Fimmtudagur 10.1.2013 - 10:16 - 8 ummæli

Ný byggingarreglugerð – Húsvernd

Magnús Skúlason arkitekt skrifaði fyrir fyrir réttum mánuði grein í Fréttablaðið umdir yfirskriftinni  „Ný byggingarreglugerð-Húsvernd“.

Greinin er mikilvægt innlegg í yfirstandandi umræðu um nýja byggingarreglugerð sem vonandi á eftir að taka nokkrum mikilvægum breytingum á komandi vikum en gildistöku hennar var frestað um nokkrar vikur og tók því ekki gildi um áramót eins og segir í grein Magnúsar.

Magnús Skúlason hefur mikla þekkingu á efninu.  Hann hefur verið virkur í allri umræðu um eldri hús í áratugi og þekkir vel til þessara mála bæði sem starfandi arkitekt,  fulltrúi í byggingarnefnd Reykjavíkur til margra ára og formaður eitt kjörtímabil.  Þá var hann forstöðumaður Húsafriðunarnefndar um langt árabil

Gefum Magnúsi orðið:

Ný byggingarreglugerð – húsvernd

Svo að vel takist til við varðveislu húsa, húsaraða og hverfa er mikilvægt að gömul hús fái að gegna hagnýtu hlutverki. Þegar vel tekst til er gamalt og jafnvel friðað hús eftirsóknarverð eign sem eigandinn leggur metnað sinn í að halda við og fegra að eigin frumkvæði. Reynslan sýnir að gömlum húsum og hverfum er af einhverjum ástæðum betur gefið að stuðla að lifandi mannlífi og menningu en afrakstri úthugsaðs skipulags og þarf ekki að leita langt í borgum og bæjum landsins því til sönnunar.

Á forsendum hússins sjálfs
Skilyrði þess að gömul hús geti áfram gegnt hagnýtu hlutverki er að breytingar og viðhald fari fram á forsendum hússins sjálfs. Mörg eldri húsa eru t.d. upphaflega íbúðarhús og geta gegnt því hlutverki með ágætum oftar en ekki ef leyfðar eru ákveðnar breytingar eða viðbyggingar. Þá geta mörg eldri hús, þ.á.m. íbúðarhús, vöruskemmur og sjóbúðir, verið eftirsótt til annarra nota en þau voru upphaflega gerð fyrir, t.d. verslunar eða veitingastaða.

Við breytingar sem þessar verður að líta til fleiri atriða svo sem byggingartíma, byggingarsögu og skipulags hússins svo og þess hvort breytingar eru afturkræfar. Sé hins vegar miðað við ítrustu kröfur sem gerðar eru til nútímabygginga þýðir það að jafnaði að breytingar eru annað hvort ómögulegar eða þær þýða eyðileggingu á þeim verðmætum sem felast í gömlu húsi. Eðlilega stenst hús sem reist er skv. byggingarreglugerð frá 1903 ekki kröfur skv. nútíma byggingarreglugerð í ýmsu tilliti. Það á hins vegar ekki að leiða til þess að hvers kyns breytingar á húsinu séu gerðar tæknilega óframkvæmanlegar.

Mikilvæg byggingararfleifð
Í nýrri byggingarreglugerð, sem taka mun gildi af fullum krafti 1. janúar 2013, hefur lítill gaumur verið gefinn að framangreindum atriðum. Það er eins og gleymst hafi að við eigum mikilvæga byggingararfleifð sem verður aðeins viðhaldið á sjálfbærum forsendum. Þetta er stórt skref aftur á við frá fyrri byggingarreglugerð sem í grein 12.8. kvað á um að við umfjöllun byggingarleyfisumsókna um breytingar á byggingum sem byggðar væru fyrir gildistöku reglugerðarinnar „skyldi taka mið af þeim reglugerðarákvæðum sem í gildi voru þegar þær voru byggðar eftir því sem hægt væri að teknu tilliti til gildandi krafna um öryggis- og heilbrigðismál.“ Á þessum grundvelli var t.d. hægt í hverju tilviki fyrir sig að huga að breytingum samfara endurbótum eða breyttri notkun og þannig m.a. efla brunavarnir, bæta aðgengi hreyfihamlaðra og sjónskertra án verulegra raskana á húsi.

Í grein 137.6 í fyrri reglugerð var fjallað um að gerðar væru viðeigandi ráðstafanir til að vernda menningarverðmæti gegn bruna. Ekkert slíkt virðist að finna í hinni nýju reglugerð, jafnvel þótt augljóslega sé brýnt að efla brunavarnir í gömlum timburhúsum sem hafa sérstakt varðveislugildi, einkum með vatnsúðakerfum þannig að þau verði síður eldi að bráð.

Hin nýja byggingarreglugerð virðist gera fortakslausa kröfu um að breytingar á gömlum húsum séu í samræmi við kröfur til nýbygginga. Með þessu er í raun vegið að mikilvægri forsendu varðveislu og viðhalds gamalla húsa og borgarhluta svo ekki sé minnst á það óhagræði og kostnaðarauka sem eigendur gamalla húsa verða fyrir.

Nú mun vera unnið að endurskoðun reglugerðarinnar á vegum umhverfisráðherra, þ.m.t. þessum atriðum, og brýnt er að þeirri vinnu ljúki sem fyrst og óvissu þar með eytt.

Sjá einnig:

http://blog.dv.is/arkitektur/2012/12/03/alygtun-arkitekta-ny-byggingareglugerd/

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 4.1.2013 - 23:39 - 5 ummæli

Endurbygging-Nýbygging?

Þegar arkitektarnir komu að rústinni sem sjá má á myndinni að ofan hafa vaknað nokkrar spurningar. 

Þeir hafa velt fyrir sér hvort rífa ætti það sem eftir er rústanna  og byggja nútímalegt hús á lóðinni eða byggja húsin upp í þeirri mynd sem þau eitt sinn voru. Þriðji möguleikinn sem þeir hafa skoðað var að endurbyggja húsið á nútímalegan hátt.

Síðasti kosturinn var valinn eins og sjá má á meðfylgjandi ljósmyndum.

Skiptar skoðanir eru um leiðir þegar svona verkefni eru annarsvegar. Þeir arkitektar sem hafa valið sér stefnu sem þeir kalla sjálfir „uppbyggingarstefnu“ hefðu sennilega valið fyrstu leiðina og byggt nýtt hús á lóðinni sem væri fulltrúi þess arkitektúrs sem er ríkjandi í dag. Aðrir hefðu farið í rannsóknarvinnu og endurbyggt húsin eins og þau voru á blómaskeiði þeirra og með svipuðu verklagi, kannski  einhverskonar tilgátuhús.  Nú eða í þriðja lagi að aðlaga húsið nútíma tækni og þægindum umleið og áferðin, hlutföllin og menningararfurinn er varðveittur samkvæmt mati hönnuðanna.

Mér finnst síðasti kosturinn áhugaverðastur þó ég hefði viljað stíga varlegar til jarðar en þarna er gert. Farið varlegar í „moderniseringunni“. Einkum hvað varðar gluggagerðir og efnisval þeirra. Fyrsti kosturin sem oftast er valinn í tilvikum sem þessum er beinlínis menningarfjandsamlegur að mínu mati og endurpeglar kjarkleysi þeirra sem að verki standa.

 Hér er slóð þar sem fjallað er nánar um þetta hús:

http://blog.dv.is/arkitektur/2012/12/15/eydibylin-vidskipataekifaeri-komandi-ara/

Það er rétt að geta þess að þessi hús voru endurbyggð til þess að þjóna ferðamannaiðnaði á Írlandi þar sem gæði þjónustunnar er í hávegum höfð.   Slóðin á neðan fjallar um aðgerðir hér á landi þar sem áhersla virðist vera lögð á magn:

http://blog.dv.is/arkitektur/2012/12/19/vinnubudahotel/

 

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 1.1.2013 - 23:31 - 8 ummæli

Úr og úrahönnun.

„Tíminn flýgur áfram og hann teymir mig á eftir sér…..“ segir Megas í þekktu ljóði.

Og nú eru enn ein áramót liðin.

Gleðilegt ár.

Það er svo einkennilegt með hinar svokölluðu skapandi greinar að þegar kemur að tískuhönnun þá leita hönnuðurnir ekki alltaf að framförum  hvað tækni, notagildi, hagkvæmni eða framþróun fagurfræðinnar varðar, heldur einhverju „trendi“ sem stundum endurtekur sig aftur og aftur.

Það er eins og tíminn gangi fram og til baka þegar tískan er annarsvegar.

Kannski er ekki hægt að ræða framþróun þegar fagurfræði er á dagskrá, en það er oft nokkurt samhengi milli framfara og fegurðar sem vel má ræða.  Allavega hef ég miklar efasemdir um kennisetninguna frægu:. „De gustibus non est disputandum“

Tískan fylgir einhverjum mér óskiljanlegum leiðum. Samt er einhver fylgni í hönnuninni við efnahagsástand líðandi stundar og allskonar „trendum“ sem auglýsingastofur skapa. Oft kallað „branding“ eða eitthvað svoleiðis. Í tengslum við markaðssetningu vörumerkja skapast tækifæri fólks til þess að auglýsa að viðkomandi eigi eitthvað fé aflögu í handraðanum. Varan fær annan tilgang en notagildið og fagurfræðin kallar eftir. Nytjahluturinn verður frekar tákn um stöðu viðkomandi. Oftast fjárhagslega stöðu sem hann vill að tekið sé eftir.

Armbandsúr eru áberandi hvað þetta varðar. Armbandsúr eru vélar sem mæla tímann sem „teymir mann á eftr sér“.

Þegar menn fyrst fóru að bera á sér klukkur voru þær svo fyrirferðamiklar að notendurnir þurftu að bera þær í keðjum og stinga þeim í sérstakan tilsniðinn vasa á klæðum sínum. Þetta voru “vasaúr”.

Vasaúrin voru í upphafi stöðutákn og skart sem var hlaðið skrauti og dýrum steinum.

Með vaxandi tækniframförum minnkuðu klukkurnar og urðu sífellt léttari og fyrirferðaminni með miklum tæknibúnaði og öllu prjáli var haldið í lágmarki. Þá tók við mjög vönduð vinna hönnuða við að fullkomna tæknina með vandaðri útlitshönnun sem hæfði tækniframförunum.

Léttleikinn og notagyldið var í fyrirrúmi. Klukkurnar urðu svo léttar og fyrirferalitlar að menn báru þær á handleggnum án þess að finna fyrir þeim.

Svo fyrir nokkrum árum byrjuðu armbandsúr að stækka að nýju og eru nú orðin stór, fyrirferðamikil, þung og klunnaleg. Hlutverk þeirra fór að breytast aftur úr því að vera nytjahlutur í að vera skart og stöðutákn. Líkt og vasaúrin fyrir meira en hundrað árum.

Fyrir minn smekk eru nýju úrin allt í senn ljótari, klunnalegri, þyngri og miklu dýrari en vinsælustu úrin fyrir svona 10 árum.

Að því sögðu er ástæða til að vitna aftur í Megas sem segir í öðru ljóði: „…. en það bíður jú allra að þurfa að staldra við eftir sjálfum sér“

Já. Hart er í heimi og hórdómur mikill hvað varða úrahönnun vorra daga.

Myndin efst í færslunni er af úri þeirrar gerðar sem algengust eru á markaðnum í dag. Úrin að neðan eru flest hönnuð fyrir allnokkrum árum og jafnvel ártugum og eru í samræmi við tækniframfarir í úraframleiðslu..

 

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 27.12.2012 - 14:59 - 5 ummæli

HORFT Í NORÐUR.

Kristinn Hrafnsson myndlistamaður sendi síðunni pistil um Reykjavíkurhöfn sem birtur var  29.11.2012 og hét: „Frystigeymla og myndlist á Grandanum“. Nú hefur hann aftur stungið niðuir penna og skrifað pistil sem er birtur hér. Neðst í færslunni er slóð að fyrri pistli Kristins þar sem koma fram margar áhugaverðar athugasemdir.

Hér er pistillinn:

Fyrir nokkrum dögum síðan varð mér það á að gagnrýna arkitektúr fyrirhugaðrar frystigeymslu HB Granda við Norðurgarð á Grandanum. Í bakgrunni málsins var samkeppni um listaverk við bygginguna. Málið vakti svolitlar umræður á þessum vettvangi, en nú er það algerlega dautt. Arkitektar hafa sagt sína skoðun á málinu og sjálfsagt myndlistarmenn og almenningur líka. Kannski er umræða á Íslandi ekki lengri en þetta – tuttugu manns segja nokkur orð og við töpum þræðinum?

Þetta yfirgaf mig samt ekki alveg. Mér fóru að berast upplýsingar um eitt og annað og svo fór ég að horfa í kringum mig á bryggjukantinum og velta fyrir mér ásjónu hafnarinnar og hvert stefnir í þeim efnum.

Hafnir eru alls staðar miðpunktur bæjarlífs á Íslandi og suðupunktur í borgum víða um heim. Það er óhjákvæmilegt að sigla er setning sem má finna í gömlum höfnum í Evrópu – rituð á grísku eða latínu – og hún hefur ratað í bókmenntirnar og jafnvel lógó siglingafyrirtækja. Hún er ljóðræn og lýsandi fyrir þennan stað á mörkum þess þekkta og óþekkta eða heima og heiman eða hér og þar. Án siglinga væri heimurinn annar.

Hafnir eiga að vera dínamískar vegna þess að þær þurfa á því að halda. Það helgast af athafnalífinu og þörfum þess og það helgast líka af því að þar eiga hlutirnir að vera á floti – í skjóli. Hafnir eru fullar af náttúru – þar er fugl og fiskur og þar sjáum við fallaskiptin og þar er fólk.

En hafnir eiga líka að vera klassískar. Það er mótsögnin í staðnum. Staður sem er fullur af nútíma og hraða þarf líka að vera fullur af tíma og sögu. Hafnir eru yfirleitt gamlar í sér, en þar sér maður líka það nýjasta og besta í tækni og formum. Straumlínulagað skip við hlaðinn grjótgarð eða haglega smíðaða bjálkabryggju. Það er fegurð hafnanna og þetta má allt heimfæra á Reykjavikurhöfn.

Þetta er því ekki einfaldur staður. Það er ekkert einfalt við hann og þess vegna þarf að fara varlega og líta til þess hvað gert er á hverjum tíma. Samtíminn á ekki meiri rétt á rými en fortíðin – fortíðin á hinsvegar þann rétt að um hana sé rætt áður en samtíminn tekur hana í nefið.Til að átta sig á stærð hafnarinnar er ágæt hugmynd að ganga meðfram henni allri. Það er ekki langur göngutúr, en það er samt eitt atriði sem er eftirtektarvert á þeirri göngu. Það sér nær því hvergi útúr henni. Hún er næstum því lokaður hringur af byggingum og öðru sem tilheyrir á svona stað. Það er helst þessi norðurátt sem ég nefndi áðan sem gefur svolitla sýn út á sundin og til Esjunnar. Og þar sem fjalla- og útsýnin er hvað ótrufluðust syðst í höfninni og vestur undir slipp, horfi maður sitthvorumegin við norðrið, sér maður hvar þessi fyrirhugaða frystigeymsla á að koma. Hún mun blasa við í Esjumyndinni sem við sjáum. Það vantar ekki að útsýnið er fallegt á þennan stað og það vantar ekki að staðurinn er allt að því frábær fyrir fallegan arkitektúr.

Áðurnefnd frystigeymsla, sem ég leyfði mér að kalla lélegan arkitektúr, er stórt mannvirki. Byggingin er 3.800 m2 og nálægt 12 metrum á hæð og mér sýnist hún um 67 metrar á lengd. Ég leyfði mér að kalla hana lélagan arkitektúr vegna þess að hún er í raun ekkert annað en þessar nefndu tölur sem klæddar eru með útveggjaklæðningu. Það finnst formanni skipulagsráðs, Páli Hjaltasyni, ekki sanngjörn einkunn. Hann hefur hinsvegar ekki ennþá sagt mér hvað arkitektúr er, þannig að það má vera að hann hafi rétt fyrir sér. Þar til hann gerir það, ætla ég að halda mig við þessa afgreiðslu.

Á göngu minni um höfnina tók ég myndir frá hafnarbakkanum við Geirsgötu, svokölluðum Miðbakka. Þá horfir maður nánast beint í norður á Esjuna og ég fór að velta fyrir mér hvort þetta hús tæki þetta útsýni frá mér og öðrum sem ganga eftir kajanum í vesturátt. Í gögnum um frystigeymsluna var þetta sjónarhorn ekki sýnt, þannig að ég prófaði að skella þessu mjög gróft inná myndirnar. Þetta virkar svosem ekkert rosalegt við fyrstu sýn og maður þakkar bara fyrir að tölurnar sem þarna eru klæddar í efni séu ekki stærri.

Það sem fyrst slær mig er að þarna skuli yfir höfuð vera hægt að byggja. Þó ég fari mikið um Grandann hafði ég ekki veitt því neina sérstaka eftirtekt að þarna hafi menn að húsabaki verið að gera fyllingar norðan við fiskvinnsluhúsin, hvaðþá af þessari stærðargráðu. Gamli garðurinn sem liggur þarna austureftir eins og vel dregið blíantsstrik í haffletinum er skyndilega orðinn hálfu styttri en áður. Hann er vart svipur hjá sjón og ekki nema spölkorn lengur út að litla innsiglingarvitanum sem einusinni var svo langt í burtu með sitt græna ljós. Og með allt þetta land í höndunum hafa menn eflaust hugsað með sér að þarna mætti nú setja eitthvað niður – jafnvel frystiklefa með listaverki utaná.

Á svæðinu eru vissulega byggingar fyrir, en þurfa þær að vera fleiri og verða þær að vera af einhverri ákveðinni stærð? Ef þarna þurfa að rísa hús, sem ágætar ástæður geta verið fyrir, þá mundi ég fyrst horfa á stærðarþáttinn. Hæðir, lengdir og breiddir skipta höfuðmáli, en útlit ekki síður. Þegar jafn dauð starfsemi og frystiklefi er sett þarna niður og ekkert mannlíf er æskilegt á svæðinu, þá vandast líka málið. Hvað á að gera við slíka byggingu? Ég svara því beint svona: Gera sem minnst úr henni. Gefa henni ekki færi á að taka það frá umhverfinu sem ekki tilheyrir henni. Það væri fyrsta skrefið. Annað skrefið væri að teikna hana inn í það umhverfi sem hún þarf að taka til sín. Ef þetta tækist væri þarna frystiklefi sem hvaða þorskhaus sem er gæti sætt sig við. Hann gæti jafnvel verið listaverk.

Í stuttu svari til mín vegna fyrri greinarinnar segir Páll Hjaltason að það sé ekki aðeins atvinnumál að þarna rísi frystiklefi, heldur sé það skipulags- og umferðarmál að auki. Þessi geymsla verði til þess að ekki þurfi lengur að keyra frystigáma í gegnum borgina og inn í Sundahöfn. Það finnst mér góð röksemd. En það hlítur þá að þýða að inn í Reykjavíkurhöfn komi reglulega gámaflutningaskip að sækja sinn farm. Það segir sig eiginlega sjálft og þá spyr ég hvort það sé jafn gott mál. Stór gámaflutningaskip eru engu minni en þokkalega stór skemmtiferðaskip og ekki fara þau lipurlega inn í höfnina. Það hef ég oft séð. Er það í eðli skipulagsins, þessa margflókna og allt að því guðlega kerfis sem allt skilgreinir, að leysa vandamálin á einum stað og færa þau yfir á annan og skija þau þar eftir óleyst?

Mér skilst á Páli Hjaltasyni formanni skipulagsráðs að það tíðkist ekki að efna til arkitektasamkeppni um svona byggingar og þar að auki sé þetta einkafyrirtæki sem ætli að byggja frystiklefann og til þeirra séu ekki gerðar jafn miklar kröfur og opinberra fyrirtækja. Það var og! Ég veit að það er efnt til samkeppni um nánast allt sem nöfnum tjáir að nefna og ég veit líka að hafnaryfirvöld geta sett slíkar kvaðir á fyrirtæki sem vilja byggja á mikilvægum lóðum við höfnina. Menn keppa í kömrum fyrir ferðamenn og menn keppa í vatnsstútum til að drekka úr og menn keppa jafnvel í skipulagi eins og mýmörg dæmi sanna og oftast mega þeir einir gera það sem hafa kjark í sértil að kalla sig arkitekta. Ég veit meira að segja til þess að það hafi verið efnt til samkeppni í Reykjavík um frystiklefa og geymsluhúsnæði. Og það var nýlega rifjað upp fyrir mér að höfnin hefur tvisvar sinnum efnt til skipulagssamkeppni á eigin helgunarsvæði. Mér finnst því harla slapt af einum æðsta embættismanni arkitektastéttarinnar og margreyndum keppnismanni í arkitektúr að slengja því á mann að það tíðkist ekki að einkafyrirtæki sem byggja frystiklefa láti efna til samkeppni. Staðurinn og tilefnið voru hvorttveggja næg ástæða í þessu tilfelli. Það þykir amk. sjálfsagt að efna til samkeppni um myndlist utaná óskapnaðinn sem þarna á að rísa. Hvað veldur því? Er það staðurinn eða byggingin sem krefjast þess? Varla er það svo, en það gætu hinsvegar hafa verið pólitíkusar (og jafnvel embættismenn) sem hugsuðu með sér: Hér þarf að gera mynd! Hér er ljót bygging og hér er flottur staður – þarna megin koma túristarnir siglandi inn í höfnina og þá setjum við verkið hér! Það á að vera við þennan 400 fermetra vegg og blasa við úr þessari átt. Það verður að vera veðurþolið eins og frystiklefi og það verður að vera táknrænt fyrir höfuðborg sem segir: Það er óhjákvæmilegt að sigla.

Staðurinn, tilefnið, stærðirnar og samhengið eru lögð upp í hendurnar á myndlistarmönnunum, en hversvegna kláruðu þeir ekki verkið sem vita svona vel hvað þeir vilja? Forsendurnar fyrir listaverkinu eru eins og skrifaðar upp úr skipulagsskilmálum og vonandi fá þeir úr nógu að moða til að finna verk sem fellur vel að þessum þáttum og þá eru amk. einhverjir ánægðir. Jafnvel skipulagið sjálft með sitt einþykka eðli.

Kristinn E. Hrafnsson

Myndirnar sem fylgja færslunni eru frá pistlahöfundi komnar. Ef lesendur vilja skoða myndirnar vel má tvísmella á þær og við það eiga þær að stækka.

Slóðin að fyrri pistli Kristins er þessi: http://blog.dv.is/arkitektur/2012/11/29/frystigeymsla-og-myndlist-a-grandanum/

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 19.12.2012 - 21:46 - 24 ummæli

Vinnubúðahótel ?

 

 

Nú eru uppi hugmyndir um að flytja og breyta vinnubúðum  frá Reyðarfirði í hótel og koma þeim fyrir viðsvegar um landið. Um er að ræða vinnubúðir sem notaðar voru fyrir verkamenn vegna byggingar álbræðslu á staðnum. (Morgunblaðið 17.12.2012)

Hugmyndin er að gera úr vinnubúðunum 8-10 hótel með um 100 herbergjum í hverju sem staðsett verða víðsvegar um landið. Alls með eitthvað nálægt þúsund herbergjum.

Ég efast ekki um að þetta gæti verið fjárhagslega arðbært til skemmri tíma fyrir þá sem að þessu standa. En til lengri tíma litið mun þetta bitna á ferðaþjónustunni í heild sinni hér á landi.

Með þessari viðskiptahugmynd er verið að leiða þjónustuna í átt að magni ferðamanna til þess að mæta eftirspurn nánast skilyrðislaust (metnaðarlaust).

Víða á landsbyggðinni er ferðaþjónustan að vinna með staðinn sérstaklega af miklum metnaði. Þar er ferðamennskan tekin lengra þannig að sjálf gistingin verður hluti af upplifun ferðamannsins. Húsin eru það sem kallað er á ensku “site specific” og henta þeim eina stað sem þau eru reist og staðsett.

Stefnt er að því að laða að ferðamenn sem kunna að meta sérstöðuna og anda staðarins þannig að þeir geti einnig notið sjálfrar gistingarinnar í þvi samhengi. Þetta er metnaðarfullur þankagangur sem mun skila miklu til langs tíma litið litið.

Ég nefni tvö hotel sem ég þekki vel til og eru svona hugsuð.

Annars vegar Hótel Flatey og hinsvegar Hótel Búðir á Snæfellsnesi. Þessi tvö hótel færa ferðamanninnum séríslenskt umhverfi og gistingu í húsum sem henta staðnum. Einstaka gistingu sem er eftirsóknarverð fyrir alla sem hana kunna að meta og er í sjálfu sér sérstök upplifun.

Nú stefnir í að ferðamannafjöldinn hér á landi nái 700 þúsund á ári. Er ekki hugsanlegt að nema staðar þar og hlúa að þessum 700 þúsund ferðamönnum þannig að allir fái það sem þeir eru að sækjast eftir allan sólarhringinn ?

Það gerum við ekki með því að bjóða uppá fyrrum vinnubúðir sem gistingu og mæta þannig eftirspurninni hvað sem það kostar ímyndina. Er þá ekki verið að leggja áherslu á magn frekar en gæði þannig að ferðamannaþjónustan étur sjálfa sig að lokum.

Við þurfum  að setja þak á fjölda ferðamanna og búa vel að þeim með séríslenskri aðstöðu í mat og allri þjónustu í vönduðm byggingum sem endurspegla menningu, sögu og náttúru staðanna.

Ég velti fyrir mér hvort það samræmist menningarstefnu íslenskra stjórnvalda í mannvirkjagerð að dreifa vinnubúðum um viðkvæmar sveitir og náttúru landsins?

Efst í færslunni mynd af vinnubúðum á Reyðarfirði. Að neðan eru svo myndir frá  Hótel Búðum og Hótel Flatey og svo mynd af vinnubúðum á virkjanasvæði hálendisins og stríðsminjum í Hvalfirði..   

 

Aðlaðandi hugmynd gæti verið hótel í braggahverfinu við Miðsand í Hvalfirði. Þar gætu ferðamenn fengið tækifæri til að upplifa stemmingu stríðsáranna í viðigandi umhverfi.

Við sérstakar aðstæður er sjálfsagt að nota vinnubúðir sem hótel. Hálendishótelið við Sigöldu  á rétt á sér vegna þess að það er á virkjanasvæðinu sjálfu. Þeim stað sem það hefur alltaf verið og gefur innsýn inn í aðstæður vinnumanna á þeim tíma sem virkjað var. En að flytja vinnubúðir með þúsund herbergjum og sáldra þeim um landið ber ekki vott um metnaðarfulla ferðaþjónustu.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 18.12.2012 - 05:58 - 3 ummæli

Framtíð Kvosarinnar árið 1991

 

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti í september 1989 að beita sér fyrir stofnun þróunarfélags um miðbæ Reykjavíkur. Miklu var tjaldað til og var félagið stofnað í Höfða 15. nóvember 1990. Félagið var látið heita „Þróunarfélag Reykjavíkur“

Markmið Þróunarfélags Reykjavíkur var að efla miðborg Reykjavíkur sem miðstöð stjórnsýslu ríkis og borgar, menningarlífs, verslunar og þjónustu og samræma hugmyndir hagsmuna- og framkvæmdaaðlia um uppbyggingu. Þetta voru allt ágæt markmið.

En skoðum leiðirnar að markmiðunum sem menn voru að horfa til.

Að ofan  skýringarmynd sem mér var send um hugmyndir Þróunarfélags Reykjavíkur um framtíð Kvosarinnar fyrir rúmum 20 árum. Mér skilst að tillögurnar hafi verið settar formlega fram og í samræmi við helstu markmið félagsins.

Maður sér að þrátt fyrir að ágætt tillit sé tekið til gangandi fólks (gulusvæðin) þá eru bifreiðastæði áberandi ofanjarðar(bleiku svæðin). En auk þeirra er mikill fjöldi bifreiðastæða fundinn staður í byggingum við Tryggvagötu og undir Ráðhúsinu og víðar. Auk þess er gert ráð fyrir um 200 stæðum undir Austurvelli.  Á þessum árum var einnig, í fullri alvöru, verið að velta fyrir sé bifreiðastæðum undir tjörninni fyrir þúsundir bifreiða.

Þarna sér maður að Miðbakkinn hefur ekki verið færður út og skemmur Ríkisskipa eru hugsaðar fyrir sædýrasafn. Öll húsin sem liggja að Tryggvagötu eru samtengd og kölluð „Tryggvaborg“. Þar yrðu skrifstofur, verslanir veitingastaðir og margháttuð menningarstarfssemi.

Það er forvitnilegt að  velta fyrir sér framtíðarsýn ráðamanna um Kvosina fyrir bara tveim áratugum.

Hér er slóð að viðtali við Pétur Sveinbjarnarson sem starfaði fyrir Þróunarfélag Reykjavíkur fyrir 21 ári þegar viðtalið ver tekið:

http://101reykjavik.is/2012/07/vidtal-vid-petur-sveinbjarnarson-fra-1991/

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 15.12.2012 - 23:07 - 12 ummæli

Eyðibýlin – viðskipatækifæri komandi ára?

Undanfarin tvö ár eða svo hefur orðið viss vakning í umræðu um eyðibýli hér á landi . Sum eyðibýlanna, sem eru á þriðja þúsund, standa uppi meðan önnur eru nánast rústir einar eða jafnvel bara tóftir. Flest eiga þau það sameiginlegt að bæjarstæðin eru falleg og hafa uppá mörg tækifæri að bjóða í sínu nánasta umhverfi.

Ég birti hér myndir af fallegu  slíku húsi á Írlandi sem sýnir hvernig umbreyta má gömlu húsi og færa það til nútímans án þess að anda þess né einkennum sé misboðið að marki.  Arkitektastofan Peter Leggen Asosiates http://www.plaarchitects.ie/ sem sérhæfir sig í endurbyggingu og viðbyggingar við eldri hús er höfundur.

Færslunni fylgja ljósmyndir af umræddu húsi.

Á Íslandi eru nokkrar stofur (ARGOS, Gullinsnið og fl) sem hafa valið sér þetta sérsvið, að endurbyggja gömul hús og byggja við þau. Þá er að koma upp hópur ungs fólks sem hefur sinnt þessu vel í sinni rannsóknarvinnu og gefið í því sambandi út  þrjá bæklinga um efnið sem má nálgast á bóksölu Þjóðminjasafnsins. Nánari upplýsingar má finna hér: http://www.eydibyli.is/

Vonandi tekur fólk sig á og bjargar þessum vcrðmætum frá algerri glötun. Reyndar hef ég ekki sérlega miklar áhyggjur af því vegna þess að hér fer saman húsverndun, verndun menningararfsins og aldeilis ágætt viðskiptatækifæri fyrir þolinmótt fé. Eftirspurn eftir endurbyggðum eyðibýlum mun, að mínu viti, aukast stórlega á komandi árum.

En þess ber að gæta að hér eins og annars staðar þarf að vanda til verka ef  á til að takast. Því miður er samt ástæða til þess að óttast nýja byggingareglugerð  þegar þessi mál eru til umræðu eins og sjá má af grein Magnúsar Sakúlasonar sem birtist nýlega í fjölmiðlum: http://www.visir.is/ny-byggingarreglugerd—husvernd/article/2012712129937

Sjá einnig:

http://blog.dv.is/arkitektur/2011/08/24/hver-a-eydibylin-og-hvad-eru-thau-morg/

http://blog.dv.is/arkitektur/2011/08/06/eydibyli-vaxandi-ahugi/

http://blog.dv.is/arkitektur/2011/08/03/eydibyli-a-melrakkaslettu/

 

 

 

 

Malarvegurinn, trjáleysið, hesturinn, húsið og víðáttan er sjarmerandi. Svona aðstæður er víða að finna við íslensk eyðibýli.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 13.12.2012 - 12:31 - 15 ummæli

Skortur á þjónustu í Grafarvogi og víðar í íbúðahverfum.

Undanfarið hafa ýmsar þjónustustofnanir lokað útibúum sínum í Grafarvogi. Þar er nú engin Sorpa, enginn banki, engin lögreglustöð, engin vínbúð og ekkert pósthús. Fréttablaðið gerði þetta að umfjöllunarefni fyrir skömmu.

Þetta fyrirkomulag gerir það að verkum að íbúarnir þurfa að fara út fyrir hverfið sitt til að sækja þessa þjónustu með stóraukinni bifreiðaumferð og miklum kostnaði.

Grafarvogur er næstfjölmennasta hverfi borgarinnar á eftir Breiðholti, en þar búa rúmlega átján þúsund manns.

„Ég tók þetta fyrir á fundi hverfaráðs og spurði hvað borgin sæi sér fært að gera til að þróunin verði ekki þessi í stóru hverfum borgarinnar, að þau séu bara svefnhverfi. Þegar verið er að skipuleggja þessi hverfi er gert ráð fyrir þessari þjónustu.“ Er haft eftir Elísabetu Gísladóttur, formanns íbúasamtaka Grafarvogs í Fréttablaðinu vegan málsins. Og Elisabet heldur áfram:„Borgin segist ekkert geta gert í þessu. Það er spurning hvort það þurfi ekki að endurskipuleggja borgir og hverfi.“

Þarna hittir Elísabet naglann á höfuðið. Það er ýmislegt hægt að gera og eitt er að endurskipuleggja nánast öll hverfi borgarinnar með þessi atriði í huga. Líka nýjustu hverfin. Þetta er sérstaklega mikilvægt í ljósi stefnumörkunnar borgarinar um breyttar ferðavenjur.

Meginástæðan fyrir flótta þjónustunnar út úr íbúðahverfunum er hagræðing hjá þeim sem selja þjónustuna.

En það er fjarri því að  hagræðing fyritækjanna skili sér til íbúanna. Þvert á móti veldur þessi sparnaður fyritækjanna  miklum útgjöldum fyrir borgarbúa og ekki síður fyrir borgarsjóð.

Það er rétt að taka það fram að þessi þróun á ekki eingöngu við um Grafarvog.  Svona er þetta víða í hverfum borgarinnar. Borgin  er meðvituð um þetta og hefur þegar lagt upp með vinnu við endurskipulagningu allra hverfa borgarinnar og er gert ráð fyrir því að sú vinna verði sett í gang í byrjun árs 2013.

Sjá einnig eftirfarandi slóðir:

http://www.gislimarteinn.is/?p=1309

http://blog.dv.is/arkitektur/2012/11/08/nytt-hverfaskipulag-i-reykjavik/

 

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 11.12.2012 - 12:34 - 10 ummæli

Laugavegur á aðventu –“PPS” gata?

  

Götur eru flokkaðar á margvíslegan hátt eftir hlutverki þeirra í borgarskipulaginu. Allt frá hraðbrautum um safngötur til húsagatna.

Svo eru til allskonar undirflokkar þar á milli.

Það er talað um götur á borð við Laugaveg eins og hann er nú sem götu með „seitlandi“ umferð bíla.

Svo eru það vistgötur (Shared Streets) þar sem gangandi og akandi hafa jafnan rétt. Og að lokum eru það hreinar göngugötur eins og Strikið í Kaupmannahöfn og austari hluti Austurstrætis.

Nú hefur hinn mikli hugmyndafræðingur, Jan Gehl,  skotið inn einum götuflokki til viðbótar. Það er gata sem hann kallar “Pedestrian Priority Street”. Þar á hann við götu þar sem bílaumferð er leyfð en gangandi hafa forgang. Það er að segja öfugt við Laugaveginn í dag. Á Laugaveginum á hin seitlandi umferð akandi réttinn og hinum gangandi ber  að víkja.

Umferðamál Laugavegarins hafa verið mikið rædd undanfarin ár. Fólk hefur einkum rætt tvo möguleika.  Annarvegar núverandi ástand og hinsvegar að gera götuna að göngugötu allt árið eða eftir árstímum.

Nú vísar Gehl á þriðja kostinn sem er “PPS” leiðin sem er auðvitað málamiðlun. Við þá leið geta þeir sem eiga erfitt um gang eða þurfa að komast akandi að dyrum verslana og þjónustu gert það, en það mun verða timafrekt vegna þess að gangandi vegfarendur munu tefja fyrir umferð bíla.

Spurt er hvort ekki sé tilefni til þess að gera Laugaveginn að “Pedestrian Priority Street” á aðventunni og yfir sumarmánuðina sem skref í átt að hreinni göngugötu framtíðarinnar?

Hjálagt eru tvö myndbönd. Annað sýnir ástandið á Laugaveginum í dag, á aðventunni, og hið síðara er stikla úr efni frá Jan Gehl um borgir fyrir fólk. Efst er mynd tekin á laugavegi s.l. sumar. Neðst er skemmtileg mynd sem sennilega er tekin á fjórða áratug síðustu aldar.

Sjá tengil um High line park í New York:

http://blog.dv.is/arkitektur/2011/09/07/high-line-park-i-new-york-miklabraut/

Tngill um Broadway:

http://blog.dv.is/arkitektur/2011/02/03/broadway-ny-gongugata/

Sjá tengil um vistgötu:

http://blog.dv.is/arkitektur/2011/03/30/shered-street-vistgata/

Hér er tengill að mikilli skýrslu um tækifæri og skilning á “High Street” fyrir forfallna áhugamenn um slíkt. 

http://www.bis.gov.uk/assets/biscore/business-sectors/docs/u/11-1402-understanding-high-street-performance.pdf

 

 

 

Myndin að ofan er tekin  á Laugarveginum um það bil sem bílanir voru að taka völdin frá þeim sem ferðuðust fótgangandi.  Er ekki komið að því að fótgangandi endurheimti yfirráð sín á götunnu?

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 5.12.2012 - 14:14 - 5 ummæli

Jóhannes Kjarval arkitekt

Vinur minn og kollegi, Jóhannes Kjarval, lést á líknardeild Ladspítalans s.l. laugardag þann 1. desember eftir langvarandi veikindi. Hann varð 69 ára gamall.

Þarna er genginn ástríðufullur arkitekt sem hafði auga fyrir hinu smáa, jafnt og hinu stóra í umhverfinu og breytti engu hvort  það var mannanna verk eða gert af meistarans höndum.  Hann hafði  auga fyrir því sem vel var gert og sá hvað betur mátti fara.  Ég þekki fáa arkitekta  jafn áhugasama um starf sitt og Jóhannes. Hann vildi ræða málefni líðandi stundar jafnt sem hið sögulega samhengi.  Þó Jóhannes hafi helgað starfsæfi sína hinum stóru skipulagsmálum þá var áhugi hans ekki síður bundin hinu smæsta í umhverfinu.  Eftir hann liggja mörg mjög athyglisverð skipulagsverkefni auk allnokkurra merkilegra bygginga á borð við kvikmyndahúsið Regnbogann og Fjölbrautarskólann á Sauðárkróki.

Jóhannes starfaði hjá borgarskipulagi Reykjavíkur, var skipulagsstjóri Hafnarfjarðar um árabil, árangursríkur í samkeppnum og eftir hann liggja mörg fyrirmyndarverk.

Ég vil sérstaklega geta endurbyggingu Laugarvegar árið 1985 sem hann vann með Kristjáni Ásgeirssyni arkitekt. Verkið var unnið á tímum sem lítill skilningur var meðal fólks á slíkum verkefnum og má þess vegna telja  þrekvirki.  Jóhannes sagði mér frá baráttu arkitektanna fyrir nánast öllu sem verkið varðaði.  Allt frá rósettum umhverfis borgartrén um polla við gangstéttarbrún og lýsingu, ruslatunna,  granitsteina og til bílastæða.  Þó fólk átti sig ekki á því þá varð þetta verk mikilvægur hvati til varnar hrörnunar Laugavegarins á sínum tima.

Ég hitti Jóhannes síðast á heimili hans fyrir stuttu. Þar vakti hann athygli mína á smáatriðum í opnum borgarrýmum. Hann nefndi tengibox orkuveitunnar og gangstéttarlögn og margt fleira í borgarrýminu. Það er gott þegar fólk opnar augu manns fyrir hlutum sem maður er hættur að sjá í doða hversdagsleikans

Jóhannes nam arkitektúr við Heriot-Watt University í Edinborg á árunum 1966-1973 og fór síðan aftur til Edinborgar til þess að nema skipulagsfræði við sama skóla árin 1974-1975  með áherslu á borgarskipulag (Urban design).

Jóhannes var virkur í félagsmálum og vann öll sín verk af kostgæfni. Jóhannes sat í stjórn Arkitektafélagsins, Torfusamtakanna, Bandalagi Háskólamanna, Myndstefs og í Kirkjulistarnefnd Þjóðkirkjunnar og víða annarsstaðar.

Endurhönnun Laugavegarins varð til þess að hann lifði af flótta verslunar inn í Kringlumýri, Múla og Skeifu sem öll ógnuðu gamla miðbænum og Laugaveginum sérstaklega. Frábær hönnun arkitektanna frá árinu 1985.

  

 Fyrir stuttu átti ég spjall við Jóhannes á heimili hans þar sem hann gerði að umtalsefni litlu hlutina í borgarrýminu. Hann benti á nokkur atriði í hverfinu okkar, Vesturbænum. Eitt dæmið var  tengiboxið hér að ofan sem sett er einmitt á þann stað sem garðveggurinn er vandaðastur. Húsbyggjendur hafa sett grindverk á bláhornið til þess að létta á ásýndinni og gefa betri sýn fyrir horn. Þá koma einhverjir og staðsetja tengiboxið einmitt þar, af tæru tillitsleysi.

Svo nefndi hann fráganginn þegar verið er að leggja ljósleiðara í steyptar gangstéttar. Þar fara menn eins og umhugsunarlaust eftir gangstéttinni miðri og setja svo stubba að húsunum. Steypa svo í opið og halda á brott frá stagbættri gangstéttinni.  Hefði ekki verið tillitssamara að hafa aðalrásina næst húsunum eða þá næst gangstéttarbrúninni?  Ég tók myndina að ofan í hádeginu í dag af einum slíkum frágangi.  Jóhannes nefndi einnig  tengibox við styttu Einars Jónssonar  sem heitir Útlaginn við Melatorg þar sem komið hefur verið fyrir fyrirferðamiklum tæknibúnaði sem skapar óróleika við styttuna tilkomumikla. Ég á ekki ljósmynd af þessu en takið eftir því næst þegar þið akið Hringbrautina.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn