Laugardagur 28.5.2011 - 08:50 - 9 ummæli

Kaupmannahöfn.

Þann 16. maí síðastliðinn var opnað nýtt hótel í Kaupmannahöfn, Bella Sky Comwell Hotel.  Arkitektarnir eru með þeim þekktustu í Danmörku, íslandsvinirnir 3XN.

Nálgunin og niðurstaðan líkist nýlegum byggingum í Abu Dhabi, Barahin og á slíkum stöðum þar sem skortir staðaranda og mikið framboð er af fjármunum.

Húsið er fagmannlega hannað, allt er vandað og smekklegt eins og sjá má. En það vantar tengingu og rætur til staðarinns. Regionalisminn er víðs fjarri.  Það má samt sýna þessu  einhverja þolinmæði vegna þess að húsið er byggt  á nýju svæði á Amager sem heitir Örestaden og stendur utan við eldri hluta borgarinnar. Þetta er svipuð lausn og Parísarbúar kusu þegar þeir vísuðu svona byggingum út fyrir gömlu miðborgina til La Défense sem er utan Boulevard Périhperique.

Það er umhugsunarvert þegar danskar teiknistofur eru farnar að færa nútímaarkitektúr arabalandanna til Kaupmannahafnar sem hefur sterkari staðaranda en víðast hvar.

Maður veltir líka fyrir sér hvort arkitektar nútímans eigi í vandræðum með að lesa staðinn og bregðast við umhverfinu og menningunni. Ég man eftir að dæmum þar sem arkitektum tókst að laða fram menningu arabaheimsins í nýjum byggingum í arabalöndunum (Utzon og Henning Larsen) en það önnur saga og  áratugir síðan.

Hjálagt eru nokkrar myndir ásamt myndbandi frá opnun hússins.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 26.5.2011 - 11:03 - 10 ummæli

“Grenjavæðing” miðborgarinnar heldur áfram

Lesandi síðunnar hefur vakið athygli mína á að enn eitt húsið í eldri hluta Reykjavíkur sé að slummast. Það er húsið nr. 34 við Baldursgötu sem hefur verið yfirgefið. Í fyrrihluta maímánaðar varð húsið mannlaust og strax i framhaldinu voru rúður brotnar og negld spjöld fyrir alla glugga. Augljóst er að eigendur hafa ekki hugsað sér að nota húsið frekar og hafa því tekið þá eðlilegu ákvörðun að hætta öllu viðhaldi.

Í að minnsta kosti 6 ár hefur húseignin við hliðina,Baldursgata 32 staðið auð og verið í niðurníðslu.

Ef horft er á deiliskipulagsuppdrættina að neðan sést að eini staðurinn á reitnum þar sem hús eru látin grotna niður er einmitt þar sem fyrirheit er gefið um mikla uppbyggingu. Annarsstaðar á reitnum er húsum haldið við.

Hvernig stendur á því að svona er að gerast víðsvegar í miðborginni?

Í bókinni“101 TÆKIFÆRI” eftir Snorra Frey Hilmarsson  er gefið svar við spurningunni í kafla sem heitir “Grenjavæðing” þar sem hann spyr sig hvers vegna ágætustu hús, sem gætu verið hin mesta bæjarprýði verða eitt af öðru í niðurnídd skör?

Hann telur að við gerð deiliskipulaga verði oft til aukinn byggingaréttur sem gengur kaupum og sölum. Bankar lána út á byggingaréttinn svipað og út á óveiddan fisk í sjónum.  Þetta endar svo með því að útilokað er að það borgi sig að kaupa húsin og gera þau upp vegna spáverðs og skulda sem vilja koma í kjölfar skipulagsins. Þegar þannig stendur á borgar sig ekki að halda húsunum við og þau sett í skammtímaleigu. Þannig  drabbast þau niður og verða nær ónýt.

Það koma margir að gerð deiliskipulags og oftast sérfræðingar sem eiga að kunna sitt fag. Ekki veit ég hver er ástæðan fyrir því að þetta fer svona í Reykjavík.

Samkvæmt skipulaginu sýnir teikningin að ofan núverandi ástand reitsins.  Þarna virðist reiturinn vera losaralegur og að það vantar hugsanlega einhver „innfill“ í götulínurnar við Freyjugötu og Þórsgötu. Reiturinn virkar reyndar þéttari og betri þegar göturnar eru gengnar en á teikningunni. Þá virðist hann í sæmilegu lagi og í harmoníu við umhverfið þó ýmislegt megi bæta.

Nauðsynlegt er að gera deiliskipulag af reitum sem þessum. Ekki vegna þess að það standi fyrir dyrum mikil uppbygging, heldur til þess að íbúar húsanna þarna og eigendur þeirra hafi einhverja vissu um framtíðina. Með slíka vissu er komið svigrúm og kvati til þess að fjárfesta í viðhaldi og breytingum eigna. Óvissan er dauð hönd á hverfi sem þetta.

Hugsanlega gæti stefnan verið að gera götumyndir heillegri. Tengja Freyjugöturóló húsagörðum betur þannig að aðgengi að þessu fína opna svæði yrði betra.  Þá mætti leyfa litlar viðbyggingar, kvisti og 2-3 “innfill”. Annað ekki. Þá væri þetta yndislegur reitur með trausta framtíð.

Af skipulagstillögu borgarinnar frá árinu 2007 má lesa að ákveðið var að fara aðra leið. Stefnt var að gera róttæka breytingu á reitnum.  Hátt í tug húsa eiga að víkja fyrir stærri húsum en engin sérstök áhersla á að gera götumyndir heillegri. Fyrir þessari skipulagstillögu liggja vonandi góð skipulagsrök sem  byggja á faglegri  stefnu, hugsun og innsæji.

Á samþykktum deiliskipulagsuppdrætti frá því í janúar 2009 lítur reiturinn svona út. Ekki veit ég hvað veldur þessari miklu breytingu sem orðin er á tveim árum.

Þegar tillögurnar frá 2007 og 2009 eru bornar saman vakna margar spurningar um stefnu eða stefnuleysi. Hver voru hin faglegu rök fyrir mikilli uppbyggingu í fyrra tilfellinu og svo hver eru rökin fyrir því að minnka magnið svona mikið og af hverju er einungis lögð til aukning á lóðunum Baldursgata 32 og 34?

Svo er það ráðgátan um hverju það sæti að einungis húsin á lóðunum sem má breyta eru í niðurníðslu. Í öðru tillfellinu mun það vera vegna veggjatítlna en af hverju er Baldursgata 34 nú að fara sömu leið? Sennilega eiga hinir sjálfumglöðu bankar góðærisins einhvern hlut að máli en ég er hugsi um sjálft deiliskipulagið.

Sjá eftirfarandi:

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2010/02/09/gildistimi-deiliskipulaga/

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2011/04/20/nidurnidd-hus-i-midborginni/#comments

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 24.5.2011 - 05:05 - 9 ummæli

Moshe Safdie-Marina Bay Sands í Singapore

Nýjasta verk Moshe Safdie er Marina Bay Sands í Singapore. Húsið var tekið í notkun á síðasta ári. Þetta er hótel með tæplega 2600 herbergjum. Byggingin er  á 55 hæðum í þrem turnum sem tengdir eru saman á efstu hæð með þakgarði sem hefur skipsform.

Þakgarðurinn er um 10.000m2 á stærð með veitingahúsum,  gróðurvinjum og sundlaug sem er 146 metra löng.

Ég gerði mér erindi til þess að skoða mannvirkið sem ég hafði séð kynnt í arkitektatímaritum og á netinu. Í kynningunum fanst mér verkið nánast kjánalegt. Mér datt í hug að þarna væri enn einn stjörnuarkitektanna að plata sveitamanninn.

En þegar gengið er inn í húsið fyllist maður aðdáun. Ekki vegna stærðarinnar, heldur vegna þess að þetta er starfræn bygging, funktionel og hvert smátriði er fallega og vel leyst. Efnisvalið er skandinavískt, ljósar viðartegundir og ljósir litir.  Það er einhver stór hugsun í þessu verki, ekki bara í fermetrum og rúmmetrum heldur í hugmyndum og upplifun.  Þarna er mikið af  fallegum rýmum sem fanga athyglina.

Ég læt ljósmyndunum eftir að lýsa byggingunni frekar.

Stefni „skipsins“ vísar ti austurs.

Það eru á annaðhuhundrað metrar til lofts í anddyri hótelsins.

Þarna var flutt, af strengja kvintett, lifandi klassisk tónlist allan daginn

Inni í belgjunumn var 14 manna við hringborð til að neyta matar.

Annar sundlaugarbarmurinn veitir til norðurs með útsýni yfir borgina

Í 190 metra hæð yfir jörðu var þægilegur og fallegur skrúðgarður

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 21.5.2011 - 16:16 - 11 ummæli

Moshe Safdie – Sérbýlum staflað.

Á árunum í kringum 1970 voru Evrópumenn með Norðurlandaþjóðirnar í fararbroddi að gera tilraunir með “lága þétta” íbúðabyggð.  Arkitektarnir gerðu tilraun með að færa blokkaríbúðina niður á jörðina. Færa fólk nær jörðinni og gefa því kost á að hafa einkagarð. Ekki er hægt að halda öðru fram en að þetta hafi heppnast. Tíðarandinn margumtalaður kom hinsvegar í veg fyrir frekari þróun á hugmyndafræðinni. Það kom margt til m.a.  aðrar áherslur.

Á sama tíma var arkitektinn Moshe Shafdie (Fæddur í Haifa í Palestínu1938) að vinna með að stafla einbýlishúsum upp og þróa í átt að fjölbýlishúsum. Frægasta verk hans af þessum toga er Habitat 67 sem byggt var í tengslum við heimssýninguna í Montreal í Canada árið 1967 þegar Shafdie var aðeins 29 ára.

Í Habitat 67  kom Safdie fram með nýjar hugmyndir um búsetu fólks sem byggði ekki á formhugmynd heldur starfrænni hugmyndafræði. Þessar hugmyndir hafa fallið í skugga fyrir þeim form- og fegurðar bagga sem arkitektar bera oft á öxlum sér.

Flestir báru þá von í brjósti að þessar hugmyndir mundu bylta blokkarhugmyndinni. En því fór fjarri. Allt er njörvað niður í stöðluð þrautreynd form þar sem framför er nánast engin. Það má kannski segja að BIG sé eitthvað að taka hugmyndir Shafdi upp að nýju og gera að sínum.

Síðan 1967 er mikið vatn runnið til sjávar hvað þetta varðar og hefur Safdie þróað hugmyndirnar og gert margar tillögur sem byggja á þessari hugmyndafræði. Sumar hafa verið útfærðar og aðrar ekki.

Það sem sameinar hugmyndir Safdie og hugmyndir um lága þétta byggð er að uppfylla þörf allra fyrir að hafa einkagarð. Hann skrifaði reyndar fyrir um 30 árum stórgóða bók sem heitir “For everyone a garden”

Hjálagt eru ljósmyndir af  nokkrum verka Moshe Safdie.  Fyrstu fjórar eru af Habitat 67 sem verður að líta á sem prótotýpu hugmyndarinnar.  Flestir íbúar hússins hafa til afnota 25-75 fermetra einkasvalir/terras/garð.

Eftir að þetta merkilega hús var byggt vann Safdie áfram með hugmyndina með fagurfræðilegum og hönnunarlegum áherslum og tókst ágætlega.

Næst eru tvær myndir af verkum Safdie sem byggja á svipuðum hugmyndum

Og í lokin  er teikning eftir arkitektinn til þess að árétta þá skoðun að enginn geti orðið sæmilegur arkitekt sem ekki hefur þá rýmisgreind sem færir honum hæfileika til þess að teikna fríhendis. Þeir sem ekki geta teiknað fríhendis og skortir rýmisgreind geta farið í annað, t.d. verkfræði ef þeir hafa áhuga á byggingum.

Hér eru grunnmyndir úr Habitat 67 sem sýna svalir sem eru tæpir 30m2. Stundum tvennar og stundum einar stórar oft meira en 60m2. Sundum eru íbúðirna á tveim hæðum.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 19.5.2011 - 09:02 - 10 ummæli

Tvær Hörpumyndir- Hugsun og veruleiki

Mér hafa borist tvö myndbönd sem voru notuð til kynningar á tilboðum um byggingu ráðstefnu og tónlistarhúsi á Austurbakka í Reykjavík fyrir einum 7 árum.

Það fyrra fjallar um þá byggingu sem nú stendur, Hörpuna, sem teiknuð er af Henning Larsem í samstarfi við íslensku arkitektastofuna Batteríið.

Síðara myndbandið fjallar um tillögu sem teiknuð er af dönsku stofunni SHL og íslensku stofunni THG. 

Það er fróðlegt að skoða þessi myndbönd. Sérstaklega myndbandið um Hörpu THL/Batt og skoða muninn á hugsun og veruleika.

Seinna myndbandið er án vafa sömu takmörkunum háð hvað framsetninguna varðar þó það komi auðvitað aldrei í ljós.

En ef maður horfir framhjá því þá virðist mér tillaga THG/SHL standa núverandi húsi framar hvað varðar arkitektúr og einkum skipulag og allt umhverfi. En dæmi nú hver fyrir sig.

Gjörið svo vel

Fyrst tillaga Henning Larsen ásamt Batteríið arkitektar

Hér kemut tillaga SHL og íslensku stofunnar THG

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 17.5.2011 - 18:01 - 14 ummæli

Önnur HARPA

Árið 2003 efndi fyritækið Austurhöfn-TR  til hugmyndasamkeppni um ráðstefu og tónlistarhús sem þróaðist í samningskaupaferil árið 2004.  Samningskaupaferlið var einkaframkvæmd (3P eða Public Private Partnership) þar sem fjögur fyritæki lögðu fram tillögu og tilboð í byggingu og rekstur hússins í áratugi.  

Íslendingum var sem sagt boðið uppá fjórar útgáfur af þessu mikla húsi sem allar voru unnar af hinum færustu arkitektum.

Nú þegar Harpan hefur verið tekin í notkun og hún blasir við er gaman að skoða aðrar tillögur sem fram komu í útboðinu. Ég ætla að birta grunnmynd og afstöðumynd ásamt nokkrum tölvumyndum af einu tilboðanna sem barst og vakti athygli mína fyrir einhvern léttleika og flug meðan sú sem við sjáum núna virka nokkuð klossuð. Þetta er sagt með fyrirvara vegna þess að ég á von á því að húsið sé mjög breytilegt eftir árstíðum. Sennilega verður það áhugaverðast á dimmum vetrardögum. En það á eftir að koma í ljós.

Tillagan sem myndirnar eru af barst  frá eignarhaldsfélögunum Fasteign og Klasi sem fengið höfðu íslensku teiknistofuna THG arkitekta og stofu Schmith, Hammer og Larsen til verksins.  Aðalverktaki var E. Phil & Sön ásamt ÍSTAKI

Þetta er hið glæsilegasta hús og ekki er nokkur vafi á því í mínum huga að það hefði ekki síður verið sómi af því en núverandi byggingu.

Til gamans má geta þess að sú tillag sem endanlega var byggð er 50% stærri en sú sem hér er kynnt.  Núverandi hús tekur til að mynda um 1800 gesti í sæti í aðalsal meðan sú sem hér er kynnt tekur 1500 gesti eða 20% færri gesti.

Afsöðumyndin vekur athygli vegna fíngerðrar byggðar sunnan tónlistarhússins þar sem borgarbragur er mótaður annarsvegar og svo falleg græn tenging frá Arnarhól til norðurs, meðfram tónlistarhúsinu og svo austur með Sæbraut.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 15.5.2011 - 12:55 - 8 ummæli

BIG rokkar í Tirana Albaníu

Danski arkitektinn Bjark Engels er sá arkitekt sem mest ber á i alþjóðlegu samkeppnisumhverfi þessi misserin. Nú á dögunum vann hann samkeppni um 27.000.- fermetra menningarhús Islam í Tirana í Albaníu

Það em einkennir Bjarke er einkum tvennt. Í fyrsta lagi aðferðafræði hans við nálgun lausnarinnar og svo hinsvegar framsetningin sem er afar skemmtileg kinning verkanna samanber „8“ húsið i Kaupmannahöfn (sjá tengil að neðan).

Það er líka einkennandi að hann er meiri markaðsmaður en sést hefur um árabil í arkitektastarfssemi. Hann notar persónu sína verkunum til framdráttar. Hann nefnir teiknistofuna eftir sjálfum sér og sér einum. Líkt og Frank Lloyd  Wright og fleiri gerðu í gamla daga. Þetta er sama aðferð og rokkarar og tónlistarmenn nota þegar þeir reyna að gera úr sér stjornu og fyrirmynd. Bjarke setur persónu sína framarlega í öllum kynningum. Hann er allstaðar. Hann er að finna á götumyndum frá Google Earth. Hann gaf út einsskonar hasarmyndabók þar sem hann er aðalpersónan og kynnir arkitektúr. Bókin heitir „Yes in More“.

Það er margt framúrskarandi gott sem kemur frá BIG en það hefur flest einn galla, sama gallann. Það vantar nánast alltaf alla tilfinningu fyrir staðnum og anda hans, staðartilfinningunni. Þetta er „hér kem ég“ arkitektúr, „fly in and fly out“ hugsunarháttur stjörnuarkitektanna. Hann kemur og fer og er ekkert að hafa áhyggjur af framtíðinni. Hann setur sitt mark á umhverfið og er ánægður með það.

Hér fylgja nokkrar myndir af nýjustu verðlaunatilögu hans í Tirana. Þetta virðist mjög vel gerð og spennandi tillaga sem hefur arkitektóniska nálgun sem getur vel hentað menningarhúsi.

Teiknistofa Bjarke vann samkeppni um Landsbankann í miðborg Reykjavíkur árið 2008. Honum til aðstoðar voru teiknistofurnar Arkiteo og Einrúm.

Hjálgt eru nokkrar myndir ásamt stuttu myndbandi þar sem umrætt verkefni er kynnt.

http://vimeo.com/23222675

Ein af myndum frá Google Earth sýnir Bjarke Ingels á leiðinni á teiknistofuna með farsímann við eyrað sennilega að tala við ‘the guys upstairs’.  Hann teymir sitt uppáhalds faratæki, reiðhjól, sem kemur honum fljótt og örugglega í vinnuna eða út á flugvöll.

Fyrir þá sem vilja kynnast Bjarke Ingels og verkum hans betur er bent á eftirfarandi slóðir.:

Fjölbýlis hús sem getið er að ofan:

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2011/03/10/nystarlegt-fjolbylishus-blondud-byggd/

 Verðlaunahönnun frá Grænlandi:

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2011/02/14/graenland-big-is-getting-bigger/

 Hús í New York:

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2011/02/08/big-i-newyork/

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 4.5.2011 - 17:14 - 13 ummæli

Ráðstefnu- og tónlistarhúsið HARPA

Í dag er ráðstefnu- og tónlistarhúsið Harpa tekið í notkun og tilefni til að byrta nokkrar myndir af byggingunni sem hönnuð er af  Teiknistofu Henning Larsen í Danmörku í samstarfi við íslensku arkitektastofuna Batteríið.

Ég fann ekki texta um húsið á heimasíðu Batterísins svo ég leyfi mér að birta orðrétta kynningu dananna verkinu eins og hún er á heimasíðu þeirra sem er því miður á ensku og bið ég afsökunar á því:

„Situated on the boundary between land and sea, the centre stands out like a large, radiant sculpture reflecting both sky and harbour space as well as the vibrant life of the city. The spectacular facades have been designed in close collaboration between Henning Larsen Architects, the Danish-Icelandic artist Olafur Eliasson and the engineering companies Rambøll and ArtEngineering GmbH from Germany.

The Concert and Congress Centre of 29,000 m2 is situated in a solitary spot with a clear view of the enormous sea and the mountains surrounding Reykjavik. The Centre features an arrival- and foyer area in the front of the building, four halls in the middle and a backstage area with offices, administration, rehearsal hall and changing room in the back of the building. The three large halls are placed next to each other with public access on the south side and backstage access from the north. The fourth floor is a multifunctional hall with room for more intimate shows and banquets.

Seen from the foyer, the halls form a mountain-like massif that similar to basalt rock on the coast forms a stark contrast to the expressive and open facade. At the core of the rock, the largest hall of the Centre, the Concert Hall, reveals its interior as a red-hot center of force.

The project is designed in collaboration with the local architectural company, Batteriid Arkitekter“

Sjá einnig þessa slóð en þar er að finna grunnmyndir og fl:

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2010/07/08/harpa/#comments

og

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2009/11/30/thrautir-hennings-larsen/

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 2.5.2011 - 08:26 - 5 ummæli

Perla í Berlin- Mies verðlaunin 2011

Gunnlaugur Baldursson arkitekt sem starfar í Þýskalandi skrifaði grein í Lesbók Morgunblaðsins fyrir rúmu ári (16. janúar 2010).  Greinina nefnir hann “Perlur með sögu og sál”.  Þar fjallar hann um byggingarlistarlegar perlur í Reykjavík og víðar.  Í greininni lýsir hann stuttlega Neues Museum í Berlín sem hann lofar mikið. Nú hefur komið á daginn að einmitt þessi bygging hlaut á þessu ári virtustu verðlaun sem veitt eru í byggingalist á heimsvísu. Það eru Mies van der Rohe verðlaunin sem verða formlega afhent í næsta mánuði.

Ég birti hér hluta greinar Gunnlaugs með hans leyfi.

“Dæmigert fyrir varðveislu á gersemi sem Berlinarborg státar af er endurnýjun hins svokallaða  Neues Museum eða „Nýja safns“ á safnaeyjunni i miðri borginni. Erfitt mun vera að finna byggingu í Berlinarborg þar sem saga jafnvel allrar Evrópu fléttast jafn rækilega saman í einum punkti”

“Byggingin varð fyrir svo illri meðferð bæði í seinni heimsstyrjöld og á tíma hins kommúniska austur þýska alþýðulýðveldis, að einungis hlutar hennar stóðu uppi þegar endurreisn mannvirkisins varð að veruleika i lok siðustu aldar. Einstök samvinna enskra og þýskra  sérfræðinga er undirstaða þess sannfærandi árangurs sem náðist við endurgerðina. Aldrei er vafi á því hvað er gamalt og hvað nýtt. Undir stjórn Englendinganna Chipperfield og Harraps var tekin ákvörðun um að halda í allt sem nothæft var og flétta saman við það hlutum og efnum sem framleidd eru á líðandi tímum. Þessari aðferð hafa menn eins og Ítalinn Scarpa eða Norðmaðurinn Fehn beitt með góðum árangri í safnabyggingum eigin landa.

Hin nýju formmeðöl safnsins í Berlin eru einföld og í ætt við þau klassísku svo sem þykkir, gegnheilir byggingarhlutar eða náttúruleg efni. Hvergi sjást annarleg tískufyrirbrigði sem svo oft bera ofurliði það sem taldar eru „djarfar“ nýbyggingar um allan heim.  Í Berlínarsafninu hefur tekist að skapa tímalausa og háleita kyrrð sem ramma fyrir þá hluti sem sýna á í húsinu.

Sýningarmunir eru með öðrum orðum hluti af heildinni. Þetta atriði er þveröfugt við flest  nútímasöfn og nægir það eitt til að gera húsið að einstakri perlu”.

Færslunni fylgja nokkrar myndir af endurbyggðu húsinu.  Neðst koma tvær gamlar ljósmyndir sem gefa til kynna hvernig húsið leit út áður en endurbyggingin hófst.  Þetta er gott innlegg í umræðuna um niðurnídd hús í Reykjavík að undanförnu. Þetta er  dæmi um hvernig endurbyggja má gömul niðurnídd hús og gefa þeim nýtt líf og nýtt hlutverk með fullri virðingu fyrir því gamla án þess að láta það þvælast fyrir sér. Þetta er líka tilefni til þess að velta fyrir sér ummæli nýhyggjumanna í byggingarlistinni sem tala um að hús séu fryst í tíma meðan aðrir tala um sama efnið sem verndun eða endurhæfingu.

Í Berlínarsafninu hefur tekist að skapa tímalausa og háleita kyrrð sem ramma fyrir þá hluti sem sýna á í húsinu.

Hvergi sjást annarleg tískufyrirbrigði sem svo oft bera ofurliði það sem taldar eru „djarfar“ nýbyggingar um allan heim


Hið ytra eru byggingin með upprunalegt útlit

Þetta niðurnídda hús er nú eitt helsta djásn Berlínar og verður úthlutað Mies van der Rohe verðlaununum fyrir árið 2011

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 30.4.2011 - 21:40 - 2 ummæli

Arkitektúr og grunnskólamenntun

Það eru margar leiðir sem hægt er að nota til þess að kenna börnum á umhverfið sitt.

Hægt er að samtvinna kennsluna með handmennt og myndmennt og fá börnin til þess að saga út reiti borgarhlutans sem þau eiga heima í og raða þeim svo upp í samræmi við veruleikann. Síðan má mála inn stofnanir og þjónustu. Krakkarnir gætu farið á staðin, teiknað húsin og skráð þannig upplifun sína. Síðan mætti biðja þau um að segja frá hvernig þau upplifa húsin og umhverfið munnlega og auka þannig tjáningarþroska þeirra og tungutak.  Já, arkitektúr gæti verið gott tæki til þess að þroska börn á grunnskólaaldri á margvíslegan hátt.

Myndin að ofan sýnir frönsk börn raða saman hverfinu sínu á nýjan hátt og á annan veg en raunin er. Kannski eins og þau hefðu viljað að borg þeirra liti út!. Þetta getur að auki orðið hið öflugasta pússluspil sem þroskar rýmis- og skipulagsgreind (!) barnanna.

Að neðan eru myndir af París, Berlin og New York þar sem reitunum er raðað upp samkvæmt veruleikanum annarsvegar og hinsvegar í einhverkonar röð eða reglu!

Sjá einnig:

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2011/04/13/arkitektur-i-grunnskolunum/#comments

Aðalnámsskrá grunnskóla er talað um hönnun og smíði annarsvegar og listgreinar hinsvegar slóðin þangað er hér:

http://www.menntamalaraduneyti.is/media/MRN-pdf/agalmennurhluti_2006.pdf

Þar er  hvergi getið opinberrar Menningarstefnu í mannvirkjagerð sem má finna hér:

http://www.fsr.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=2616

PARÍS

BERLÍN

NEW YORK

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn