Katrín Jakobsdóttir menningarmálaráðherra friðaði þann 17. mars s.l. verkamannabústaðina og mannvirki á Héðinsvelli við Hringbraut. Þetta gerði hún að tillögu Húsafriðunarnefndar. Þarna er um að ræða verkamannabústaðina bæði austan og vestan Hofsvallagötu.
.
Þessi íbúðahús við Hringbraut eiga sér merkilega sögu. Þau voru byggð samkvæmt fyrstu lögum hérlendis um verkamannabústaði. Margar nýjungar voru í húsunum. Má þar nefna að baðherbergi fylgdi hverri íbúð og ákveðið var að hafa rafmagnseldavélar í íbúðunum, en þær voru þá afar fátíðar. Höfðu menn mismikla trú á rafmagni til eldunar en svo fór að samþykkt var tillaga minnihluta í bæjarstjórn um að íbúarnir í verkamannabústöðunum ættu kost á slíku. Til öryggis var þó einnig leitt gas inn í íbúðirnar.
Ég ætla ekki að rekja sögu húsanna hér heldur drepa stuttlega á aðkomu arkitektanna og þeirra hugmyndum.
Í framhaldi lagasetningarinnar 1929 var haldin samkeppni um húsin. Fyrstu og önnur verðlaun í keppninni hlutu þeir félagar arkitektanemin Gunnlaugur Halldórsson(1909-1986) og arkitektinn Arne Finsen (1890-1945). Eftir því sem mig minnir unnu þeir tillöguna meðan Gunnlaugur var hér á landi í sumarleyfi frá námi sínu á Konunglegu Listaakademíunni í Kaupmannahöfn. Svo einkennilega vildi til að hvorug tillaga þeirra félaga var valin til útfærslu heldur var Guðjóni Samúelssyni (1887-1950) húsameistara ríkisins falið verkið. Skýringuna þekki ég ekki.
Húsin vestan Hofsvallagötu voru byggð í samræmi við hugmyndir um randbyggð sem Guðjón og Guðmundur Hannesson læknir höfðu áður kynnt.
Hús Guðjóns eru verkamannabústaðirnir vestan Hofsvallagötu sem byggðir voru á árunum 1931-1932. Húsin eru samfelld tveggja hæða húsaröð með fram götum sem var ríkjandi stefna í skipuilagsmálum.
Síðari hluti verkamannabústaðanna austan Hofsvallagötu voru byggðir á árunum 1936-1937 eftir uppdráttum Gunnlaugs Halldórssonar eftir að hann var kominn heim frá námi.
Við hönnunina fylgdi Gunnlaugur hugmyndafræði funktionalismans bæði hvað skipulag og sjálf húsin varðar. Þannig að í stað randbyggðar meðfram götum hannaði hann þrjár húsalengjur þar sem ein var stölluð meðfram Hofsvallagötu. Þannig náðist sól inn í allar stofur og hvert hús hafði friðsælan garð í sólarátt þar sem gengið var inn í húsin.
Ef bera á áfanga þeirra kolleganna Guðjóns og Gunnlaugs saman leikur ekki í mínum huga vafi á að Gunnlaugs hluti er framsýnni, félagslegri og skemmtilegri en hluti húsameistara ríkisins. Velta má fyrir sér hvað hafi ollið því að Guðjóni hafi verið falið fyrri áfangi vekamannabústaðanna þegar það lá fyrir að Gunnlaugur og Arne Finssen fengu bæði fyrstu og önnur verðlaun. Ekki var hægt að bera við reynsluleysi vegna þess að Arne hafði þegar mikla reynslu og hafði m.a. teiknað Siglufjarðarkirkju á þessum tíma. Það er almælt að Guðjón Samúelsson naut mikils stuðning ráðamanna hér á landi alla sína tíð og vann mikið í skjóli Jónasar frá Hriflu. M.a. af þessum ástæðum fékk hann fleiri tækifæri en nokkur annar íslenskur arkitekt hefur nokkurn tíma fengið eða mun að líkindum nokkurn tíma fá.
Daninn Arne Finsen og arkitektaneminn Gunnlaugur Halldórsson nutu ekki samskonarr tengsla.
Efst er mynd tekin síðasta sumar af aðkomu í stölluðu húsin þar sem gengið er um sólríkan einkagarð. Við stöllunina náðis betri dagsbirta inn í íbúðirnar. Gluggasetning og sprossun gluggana er athyglisverð og var nýjung um miðjan fjórða áratug síðustu aldar. Að neðan eru myndir af vef Ljósmyndasafns Reykjavíkur teknar fyrir og um miðja síðustu öld. Það er ekki ofmælt að halda því fram að Gunnlaugur var snillingur í sínu fagi.
Hér eru stölluð húsin áberandi böðuð í sól.
Skýlið við leikvöllinn er teiknað af Einari Sveinssyni og Ágústi Pálssyni.