Föstudagur 5.11.2010 - 12:05 - 43 ummæli

Danir teikna fangelsi á Hólmsheiði

Í Morgunblaðinu í fyrradag stóð að einhver seinkun yrði á útboði nýs fangelsis hér á landi. Ástæðan var sögð að verið væri að leggja síðustu hönd á uppdrætti. Ég taldi að þarna væri misskilningur á ferð og átt væri við að leggja síðustu hönd á þarfagreiningu.

Svo rétt í þessu var mér bent á heimasíðu dönsku arkitektastofunnar Alex Paulsen Arkitekter þar sem kynnt er ný fangelsisbygging sem rísa á í Hólmsheiði í nágrenni Reykjavíkur. Þar er að finna afstöðumyndir og grunnmyndir af byggingunni.

Staðan virðist vera sú að ríkið hefur ráðið danska arkitekta til þess að vinna vinnu sem íslenskir arkitektar bíða eftir.

Mér var nokkuð brugðið þegar ég sá þetta í ljósi þess að mikið atvinnuleysi er  hjá arkitektum. Þar er í raun hörmungarástand. Nýlega hefur verið sýnt fram á um 63% atvinnuleysi í stéttinni sem er að líkindum vanmat.

Á þessu hljóta að vera einhverjar skynsamlegar skýringar. En þær liggja ekki í augum uppi. Það er auðvitað sjálfsagður hlutur að leita ráða og umsagnar hinna færustu sérfræðinga um alla veröld þegar á þarf að halda. En sú ráðgjöf á að vera í lágmarki og vera e.k. leiðbeining eða rýni.

Sú ákvörðun að fela hönnunina erlendum arkitektum í því ástandi sem er hér á landi nú er óskiljanleg og þarf að skýra. Fyrir þessu hljóta að vera einhverjar ástæður. Ég vil skjóta því hér inn að tímavinna arkitekta hér á landi er um 10 þúsund krónur meðan í Danmörku er hún á bilinu 18.900 til 23.000. Þarna virðist mér illa farið með almannafé um leið og vinna er tekin af atvinnulausri stétt íslenskra arkitekta.

Hjálagt eru uppdrættir af nýju fangelsi. Uppdrættirnir eru fengnir af heimasíðu Alex Paulsen Arkitekter slóðin er:

http://www.alexpoulsen.dk/dk/projekter/holmsheidi

Þar má lesa að þarna er um að ræða 3600 m2 byggingu sem kosta á 71 milljón danskra króna og að verkið sé unnið á árinu 2010 fyrir dómsmála- og mannréttindaráðuneytið.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 5.11.2010 - 00:05 - 4 ummæli

LEGO arkitektúr

Bandaríska arkitektinum Adam Reed Tucker var farið að leiðast og fannst of lítið byggt af líkönum á teiknistofunni. Hann velti fyrir sér hvernig hægt væri að breyta vinnunni í leik með því að byggja fleiri líkön. Í framhaldi af því datt honum í hug að byggja þekkt hús úr LEGO kubbum og markaðsfæra þau.

Afraksturinn er framleiðsla á LEGO kössum með efni í heimsfræg hús með tilheyrandi leiðbeiningum. Nú er hægt að kaupa LEGO kubbaefni í nokkur fræg hús hönnuð af bandarískum arkitektum. Þetta er t.d. Falling Water og Guggenheim eftir Frank Lloyd Wrigt og fl.

Nú er Tucer að undirbúa hús frá Evrópu svo sem “Svarta Demantinn” í Danmörku og Operuna í Oslo.

Þessir LEGO kubbakassar eru ekki til hér á landi en þá má nálgast á eftirfarandi slóð:

http://www.brickstructures.com/SiteStore.html

Hér er kannski komin hugmynd að jólagjöf fyrir forfallna áhugemenn um arkitektúr!

Efst er mynd af Villa Savoye frá árinu 1929 eftir le Courbusiere sem hefur verið “kubbað”

Peggy Guggenheim safnið í New York

Falling Water eftir Frank Lloyd Wright

Art Deco byggingin Empire State í New York eftir Gregory Johnsson

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 1.11.2010 - 23:23 - 7 ummæli

Hús á hvolfi

Ég var í Bandaríkjunum í síðustu viku. Þar var þessi bygging á vegi mínum. Þetta er stór klassisk bygging. Virðulegt hús sem er hannað á grundveli gamalla viðurkenndra hefða.

Á einum stað brýtur húsið hefðirnar sem gerir það einstakt og vekur á sér athygli.

Húsið er á hvolfi.

Það er eins og það hafi fallið af himnum ofan og lent þarna á götuhorni. Það hefur lent utan í einnar hæðar múrsteinsbyggingu sem hefur skaðast lítillega. Smásprungur hafa komið í bygginguna en engar rúður virðast hafa brotnað. Með húsinu er hluti af götubúnaði á borð við ruslafötur, bekki, ljósastaura, póstkassa, pálmatré o.þ.h. Líka á hvorfi.

Þetta er eins og áður segir hús sem byggir á hefðum. Þakið hefur þetta form af vissum ástæðum. Hallinn á valmaþakinu er einnig rökstuddur. Sama á við um bjórana yfir gluggum(nú undir) o.s.frv.

En þarna er öllu bókstaflega snúið á hvolf.

Og þá vaknar spurningin:  Er þetta byggingarlist?

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 29.10.2010 - 10:41 - 13 ummæli

Þórbergur Þórðarson

Ég leyfi mér að vitna aftur í textabút úr Ofvitanum eftir Þórberg Þórðarson

“Allir Íslendingar kunna að lesa bækur.

En hversu margir kunna að lesa hús?

Það er meiri íþrótt að kunna að lesa hús en að geta lesið bækur.

Húsið er hugsun, sem hefur hæð, lengd og breidd.

Bókin er vöntun á hugsun, sem aðeins hefur lengd.

Húsið er sannleikurinn um líf kynslóðanna.

Bókin er lygin um það”.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 22.10.2010 - 09:20 - 5 ummæli

Að lesa hús

Orðrétt segir Þórbergur Þórðarson í Ofvitanum “…..Ég vildi vekja athygli lesenda minna á því, hvílíkir þekkingar- og stemmningarbrunnar eru byrgðir því fólki sem alla sína ævi hefur verið svo önnum kafið í yfirborðssmálunum lífsins, að það hefur aldrei gefið sér tíma til þess að lesa hús.”

Já, “að lesa hús”

Þegar arkitekt skoðar hús þá gerir hann það eins og þegar vínsmakkari er að velta fyrir sér víni. Meðan vínið er smakkað, les arkitektinn húsið. Hann les það eins og bók. Og það er ekki fræðibók heldur bók með söguþræði. Hann les hlutföllin og það sem húsið hefur að segja við hann. Hann les sneiðingar og grunnmyndir. Hann les hvernig rýmin hanga saman og spyr hversvegna? Arkitektinn veit að hús eru ekki hluti af “yfirborðssmámunum lífsins”.

Arkitektinn spyr húsið spurninga og húsið svarar þeim flestum. Hann spyr hvernig húsið er notað? Hvaða hlutverki það gegndi í upphafi? Arkitektinn spyr hvað húsið segir honum? Hann spyr hvað húsið minni hann á? Hann spyr fyrir hvern það var byggt?  Hann spyr um félagslega stöðu eigenda og notenda hússins? Hann spyr af hverju húsið sé á þessum stað? Og af hverju það sé af þessari stærð? Af hverju það sé ekki hærra eða lægra?. Hann spyr sig hvernig honum líði í návist hússins og inni í því? Hann spyr hvaða áhrif húsið hafi á umhverfið og hegðun fólks í húsinu og umhverfis það? Hann spyr fyrir hvað húsið standi?

Hann veltir fyrir sér hvað húsið hafi kostað og hver hafi borgað og hvaðan peningarnir komu? Hann setur húsið í byggingarlistalegt- og skipulagslegt samhengi. Hann veltir framtíð hússins fyrir sér. Hann veltir fyrir sér rýmum og mössum og andstæðum. Litir, hlutföll og mælikvarðar fanga athygli arkitektsins. Arkitektinn gerir sér grein fyrir taktinum, hrynjandanum og tónlistinni í húsinu, efnisvali og uppbyggingu.

Allt eru þetta sígildar spurningar og vangaveltur sem koma í hug arkitektsins þegar hann stendur frammi fyrir húsi. Þetta er eins og að skoða málverk. Málverkið talar til áhorfandans. Þetta er m.a. þetta sem gerir arkitektúr svona spennandi.

Arkitektúr er ekki bara spurning um ljótt eða fallegt eins og flestir halda, heldur miklu, miklu, miklu meira.

Börnum er kennt að lesa skrifaðan texta. Það þarf líka að kenna þeim að lesa teiknuð hús og það á að gerast í grunnskólanum. Besta aðferðin til að læra að lesa hús er að teikna fríhendis það sem fyrir augu ber og ræða um hús við félaga sína og leiðbeinanda. Þeir “þekkingarbrunnar” sem þarna er að finna má ekki byrgja lengur. Fólk má ekki vera “svo önnum kafið í yfirborðssmámunum lífsins” að það gefur sér ekki tíma til þess að læra að lesa hús.

En það er ekki hægt að lesa öll hús. Vondu húsin eru eins og vondar bækur. Þær eru skrifaðar af vondum rithöfundum og eru ólæsilegar.

Myndin hér að neðan er sýnir Hörð Ágústsson listmálara og fræðimann upplýsa hóp manna um Natan Olsen húsið í kvosinni. Hörður les þarna húsið upphátt fyrir hóp manna sem fylgjast með af áhuga.

Myndin er tekin af Stefáni Erni Stefánssyni arkitekt fyrir einum 25-30 árum.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 20.10.2010 - 14:42 - 11 ummæli

Eskifjörður – Úrskurður fallinn

 

Ekki verður samið við Einrúm um hönnun hjúkrunarheimilis á Eskifirði samkvæmt fyrstuverðlaunatillögu arkitektanna. 

 

Í samkeppni um nýtt hjúkrunarheimili á Eskifirði komu fram efasemdir um hæfi fagdómara í keppninni. Í framhaldinu var málið kært til Kærunefndar útboðsmála.

 

Nú liggur fyrir úrskurður kærunefndar þar sem felld er úr gildi ákvörðun kærða, Framkvæmdasýslunnar, um að semja við Einrúm arkitekta á grundvelli hönnunarsamkeppni um hjúkrunarheimili í Fjarðabyggð. Gera má ráð fyrir að samið verði við kærandann, arkitektastofuna Stúdíó Strik, sem hlaut önnur verðlaun.

 

Ágrenningur var um hvort Einar Ólafsson arkitekt og eigandi Arkiteo teiknistofunnar hafi verið vanhæfur sem dómari vegna hagsmunatengsla sinna við vinningshafann Einrúm  arkitekta. Arkiteo og Einrúm vinna nú saman að gerð leikskóla fyrir Garðabæ. Komið hefur fram að stofurnar hafi haft með sér umtalsvert samstarf. Áður hafa þær saman hannað Krikaskóla i Mosfellsbæ og fyrstuverðlaunatillögu að höfuðstöðvum Landsbankans.

 

Niðurstaða kærunefndar virðist manni sjálfsögð og eðlileg hvort heldur skoðuð er hefð í samkeppnismálum eða ef meira en 70 ára gamlar samkeppnisreglur Arkitektafélags Íslands eru skoðaðar. Þetta er líka eðlilegt samkvæmt réttlætiskennd siðaðra manna. Samkvæmt samkeppnisreglum Arkitektafélagsins á að svifta fyrstuverðlaunatillögunni verðlaunum og færa aðrar tillögur upp um eitt sæti. Allt annað er óeðlilegt.

 

Ef ekki verður brugðist við þessu leiðinda máli samkvæmt hefð og góðum siðum þá er hætta á trúnaðarbresti milli útbjóðenda og keppenda í samkeppnum með þeim afleiðingum að arkitektar hætta að taka þátt.

 

Það sem er merkilegt við þessa stöðu er að hún hefur aldrei komið upp áður. Að minnstakost hefur engum dottið í hug að halda uppi vörnum í svona stöðu fyrr en nú. Það eitt er umhugsunarvert áhyggjuefni. Kannski er þetta vísbending um hrakandi siðferði.

 

Ég spurði fyrr í sumar þegar málið var kært hvort hefði verið hægt að afstýra þessu? Svar mitt er það sama nú: Já, ég tel það. Ef samkeppnisreglur AÍ hefðu verið notaðar og virtar með allri sinni sögu, verklagsreglum og hefðum þá hefði þetta ekki gerst. Vinningshafinn hefði ekki lagt inn tillögu með samstarfsmann sinn í dómarasæti. Dómarinn hefði gert grein fyrir tengslum sínum við vinningshafann þegar nafnleynd var rofin og vikið. Og svo hefði trúnaðarmaðurinn stöðvað atburðarásina áður en lengra var haldið. Þarna kom til reynsluleysi og viðhorf trúnaðarmannsins. Þarna er líka á ferðinni skortur á skilningi og virðingu fyrir hefðum og góðum siðum.

Það var fjallað um þetta efni hér á þessum vettvangi fyrr í sumar á þessari slóð.

http://blog.eyjan.is/arkitektur/2010/08/13/samkeppni-a-eskifirdi-kaerd/#comments

Í einni athugasemd er sagt:

”Það á ekki að líðast að ekki sé farið að reglum og góðum siðum. Íslenska þjóðin hefur farið illa út úr því að virða ekki leikreglur eða þykjast ekki skilja þær. Nú lifum við á tímum sem siðferði verður að hafa forgang sama hvernig og hvar er á litið………”

Ég tek undir þetta og fagna niðurstöðunni. Nú þarf bara að klára málið og færa verðlaunahafa upp í sín sæti.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 18.10.2010 - 22:29 - 24 ummæli

Höll sumarlandsins

Sumarhús voru upphaflega hugsuð sem athvarf borgarbúa úti á landi. Staðir til hvíldar frá annríki borganna.  Sumarhúsin voru oftast lítil í byrjun og illa búin miðað við hvað við þekkjum í dag. Menn byggðu sumarbústaði sína að mestu með eigin höndum. Lítil vinna var aðkeypt. Bygging hússins var hobby í sjálfu sér og hluti af útivistar- og samvinnuverkefni fjölskyldunnar.

Fólk fór í sumarbústaði til þess að breyta um lífsstíl í frítíma sínum. Fólk naut náttúru og útivistar sem ekki var á boðstólnum í borginni. Útivist var stunduð með göngutúrum, fjallgöngum og ýmiskonar basli við trjárækt, viðhaldsverk og veiðiskap. Fólk var í útivistarfötum og allar athafnir byggðust á andstæðu þess sem geriðist í bænum. Fólk gerði aðra hluti í sveitinni en í borginni. Það var einmitt það sem sóst var eftir.

Nú hefur þetta breyst þannig að fólk byggir nú sumarhús sem eru ekki mjög frábrugðin heimilum þess í borginni. Húsin eru stærri, vandaðri með hita og rafmagni þannig að þau eru nothæf allt árið um kring.  Allur frágangur er þannig að  manni finnst maður varla vera í sveitinni. Í raun eru sumarhús nútímans lítil einbýlishús sem eru byggð á stórum lóðum úti á landi. Fólk gerir orðið sömu hlutina í sumarbústaðnum og í borginni. Það er horft á sjónvarp og það er nettenging. Viðhaldsverkin eru minni og nánast öll vinna er aðkeypt.

Munurinn á sumarhúsalífinu og borgarlífinu er orðinn minni en áður.

Hér fylgja nokkrar myndir sem birtar hafa verið á arkitektúrsíðunni DECODIR.com. Þær sýna sumarhús í Fljótshlíðinni. Húsið er teiknað af Guðmundi Jónssyni arkitekt. Þarna er margt spennandi og velútfært sem vert er að skoða, smátt og stórt. Ríkjandi byggingarefni er steinsteypa, gler og timbur. Það vekur athygli hvað húsið er “fótogent”, myndast vel. Þarna eru margir spennandi vinklar sem heillað hafa ljósmyndarann. Út um glugga er fagurt útsýni yfir grundir og til Vestmannaeyja. Sumarbústaðirnir neðar í brekkunni hvila fallega í landslaginu en líta samt út eins og hjálegur í samanburði við hús Guðmundar.

Einhvernvegin virðist manni andrúmsloftið í húsinu ekki vera fyrir fjölskyldufólk. Frekar fyrir gesti. Stofan líkist meira hóltelobbyi eða Saga Lounge í Leifsstöð, en heimili í sveitinni. Ég er ekki viss um hvort tekist hafi að fanga andrúm sveitarinnar þarna í stofunni. Ég hef aldrei í þetta hús komið og vona að þetta sé röng ályktun hjá mér. En þetta er að líkindum það andrúm sem verkkaupi hefur óskað eftir og arkitektinn fullnægt.

Slóðin er þessi:

http://www.decodir.com/2010/03/casa-g-vacation-house-design-by-gudmundur-jonsson/

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 15.10.2010 - 09:04 - 12 ummæli

Ræsum byggingariðnaðinn

Ekki er með fullu vitað hvað atvinnuleysi er mikið í arkitektastétt. En fram hefur komið að um 40% arkitekta sem störfuðu á einkamarkaði eru nú á atvinnuleysisbótum. Til viðbótar þeim hafa margir fundið sér annað starf, eru fluttir til útlanda eða komnir í nám.

Svo eru auðvitað hinir sem eru atvinnulausir án þess að vera á bótum og þeir sem einungis starfa í fagi sínu í 50-70% starfi. 

Það er ekki óvarlegt að álíta að atvinnuleysi í stéttinni sé á bilinu 70-90% miðað við stöðuna fyrir 2007.  En það ástand var auðvitað ekki eðlilegt hér á landi

Samkvæmt opinberum veltutölum hefur orðið 63% samdráttur í þjónustunni s.l. tvö ár sem bendir til þess að samdrátturinn sé enn meiri miðað við árið 2007, þegar best lét.

Arkitektar eru fremstir í keðju byggingariðnaðarins. Ef þeir hafa ekkert að gera er hætta á að“Dominó” ferli fari af stað. Atvinnuleysi arkitekta bitnar strax á öðrum tæknimönnum og þaðan fellur dóminóbitinn á verktaka, síðan iðnaðarmenn og svo á heimilunum og áfram til depurðar og óhamingju.

Atvinnuleysi arkitekta bitar á öllum byggingariðnaðinum þegar fram líða stundir. Þetta er alvörumál.

Við þessu þarf að bregðast sem allra fyrst. Næg eru verkefnin og nægir eru peningarnir. Lífeyrissjóðirnir eru að skima eftir fjárfestingartækifærum og sjóðirnir í bönkunum eru sagðir gríðarlegir. Vandamálið er að það þarf að forgangsraða verkefnunum og nýta peningana þar sem þeir skapa mesta vinnu og mestan virðisauka.

Ef skoðaðar eru áætlanir um ýmis verk ríkisins t.d. í vega- og orkumálum sést að ríkið hefur aðgang að fjármunum þó þá sé ekki að finna í sjóðum ríkisins.

Svo dæmi sé tekið af Vaðlaheiðargöngum dygðu þeir 10 milljarðar sem þangað er stefnt til þess að hrinda af stað og fullklára á annan tug stórra byggingarverkefna. Sama á við um fjármuni ætlaða Sundabraut og til mislægra gatnamóta á höfuðborgarsvæðinu.

Vegaframkvæmdir veita fyrst og fremst vélum vinnu og þess vegna ætti að fresta þeim eins og málin standa.

Íslendingar reka 21 sendiráðsskrifstofu í 17 löndum ef marka má heimasíðu utanríkisráðuneytisins. Mikið af skrifstofunum og sendiherrabústöðunum er í húsnæði í eigu ríkisins. Væri ekki hægt að selja allt húsnæðið og hugsanlega fækka sendiráðunum? Þarna liggur sofandi fé. Ef ég giska rétt eru þarna sennilega um 10 milljarðar króna sem gætu skapað virðisauka í samfélaginu í stað þess að liggja aðgerðarlitlir vítt og breitt um veröldina.

Þeir fjármunir sem liggja í þessum verkefnum og eignum nægðu til þess að koma byggingariðnaðnum á ágætt ról á ný.

Ef ríkið forgangsraðaði verkefnum í anda þeirra þarfa og þess grunnkerfis sem hentar hér á landi væri ekki atvinnuleysi í byggingariðnaðinum.

Skapa þarf hentugt umhverfi lítilla og meðalstórra ráðgjafafyrirtækja og lítilla og meðalstórra verktakafyrirtækja þannig að eðlilegt samkeppnisumhverfi skapaðist hér á landi. Snúum baki við stórkallalegum hugmyndum ársins 2007.

Ég nefni hér nokkur verkefni sem koma upp í huga mér og mikil þörf er fyrir og á eftir að hanna og byggja. Nokkur þessara verka liggja þegar fyrir í frumdrögum eða sem verðlaunatillögur í samkeppnum.:

Byggja þarf við Rimaskóla. Það vantar svona tvo “tvíburaskóla” i Reykjavík. Það vantar viðbyggingu við Vesturbæjarskóla. Menntaskólinn við Sund er í húsnæðisvandræðum. Það vantar íþróttahús við Kvennaskólann, Menntaskólann í Reykjavík og Fjölbraut í Ármúla. Byggja þarf Verkmenntaskóla í Reykjavík.  Trésmíðadeild, sal og íþróttahús vantar við Borgarholtsskóla.  Endurskoða þarf nánast öll deiliskipulög miðborgar Reykjavíkur í kjölfar hrunsins. Þjónustuhús við ferðamannastaði vantar við Geysi, Gullfoss, Landmannalaugar og víðar á landsbyggðinni. Eftir er að klára Korpuskóla. Fyrir liggja verðlaunateikningar að Bókasafni í Hafnarfirði og Mosfellsbæ sem þarf að hanna nánar og byggja. Teikningar af safnaðarheimili og kirkju í Mosfellsbæ liggja fyrir í verðlaunatillögu. Mikil þörf er fyrir margs konar byggingar fyrir aldraða á landsbyggðinni. Landsbyggðafangelsi vantar. Iðnskólann í Hafnarfirði þarf að tvöfalda. Afplánunarfangelsi vantar og svo mætti lengi, lengi telja. 

Allt eru þetta þörf og oftast nauðsynleg verkefni sem munu fá hjól byggingariðnaðarins til að snúast með tilheyrandi tekjum fyrir ríki og sveitarfélög.

Byggingariðnaðurinn vill ekki atvinnuleysisbætur eða atvinnubótavinnu. Iðnaðurinn vill vinna að virðisaukandi verkefnum sem gagnast samfélaginu.

Hvort það sem ég hef gert hér að umræðuefni er raunhæft eða ekki þá bið ég menn um að taka viljann fyrir verkið. Viljinn er allt sem þarf. Stjórnmálamenn, bankar, og lífeyrissjóðir hafa lausnina í hendi sér. Nú er verkefnið að hætta karpinu um keisarans skegg og láta verkin tala.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 12.10.2010 - 11:50 - 31 ummæli

Þingvellir – Staðarvitund

Ég fjallaði um Alvar Aalto í gær og sterka staðarvitund hans sem ég svo tengdi viðhorfum stjörnuarkitekta til staðanna. Það má margt af Aalto læra.

Í Morgunblaðinu í morgun er kynnt hugmynd að byggingu hótels á bökkum Öxarár við Almannagjá. Tillagan er athyglisverð fyrir þær sakir að þarna er sett fram hugmynd þar sem höfundar virðast álíta að byggingin skipti meira máli en staðurinn. Og staðurinn er ekki neinn venjulegur staður. Staðurinn er Þingvellir.

Hér er ekki byggt í landslagið eða með því heldur í andstöðu við landslagið. Mér virðist þetta vera inngrip í landslagið þar sem athyglissýki arkitektsins tekur völdin. Staðurinn víkur fyrir mannvirkinu. Mannvirkið yfirtekur staðinn. Viljum við það á þessum stað?

Það leyna sér ekki áhrifin af BIG (Bjarke Ingels Group) sem er mikil hetja í Danmörku um þessar mundir og er ég þá ekki að tala um byggingarlistina eingöngu heldur líka nálgunina. Það sem einkennir verk BIG er mikil hugmyndaauðgi en að sama skapi skortur á staðarvitund.

Ég er ekki viss um, hvort það eigi að byggja þarna yfirleitt, en ef það er gert á það að vera af mikilli virðingu, lítillæti og hógværð, og aðeins til þess að koma fyrir nauðsynlegustu þjónustu eins og snyrtingu og minni háttar veitingasölu.

Ég kom til Grand Canyon í Arizona fyrir tveimur árum. Þar upplifði maður náttúruna þar sem hún var tignarlegust án þess að sjá nokkra byggingu. Einungis sá ég einn veitingastað þar sem berja mátti gljúfrið augum innanfrá. Það var í húsi sem var sennilega meira en 100 ára gamalt. Nýbyggingar allar héldu sig til hlés. Ef svona hús eins og hér gefur að líta yrði byggt á þessum stað væri hætta á að Þingvellir yrðu teknir af heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna eins og einn ágætur maður sagði.

Þær hugmyndir að byggingu á Þingvöllum sem hér eru kynntar sýna vinnu fólks sem hefur mikil tök á töfrum tölvunnar og kann framsetningu. Jafnvel sölumennsku. Þeim hefur að minnsta kosti tekist að selja blaðamanni Morgunblaðsins þetta, þannig að hann telur hér vera á ferðinni góður arkitektúr. Það er þetta ekki.

Nú er komin tími fyrir höfundana að fara að kynna sér byggingarlistina og þær traustu stoðir sem hún stendur á samanber staðaravitundina

Þegar ég las  við Konunglegu Listaakademíuna í Kaupmannahöfn var höfuðáhersla lögð á staðinn. Það voru beinlínis kúrsar og verkefni sem báru þetta nafn “Stedet”. Tillagan að byggingunni sem hér er til umfjöllunar er meistaraverkefni frá systurskóla Akademíunnar í Árósum

Svona breytast tímarnir. Nema að skýringin sé sú að prófdómararnir hafi aldrei komið til Þingvalla og þekki ekkert til staðhátta. En það gera höfundarnir.

Myndirnar sem hér birtast eru fengnar af slóðinni: http://www.finnsson.info/NCC.html Þar má kynna sér verkefnið betur.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 11.10.2010 - 10:02 - 19 ummæli

Alvar Aalto

 

Það eru skiptar skoðanir á hvort Alvar Aalto eða Gunnar Asplund hafi verið fyrri til  að kynna funktionalisman fyrir norðurlandabúum. Sennilega geta þeir skipt heiðrinum nokkuð jafnt á milli sín. En stefnan náði fótfestu á norðurlöndunum eftir Stokkhólmssýninguna árið 1930.

Aalto átti gott tengslanet við arkitekta Evrópu í gegnum CIAM (Congrès International d’Architecture Moderne sem var stofnað 1928) þar voru  félagar arkitektar á borð við  Léger, Maholy-Nagy, Rietveld og Jeanneret. Samtökin voru stofnuð umhverfis “The Modern Movement” sem skoðaði arkitektúr að hluta sem efnahagslegt og pólitískt verkfæri.

Aalto var fulltrúi hinnar nýju stefnu í Finnlandi sem var jaðarland í Evrópu og í hugum fólks tengdara Rússlandi en öðrum Evrópulöndum. Aalto sem var í djúpum tengslum við finnska byggingarhefð gerði tilraunir með timbur sem var ekki einkennandi fyrir funktionalismann um 1930.

Sagt var um Aalto að Finnland fylgdi honum hvert sem hann færi. Svo virtur var hann. Maður skynjar samband verka hans við birkistofna skógarins og form vatnanna. Það var sjaldan að hann lét 90° horn og beinar línur ráða ferðinni. Aðstæður á hverjum stað réðu mestu um þetta.  Hann var oft organiskur í grunnmynd og sniði og sótti formin í náttúruna og sín eigin tilfinningaríku blýantsstrik eins og glöggt má sjá í vösum og skálum sem hann hannaði á þessum árum. Sagt er að Le Courbusiere hafi einnig sótt innblástur í sitt eigið blýantsstrik. Aalto og Le Courbusiere teiknuðu báðir mikið og máluðu. Maður veltir fyrir sér hvort gömlu mennirnir hefðu náð þessum mikla og góða árangri í list sinni ef tölvur hefðu verið verkfærið.

Á Íslandi er eitt hús eftir Aalto, Norræna Húsið í Vatnsmýrinni sem er sennilega ein mesta gersemi sem íslendingar eiga í byggingalistinni. Láréttar línur hússins og Vatnsmýrin voru óaðskiljanleg og glitrandi dökkbláar keramikflísar á þakinu kölluðust á við blá fjöllin í fjarska og ljósbrot af bárum hafsins. Þessi tvö atriði í gerð Norræna Hússins sýna hvað Aalto var tengdur staðnum. Þetta er eiginleiki sem saknað er á okkar dögum þegar stjörnuarkitektar eiga í hlut. Í raun má segja að í menntun arkitekta skortir kennslu í að skilgreina anda, sögu og kúltúr þar sem á að byggja. Og ekki síður að byggja inn í landslagið og umhverfið almennt.

Þegar verk Alvar Aalto eru skoðuð slær það mann hversu dvergvaxnir stjörnuarkitektar okkar daga eru. Ef ég má alhæfa smávegis þá er það sem einkennir stjörnuarkitekta nútímans öðru fremur skortur á tengslum við umhverfið og einhverskonar athyglissýki. Þetta hefur auðvitað áhrif á sporgöngumenn þeirra og unga arkitekta sem líta á þá sem fyrirmyndir sínar. Er ekki rétt að skoða Aalto betur.  Það má enn margt af honum læra þó hann hafi horfið til betri heima fyrir 34 árum.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn