Fimmtudagur 7.10.2010 - 23:34 - 7 ummæli

Einn plús fyrir Philippe Starck

Franski hönnuðurinn Philippe Starck hefur nýlokið við að endurbyggja gamla víngeymslu í miðborg Bilbao og gert hana að menningar- og heilsuræktarmiðstöð.

“Alhóndiga Bilbao Cultural and Leisure Centre” samanstendur, að mér skilst,  af þrem byggingum sem voru byggðar árið 1909 og eru hannaðar af Ricardo Bastida.

Í byggingunum sem eru um 6000m2 er að finna kvikmyndahús, bókasafn, verslanir, heilsuræktarstöð með sundlaug og fl.

Bygging Ricardo Bastida er úr límsteini, nokkuð ornamenteruð en samt með einum hreinum fleti sem byggður er úr rauðum múrsteini. Rauði múrsteinninn myndar einskonar band um bygginguna miðja með litlum kýraugum. Við breytingarnar og viðbygginguna hefur Starck notað rauðan múrstein með gluggum sem mynda göt í flötinn. Gluggarnir eru bogadregnir að ofan og kallast á við kýraugun. Svo er auðvitað að finna þarna stál og mikið gler.

Það er ánægjulegt þegar stjörnuarkitektarnir brjóta odd af oflæti sínu og láta anda staðarins ráða ferð og byggja af virðingu við umhverfið, fortíðina og söguna. Það gerist afar sjaldan hjá stjörnuarkitektum. Arkitektar almennt eru allt of ragir við að láta verk gömlu meistarana og anda staðanna hafa áhrif á vinnu þeirra þegar þeir hanna í gamalt gróið umhverfi.

Þessi nálgun í Bilbao er tillitssöm og ekki í anda Starcks sem er sérlega sjálfhverfur í allri sinni hönnun.

Því vaknar spurningin: Hver er svona flinkur sem vinnur hjá Philippe Starck um þessar mundir?

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 5.10.2010 - 14:46 - 10 ummæli

BETRI borg BETRA líf

Málflutningur starfsmanna Skipulags- og byggingasviðs Reykjavíkurborgar á málþingi í ráðhúsinu um BETRIBORGBETRALIF í gærkvöld kom mér þægilega á óvart.

Þeirra sýn á skipulagsmálin var skynsamleg og framsækin í kynningunni. Ég segi framsækin miðað við það sem áður hefur sést frá sviðinu. Það sem þau töluðu um og þær lausnir sem nefndar voru eru áratuga gamlar í umræðunni um skipulagsmál, en nýjar hjá borginni.

Þarna bentu þau á þá ógnvænlegu þróun þar sem einkabílum hefur fjölgað í borginni um helming á hverja þúsund íbúa frá 1994. Þau töluðu um að minnka kröfur um fjölda bifreiðastæða niður í eitt á íbúð. Þau ræddu þéttingu byggðar. Fækkun einkabíla. Fá verslunina aftur inn í íbúðahverfin. Spurt var “Hvar verslar 85 ára gömul kona sem býr í Norðurmýrinni í matinn?” Þau ræddu um að styrkja almenningssamgöngur. Blanda betur saman atvinnu og íbúðasvæðum. Þau töluðu um að hús ættu ekki að vera hærri en 3-5 hæðir. Þau töluðu um uppbyggingu samgönguáss og margt fleira áhugavert.

Þetta eru allt hlutir sem ekki hafa verið á dagskrá borgarskipulagsins undanfarna áratugi. Það má kannski segja að stefna borgarinnar hafi gengið í þveröfuga átt.

Svona viðhorfsbreyting gerist ekki á einni nóttu. Sennilega hefur viðsnúningurinn átt sér stað fyrir 4-5 árum. Góðir hlutir gerast hægt. Þarna er verið að snúa stóru olíuskipi, svo notuð sé vinsæl samlíking. Það tekur tíma.

Þó ég fjalli hér einungis um erindi starfsmanna borgarinnar þá voru erindin hvert öðru áhugaverðara. Ég vil sérstaklega nefna erindi Páls Gunnlaugssonar um bábiljur, Páls Hjaltasonar um framtíðarsýn og störf skipulagssviðs, Hjálmars Sveinssonar um staðarmótun (Placemaking) Ég missti af síðasta erindinu sem var um húsið og borgina.

Mér er sagt að nálgast megi erindin á heimasíðu Arkitektafélagsins innan tíðar.

Eitt erindið var einkennilegt fyrir þær sakir að það var flutt á ensku.  Erindið var samið af íslenskum nemum í  Listaháskólanum og HR undir leiðsögn íslensks leiðbeinanda. Áheyrendur, flytjendur og þeir sem sömdu erindið voru allir íslenskir, en erindið var flutt á ensku!!! Flutningurinn var skemmtilegur en missti nokkuð marks vegna tungumálsins. Ekki svo að skilja að áheyrendur hafi ekki skilið tungumálið heldur hitt að einbeitingin og boðskapurinn truflaðist vegna sérviskunnar.

 Myndin sem fylgir færslunni er tekin af Mána Atlasyni og er fengin af þessari slóð:

http://www.lason.is/index.php?showimage=19)

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 3.10.2010 - 14:08 - 7 ummæli

Alþjóðlegur dagur arkitektúrs

 

ADA-590x275[1]

Fyrsti mánudagur í október ár hvert er alþjóðlegur dagur arkitektúrs. Sá dagur er á morgunn mánudaginn 4. október.

Í tilefni hans verður haldið málþing undir yfirskriftinni, Betri borg, betra líf – sjálfbærni í krafti hönnunar og stendur það frá kl. 16.30 til kl. 19.00 í Ráðhúsi Reykjavíkur. Þeir sem að málþinginu standa eru Arkitektafélag Íslands og Skipulags- og byggingasvið Reykjavíkurborgar.

Af  heitum erinda, sem þarna verða flutt má búast við spennandi umfjölllun. Þarna verður talað um Bábiljur og Borgarbrag, Vistmennt o.fl.

Gamalreyndir starfsmenn skipulagssviðs borgarinnar tala annarsvegar um “Vistvæn hverfi” og hinsvegar um “Sjálfbærari hverfi”.  Þarna kveður við nýjan tón  í skipulagsforsendum borgarinnar heyrist mér.

Svo tala tveir nýjir borgarfulltrúar sem gustað hefur af í umræðunni undanfarin misseri. Það eru þeir Páll Hjaltason sem talar um framtíðarsýn Reykjavíkur og Hjálmar Sveinsson sem fjallar um staðarmótun. Á málþinginu gefst tækifæri til þess að kynnast hugmyndum borgarfulltrúanna og áherslum þeirra eftir að hafa sest í borgarstjórn.

Ég er einn þeirra mörgu sem hafa talið að skipulagsmál í borginni hafi verið á villigötum undanfarna áratugi bæði hvað varðar deili- og aðalskipulag. Nú glittir í breytingar á þessu með opnari umræðu og öðrum áherslum. Undanfarið ár eða svo hefur Reykjavíkurborg opnað umræðuna og kallað eftir gagnrýni sem um langt árabil var illa séð af Borgarskipulaginu og þeim sem þar réðu húsum. Ég hef það á tilfinningunni að hugmyndin um að opna umræðuna sé runnin frá Júlíusi Vifli Ingvarssyni sem var formaður skipulagsráðs á síðasta kjörtímabili. Hverjum sem það er að þakka erum við sennilega á vegferð út úr dimmum táradal hvað opna, upplýsandi og lausnamiðaða umræðu varðar. 

Á málþinginu tala líka tveir fulltrúar fræða- og menntasamfélagsins, Listaháskólans og “Háskóla Reykjavíkur”(!).  Frá þeirri hlið hefur ekki heyrst mikið varðandi skipulagsumræðuna síðan prófessor Guðmundur Hannesson skrifaði bókina “Um skipulag bæja” árið 1916 og velti fyrir sér íslenskri þéttbýlishefð.

Allir sem láta sig skipulags- og umhverfismálmál varða ættu að mæta og vera virkir í umræðunni.

Nánar má skoða dagskrá málþingsins hér: 

http://ai.is/?p=552

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 1.10.2010 - 16:37 - 15 ummæli

Facadismi

800px-Facadism_in_bucharest[1]

Stefnurnar eru margar í byggingalistinni.

Ég nefni nokkrar; Funktionalismi, Brutalismi, Postmodernismi, Regionalismi, Metafysik, Minimalismi, Dekonstruktivismi, New Wave, Biomorf arkitektúr, Nýrationalismi, Internationalismi.

Og nú sé ég að farið er að tala um Facadisma.

Facadisma!

Facadismi virðist mér ganga út á að láta útlitið ráða ferðinni.  Ég vissi ekki að hugtakið væri til í nútíma arkitektúr.

Eftir að hafa kynnt mér stefnuna lítillega sé ég að þetta á einkum við um það þegar nánast ónothæf hús eru endurbyggð þannig að ekkert stendur eftir af gamla húsinu annað en útveggirnir. Þetta er til þess gert að vernda anda staðanna og gefa byggingunum nýtt hlutverk og líf án þess að trufla umhverfi sem fólk er sátt við.  Maður hefur séð þetta víða í eldri hverfum stórborga og þótt það fara ágætlega.

Þetta gengur stundum langt en það er ekki nokkur vafi á því að þessi nálgun á oft rétt á sér.

Hjálagt eru myndir frá Vínarborg og víðar. Neðst er mynd sem höfundur tók í Suður-Afríku og sýnir hvernig einn veggur húss er látinn standa til þess eins að hlýfa götumyndinni. Handan við veggin er bifreiðastæði.

5029025524_7cc4a3825e_zlett

 

facadism_krischanitz[1]

Sudur Afrika 563lett

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 28.9.2010 - 09:16 - 6 ummæli

Stóll úr sorpi

dzn_three-Emeco-111-Navy-Chairs-to-be-won-top

Maður veltir því stundum fyrir sér hvað verður úr plastumbúðunum undan gosdrykkjunum eftir að þeim er skilað í Sorpu. Það er eflaust margt sem kemur til greina.

Eitt svarið er “Navy Chair 111”

The Navy Chair var í upphafi hannaður árið 1944 og framleiddur í gríðarlegu magni úr áli í verksmiðjunni Emerco í South Carolina, USA.

Fyrir fjórum árum snéru Coca Cola verksmiðjurnar sér til Emerco með þá hugmynd að framleiða sama stól úr endurunnum gosumbúðum.

Hugmyndin var að sýna fram á verðmæti notaðra gosumbúða. Nánast allstaðar í veröldinni er um 80% plastumbúða endurnotað. Bandaríkin eru undantekning þar sem einungis um 20% umbúðanna er talið endurnotað.

Hugmyndin var að hafa áhrif á hegðun fólks og umgengni þess við notaðar umbúðir með því að setja á markað stól sem allir þekktu en var búinn til úr úrgangi. Það má því segja að Navy Chair 111 sé bæði stóll og áróðurstæki fyrir endurvinnslu úrgangsefna.

Hver stóll er búinn til úr  um 111 plastflöskum og styrktur lítillega með trefjum.  Stóllinn kostar 230 dollara og  fæst í mörgum litum og er með smá orðsendingu um umhverfismál undir setunni og að sjálfsögðu merktur Coca Cola.

Spurningin er hvað verður unnið úr stólunum eftir að þeir hafa þjónað hlutverki sínu sem slíkir?

dzn_emeco_3

 

24

dzn_emecocomp06

dzn_emecocomp05

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 27.9.2010 - 13:28 - 5 ummæli

Nýsköpun, framþróun, fagmennska, gæði

Formaður Arkitektafélags Íslands, Sigríður Magnúsdóttir, skrifaði grein á heimasíðu félagsins sem á erindi langt útfyrir stétt arkitekta. Sérstaklega til þeirra sem starfa í stjórnsýslunni og þeirra sem er annt um umhverfi sitt. Ég hef verið beðinn um að birta greinina hér á þessum vettvangi og gerið það nú með leyfi höfundar. Myndin sem fylgir er valin af höfundinum og er hún einnig birt með leyfi teiknarans, Halldórs Baldurssonar.

511Arkitektar-590x491

Grein formannsins ber yfirskriftina NÝSKÖPUN OG FRAMÞRÓUN, FAGMENNSKA OG GÆÐI, og fer hér á eftir:

“Arkitektafélag Íslands hefur vakið athygli á mikilvægi þess að vel sé staðið að undirbúningi framkvæmda, faglegur metnaður hafður að leiðarljósi og að gætt sé jafnræðis- og samkeppnissjónamiða við val á arkitektum. Lagaumhverfið ásamt Menningarstefnu í mannvirkjagerð, stefnu íslenskra stjórnvalda í byggingarlist á að tryggja að ofangreindum markmiðum sé náð.

Verklag opinberra aðila við kaup á þjónustu arkitekta og verkfræðinga er ógegnsætt, þrátt fyrir gildandi lög sem eiga að tryggja að faglega sé staðið að undirbúningi framkvæmda og að fylgt sé gagnsæju ferli. Lög um opinber innkaup, lög nr. 84 30. mars 2007 gæta almennra hagsmuna seljenda og kaupanda, sem eru opinberir aðilar og stuðla að því að ákveðin framþróun eigi sér stað í samfélaginu.

“1.gr. Tilgangur laganna

Tilgangur laga þessara er að tryggja jafnræði fyrirtækja við opinber innkaup, stuðla að hagkvæmni í opinberum rekstri með virkri samkeppni og efla nýsköpun og þróun við innkaup hins opinbera á vörum, verkum og þjónustu.” lög nr. 84 30. mars 2007

“3. gr. Opinberir aðilar sem lögin taka til.

Lög þessi taka til ríkis, sveitarfélaga, stofnana þeirra og annarra opinberra aðila, sbr. 2. mgr. Lögin taka einnig til samtaka sem þessir aðilar, einn eða fleiri, kunna að hafa með sér.” lög nr. 84 30. mars 2007

Arkitektafélag Íslands hefur óskað eftir upplýsingum frá ráðherrum og bæjarstjórum um hvernig staðið verði að undirbúningi nokkurra framkvæmda með hliðsjón af Lögum um opinber innkaup og Menningarstefnu í mannvirkjagerð. Spurt var um öryggisfangelsi, samgöngumiðstöð og fjögur hjúkrunarheimili fyrir  60, 45 og tvö 30 hjúkrunarrými. Auk þess var borgarstjóranum í Reykjavík send fyrirspurn þar sem óskað var eftir sambærilegum upplýsingum varðandi þjónustu- og menningarmiðstöð í Grafarvogi.

Í svari Félags- og tryggingamálaráðuneytis kemur fram að ráðuneytið sé hlynt opinni samkeppni um hönnun og nefnir nýafstaðna samkeppni um hjúkrunarheimili á Eskifirði með 20 hjúkrunarrýmum. Aðkoma ráðuneytisins að undirbúningi hjúkrunarheimila í Mosfellsbæ, Hafnarfirði, Akureyri og Reykjanesbæ er með öðrum hætti. Þar hafa viðkomandi sveitafélög tekið að sér byggingu húsnæðisins, sem skal hannað skv. leiðbeiningum í ritinu “Skipulag hjúkrunarheimila” frá 2008. Hvert sveitafélag ber ábyrgð á verkframkvæmdum og Framkvæmdasýsla ríkisins mun fylgjast með gæðum og að viðmiðum við hönnun sé fylgt eftir. Einungis Mosfellsbær hefur svarað bréfi Arkitektafélagisns. Í svari Mosfellsbæjar kemur fram að bæjarfélagið hafi í þrígang beitt opnu samkeppnisferli við val á tillögu og arkitekt á síðustu tveimur árum.  Ekki var unnt að beita þeirri aðferð við val á arkitekt til hjúkrunarheimilisins. Rökin voru að samkeppnisferlið tæki of langan tíma, þar sem hjúkrunarheimilið skyldi rísa á skömmum tíma, fjármögnun verkefnisins væri ekki vísitölutryggð og tengja ætti hjúkrunarheimili við mannvirki sem standa fyrir. Allir þættir verksins að undanskilinni arkitektahönnun verða boðnir út og stendur nú yfir útboð á verkfræðihönnun.

Hafnarfjarðarbær hefur farið þá leið að setja hjúkrunarheimilið í einkaframkvæmdarútboð, rekstur, bygging og hönnun húsnæðisins er boðin út samtímis og verður því þetta allt í höndum sama aðila.

Dómsmálaráðuneytið vinnur að frumathugun vegna byggingu skammtímavistunar- og gæsluvarðhaldsfangelsis. Í lok september verður boðin út bygging og leiga á nýju fangelsi.

Af þeim svörum sem borist hafa við bréfi AÍ má draga þá ályktun að það sé ekki mikið kappsmál að hálfu framkvæmdavaldsins að fara að lögum um opinber innkaup við kaup á þjónustu arkitekta, hvað þá að fylgja Mannvirkjastefnu í mannvirkjagerð, stefnu íslenskra stjórnvalda í byggingarlist.

Ríkiskaup auglýsir nú rammasamningsútboð á aðkeyptri þjónustu sérfræðinga í umhverfis-, skipulags- og byggingarmálum. Arkitektar eru meðal þeirra sérfræðinga sem koma til greina. “Ekki er ljóst hvaða magn verður keypt á grundvelli útboðs þessa, þar sem rammasamningar eru gerðir um tiltekna vöru- eða þjónustuflokka í tiltekinn tíma, án þess að magntölur séu þekktar.” (Ríkiskaup útboð í auglýsingu 14794). Innan rammasamningskerfisins er möguleiki á örútboðum, það eru útboð þar sem aðeins rammasamningshafar geta tekið þátt og meira frjálsræði ríkir um útboðstíma og fleiri atriði. Ekkert þak er á hámarskfjárhæð verkefna sem fara í örútboð. Með örútboði leggur Ríkiskaup til leið þar sem áskrifendur rammasamningskerfis Ríkiskaupa þurfa ekki að framfylgja öllum ákvæðum laga um opinber innkaup við kaup á þjónustu yfir lágmarksviðmiðunarfjárhæð. Ekkert í rammasamningsútboðsgögnum gefur til kynna að gagnsæi verði aukið við úthlutun verkefna á vegum opinberra aðila. Það er áhyggjuefni á hvaða grundvelli áskrifendur að rammasamningskerfi Ríkiskaupa munu velja sér ráðgjafa. Rammasamningskerfið treystir rekstrargrundvöll Ríkiskaupa þar sem rammasamningshafar skulu greiða Ríkiskaupum 1% þóknun af allri vinnu sem þeir vinna fyrir áskrifendur rammasamningskerfisins auk þess sem tæplega þúsund áskrifendur greiða áskriftargjald til Ríkiskaupa.

Það er umhugsunarvert að opinberir aðilar virðast hafa einbeittan vilja til að sniðganga og fara í kringum lög við kaup á þjónustu arkitekta. Það er lítil viðleitni til að gera kröfur um gæði hvað þá að stuðla að framþróun og nýsköpun. Þannig bendir fátt til þess að breyting sé á þeirri venju sem skapast hefur og að stjórnsýslan færist til betri vegar hvað varðar gegnsæi og fagleg vinnubrögð.

Við hrun íslenska fjármálakerfisins haustið 2008 gafst einstakt tækifæri til að meta og endurskoða  ríkjandi viðhorf og gildismat. Hrunið hefur haft víðtæk áhrif um allt samfélagið og ekki síst á störf arkitekta. Nú er gerð krafa um fagleg og yfirveguð vinnubröð, sem byggja á gildum, fylgja stefnu og fara að lögum og reglum.

Sigríður Magnúsdóttir, Formaður Arkitektafélags Íslands”

Rétt er að vekja athygli lesenda á heimasíðu Arkitektafélags Íslands slóðin er:

http://ai.is/

Þar er ýmsan fróðleik að finna um starfið og félagsmenn.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 23.9.2010 - 13:19 - 24 ummæli

“Bílar eru ljótir, margir saman”

normal[1]

Því hefur verið haldið fram að bílar geti verið fallegir hver fyrir sig. Það er að segja þegar þeir standa einhversstaðar og aðrir bílar hvergi nærri. Til dæmis úti í ósnortinni náttúrunni. Þetta vita þeir sem selja bíla. Bílar eru gjarna auglýstir þannig.

Hinsvegar er fólk sammála því að bílar séu ekki fallegir þegar þeir eru margir saman. Og mikill fjöldi bíla smitar ljótleikanum á umhverfið sem verður óaðlaðandi. Þetta er að vissu marki staðhæfing sem er studd af atferlisrannsóknum sem sýna að gangandi og hjólandi fjölgar þar sem bílum hefur verið úthýst.

Þórður Ben Sveinsson myndlistarmaður hélt því fram að Ármúlinn í Reykjavík væri ljótasta gata í Evrópu. Þetta sagði hann fyrir rúmum 20 árum.

Gatan þótti ekki ljót vegna húsanna sem stóðu við hana heldur vegna þess að breidd götunar og húsahæðir gáfu fyrirheit um að eitthvað svæði væri afgangs fyrir fólk eða gróður. En svo er ekki. Það olli listamanninum vonbrigðum. Allt svæðið milli húsanna er fyllt með bílum. Þarna eru bílar út um allt.

20 árum síðar endurtók sagan sig eins og engin reynsla hefði safnast í sarpinn. Við Borgartúnið stendur röð skrifstofubygginga í alþjóðlegum stíl og svo „vegasjoppa“. Byggingarnar standa sperrtar uppúr bílastæðaflæminu sem gerir allt umhverfið óaðlaðandi. Þetta er auðvitað skipulagsafglöp sem virðast gerð með fullri vitund og vilja allra þeirra sem að standa, skipulagsyfirvalda, húsbyggjenda og ráðgjafa þeirra.

Þessi einkabílavæðing og það rými sem henni er skapað er ótrúleg. Það er óskiljanlegt að Reykjavíkurborg skuli skipuleggja sig þannig að forsenda fyrir búsetu þar sé að íbúar hafi einkabíl til afnota. Þessi stefna er bæði forneskjuleg og óskynsamleg.

Dæmi um skipulagsleysið er að stærstu matvöruversanir vesturborgarinnar eru staðsettar á hafnarsvæði út í Örfirisey  og kallar því á einkabíl vilji maður versla í matinn, eins og það sé valkostur.

Það er fullyrt að í engri borg í heimi séu jafn margir bílar á hverja 1000 íbúa og í Reykjavík  Það hefur komið fram opinberlega að Reykjavík er eina höfuðborg norðurlandanna þar sem fleiri bílar eru á hverja þúsund íbúa innan hennar en í hinum dreifðu byggðum landsins.

Hinsvegar er rétt að árétta að það er ekkert á móti því að fólk hafi einkabíl til umráða en hann á ekki að vera forsenda fyrir búsetu í borginni frekar en mótórbátur eða vélsleði!!

Það tekur langann tíma að snúa af þessari stefnu.  Sigrún Helga Lund sagði í Kastljósi RUV í gær að þessu þyrfti að breyta. En það tæki tíma. Þetta væri eins og að snúa fullhlöðnu 300 þúsund tonna olíuskipi. Það gerir maður ekki á einu augnabliki. Ég vil bæta því við að skipulagsyfirvöld máttu vita hvert stefndi strax uppúr 1960 og áttu fyrir löngu að vera búin að taka í stýrið.

Slóðina að umfjöllun Kastljóss er að finna hér:

http://dagskra.ruv.is/sjonvarpid/4544935/2010/09/22/1/

Biladrasl

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 21.9.2010 - 21:17 - 6 ummæli

Fræðsla í byggingarlist

melaskoli[1]

Í menningarstefnu Menntamálaráðuneytisins í mannvirkjagerð er fjallað nokkuð um menntun í arkitektúr, skipulagi og staðarprýði. Það var tímabært að setja markmið í þessum efnum.

Ég man þegar ég gekk í skóla lærði maður ýmislegt smálegt um ýmsar byggingar og borgir úti í hinum stóra heimi. Píramídana í Egyptalandi, Akropolis í Aþenu og þ.h.  Kennslan byggðist ekki á skilningi á umfjöllunarefninu heldur frekar utanbókarlærdómi.  Þetta hafði lítið breyst þegar börnin mín gengu í grunnskóla áratugum seinna.

Við vorum aldrei,  svo nærtækt dæmi sé tekið,  upplýst um hvernig Melaskólinn er hugsaður eða hvaða markmið voru höfð að leiðarljósi þegar Hagarnir voru skipulagðir.  Hvernig  háttað var dreifingu á þjónustu,  eða hvernig gatnakerfi og húsaskipan var hugsuð.

Við lærðum auðvitað Gunnarshólma utanað, hugsunarlaust og gagnrýnislaust og án nokkurs skilnings,  en ekkert um umhverfið sem mótaði okkar daglegu störf.  Við erum jú ”bókmenntaþjóð”

Nú stendur þetta allt til bóta því Menntamálaráðuneytið hefur sett á blað hugmyndir sínar um fræðslu í skipulagi, arkitektúr og staðarprýði í grunn- og framhaldsskólum.

Ég leyfi mér að birta hér stuttann kafla sem fjallar um fræðslu og er að finna í stefnunni á bls. 31.

”Fræðsla

Ein áhrifaríkasta leiðin til að auka áhuga á góðri hönnun er að veita innsýn í eðli hennar og möguleika. Gera verður umræðu um skipulag, byggingarlist og hönnun mannvirkja skiljanlega fyrir almenning. Þegar upp er staðið er það almenningur sem nýtur þeirra verka sem unnin eru. Samfara auknum kröfum borgaranna um þátttöku í ákvörðunum um mikilvæg mál sem snerta þeirra daglega líf og umhverfi er nauðsynlegt að huga að uppfræðslu almennings á sviði byggingarlistar og skipulags. Hið opinbera móti áætlun um fræðslu á hönnun, byggingarlist og skipulagi. Efla þarf samstarf skóla og safna, auka útgáfu, sýningahald og námskeið og nota til þess fjölbreytt form á miðlun.

Kennsla á grunn- og framhaldsskólastigi

Skilningur á hönnun og byggingarlist hefst á unga aldri þar sem börn og unglingar nálgast umhverfi sitt oft með opnari hætti en þeir sem eldri eru. Kennsla á þessu sviði býður upp á þverfaglega nálgun við lista- og verknám en einnig við sögu, samfélagsfræði, stærðfræði og náttúrufræði. Kynningu og kennslu í hönnun og byggingarlist þarf að tengja markvisst aðalnámskrá leik- grunn- og framhaldsskóla. Gera skal fjölbreytt námsefni sem hentar ólíkum aldurshópum með áherslu á íslensk dæmi og samhengi þeirra við umheiminn. Einnig þarf að þjálfa leiðbeinendur í kennslu á þessu efni. Kennsla í sköpunarferli hönnunar frá hugmynd til verks spannar vítt svið frá rökhugsun að listrænni vinnu og verkþjálfun og eflir sjálfstæða og gagnrýna hugsun. Hún hentar vel til að örva sköpun og opnar augu nemenda fyrir hinu manngerða umhverfi. Fylgja þarf eftir og þróa tilraunaverkefni á þessu sviði.”

Spurt er hvernig mennta- og menningarmálaráðuneytinu gengur að fylgja þessum göfugu áætlunum sínum eftir?

Arkitektar bjóða án vafa fram strarfskrafta sína ef eftir þeim er kallað.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 20.9.2010 - 15:25 - 10 ummæli

Menningarstefna í mannvirkjagerð

 

Forsidalett

Fyrir þrem árum kom út bæklingur sem fjallar um menningarstefnu íslenskra stjórnvalda í byggingarlist. Bæklingurinn er um 50 vel skrifaðar síður og hlaðinn góðum ásetningi.

Í honum er lagður grunnur að opinberri stefnu í mannvirkjagerð.

Í stefnunni er horft til varðveislu mikilvægra mannvirkja, til nýbygginga og skipulags. Stefnan leggur áherslu á fallegt starfrænt umhverfi og hampar þeim virðisauka sem góð byggingalist færir samfélaginu. Þá er rík áhersla lögð á sjálfbærni, líftímakostnað og sambýli manns og náttúru og margt fl.

Þetta er merkilegt rit sem allir ættu að kynna sér. 

Það kom því nokkuð á óvart að á fundi sem arkitektar voru boðaðir til hjá umhverfisnefnd Alþingis nýverið  urðu arkitektarnir þess áskynja að nokkrir þingmenn, í sjálfri umhverfisnefnd, þekktu ekki menningarstefnu stjórnvalda í byggingarlist.

Þeir sem vilja kynna sér þessa merkilegu stefnu geta nálgast hana hér:

http://bella.mrn.stjr.is/utgafur/menningarstefna_mannvirkjagerd.pdf

Bæklingurinn er gefinn út af Menntamálaráðuneytinu, Sölvhólsgötu 4 í Reykjavík.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 13.9.2010 - 10:30 - 13 ummæli

Kemur aðalskipulagið frá Guði?

Lettur gud

Eyja rís úr hafi, fjallgarðar myndast, árfarvegir móta landið,  sléttlendi verður til, allt er í mótun, ekkert er tilviljun eins og Einstein sagði og allt er í rökréttu samhengi við atburðarrásina.

Þarna virðist eitthvað skipulag vera í gangi sem hefur einhvern tilgang og markmið. Skipulagið er unnið og framkvæmt af meistarans höndum.

Ef okkur líkar verk meistarans þá þökkum við fyrir okkur. Ef okkur líkar það ekki þá sættum við okkur við það og segjum ekki neitt. Við höfum þarna engin áhrif og okkur gefst ekki kostur á að gera athugasemdir

Það er stundum eins og fólk haldi aðaðalskipulag verði til með svipuðum hætti og að það komi frá Guði og sé málaflokkur sem ekki sé ástæða til að blanda sér í.

Þannig er það ekki.

Aðalskipulag er mannanna verk sem gert er til margra ára og er endurkoðað með reglulegu millibili.  En vegna þess að það fjallar um fræðileg efni, varðar almannahagsmuni og er til langrar framtíðar finnst fólki aðalskipulag ekki “interessant”.  Fólk treystir líka stjórnmálamönnum og sérfæðingunum til þess að sjá um málið fyrir þeirra hönd.

Því er þannig háttað að aðalskipulag veldur meiru um hag flestra en þær ákvarðanir sem teknar eru t.d. í deiliskipulagi. Flestar  deilur og umræður undanfarin ár um skipulagsmál hafa tengst deiliskipulagi. Stóru ákvarðanir eru næstum ekki ræddar.

Fyrir utan Vatnsmýrina man ég varla eftir umræðum um aðalskipulag í Reykjavík síðan umræða var um hvort borgin ætti að þróast til austurs upp að Rauðavatni og Norðlingaholti eða norður með sjónum í átt að Mosfellsbæ. Þetta var árið 1982 að mig minnir. Þeir sem þátt tóku í umræðunni fjölluðu ekki um skipulagsmál, félagsleg og efnahagsleg áhrif, samgöngur eða annað, heldur um jarðfræði og hvort tæknilega væri hægt að grunda byggingar við Rauðavatn vegna sprungumyndanna sem áttu upptök sín í iðrum jarðar. Skipulagsumræðan var í raun umræða um grundun húsa og jarðfræði.

Síðan 1982 hefur verið stofnað til kennslu í skipulagsfræðum í sennilega fjórum æðri menntastofnunum.: Háskóla Íslands, Listaháskólanum, Háskólanum í Reykjavík og Háskólanum á Hvanneyri.  Í þeim tveim síðastnefndu er þegar hafið  metnaðarfullt meistaranám í greininni.

Þrátt fyrir þetta ber ekki á faglegri umræðu um skipulagsmál að frumkvæði skólanna svo eftir sé tekið.  Undantekning er prófessor Trausti Valsson hjá HÍ  sem hefur vakið athygli á ýmsum álitaefnum í aðalskipulagi undanfarin ár og Háskólinn í Reykjavík hefur staðið fyrir opnum ráðstefnum um skipulagsmál þar sem m.a. Ben Hamilton-Baillie talaði um „shared spaces“

Kannski treystir fræðasamfélagið sér ekki til að hefja umræðu um skipulagsmál eða leggja eitthvað til málanna og stefnir frekar að því að vera “óáreitt og spakt”. Er fræðasamfélagið og skólarnir að bregðast?

Arkitektar blanda sér heldur ekki mikið í umræðuna og alls ekki þeir sem hafa skipulagsmál sem sitt sérsvið, með örfáum undantekningum. Það er athyglisvert og vekur upp spurningar um almenna umræðu hér á landi í heild sinni.

Í opinberri umræðu ber að nefna Hjálmar Sveinsson dagskrárgerðamann sem fjallaði nokkuð um efnið í vikulegum þáttum sínum á RUV. Skipulagssvið Reykjavíkurborgar gerði líka á síðastliðnum vetri virðingaverða tilraun til þess að hefja umræðu um markmið aðalskipulags borgarinnar. Þetta var nýjung hjá borginni. Haldnir voru margir góðir kynningafundir um hina ýmsu þætti skipulagsins. En einhvernvegin tókst ekki að koma umræðunni af stað. Þó svo að ég sé fullviss um að fundirnir einir og sér hafi gagnast í skipulagsvinnunni, þá fjaraði umræðan út.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn