
Ekki er með fullu vitað hvað atvinnuleysi er mikið í arkitektastétt. En fram hefur komið að um 40% arkitekta sem störfuðu á einkamarkaði eru nú á atvinnuleysisbótum. Til viðbótar þeim hafa margir fundið sér annað starf, eru fluttir til útlanda eða komnir í nám.
Svo eru auðvitað hinir sem eru atvinnulausir án þess að vera á bótum og þeir sem einungis starfa í fagi sínu í 50-70% starfi.
Það er ekki óvarlegt að álíta að atvinnuleysi í stéttinni sé á bilinu 70-90% miðað við stöðuna fyrir 2007. En það ástand var auðvitað ekki eðlilegt hér á landi
Samkvæmt opinberum veltutölum hefur orðið 63% samdráttur í þjónustunni s.l. tvö ár sem bendir til þess að samdrátturinn sé enn meiri miðað við árið 2007, þegar best lét.
Arkitektar eru fremstir í keðju byggingariðnaðarins. Ef þeir hafa ekkert að gera er hætta á að“Dominó” ferli fari af stað. Atvinnuleysi arkitekta bitnar strax á öðrum tæknimönnum og þaðan fellur dóminóbitinn á verktaka, síðan iðnaðarmenn og svo á heimilunum og áfram til depurðar og óhamingju.
Atvinnuleysi arkitekta bitar á öllum byggingariðnaðinum þegar fram líða stundir. Þetta er alvörumál.
Við þessu þarf að bregðast sem allra fyrst. Næg eru verkefnin og nægir eru peningarnir. Lífeyrissjóðirnir eru að skima eftir fjárfestingartækifærum og sjóðirnir í bönkunum eru sagðir gríðarlegir. Vandamálið er að það þarf að forgangsraða verkefnunum og nýta peningana þar sem þeir skapa mesta vinnu og mestan virðisauka.
Ef skoðaðar eru áætlanir um ýmis verk ríkisins t.d. í vega- og orkumálum sést að ríkið hefur aðgang að fjármunum þó þá sé ekki að finna í sjóðum ríkisins.
Svo dæmi sé tekið af Vaðlaheiðargöngum dygðu þeir 10 milljarðar sem þangað er stefnt til þess að hrinda af stað og fullklára á annan tug stórra byggingarverkefna. Sama á við um fjármuni ætlaða Sundabraut og til mislægra gatnamóta á höfuðborgarsvæðinu.
Vegaframkvæmdir veita fyrst og fremst vélum vinnu og þess vegna ætti að fresta þeim eins og málin standa.
Íslendingar reka 21 sendiráðsskrifstofu í 17 löndum ef marka má heimasíðu utanríkisráðuneytisins. Mikið af skrifstofunum og sendiherrabústöðunum er í húsnæði í eigu ríkisins. Væri ekki hægt að selja allt húsnæðið og hugsanlega fækka sendiráðunum? Þarna liggur sofandi fé. Ef ég giska rétt eru þarna sennilega um 10 milljarðar króna sem gætu skapað virðisauka í samfélaginu í stað þess að liggja aðgerðarlitlir vítt og breitt um veröldina.
Þeir fjármunir sem liggja í þessum verkefnum og eignum nægðu til þess að koma byggingariðnaðnum á ágætt ról á ný.
Ef ríkið forgangsraðaði verkefnum í anda þeirra þarfa og þess grunnkerfis sem hentar hér á landi væri ekki atvinnuleysi í byggingariðnaðinum.
Skapa þarf hentugt umhverfi lítilla og meðalstórra ráðgjafafyrirtækja og lítilla og meðalstórra verktakafyrirtækja þannig að eðlilegt samkeppnisumhverfi skapaðist hér á landi. Snúum baki við stórkallalegum hugmyndum ársins 2007.
Ég nefni hér nokkur verkefni sem koma upp í huga mér og mikil þörf er fyrir og á eftir að hanna og byggja. Nokkur þessara verka liggja þegar fyrir í frumdrögum eða sem verðlaunatillögur í samkeppnum.:
Byggja þarf við Rimaskóla. Það vantar svona tvo “tvíburaskóla” i Reykjavík. Það vantar viðbyggingu við Vesturbæjarskóla. Menntaskólinn við Sund er í húsnæðisvandræðum. Það vantar íþróttahús við Kvennaskólann, Menntaskólann í Reykjavík og Fjölbraut í Ármúla. Byggja þarf Verkmenntaskóla í Reykjavík. Trésmíðadeild, sal og íþróttahús vantar við Borgarholtsskóla. Endurskoða þarf nánast öll deiliskipulög miðborgar Reykjavíkur í kjölfar hrunsins. Þjónustuhús við ferðamannastaði vantar við Geysi, Gullfoss, Landmannalaugar og víðar á landsbyggðinni. Eftir er að klára Korpuskóla. Fyrir liggja verðlaunateikningar að Bókasafni í Hafnarfirði og Mosfellsbæ sem þarf að hanna nánar og byggja. Teikningar af safnaðarheimili og kirkju í Mosfellsbæ liggja fyrir í verðlaunatillögu. Mikil þörf er fyrir margs konar byggingar fyrir aldraða á landsbyggðinni. Landsbyggðafangelsi vantar. Iðnskólann í Hafnarfirði þarf að tvöfalda. Afplánunarfangelsi vantar og svo mætti lengi, lengi telja.
Allt eru þetta þörf og oftast nauðsynleg verkefni sem munu fá hjól byggingariðnaðarins til að snúast með tilheyrandi tekjum fyrir ríki og sveitarfélög.
Byggingariðnaðurinn vill ekki atvinnuleysisbætur eða atvinnubótavinnu. Iðnaðurinn vill vinna að virðisaukandi verkefnum sem gagnast samfélaginu.
Hvort það sem ég hef gert hér að umræðuefni er raunhæft eða ekki þá bið ég menn um að taka viljann fyrir verkið. Viljinn er allt sem þarf. Stjórnmálamenn, bankar, og lífeyrissjóðir hafa lausnina í hendi sér. Nú er verkefnið að hætta karpinu um keisarans skegg og láta verkin tala.