Jóhannes Þórðarson deildarforseti hönnunar- og arkitektúrdeildar Listaháskóla Íslands skrifar athugasemd við færslu mína s.l. föstudag.
Ég leyfi mér að birta skrif hans í heild sinni þar sem hann lýsir áhyggjum sínum af meðferð höfundarréttar og hvaða áhrif hún kunni að hafa á byggingalistina í landinu. Hann veltir líka fyrir sér nýliðun í greininni, möguleika ungs hæfileikafólks til þess að hasla sér völl og skapa sér framtíð í faginu. Að lokum spyr hann ögrandi spurninga um sinnuleysi arkitektastofanna í þessi stóra máli. Þetta eru orð í tíma töluð. Gefum Jóhannesi orðið:
“Það er nauðsynlegt með hliðsjón af því sem fram kemur í þessu ótrúlega máli að benda á að góður arkitektúr snýst um form, hlutföll og rými þar sem öllu er ætlað að framkalla minnisstæðar upplifanir og tengsl. M.ö.o. arkitektúr er ætlað að tengja saman verðmætamati í formi, efni, rými og hughrifum. Þetta eru allt saman grunnatriði sem reyna á sköpun, frumleika og skýra hugsun þeirra sem leggja fram hugmyndir sínar. Það er einmitt á þessum forsendum sem arkitektar hafa öldum saman staðið vörð um höfundarrétt og því óskiljanlegt með öllu að þeir séu reiðubúnir til þess að henda honum fyrir borð á þeim tímum sem við erum að upplifa einmitt núna.
Í þessu samhengi er rétt að minna á menningarstefnu íslenskra stjórnvalda í mannvirkjagerð sem enn er í fullu gildi. Þar segir m.a. „Hönnunarsamkeppni hvetur til fjölbreytni, nýsköpunar og frumlegra lausna. Hönnunarsamkeppni hvetur til fjölbreytni, nýsköpunar og frumlegra lausna. Þær umræður sem eiga sér stað við dómnefndarstörf draga fram aðalatriði og skerpa áherslur verkefnis. Verkkaupi fær þannig betri innsýn í ólíka þætti verkefnis og þær lausnir sem mögulegar eru. Mikilvægt er að fyrirkomulag og forsagnir bindi ekki hendur þátttakenda í samkeppni meira en nauðsyn krefur og gott þykir enda eiga þær að hvetja til svigrúms gagnvart skapandi hönnunarlausnum.
Forskriftir hönnunarsamkeppna þurfa að vera sveigjanlegar til að gefa þátttakendum tækifæri til að beita hugvitssemi og koma með nýjar lausnir. ……. Kappkosta skal að bjóða upp á samkeppnir sem hvetja til aðkomu yngri hönnuða og leiða þar með til nýliðunar í greininni.“
Nú getum við spurt okkur hvort fyrirkomulag þess forvals sem hér er rætt um skerpi vitund um góða byggingarlist? Og hvar er svigrúmið? Og hvar er metnaður stjórnvalda til sköpunar og frumleika við umrætt verkefni? Snýst þetta kannski allt saman um verkfræði? Og hvenær hefur höfundarréttur arkitekta þvælst fyrir verkkaupum?
Arkitektastofur virðast engan áhuga hafa á þeim grunngildum sem höfundarréttur fjallar um.
Jóhannes Þórðarson”