Mánudagur 8.4.2013 - 13:11 - 6 ummæli

Myndlist á Hólmsheiði

index

Kristinn E. Hrafnsson myndlistarmaður hefur sent síðunni eftirfarandi pistil um samkeppnismál og stöðu listamanna í því samhengi. Þetta á erindi til allra sem hugsa eitthvað um þessi mál.  Á margan hátt eru arkitektar í svipaðri stöðu og hér er fjallað um.

BESTU SYNIR OG DÆTUR ÞJÓÐARINNAR – um samkeppnismál á Hólmsheiði.

Það var haft eftir Ögmyndi Jónassyni í hádegisfréttum RÚV 5. apríl sl. að hann sæi ekki ofsjónum yfir því að eitt prósent af áætluðum byggingarkostnaði færi í listskreytingar við nýtt fangelsi á Hólmsheiði, enda færu peningarnir „til bestu sona og dætra Íslands – góðra listamanna.“  Hann sá meira að segja ástæðu til að fagna því sérstaklega að farið væri að lögum um listskreytingar og opinberar framkvæmdir í þessu tilfelli.

Það ber vissulega aðfagna því ef farið er að lögum í þessu samhengi, en ég vil minna á að þetta fé er ekki ætlað í listamennina, heldur framkvæmdina – það eru ekki sömu vasarnir hjá hugmyndasmiðunum og verktökunum. Langstærstur hluti upphæðarinnar fer til annarra en listamanna, s.s. verktaka, efnissala og iðnaðarmanna. En hvað um það.

Ég sat í vikunni kynningarfund Framkvæmdasýslu ríkisins á samkeppni um þessi listaverk fyrir fangelsið. Í stuttu máli kom þar fram að upphæðin til framkvæmda er ekki á hreinu, enda háð útboðskostnaði við bygginguna sjálfa og kemur þ.a.l. líklega til með að lækka frá því sem auglýst er. Í öðru lagi kom fram að kostnaður við samkeppnina er dreginn frá framkvæmdafénu og í þriðja lagi að samanlagt verðlaunafé til listamanna sé ein milljón króna og að lágmarki 200 þús. á verðlaunaða tillögu. Sú upphæð er einnig dregin frá framkvæmdafénu. Niðurstaðan er því sú að heildarframlag til listaverka er að hámarki 22,5 milljónir og að öllum líkindum nokkru lægra. Af þessu fé er listamönnunum ætlað að reikna sér einhverja þóknun. Ef verkið og þóknunin til listamannsins reynist svo hærri en framkvæmdaféð (að afloknu útboði byggingarinnar) verður líklega að lækka höfundarþóknunina til listamannsins, enda er það eini kostnaðarliðurinn sem er verulega sveigjanlegur – og þá aðallega niður á við.

Það er vel til fundið að fangelsið og fangarnir á Hólmsheiði fái sín listaverk og það er því rétt að leita til listamanna um gerð þeirra. Það er hinsvegar ekki gert í þessu tilfelli. Samkeppnin er galopin fyrir hvern sem er og ekkert er greitt fyrir tillögugerðina. Tillögugerð að listaverki fyrir svona stofnun er ekki einfalt mál og því blasir við að þetta samkeppnisform hentar ekki – verkefnið er stórt, það er flókið og því fylgir mikil ábyrgð. Starfandi listamenn geta ekki með góðu móti tekið á sig svona stór verkefni án nokkurrar greiðslu. Þar á ofan er þessi samkeppni ekki unnin samkvæmt samkeppnisreglum sem myndlistarmenn hafa sett sér og öðrum og farið hefur verið eftir svo árum skiptir, enda er þar ekki boðið upp á galopnar samkeppnir.

Hér er unnið samkvæmt samkeppnisreglum Arkitektafélags Íslands sem Framkvæmdasýsla ríkisins hefur ákveðið að henti myndlistarmönnum. Samkeppnin um fangelsisbygginguna var hinsvegar uppspuni Framkvæmdasýslunnar og alls ekki eftir samkeppnisreglum Arkitektafélags Íslands. Það var opin samkeppni þar sem öllum var boðin þátttaka og mér er vel kunnug andstaða arkitekta við það samkeppnisform. Verðlaunafé í arkitektasamkeppninni var 10 millj. kr. sem skiptust á þrjá aðila og því má ætla að það hafi náð utan um kostnað við gerð þeirra tillagna.

Verðlaunaféð í myndlistarsamkeppninni fer hinsvegar ekki nálægt því að dekka kostnað við tillögugerð verðlaunahafa og aðrir fá að sjálfsögðu ekki neitt upp í framlagða vinnu. Hverjum þykir svona hringlandaháttur eðlilegur? Innanríkisráðherra? Er hugmyndin um bestu syni og dætur þjóðarinnar yngri en samkeppnislýsingin eða eiga listamenn ekkert betra skilið? Getur Framkvæmdasýsla ríkisins upplýst hversvegna hún kaus að víxla svona samkeppnisformum og um leið sagt okkur hvort það er einörð stefna stofnunarinnar að fara helst aldrei eftir vinnureglum þeirra sem hún leitar til?

Ég held að menn hafi misst af góðum tækifærum til að vinna þetta verkefni í heild á betri og skilmerkilegri hátt en hér er gert. Í upphafi hefði mátt gera kröfu um að arkitektar og myndlistarmenn stæðu saman að tillögugerðinni um fangelsið. Það er aðferð sem mjög hefur rutt sér til rúms og mér er vel kunnugt um að þannig er oft unnið að svona stórum verkefnum. Þá væri kostnaður við byggingu og listaverk ekki skilinn í sundur, heldur væri hvort hluti af hinu. Önnur samkeppnisform, s.s. þrepaskipt samkeppni eða boðs-/forvalssamkeppni hafa einnig reynst skilmerkilegri en sú sem var valin.

Ég frétti það á skotspónum að Listskreytingasjóður ríkisins hefði eindregið ráðlagt Framkvæmdasýslunni að fara í lokaða samkeppni með þetta verkefni, enda er það bæði stórt og byggingin var ekki fullhönnuð þegar málið var rætt á þeim vettvangi sl. haust. Á hvaða forsendum er því hafnað þegar ráðist er í framkvæmd upp á 2.5 milljarða, að frádregnu 1%, og nægur tími framundan til góðra verka? Þarna hefði verið eðlilegt að fara fyrr af stað og greiða ca. 10 listamönnum samtals um 4-5 milljónir í þóknun fyrir tillögugerð, svo ég slái fram hugmynd af einhverri ábyrgð. Í slíkri samkeppni er verðlaunum sleppt ef menn kjósa svo. Valnefnd hefði vel getað náð þar saman breiðum hópi eldri og yngri listamanna og útkoman hefði án alls vafa uppfyllt alla villtustu drauma stjórnmála- og embættismanna um góð listaverk, vandaða stjórnsýslu og hagsýni með almannafé.

En á málinu er líka hlið sem snýr að listamönnum. Það þarf varla að minna á jafn sjálfsagðan hlut og þann að samkeppnisreglurnar eru stefna myndlistarmanna í svona málum og þessvegna er það ótrúleg niðurstaða að samtök þeirra leyfi Framkvæmdasýslu ríkisins að hunsa eigin samkeppnisreglur og bæti svo gráu ofan á svart með því að skipafulltrúa í dómnefnd. Samband íslenskra myndlistarmanna hefur hér enn og aftur opinberað vanhæfni sína í að standa vörð um helstu hagsmunamál myndlistarmanna. Raunar held ég að sama gildi um Arkitektafélagið, þó ég ætli mér ekki að fjalla frekar um þá hlið málsins hér.

Almennt eru þessi mál í miklum ólestri og það er eins og menn átti sig ekki á því á hvaða vegferð þeir eru. Samkeppnir eru leið til að laða fram hugmyndir og hugmyndir eru verðmæti í sjálfu sér. Það er því ekki heiðarlegt af ríkisstofnun að ætlast til þess að bestu synir og dætur þjóðarinnar gjósi sínum hugmyndagosum þegar einhverjum stofnunum hentar án þess að fá svo mikið sem sápustykki fyrir. Listamenn lifa á hugmyndum sínum og þeir setja nöfn sín á þær og þeir lifa ekki á því að gefa þær frá sér, nema í óeiginlegri merkingu.

Fangelsi á að vera manneskjulegt og það á að vera ákveðin króna í mannréttindamálum þjóðarinnar. Það er mikilvægur staður þar sem saman koma ákveðnir angar samfélagsins sem annars eiga ekki samleið – dæmd lögleysa og menningarlegt umhverfi. Þannig staður á að endurspegla það besta úr samfélaginu og þar á að fara fram öflugt uppbyggingarstarf. Listin skiptir miklu máli í slíku umhverfi og það er þessvegna algerlega út úr korti að opinberir aðilar standi ekki betur að málum og leiti ekki beint til margnefndra sona og dætra þessa lands til að vinna listaverk á opinberum vettvangi, þó lokaður sé almenningi.

Kristinn E. Hrafnsson

Kristinn E. Hrafnsson hefur nokkrum sinnum áður ritað pistla á þennan vef. Ég vek athygli á tveim.

http://blog.dv.is/arkitektur/2012/11/29/frystigeymsla-og-myndlist-a-grandanum/

http://blog.dv.is/arkitektur/2012/12/27/horft-i-nordur/

Efst í færslunni er tölvumynd sem sýnir hluta af útliti fangelsisins á Hólmsheiði og að neðan úr líkamsræktarsal fanganna.

ImageHandlerCAVI2WVI

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 7.4.2013 - 10:32 - 4 ummæli

Pólarnir í Reykjavík

 

 

Pólarnir0003+

Árið 1916 var íbúafjöldi Reykjavíkur um 15.000 manns. Stöðugir fólksflutningar til Reykjavíkur úr sveitum leiddu til húdnæðisskorts. Húsnæðisekklan var svo mikil í Reykjavík á árum fyrri heimsstyrjaldar svo jaðraði við neyðarástand. Talið var að það vantaði húsnæði fyrir milli 800 og 1.000 manns á þessum tíma í Reykjavík. Til þess að mæta þessu ákvað bæjarstjórn að byggja bráðabirgðahúsnæði sem kallað var Pólarnir. 

Nánast ekkert var um nýbyggingar á þessum tíma, ekki hvað síst vegna stríðsins. Árið 1916 var ákveðið að reisa bráðabirgðahúsnæði fyrir bágstaddar fjölskyldur og var því fundinn staður syðst við Laufásveg sem þá náði mun lengra en nú. Þarna voru reistar tæplega 50 íbúðir af miklum vanefnum. T.a.m. var þar ekki rennandi vatn.

Athyglisvert var að húsin voru byggð utan við bæjinn við Laufásveg sem náði miklu lengra til austurs en nú eða alla leiðina að Öskjuhlíð. Þetta var 10-15 árum áður en svokallað Hrinbrautarskipulag var gert og staðsetning Landspítala og Aðaljárnbrautarstöð  við núverandi Hlemm var mörkuð..

Þótt Pólarnir hafi upphaflega verið hugsaðir sem bráðabirgðahúsnæði, gekk hægt að rífa þá og var búið í flestum húsanna vel fram á sjöunda áratuginn.

Ég man vel eftir Pólunum sem blöstu við þegar farið var út á Reykjavíkurflugvöll. Mér voru sagðar sögur af sérkennilegu fólki sem tengdist húsuunum. Má þar nefna Óla Maggadon, Lalla í Pólunum og svo auðvitað Sigurðar A. Magnússon sem ólst þarna upp og lýsir lífinu þarna í bók sinni „Undir Kalstjörnu“. Á þessum árum vöru líka margir skemmtilegir menn sem settu svip á bæjarlífið og margar sögur voru sagðar af, svo sem Haukur Pressari og Lási Kokkur.

Gaman er frá því að segja að þegar kóngurinn kom til íslands á sjötta áratugnum  voru Pólarnir málaðir, en bara þær hliðar sem kóngurinn gat augum litið.

Hjálagðar ljósmyndir,sem hvergi hafa birst áður eru teknar af Vigfúsi  Sigurgeirssyni, sennilega árið 1946. Sonur ljósmyndarans Gunnar G. Vigfússon, sem einnig er ljósmyndari heimilaði birtingu myndanna hér og er þakkað fyrir það.

Í eftirfarandi færslum er einnig að finna ljósmyndir úr ljósmyndasafni Vigfúsar sem birtar hafa verið á þessum vef með leyfi Gunnars G. Vigfússonar.

http://blog.dv.is/arkitektur/2012/05/09/fleiri-gamlar-myndir-fra-reykjavik/

http://blog.dv.is/arkitektur/wp-admin/post.php?post=6896&action=edit

http://blog.dv.is/arkitektur/2012/05/06/gamlar-myndir-ur-landakotsturni-fra-um-1930/

http://blog.dv.is/arkitektur/2012/01/04/kennarabustadir-vid-egilsgotu/

005_04_04_800[1]

Hér er svokallað Hringbrautarskipulag frá 1927. Skipulagið var gert 11 árum eftir að Pólarnir voru byggðir. Lóðin var um það bil þar skipulagðir járnbrautarteinar og Laufásvegur mætast neðst til hægri á myndinni.

 

Pólarnir0004+

 

Pólarnir0005+

Pólarnir0002+

Pólarnir0001

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 4.4.2013 - 08:25 - 23 ummæli

Hin eftirsóttu Mies verðlaun til Íslands?

dezeen_Harpa-Concert-and-Conference-Centre-by-Henning-Larsen-Architects-Batteriid-Architects-and-Olafur-Eliasson_8

Þau gleðilegu tíðindi hafa borist að í fyrsta sinn í sögunni er bygging á Íslandi komin í úrslit í vali á bestu byggingu Evrópu á s.l. ári. Tilnefnd voru 335 verk frá 37 Evrópulöndum.

Um er að ræða virtustu verðlaun af þessu tagi í álfunni og sennilega um víða veröld.

Þetta eru Mies van der Rohe verðlaunin sem eru, eins og gefur að skilja, mjög eftirsótt.

Hér að neðan er fjallað stuttlega um verkin fimm  sem hafa komist í úrslit árið 2013. Það vill svo til að ég þekki svoldið til þriggja verkanna. Eitt af umfjöllun og hin tvö hef ég sjálfur skoðað og lagt mitt persónulega mat á. Eftir því sem maður kynnir sér verkin fimm betur sýnist mér vinningslíkur Hörpu stöðugt aukast.

En í heildina  verð ég að segja að mér finnast verkin fimm ekki vera í þeim gæðaflokki sem ég átti von á í þessu vali. Valnefndin hefur að því er virðist verið nokkuð upptekin af orðspori höfundanna og að hluta verið að leita að frumlegum lausnum frekar en góðum arkitektúr í víðum skilningi þess orðs. Arkitektafyritækin sem að verkunum standa eru mjög öflug í sinni markaðssetningu sem án efa hefur haft áhryf.

Þarna er ég ekki að segja að Harpa og önnur verk sem í úrslit hafa komist séu ekki góður arkitektúr heldur að þau uppfylla tæplega þær væntingar sem ég tel hæfa vegsemdinni.

Meginatriðið er þó það að Harpa er komin í úrslit í þessu merkilega vali og því ber að fagna og vona það besta.

Ég óska öllum sem að verki hafa staðið til hamingju með að hafa náð svona langt. Fyrst í röðinni er auðvitað arkitektaeymið sem samanstóð af Henning Larsen í Danmörku, Batteríið arkitektar og Tryggvi Tryggvasyni arkitekt (AttArk) frá Íslandi. Næst ber að geta þáverandi verkkaupa, Portus,  sem lagði fram þessa lausn í lokuðu einkaframkvæmdarútboði. En Portus samanstóða að IAV, Landsbankanum og fasteignafélaginu Nýsir. (Landsbankinn og Nýsir urðu því miður gjaldþrota í Hruninu)

Í samvinnu við  hóp afreksmanna á sviði byggingarlistar, myndlistar og tónlistar vann Portus eins og áður er getið  einkaframkvæmdarútboð um bygginguna. Afreksmennirnir voru Teiknistofa Henning Larsen (sem þá var u.þ.b. að ljúka operunni í CPH), Ólafur Elíasson myndlistarmaður og Vladimir Askenazy hljómsveitarstjóri. Allt heimsfrægir aðilar.  HLT  þurfti á samstarfsaðia að halda hér á landi til aðstoðar við lausn verkefnisins og fengu Tryggva Tryggvason arkitekt (AttArk), sem þeir þekktu fyrir vegna starfa hans, í lið með sér  og  Batteríið arkitekta sem tóku að sér hönnunarstjórn og samskipti við byggingayfirvöld ef rétt er skilið.

Íslendingarnir lögðu allnokkuð til verksins ef ég skil rétt og er ástæða til að vera stoltur af þeirra framlagi og óska þeim sérstaklega til hamingju. Ég verð samt að segja að það virðist oft gleymast að geta Tryggva Tryggvasonar og teiknistofu hans þegar fjallað er um þetta glæsilega hús en það á vonandi eftir að breytast áður en til verðlaunaafhendingar kemur.

Tilkynnt verður um verðlaunin í næsta mánuði og þau afhennt formlega þann 6. júní í Barcelonapavillion Mies van der Rohe á Spáni.

Ítarlega má lesa um Hörpu í bækling sem THL gáfu út og má nálgast hér:

http://www.pagegangster.com/p/9cQKr/

Hér er umfjöllun ium Barcelonapavilloninn:

http://blog.dv.is/arkitektur/2009/12/09/mies-van-der-rohe/

ic02_nic-lehoux

Lesa má nánar um Hörpu á þessari slóð:

http://www.dezeen.com/2011/08/25/harpa-concert-and-conference-centre-reykjavik-by-henning-larsen-architects/#more-150017

dezeen_Superkilen-by-BIG-Topotek1-and-Superflex_5

dn02_superflex

Það er spennandi að koma í Superkilen við Nörrebrogade í Kaupmannahöfn. Það sem einkum einkennir staðinn er liturinn á göngufletinum. Auk hans er þarna að finna fjölbreytileg a skúlptúra og leiktæki. Spyrja má hvort ekki þurfi meira til svo verk nái í úrslit í keppni á borð við MvdR. Manni finnst að verkin þurfi að bera af og helst vísa veg til betri framtíðar. En því er ekki neitað að þetta er skemmtilegt.

» Superkilen, Copenhagen, Denmark, by BIG Bjarke Ingels Group; Topotek1; Superflex

pt12-fgsg

dzn_House-for-elderly-people-by-Aires-Mateus-Arquitectos-26

dzn_House-for-elderly-people-by-Aires-Mateus-Arquitectos-21

 

dzn_House-for-elderly-people-by-Aires-Mateus-Arquitectos-43

Hér er hús fyrir aldraða í Portúgal sem komist hefur í úrslit árið 2013. Húsið er alhvítt að innan og utan og myndast sérlega vel. Það er meira að segja hægt að halda því fram að það sé fallegt. Þetta gæti verið skemmtilegt hótel til stuttrar dvalar en ég verð að segja að ég vona að engin aldraður maður, nákomin mér, verði latin dvelja á svona stað.  Af grunnmyndinni má sjá að ekki er gert ráð fyrir félagslegum samskiptum og form og litir eru eins og um líkistuhönnun væri að ræða. Áreiti til upplýftingar er í lágmarki. Húsið er eins og biðstofa milli lífs og dauða. Það er eins og sé verið að hanna fyrir fólk sem er hvorki lifandi né dautt. Jafnvel þó húsið sé smart og trendí get ég ekki ímyndað mér að það geti þjónað hlutverki sínu þannig að fólki líði vel þarna. Þess vegna má jafnvel halda því fram að þetta sé ekki góður arkitektúr. Er þetta ekki meira svona „arkitektúr fyrir arkitekta“?

» House for Elderly People, Alcácer do Sal, Portugal, by Aires Mateus Arquitectos

sp17-david-frank

Parasól í Sevilla á spáni. Um hana má fræðast á eftirfarandi slóð:

» Metropol Parasol, Seville, Spain, by J. Mayer H.

be01_petra-decouttere

Um verkið má nánar lesa hér:

http://www.robbrechtendaem.com/projects/urban/market-hall

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 2.4.2013 - 10:00 - 4 ummæli

Stefán Thors arkitekt, ráðuneytisstjóri

 bilde

Stefáni Thors arkitekt  hefur verið boðin staða ráðuneytisstjóra umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. 

Þetta er auðvitað mikil viðurkenning á fyrri störfum Stefáns sem forstjóra skipulagstofnunnar undanfarin  27 ár.  (áður skipulagsstjóri ríkisins) Það er einnig fengur fyrir málaflokkinn að  ráðuneytinu hafi  tekist að ráða reyndan arkitekt og stjórnanda til starfsins.

Stefán lauk meistaraprófi frá Konunglegu Dönsku Akademíunni í Kaupmannahöfn árið 1976 úr skipulagsdeild. Stefán starfaði að skipulagsmálum á ýmsum stöðum og á eigin stofu þar til hann var skipaður skipulagsstjóri ríkisins árið 1985. Maki Stefáns er Guðrún Gunnarsdóttir myndlistarmaður og eiga þau tvo syni.

Það er ekki aðeins mikilvægt fyrir stjórnkerfið að nú setjist arkitekt í stól ráðuneytisstjóra heldur fyrir alla arkitektastéttina, en ráðuneytið fer með verksvið stéttarinnar.

Ég óska Stefáni Thors til hamingju með vegsemdina og vona að með aðkomu hans þar aukist skilningur í stjórnkerfinu á verklagi og starfsháttum arkilekta.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 26.3.2013 - 16:23 - 11 ummæli

Skrúður fær virt alþjóðleg verðlaun fyrir garðlist.

skrudurB19

Garðurinn Skrúður hlýtur „International Carlo Scarpa Prize for Gardens“ 2013

Garðurinn Skrúður að Núpi í Dýrafirði hefur hlotið alþjóðleg verðlaun „Premio Internazionale Carlo Scarpa per il Giardino“ eða „Alþjóðaverðlaun Carlo Scarpa fyrir garða“.   Tilkynnt var um verðlaunin á blaðamannafundi í morgun  í Mílano á Ítalíu en þau verða afhent við hátíðlega athöfn á árlegri hátíð í maí næstkomandi í Treviso á Ítalíu.   

Í tilkynninu dómnefndar til formanns Skrúðsnefndar Brynjólfs Jónssonar segir meðal annars að þau sé veitt „ þessum litla jurtagarði sem er hannaður eftir reglum rúmfræðinnar og staðsettur í mikilfenglegu landslagi Vestfjarða, og komið á fót í nágrenni unglingaskólans á Núpi á árunum 1907-1909“.  

Verðlaunin eru veitt árlega til að heiðra menningarlandslag þar sem fara saman mikilfengleg náttúra og mikil menningarverðmæti með mikið fræðslugildi.  Staðir sem hafa hlotið viðurkenningu á liðnu árum eru flestir í Evrópu en einnig í Afríku og Austurlöndum nær.  Þar eru meðal annars:  Bosco di Sant’Antonio, 2012  Ítalíu,  Taneka Beri, Benin 2011,  Dura Europos, Sýrland 2010, Otaniemi skógarkapellan í Finnlandi árið 2009 ásamt fleiri stöðum.

Á heimasíðu stofnunarinnar  www.fbsr.it   kemur fram að markmið með viðurkenningunni sé að vekja athygli á mikilvægi manngerðs umhverfis  “að auka vitund og aðgerðir við umhirðu og viðhald lifandi menningarlandslags“. 

Það var um mánaðamót júní – júlí sl. sumar að Fondazione Benetton Studi Ricerche  hafði samband við þrjá landslagsarkitekta, Reyni Vilhjálmsson, Einar E. Sæmundsen og Þráinn Hauksson til að leita upplýsinga um garðsögu á Íslandi. Eins og nafn stofnunarinnar bendir til þá tengist hún Ítalska  alþjóðafyrirtækinu Benetton en stofnunin er með höfuðstöðvar í Treviso sem er um 30 km frá Feneyjum.  

Stofnunin er rekið sem sjálfstætt menningar og fræðslusetur á ýmsum sviðum.  Meðal annars   samanstendur hópurinn  sem kemur að verðlaunum Carlo Scarpa  af sérfræðingum og prófessorum í arkitektúr, byggingarlistasögu og garðsögu frá Ítalíu, Frakklandi, Spáni og víðar að.  Dómnefndin hefur síðan ráðgjafa á sínum vegum sem aðstoðar við val á viðfangsefnum. Það var einn ráðgjafi dómnefndar Tom Simon frá Finnlandi sem leitaði aðstoðar hjá landslagsarkitektunum sem hafa mikla þekkingu á garðsögu á Íslandi.  Dómnefnind og ráðgjafar hennar  komu til Íslands í lok ágúst og skipulögðu Einar, Reynir og Þráinn 10 dag ferð um Ísland með það að markmiði að kynnast sögufrægum görðum.

Einnig var skipulögð heilsdags kynningarráðstefna fyrir hópinn um íslenskar aðstæður, menningu, náttúru og byggingasögu bæði húsakost og garða. Lögð var áhersla á fimm garða sem undirbúningshópurinn taldi helst koma til greina. Taldir í tímaröð Alþingisgarðinn 1894, Skrúð í Dyrafirði 1909, Lystigarð Akureyrar 1912, Hallargarðinn við Tjörnina 1955 og Borgargarðinn í Laugardal 1990. Eins og lesa má um á fróðlegum heimasíðum stofnunarinnar þá er áhugasviðið breitt og lagði hópurinn sem kom alls 9 manns áherslu á að kynna sér sem best land og menningu meðan á dvölinni stóð. Fyrstu dagana dvöldu þeir í Reykjavík og fóru um Suðurland síðan flugu þau norður á Akureyrir og hittu forráðamenn bæjarins í Lystigarðinum og héldu síðan akandi í rútu vestur um að Núpi í Dýrafirði þar sem umsjónarnefnd Skrúðs annaðist móttökur og þaðan suður um Snæfellsnes til Reykjavíkur. Með þeim í för voru leiðsögumenn og sem þekktu vel til lands og þjóðar.  Hópurinn hélt síðan af landi brott sólarhring áður en norðanáhlaupið skall á í byrjun september fyrir norðan sem olli miklum búsifjum á stóru landsvæði.

Garðarnir við Alþingishúsið,  Skrúður í Dýrafirði og Lystigarður Akureyrar endurspegla tíma mikilla umbrota í Íslensku þjóðfélagi.  Garðarnir eru í anda Aldamótakynslóðarinnar sem trúði og upplifði nýtt vor með nýrri öld. Sjálfstæðisvakningu, tiltrú á að nýir tímar á nýrri öld færði okkur tækifæri, ennfremur trúnna á að við gætum lært og við gætum sjálf mótað okkar umhverfi.  Garðarnir  þrír mynda  því eina hugmyndafræðilega og sögulega heild. Þeir  eru gerðir á 18 ára tímabil frá 1894-1912 og eiga þessa sameiginlegu sögu.

Alþingisgarðurinn mótaðist af reynslu þingmanna sem sátu á Alþingi sumarið 1893 og höfðu reynt ýmislegt fyrir sér í ræktun og framkvæmdum.  Skólagarðurinn Skrúður er grettistak einstaklings og síðar hjóna sem trúðu á mikilvægi þess að breiða út þekkingu á ræktun við uppeldi barna og unglinga.  Og við mótun Lystigarðsins voru það konur bæjarins sem sameinuðust í átaki til að fegra og bæta umhverfi bæjarbúa.

Fyrir þá sem hafa lengi unnið við mótun umhverfis til gagns og gamans við erfið skilyrði  þá er þessi alþjóðlega viðurkenning eins og vítamínsprauta.  Verðlaunin setja umhverfi okkar í sérstakt samhengi og er um leið viðurkenning á því óeigingjarna starfi sem brautryðjendur og hugsjónarmenn framkvæmdu af einstakri eljusemi og áhuga.  Þessi umfjöllun um Skrúð mun varpa ljósi inn í þennan afkima sem er saga skipulagðara  skrúðgarða á Íslandi og að jafnframt verði horft til stærra samhengis í sögunni, bæði byggingarsögu sem og tengingar við hina viðurkenndu söguskýringu.

Viðurkenninguna fyrir  Skrúð má því líka túlka sem heiður við allt það hugsjónafólk sem hófu að móta umhverfi okkar um þar síðustu aldamót sem varð upphaf að mikilli vakningu síðar á tuttugustuöldinni. Fagleg vinnubrögð og nærgætið viðhald hefur varðveitt garðanna svo vel að þeir lifa með okkur í dag sem vottur um stórhug og aldamótakynslóðarinnar. Það er einmitt eitt af megin markmiðum stofnunarinnar sem veitir verðlaunin.

Einar E. Sæmundsen landslagsarkitekt FILA

 

Efst í færslunni er ljósmynd sem tekin er árið 1914 af börnum við gosbrunninn í Skrúð. Sigtryggur er lengst til hægri,  þá ungur maður. Fjallað er lítillega um Scarpa í næstu færslu á undan.

IMGP9208 lett

 Að ofan er hópurinn  sem veitir „Premio Internazionale Carlo Scarpa per il Giardino“ ásamt fulltrúum Skrúðsnefndar og Ísafjarðarbæjar á staðnum.

í stóru landslagilett

 05sz-fbsrskrudur-acqua-muro-contesto_1271_grande_1364225894

gosbrunnur 2009lett2

grunnmynd Sigtryggs

Teikning af garðinum frá hendi Sigtryggs. Teikningin var gerð árið 1909. Ef tvísmellt er á hana stækkar hún.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 20.3.2013 - 00:12 - 13 ummæli

Áhrif internetsins á byggingarlistina.

 

img_0495-768x1024

Fyrir um 50 árum voru það snjallir ljósmyndarar sem gerðu hús og arkitekta fræga og sígilda.

Nú er það internetið.

Ég sló upp einum af sterkustu arkitektum Evrópu  á árunum um 1970 á leitarvél Google. Ég stimplaði inn  arkitektinn og prófessorinn  á Konunglegu Akademíunni í Kaupmannahöfn inn á Google,: „Arkitekt Viggo Möller Jensen“ (1907-2003).

Hann kom upp aðeins 67 sinnum á leitarvélinni. Já aðeins 67 sinnum, enda starfaði hann fyrir netvæðinguna.

Viggo Möller Jensen var “trendmaker” varðandi skipulag og lága þétta byggð í Evrópu. Hann var tvímælalaust einnhöfunda hugmyndafræði „Vandkunsten” sem er vel þekkt á okkar dögum. Hann starfaði í hópum og vildi ekki vera stjarna. Hann nefndi stofu sína „Fællestegnestuen“ öfugt við samtímamenn hans sem nefdu stofurnar eftir sjálfum sér; Henning Larsen, Jörn Utzon, Jöregen Bo o.s.frv.

Margir framúrskarandi íslenskir arkitektar lærðu hjá Viggó. Ég nefni Knud Jeppesen, Guðrúnu Jónsdóttur, Stefán Jónsson, Stefán Örn Stefánsson, Halldór Guðmundsson og Finn Björgvinsson. Guðrún Ingvarsdóttir arkitekt nam undir handleiðslu sporgöngumanna Viggós, þeirra Vandkunstensmanna.

Þegar ég var á arkitektaskóla opnaði maður ekki tímarit öðruvísi en verka Viggós var getið. Skipti þá engu hvort um var að ræða Baumeister, Architektural Review, L´architecture d´au  jour d´hui, svo maður tali nú ekki um öll skandinavísku tímaritin.

Svo sló ég upp einhverjum minniháttar töppum í byggingarlistinni hér á landi sem starfað hafa um 5-6 ár  og þeirra var getið um 700 sinnum á leitarvél Google! Og það þrátt fyrir að áhrif þeirra séu nánast engin ef þau eru skoðuð í samhengi við Viggó. Þeir eru engir „trendmakers“ frekar virkir „trendfollowers“

Þetta sýnir hvernig kunnáttufólk um leitarvélar og markaðssetningar á netinu geta vakið á sér athygli. Kannski svipað og snillingar ljósmyndunar á fyrrihluta síðustu aldar. Og þrátt fyrir meðalmennsku í byggingarlistinni hef ég heyrt fólk mæra verk þessarra netverja. Jafnvel þannig að fólk trúir því að góður arkitektúr sé þarna á ferðinni.

Ég gerði það að gamni mínu að slá upp Carlos Scarpa (1906-1978) sem hafiði virkileg áhrif á sínum tíma. Hann er ekki sérlega áberandi á netinu þó svo að hann toppi íslensku ofurhugana.

Carlo Scarpa var fæddur í Feneyjum á Ítalíu og óst þar upp frá þrettán ára aldri þar sem hann stúderaði arkitektúr við Feneysku akademíuna fyrir hinar fögru listir. Hann hafði mikil áhrif á sínum tíma og sést þess glögg merki hjá Mario Botta og mörgum fleirum.

Hann bar sérstaka virðingu fyrir hinni sögulegu vídd eins og sjá má á einu helsta verki hans  Museo di Castelvecchio og víðar. ( sjá mynd efst í færslunni) En þar bætir hann hinu nýja við hið gamla án þess að láta handverk og hönnun gömlu mannanna hverfa. Hann lætur það sem fyrir er stjórna ferðinni eins og við ættum að gera í t.a.m. Vatnsmýrinni og miðborg Reykjavíkur.

Nálgun hans á erindi við nútímann þar sem menn hafa tilhneigingu til þess að rífa allt og byggja nýtt í stað þess að þyrma hinu gamla. Þ.e.a.s. að byggja við og endurnýja með nýbyggingum á forsendum þess gamla. Hinir svokölluðu uppbyggingarsinnar vilja rífa það gamla og byggja alveg nýtt í þess stað ef ég skil þá rétt.

Á síðari árum hefur landslagsarkitektúr Scarpa haft meiri áhrif en byggingalist hans. Garðar hans og útirými eru lofuð fyrir meðhöndlun hans á vatni, rýmum og gróðri. Hönnuðurinn Michael Sieger.(Siegerdesign) viðurkennir fúslega að hönnun hans á búnaði baðherbergja eigi rætur sínar að rekja til landslagslistar Carlo Scarpa.

Vonandi þarf maður ekki að óttast að helstu áhrifamenn byggingarlistarinnar gleymist þó þeir hafi ekki verið netvæddir á sínu blómaskeiði.

Myndin efst er af hluta Museo di Castelvecchio og næsta mynd fyrir neðan er fríhendistekning frá hendi Scarpa.

CARLO_SCARPA

Að neðan eru myndir af Brion kirkjugarðinum í San Vito dÁltivole

2835127232_b9b83524a6

36789033_a09fb6ecac

Að neðan eru tvær myndir af verkum hönnuðarins Michael Sieger.(Siegerdesign) sem viðurkennir fúslega að hönnun hans eigi rætur sínar að rekja til landslagslistar Carlo Scarpa.

dzn_Deque-by-Sieger-Design-for-Dornbracht_3

dzn_Deque-by-Sieger-Design-for-Dornbracht_1

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 18.3.2013 - 11:47 - 33 ummæli

Aukin landþörf í þéttbýli

005_04_04_800

Síðunni hefur borist eftirfarandi grein frá Sigurði Thoroddsen arkitekt. Sigurður er einn reyndasti skipulagsmaður íslendinga. Hann vann nánast alla starfsæfi sína hjá Skipulagi rikisins (nú Skipulagsstofnun),  mestan hluta sem aðstoðarskipulagsstjóri. Hér skrifar hann athyglisverða grein um þróun skipulagsmála í Reykjavík frá 1927 til dags dató. Hann talar um þétta og dreifða byggð. Þetta er fróðleg grein þar sem minnt er á ýmislegt sem varpar ljósi á þróunina undanfarna áratugi í tiltölulega stuttu máli. Myndin efst í færslunni sýnir skipulag borgarinnar frá 1927.

—–

Umræður hafa verið um þéttleika byggðar í Reykjavík og víða annarsstaðar á landinu og telja margir að  þétt byggð sé  eftirsóknarvert fyrirkomulag og  tefla fram ýmsum rökum. Helstu kostir séu styttri vegalengdir milli íbúðar og vinnustaðar  og þar með ódýrara vegakerfi.  Auk þess sé  þétt byggð  manneskjulegri, meira aðlaðandi og hvetji til aukinna  samskipta milli manna. Önnur rök hafa líka verið sett fram s.s. hagstæðari  almenningssamgöngur,  skjólmyndun og betri  þjónusta af ýmsu tagi.

Aðrir telja að hæfileg blöndun  dreifðrar og þéttrar  byggðar sé eftirsóknarvert   og kynna ýmis rök. Helstu kostir séu að þarfir fólks séu ólíkar   og að ekki séu allir steyptir í sama mótið.  Sumir óski að búa mjög þétt og aðrir ekki.   Gera þurfi ráð fyrir nýjum og breyttum aðstæðum í þjóðfélaginu og tækniframförum.  Hér á eftir mun ég almennt fjalla  um aukna landþörf  og þróun byggðar sem verið  hefur í  Reykjavík og  öðrum sveitarfélögum.

Forsagan

Fyrsta heildarskipulag Reykjavíkur, Skipulagsuppdráttur af  Reykjavík innan Hringbrautar,  var samþykkt 15. desember 1927.  Það  var unnið af samvinnunefnd um skipulagsmál  sem í voru fulltrúar frá skipulagsnefnd ríkisins og bæjarstjórn  Reykjavíkur.  Fulltrúi skipulagsnefndar í samvinnunefndinni var Guðjón Samúelsson, og er hann talinn aðalhöfundur  skipulagsins.  Í  skipulaginu,  er   gert ráð fyrir  íbúðarbyggð í formi svokallaðrar randbyggðar 3-4 hæða, þannig  að  hús  séu sambyggð meðfram  hliðum reitsins. Einnig var  gert ráð fyrir stakstæðum íbúðarhúsum. Við höfnina  var lagt til að hafa  fiskhús,  vöruskemmur og athafnasvæði fyrir  útgerð.   Þessi skipulagsáætlun  var  barn síns tíma og  tók mjög mið af  þeim áætlunum sem  unnar voru í Vestur Evrópu á þessum tíma.  Vegna deilna hlaut  skipulagsuppdrátturinn   ekki formlega staðfestingu ráðherra en engu að síður var farið  eftir honum  næstu árin.  Sú byggð sem samkvæmt honum reis  myndi  í dag teljast vera tiltölulega þétt. 

Næstu byggingaráfangar eftir að svæðin samkv. skipulaginu  frá 1927 voru fullbyggð  eru:  Norðurmýri austan Snorrabrautar, Melarnir í Vesturbænum,  Langholtshverfi og  síðar reis  byggð i Árbæ,  Breiðholti, Grafarvogi  og ýmsum  Austursvæðum  n.t.t. Selási , Grafarholti og Norðlingaholti.    Sammerkt með síðari uppbyggingu í Reykjavík  þ.e. austan Snorrabrautar er að byggðin hefur smám saman orðið dreifðari auk þess sem gerð hafa verið stór útivistarsvæði, s.s. í Laugardal,,  Fossvogsdal og Elliðaárdal.  Hliðstæð þróun varð í Hafnarfirði og síðar  í öðrum sveitarfélögum  á Höfuðborgarsvæðinu.

Fyrsta Aðalskipulagið og ný hugtök   

Fyrsta hefðbundna aðalskipulagið í landinu var  Aðalskipulag Reykjavíkur  1962-1983, og var það staðfest  1967. Það var  unnið af dönskum sérfræðingum, þeim  PeterBredsdorff  arkitekt/prófessor og Anders Nyvig umferðarverkfræðingi. Skipulagið  olli straumhvörfum í meðferð skipulagsmála í landinu.  Í aðalskipulaginu er funktionalisma í fyrsta sinn  kerfisbundið  beitt við skipulagsgerð, þ.e að hvert byggðahverfi fékk  sitt  afmarkaða og skilgreinda hlutverk. Ennfremur var  flokkun gatna innleidd, en það er skipting gatnakerfisins  eftir hlutverki og umferðarþunga.  Þessi skipulagsáætlun byggðist  á því  að bíllinn hefði tilekið hlutverk. Árið 1964 voru skipulagslög endurskoðuð og hugtökin svæðis- aðal- og deiliskipulag innleidd. Síðan hefur í aðalatriðum verið stuðst við  þessa  hugmyndafræði og gefist vel.

Aðalskipulagsáætlunin frá 1967  hefur verið endurskoðuð fjórum   sinnum  eða Aðalskipulag  Reykjavíkur 1984-2004  staðfest 1988, Aðalskipulag Reykjavíkur  1990-2010 staðfest  1992, Aðalskipulag Reykjavíkur  1996-2016 staðfest  1997 og Aðalskipulag Reykjavíkur   2001-2024  staðfest 2002. En í síðastnefnda aðalskipulaginu er að hluta gert ráð fyrir blandaðri byggð atvinnu og íbúða.  Allar framangreindar skipulagsáætlanir eiga það hinsvegar sammerkt að byggjast að verulegu leyti á hinu upphaflega  Aðalskipulagi  Reykjavíkur  frá 1967.

Nú er í undirbúningi  endurskoðun  Aðalskipulags Reykjavíkur sem gilda mun  fyrir skipulagstímabilið  2010 til 2030. Í þessu skipulagi er fyrst og fremst gert ráð fyrir þéttingu núverandibyggðasvæða og skilgreind sérstök þéttingarsvæði. Ekki er gert ráð fyrir nýjum hverfum utan núverandi  byggðar, en þess í stað  lögð  áhersla á sem mesta blöndun íbúðar- og atvinnusvæða innan byggðarinnar. Þetta er gert, eins og segir í texta,  til að stuðla að sjálfbærri þróun borgarumhverfisins. Lagt er til að almenningssamgöngur verði bættar og að  byggðar verði 14.500 íbúðir á skipulagstímabilinu,    aðallega í fjölbýlishúsum  og að  um 2500 íbúðir verði reistar miðsvæðis á næstu 3- 5 árum. Markmiðið er  að leggja sérstaka áherslu á leiguíbúðir með aðkomu Borgarsjóðs  og að  draga sem mest úr notkun einkabílsins. Væntanlega verða engin  bílastæði, enda það heimilt samkv. skipulagslögum. 

Þróun síðustu áratuga

Á undanförnum árum  hafa orðið  miklar breytingar á byggðamynstri í átt til dreifðari byggðar.  Ástæður fyrir þessu hafa lengi verið mönnum ljósar, en þær eru fyrst og fremst aukin  velmegun fólks,  sérstaklega  eftir  loksíðari heimstyrjaldarinnar. En bættur  efnahagur  hafði   í för með sér að fjölskyldur gátu  búið  í stærra húsnæði, eignast bíl  og   valið sér búsetuform og staðsetningu  eftir óskum hvers og eins. Þannig að landþörf í þéttbýli hefur  nokkurn veginn haldist í hendur við efnahag   þjóðarinnar.  Tækni á ýmsum sviðum hefur fleygt fram og heimilistæki ýmiskonar tekin í notkun,  sem hafa  auðveldað fólki lífið. Þetta er ekki  séríslenskt fyrirbrigði, því hliðstæð  þróun hefur verið í öllum hinum vestræna heimi.

Hin aukna  bílaeign gerði fólki  kleift að sækja  vinnu, þjónustu og frítímaiðju  úr  meiri fjarlægð en áður. Einkabíllinn  gerðifólki mögulegt  að fara hvert sem var,  á hvaða tíma sem hentaði.  Þetta hefur verið  greinileg þróun á Höfuðborgarsvæðinu,  þ.e.  að fólk sækir nú vinnu  og þjónustu í allt að 10-20 km fjarlægð frá búsetustað.  Dæmi eru um  enn meiri fjarlægðir s.s.  frá  sveitarfélögum  utan Höfuðborgarsvæðisins.

Skoðanakannanir hafa leitt í ljós  að mikill meirihluti fólks  vill búa í sérbýli,  ef það á annað borð  hefur efni á því. Fólk vill  hafa sér lóð fyrir sig  og aðgang að opnum svæðum í næsta nágrenni.   Hinsvegar er eðlilegt að verslunar-  og þjónustukjarnar séu þéttbyggðir  til hægðarauka fyrir viðskiptavini.  Því er ekki að neita að  í Reykjavík  og öðrum þéttbýlistöðum vilja sumir fremur  búa  í miðbæjarkjörnum vegna nálægðar við þjónustu,  en gera jafnframt athugasemdir við að þar sé of mikið af fólki með tilheyrandi truflun, einkum og sérílagi um nætur og  helgar. Þetta fólk vill m.ö.o. búa í göngufæri við þjónustuna en dreymir jafnframt um kyrrðina og náttúruna sem fylgir dreifðri   byggð.

En víkjum aftur að ástæðum þess að byggð hefur orðið dreifðari þ.e. að landþörf  hefur aukist. Fyrst ber að nefna að með bættum efnahag hafa íbúðir stækkað,  og fjöldi íbúa á íbúð dregist saman, eða að íbúðaflötur og hvern íbúa hefur aukist.  Þetta hefur haft í för með sér að fjöldi íbúða hefur vaxið miðað við sama íbúafjölda, þ.e. að landþörf á íbúa hefur aukist.  Til einföldunar hefur meðalfjölskyldustærð minnkað  þ.e. að fjölskyldur eiga nú   færri börn en áður, auk þess sem fleiri einstæðir búa í hverri íbúð. Ennfremur flytur unga fólkið  í auknum máli að heiman,  vegna  möguleika á  að afla sér tekna, og  margir sem eru í framhaldsnámi búa í sérstökum námsmannaíbúðum. Almenn menntun,  ekki síst kvenna,  hefur aukist, þannig að atvinnuþátttaka ernú  meiri. 

Aldraðir búa  yfirleitt ekki hjá börnum  sínum eins og áður tíðkaðist,  og hafa fjölmörg heimili fyrir þá  verið byggð. Ennfremur er  heilsufar eldri borgara betra,  þannig að margir kjósa að búa lengur  í eigin  húsnæði,  en þá er yfirleitt um 1-2 íbúa á íbúð að ræða. Allt hefur þetta áhrif á þann veg að landrýmisþörf  hefur aukist.

Meðal nýtingarhlutfall,  sem er hlutfallið  milli  flatarmáls bygginga og lóðaflatarmáls hefur dregist saman, það er  að lóðir hafa stækkað á hverja flatarmálseiningu íbúða.  Íbúðir eru  nú  öðruvísi hannaðar,  öll herbergi stærri og tæknin allt önnur. Ýmsar þjónustustofnanir á vegum ríkis og sveitarfélaga eru í og við íbúðarhverfi, s.s.leikskólar, barnaheimili,  grunnskóla, framhaldsskólar og sjúkrastofnanir  og þurfa lóðir þeirra að vera af tiltekinni stærð til leiks og ýmissa athafna. Allt kallar þetta á aukið  landsvæði. Þessi aukna landþörf á íbúa hefurekki einungis  komið fram í Reykjavík heldur einnig í öllum  öðrum  sveitarfélögum.

Fram hefur komið að bílaeign landsmanna hefur margfaldast,  eða  frá því að vera  122 bílar á hverja1000 íbúa árið 1960 í að vera um 760 bílar á hverja 1000 íbúa árið 2012.  Frá 1960 til þessa dags hefur bílaeign landsmanna  rúmlega sex faldast  á hverja 1000 íbúa.  Til fróðleiksmá geta  þess getið að árið 1960 voru landsmenn 176.000, en eru nú  320 þúsund eða tæplega tvöföldun.

Þessi stóraukna bílaeign hefur algjörlega breytt samskiptum manna,  þ.e varðar flutning á fólki,  vörum og þjónustu.Bylting hefur orðið í ferðafrelsi og hreyfanleika almennings og einkabíllinn  er orðinn eins hvert annað heimilistæki sem fólk vill og getur ekki verið  án. Umferðarkerfi bæði utan þéttbýlis og innan hefur tekið algjörum stakkaskiptum.  Varðandi bílastæðin var aðalreglan sú  að lóðarhafar voru  skyldugir  að gera ráð fyrir tilteknum  fjölda bílastæða  á  eigin lóð.   Nú hefur skipulagslögum illu heilli verið breytt á þann veg  að  mögulegt er  að byggja hús og/eða heilu hverfin án bílastæða ef sveitarstjórn ákveður það.

Bent hefur verið á að bílar mengi, en á síðustu árum hafa orðið  stórstígar framfarir í átt til sparneytnari og  umhverfisvænni bíla, og hafa yfirvöld hvatt til kaupa á slíkum bílum  með lækkun gjalda.  Vonandi sjáum við fram á það að innan skamms verði komnir  á markað umhverfisvænir bílar á hagstæðu verði,  sem nýta innlenda orku s.s. rafmagn, metan eða vetni. Slíkir bílar þurfa að lágmarki að komast 500 km á einni hleðslu og áfylling ekki taka meira en 5 mínútur.  

Almenningssamgöngur hafa af augljósum ástæðum lotið í lægra haldi  fyrir einkabílnum og munu  ekki, miðað  við óbreyttar aðstæður,  geta keppt við hann. Almenningsvagnakerfið getur ekki veitt  þau þægindi sem einkabíllinn veitir, og á þetta sérílagi við á Íslandi þar sem allra veðra er von. 

Eins og rakið  hefur verið  hefur byggð í þéttbýli  orðið dreifðari og eru áhrifavaldar fyrst og fremst efnahagslegs og félagslegs eðlis. Við búum í gjörbreyttu þjóðfélagi  og valkostir til búsetu margfalt meiri. Miklar framfarir og umbætur hafa verið á sviði samgangna og einkabíllinn orðinn almenningseign. Vegna bættra samgangna er nú litið á  Höfuðborgarsvæðið,  Suðurnes, Suðurland  og Vesturland sem eitt markaðsvæði. Lóðaframboð til úthlutunar hjá sveitarfélögum hefur stóraukist, þannig að fólk hefur úr miklu fleiri kostum að velja. Málið er að sveitarfélögin eru í innbyrðis samkeppni um fólkið og þá þurfa þau hvert um sig að hafa sem fjölbreytilegastar tegundir lóða til úthlutunar, s.s. einbýlishúsalóðir, raðhúsalóðir  og fjölbýlishúsalóðir.

Þétting byggðar

Skipulagsyfirvöld í Reykjavík boða nú breytta  stefnu í tillögu að  Aðalskipulagi  Reykjavíkur 2010-2030,  á þann veg aðþau hyggjast  þétta  núverandi byggð,   og blanda saman  í auknum mæli íbúðarbyggð og atvinnustarfsemi. Hið réttaætti að vera  að skipulagsyfirvöld í Reykjavík hafi hyggju að  bjóða framlóðir þar sem gert sé  ráð fyrir framangreindri þéttingu og samblöndun. Málið er að sveitarfélög bjóða fram tiltekna vöru eða  þjónustu, þ.e. lóðir,   en byggja ekki neitt sjálf   nema götur, lagnir og stofnanir,  enáeinstökum lóðum  byggja  einstaklingar og fyrirtæki sem hafa fengið lóðir úthlutaðar eftir auglýsingu.

Reykjavíkurborg þéttir ekkibyggð sjálf, eins og fram hefur  komið, og ef enginn sækir um lóð verður ekkert byggt. Almenningi erí sjálfsvald sett hvort hann  sækir um lóð í Reykjavík eða  öðru sveitarfélagi. Við búum sem betur  fervið frjálst  markaðskerfi, þannig   að  þeir sem hafa hug á að byggja,  geta sótt um   lóðir í því sveitarfélagi sem þeim  hentar, allt eftir efnum og aðstæðum.  Enginn er skyldugur að byggja eða búa í tilteknu sveitarfélagi og ef  viðkomandi bæjarfélag  þróast yfir í að vera spennitreyja um athafnir fólks, flytur það einfaldlega annað. 

Búseta í nánd við vinnustað

Kynntar  hafa verið hugmyndir  í tilteknum sveitarfélögum að blanda saman íbúðum og vinnustöðum í nýjum og/eða þegar byggðum hverfum  en ekki  tekist sem skyldi. Dæmi um slíkt eru:  Norðlingaholt og Úlfarsfellshverfi í Reykjavík.  Ennfremur við Auðbrekku í Kópavogi og miðbæ Garðabæjar. Málið er að  slík samblöndun  hentar í mörgum tilfellum ekki vel  þar sem þarfirnar eru ólíkar. Atvinnustarfsemi þarf tiltekið rými til vaxtar og henni getur fylgt hávaði og önnur mengun, en  íbúðarbyggð hefur aðrar þarfir.   

Sérfræðingarnir telja að fólk vilji fyrst og fremst búa í grennd við sinn vinnustað. Þetta ermisskilningur, því það er miklu fleiri og flóknari atriði sem skipta máli þegar fólk velur sér búsetu.  Kjarnafjölskyldan  samanstendur af 3-4 persónum eða foreldrum sem vinna bæði  úti, yfirleitt á sinn hvorum staðnum og börnin 1-2  eru í sinn hvorum skólanum, þannig að fjölskyldan þarf í það minnsta að faraá 3-4 staði á morgnana og  kvöldin. Of langt yrði að telja upp alla  þá þætti sem skipta máli þegar fólk velur sér stað til búsetu,  en nefna má atriði eins og vinnustaði og skóla,  eins og áður sagði.  Einnig tengsl við fjölskyldu,  fasteignaverð (fyrir þá sem kaupa sér fasteign) lóðagjöld, gatnagerðargjöld, opinber gjöld,  veðurfar, útsýni, skjól- og skuggamyndun,opin svæði og gróður, afþreyingu, ýmis áhugamál,  skemmtanalíf, félagslíf,   öryggismál, leiksvæði barna, leikskóla,  grunnskóla, framhaldsskóla ognálægð við þjónustu af ýmsu tagi.   Ennfremur   mengunarhætta vegna hávaða og ólyktar, umferðartengsl og  almenningssamgöngur.

Dæmi eru um það á Vesturlöndum  að  yfirvöld hafi í tilraunaskyni  skipulagt heilu borgarsamfélögin  frá grunni, samkvæmt þeirri hugmyndafræði  að fólk vilji  búa sem næst sínum vinnustað. Skipulagðar voru borgir  með öllu tilheyrandi, þ. e. íbúðarsvæðum, vinnustöðum og þjónustu. Þessar hugmyndir  reyndust hinsvegar   skýjaborgir  og varð niðurstaðan sú  að þeir sem bjuggu í viðkomandi borg fengu smám saman vinnu annarsstaðar en þeir sem unnu í hugsjónaborginni komu annarsstaðar  frá. Fólk vill hafa  val um hvar og hvernig það vill búa.  Dæmi um slíkt er t.d. Vällingby í nágrenni Stokkhólms.

Verslun og þjónusta

Yfirbyggðir stórmarkaðir eru komnir til að vera og kaupmaðurinn á horninu heyrir  brátt sögunni til.   Stórmarkaðirnir   bjóða fram mikið vöruúrval af ýmsu tagi á tiltölulega litlu svæði, og næg bílastæðián gjaldtöku. Þetta hentar  ágætlega í okkar risjótta veðri.Á Höfuðborgarsvæðinu  er ekki alltaf sól,  blíða og logn frekar en annarsstaðar í okkar harðbýla landi. Við búum  ekki við sömu aðstæður og þeir í Kaupmannahöfn eða Barcelona.

Niðurlag

Flestir óska að  búa við tiltölulega friðsæld, hafa rúmt umsig,hafa eigin lóð,   eiga  bíl og hafa þar með algjört ferðafrelsi hvert og hvenær  sem er. Almenningssamgöngur henta ágætlega fyrir þá sem fara eingöngu milli tveggja til þriggja staða á fyrirfram ákveðnum tíma. Almenningsvagnar eru hinsvegar nauðsynlegir og  góð viðbót við það umferðarmynstur sem er í þéttbýli. 

Það eru ekki nema  100 ár frá því að þjóðin fór að vakna úr doða og sinnuleysi  liðinna alda.Nútíma tækni og  kunnáttu barst  frá  á nágrannalöndunum og þjóðin aðlagaði  hana að íslenskum aðstæðum.Þjóðin hefur efnast,  menntunarstig margfaldast  og  stórstígar framfarirorðið t.d. á sviði skipulagsgerðar,  hönnunar mannvirkja og mannvirkjagerðar.   Hin aukna landþörf í Reykjavík og öðrum þéttbýlisstöðum  á undanförnum árum og áratugum er ekki  tilviljun, hún  er fyrst og fremst afleiðing framfara og þróunar í landinu.

—–

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 13.3.2013 - 13:33 - 48 ummæli

Flugvöllur á Hólmsheiði

 Copy of yfirlit2

Það er ótrúlegt að hugsa til þess að samkvæmt áæltlunum Reykjavíkurborgar eru aðeins þrjú ár þar til flugvöllurinn í Vatnsmýri verði nánast lagður af.

Það sem gerir þetta sérstaklega ótrúlegt er að ekki hefur enn fundist lausn á flugsamgöngum við höfuðborgarsvæðið sem leyst getur Reykjavíkurflugvöll af og sátt er um.

Undanfarna daga hafa þó borist fréttir um að Hólmsheiðarflugvöllur sé í alvarlegri athugun sem arftaki Reykjavíkurflugvallar.

Síðunni hafa borist upplýsingar og nokkrar myndir sem sýna staðsetningu framtíðarflugvallar á Hólmsheiði. Þetta eru nokkuð tæknileg gögn sem þó er hægt að draga út nokkur atriði sem öllum ætti að vera skiljanleg.

Þá hefur komið hefur fram í nýlegu áliti að staðsetning Reykjavíkurflugvallar á Hólmsheiði sé “viðunandi”.  Þá er rétt að spyrja næst, viðunandi fyrir hverja? Er átt við íbúa Reykjavíkur, íbúa höfuðborgarsvæðisins eða íbúa landsbyggðarinnar? Er verið að tala um flugrekstraraðila, verktaka eða skattgreiðendur. Spyrja má hvort  maður setji ekki markið hærra þegar um er að ræða 20-30 milljarðafjárfestingu. Vill maður viðunandi samgöngukerfi eða viðunandi sjúkra og skólahús. Það á eftir að koma i ljós.

Lítum aðeins á málið.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem fyrr er getið verður fyrihugaður Hólmsheiðarflugvöllur i um 135 metra hæð og yrði hæsti áætlunarflugvöllur landsins. Þetta veldur því að rekstur flugvallarins verður erfiður vegna skyggnis og veðurfars. Rekstur flugrekstraraðila verður kostnaðarsamari og vegna nálægðar við fjöll verður aðflug á tíðum slæmt.

Það er vitað að veðurskilyrði á Hólmsheiði er verra en á Reykjavíkurflugvelli og þegar hæðarlega flugvallarins bætist við verður hinn svokallaði „nothæfisstuðull“ mun verri samkvæmt skýrslunni.

Umhvefislega eru mörg álitamál varðandi staðsetninguna ef marka má greinargerðina. Má þar nefna vatnsvernd og háfaðamengun yfir Grafarholti og fl.

Því er haldið fram að kostnaðurinn við að byggja nýjan flugvöll verði á bilinu 18-20 milljarðar auk margskonar kostnaðar vegna aðstöðu sem flugrekendur þurfa að koma upp.

Til viðbótar kemur vegakerfi og óþekktur kostnaður við að setja háspennulínur, sem eru þarna um alt, í jörð. Því er einnig haldið fram að færa þurfi spennistöð á Geithálsi  2 km fjær flugvellinum. Hitaveitulögn frá Nesjavöllum er sögð í veginum og margt fleira. Á mynd neðst í færslunni sést að fyrirhuguð staðsetning nýja fangelsins sem á að hefja byggingu á 4. apríl n.k . virðist fljótt á litið í veginum fyrir flugvallaráformunum. (Strax er byrjað á að þrengja að flugvellinum)

Það er mikilvægt að vekja umræðu um samgöngur í lofti við höfuðborgarsvæðið strax. Maður óttast að annars  taki atburðarásin enn og aftur völdin í skipulagsmálum.

Í mínum huga er ekki tímabært að flytja Reykjavíkurflugvöll næstu áratugina. Fyrir því liggja margar ástæður. Í fyrsta lagi höfum við ekki efni á þvi að leggja niður mannvirki sem er í fullri notkun og byggja nýtt á verri stað. Í öðru lagi er sem stendur ekki þörf á byggingarlandi í Vatnsmýrinni. Í þriðja lagi er óábyrgt að leggja niður flugvöllinn áður en annar betri kostur er fundinn.

Mikilvægasta skipulagsmál höfuðborgarinnar nú er að þétta þau svæði sem þegar eru byggð og auka  þjónustu við íbúa í grennd við heimilin. Bæta almenningssamgöngur og tengja sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu betur saman. Vatnsmýrin getur beðið betri tíma.

Auðvitað er það ljóst að skipulag Reykjavíkur liti öðruvísi út hefði flugvöllurinn aldrei verið byggður. En það þarf jafnframt að gera sér grein fyrir því að hafi hann valdið borgarskipulaginu tjóni þá er sá skaði skeður.

Svo er það auðvitað rétt að skipulagsvaldið í Vatnsmýrinni er á höndumn borgarinnar. En sem höfuðborg hefur hún skildur gagnvart nágrannasveitarfélögunum og landsbyggðinni, skildur sem henni ber að sinna hvað sem tautar og raular.

P.S. Vakin er athygli að myndirnar sem hér fylgja eru einungis drög sem höfundi var send frá ónafngreindum aðila og ber því einungis að skoða sem skýringarmyndir við færsluna.

Sjá einnig:

Vansagt um Vatnsmýrina:

http://blog.dv.is/arkitektur/2012/08/16/vansagt-um-vatnsmyrarskipulag/

Vatnsmýrarsamkeppnin:

http://blog.dv.is/arkitektur/2012/01/13/vatnsmyrarsamkeppnin-upprifjun/

Reykjavíkurflugvöllur , flökkusaga:

http://blog.dv.is/arkitektur/2011/12/08/reykjavikurflugvollur-flokkusaga/

Þarf flugvöll á höfuðborgarsvæðið?

http://blog.dv.is/arkitektur/2011/07/26/tharf-flugvoll-a-reykjavikursvaedid/

bilde

Á Holmsheiði er meiri rigning og súld en í Vatnsmýri auk þess að ókyrrð í loft er meiri og sökum hæðar í landslaginu er flugvöllurinn „oft í skýjum“

 untitled222

 Að neðan má sjá staðsetningu fangelsisins á Hólmsheiði og flugvöll þar.

 untitled4crop

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 8.3.2013 - 00:07 - 29 ummæli

Mæla með brú yfir Fossvog.

 

 

Í gær var kynnt greinargerð varðandi brú yfir Fossvog fyrir gangandi, hjólandi og jafnvel almenningssamgöngur milli Kársness og Nauthólsvíkur. Greinargerðin var til umfjöllunar í bæjarráði og borgarráði fyrir hádegi í gær.

Þarna er fetuð slóð sem er afar áhugavert og metnaðarfull og ber með sér mikla möguleika i skipulagmálum höfuðborgarsvæðisins.

Greinargerðin var unnin af verkfræðistofunni Eflu fyrir starfshóp sem samanstendur af fulltrúum frá Reykjavíkurborg, Kópavogi og Vegagerðinni.

Í greinargerðinni er mælt með því að brúin verði byggð frá flugbrautarenda Reykjavíkurflugvallar til móts við Kársnes. Þar eru um 340 metrar á milli bakka. Sú leið er líklegust þeirra kosta sem skoðaðir voru og hafa minnst áhrif á lífríki í Fossvogi. Þá tengist hún betur stofnstígakerfi sveitarfélaganna.

Áætlaður kostnaður við gerð göngu- og hjólabrúar er 950 milljónir króna. Ef strætisvagnar eiga að geta ekið yfir er kostnaður áætlaður1,250 milljónir króna.

Skýrsluna má í heild sinni nálgast hér.:

http://www.kopavogur.is/media/pdf/bruyfirfossvoskyrsla.pdf

Ef hugmyndin er tekin lengra og brúarhugmyndin framlengd yfir á Bessastaðanes og tengingu komið á fyrir almenningssamgöngur til Hafnarfjarðar eða lengra breytist öll skipulagsmynd Höfuðborgarsvæðisins. Ef þessi samgöngubót væri einnig ætluð einkabifreiðum þyrfti að endurskoða allar aðalskipulagsáætlair á höfuðborgarsvæðinu í ljósi miklu betri samgöngutækifæra. Umræðan um landnotkun Vatnsmýrar fengi allt aðrar áherslur og tækifæri.

Hér er stigið heillaskref í nýja átt

Ég má samt til með að vekja athygli á því að verkfræðistofu var falin skýrslugerðin og spyr hvernig á því stendur að verkfræðingar eru sífellt að færa sig inn á verksvið arkitekta og skipulagsfræðinga?  Verkfræðileg nálgun er önnur en arkitektonisk og hætta er á að niðurstaðan verði önnur, oftast þrengri vegna þess að arkitektar og skipulagsfræðingar eru menntaðir í að sjá heildarmyndina meðan verkfræðingar eru flestir menntaðir sem sérfræðingar á tiltölulega þröngum sviðum í þessu samhengi.

Það er mín skoðun að verkefnastjórn í verkum sem þessum  sé heppilegri í höndum arkitekta en verkfræðinga.

En það er önnur saga.

Fjallað hefur verið um þessa hugmynd nokkru sinnum á þessum vef samanber eftirfarandi tengla: 

http://blog.dv.is/arkitektur/2011/07/26/tharf-flugvoll-a-reykjavikursvaedid/

http://blog.dv.is/arkitektur/2010/03/16/vatnsmyrin-%e2%80%9cnull-lausn%e2%80%9d/

http://blog.dv.is/arkitektur/2009/11/04/karsnes-vatnsmyrin-midborgin/

Myndin efst í færlunni sýnir hvar brúin er staðsett samkvæmt niðurstöðu verkfræðistofunnar eflu. Að neðan er svo skissa sem sýnir hvernig halda mætti áfram með öfluga samgönguæð yfir Fossvog til suðurs alla leið til Hafnarfjarðar eða lengra.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 5.3.2013 - 12:20 - 5 ummæli

Arkitektúrljósmyndir – Ezra Stoller

Því hefur verið haldið fram að hús séu eins og fólk. Þau myndist misvel. Og þau hús (fólk) sem mest eru ljósmynduð séu ekki endilega bestu húsin, þau myndist bara betur.

Byggingar sem myndast vel fara víða í blöðum og tímaritum meðan hin vilja gleymast þó þau séu jafnvel betri en hin frægu.

Ljósmyndarinn skiptir þarna miklu máli. Ef hann skilur bygginguna og finnur vinklana og réttu birtuna getur hann gert kraftaverk. Ljósmyndari sem kann sitt fag og getur dregið einkenni bygginganna og kosti þeirra fram í myndum sínum. Þetta á líka við um portret ljósmyndara sem finnur persónuna að baki andlitisins og dregur fram í ljósmyndinni.

Ezra Stoller (1915-2004) ljósmyndari frá Chicago var vinsæll arkitektúrljósmyndari á sínum tíma. Því er haldið fram að hann hafi komið byggingum á kortið sem án hans hefði ekki vakið sérstaka athygli. Hann er oft kallaður “ljósmyndarinn sem gerði arkitekta fræga”.  Stoller sagði í viðtali að hann hefði engan sérstakan áhuga á ljósmyndum. Hinsvegar hefði hann brennandi áhuga á arkitektúr. Sama hef ég heyrt portrettljósmyndara segja. Hann sagðist hafa meiri áhuga á fólki en ljósmyndun.

Eftir að brautryðjandinn Stoller var búinn að finna vinklana var auðvelt fyrir sporgöngumennina að fylgja í kjölfarið. Þess vegna er ljósmyndarinn sem ryður brautina mikilvægur hvaðp varðar frama arkitekta. Ég hef skoðað margar slappar byggingar sem mikið er birtar ljósmyndir af og lofaðar á pappírnum.

Ljósmyndin segir heldur ekki alla söguna. Maður þarf þess vegna að gæta sín. Enga ljósmynd hef ég t.a.m. séð af  Hörpu sem sýnir að hún snýr öfugt.  En Harpa nýtur þess að vera ein af þessum fótógen byggingum.

Stoller hefur haft mikil áhrif á frægð margra þekktra bygginga. Ég nefni  byggingar á borð við fíinnska sýningarskálann í New York (Aalto 1939), Chamberlain Cootage (Breuer/Gropius 1941) Notre Dame du Haut Chapel (Le Courbusiere 1955) Seagrams building í NY (Mies 1958)  TWA Terminal NY (Saarinen 1962) Falling Water (Wright 1963) og Salk institute (Kahn 1977)

Endilega Googlið Stoller og skoðið myndirnar.

Hjálagt eru nokkrar ljósmynda Ezra Stoller.

Sjá þessa slóð:

http://www.npr.org/blogs/pictureshow/2013/03/01/173140765/the-photographer-who-made-architects-famous

Hirshorn Museum í Washington eftir SOM. Takið eftir hvernig ljósmyndarinn staðsetur bygginguna með því að láta sjást í Capitol Hill neðst til vinstri.

 TWA Terminal eftir Saarinen í New York.

 Seagrams building í New York eftir Mies.

 Að ofan er sýningarskáli eftir Aalto frá árinu 1939

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn