
Síðunni hefur borist eftirfarandi grein frá Sigurði Thoroddsen arkitekt. Sigurður er einn reyndasti skipulagsmaður íslendinga. Hann vann nánast alla starfsæfi sína hjá Skipulagi rikisins (nú Skipulagsstofnun), mestan hluta sem aðstoðarskipulagsstjóri. Hér skrifar hann athyglisverða grein um þróun skipulagsmála í Reykjavík frá 1927 til dags dató. Hann talar um þétta og dreifða byggð. Þetta er fróðleg grein þar sem minnt er á ýmislegt sem varpar ljósi á þróunina undanfarna áratugi í tiltölulega stuttu máli. Myndin efst í færslunni sýnir skipulag borgarinnar frá 1927.
—–
Umræður hafa verið um þéttleika byggðar í Reykjavík og víða annarsstaðar á landinu og telja margir að þétt byggð sé eftirsóknarvert fyrirkomulag og tefla fram ýmsum rökum. Helstu kostir séu styttri vegalengdir milli íbúðar og vinnustaðar og þar með ódýrara vegakerfi. Auk þess sé þétt byggð manneskjulegri, meira aðlaðandi og hvetji til aukinna samskipta milli manna. Önnur rök hafa líka verið sett fram s.s. hagstæðari almenningssamgöngur, skjólmyndun og betri þjónusta af ýmsu tagi.
Aðrir telja að hæfileg blöndun dreifðrar og þéttrar byggðar sé eftirsóknarvert og kynna ýmis rök. Helstu kostir séu að þarfir fólks séu ólíkar og að ekki séu allir steyptir í sama mótið. Sumir óski að búa mjög þétt og aðrir ekki. Gera þurfi ráð fyrir nýjum og breyttum aðstæðum í þjóðfélaginu og tækniframförum. Hér á eftir mun ég almennt fjalla um aukna landþörf og þróun byggðar sem verið hefur í Reykjavík og öðrum sveitarfélögum.
Forsagan
Fyrsta heildarskipulag Reykjavíkur, Skipulagsuppdráttur af Reykjavík innan Hringbrautar, var samþykkt 15. desember 1927. Það var unnið af samvinnunefnd um skipulagsmál sem í voru fulltrúar frá skipulagsnefnd ríkisins og bæjarstjórn Reykjavíkur. Fulltrúi skipulagsnefndar í samvinnunefndinni var Guðjón Samúelsson, og er hann talinn aðalhöfundur skipulagsins. Í skipulaginu, er gert ráð fyrir íbúðarbyggð í formi svokallaðrar randbyggðar 3-4 hæða, þannig að hús séu sambyggð meðfram hliðum reitsins. Einnig var gert ráð fyrir stakstæðum íbúðarhúsum. Við höfnina var lagt til að hafa fiskhús, vöruskemmur og athafnasvæði fyrir útgerð. Þessi skipulagsáætlun var barn síns tíma og tók mjög mið af þeim áætlunum sem unnar voru í Vestur Evrópu á þessum tíma. Vegna deilna hlaut skipulagsuppdrátturinn ekki formlega staðfestingu ráðherra en engu að síður var farið eftir honum næstu árin. Sú byggð sem samkvæmt honum reis myndi í dag teljast vera tiltölulega þétt.
Næstu byggingaráfangar eftir að svæðin samkv. skipulaginu frá 1927 voru fullbyggð eru: Norðurmýri austan Snorrabrautar, Melarnir í Vesturbænum, Langholtshverfi og síðar reis byggð i Árbæ, Breiðholti, Grafarvogi og ýmsum Austursvæðum n.t.t. Selási , Grafarholti og Norðlingaholti. Sammerkt með síðari uppbyggingu í Reykjavík þ.e. austan Snorrabrautar er að byggðin hefur smám saman orðið dreifðari auk þess sem gerð hafa verið stór útivistarsvæði, s.s. í Laugardal,, Fossvogsdal og Elliðaárdal. Hliðstæð þróun varð í Hafnarfirði og síðar í öðrum sveitarfélögum á Höfuðborgarsvæðinu.
Fyrsta Aðalskipulagið og ný hugtök
Fyrsta hefðbundna aðalskipulagið í landinu var Aðalskipulag Reykjavíkur 1962-1983, og var það staðfest 1967. Það var unnið af dönskum sérfræðingum, þeim PeterBredsdorff arkitekt/prófessor og Anders Nyvig umferðarverkfræðingi. Skipulagið olli straumhvörfum í meðferð skipulagsmála í landinu. Í aðalskipulaginu er funktionalisma í fyrsta sinn kerfisbundið beitt við skipulagsgerð, þ.e að hvert byggðahverfi fékk sitt afmarkaða og skilgreinda hlutverk. Ennfremur var flokkun gatna innleidd, en það er skipting gatnakerfisins eftir hlutverki og umferðarþunga. Þessi skipulagsáætlun byggðist á því að bíllinn hefði tilekið hlutverk. Árið 1964 voru skipulagslög endurskoðuð og hugtökin svæðis- aðal- og deiliskipulag innleidd. Síðan hefur í aðalatriðum verið stuðst við þessa hugmyndafræði og gefist vel.
Aðalskipulagsáætlunin frá 1967 hefur verið endurskoðuð fjórum sinnum eða Aðalskipulag Reykjavíkur 1984-2004 staðfest 1988, Aðalskipulag Reykjavíkur 1990-2010 staðfest 1992, Aðalskipulag Reykjavíkur 1996-2016 staðfest 1997 og Aðalskipulag Reykjavíkur 2001-2024 staðfest 2002. En í síðastnefnda aðalskipulaginu er að hluta gert ráð fyrir blandaðri byggð atvinnu og íbúða. Allar framangreindar skipulagsáætlanir eiga það hinsvegar sammerkt að byggjast að verulegu leyti á hinu upphaflega Aðalskipulagi Reykjavíkur frá 1967.
Nú er í undirbúningi endurskoðun Aðalskipulags Reykjavíkur sem gilda mun fyrir skipulagstímabilið 2010 til 2030. Í þessu skipulagi er fyrst og fremst gert ráð fyrir þéttingu núverandibyggðasvæða og skilgreind sérstök þéttingarsvæði. Ekki er gert ráð fyrir nýjum hverfum utan núverandi byggðar, en þess í stað lögð áhersla á sem mesta blöndun íbúðar- og atvinnusvæða innan byggðarinnar. Þetta er gert, eins og segir í texta, til að stuðla að sjálfbærri þróun borgarumhverfisins. Lagt er til að almenningssamgöngur verði bættar og að byggðar verði 14.500 íbúðir á skipulagstímabilinu, aðallega í fjölbýlishúsum og að um 2500 íbúðir verði reistar miðsvæðis á næstu 3- 5 árum. Markmiðið er að leggja sérstaka áherslu á leiguíbúðir með aðkomu Borgarsjóðs og að draga sem mest úr notkun einkabílsins. Væntanlega verða engin bílastæði, enda það heimilt samkv. skipulagslögum.
Þróun síðustu áratuga
Á undanförnum árum hafa orðið miklar breytingar á byggðamynstri í átt til dreifðari byggðar. Ástæður fyrir þessu hafa lengi verið mönnum ljósar, en þær eru fyrst og fremst aukin velmegun fólks, sérstaklega eftir loksíðari heimstyrjaldarinnar. En bættur efnahagur hafði í för með sér að fjölskyldur gátu búið í stærra húsnæði, eignast bíl og valið sér búsetuform og staðsetningu eftir óskum hvers og eins. Þannig að landþörf í þéttbýli hefur nokkurn veginn haldist í hendur við efnahag þjóðarinnar. Tækni á ýmsum sviðum hefur fleygt fram og heimilistæki ýmiskonar tekin í notkun, sem hafa auðveldað fólki lífið. Þetta er ekki séríslenskt fyrirbrigði, því hliðstæð þróun hefur verið í öllum hinum vestræna heimi.
Hin aukna bílaeign gerði fólki kleift að sækja vinnu, þjónustu og frítímaiðju úr meiri fjarlægð en áður. Einkabíllinn gerðifólki mögulegt að fara hvert sem var, á hvaða tíma sem hentaði. Þetta hefur verið greinileg þróun á Höfuðborgarsvæðinu, þ.e. að fólk sækir nú vinnu og þjónustu í allt að 10-20 km fjarlægð frá búsetustað. Dæmi eru um enn meiri fjarlægðir s.s. frá sveitarfélögum utan Höfuðborgarsvæðisins.
Skoðanakannanir hafa leitt í ljós að mikill meirihluti fólks vill búa í sérbýli, ef það á annað borð hefur efni á því. Fólk vill hafa sér lóð fyrir sig og aðgang að opnum svæðum í næsta nágrenni. Hinsvegar er eðlilegt að verslunar- og þjónustukjarnar séu þéttbyggðir til hægðarauka fyrir viðskiptavini. Því er ekki að neita að í Reykjavík og öðrum þéttbýlistöðum vilja sumir fremur búa í miðbæjarkjörnum vegna nálægðar við þjónustu, en gera jafnframt athugasemdir við að þar sé of mikið af fólki með tilheyrandi truflun, einkum og sérílagi um nætur og helgar. Þetta fólk vill m.ö.o. búa í göngufæri við þjónustuna en dreymir jafnframt um kyrrðina og náttúruna sem fylgir dreifðri byggð.
En víkjum aftur að ástæðum þess að byggð hefur orðið dreifðari þ.e. að landþörf hefur aukist. Fyrst ber að nefna að með bættum efnahag hafa íbúðir stækkað, og fjöldi íbúa á íbúð dregist saman, eða að íbúðaflötur og hvern íbúa hefur aukist. Þetta hefur haft í för með sér að fjöldi íbúða hefur vaxið miðað við sama íbúafjölda, þ.e. að landþörf á íbúa hefur aukist. Til einföldunar hefur meðalfjölskyldustærð minnkað þ.e. að fjölskyldur eiga nú færri börn en áður, auk þess sem fleiri einstæðir búa í hverri íbúð. Ennfremur flytur unga fólkið í auknum máli að heiman, vegna möguleika á að afla sér tekna, og margir sem eru í framhaldsnámi búa í sérstökum námsmannaíbúðum. Almenn menntun, ekki síst kvenna, hefur aukist, þannig að atvinnuþátttaka ernú meiri.
Aldraðir búa yfirleitt ekki hjá börnum sínum eins og áður tíðkaðist, og hafa fjölmörg heimili fyrir þá verið byggð. Ennfremur er heilsufar eldri borgara betra, þannig að margir kjósa að búa lengur í eigin húsnæði, en þá er yfirleitt um 1-2 íbúa á íbúð að ræða. Allt hefur þetta áhrif á þann veg að landrýmisþörf hefur aukist.
Meðal nýtingarhlutfall, sem er hlutfallið milli flatarmáls bygginga og lóðaflatarmáls hefur dregist saman, það er að lóðir hafa stækkað á hverja flatarmálseiningu íbúða. Íbúðir eru nú öðruvísi hannaðar, öll herbergi stærri og tæknin allt önnur. Ýmsar þjónustustofnanir á vegum ríkis og sveitarfélaga eru í og við íbúðarhverfi, s.s.leikskólar, barnaheimili, grunnskóla, framhaldsskólar og sjúkrastofnanir og þurfa lóðir þeirra að vera af tiltekinni stærð til leiks og ýmissa athafna. Allt kallar þetta á aukið landsvæði. Þessi aukna landþörf á íbúa hefurekki einungis komið fram í Reykjavík heldur einnig í öllum öðrum sveitarfélögum.
Fram hefur komið að bílaeign landsmanna hefur margfaldast, eða frá því að vera 122 bílar á hverja1000 íbúa árið 1960 í að vera um 760 bílar á hverja 1000 íbúa árið 2012. Frá 1960 til þessa dags hefur bílaeign landsmanna rúmlega sex faldast á hverja 1000 íbúa. Til fróðleiksmá geta þess getið að árið 1960 voru landsmenn 176.000, en eru nú 320 þúsund eða tæplega tvöföldun.
Þessi stóraukna bílaeign hefur algjörlega breytt samskiptum manna, þ.e varðar flutning á fólki, vörum og þjónustu.Bylting hefur orðið í ferðafrelsi og hreyfanleika almennings og einkabíllinn er orðinn eins hvert annað heimilistæki sem fólk vill og getur ekki verið án. Umferðarkerfi bæði utan þéttbýlis og innan hefur tekið algjörum stakkaskiptum. Varðandi bílastæðin var aðalreglan sú að lóðarhafar voru skyldugir að gera ráð fyrir tilteknum fjölda bílastæða á eigin lóð. Nú hefur skipulagslögum illu heilli verið breytt á þann veg að mögulegt er að byggja hús og/eða heilu hverfin án bílastæða ef sveitarstjórn ákveður það.
Bent hefur verið á að bílar mengi, en á síðustu árum hafa orðið stórstígar framfarir í átt til sparneytnari og umhverfisvænni bíla, og hafa yfirvöld hvatt til kaupa á slíkum bílum með lækkun gjalda. Vonandi sjáum við fram á það að innan skamms verði komnir á markað umhverfisvænir bílar á hagstæðu verði, sem nýta innlenda orku s.s. rafmagn, metan eða vetni. Slíkir bílar þurfa að lágmarki að komast 500 km á einni hleðslu og áfylling ekki taka meira en 5 mínútur.
Almenningssamgöngur hafa af augljósum ástæðum lotið í lægra haldi fyrir einkabílnum og munu ekki, miðað við óbreyttar aðstæður, geta keppt við hann. Almenningsvagnakerfið getur ekki veitt þau þægindi sem einkabíllinn veitir, og á þetta sérílagi við á Íslandi þar sem allra veðra er von.
Eins og rakið hefur verið hefur byggð í þéttbýli orðið dreifðari og eru áhrifavaldar fyrst og fremst efnahagslegs og félagslegs eðlis. Við búum í gjörbreyttu þjóðfélagi og valkostir til búsetu margfalt meiri. Miklar framfarir og umbætur hafa verið á sviði samgangna og einkabíllinn orðinn almenningseign. Vegna bættra samgangna er nú litið á Höfuðborgarsvæðið, Suðurnes, Suðurland og Vesturland sem eitt markaðsvæði. Lóðaframboð til úthlutunar hjá sveitarfélögum hefur stóraukist, þannig að fólk hefur úr miklu fleiri kostum að velja. Málið er að sveitarfélögin eru í innbyrðis samkeppni um fólkið og þá þurfa þau hvert um sig að hafa sem fjölbreytilegastar tegundir lóða til úthlutunar, s.s. einbýlishúsalóðir, raðhúsalóðir og fjölbýlishúsalóðir.
Þétting byggðar
Skipulagsyfirvöld í Reykjavík boða nú breytta stefnu í tillögu að Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030, á þann veg aðþau hyggjast þétta núverandi byggð, og blanda saman í auknum mæli íbúðarbyggð og atvinnustarfsemi. Hið réttaætti að vera að skipulagsyfirvöld í Reykjavík hafi hyggju að bjóða framlóðir þar sem gert sé ráð fyrir framangreindri þéttingu og samblöndun. Málið er að sveitarfélög bjóða fram tiltekna vöru eða þjónustu, þ.e. lóðir, en byggja ekki neitt sjálf nema götur, lagnir og stofnanir, enáeinstökum lóðum byggja einstaklingar og fyrirtæki sem hafa fengið lóðir úthlutaðar eftir auglýsingu.
Reykjavíkurborg þéttir ekkibyggð sjálf, eins og fram hefur komið, og ef enginn sækir um lóð verður ekkert byggt. Almenningi erí sjálfsvald sett hvort hann sækir um lóð í Reykjavík eða öðru sveitarfélagi. Við búum sem betur fervið frjálst markaðskerfi, þannig að þeir sem hafa hug á að byggja, geta sótt um lóðir í því sveitarfélagi sem þeim hentar, allt eftir efnum og aðstæðum. Enginn er skyldugur að byggja eða búa í tilteknu sveitarfélagi og ef viðkomandi bæjarfélag þróast yfir í að vera spennitreyja um athafnir fólks, flytur það einfaldlega annað.
Búseta í nánd við vinnustað
Kynntar hafa verið hugmyndir í tilteknum sveitarfélögum að blanda saman íbúðum og vinnustöðum í nýjum og/eða þegar byggðum hverfum en ekki tekist sem skyldi. Dæmi um slíkt eru: Norðlingaholt og Úlfarsfellshverfi í Reykjavík. Ennfremur við Auðbrekku í Kópavogi og miðbæ Garðabæjar. Málið er að slík samblöndun hentar í mörgum tilfellum ekki vel þar sem þarfirnar eru ólíkar. Atvinnustarfsemi þarf tiltekið rými til vaxtar og henni getur fylgt hávaði og önnur mengun, en íbúðarbyggð hefur aðrar þarfir.
Sérfræðingarnir telja að fólk vilji fyrst og fremst búa í grennd við sinn vinnustað. Þetta ermisskilningur, því það er miklu fleiri og flóknari atriði sem skipta máli þegar fólk velur sér búsetu. Kjarnafjölskyldan samanstendur af 3-4 persónum eða foreldrum sem vinna bæði úti, yfirleitt á sinn hvorum staðnum og börnin 1-2 eru í sinn hvorum skólanum, þannig að fjölskyldan þarf í það minnsta að faraá 3-4 staði á morgnana og kvöldin. Of langt yrði að telja upp alla þá þætti sem skipta máli þegar fólk velur sér stað til búsetu, en nefna má atriði eins og vinnustaði og skóla, eins og áður sagði. Einnig tengsl við fjölskyldu, fasteignaverð (fyrir þá sem kaupa sér fasteign) lóðagjöld, gatnagerðargjöld, opinber gjöld, veðurfar, útsýni, skjól- og skuggamyndun,opin svæði og gróður, afþreyingu, ýmis áhugamál, skemmtanalíf, félagslíf, öryggismál, leiksvæði barna, leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla ognálægð við þjónustu af ýmsu tagi. Ennfremur mengunarhætta vegna hávaða og ólyktar, umferðartengsl og almenningssamgöngur.
Dæmi eru um það á Vesturlöndum að yfirvöld hafi í tilraunaskyni skipulagt heilu borgarsamfélögin frá grunni, samkvæmt þeirri hugmyndafræði að fólk vilji búa sem næst sínum vinnustað. Skipulagðar voru borgir með öllu tilheyrandi, þ. e. íbúðarsvæðum, vinnustöðum og þjónustu. Þessar hugmyndir reyndust hinsvegar skýjaborgir og varð niðurstaðan sú að þeir sem bjuggu í viðkomandi borg fengu smám saman vinnu annarsstaðar en þeir sem unnu í hugsjónaborginni komu annarsstaðar frá. Fólk vill hafa val um hvar og hvernig það vill búa. Dæmi um slíkt er t.d. Vällingby í nágrenni Stokkhólms.
Verslun og þjónusta
Yfirbyggðir stórmarkaðir eru komnir til að vera og kaupmaðurinn á horninu heyrir brátt sögunni til. Stórmarkaðirnir bjóða fram mikið vöruúrval af ýmsu tagi á tiltölulega litlu svæði, og næg bílastæðián gjaldtöku. Þetta hentar ágætlega í okkar risjótta veðri.Á Höfuðborgarsvæðinu er ekki alltaf sól, blíða og logn frekar en annarsstaðar í okkar harðbýla landi. Við búum ekki við sömu aðstæður og þeir í Kaupmannahöfn eða Barcelona.
Niðurlag
Flestir óska að búa við tiltölulega friðsæld, hafa rúmt umsig,hafa eigin lóð, eiga bíl og hafa þar með algjört ferðafrelsi hvert og hvenær sem er. Almenningssamgöngur henta ágætlega fyrir þá sem fara eingöngu milli tveggja til þriggja staða á fyrirfram ákveðnum tíma. Almenningsvagnar eru hinsvegar nauðsynlegir og góð viðbót við það umferðarmynstur sem er í þéttbýli.
Það eru ekki nema 100 ár frá því að þjóðin fór að vakna úr doða og sinnuleysi liðinna alda.Nútíma tækni og kunnáttu barst frá á nágrannalöndunum og þjóðin aðlagaði hana að íslenskum aðstæðum.Þjóðin hefur efnast, menntunarstig margfaldast og stórstígar framfarirorðið t.d. á sviði skipulagsgerðar, hönnunar mannvirkja og mannvirkjagerðar. Hin aukna landþörf í Reykjavík og öðrum þéttbýlisstöðum á undanförnum árum og áratugum er ekki tilviljun, hún er fyrst og fremst afleiðing framfara og þróunar í landinu.
—–