eru fyritæki með litla veltu og eru flest rekin frá hendinni til munnsins með engum hagnaði og oft ekki einusinni með hagnaðarvon.

Ein af ástæðunum fyrir líflegu götulífi gömlu randbyggðarhverfanna í borgum Evrópu má rekja til þess að einkabíllinn er á undanhaldi þannig að samgöngur eru að mestu að verða eins og á þeim dögum sem þau voru byggð, þ.e.a.s. fótgangandi, hjólandi og með almenningsflutningakerfi.

Ný randbyggð getur ekki boðið uppá nánast ókeypis húsnæði á jarðhæð. Það er bara þannig eins og dæmin sanna. Ég tala nú ekki um ef selja á lóðirnar á svo háu verði að hægt sé að byggja nýjan flugvöll annarstaðar fyrir andvirðið.

Það er búið að margreyna nýja randbyggð með þá sýn sem fram kemur í tilvitnaðri setningu úr Borgarsýn 06. Það hefur aldrei tekist að töfra fram það andrúm sem við þekkjum víða í gömlu borgunum í Evrópu á nýbyggingarsvæðum.

Ég nefni Albertslund (1965) nálægt Kaupmannahöfn. Þar varð húsnæði í nýja hverfinu  svo dýrt að enginn smákaupmaður, skósmiður eða reiðhjlólaverkstæði hafði efni á að reka fyrirtæki sitt þar. Plássin leigðust ekki út og stóðu tóm síðast þegar ég vissi, 30 árum eftir að það vat byggt.

Svo maður færi sig nær í tíma og skoðar Sluseholmen (2006-2008) í Kaupmannahöfn þar sem allir færustu arkitektar Danmerkur teiknuðu sín hús í randbyggðinni. Þó þeir sem þar búa séu almennt ánægðir þá er sú byggð ekki á nokkurn hátt lík randbyggðinni í gömlu borgarhlutunum. Í Sluseholmen eru fáir á gangi (allir aka beint niður í bílakjallarann) og verslun er ein (síðast þegar ég gekk þar um var þar ein IRMA verslun) og hverfisknæpan hundleiðinleg vegna fámennis og einsleits viðskiptamannahóps.

Svo getum við fært okkur til Reykjavíkur og skoðað bryggjuhverfið við Grafarvog sem vissulega er skipulagt sem randbyggð þó ekki sé það með grindarskipulagi eins og fyrirhugað er í Vatnsmýri. Þar er heldur enginn á gangi (allir í bílakjöllurum) og húsnæði fyrir verslun og þjónustu notað til annars.

Það hefur ekki tekist að ná upp götulífi gömlu borganna í Sluseholmen og ekki í Bryggjuhverfinu við Grafarvog og ég óttast að það muni ekki heldur takast í nýrri Skerjafjarðarbyggð.

Endilega kynnið ykkur BORGARSÝN 06 sem hægt er að nálgast á þessari slóð: http://www.reykjavik.is/Portaldata/1/Resources/skipbygg/frettir/2013/Borgarsyn_06_2013_03.pdf

Efst er skönnuð mynd úr Borgarsýn 06 sem sýnir hvernig ný byggð í Skerjafirði gæti hugsanlega litið út. Að neðan kemur ein mynd af skipulagi Barcelona sem er að vissu marki fyrirmynd randskipulaga í dag ásamt Glasggw, Kaupmannahöfn m.m. Síðan koma tvær myndir úr Súseholmen í Kaupmannahögfn. Annarsvegar skipulagið og hinsvegar ljósmynd af þeim veruleika sem blasir við. Neðst síðan kemur ein mynd af bryggjuhverfinu í Grafarvogi.

3381968e52fd6ebfa1e4fb2a50155de2

Sydhavnen

 

797px-Sluseholmen_canal_scenelett

 

7158869690_e204243f96_z

 

e606539_2Acut

Bryggjuhverfið í Grafarvogi er vissulega skemmtilegt og góður staður að búa. En markmiðin um  randbyggð með blandaðri notkun svo sem verslun, þjónustu, menningu og afþreyingu á jarðhæð gengu ekki eftir. Nú er verið að breyta þessu þjónustuhúsnæði í íbúðahúsnæði og bjóða það til sölu. Ég veit ekki hvort líklegt sé að þessi markmið gangi frekar eftir í Vatnsmýrarskipulagi skotanna.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 17.7.2013 - 11:54 - 7 ummæli

Micro hús – micro lóðir

dezeen_Promenade-House-by-FORMKouichi-Kimura-Arcitects_14

Í framhaldi af umræðu um „micro íbúðir“ og „microhús“ er hér tekið dæmi um smáhýsi í Japan sem byggt er á örlítilli lóð, „micro lóð“.  En japanir hafa náð góðum árangri í að töfra fram snilldar einbýlishús á nánast ómögulegum örlitlum lóðum.

Lóðin er einungis 166 fermetrar, rúmir 3 metrar á breidd og tæpir 30 metrar á lengd með útskoti á einum stað.  Húsið er brúttó 124 fermetrar.

Húsið er aðeins 270 sentimetra breytt og á svo mjórri lóð að ekki er mögulegt að hafa glugga á langhliðum.

Útsýni er nánast ekkert og  kemur dagsbirtan frá gluggum sem eru niðri við gólf annarsvegar og hinsvegar  frá þakgluggum og göflum.

Svona hús er ekki hægt að byggja á Íslandi þó lóðir séu að finna fyrir svona byggingar víða í húsasundum í 101 Reykjavík og víðar.

Kerfið mundi liklega gera athugasemd við nýtingarhlutfallið og finna grunnmyndinni allt til foráttu.

Byggingareglugerðina hér á landi skortir frjálslyndi til þess að veita svigrúm fyrir óhefðbundnar lausnir af þessu tagi.

Hinsvegar deili ég því með þeim sem þarna búa og segi að þetta er gott hús sem ég gæti vel hugsað mér að búa í með minnihátar breytingum.

Sjá einnig færslur um micro húsnæði:

http://blog.dv.is/arkitektur/2013/07/09/micro-einbylishus/

og

http://blog.dv.is/arkitektur/2013/07/04/micro-ibudir/

 

dezeen_Promenade-House-by-FORMKouichi-Kimura-Arcitects_11

 dezeen_Promenade-House-by-FORMKouichi-Kimura-Arcitects_12

dezeen_Promenade-House-by-FORMKouichi-Kimura-Arcitects_16

dezeen_Promenade-House-by-FORMKouichi-Kimura-Arcitects_18

dezeen_Promenade-House-by-FORMKouichi-Kimura-Arcitects_6

Hér er aðalinngangur hússins sem er einungis 270cm á breidd. Örlítil ræma, c.a. 30 cm lóðarinnar er ekki nýtt undir bygginguna. Lóðin er alls um 33o cm breið með smá útskoti í öðrum endanum. Að neðan eru afstöðumynd, grunnmyndir og snið í stærri mælikvarða.

dezeen_Promenade-House-by-FORMKouichi-Kimura-Arcitects_50

 

dezeen_Promenade-House-by-FORMKouichi-Kimura-Arcitects_51

dezeen_Promenade-House-by-FORMKouichi-Kimura-Arcitects_52

dezeen_Promenade-House-by-FORMKouichi-Kimura-Arcitects_53_1000

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 14.7.2013 - 16:05 - 11 ummæli

Gufubaðið á Laugarvatni – Fontana

 

800PX-~1

Verðlaunatillögur í samkeppnum eiga það til að taka allnokkrum breytingum frá því að dómnefnd fellir sinn dóm þar til framkvæmdum er lokð. Þar kemur margt til. Eitt er að bygginganefndin er hugsanlega ekki alveg sammála dómnefndinni eða að forsendur breytast á þeim tíma sem líður frá því að keppnislýsing var skrifuð og þangað til framkvæmdir hefjast.

Það var árið 2003 að niðurstaða fékkst í samkeppni um nýtt hús fyrir gufubaðið á Laugarvatni, Gufuna, eins og hún hét þá.  Nú eru liðin rétt 10 ár og framkvæmdum að ljúka með síðustu baðkerjunum utandyra. Þetta var langur ferill þar sem vinningstillagan tók miklum breytingum af margvíslegum ástæðum. Fyrst stækkaði hún úr 200 m2 samkeppnistillöhunnar upp í hátt á annað þúsund fermetra.

Ástðan var sú að stórhuga athafnamenn sáu þarna viðskiptaækifæri. Þetta var þegar „góðærið“ stóð sem hæst.  Einhverjir töldu að verkefnið stefndi í strand  vegna stærðarinnar, hugmyndirnar væru of stórar.  Arkitektarnir gerðu þá, að eigin frumkvæði, tillögu um að minnka húsið um meira en 50% þannig að það yrði ekki meira en 75o fermetrar. Því var vel tekið og málið komst á betri braut.

Það vakti athygli mína að allir þáttakendur í samkeppninni, að einum undanskildum, áttuðu sig ekki á sérstöðu gömlu Gufunnar á Laugarvatni. Hún var einstök vegna þess að hún stóð ofan á sjálfum hvernum. Þ.e.a.s. að hverinn sem gaf af sér gufuna var undir timburgólfi baðklefans þannig að gestir og baðandi heyrðu í hvernum beint undir fótum sér. Annað sem gaf einstaka tilfinningu var myrkrið og þær frumstæðu aðstæður sem voru í gufuklefanum.

Höfundar vinningstillögunnar voru Á Stofunni arkitektar og landslagsarkitektastofan Landform sem tóku að sér verkið.

Efst í færslunni er gamla Gufan. sem margir minnast með söknuði.  Myndin er tekin skömmu áður en hún var rifin. Að neðan koma svo nokkrar ljósmyndir af nýju Gufunni á Laugarvatni sem fengnar eru á heimasíðu Fontana (!), eins og baðið heitir nú. Það sem einkum er ánægjulegt er að það hefur tekist að halda Gufunni á sama stað og hún hefur alltaf verið, yfir hvernum þannig að gestir finna hann banka í gólfið. Það hefur líka að vissu marki tekist að ná svipuðu anda og var í gömlu Gufunni, þ.e.  lítil dagsbirta, timbur og hverinn bankandi undir gólfinu.

Ástæða er til þess að vekja sérstaka athygli á verkum Erlu Þórarinsdóttur myndlistarmanns sem gerði skúlptúrana í baðlaugunum. Þeir eru allir sérlega formfagrir og gerðir úr póleruðu graniti í ýmsum litum.

Neðst koma svo tvær skissur frá skjálfandi hendi arkitektsins sem gerði þar tilraun til þess að sannfæra verkkaupann um að byggja minna hús en þá var á teikniborðinu.  Húsið er nánast alveg eins og þessar skissur meðan útisvæðin eru mjög frábrugðin.

Kannski er byggingin óþarflega straumlínulöguð miðað við gömlu Gufuna, en ég held hún þjóni þeim tilgangi sem til var ætlast þó ýmis smáatriði sem varðar bygginarlistina hafi ekki skilað sér að fullu í lokaútfærslunni. En það er ekki óalgeng niðurstaða þegar arkitaktar skila endanlega vinnu sinni. Hinsvegar eru útisvæðin frá hendi Landforms og Erlu Þórarinsdóttur mun betri en fram kemur í skissum arkitektsina að neðan.

Heimasíða baðhússins er www.fontana.is

 

 

 

3796a3d6c6510fd

fontana_sundlaug_hus__4

fontana_solbad_laug__3

fontana_konur__solbad_3

fontana_gufa__sundlaug_laugarvatn

fontana_gufa__sundlaug

fontana_sundlaug_vatn_

Afsskissalettsnuid

 

 

isolettsnuid

Myndirnar eru fengnar af heimasíðu Fontana

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 9.7.2013 - 08:36 - 17 ummæli

Micro einbýlishús

 

bijoux-dwelling-537x357

bijoux-dwelling-AF-Bostader2-537x383

Fyrir nokkrum dögum var fjallað hér um “micro íbúðir” sem eru allt niður í 20 fermetra að stærð og ætlaðar  vaxandi fjölda þeirra einstaklinga sem velja  að búa einir.

Í athugasemdarkerfinu þar sem þátt tóku aðilar sem þekkja vel til þessarra mála kom fram að ekki er mögulegt að byggja slíkar íbúðir hér á landi. Fyrirstaðan er ekki viljinn eða þörfin heldur byggingareglugerðin. Byggingareglugerðin virðist ekki heimila minni íbúðir en 50 fermetrar ef marka má þær upplýsingar sem komu þar fram.

Minnstu  íbúðirnirnar sem byggingareglugerðin heimilar eru sérstaklega ætlaðar námsmönnu. Það í sjálfu sér er einkennilegt. Maður spyr hver séu rökin fyrir því að öðrum en námsmönnum skuli bannað að búa þröngt og spartanskt? Og svo auðvitað veltir maður fyrir sér af hverju námsmenn hafa þessa undanþágu og af hverju námsmönnum er hrúgað saman í einskonar  „námsmannagettó“.  

Er ekki upplagt að byggja litlar einstaklingsibúðir fyrir almennan markað þar sem námsmenn geta leigt eða keypt í félagi við almenna borgara!

Til þess að halda þessu áfram vek ég athygli á “micro einbýlishúsum” sem eru víða byggð og að því er virðist nokkuð eftirlæti hjá arkitektum. Það er sennilega vegna þess að til þess að hugmyndin gangi upp þarf að þaulhugsa og sérhanna hvert smáatriði þannig að flestum þörfum sé fullnægt á sem fæstum fermetrum fyrir sem minnstu fjármuni. Það er sérstakt áhugamál margra arkitekta að byggja ódýrt og þannig að fjárfestingin nýtist vel.

Flest þessarra húsa eru 25-35 fermetrar og ætluð einstalklingum.

Auðvitað hlýtur að vera einhver millivegur milli þeirra örhúsa sem fjallað er um í þessari færslu og þeirra éinbýlishúsa sem eru á teikniborðum arkitektanna nú um stundir. Þau eru oftast milli 250 og 400 fermetrar að stærð. Af hverju ætli skipulagshöfundar séu hættir að gera ráð fyrir litlum sérbýlum í borgarskipulaginu, þ.e.a.s. svona 100 fermetra sérbýlum? Af hverju er hætt að byggja svokallaða tilraunareiti fyrir íbúðabyggð eins og algengt var á árum áður?  Af hverju hefur maður ekki séð byggða raunverulega lága þétta byggð undanfarna áratugi hér á landi?

Um miðja síðustu öld var byggt allnokkuð af sérbýlum fyrir fjölskyldur með meðaltekjur. Þetta voru hús sem voru um 100 fermetrar, stundum minni. Oftast ágæt hús sem fólki leið vel í og hafði efni á að byggja. Slík íbúðahús eru nánast ekki byggð lengur. Hinum efnaminni er vísað í sambýlishús og fá ekki annan kost að því er virðist. Er það vegna þess að markaðurinn er ekki fyrir hendi?  Né ég held ekki.

Er ekki ástæða til þess að endurvekja hugmyndina um lítil sérbýli fyrir fjölskyldufólk með miðlungstekjur?  Bjóða uppa á samkeppni um tilraunareiti um lága þétta íbúðabyggð,

Ég tek dæmi af litlu húsi í Flatey á Breiðafirði sem mynd er af neðst í færslunni. Húsið er hæð og portbyggt ris ásamt geymsluskút samtals rétt rúmir 100 fermetrar. Ég tek þetta sem dæmi um lítið hús sem getur mætt þörfum flestra.  Á efri hæð er hjónaherbergi og tvö lítil barnaherbergi auk fjölskylduherbergi. Á neðri hæð er myndarlegt baðherbergi, „vinnukonuherbergi“ (kammesi), eldhús, borðstofa og stofa. Á lóðinni sem er einungis um 200 fermetrar er svo útigeymsla með miðstöð hússins.

Myndirnar tvær efst í færlunni er frá Lundi í Svíþjóð og eru af micro húsi sem byggt er fyrir einstakling. Húsið er  netto 12 fermetrar að stærð. Að neðan eru svo hús sem eru innan við 24 fermetra. Annarsvegar frá Bandaríkjunum og hinsvegar frá Bretlandi.  Bæði húsin eru fjöldaframleidd. Viðskiptavinirnir nota þau ýmist sem sjálfstætt íbúðarhúsnæði eða sem viðbót, annex, við stærri aðalbyggingu, e.k. garðhýsi sem bætir upp aðalhúsið á margvíslengan hátt.

Sjá einnig færslu um „micro íbúðir“ : http://blog.dv.is/arkitektur/2013/07/04/micro-ibudir/

og færslu um smáhýsi sem byggja má í Svíþjóð án sérstakrar heimildar yfirvalda:

http://blog.dv.is/arkitektur/2010/08/18/%e2%80%9cleyfislausar%e2%80%9d-smabyggingar/

og að lokum færsla sem fjállar um landnotkun, háhýsi og lága þétta byggð.

http://blog.dv.is/arkitektur/2011/11/19/hahysi-eda-laga-thett-byggd/

 

L41home-compact-livingL41-modern-tiny-house5

 Að neðan eru tvær ljósmyndir af húsi í Mancehster  UK. Þetta er sérbýli fyrir einhleypan (um 30 m2) Myndirnar að ofan sýna samskonar hús sem eru fjöldaframleidd í USA.

 Screen-shot-2010-08-30-at-10_04_53

 

Screen-shot-2010-08-30-at-10_13_07

 Al neðan er ljósmynd af húsinu í Flatey sem greint er frá í færslunni.

196857_10150119400389230_708829229_6713642_3667886_n

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 8.7.2013 - 12:33 - 5 ummæli

Mercedes-Benz SF1

 mercedes-benz-sf1-final-concept-design-1

Bílar eru vissulega hluti af umhverfinu og hafa meiri áhrif á það en marga grunar. Útlit þeirra og litir skipta líka máli þegar talað er um staðarprýði.

Hér eru birtar myndir af nýjustu afurð Mercedes Benz. Þetta er hönnun eftir Steel Drake  sem endurvekur hér skörpu línurnar í bifreiðahönnun.

Allir muna blöðruskódann frá sjöunda áratugnum sem hafði þau áhrif að flestir bílar urðu blöðrulegir í útliti áratugum saman í kjölfarið.

Þessi gerð af bens heitir Mercedes-Benz SF1 og markar sennilega nýja nálgun í bílahönnun. Minnir mig nokkuð á svörtu hljóðfráu bandarísku orustuþotuna „F-117 Nighthawk“ sem er á neðstu myndinni.

mercedes-benz-sf1-final-concept-design-10

mercedes-benz-sf1-final-concept-design-11

 mercedes-benz-sf1-final-concept-design-5

 mercedes-benz-sf1-final-concept-design-7

 mercedes-benz-sf1-final-concept-design-14

toptenfighter10thmb

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn