Fimmtudagur 16.12.2010 - 09:15 - 7 ummæli

Kringlurnar inn í miðborgirnar

Kollegi minn sendi mér  myndir af verslunarkjörnum, kringlum, á Englandi og í Frakklandi.  Hann þekkir vel til málanna og upplýsir að englendingar leyfa ekki verslunarmiðstöðvar í úthverfum eins og áður var algengt víða (Kringlan og Smáralind hér á landi). Englendingar byggja nún aðeins slíkar byggingar í miðkjörnum borga og nota þar með tækifæri til þess að styrkja miðborgirnar, stoðkerfin og vistvænar samgöngur (almenningssamgöngur, gangandi og hjólandi).

Hjálagt eru tvær myndir sem ég fékk sendar af verslunarmiðstöð í miðborg Bristol (Cabot Circus opnað 2008), fyrir og eftir endurnýjun.

Hjálmar Sveinsson, sem hefur verið virkur þattakandi í umræðunni um skipulagsmál, hefur nefnt þá hugmynd að byggja verslunarmiðstöð á pósthúsreitnum milli Hafnarstrætis/Austurstrætis og Pósthússtrætis/Lækjartorgs. Það er góð hugmynd sem mun vera kröftug vítamínssprauta í Kvosina og færa aftur líf á Lækjartorg.  Á þessu svæði má koma fyrir milli 10 og 12 þúsund fermetra verslanasvæði sé allt undir.

Í Danmörku og Noregi eru til reglur hvað varðar stærð verslunarmiðstöðva. Til skamms tíma var, og er kannski enn, stærð matvöruverslanna takmörkuð.  Það var gert til þess að dreifing þeirra verði meiri. Það kann að vera hagur kaupmannsins að byggja eina 3000 fermetra verslun meðan að það eykur þjónustustigið og minnkar bifreiðaumferð að opna sex 500 fermetra verslanir í tengsum við íbúðahverfin í stað einnar risavaxinnar.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 14.12.2010 - 09:00 - 7 ummæli

Fullur tankur af lífi – Húsavernd

Norðmaðurinn Martin Otterbeck keypti gamlan olíutank með lóð skammt frá Lofoten í Noregi fyrir um 150 þúsund norskar krónur og innréttaði sér íbúð.

Þetta er skemmtilegt dæmi um hvernig nota má úr sér gengin mannvirki og gefa þeim nýtt líf. Hjálagðar eru myndir teknar fyrir og eftir framkvæmdir. Þarna er nú skapað eftirsóknarvert hús á góðum stað þar sem hugvitið hefur margfaldað vermæti olíutanks sem var úrskurðaður ónýtur sem slíkur.

Þetta leiðir hugan að húsaverndun og meðferð mannvirkja.

Manni verður oft hugsað til allra þeirra frábæru húsa og mannvirkja sem eru látin víkja vegna þess að þeir sem þær ákvarðanir taka hafa ekki hugmyndaflug til að sjá þau tækifæri og verðmæti sem í þeim liggja. Mér kemur strax í hug Kveldúlfsskemmurnar við Skúlagötu, byggingar Sláturfélagsins og vönduð hús Völundar þar í grenndinni með einstökum turni og múrsteinsskorstein, Brenneríið við Skildinganes og margt fleira.

Fyrir 5-10 árum var rifið stórt  þrílyft og vandað hús við Sölvhólgötu  til að rýma fyrir nýrri ráðuneytisbyggingu. Ráðuneytisbyggingin kom aldrei. Öllum þessum húsum mátti finna verðugt hlutverk.

Framkvæmdasýsla ríkisins í Helsinki, Senaatti-kiinteistöt, er ekki starfrækt í gömlum olíutanki heldur að hluta í gömlum kornsílóum svo dæmi sé tekið.

Hér er lagt út af gömlum oliutanki sem fengið hefur nýtt hlutverk og er nú forvitnilegt og glæsilegt íbúðahús.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 12.12.2010 - 16:35 - 4 ummæli

Framhald um fegurðina

Stefán Snævarr skrifaði athugasemd við færslu mína um fegirðina  á fimmtudag. Uppistaðan í færslunni er myndband þar sem hlusta má á  Denis Dutton halda fyrirlestur sem hann kallar “The Darwinian Therory of Beauty”.  Stefán dýpkar umræðuna með heimspekilegum vangaveltum um fegurðina.  Athugasemd Stefáns byggir á myndbandinu sem gott er að skoða m.t.t. eftirfarandi skrifa Stefáns.

Stefán Snævarr er prófessor í heimspeki við Háskólann í Lillehammer og hefur skrifað um listspeki, “kunstfilosofi”.  Stefán er virkur bloggari hér á Eyjunni sem vert er að mæla með.

Gefum Stefáni orðið:

„Ég hef eitt og annað við boðskap Duttons að athuga. Hann virðist gefa sér að ef mönnum og skyldum skepnum líki við eitthvað eða eitthvað vekji jákvæða kennd hjá þeim þá sé það sama og að þeim finnist það fagurt.
En augnabliks íhugun sýnir að svo er ekki, það er ekki einu sinni hægt að segja að ef mönnum líki við eitthað á estetískan máta þá finnist þeim það fagurt. Mönnum getur þótt viðfangið stórbrotið eða elegant, ekki endilega fagurt.
Að finnast persóna kynferðislega aðlaðandi þýðir ekki endilega að manni þyki persónan fögur. Konum sérstaklega finnast sumir karlmenn of sætir til að vera aðlaðandi, sumar konur laðast að ólaglegum mönnum.
Í mörgum tungumálum eru orð á borð við fagur varla til, Grikkir hinir fornu drógu ekki skarpar markalínur milli þess sem var fallegt og þess sem var almennt gott.
Í okkar máli og mörgum öðrum eru leifar af mun víðtækara fegðurðarhugtaki en nú er notað, „það var fallega gert“ segjum við. Kannski þýddi „fallegt“ upprunalega „gott, jákvætt“, kannski höfðu forfeður okkar ekki eiginlegt hugtak um fegurð.
Platon telur að ríki og margt fleira sem við tengjum ekki við fegurð geti verið fagurt.
Dutton á að vita að þær rannsóknir sem hann vitnar í um landslag sem öllum þykir fagurt eru mjög umdeildar. Sumir segja að vestrænar hugmyndir um fallegt landslag hafi fyrir löngu gegnsýrt alla menningarheima, þess utan er engan veginn öruggt að eskimói sem líkar við mynd af tilteknu landslagi hafi neina hugmynd um að það sé fallegt, kannski er hugtakið um fegurð ekki til í hans menningarheimi.
Lítið er vitað um líf forfeðra vorra á sléttum Afríku og því vafasamt að draga víðfeðmar ályktanir af því hvað þeim hafi þótt eftirsóknarvert.
Homo erectus kann að hafa fílað þessa steina sem hann sýndi en getur skepna sem ekki hefur tungumál í raun og veru haft hugmynd um fegurð? Að þykja X fagurt þýðir að viðkomandi hafi íbyggt viðfang (.e. intentional object), dæmi um slíkt viðfang er að nú er kenning Duttons viðfang minnar hugsunar. En til þess að hafa slík viðföng verður viðkomandi að vera svo avanseraður að hann hlýtur að hafa eitthvað sem líkist máli.
Auk þess getur hann ekki haft slíkt viðfang sem viðfang fyrir fegurðarskyn nema hægt sé að gera einhverja grein fyrir þeim ástæðum sem hann hefur eða ætti að gera haft fyrir því að finnast X fagurt en ekki skemmtilegt, stórbrotið, flippað, elegant, grasiöst, aðlaðandi osfrv.
Til að geta greint milli þessara hugtaka verður viðkomandi að geta byggt afstöðu sína á rökum en þá hefur hann einhvers konar sjálfræði eða viljafrelsi. En þá er ekki hægt að líta svo á að fegurðarskyn hans sé bara eitthvað sem orsakast af erfðum eða menningu.
Dutton telur ranglega að annað hvort sé fegurðarmat menningarlegt eða meðfætt. Við verðum að hafa frjálsan vilja til að geta unnið úr menningarlegu og meðfæddu hráefni með þeim hætti að við fellum dóma um vissa hluti sem fagra aðra ekki.“
 
Hjálag eru myndir sem ég fann á netinu þar sem verið er að leita svara við spurningunni “Is perfect possible?”.  Eins og í hluta athugasemdar Stefáns eru hér konur viðfangsefnið. Fremsta myndin sýnist mér vera af Marilyn Monroe og hin er af einhverri ægifagurri konu sem ég ekki kann deili á.

Slóðin að fyrri færslu minni um fegurðina er þessi:

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2010/12/09/hvad-er-fegurd/#comments

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 10.12.2010 - 11:11 - 10 ummæli

Hörmungarástand í byggingariðnaði.

“ Yfir 13.000 íbúðir voru byggðar hérlendis á árunum 2005-2009 sem var langt umfram bjartsýna þarfagreiningu bankanna. Nú standa landsmenn uppi með offramboð og tvær til þrjár íbúðir losna daglega vegna fólksflótta frá landinu” 

Þetta stendur í góðri og upplýsandi grein í Viðskiptablaðinu sem kom út í gær, fimmtudag.

Í blaðinu kemur fram að á árinu 2007 hafi nærri 5000 íbúðir verið fokheldar eða lengra komnar og um mitt ár 2008 töldu sérfræðingar Íbúðalánasjóðs að um 4000 íbúðir stæðu tilbúnar, auðar og óseldar, á landinu öllu. Í lok árs 2009 voru 2300 íbúðir fokheldar eða fullkláraðar á höfuðborgarsvæðinu einu. Því til viðbótar voru botnplötur fyrir um 900 íbúðir tilbúnar. Alls 3200 íbúðir. Árleg eftirspurn á höfuðborgarsvæðinu er talin 850 íbúðir.

Samkvæmt tölum þjóðskrár Íslands (FMR) fjölgaði íbúðum um á landinu á fjórum árum (2005-2009) um 13.206 og 25.253 íbúðir frá aldamótum.

Þessar tölur um framleiðslu íbúða byggja á úttektum byggingafulltrúaembættanna, fokheldisvottorð m.m.

Þetta eru ógnvekjandi tölur sem komu fram í grein Viðskiptablaðsins.

Í blaðinu var ekki fjallað um aðrar byggingar. Ég hef á tilfinningunni að svipað ástand sé hvað varðar atvinnuhúsnæði. Ég las í dagblaði árið 2008 að á höfuðborgarsvæðinu væru tæpir 8 fermetrar af verslunarhúsnæði á hvern íbúa. Eðlileg þörf er talin vera rúmir 3 fermetrar. Þetta er dæmi um slaka stjórn skipulagsmála ef satt reynist.

Ofaná þetta kemur svo, ef marka má Viðskiptablaðið, að það losna 2-3 íbúðir á degi hverjum vegna fólksflótta og því til viðbótar loka verslanir og fyrirtæki vegna efnahagsástandsins.

Ef horft er til atvinnuástands í byggingariðnaði nú, þá er það verra en nokkru sinni fyrr og á ekki eftir að lagast í nokkur ár  hvað varðar byggingu íbúða- og atvinnuhúsnæðis. Hafa ber í huga að það liggja á teiknistofunum þúsundir íbúða fullhannaðar sem ekki er byrjað að framkvæma. Sama á við um atvinnuhúsnæði ýmiskonar. Búið er að leggja götur fyrir þessar byggingar.

Þetta eru ótrúlegar ógöngur sem byggingariðnaðurinn er kominn í og í raun óskiljanlegur.  Bankarnir og Íbúðalánasjóður lánuðu fé til  bygginga sem ekki var þörf fyrir, fjárfestarnir lögðu lánsfé sitt í byggingar sem engin þörf var fyrir, sveitafélögin héldu áfram að skipuleggja og úthlutuðu lóðum fyrir húsnæði sem ekki var þörf fyrir, arkitektarnir og verkfræðingarnir hönnuðu hús sem engin þörf var fyrir, verktakarnir byggðu hús sem engin þörf var fyrir. 

Byggingariðnaðurinn er rétt að hefja göngu sína um langan dimman táradal. Ljósið er helst að finna i vinnu vegna viðhalds, endurnýjunar gamalla húsa og nýbygginga vegna ferða- og heilbrigðisþjónustu. En það dugar skammt fyrir allan þann mannauð sem hér er að finna og hefur sérhæft sig í byggingariðnaði.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 9.12.2010 - 14:48 - 6 ummæli

Hvað er fegurð?

Hjálagt er slóð að skemmtilegum fyrirlestri um fegurðina þar sem því er haldið fram að skynjun fegurðarinnar sé falin í erfðaefnum okkar, ekki  ”in the eye of the beholder” eins og algengt er. 

Fyrirlesturinn er kallaður ”A Darwinian theory of beauty” og er fluttur af hinum ágæta Denis Dutton frá Eyjaálfu.

Myndbandið er um 17 mínútna langt svo lesendur skulu ekki byrja að horfa á það í vinnutíma sínum, heldur geyma það til betri tíma.  Þetta er afburða fyrirlestur sem er skemmtilega myndskreyttur og er áhugaverður fyrir alla sem láta sig fegurð og listir varða.

Það sem þarna kemur fram er skemmtilegt námsefni sem er heppilegt fyrir leshringi og nemahópa. Þetta efni er góður grundvöllur til umræðna um þær spurningar í listinni sem sennilega aldrei verður að fullu svarað. Sem betur fer.

Ég mæli með því að lesendur skoði myndbandið tvisvar og veiti því tíma til umhugsunar.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 8.12.2010 - 13:49 - 7 ummæli

Samkeppni um nýbyggingu Alþingis

 

Fyrir tæpum 25 árum var haldin samkeppni um skrifstofubyggingu Alþingis. Þetta var stór keppni með fjölskipaðri 7 manna dómnefnd. Dómarar voru allir forsetar Alþingis,  efri deildar, neðri deildar og sameinaðs þings. Auk forsetanna þriggja, Þorvaldar Garðars Kristjánssonar, Salóme Þorkelsdóttur og Ingvars Gíslasonar var einn þingmaður, arkitektinn Stefán Benediktsson og einn fulltrúi borgarinnar, Þorvaldur S. Þorvaldsson forstöðumaður Borgarskipulags. Tveir voru tilnefndir af Arkitektafélagi Íslands. Það voru þeir Helgi Hjálmarsson og Hilmar Þór Björnsson.

Þetta var söguleg samkeppni fyrir margra hluta sakir og tókust á mörg sjónarmið keppenda og voru dómarar hver með sína sýn á viðfangsefninu. Þetta var góð dómnefnd vegna þess að hún vann skipulega og einstakir dómnefndarmenn létu sitt ekki kyrrt eftir liggja. Þetta var á tímum þegar ekki var almennur skilingur á mikilvægi verndunar gamalla húsa. En viðhorfin voru að breytast.

Það voru átök í nefndinni sem að lokum komst að niðurstöðu sem sátt varð um.

Það veldur mér alltaf áhyggjum þegar dómnefnd segir að einhugur hafi verið í nefndinni. Það segir annað hvort að hún hafi verið einsleit, að það hafi verið sterkur einstaklingur í nefndinni sem hafi yfirbugað hina eða menn hafi legið á skoðunum sínum og ekki barist fyrir þeim. Versta skýringin er sú, að einstakir dómnefndarmenn hafi ekki haft skoðun. Það er slæmt þegar engin átök eru í dómnefndum og mér hefur alltaf fundist það hallærislegt þegar dómnefndir stæra sig af átakaleysinu.

Í dómnefnd um skrifstofubyggingu Alþingis voru margs konar átök á mörgum sviðum. Þegar niðurstaða lá fyrir var mikið rætt um stærðartakmarkanir og aðra praktíska hluti. Það voru miklar umræður um húsverndun í dómnefndinni. Í fyrirspurnartíma var spurt hvort tillaga sem gengi út á að vernda þau hús sem til staðar voru yrði tekin til dóms. Dómnefndarmenn voru ekki á einu máli, en þrátt fyrir andstöðu einstkra dómara var það leyft.

Vinningstillagan sem var unnin af Sigurði Einarssyni, nýútskrifuðum arkitekt frá Kaupmannahöfn gekk út á að láta öll húsin við Kirkjustræti víkja. Þetta var sammerkt með nánast öllum tillögunum, enda mátti lesa af húsrýmisáætluninni og borgarskipulaginu að það væri stefnan. Önnur verðlaun hlaut Manfreð Vilhjálmsson. Þriðju verðlaun hlaut Hróbjartur Hróbjartsson, Richard Briem, Sigríður Sigþórsdóttir og Sigurður Björgúlfsson. Fyrstu innkaup hlutu Dagný Helgadóttir og Guðni Pálsson arkitektar.

Síðust í innkauparöðinni var tillaga þeirra Hjörleifs Stefánssonar og Þóris Helgasonar arkitekta sem var sú eina sem lagði út af þeirri hugmyndafræði að gefa gömlu húsunum við Kirkjustræti framhaldslíf.

Þetta var djörf tillaga en þótti ekki í samræmi við tíðarandann.  Aðrir þátttakendur töldu að rétt væri að húsunum við Kirkjustræti yrði fórnað fyrir nýbygginguna. Það má gera ráð fyrir að Hjörleifur og Þórir  hafi vitað að það var ekki til árangurs fallið að nálgast lausnina með verndun í huga. Við Ingvar Gíslason töldum þetta góða nálgun og vildum að tillagan færi í sæti eða að hún hlyti innkaup. Við vorum í miklum minnihluta en fengum hana innkeypta.

Það er gott til þess að vita að sá sem er síðastur verður stundum fyrstur. Húsin sem Hjörleifur og Þórir vildu vernda eru nú vernduð, Vonarstræti 12 er nú komið á þann stað sem þeir félagar lögðu til til. Tengingin við gamla Alþingishúsið er á sama stað og þeir lögðu til. Það má því segja að tillaga þeirra Hjörleifs og Þóris hafi hlotið sigur  þegar upp var staðið að vissu marki.

Tíðarandinn, sem hefur verið versti óvinur Reykjavíkurborgar innan Hringbrautar, er annar og betri nú en fyrir 26 árum. Kirkjustræti og Kvosin öll er betri nú en að stefndi þegar horft er á deiliskipulag Kvosarinnar á þeim tíma og vinningstillögunar i samkeppninni.

Færslunni fylgja teikningar af tillögu Hjörleifs og Þóris sem sýnir ásýnd að Kirkjustræti. Efst er svo teikning af núverandi ástandi. Tíminn hefur unnið með Kirkjustræti, Kvosinni og húsvernd almennt. Sigurður Einarsson arkitekt skilur þetta og hefur honum tekist býsna vel að tvinna saman nýtt og gamalt ásamt því að vernda gömlu húsin eins og lesa má af teikningunni fremst í færslunni.

Í samkeppnistillögu Hjörleifs og Þóris er gert ráð fyrir að Skjaldbreið verði rifin en önnur hús við Kirkjustræti verði látin standa áfram og gerð upp. Höfundar voru þeirrar skoðunar að vissulega væri Skjaldbreið þess virði að hún yrði líka gerð upp, en töldu að með þessu móti væru þeir að sýna svolítinn sveigjanleika og yrði síður ásakaðir um þvermóðsku.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 7.12.2010 - 10:19 - 7 ummæli

Rýmisgreind stjarnanna

Le Courbusier,  Alvar Aalto og Oscar Niemeyer teiknuðu mikið fríhendis, bæði vegna vinnunnar og á ferðalögum sínum.  Glenn Murcutt og Norman Foster nota líka blýantinn og teikna það sem fyrir augu ber og það sem þeir eru að skapa. Þessir menn búa/bjuggu allir yfir mikilli rýmisgreind og teiknuðu stöðugt.

Ég  naut þeirra forréttinda að kynnast Murcutt lítillega fyrir allmörgum árum. Ég vissi að hann notaði ekki tölvur til að teikna. En hitt vissi ég ekki að þegar hann var að meta umsækjanda um starf hjá sér, rétti hann honum blað og bað hann að teikna það sem fyrir augu bar. Hann taldi fríhendisteikningu vera besta vitnisburð um hæfileika og rýmisgreind umsækjandans. Allir geta lært á tölvu en það er ekki öllum gefin rýmisgreind.

Murcutt sá á teikningunni hvort hún var gerð teikningarinnar vegna eða til þess að skilgreina og lýsa umhverfinu og í framhaldinu sýndi teikningin hvernig umsækjandinn sá umhverfið.

Nú á dögum láta arkitektar ljósmyndavélina um að skrá það sem fyrir augu ber og tölvan sér um að skilgreina rýmin og anda þeirra í þrívídd. Sagt hefur verið að 3D teikningar tölvanna henti einkum fólki með skerta rýmisgreind. Hinir geta lesið rýmin útfrá grunnmyndum og sniðum. Því hefur líka verið haldið fram, sennilega með réttu, að 3D teikningar tölvanna hafi unnið marga samkeppnina.

Ég man þegar ég vann á teiknistofu í Kaupmannahöfn að yfirmaður minn talaði um perspectiv sem “byggherrekloroform”!, þ.e.a.s. meðal til að svæfa viðskiptavininn og heilla hann. Sami maður lagði ekki í vinnu við 3D nema tillagan væri undir væntingum. Þegar um góða hönnun var að ræða sagði hann. “Vi behöver ikke noget perspectiv, dette er jo et godt project”

Hjálagt eru fríhendisteikningar nokkurra arkitekta og mínútulöng mynd sem sýnir Norman Foster munda blýantinn. Ég mæli með því að fólk skoði myndbandið, það tekur rúma mínútu þar sem kemur fram að Norman bjó „on the wrong site of the track“.

Skissa Le Corbusier af Ville Savoye.

Ferðaskissa Le Courbusiere frá upphafi síðustu aldar. Þarna var myndavélin fjarri og auga listamannsins nam það sem fyrir augu bar.

Frumskissa Glen Murcutt af einu verka hans. Lýsandi skilgreinandi og einföld.

Skissa gerð af Oscar Niemeyer

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 5.12.2010 - 19:56 - 4 ummæli

“Ef þú átt tvo peninga……..”

“Ef þú átt tvo peninga skaltu kaupa brauð fyrir annan og blóm fyrir hinn – brauðið til að lifa á og blómið til þess að lífið sé þess virði að því sé lifað”

Þessi kínversku spakmæli komu í huga mér þegar ég skoðaði loftmyndir Kjartans Sigurðssonar af ýmsum hverfum á höfuðborgarsvæðinu.

Myndin að ofan er af hverfi sem ætlað er fyrir atvinnustarfssemi. Skipulagið er unnið af sérfræðingum og kunnáttumönnum í skipulagsgerð.

Hönnunarferlið hefur fetað langan  veg frá svæða- og aðalskipulagi til deiliskipulags,  húsahönnunar og lóðahönnunar og þaðan til sjálfrar framkvæmdarinnar.  Kjörnir fulltrúar sem eiga að verja almanna hag hafa rætt skipulagið á öllum stigum þess, samþykkt það og að líkindum  þótt það gott og vísa til framfara og góðs umhverfis.

En gleymdist ekki eitthvað?  Gleymdist blómið?  Tilgangurinn með þessu öllu er að búa fólki gott uppörvandi vistvænt umhverfi þar sem öllum líður vel.  Umhverfi sem tekur mið af aðstæðum og gæðum staðarins og skapar staðarvitund í nýju hverfi.  Allir hönnuðir hafa það markmið að styrkja kosti og draga úr göllum svæðisins sem byggja á upp. Hér virðist umhverfðið vera hannað fyrir bíla og önnur efnisleg gæði þar sem notandinn, manneskjan, hefur gleymst. Þarna eru bílastæði en ekki lófastór blettur fyrir manneskju. Hvergi er að sjá gangstétt. Þarna er bara brauð og ekkert blóm.

Hér hafa margir komið að og vonandi allir verið að gera sitt besta. Niðurstaðan blasir við. Kannski er þetta góðærisskipulag og góðærisarkitekitúr þar sem gæðin eru metin með hjálp exelskjala sem allar helstu breytur góðærisþankagangs voru skráðar. Í góðærinu var hagkvæmni hærra metin en huggulegheit og að því gefnu má hugsa sér að þetta hafi verið sú niðurstaða sem stefnt var að. Þetta getur einnig verið afleiðing margskonar forsendna á borð við kröfur um fjölda bifreiðastæða og ákvæði um nýtingahlutfall o.fl.

Þó ég sé ekki með hugtakið “fast architecture” á hreinu þá dettur mér í hug að þetta sé dæmi um hann.

Myndirnar eru fengnar af vefnum ww.photo.is þar sem Kjartan Sigurðsson geymir myndir sínar sem margar fjalla um skipulagsmál. http://www.photo.is/kop/index_9.html

Myndirnar er birtar með leyfi höfundar.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 2.12.2010 - 09:07 - 1 ummæli

Amtsbókasafnið „The Movie“

Hjalti Þór Hreinsson starfsmaður Amtsbókasafnsins á Akureyri og áhugamaður um arkitektúr og kvikmyndagerð hefur gert stutta heimildamynd um safnið.

Þetta er vel gerð mynd sem hlaðin er sögulegum fróðleik um tilurð safnsins og byggingasöguna.  Ég birti hana hér með góðfúslegu leyfi höfundar.

Þarna er sögð merkileg saga um gott hús sem margir þjóðþekktir menn áttu aðlild að.

Af myndinni má draga þá álygtun að virkilega góð hús verði aðeins til ef góð samvinna og traust er á milli verkkaupa, arkitekts og verktaka.

Það er óhætt að mæla með myndinni sem er að líkindum brautryðjandaverk á þessu sviði.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 1.12.2010 - 08:56 - 3 ummæli

Arkitektastofa 70 ára

 

Í dag fyrir réttum 70 árum stofnuðu skólafélagar af  Akademíunni í Kaupmannahöfn teiknistofu í Reykjavík. Þetta voru þeir Sigvaldi Thordarson og Gísli Halldórsson.  Þeir félagar  voru landflótta frá Danmörku vegna seinni heimstyrjaldarinnar.  Þeir voru fjölskyldumenn sem ekki fengu lokið námi vegna stríðsins.

Þegar stríðinu lauk héldu þeir aftur til Kaupmannahafnar og luku þaðan prófi. Skömmu fyrir 1950 hvarf Sigvaldi til starfa hjá Teiknistofu Sambandsins meðan Gísli hélt rekstri arkitektastofunnar áfram.

Um miðjan sjötta áratuginn bættust við tveir meðeigendur á stofunni. Það voru þeir Jósep Reynis og Ólafur Júlíusson. Teiknistofan hét þá  ”Teiknistofan Tómasarhaga 31”  en þar var hún til húsa í byggingu sem reist var á lóð einbýlishúss Gísla.  Þetta voru allt ungir menn.  Ólafur og Jósep rúmlega þrítugir og Gísli 10 árum eldri.

Þarna var mín fyrsta launaða vinna ef frá er talið saltfiskbreiðsla hjá BÚR, blaðasala og blaðburður. Síðan er liðin meira en hálf öld.

Þetta varð fljótt stærsta teiknistofa landsins. Hjá þeim störfuðu á þessum tíma Stefán Sigurbentsson og að mig minnir Sigurður Ámundason ásamt Lilju Sigurðardóttur skrifstofustúlku. Þarna vann einnig eitt sumarið Jes Einar Þorsteinsson sem þá var í námi í arkitektúr í París.

Ég man að allir gengu um í hvítum sloppum og  unnu við lárétt borð. Verkfærin voru einföld.  Allt var tússað og mikil virðing var borin fyrir teikningunum, “orginölunum”. Þetta voru “handrit”

Teiknistofan var skemmtilegur vinnustaður fyrir þær sakir að fólk var einbeitt í vinnu sinni og samviskusamt.  Allir starfsmennirnir voru sigldir og höfðu búið erlendis. Það var ekki algengt í þá daga og setti sinn svip á kúltúr vinnustaðarins.

Ekki var mikið spjallað um menn og málefni nema í kaffitímum þar sem var oft gestagangur.  Verkefnin voru umræðuefnið og tölvuvandamál voru ekki að trufla þá umræðu. Félagslíf var mikið og farið var í starfsmannaferðir.  Tveir eigendanna,  þeir Ólafur og Jósep, spiluðu á listavel harmónikku.  Ólafur var listfengur og góður teiknari og málaði nokkuð. Jósep var ástríðufullur laxveiðimaður.

Meginhlutverk mitt var að sendast með uppdrætti í ljósritun til Sigr. Zoega í Austurstræti og þaðan til byggingafulltrúa eða á verkstað.  Þetta voru margar ferðir á degi hverjum.  Þá sinnti ég innheimtustörfum og gerði isometriur. S ennilega var tími minn þarna mikill örlagavaldur í mínu lífi vegna þess að þarna ákvað ég hver starfsvettvangur minn skildi verða.

Ég hef hitt Gísla annað slagið allar götur síðan.  Fyrir nokkru hringdi hann í mig og vildi ræða skipulagsmál og stöðu arkitekta hér á landi.  Það var bæði uppbyggjandi og fjörugt samtal þar sem mátti skynja einlægan áhuga gamla mannsis á viðfangsefnum líðandi stundar.   Hann hafði meiri áhuga á málefnum dagsins en flestir arkitektar sem ég umgengst, þó hann sé rúmlega 96 ára gamall.

70 ár er langur tími þegar rekstur fyritækis í byggingariðnaði á í hlut. Byggingariðnaðurinn er mjög háður hagsveiflum bitnar það oft á fyritækjunum.  Nú er teiknistofan þeirra Gísla og Sigvalda, sem er starfrækt undir nafninu TARK,  orðin 70 ára. Þetta er að líkindum langelsta arkitektastofa landsins.  Til hamingju með daginn.

Færslunni fylgja myndir af tveim húsum teiknistofunnar sem teiknuð voru á sjötta áratugnum.  Þó ólík séu þá bera þau sterk höfundareinkenni.  Annað er heimili Gísla, Tómasarhagi 31, þar sem hann rak teiknistofu sína um árabil og hitt er fjölbýslishús við Birkimel í Reykjavík.  Í austurenda á þriðju hæð fjölbýslishússins bjó Ólafur Júlíusson, meðeigandi Gísla.  Hann sagði mér að þeir hafi sett sérstakann glugga á húsið til þess að geta horft á knattspyrnuleiki á Melavellinum, sem blasti þarna við, úr eldhúsinu. Þewtta var auðvitað í gríni sagt.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn