
Lesandi síðunnar hefur vakið athygli mína á að enn eitt húsið í eldri hluta Reykjavíkur sé að slummast. Það er húsið nr. 34 við Baldursgötu sem hefur verið yfirgefið. Í fyrrihluta maímánaðar varð húsið mannlaust og strax i framhaldinu voru rúður brotnar og negld spjöld fyrir alla glugga. Augljóst er að eigendur hafa ekki hugsað sér að nota húsið frekar og hafa því tekið þá eðlilegu ákvörðun að hætta öllu viðhaldi.
Í að minnsta kosti 6 ár hefur húseignin við hliðina,Baldursgata 32 staðið auð og verið í niðurníðslu.
Ef horft er á deiliskipulagsuppdrættina að neðan sést að eini staðurinn á reitnum þar sem hús eru látin grotna niður er einmitt þar sem fyrirheit er gefið um mikla uppbyggingu. Annarsstaðar á reitnum er húsum haldið við.
Hvernig stendur á því að svona er að gerast víðsvegar í miðborginni?
Í bókinni“101 TÆKIFÆRI” eftir Snorra Frey Hilmarsson er gefið svar við spurningunni í kafla sem heitir “Grenjavæðing” þar sem hann spyr sig hvers vegna ágætustu hús, sem gætu verið hin mesta bæjarprýði verða eitt af öðru í niðurnídd skör?
Hann telur að við gerð deiliskipulaga verði oft til aukinn byggingaréttur sem gengur kaupum og sölum. Bankar lána út á byggingaréttinn svipað og út á óveiddan fisk í sjónum. Þetta endar svo með því að útilokað er að það borgi sig að kaupa húsin og gera þau upp vegna spáverðs og skulda sem vilja koma í kjölfar skipulagsins. Þegar þannig stendur á borgar sig ekki að halda húsunum við og þau sett í skammtímaleigu. Þannig drabbast þau niður og verða nær ónýt.
Það koma margir að gerð deiliskipulags og oftast sérfræðingar sem eiga að kunna sitt fag. Ekki veit ég hver er ástæðan fyrir því að þetta fer svona í Reykjavík.

Samkvæmt skipulaginu sýnir teikningin að ofan núverandi ástand reitsins. Þarna virðist reiturinn vera losaralegur og að það vantar hugsanlega einhver „innfill“ í götulínurnar við Freyjugötu og Þórsgötu. Reiturinn virkar reyndar þéttari og betri þegar göturnar eru gengnar en á teikningunni. Þá virðist hann í sæmilegu lagi og í harmoníu við umhverfið þó ýmislegt megi bæta.
Nauðsynlegt er að gera deiliskipulag af reitum sem þessum. Ekki vegna þess að það standi fyrir dyrum mikil uppbygging, heldur til þess að íbúar húsanna þarna og eigendur þeirra hafi einhverja vissu um framtíðina. Með slíka vissu er komið svigrúm og kvati til þess að fjárfesta í viðhaldi og breytingum eigna. Óvissan er dauð hönd á hverfi sem þetta.
Hugsanlega gæti stefnan verið að gera götumyndir heillegri. Tengja Freyjugöturóló húsagörðum betur þannig að aðgengi að þessu fína opna svæði yrði betra. Þá mætti leyfa litlar viðbyggingar, kvisti og 2-3 “innfill”. Annað ekki. Þá væri þetta yndislegur reitur með trausta framtíð.

Af skipulagstillögu borgarinnar frá árinu 2007 má lesa að ákveðið var að fara aðra leið. Stefnt var að gera róttæka breytingu á reitnum. Hátt í tug húsa eiga að víkja fyrir stærri húsum en engin sérstök áhersla á að gera götumyndir heillegri. Fyrir þessari skipulagstillögu liggja vonandi góð skipulagsrök sem byggja á faglegri stefnu, hugsun og innsæji.

Á samþykktum deiliskipulagsuppdrætti frá því í janúar 2009 lítur reiturinn svona út. Ekki veit ég hvað veldur þessari miklu breytingu sem orðin er á tveim árum.
Þegar tillögurnar frá 2007 og 2009 eru bornar saman vakna margar spurningar um stefnu eða stefnuleysi. Hver voru hin faglegu rök fyrir mikilli uppbyggingu í fyrra tilfellinu og svo hver eru rökin fyrir því að minnka magnið svona mikið og af hverju er einungis lögð til aukning á lóðunum Baldursgata 32 og 34?
Svo er það ráðgátan um hverju það sæti að einungis húsin á lóðunum sem má breyta eru í niðurníðslu. Í öðru tillfellinu mun það vera vegna veggjatítlna en af hverju er Baldursgata 34 nú að fara sömu leið? Sennilega eiga hinir sjálfumglöðu bankar góðærisins einhvern hlut að máli en ég er hugsi um sjálft deiliskipulagið.
Sjá eftirfarandi:
http://blog.eyjan.is/arkitektur/2010/02/09/gildistimi-deiliskipulaga/
http://blog.eyjan.is/arkitektur/2011/04/20/nidurnidd-hus-i-midborginni/#comments