Laugardagur 27.8.2011 - 23:20 - 12 ummæli

Mannvirkjalög – ekki fyrir arkitekta?

Í greinargerð með frumvarpi til mannvirkjalaga er að finna þessa fróðlegu upptalningu á þeim sem komu að gerð frumvarpsins.

Í nefnd um endurskoðun byggingarlagaþáttarins áttu sæti:

  • Ingimar Sigurðsson, skrifstofustjóri umhverfisráðuneytinu, formaður
  • Ingibjörg Halldórsdóttir, lögfræðingur í umhverfisráðuneytinu
  • Smári Þorvaldsson, deildarstjóri í umhverfisráðuneytinu
  • Ágúst Þór Jónsson, verkfræðingur, tilnefndur af forsætisráðuneyti
  • Eyjólfur Bjarnason, tæknifræðingur, tilnefndur af Samtökum iðnaðarins
  • Magnús Sædal, byggingarfulltrúi, tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga
  • Björn Karlsson, brunamálastjóri, tilnefndur af Brunamálastofnun

Nefndinni var ætlað að hafa náið samráð við eftirtalda aðila við gerð frumvarpsins:

  • Ólaf K. Guðmundsson, byggingarfulltrúa, tilnefndan af Félagi byggingarfulltrúa
  • Baldur Þór Baldursson, húsasmíðameistara, tilnefndan af Meistarafélagi húsasmiða
  • Sigmund Eyþórsson, slökkviliðsstjóra, tilnefndan af Félagi slökkviliðsstjóra á Íslandi
  • Stefán Thors, skipulagsstjóra, tilnefndan af Skipulagsstofnun
  • Jón Sigurjónsson, yfirverkfræðing hjá Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins, tilnefndan af iðnaðarráðuneyti
  • Hauk Ingibergsson, forstjóra, tilnefndan af Fasteignamati ríkisins
  • Kristján Sveinsson, verkfræðing, tilnefndan af Félagi ráðgjafarverkfræðinga
  • Guðjón Bragason, skrifstofustjóra, tilnefndan af félagsmálaráðuneyti
  • Guðmund Magnússon, tilnefndan af Öryrkjabandalagi Íslands

Er ekki eins og það vanti einhverja þarna?

Þarna er enginn fulltrúi arkitekta og aðeins ein kona.

Fyrir þá sem ekki þekkja til þá varða lögin störf arkitekta meira en nokkra aðra stétt. Kannski eru þessi lög ekki ætluð arkitektum!

Maður spyr sig hvort enginn þeirra 16 einstaklinga sem að ofan eru nefndir hafi gert athugasemd við að engan fulltrúa arkitekta sé að finna í þessum stóra  hóp? Það ber þó að halda því til haga að Stefán Thors, einn samráðsmanna, er arkitekt, en hann er þessum hóp sem embættismaður

Umhverfisnefnd alþingis á að sinna málum þjóðarinnar á alþingi. Þeir eru fulltrúar almennings og eiga að gæta hagsmuna hans. Gerði enginn þeirra athugasemd við að arkitekta vantaði í þennan fjölmenna hóp? Sennilega ekki.

Stétt mín nýtur ekki mikillar virðingar á hinu háa Alþingi eða í risavöxnu embættismannakerfinu, kerfiskallana.

Ef listinn að ofan er skoðaður þá einkennist hann af kerfisköllum.  Ég vek athygli á að af þessum 16  er ein kona. Konum er ekki treyst!

Er það virkilega svo að kerfiskallar eru helstu áhryfavaldar í löggjöf hér á landi?.  Og hverjir eru helstu hagsmunir kerfiskalla?  Eru þeir ekki einmitt  að viðhalda kerfinu!

Þetta geta seint talist vönduð vinnubrögð, enda bera lögin þess merki.  Þar er t.a.m. hvergi minnst á  menningarlegt gildi mannvirkja og orð eins og byggingarlist, fagurfræði eða menningararfur koma þar hvergi fyrir.  En einmitt þessi atriði eru megintilgangur sambærilegra laga á hinum norðurlöndunum.

Maður spyr sig hvort það sé nema von að virðing fólks fyrir Alþingi fari þverrandi.

Um þessar mundir er verið að fjalla um byggingareglugerðina, sem er  framhald af lagasetningunni. Fróðlegt væri að vita hvernig þeirri vinnu er háttað.

Sjá einnig:

http://www.visir.is/article/201061288401

og ágætar umræður um ný mannvirkjalög er að finna á þessari slóð:

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2011/03/16/gollud-mannvirkjalog/

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 24.8.2011 - 15:33 - 15 ummæli

Hver á eyðibýlin og hvað eru þau mörg?

 

Ég hef fengið margar fyrirspurnir vegna færslna minna um eyðibýli fyrr í mánuðinum. Fólk spyr hvað eyðibýlin séu mörg og hver eigi þau?.

Hér koma nokkrar tölur:

Á landinu öllu eru skráð 6562 býli, þar af eru 2272 skráð sem eyðibýli. Búið er á 4290 jörðum. 

Hagþjónusta landbúnaðarins taldi að í árslok 2009 væru alls í eigu ríkisins 163  jarðir í eyði. Þarna eru ekki taldar allar jarðir Landgræðslunnar og Skógræktar Ríkisins sem almennt eru ekki skilgreindar sem lögbýli í eyði. Ekki veit ég hvort bújarðir í eigu kirkjunnar séu þarna meðtaldar. Sennilega ekki.

Til viðbótar koma eyðibýli í eigu sveitarfélaga. 

Samkvæmt þessu má álykta að eyðibýli í eigu ríkis, sveitarfélaga og kirkju skipti nokkrum hundruðum.

Finna þarf ráð til þess að snúa þróuninni við og skapa umhverfi sem fær fólk til þess að ráðast í  endurbyggingu. Skapa þarf aðstæður sem auðvelda fólki að hefja uppbyggingu. Færa frumkvæðið til fólksins.

Hugsanlega væri hægt selja á eyðibýlin til áhugasamra án þess að jörðin fylgi með. Fella á út hugsanlegar kvaðir um búsetu eða landbúnaðarnot og heimila afnot sem sumarhús.

Hvert eyðibýli yrði selt á svo sem eina krónu með kvöð um faglega uppbygginu innan einhverra tímamarka.  Eyðibýlunum eða rústunum fylgdi landspilda uppá svona 4-10 þúsund fermetra.

Þessi leið mundi vonandi verða til þess að menningarverðmæti færu ekki til spillis. Þetta gæti  skapað mikla vinnu fyrir öll stig byggingariðnaðarins frá hönnun til framkvæmda.

Uppbygging færi af stað án fjárhagsaðstoðar úr tómum sjóðum hins opinbera.

Hjálagðar eru myndir sem ég tók fyrr í sumar af Baugaseli norður Barkárdal innaf Hörgárdal sem gert hefur verið upp af áhugasömum.

Býlið situr fallega í landinu eins og það sé hluti af náttúrinni og sprottið úr henni. Húsin gefa umhverfinu mælikvarða sem eykur skilning vegfarandans á því sem fyrir augu ber.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 21.8.2011 - 20:55 - 6 ummæli

Bessastaðanes–Náttúran-Flugvöllur

Björn Vignir Sigurpálsson blaðamaður sendi síðunni eftirfarandi texta. Þarna drepur Björn á málum sem ekki hafa verið mikið í umræðunni. Hann bendir á mikilvægi Bessastaðaness sem óraskað náttúrusvæði og styðst við skýrslu fræðimanna hvað það varðar. Þessi hugleiðing á  fullt erindi i umræðuna um Reykjavíkurflugvöll og hugsanlega uppbyggingu á Bessastaðanesi.

Gefum Birni orðið:

Nokkuð virðist umræða sem hér hefur farið fram um að flytja vandamálið flugvöll úr Vatnsmýrinni yfir á Bessastaðanesið vera hvatvís og vanhugsuð.

Er þar látið eins og Bessastaðanesið sé einskis virði og ekki þurfi að hafa af því neinar áhyggjur að landnýtingu þar sé gjörbreytt. Verður því ekki komist hjá að benda á úttektina Gróður og fuglalíf á Álftanesi sem Náttúrufræðistofnun Íslands vann fyrir Sveitarfélagið Álftanes sumarið 2004. Þetta er ítarleg skýrsla og vönduð og þar segir m.a.:

Þegar litið er yfir loftmyndir af Innnesjum þ.e. af svæðinu frá Kjalarnesi og suður fyrir Hafnarfjörð, sést að byggð hefur þést gífurlega einkum á síðari hluta 20. aldar. Mest hefur byggðin aukist á Seltjarnarnesi hinu forna, Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði. Óskertum svæðum á láglendi hefur því fækkað mjög. Stærstu svæðin á láglendi sem ekki hafa verið skert með byggð, vegum og öðrum framkvæmdum eru eyjarnar á Kollafirði, Geldinganes og Bessastaðanes. Verðmæti þessara óbyggðu láglendu svæða sem náttúrusvæða eykst ár frá ári í réttu hlutfalli við þéttingu byggðar með sífellt fleiri íbúum sem óska eftir aðstöðu til útivistar í nágrenni sínu.

Náttúrufræðistofnun Íslands telur að hið tiltölulega óraskaða Bessastaðanes hafi mikið gildi sem náttúrusvæði. Í þessu sambandi er vísað til Edinborgar í Skotlandi sem hliðstæðu. Inni í borgarlandi Edinborgar er allstórt óbyggt svæði, Holyrood Park, sem tilheyrir bresku krúnunni og þar er aðsetur þjóðhöfðingja. Vegna þess að þetta land tilheyrir krúnunni hefur það notið friðunar og er óbyggt þó það sé nánast jaðri gamla bæjarins og þétt byggð liggi að því. Í dag er svæðið að hluta til opið almenning, sem nýtir það til gönguferða og náttúruskoðunar og hefur mikið aðdráttarafl.

Það fer því ekki á milli mála að Álftanes er mikil náttúruperla. Í því felst mikil ábyrgð og um leið ögrun fyrir íbúa nessins að þróa farsæla byggð og mannlíf í góðum tengslum við villta náttúruna þannig að hún fái að þróast áfram sem mest á eigin forsendum.

Um Bessastaðanes segir sérstaklega:

„Stefna ætti að því að viðhalda þessu óraskaða landi á Bessastaðanesi og bæta um betur með að friða landið algjörlega fyrir beit og öðrum ágangi. Æskilegt er að leggja

göngu- og hjólastíg um nesið til þess að fólk geti notið þar óspilltrar náttúru. Í henni felst mikill auður. Umhugsunarvert er hvort ekki er ástæða til að halda fáeinum völdum túnum við Bessastaði sunnan við í rækt til gæsbeitar, einkum vegna margæsar, þó svo að almenna reglan verði að endurheimta sem mest af votlendi.

Ríkulegt fuglavarp og mikið fæðuframboð á fjölbreyttum búsvæðum er forsenda mikils fuglalífs á Álftanesi. Fuglar verpa nær eingöngu á óbyggðum og óræktuðum svæðum og aukin byggð og breyttar nytjar munu þrengja að varplendum þeirra. Bessastaðanes lítt raskað og afar mikilvægt svæði fyrir mófugla, þar sem þeir þrífast í skjóli friðunar æðarvarpsins.

Mjög varlega verður að fara í að opna það svæði fyrir umferð. Mjög mikið mófuglavarp er á grandanum milli Lambhúsatjarnar og Skógtjarnar og mikilvægt að það svæði haldist óskert áfram.“

Er ekki rétt að huga fyrst að náttúrunni og umhverfinu áður en hugmyndum er kastað fram að meira og minna óathuguðu máli?

Skýrsluna sem Björn vitnar í má finna í heild sinni á þessari slóð:

http://www.ni.is/media/midlunogthjonusta/utgafa/Alftanes_04012_150dpi.pdf


Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 17.8.2011 - 23:37 - 6 ummæli

Gehry á suður Jótlandi-„the Bilbao effect“

Frank Gehry er 82 ára gamall stjörnuarkitekt sem hefur gert mörg stórvirki á sviði byggingarlistar víða um heim. Sum verka hans skipta máli í ferðamannaiðnaðinum.  Guggenheim safn Gehrys setti Bilbao á landakortið að sumra mati.

Hin síðari ár virðist hafa hlaupið snobb og ofmat á gamla manninn og hans nafni.

Sumir málsmetandi  gagnrýnendur telja seinni verk hans svo rugluð(!) að þeir hafa ráðlagt honum að hætta að praktísera og fara á eftirlaun.

Ég hef skoðað mörg verk Gehry og alltaf fundist þau forvitnileg (kuriös) og stundum góð.  Ég nefni Walt Disney Concert Hall í Los Angeles sem dæmi um afburða gott verk.

Nú hefur Gehry tekið að sér að gera rammaskipulag (masterplan) fyrir höfnina í Sönderborg á suður Jótlandi í Danmörku ásamt því að hanna eina aðalbyggingu svæðisins, „kunsthall“.  Það má búast við að áætlunin taki svona 15-20 ár í framkvæmd svo Gehry verður um einnar aldar gamall þegar klippt verður á borðann.

Hjálagt eru nokkrar ljósmyndir af líkönum af rammaskipulaginu ásamt myndbandi sem ég ráðlegg áhugasömum að skoða. Þar kemur fram guðleg dýrkun stjórnmálamanna og menningarfrömuða á stjörnu arkitektinum.  Einn segir beinlínis að hugsanlega verði verk Gehrys í Sönderborg tilnefnt sem eitt af undrum veraldar og verði þar í félagsskap með Keopspíramidanum og The Grate Wall of China!

Þetta gengur svo langt að manni dettur í hug hvort þetta sé spaug.

En svo er því miður ekki.

En þetta er ekki óþekkt hegðun þegar stjörnulistamenn eiga í hlut og þá gildir einu hvaða listgrein á í hlut.  Við þekkjum þetta hér á landi. Maður spyr sig einnig hvort þarna sé verið að plata sveitamanninn og smáborgarann með nafni listamannsins einu saman.  allavega  liggur snilldin ekki  í augum uppi ef marka má kynninguna í Sönderborg? Byggingar þær sem hann leggur til að verði þarna virðast ekki vera í samræmi við fíngerða eldri byggð eða suðurjóskann anda staðarins.  Gerhy talar samt um að byggja í samræmi við „the architecture of the region“.  Hver trúir að honum takist það?

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 15.8.2011 - 12:27 - 8 ummæli

Reykjavíkurhöfn – Mýrargötuskipulagið

Eftirfarandi barst frá einum lesanda síðunnar sem er áhyggjufullur vegna framkvæmda á Slippasvæðinu við Reykjavíkurhöfn. Hann vitnar í nýjasta eintak af því ágæta blaði Vesturbæjarblaðinu og segir:

Tíðindalaust á vesturvígstöðvunum.

Þessi bókartitill kom í hugann þegar  síðasta eintaki Vesturbæjarblaðinu var flett, en blaðið hefur eiginlega tekið að sér að vera fundargerðagerðabók skipulags- og byggingarmála í Vesturbænum í Reykjavík og næsta nágrenni.

Eða réttara sagt, betur væri að að tíðindalaust væri á vesturvígstöðvunum, en því var ekki að heilsa. Herstjórnin í Borgartúni hafði í visku sinni og herkænsku ákveðið að verðlauna fjáraflamenn enn einu sinni með því að leyfa átta hæða byggingu við Mýrargötuna, 5 eða 6 hæðir ofan á það sem komið er og staðið hefur sem rústir undanfarin ár. Að vísu með þeirri breytingu að ekki væri um lúxusíbúðir að ræða, heldur bara venjulegar íbúðir. Menn eru nú ekki í meirihluta fyrir ekki neitt.

Skipulag Mýrargötunnar gerði á sínum tíma (2006) ráð fyrir 5 hæðum og þótti nú vel í lagt þegar byggja átti nýjan “hafnarfront” eins og í nágrannalöndunum, vísa slippunum út í hafsauga og athuga hvort trillukarlarnir væru ekki komnir á síðasta söludag.

Handan götunnar má svo sjá gulan borða á steypustyrktarjárnum, sem afmarka staðinn sem rússneska rétttrúnaðarkirkjan hefur fengið að helga sér, væntanlega með kúplum og turni og tilheyrandi. Innan um tveggja hæða íbúðarbyggð, timbur- og steinhúsa frá fyrri hluta tuttugustu aldar.

Tíðindalaust? Nei, því miður. Margt má bæta í gamla vesturbænum í Reykjavík, frágang gatna og bílastæða, umferðaröryggi, leiksvæðum má fjölga, endurskoða deiliskipulag til að koma í veg fyrir árekstra og reddingar en þessi birtingarmynd skipulagsins við Mýrargötu er ekki boðleg vesturbænum og svo sem ekki neinum

Þarna eru nú á vígvellinum CCP-húsið svokallaða og Sjóminjasafnið, myndarlegur frágangur á húsi og umhverfi, Allíansinn sem var friðaður, átta hæða húsið, sem gefur væntanlega tóninn fyrir aðrar byggingar á þessum svokallaða Slippreit.

Hvað skyldu hótelin sem þarna eiga að koma þurfa að verða há til að ná svokallaðri arðbærni?

Stríðið geisar enn í vesturbænum, stríðsherrarnir sitja í Borgartúni, og steypuklumparnir  munu verða þeirra minnismerki.“

Því má bæta hér við að í umsögn skipulagsstjóra dags. 13. maí 2011 segir m.a.: “Lagt er til að tekið verði jákvætt í að fjölga íbúðum frá 68 í 110 íbúðir, að þær verði 12 íbúðum færri en óskað er eftir. Lagt er til að húsið verði lækkað úr 7 hæðum í 5 og að 5. hæðin verði inndregin til að minnka áhrif byggingarinnar á umhverfi sitt…..”

Þarna má skynja að skipulagsyfirvöld eru eitthvað að spyrna við fæti í þessu máli. Hinsvegar er ég þeirrar skoðunnar að þetta skipulag þurfi í heild sinni á endurskoðun að halda eins og morg önnur svæði sem skiðpulaögð voru í góðærinu og aðdraganda þess.

„Handan götunnar má svo sjá gulan borða á steypustyrktarjárnum, sem afmarka staðinn sem rússneska rétttrúnaðarkirkjan hefur fengið að helga sér, væntanlega með kúplum og turni og tilheyrandi. Innan um tveggja hæða íbúðarbyggð, timbur- og steinhúsa frá fyrri hluta tuttugustu aldar“.

Byggingin sem er á milli litla steinbæjarins og Allianshússins. Nýbyggingin sem hefur staðið eins og rúst í allnokkur ár stefnir í að verða einar 7-8 hæðir ef mætt er óskum húsbyggjanda.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 10.8.2011 - 11:59 - 5 ummæli

Nýtt vestnorrænt menningarhús í undirbúningi

Nú er undirbúningur að byggingu vestnorræns menningarhúss í Danmörku á lokastigi.

Um miðjan júlí s.l. lá fyrir hvaða fimm teymi voru valin til þess að leggja fram tillögur að húsinu sem rísa mun í Odense á Fjóni.

Enga arkitektastofu frá Grænlandi, Færeyjum eða Íslandi er að finna í teymunum.

Þetta vekur athygli þegar um er að ræða byggingu sem á einmitt að kynna vestnorræna menningu.

Arkitektastofurnar sem valdar voru eru allar danskar: Aart Architects A/S, Gassa arkitekter, PLH Arkitekter, Isager arkitekterAps og SHL architects.

Það er þó huggun í því að Gassa Arkitekter í Kaupmannahöfn er rekin af íslendingunum Guðna Tyrfingssyni arkitekt og Auði Alfreðsdóttur innanhússhönnuði.

Vestnorræna menningarhúsið á í senn að vera samkomustaður Grænlendinga, Íslendinga og Færeyinga jafnframt því að vera sýningargluggi vestnorrænnar menningar í Danmörku.  Stefnt er að því að húsið verði sjónarhóll og kennileiti vestnorrænnar menningar í Danmörku og að það verði “fallegt og nútímalegt þannig að fólk vilji sækja það heim”

Ástæðan fyrir því að engar íslenskar, færeyskar eða grænlenskar arkitektastofur eru í teymunum er sú að valin var alútboðsleiðin þar sem verktakar velja hönnuðina.

Alútboðsleiðin á oft vel við, en alls ekki þegar um menningarhús á borð við þetta á í hlut. Hér hefði verið viðeigandi að halda opna samkeppni meðal arkitekta í vestnorrænu löndunum þrem hugsanlega með danskar stofur sem undirverktaka. Túlka má þá leið sem farin er sem skilningsleysi undirbúningsnefndarinnar á vestnorrænni menningu.

Í undirbúningsnefndinni sitja fjórir danir og einn fulltrúi frá hverju landanna þriggja sem framkvæmdin snýst um. Íslenski fulltrúinn er  Sigríður Anna Þórðardóttir fyrrv. umhverfisráðherra.

Nánar má lesa um framkvæmdina á þessari slóð:

http://nordatlantiskhus.dk/

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 6.8.2011 - 18:03 - 3 ummæli

Eyðibýli – Vaxandi áhugi

Mér hefur verið bent á að  ýmislegt er að gerast varðandi eyðibýli á landinu.  Mikill fjöldi fólks er að velta fyrir sér framtíð þessarra merku bygginga.

Áhuginn er mikill og fer vaxandi, eðlilega.

Nýverið styrkti Nýsköpunarsjóður námsmanna 5 vaska háskólanema til tveggja mánaða skráningarvinnu þar sem þeir skrá eyðibýli á suðurlandi. Að þessu verkefni hafa einnig komið Húsafriðunarsjóður, Kvískerjasjóður og Sveitarfélagið Hornafjörður sem öll veittu verkefninu fjárstyrki.  Þar fyrir utan hafa ýmsar stofnanir og skólar lýst yfir áhuga og samstarfsvilja.

Um þessar mundir eru nemarnir fimm að ljúka við frágang á afrakstri skráningarvinnunnar frá nú í sumar.

Markmiðið er að meta menningarlegt vægi einstakra húsa og varðveita þannig valin eyðibýli á suðurlandi og kanna grundvöll fyrir því að þessi yfirgefnu hús verði gerð upp. Í undirbúningshópnum eru arkitektar, sagnfræðingar og jarðfræðingur.

Þeir arkitektanemar sem hafa komið að verkefninu eru Arnþór Tryggvason, Árni Gíslason, Birkir Ingibjartsson, Steinunn Eik Egilsdóttur og Yngvi Karl Sigurjónsson. Leiðbeinendur eru Sigbjörn Kjartansson arkitekt, Ómar Bjarki Smárason jarðfræðingur og Gísli Sverrir Árnason.  Það ber að hrósa þessu fólki og stuðningsaðilum fyrir frumkvæðið og framlagið

Það verður gaman að fylgjast með framhaldinu.

Ljósmyndirnar sem hér fylgja eru fengnar frá Steinunni Eik Egilsdóttur. Efst er mynd af Þórisdal.

Sjá einnig:

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2011/08/03/eydibyli-a-melrakkaslettu/#comments

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2011/07/31/eydibyli-breytt-i-sumarhus/#comments

Múlakot

Sandasel

Suðurhús

Baldurshagi

Hlíðarendakot

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 3.8.2011 - 11:33 - 12 ummæli

Eyðibýli á Melrakkasléttu

Í síðustu færslu nefndi ég eyðibýli á Melrakkasléttu sem ég tók eftir á ferðalagi þar um slóðir fyrir nokkru.  Hjálagt eru  nokkrar myndir af einu þeirra.

Ég skoðaði húsið lítillega og sá að það hafði verið vandað til þess í upphafi. Viðir voru vel valdir og smíðin til fyrirmyndar. Til að mynda var stiginn í húsinu völundarsmíð (sjá ljósmynd) og efni valið af þekkingu og reynslu. Sömuleiðis var útidyrahurðin þannig smíðuð að lítil hætta var á að hún mundi vinda sig eða verpast.  Húsin þarna á bænum eru tvö, annað stendur á háum steyptum kjallara sem gefur fallegt útsýni í allar áttir úr björtum og fallega hlutfölluðum rýmum á aðalhæð hússins.

Það vöknuðu margar spurningar.

Ég veit ekki hvað bærinn heitir eða hvenær hann var byggður eða hvenær hann fór í eyði?

Hvers vegna hann var byggður þarna og hvers vegna hann var yfirgefinn?

Hver byggði hann og hver hannaði?

Hverjir bjuggu þarna og hvar eru niðjar þeirra niðurkomnir?

Hverjir fæddust í húsinu og hverjir létust þar?

Þessi hús hafa vafalaust mikla sögu og það er þyngra en tárum taki að horfa uppá þessi vönduðu hús  grotna niður. Væri ekki ráð fyrir félög eða félagasamtök að taka svona hús í fóstur.

Í Flatey á Breiðafirði eru það oftast 3-5 fjölskyldur sem hafa tekið húsin að sér með frábærum árangri og gert úr þeim gersemi sem njóta má um ókomna tíð.

Mörg eyðibýli og eldri hús í þorpum um land alt  eru mun áhugaverðari kostur til þess að verja frítíma sínum en flestar nútíma sumarhallirnar í skipulögðum frítímabyggðum. Það þarf að opna augu fólks fyrir þessum gæðum.

Kannski er þarna áhugaverð tækifæri fyrir Torfusamtökin, starfsmannafélög, fjölskyldur og einstaklinga? 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 31.7.2011 - 21:08 - 4 ummæli

Eyðibýli breytt í sumarhús

Í Flatey á Breiðafirði hafa niðjar breiðfirðinga og aðrir tekið sig til og endurnýjað hús forfeðra sinna og nota þau sem sumarhús.  Álíka tækifæri er að finna víða um land.

Það hefur undrað mig að þetta skuli ekki gert víðar.

Ég fór um Melrakkasléttu fyrir nokkru og sá mörg góð tækifæri til samskonar nálgunar þar. Og nú hef ég verið að sjá svona möguleika um allt land.

Þau skipta trúlega hundruðum yfirgefin eða illa haldin hús sem væru algerir demantar sem sumarhús. Það er alltaf  notalegt gista og gæla við hús með sögu.

Ég læt hér fylgja myndir af gömlu húsi í Skotlandi sem hefur verið gert upp sem frítímahús.  Húseigendur byggðu við húsið litla viðbyggingu sem hýsir baðherbergi og tvö svefnherbergi. Efnisval er hógvært og timbur látið veðrast þannig að það fær á sig geðþekka áferð öldrunar.

Þetta er steinhús sem sprottið er upp úr landslaginu og hvílir fallega í því án nokkurra landamæra milli landbúnaðarjarðarinnar, náttúrunnar og einkalóðarinnar.

Arkitektar eru Reiach and Hall í Edinborg.

http://www.reiachandhall.co.uk/index.htm

Grunnmynd

Snið

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 26.7.2011 - 15:42 - 72 ummæli

Þarf flugvöll á Reykjavíkursvæðið?

Nú hefur Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, sett umræðuna um Reykjavíkurflugvöll aftur á dagskrá og segir að tilvist hans sé ekki einkamál Reykvíkinga og þeirra sem þar starfa. Ögmundur telur að ákvörðun um hvort flugvöllurinn eigi að víkja úr Vatnsmýrinni skuli tekinn með þátttöku landsmanna allra.

Í kjölfar kosninga sem boðað var til um málið fyrir 10 árum var farið í þá vinnu að finna annan stað eða aðra lausn á flugvallamálinu. Leitin hefur ekki borið árangur. Vatnsmýrin er sagður eini raunhæfi staðurinn fyrir flugvöll í Reykjavík.

Því hlýtur spurningin í kosningum Ögmundar að vera hvort fólk vilji flugvöll á höfuðborgarsvæðinu eða ekki?

Það hefur verið sýnt fram á að staðsetning flugvallarins í Vatnsmýrinni hefur ruglað borgarskipulagið undanfarna áratugi þannig að það er ekki eins hagkvæmt og ella.  Ég er samt þeirrar skoðunar að flugvöllurinn eigi minni sök á óhagkvæmni í skipulagi borgarinnar en haldið er fram. Þar eru aðrir þættir sem vega þyngra.

Er staðan ekki sú að við þurfum að horfast í augu við flugvöllinn í Vatnsmýri og taka honum sem skipulagslegri forsendu á borð við t.d. strandlengjuna eða sólarganginn og  miða skipulagákvarðanir við það.

Það hefur skort í borgarskipulaginu að leggja megináherslu á almenningssamgöngur og binda borgina og sveitarfélögin í nágrenninu saman með öflugu, skilvirku og fljótvirku almenningssamgönguneti þannig að einkabíllinn sé ekki forsenda búsetu eins og nú er.

Ég leyfi mér að benda á að Reykjavíkurflugvöllur þekur einungis um 140 hektara lands.

Handan Skerjafjarðar eru milli 700 og 800 hektara byggingaland sem er landfræðilega miðsvæðis þegar á höfuðborgarsvæðið er litið. Þetta er kjörland til bygginga á láglendi við sjóinn og  með tiltölulega litlum tilkostnaði er hægt að tengja það náið miðbæjarkjarna Reykjavíkur og sveitarfélaganna í nágrenninu.

Á hjálagðri loftmynd má sjá hugsanlega útfærslu. Þarna er lagt til að byggð verði brú úr Nauthólsvík yfir á Kársnes og þaðan út á Álftanes til Hafnarfjarðar. Við þetta yrði núverandi miðbær Reykjavíkur enn miðlægari þegar litið er til alls höfuðborgarsvæðisins. Brúin gæfi tækifæri til þess að bæta almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu verulega.

Umræðan um Reykjavíkurflugvöll einkennist af  hreppapólitík þar sem hópur reykvíkinga leiðir umræðuna. Umræðuna þarf að víkka. Taka niður allar girðingar á mörkunum sveitarfélaga höfuðborgarsvæðisins og blanda landsbyggðinni betur í umræðuna.

Taka þarf upplýsta ákvörðun um hvort flugvöllur eigi að vera á höfuðborgarsvæðinu eða ekki.

Ef við þurfum flugvöll þá hefur ekki fundist betri staður en þar sem hann er nú. Ef við þurfum ekki flugvöll hér, þá leggjum við hann niður.

Hafa ber í huga að dauð hönd verður lögð á innanlandsflugið ef  flugvöllurinn í Vatnsmýrinni yrði lagður niður og einu flugsamgöngur við höfuðborgarsvæðið væru um Keflavíkurflugvöll. Staða Reykjavíkur veikist verulega á landsvísu og í alþjóðlegu samhengi ef þetta verður niðurstaðan.

Sjá einnig:

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2009/10/30/reykjavikurflugvollur/

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2009/11/02/framtid-reykjavikurflugvallar/

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2010/03/16/vatnsmyrin-%E2%80%9Cnull-lausn%E2%80%9D/

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn