Mánudagur 11.4.2011 - 09:36 - 8 ummæli

Verkamannabústaðir friðaðir

Katrín Jakobsdóttir menningarmálaráðherra friðaði þann 17. mars s.l. verkamannabústaðina og mannvirki á Héðinsvelli við Hringbraut. Þetta gerði hún að tillögu Húsafriðunarnefndar. Þarna er um að ræða verkamannabústaðina bæði austan og vestan Hofsvallagötu.

.
Þessi íbúðahús við Hringbraut eiga sér merkilega sögu. Þau voru byggð samkvæmt fyrstu lögum hérlendis um verkamannabústaði.  Margar nýjungar voru í húsunum. Má þar nefna að baðherbergi fylgdi hverri íbúð og ákveðið var að hafa rafmagnseldavélar í íbúðunum, en þær voru þá afar fátíðar. Höfðu menn mismikla trú á rafmagni til eldunar en svo fór að samþykkt var tillaga minnihluta í bæjarstjórn um að íbúarnir í verkamannabústöðunum ættu kost á slíku.  Til öryggis var þó einnig leitt gas inn í íbúðirnar.

Ég ætla ekki að rekja sögu húsanna hér heldur drepa stuttlega á aðkomu arkitektanna og þeirra hugmyndum.

Í framhaldi lagasetningarinnar 1929 var haldin samkeppni um húsin. Fyrstu og önnur verðlaun í keppninni hlutu þeir félagar arkitektanemin Gunnlaugur Halldórsson(1909-1986) og arkitektinn Arne Finsen (1890-1945). Eftir því sem mig minnir unnu þeir tillöguna meðan Gunnlaugur var hér á landi  í sumarleyfi frá námi sínu á Konunglegu Listaakademíunni í Kaupmannahöfn. Svo einkennilega vildi til að hvorug tillaga þeirra félaga var valin til útfærslu heldur var Guðjóni Samúelssyni (1887-1950) húsameistara ríkisins falið verkið. Skýringuna þekki ég ekki.

Húsin vestan Hofsvallagötu voru byggð í samræmi við hugmyndir um randbyggð sem Guðjón og Guðmundur Hannesson læknir höfðu áður kynnt.

Hús Guðjóns eru verkamannabústaðirnir vestan Hofsvallagötu sem byggðir voru á árunum 1931-1932. Húsin eru samfelld tveggja hæða húsaröð með fram götum sem var ríkjandi stefna  í skipuilagsmálum.

Síðari hluti verkamannabústaðanna austan Hofsvallagötu voru byggðir á árunum 1936-1937 eftir uppdráttum Gunnlaugs Halldórssonar eftir að hann var kominn heim frá námi.

Við hönnunina fylgdi Gunnlaugur hugmyndafræði funktionalismans bæði hvað skipulag og sjálf húsin varðar. Þannig að í stað randbyggðar meðfram götum hannaði hann þrjár húsalengjur þar sem ein var stölluð meðfram Hofsvallagötu. Þannig náðist sól inn í allar stofur og hvert hús hafði friðsælan garð í sólarátt þar sem gengið var inn í húsin.

Ef bera á áfanga þeirra kolleganna Guðjóns og Gunnlaugs saman leikur ekki í mínum huga vafi á að Gunnlaugs hluti er framsýnni, félagslegri og skemmtilegri en hluti húsameistara ríkisins. Velta má fyrir sér hvað hafi ollið því að Guðjóni hafi verið falið fyrri áfangi vekamannabústaðanna þegar það lá fyrir að Gunnlaugur og Arne Finssen fengu bæði fyrstu og önnur verðlaun. Ekki var hægt að bera við reynsluleysi vegna þess að Arne hafði þegar mikla reynslu og hafði m.a. teiknað Siglufjarðarkirkju á þessum tíma. Það er almælt að Guðjón Samúelsson naut mikils stuðning ráðamanna hér á landi alla sína tíð og vann mikið í skjóli Jónasar frá Hriflu. M.a. af þessum ástæðum  fékk hann fleiri tækifæri en nokkur annar íslenskur arkitekt hefur nokkurn tíma fengið eða mun að líkindum nokkurn tíma fá.

Daninn Arne Finsen og arkitektaneminn Gunnlaugur Halldórsson nutu ekki samskonarr tengsla.

Efst er mynd tekin síðasta sumar af aðkomu í stölluðu húsin þar sem gengið er um sólríkan einkagarð. Við stöllunina náðis betri dagsbirta inn í íbúðirnar.  Gluggasetning  og sprossun gluggana er athyglisverð og var nýjung um miðjan fjórða áratug síðustu aldar. Að neðan eru myndir af vef Ljósmyndasafns Reykjavíkur teknar fyrir og um miðja síðustu öld. Það er ekki ofmælt að halda því fram að Gunnlaugur var snillingur í sínu fagi.

Hér eru stölluð húsin áberandi böðuð í sól.

Skýlið við leikvöllinn er teiknað af Einari Sveinssyni og Ágústi Pálssyni.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 8.4.2011 - 10:19 - 4 ummæli

MIKLABRAUT- Þjóðvegur eða borgargata?

Í liðnum mánuði var gefin út skýrsla sem heitir “Miklabraut-þjóðvegur í þéttbýli?”

Skýrslan er skrifuð af hópi arkitekta sem kallar verkefnið  “Betri borgarbragur” og er unnið fyrir styrk frá Vegagerðinni.

Skýrslan sem er greining á Miklubraut/Hringbraut og nánasta umhverfi er gott innlegg í umræðu um samgöngur og borgarskipulag. Markmið vinnunar var að greina staðreyndir og vandamál og hafa áhrif á skipulagsmál framtíðarinnar í átt að vistvænni byggð.

Höfundar setja fram róttækar spurningar eins og  hvort hægt væri að minnka helgunarsvæði götunnar og gera hana að borgarstræti á borð við þungar umferðagötur stórborganna? Þetta er hugmynd sem Samúel T. Pétursson skipulagsverkfræðingur hefur sett fram víða og fjallað ýtarlega um. Skýrsluhöfundar spyrja einnig hvort mögulegt sé að gera Hringbraut frá Melatorgi að Ánanaustum að „Shared Street“ og margt fleira.

Miklabrautin er skilgreind sem þjóðvegur nr 49 í íslenska vegakerfinu.

Miklabrautin er sem sagt þjóðvegur í þéttbýli og þá vakna margar spurningar á borð við;  Hvar endar þjóðvegurinn og hvar byrjar borgin? Hvað er þjóðvegur að gera inni í miðri borg?

Eftir götunni við Elliðaár aka nú um 74 þúsund bílar á sólarhring og samkvæmt spám verður fjöldi bíla þarna 20 þúsund fleiri eftir 6 ár eða 94 þúsund bílar á sólahring. Þetta segir okkur að ástand skipulagsmála er ekki að batna í bráð.

Fullyrða má að mikið umfang götunnar á rætur sínar að rekja til óskynsamlegra skipulagsáætlanna sem hægt er að rekja til aðalskipulags sem samþykkt var fyrir tæpum 50 árum og sýnir það hvað aðalskipulag er áhrifamikið gagn.

Ég ætla ekki að gera lítið úr skýrslugerð almennt en segi að þær eru oft fyrirsjáanlegar og útreiknanlegar. Einkum ef þær eru samdar af verkfræðingum eða hagfræðingum. Það er í raun ótrúlegt hvað oft verkfræðingar eru ráðnir til þess að semja skýrslur um efni sem fyrst og fremst heyra undir starfssvið rkitekta. Nægir þar að nefna þarfagreiningar og húsrýmisáætlanir.  Skýrslur eru oft leiðinlegar vegna þess að í þær vantar innsæji og/eða einhverja hugmyndafræðilega sýn á viðfangsefnið. Arkitektar gera ekki mikið af skýrslum því miður. Þeir gera ástandsmat, SVOT greina viðfangsefni, spyrja spurninga, setja fram tilgátur og leita lausna.

Þegar arkitektar gera skýrslu eru þær gjarna vel myndskreyttar, briddað á nýjungum og hugmyndum, þær eru oft hlaðnar tilgátum sem eiga að feta í átt til lausna.  Skýrsla Betri borgarbrags er hér engin undantekning. Hún er ekki bara greinandi, upplýsandi, fróðleg og bráðskemmtileg hvað texta og myndskreytingu varðar heldur vekur hún upp margar mikilvægar og tímabærar spurningar.

Skýrsluna má lesa í heild sinni hér:

http://issuu.com/betri_borgar_bragur/docs/0915-110330-issuu?mode=embed&layout=http%3A%2F%2Fskin.issuu.com%2Fv%2Flight%2Flayout.xml

Ég mæli með því að fólk kynni sér skýrsluna. Þar kemur líka fram hvaða einstaklingar stóðu að heni m.m.

Myndin efst í færslunni sýnir teikningu af gatnamótum við Elliðaár sem er lögð yfir loftmynd af Kvosinni í réttum hlutföllum. Þessi samsetning er sláandi og sýnir hvað umferðamannvirkið er frekt á  landrými. Myndin er í raun ekki bara sláandi heldur beinlínis ógnvekjandi.

Að neðan er  svo önnur mynd úr skýrslunni sem sýnir hvað Miklabrautin tekur mikið landsvæði í samanburði við Kvosina. Blágrátt er malbik og grænt er helgunarsvæði götunnar. Alls er þarna um að ræða 78,4 hektara eða sem nemur ríflega helming þess svæðis sem núverandi Reykjavíkurflugvöllur stendur á.  78,4 hektarar fara sem sagt undir eina samgönguæð í smábæ sem telur rúmleg 100 þúsund íbúa. Þrátt fyrir  þessa staðreynd er enn til fólk sem heldur því fram að einkabíllinn sé heppilegasti samgöngumátinn í borgum.

Að ofan er loftmynd af gatnamótum við Elliðaár. Þarna mætast tvær götur sem taka landsvæði sem er stærra en öll Kvosin í miðborginni.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 1.4.2011 - 08:12 - 3 ummæli

HÖNNUNARMARS-REYNSLA OG FJÖLMIÐLUN

Einar E. Sæmundsen landslagsarkitekt FILA sendi mér hjálagðan texta sem ég birti með hans leyfi. Einar hefur verið virkur í umræðunni um skipulags- og hönnunarmál um áratugaskeið. Hann var formaður Félags íslenskra landslagsarkitekta um tíma auk þess að hafa sinnt stjórnunar og kennslustörfum. Hér koma athyglisverðar hugleiðingar Einars í tilefni  nýafstaðins HönnunarMars.

Einar skrifar:

Nú þegar HönnunarMars 2011 hefur marserað hjá garði vakna hjá mér ýmsar spurningar. Tvær spurningar eru í mínum huga ágengastar og lúta að hlut arkitektagreinanna á slíkri “sammenkomst”.

Hvað viljum við fá út úr viðburði eins og Marsinum?

Eins að spyrja sig; hvernig má bæta fjölmiðlunina af viðburðum HönnunarMars?

Sameiginlegur ábyrgðaraðili og stjórnandi sýningarinnar er Hönnunarmiðstöð – sem er sameiginlegur vettvangur 9 sjálfstæðra fagfélaga sem öll vinna að hönnun. Hönnunarmiðstöð var sett á fót í samstarfi mennta- og menningarmála og iðnaðarráðuneyta sem þriggja ára tilraunaverkefni. Með tilkomu miðstöðvarinnar hefur athygli á hönnun og umræða aukist mikið.

Hönnunarhópurinn sem að miðstöðinni stendur er hinsvegar mjög ólíkur innbyrðis. Í einum hópnum er hönnuðir á sviði fata- og textíls ásamt fylgihlutum, annar hópur er að þróa vörur og efla grafíska hönnun sá þriðji vinnur á sviði byggingarlistar og rýmismyndunar. Sameiginlegt sýningahald eins og HönnunarMars sem á að efla og kynna allt það öfluga starf sem fer fram á sviði hönnunar – verður því miður auðveldlega handahófskennd og ómarkviss aðallega sökum fjölda viðburða.

Ég er ekki að gagnrýna það sem félögin og þeir einstaklingar sem leggja á sig ómælda vinnu árlega til að koma upp HönnunarMars sem sjálfboðaliðar. Ég veit að það er unnið af miklum metnaði og heilindum. Sem áhorfandi hef ég á tilfinningunni að stór hluti atburðanna týnist eða verði a.m.k. mjög óljós ef maður trúir því sem kemur til manns yfir fjölmiðla.

Ég leyfi mér líka að hafa þá skoðun á umfjöllun um svona viðburð að hún líði oft fyrir það hve ófaglega og yfirborðslega fjölmiðlarnir taka á málum. Ég hef það t.d. á tilfinningu eftir að hafa fylgst með fjölmiðlaumfjöllun af HönnunarMars 2011 að mikið hafi verið að gerast á sviði fatahönnunar og vöruhönnunar. Ég hef aftur á móti lítið sem ekkert lesið eða séð, nema í vandaðri sýningarskrá Hönnunarmarsins, af sýningu arkitektastéttanna sem var opnuð í Félaginu út á Granda á fimmtudagskvöldið. Sá viðburður á HönnunarMars er orðin gömul frétt nú í vikunni eftir- eða kannski ekkifrétt – þegar sýningu er lokið. Það voru nokkur hundruð manns sem mættu á opnunina á fimmtudagskvöldið og alla dagana sem sýningin var opin fram á sunnudagskvöld mætti fjöldi manns .

Þessi reynsla af þriggja ára sýningarhaldi á HönnunarMars og tækifæri til kynningar á hlutverki hönnunar þarf að endurskoða og læra af.  Ein leið væri að skipta þemum sýninganna á a.m.k. þrjú tímabil á árinu. Hafa marsana þrjá vetur, sumar og haust. Einbeita sér að afmörkuðum hönnunarþáttum í hvert skipti og blanda ekki öllu saman í einn hrærigraut. Umræða um sýningar og viðburði yrði mikið sýnilegri og hnitmiðaðri. Þessum atburðum væri síðan hægt að spila saman við árlega vorhátíð Listahátíðar í Reykjavík.

Önnur leið til auka veg þessara ólíku hópa væri að gera mikið úr einum þætti á ári þannig að byggingarlist og umhverfismótun yrðu aðalmálið þriðja hvert ár. Þannig næðist markvissari miðlun viðburða og fræðslu um mismunandi hönnunargreinar. Hönnunargreinarnar gætu einbeitt sér betur að því að koma sínu á framfæri. Fjölmiðlar þyrftu ekki láta kylfu ráða kasti um hvað þeir fjalla.

Þeim gæfist möguleiki á því að vanda umfjöllun um þemu sýninga með dýpri umræðu.

EES

Myndirnar að neðan sem eru eftir Guðmund Albertsson  en myndin að ofan er fengin af heimasíðu  Arkitektafélags Íslands:

www.ai.is

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 30.3.2011 - 08:23 - 10 ummæli

Shared Street-Vistgata

Fyrir nokkrum misserum kom upp sú hugmynd að gera eina af  meiriháttar götum Lundúna að shared street, sem kallað hefur verið “samrými” á íslensku, eða vistgata. Samrými er gata þar sem akandi og gangandi hafa sama rétt.

Gatan er Exhibition Street sem liggur frá Hyde Park til suðurs að götunni í Knightsbridge sem margir þekkja og Harrods stendur við. Tilgangurinn var að skapa vinalegt og aðlaðandi umhverfi í nágrenni safna, verslunnar og þjónustu. Ég var hissa á þessari stórtæku hugmynd eftir að hafa gengið götuna margsinnis og upplifað hana eins og  mikilvægaog ómissandi æð í umferðakerfinu.

Ég hef fylgst með umræðunni um Exhibition Street undanfarið og gerði mér erindi til að skoða götuna fyrir 10 dögum. Mér til nokkurra vonbrigða var ekki búið að ljúka framkvæmdum en þær eru þó það langt komnar að hægt er að átta sig á útkomunni. Hún lofar góðu.

Þessi breyting á götunni er enn eitt skrefið í þá átt að breyta borgina þannig að hún henti fólki betur. Þarna er gatan hellulögð með munstri sem gengur yfir allt svæðið frá húsvegg til húsveggjar án þess að neinn munur sé gerður á svæði fyrir bíla annarsvegar eða gangandi hinsvegar. Samrýmisflöturinn virkar einfaldur, stór, traustur, samhangandi og fallegur.

Það verður spennandi að skoða þetta í sumar þegar verkinu er lokið.

Það má ekki blanda þesari gerð gatna saman við göngugötur. Göngugötur á borð við Strikið í Kaupmannahöfn eru alþekktar og í raun mjög gamlar. Þær er víða að finna í miðaldaborgum Evrópu og eru lokaðar og sumar hafa alltaf verið lokaðar fyrir bílaumferð. Hér er um annað að ræða, þ.e.  götur fyrir bíla og fólk í seitlandi sambúð.

Ég man eftir götum sem minna á þetta.  Ég nefni Lincoln Rd í Miami  og 3rd Street í Santa Monica LA sem byrjuðu sem e.k. shared street fyrir áratugum en hafa þróast í hreinar göngugötur.

Á Íslandi eru mörg tækifæri til þess að koma upp góðum og aðlaðandi shared streets. Þetta má gera í flestum þéttbýliskjörnum á landinu og einnig í flestum hverfum Reykjavíkur og nágrannasveitafélaga. Ég spái því að vistgötur verði almennar fljótlega eftir að fólk og fulltrúar þeirra í stjórnmálum áttar sig á þeim tækifærum sem felst  í hugmyndinni og því að staðsetja þjónustu skynsamlega. Tilviljunarkennd staðsetning þjónustu er einmitt ein af afleiðingum einkabílavæðingarinnar.

Efst í færslunni er loftmynd þar sem munstur  á „gólfi“  Exhibition Street  hefur verið fært inn í ljósmyndina, síðan kemur teikning frá hönnunarskeiðinu og loks tvær ljósmyndir teknar í síðustu viku.

Það má bæta því við að leigureiðhjólum fjölgar ört í London um þessar mundir. þarna er á ferðinni sama þróun og í París og Kaupmannahöfn. Fólk er orðið þreytt á einkabílnum í borgunum.

Á tölvumyndum og teikningum er munstrið í götunni stórkallalegt og minnir ekki á þann fíngerða krossasaum gangstéttarhellna sem algengastur er þegar arkitektar hanna göngugötur. Hér er  stórgert munstur á ferðinni sem tengir húin við götuna saman írjúfanlegum böndum.  Á ljósmyndunum að neðan sést að tölvumyndirnar og teikningar arkitektanna er í góðu samræmi við veruleikannn.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 28.3.2011 - 09:38 - 3 ummæli

Húsin í Flatey – I

 

Áður en vegakerfi á landi og bílaumferð varð eins og við þekkjum í dag  voru samgöngur á sjó algengastar til vöru- og fólksflutninga víða á strandlengju Íslands. Það vru engir vegir en hafið var „beinn og breiður vegur“. Þetta var áberandi á Breiðafirði.

M.a vegna þessa varð Flatey helsta verslunar- og menningarmiðstöð við Breiðafjörð.

Flatey  þjónaði byggðinni á ströndinnu umhverfis fjörðinn og myndaðist þarna snemma raunverulegt þéttbýli. Staðsetning eyjarinnar, Höfnin og aðrir landkostir voru ákjósanlegir fyrir þjónustumiðstöð. Þarna varð fljótt menningarsetur, með kirkju, klaustri og miðstöð verslunar, samgangna, útgerðar og landbúnaðar.

Um 1960 varð breyting og fólk fluttist frá eynni. Í kjölfarið var húsum illa haldið við og þar til fólk fór að tínast þangað í frítíma sínum til hvildar og til þess að njóta þeirrar  náttúruperlu sem Flatey er.

Enduruppbygging Flateyjar hófst með endurbyggingu Bókhlöðunnar í á árunum 1979-1988. Síðan þá hefur endurreisnarstarfið staðið óslitið og er nú svo komið að þarna er eitthvað fallegasta og best varðveitta húsasafn sem finnst á Íslandi.

Sagt er að tímin hafi staðið í stað þarna í  um 100 ár.

Ég ætla að segja örstutt frá nokkrum húsanna í Flatey í þessari færslu og styðjast við frábærar ljósmyndir Ágústar Atlasonar sem allar eru teknar sama dag að vetrarlagi.

Efst í færslunni er mynd af  Bókhlöðunni  sem var reist árið 1864 að frumkvæði Brynjólfs og Herdísar Benediktsen. Bókhlaðan var fyrsta hús sem sérstaklega var reist til að hýsa bækur á Íslandi. Húsið sem er í umsjá Minjaverndar er mjög lítið í sérlega fallegum hlutföllum, reglulegt augnayndi.

Séð niður Götuskarðið þar sem Reiturinn og Plássið blasir við

Gunnlaugshús og Félagshúsið eru sambyggð. Félagshúsið sem er fjær á myndinni er elsta hús eyjarinnar og var byggt árið 1843 af Guðmundi Scheving sem byggði Silfurgarðinn. Gunnlaugshús er frá árinu 1851. Bæði húsin hafa verið gerð upp og endurbyggð í sinni upprunalegu mynd.

Ásgarður (t.h.) var byggður árið 1907 sem íbúðar og kaupmannhús. Efni var fengið úr öðru húsi sem stóð í grenndinni, Gamlhús. Þegar Gamlhús var rifið til þess að nota efnið í Ásgarð var það orðið 130 ára gamalt. Viðir Ásgarðs eru því milli 230 og 250 ára gamlir. Vinstramegin við Ásgarð eru Vorsalir sem byggðir vori 1885 sem verslunar og vörugeymsluhús. Þarna var rekið Kaupfélag Flateyjar um áratugi.

Eyjólfshús, Stóra-pakkhús (Kaupfélagspakkhúsið) nú Hótel Flatey og Samkomuhúsið þar sem á sumrin er rekinn fyrsta flokks veitingastaður. Húsin eru endurgerð á faglegan og smekklegan hátt af Minjavernd samkvæmt leiðsögn arkitektastofunnar ARGOS.

 

Silfurgarður við Grýluvog sem var hlaðinn árið 1833. Hann var á sínum tíma talinn eitt mesta mannvirki sem reist hafði verið á Íslandi. Guðmundur Scheving lét hlaða garðinn og greiddi vinnumönnum með silfri sem var óvenjulegt í þá daga. Þaðan er nafnið komið.  Á myndinni sést frá vinstri Eyjólfshús (1882), Stórapakkhús og Samkomuhúsið (1890).  Bláa húsið er Vogur(1885) og þar á bakvið sést í Vorsali(1885) og Ásgarð(1907).

Vestan við Bókhlöðuna er Flateyjarkirkja sem teiknuð er af Guðjóni Samúelssyni. Kirkjan var vígð  í desember 1926 eða fyrir tæpum 85 árum. Þarna var fyrst flutt lag Sigvalda Kaldalóns eftir ljóð Eggerts Ólafssonar frá Svefneyjum, „Ísland ögrum skorið“

Á Bakkanum austan Þýskuvarar standa ein átta hús. Þeirra á meðal eru Myllustaðir (2000) sem er í eigu nokkurra Svefneyinga. Þá kemur Strýta (1915) og fjærst eru Sólheimar (1935).

Að neðan er mynd af sauðfé með kirkjugarðini í baksýn

Myndirnar með færslunni eru teknar af Ágústi Atlasyni fyrir stuttu og birtar með góðfúslegu leyfi hans. Það er óvenjulegt að sýndar séu vetrarmyndir frá Flatey. Ég geri ráð fyrir að gera aðra færslu fljótlega um húsin í Flatey þar sem fleiri fallegar ljósmyndir eftir Ágúst Atlason verða notaðar.  Heimasíða ljósmyndarans er  www.gusti.is

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 26.3.2011 - 18:02 - 4 ummæli

Hönnunarmars 2011 -„Dvalinn“

Einhver fínasta hönnunin á Hönnunarmars í þetta sinn er húsgagnið  “Dvalinn” eftir  Ásdísi Jörundsdóttur vöruhönnuð.  Þar kemur fram hugmyd um nýtt húsgagn sem samanstendur af koll og blaðarekka,   sameinaðir  í einn hlut, Dvalann!.

Húsgagnið er til sýnis á sýningu Félags vöru- og iðnhönnuða í “Vöruhúsinu” að Laugarvegi 91 í Reykjavík

Húsgagnið er frumlegt, og mætir þörf sem er fyrir hendi og markaður er fyrir.  Dvalinn á sér örugglega  bjarta framtíð.  Það er þörf fyrir svona húsgagn víða og markhópurinn hlýtur að vera stór.

Ásdís leggur út með efni, bylgjupappa,  sem er ódýrt, aðgengilegt og er auðvelt í vinnslu þannig að varan ætti að geta náð til fjöldans.  Þetta er svipuð nálgun og Frank Gehry hefur farið í sinni húsgagnahönnun þó að hans húsgögn séu hvorki frumleg né að þau nái til fjöldans hvað verð eða notagildi varðar.

Ég held að Ásdís ætti að leita leiða til þess að framleiða  þetta velhannaða húsgagn í nokkrum gæða- og verðflokkum.  Ég get séð Dvalann í öðrum efnum auk bylgjupappans.  Ég nefni birki- eða mahognykrossvið.  Þetta húsgagn væri áhugavert úr plasti eða jafnvel blágrýti með póleraðri setu.

Hér er á ferðinni húsgagn sem á eftir að verða á vegi okkar á komandi árum í margvíslegum útfærslum

Heimasíða Ásdísar er:

http://www.asdisjorunds.net/

Ráðandi lína kollsins er liðleg og organisk án þess að það halli  á notagildið.

Frank Gehry notar hér sama efni  á Ásdís í stól.  Munurinn á hans hönnun og Ásdísar að í stól Gehrys er ekkert frumlegt annað en efnistökin.  Hjá Ásdísi er sjálf hönnunin og hugmyndafræðin hvað notagildið varðar spánýtt og spennandi.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 24.3.2011 - 19:27 - 3 ummæli

NEW YORK by Gehry

“NEW YORK by Gehry” er 76 hæða bygging  sem var formlega opnuð á laugardaginn var, þann 19 mars.  Þann dag átti arkitektinn afmæli og varð 82 ára gamall.

Byggingunni var vel tekið og var lofuð af gagnrýnendum byggingalistar.  Gagnrýnandi NY Times áleit þetta besta skýjaklúf í NY síðan Ero Saarinen teiknaði CBS bygginguna fyrir 46 árum og The New Yorker taldi þetta fallegasta háhysi borgarinnar frá öndverðu.

Hundruð gesta voru viðstaddir opnunina og fögnuðu afmæli stjörnuarkitektsins í leiðinni og voru þar á meðal stórstjörnur stórborgarinnar á borð við Bono frá U2 og fl.

Margir gagnrýnendur byggingalistar hafa sagt “farðu nú á eftirlaun Frank Gehry” eftir að hafa skoðað síðari verk arkitektsins sem þeim þótti bera keim af elliglöpum.  Þegar þessi bygging hefur risið spyrja sömu gagnrýnendur “Hver er svona góður sem vinnur hjá Gehry um þessar mundir?“

Færslunni fylgja nokkrar myndir og stutt myndband með viðtali við stjörnuarkitektinn þar sem sjá má ægifagrar hreyfimyndir af húsinu og umhverfi þess.




Stjörnurnar laðast að stjörnunum. Þarna er Bono og frú ásamt stjörnuarkitektinum að fagna 82 ára afmæli listamannsins. Í tilefni dagsins var hönnuð terta í anda Gehry

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 23.3.2011 - 07:45 - 7 ummæli

Athyglissjúkur arkitektúr?

Það hefur lengi verið markmið metnaðarfullra fyrirtækja að skapa sér ímynd með arkitektúr. Þau ráða færa arkitekta til þess að hanna byggingu yfir höfuðstöðvar sínar og vanda til verka þannig að húsið hýsi ekki aðeins starfssemina heldur verði tákn um stöðugleika fyritækisins og kennileiti þess um langa framtíð.

Flestir þekkja Seagram Building í New York (1957)  eftir Philip Johnson og Mies van der Rohe eða Chrysler Building á sama stað (1928-1930) eftir William von Allen.  Báðar byggingarnar hafa verið táknmyndir fyrirtækjanna  um áratugaskeið.

Í Reykjavík eru byggingar af þessum toga og nefni ég tvö góð dæmi; höfuðstöðvar Sjóvár í Kringlunni eftir Ingimund Sveinsson og Landsbankahúsið í Austurstræti eftir Guðjón Samúelsson.

Fyrirtækin lögðu metnað sinn í byggingarlistina sem átti að verða táknmynd fyrirtækisins. Þetta var ekki auglýsingamennska heldur arkitektúr sem sýndi metnað, vönduð vinnubrögð og stöðugleika þeirra sem að standa.

Þessi hugmynd þróaðist áfram  til verri vegar. Margir þekkja hús á borð við McDonalds hamborgarastaðina við þjóðvegina víða um heim. Allt með sama laginu og efnisvali. Sömu húsin fyrir sömu fyritækin allstaðar og oftast hálf leiðinlegt.  Stundum gengur þetta svo langt að arkitektúrinn víkur og eftir stendur nánast bara auglýsingin, táknmyndin.

Ég var staddur í Bandaríkjunum fyrr í mánuðinum og þá urðu á vegi mínum nokkur hús sem varla geta kallast byggingalist. Ég tók myndir af þeim og birti tvær hér með færslunni.

Eins og sjá má af myndunum eru þetta auglýsingaskilti með einhverri starfsemi innaní frekar en byggingar í hefðbundnum skilningi.  Ef þetta er arkitektúr þá er hann misnotaður  eða besta falli arkitektúr með athyglissýki.

Önnur myndin er af veitingastað með humar sem sérgrein. Byggingin (auglýsingaskiltið) er um 100 km frá ströndinni en samt er þar að finna vita fyrir sjófarendur(!) og utaná húsið er málaðar öldur  sem brotna á grjótgarði.  Hitt húsið er gjafabúð sem selur drasl. Utan á húsinu er geimskutlulíkan í hlutföllunum c.a. 1:4.

Mér var spurn: Hvað er þetta, auglýsingalist eða byggingalist?

Auglýsingaþátturinn eða ímyndin hefur þarna tekið völdin af byggingalistinni. Í markaðsþjóðfélaginu hefur sölumennska lagt umhverfið að fótum sér. Byggingalistin víkur fyrir auglýsingum sem eru stórar og klossaðar, hugsaðar fyrir fólk sem þeysist um í bílunum sínum á um 50 km hraða. Arkitektinn Jan Gehl hefur skrifað um þetta bækur og haldið fjölda fyrirlestra.

Bílasamfélagið og auglýsingamennskan hefur meiri áhrif á umhverfið en margan grunar og þau áhrif virðast ekki alltaf vera til bóta.

Húsið er byggt yfir gjafabúð sem selur drasl. Utan á húsinu er geimskutlulíkan í hlutföllunum c.a. 1:4. Allt gert til þess að ná athygli vegfarenda.

Auglýsingaflóðið er ráðandi í umhverfinu, manneskjan er ekki sjáanleg. Auglýsingarnar eru svo margar og stórar að maður tekur nánast ekki eftir þeim.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 21.3.2011 - 08:02 - 4 ummæli

Íslenskur borholuarkitektúr

Árið 1991 unnu arkitektarnir Björn Skaptason og Pálmar Kristmundsson samkeppni um hönnun lítilla húsa yfir borholur Hitaveitu Reykjavíkur. Alls voru nálægt um 80 tillögur teknar til dóms.

Smáhýsið sem er um 14 fermetrar samanstendur af tveim bogadregnum veggjum sem sneitt er af þannig að myndast tækifæri til að koma fyrir inngangi. Smáhýsin eru klædd ólituðu áli með rör upp úr þaki þaðan sem stendur gufustrókur. Borholuhúsin eru tákn um vistvæna upphitum húsa í Reykjavík og vekja athygli sem slík.


Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 18.3.2011 - 02:01 - 2 ummæli

Hús Gunnlaugs Halldórssonar við Hávallagötu

Gunnlaugur Halldórsson var 23 ára þegar hann útskrifaðist frá Konunglegu Dönsku Akademíunni í Kaupmannahöfn sem arkitekt árið 1933, yngstur allra í sögu skólans. Gunnlaugur hóf rekstur teiknistofu sinnar strax og hann kom heim frá námi og tók þátt í samkeppnum með mjög góðum árangri.

Ein samkeppnin var um íbúðahús fyrir byggingafélagið Félagsgarð á lóðunum Túngata 35-43 og Hávallagata 21-53 og 30-36. Þetta eru framúrskarandi hús sem hafa elst vel og kunnað að taka á móti breytilegum kröfum tíðarandans í tæplega 80 ár. Húsunum hefur lítið þurft að breyta til að mæta nýjum kröfum og þær breytingar sem gerðar hafa verið  farið vel með húsin. Í bókinni “Leiðsögn um ílslenska byggingalist” er fjallað um þessi merkilegu hús og segir svo:

“Árið 1935 efndi Byggingasamvinnufélagið Félagsgarður til samkeppni um hönnun húsa sem það hyggðist reisa við Hávallagötu. Gunnlaugur Halldórsson arkitekt hlaut fyrstu verðlaun fyrir tillögu sína og voru flest húsanna byggð eftir henni. Nokkur hús eru hinsvegar eftir Einar Sveinsson og Sigmund Halldórsson sem hlutu 2. verðlaun. Húsin við Hávallagötu eru gott dæmi um góðan heildarsvip götumyndar, sem er frekar fátíður hér á landi og eitt besta dæmi um funktionalisma hérlendis fyrir stríð.  Þau eru flest öll tvíbýlishús sem spegilvendast um miðju. Húsin eru hönnuð undir áhrifum funkisstefnunnar, með stórum sléttum veggflötum, horngluggum, hleðslugleri í stigagöngum, stálhandriðum og dökkri steiningu á veggjum. Við hönnun þeirra tók Gunnlaugur mið af íslensku veðurfari og setti á þau lág valmaþök í stað þaka sem einkenndu funkishúsin í upphafi.”

Gunnlaugur sem var heiðursfélagi í Arkitektafélagi Íslands fæddist í Vestmannaeyjum 6. ágúst 1909 og dó 13. febrúar 1986.

Dæmigerður horngluggi funktionalismans

Inn af stofu er lítill bóka- eða píanókrókur

Gamalt og nýtt handverk í efsta gæðaflokki, timbur og stál.

Hleðsluglerveggur hleypir dagsbirtu frá stigahúsi inn í stofu.

Byggð hefur verið sólstofa eða „karnapp“ við stofuna í þessu húsi sem myndirnar eru af. Með því er garðurinn dreginn inn í stofuna eða stofan framlengd út í garðinn

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn