Mánudagur 15.2.2010 - 17:45 - 8 ummæli

LSH og nýliðun í arkitektastétt

Jóhannes Þórðarson deildarforseti hönnunar- og arkitektúrdeildar Listaháskóla Íslands skrifar athugasemd við færslu mína s.l. föstudag.

Ég leyfi mér að birta skrif hans í heild sinni þar sem hann lýsir áhyggjum sínum af meðferð höfundarréttar og hvaða áhrif hún kunni að hafa á byggingalistina í landinu. Hann veltir líka fyrir sér  nýliðun í greininni, möguleika ungs hæfileikafólks til þess að hasla sér völl og skapa sér framtíð í faginu. Að lokum spyr hann ögrandi spurninga um sinnuleysi arkitektastofanna í þessi stóra máli. Þetta eru orð í tíma töluð. Gefum Jóhannesi orðið:

“Það er nauðsynlegt með hliðsjón af því sem fram kemur í þessu ótrúlega máli að benda á að góður arkitektúr snýst um form, hlutföll og rými þar sem öllu er ætlað að framkalla minnisstæðar upplifanir og tengsl. M.ö.o. arkitektúr er ætlað að tengja saman verðmætamati í formi, efni, rými og hughrifum. Þetta eru allt saman grunnatriði sem reyna á sköpun, frumleika og skýra hugsun þeirra sem leggja fram hugmyndir sínar. Það er einmitt á þessum forsendum sem arkitektar hafa öldum saman staðið vörð um höfundarrétt og því óskiljanlegt með öllu að þeir séu reiðubúnir til þess að henda honum fyrir borð á þeim tímum sem við erum að upplifa einmitt núna.

Í þessu samhengi er rétt að minna á menningarstefnu íslenskra stjórnvalda í mannvirkjagerð sem enn er í fullu gildi. Þar segir m.a. „Hönnunarsamkeppni hvetur til fjölbreytni, nýsköpunar og frumlegra lausna. Hönnunarsamkeppni hvetur til fjölbreytni, nýsköpunar og frumlegra lausna. Þær umræður sem eiga sér stað við dómnefndarstörf draga fram aðalatriði og skerpa áherslur verkefnis. Verkkaupi fær þannig betri innsýn í ólíka þætti verkefnis og þær lausnir sem mögulegar eru. Mikilvægt er að fyrirkomulag og forsagnir bindi ekki hendur þátttakenda í samkeppni meira en nauðsyn krefur og gott þykir enda eiga þær að hvetja til svigrúms gagnvart skapandi hönnunarlausnum.

Forskriftir hönnunarsamkeppna þurfa að vera sveigjanlegar til að gefa þátttakendum tækifæri til að beita hugvitssemi og koma með nýjar lausnir. ……. Kappkosta skal að bjóða upp á samkeppnir sem hvetja til aðkomu yngri hönnuða og leiða þar með til nýliðunar í greininni.“

Nú getum við spurt okkur hvort fyrirkomulag þess forvals sem hér er rætt um skerpi vitund um góða byggingarlist? Og hvar er svigrúmið? Og hvar er metnaður stjórnvalda til sköpunar og frumleika við umrætt verkefni? Snýst þetta kannski allt saman um verkfræði? Og hvenær hefur höfundarréttur arkitekta þvælst fyrir verkkaupum?

Arkitektastofur virðast engan áhuga hafa á þeim grunngildum sem höfundarréttur fjallar um.

Jóhannes Þórðarson”

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 14.2.2010 - 19:14 - 2 ummæli

Á Stofunni arkitektar – Kynning

Lækjarskoli - photo 1

Á Stofunni arkitektar er rekin af tveim skólafélögum frá Konunglegu listaakademíunni í Kaupmannahöfn og hafa þeir rekið hana í meira en 30 ár. Á teiknistofunni hafa verið  hannaðir hundruð þúsunda fermetra í margskonar byggingum.

Teiknistofan hefur unnið til verðlauna og viðurkenninga í 35 samkeppnum ýmiskonar, þar af hefur stofan hafnað í efsta sæti 19 sinnum.

Meðal verkanna eru þrjár heilbrigðisstofnanir, þrír framhaldsskólar og þrír grunnskólar og á annann tug leikskóla sem hefur verið byggt. Auk þess liggja eftir stofuna fjöldi samkeppnistillagna af stórum húsum og smáum.

Meðal verka Á Stofunni arkitekta má nefna Grafarvogskirkju,  allar byggingar Sunnuhlíðar í Kópavogi, byggingar á Reykjalundi, Iðnskólann í Hafnarfirði, Borgarholtsskóla, Sunnulækjarskóla á Selfossi, uppbyggingu á Litla Hrauni , Hraunvallaskóli í Hafnarfirði og fjölda bygginga fyrir einstaklinga og fyritæki um land allt.

Hjálagt eru myndir af Lækjaskóla í Hafnarfirði sem teiknistofan vann í opinni arkitektasamkeppni fyrir nokkrum árum. Skólinn var tilnefndur árið 2005, til virtustu verðlauna í byggingarlist í Evrópu, Mies van der Rohe verðlaunanna.

Á Stofunni er dæmi um fyrirtæki í arkitektaþjónustu sem hefur ekki burði til þess að vera ábyrgðaraðili í samkeppni um hönnun nýs Landspítala Háskólasjúkrahúss að mati þeirra sem sömdu forvalsgögnin. Þó svo Á Stofunni hafi komið að og hannað þrjár heilbrigðisstofnanir  þá hefur stofan ekki náð að koma þeim upp í 500 sjúkrarúm hverri fyrir sig á síðustu 10 árum eins og óskað er eftir í gögnunum. Teiknistofan telur einnig fráleitt að afsala sér höfundarrétti eins og krafist er í samkeppni um LHS við Hringbraut.

Þetta er fyrsta færslan af nokkrum þar sem kynntar eru íslenskar arkitektastofur. Á stofuni arkitektar standa nærri mér og er valin fyrst vegna þess að ég hef aðgang að myndefni  af verkum hennar á tölvu minni.

Lækjarskoli - photo 2.

 

BloggTimburveggur

 

Lækjarskóli - view towards the south-east end of the building

Höfundar Lækjarskóla eru Finnur Björgvinsson, Hilmar Þór Björnsson og Sigríður Ólafsdóttir arkitektar. Ljósmyndari er Guðmundur Ingólfsson.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 12.2.2010 - 11:18 - 14 ummæli

Íslenskum arkitektum ekki treyst

naive-or-stupid1

Stjórnvöld hafa ákveðið að efna til arkitektasamkeppni um Landspítala Háskólasjúkrahús við Hringbraut, alls um 66 þúsund fermetra og verja milli 30 og 40 milljörðum króna í framkvæmdina.  Þetta er hluti af svonefndum stöðugleikasáttmála.

Auglýst hefur verið forval vegna arkitektasamkeppninnar þar sem leitað er 5 hönnunarteyma sem samanstanda af arkitektum, verkfræðingum og öðrum sérfræðingum.

Til þess að meta reynslu teymanna í hönnun sjúkrahússbygginga er gerð krafa um að umsækjandi hafi teiknað minnst 100 rúma sjúkrahús til að fá stig í forvalinu og til að fá fullt hús stiga þarf teymið að hafa hannað minnst þrjá 500 sjúkrarúma spítala á síðustu 10 árum.

Það er ekki hægt að skilja þessa kröfu öðruvísi en svo að verkefnastjórnin vill helst skipta við stofur sem hafa teiknað þrjá 500 sjúkrarúma spítala eða meira undanfarin 10 ár

Það finnast engar slíkar stofur hér á landi.

Það er ekkert íslenskt ráðgjafafyritæki eða arkitektastofa sem kemst á blað í þessu mati þar sem enginn íslendingur hefur teiknað sjúkrahús með meira en 100 sjúkrarúmum hvað þá þrjú með 500 rúmum.

Þessa kröfu í forvalsgögnum er ekki hægt að skilja öðruvísi en svo að verkefnastjórnin óski eftir að leitað verði út fyrir landsteinana með arkitektaþjónustu.

Í forvalinu er gerð krafa um að ábyrgðaraðilinn ( oftast arkitektinn) hafi minnst 30 háskólamenntaða starfsmenn á sínum vegum.  Það er skemmst frá því að segja að slíkan mannafla hefur engin íslensk arkitektastofa yfir að ráða enda engin þörf fyrir slíka stofu á okkar litla landi.

Samkeppnin kallar heldur ekki á þennan mannafla.

Þá er ætlast til að í teyminu séu að minnsta kosti 70 háskólamenntaðir sérfræðingar til viðbótar.  Það skal tekið fram að engin sjáanleg þörf er fyrir þennan hóp vegna vinnu við tillögugerð í samkeppni sem þessari og má því sleppa honum alfarið.

Þessu til viðbótar er í forvalinu höfundarréttur arkitekta nánast hrifsaður af þeim á ófyrirleitinn hátt og margt fleira má tína til, en látið kyrrt liggja að svo stöddu.

Ég fullyrði að það eru að minnsta kosti 20 íslenskar arkitektastofur á landinu sem eru fullfærar um að skila tillögu í samkeppni sem þessari svo sómi sé að, án þess að þurfa á nokkrum stuðingi að halda utan stofanna eða erlendis frá.

En kröfur í forvalsgögnum eru þannig smíðaðar að engin þessara minnst 20 hæfu íslensku arkitektastofa fær tækifæri til að leggja inn tillögu í samkeppnina óstudd.

Að mati útbjóðanda geta þær ekki tekið að sér verkið og staðið við skyldur sínar sem höfundur og ábyrgðaraðili verksins að óbreyttu.

Má túlka þetta svo að íslenska ríkið treysti ekki íslenskum arkitektum?

Þetta er umhugsunarefni sérstaklega vegna þess að íslensk arkitektastétt hefur aldrei verið öflugri í sögunni en einmitt nú.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 9.2.2010 - 12:44 - 11 ummæli

Gildistími deiliskipulaga

Gamalt og gott

Í góðærinu voru gefin fyrirheit um aukningu á nýtingu í deiliskipulagi flestra reita við Laugarveg og víðar. Vegna efnahagsástandsins má búast við að lítið verði um framkvæmdir og eignir sem þar standa nú, fái lítið viðhald á komandi árum.  Og að lokum verði þarna hörmungarástand.

Hvað er til ráða?

Þarf ekki að endurskoða öll þessi deiliskipulög í ljósi breyttra viðhorfa til umhverfisins, anda staðarins og þess að efnahagslegt ástand er allt annað nú en þegar deiliskipulögin voru gerð?

Það eru aðrir tímar núna og vonandi tímar þar sem áhugi fólks fyrir því sem það á, fer vaxandi og þráin fyrir hinu nýja fer minnkandi.

Ekkert er að finna í skipulagsreglugerð um endurskoðun eða gildistíma deiliskipulaga. Til samanburðar má geta þess að aðalskipulag skal taka upp í upphafi hvers kjörtímabils og gildir í minnst 12 ár.
Þarf ekki að gera breytingu á skipulagsreglugerð sem gengur út á að deiliskipulag hafi takmarkaðan gildistíma og þurfi að endurnýja á 4-8 ára fresti?

Slík breyting mundi hafa það í för með sér að deiliskipulög tækju  mið af þörfum tímans og verða hreyfiafl sem opnaði möguleika sem væru í takti við þarfir líðandi stundar bæði starfrænt og hvað varðar hagkvæmni fjárfestinga. Breyttum viðhorfum til anda staðarins væri einnig hægt að mæta á kerfisbundinn hátt.

Nú eru engin tímamörk á deiliskipulagsáætlunum sem gerir það að verkum að engin þróun verður og skipulagið frýs. Merki þessa má sjá mjög víða i borginni og bæjum um allt land. Heilu hverfin hafa staðnað og grotnað niður af þessum sökum.
Er ekki hægt að breyta þessu með einhverjum hætti?

3582458678_b4af200fda[1]

Víða eru tækifæri til þess að byggja skemmtileg “in-fill” ásamt því að gera gömul hús upp þannig að sómi sé að.

3721226625_6245bcc74d[1]

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 7.2.2010 - 17:41 - 22 ummæli

Bíll í borg

59704[1]

Gísli Marteinn Baldursson var í Silfri Egils í dag og fjallaði um borgarskipulagið.  Maður skynjaði áhuga hans á efninu og það gustaði af hugmyndum þeim sem hann setti fram.

Gísli Marteinn sagði að ferðakostnaður væri annar stærsti kostnaðarliður fjölskyldunnar. Næst á eftir húsnæðiskostnaðinum og hærri en matarkarfan.

Þetta er örugglega rétt hjá honum en mig grunar að það vanti tölur inn í útreikningana sem breyti þessu þannig að þegar allt er talið þá toppi ferðakostnaðurinn húsnæðiskostnaðinn.

Þetta segi ég vegna þess að stór hluti aðstöðu einkabílsins er niðurgreidd af almannafé í gegnum skatta og útsvar.

Til viðbótar fellur hluti kostnaðar við einkabílinn undir húsnæðiskostnað.  T.d bílskúr.  Bygging bílskúrs, rekstur og fjármögnun fellur undir húsnæðiskostnað.   Sama á við um bílastæðin við heimilið, sumarbústaðinn, vinnustaðinn og verslanir.

Þarna eru stórar fjárhæðir á ferðinni sem eru tilkomnr vegna einkabílsins og hugsanlega færa ferðakostnaðinn uppfyrir húsnæðiskostnaðinn í útgjöldum fjölskyldunnar.

Mig langar að bæta því við hér að því hefur verið haldið fram að það þurfi 7 bifreiðastæði fyrir hvern bíl. Kostnaður þeirra fellur ekki á rekstrarkostnað bílsins nema að takmörkuðu leiti.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 3.2.2010 - 12:47 - 17 ummæli

Meira In-Fill

IMG_3159létt

Húsið sem kynnt var í síðustu færslu er nýtísku arkitektúr. Það er smart akkúrat núna í febrúar 2010. Það verður líka smart í nokkur ár til viðbótar. Kannski í 50 ár.

En þegar frá líður fer glansinn af því og ég er þess fullviss að það verður fyrsta húsið sem verður rifið í götulínunni þegar fram líða stundir.

Kollegi minn sendi mér myndir sem hann átti í fórum sínum. Þær eru af húsum sem byggð voru fyrir nokkrum árum í gömlum hverfum í Evrópu og þóttu framúrskarandi á sínum tíma.  

Það liggur auðvitað í augum uppi að þegar arkitektarnir afhentu verkkaupa teikningarnar þótti þeim vinna sín góð og að teikningarnar gæfu fyrirheit um góð hús sem hentuðu staðnum. Verkkaupanum þótti þetta góð hönnun þegar hann sótti um byggingaleyfi og það sama á við um yfirvöld sem gáfu leyfi til framkvæmdanna enda húsin hönnuð í samræmi við “þá tækni og byggingarlist sem við búum við í dag” og að húsin væru fulltrúar “nýs tíma”.

Nú nokkru seinna er rétt að meta niðurstöðuna og spyrja sig hvort húsin “passi” inn í umhverfið eða hvort þeim sé þröngvað inn í umhverfið.

Það er hægt að finna svipuð dæmi á mörgum stöðum hér á landi.

Ný hús í gamalli götumynd má sjá víða á Laugaveginum.  Bygging SPRON við Skólavörðustíg eftir Guðmund Kr. Kristinsson er eitt dæmi.  Mörgum þykir viðbygging Gunnlaugs Halldórssonar við Landsbankann undantekning sem er vel heppnuð.

Svo að lokum fylgir mynd af húsi í Hafnarfirði sem vildi vera annað en það er og  vildi ekki kallast á við nágranna sína.

 

IMG_3160létt

 

crop_260x[1]

img_3061[1]

crop_500x[1]

New Image

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 1.2.2010 - 13:06 - 18 ummæli

Aðlögun að götumynd

townhouse07[1]

Hér er kynnt 125 m2 hús sem byggt hefur verið í Landskrona í Svíþjóð. Húsið er ætlað barnlausu fólki sem vinnur að einhverju marki heima hjá sér í litlu 5 m2 annexi á lóðinni.

Húsið er fellt inn í gamla götumynd. Svona verkefni eru kölluð “in-fill” á ensku.

Slík verkefni eru vandmeðfarin. Arkitektinn þarf að kunna að lesa umhverfið og setja sig inn í öll aðalatriði og einkenni staðarins. Verkefnið er að draga úr göllunum og styrkja kostina. Svona verkefni nálgast arkitektar með ýmsum hætti og sitt sýnist hverjum.

Mér sýnist þetta hús í Landskrona mjög vandað og spennandi. En er það ekki á kolröngum stað?

Maður veltir fyrir sér spurningunni; Af hverju er fólk sem sækist eftir gömlu umhverfi að byggja svona hús á svona stað?

Húsið sem er með japönskum áhrifum er teiknað af Johan Oscarson sem nam arkitektúr í South Bank University í London

townhouse01[1]

9[2]

 

townhouse09[1]

townhouse10[1]

townhouse13[1]

 

townhouse17[1]

 

townhouse20[1]

 

townhouse04[1]

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 30.1.2010 - 20:08 - 7 ummæli

Stólar Philippe Starck.

 

 

Philippe-Starck-Pratfall-Chair-747600

Philippe Starck hefur hæfileika til þess að vekja á sér athygli eins  og sést þegar bók um verk hans er skoðuð. Þar er sett mynd af honum sjálfum berum að ofan á forsíðu og það sem meira er að á annarri bók er mynd af honum þar sem hann er  einnig ber en höfuðið er látið snúa aftur.

Ég á einar 10 stórar bækur um verk Le Corbusier sem gefnar voru út meðan hann lifði og það er ekki eina einustu mynd af honumað finna  í bókunum. Eftir að hann lést hafa verið gefnar út tugir bóka um verk hans. Það er nánast regla að hafa mynd af meistaranum í þeim bókum. En það er nú önnur saga.

Á heimasíðu Starck, www.philippe-starck.com er  andliti hans yfir hálfa forsíðuna auk þess að þar er að finna tugi ef ekki hundruð portretta af hönnuðinum. Ég segi ekki að hann sé eins og Paris Hilton sem er fræg fyrir að vera fræg en það er eitthvað í fari hans sem minnir á frk. Hilton.

Starck hefur gert sæmilega hluti og nokkra góða eins og t.d. stólinn Pratfall frá 1985.  Stóllinn er úr krossvið, stáli og leðri og er mjög vel gerður á allan hátt og víða notaður. Hann er vel hannaður og á sennilega eftir að vera lengi í framleiðslu. Mynd af honum er að sjá í upphafi færlunnar.

Þegar heimasíða Starcks er skoðuð dettur mannni í hug að hún sé heimasíða  vörumerkis frekar en hönnuðar. Hönnuðir hafa höfundareinkenni, en það hafa vörumerki ekki endilega. Svo dæmi sé tekið af vörumerkinu IKEA. Þar er ekki að finna höfundareinkenni þó svo að undir merkinu séu seld ágætis hönnun.

Það er ekki að sjá sterk höfundareinkenni á því sem kynnt er á heimasíðu  Starcks. Til samanburðar þekkja allir sterk höfundareinni Alvars Aalto eða Arne Jacobsen.

starck11[1]

Árið 2008 kom enn ein hönnunin frá Starck sem er afskaplega einkennileg og ber keim af örvæntingafullri tilraun hönnuðar til þess að vekja á sér athygli.  Hann hefur “hannað” stól sem byggir á frægum stólum eftir Arne Jacobsen, Charles Eames og Eero Sarinen. Allt framúrskarandi stólar sem eiga eftir að vera í framleiðslu í marga áratugi.  Meginlínum stólanna er blandað saman þar til kominn er einn stóll.  Starck kallar stólinn “the master chair”. Svo rökstyður hann gjörningin með einhverju óskiljanlegu um “spegilmynd nýs samfélags” (!) sem lesa má hér að neðan.

stoll

332-150x150[1]

 

ma06[1]

“-“the masters chair brings to mind the lines of three great masters and three great masterpieces. Putting them all together they create a new product, a new project, a reflection on a new society.”

Phillip Starck

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 27.1.2010 - 16:47 - 15 ummæli

Áleitnar spurningar

Árni Ólafsson setur fram mikilvægar spurningar um staðarval LSH og endurmat þess í athugasemd sinni við síðustu færslu mína.

 

Árni spyr: “Hver á að hafa frumkvæði að slíku endurmati?  Er það of seint?  Er sjálfvirknin í ákvarðanaferlinu alger?  Kunna menn að hætta við án þess að missa æruna?  Eða þora menn ekki að hætta við vegna þess að þá missi þeir trúverðugleika?”

Þarf ekki að fá svör við þessum spurningum Árna?

 

Aðalskipulög eru í sífelldri og stöðugri endurskoðun. Framtíðarstaður fyrir LSH við Hringbraut var ákveðinn fyrir sennilega 7-8 árum. Forsendurnar þekki ég ekki en ég veit að það var í ráðherratíð Ingibjargar Pálmadóttur heilbrigðisráðherra.

 

Mér skilst að á endanum hafi þetta verið pólitísk ákvörðun og valið var milli þriggja kosta.

 

  • Við Hringbraut
  • Við Vífilsstaði
  • Í Fossvogi.

 

Á þeim árum sem síðan  eru liðin  hafa vaknað margar nýjar spurningar og komið fram tillaga um fjórða staðinn. Það er inn við Elliðaár. Er ekki rétt að skoða það betur?

 

Hver á að hafa frumkvæðið að endurmati? spyr Árni.

Það er auðvitað skipulagsráð borgarinnar sem er allt annað nú en fyrir 7-8 árum og ber ábyrgð á  skipulagsákvörðunum. Skipulagsráð á að endurmeta staðsetninguna  í ljósi þess að nýjar og aðrar forsendur eru nú fyrir staðarvalinu en þá.

 

Og skipulagsráð á að meta staðsetninguna útfrá skipulagslegum forsendum eingöngu. Að því loknu á að meta staðsetninguna útfrá fjárhagslegum forsendum og loks útfrá forsendum spítalans og  pólitíkurinnar á landsplani.

 

Guðrún Bryndís, sem hrósar skipulags og byggingasviði spyr einnig í athugasemdum við síðustu færslu og spyr eftirfarandi spurninga.

 

“-Hvernig styrkir staðsetning LSH við Hringbraut miðborgina, háskólana og vísindi (algengustu rökin).”

 

“-Hvernig öryggi landsmanna allra er best borgið með staðsetningu m.t.t. ferðatíma.”

 

“-Hvort það þurfi að auka við umferðarmannvirki til að greiða fyrir umferð að lóð, þ.e. breikkun gatna, göng, mislæg gatnamót, stokkar o.fl.”

 

Og að lokum:

 

“-Með hvaða hætti er hægt að láta fara lítið fyrir þessum 175.000 fermetrum sem verða þarna í framtíðinni.”

 

Það þarf einnig að svara þessum spurningum Guðrúnar Bryndísar.

 

Ég hef fengið sent nokkurt magn af upplýsingum ýmiskonar frá lesendum mínum. Án þess að hafa skoðað málið í kjölinn þá er ég vægt sagt í miklum vafa um hvort rétt sé að byggja við Hringbraut.

 

Allavega er óábyrgt að leggja af stað í þessa vegferð á grundvelli ákvörðunar sem tekin var fyrir 7-8 árum þegar umhverfið var annað og mat fólks á gæðum umhverfisins er mun víðtækara en þá. Við þetta má bæta að  hugmynd um spítala við Elliðaár var ekki inni í myndinni.

Mig minnir að Magnús Skúlason arkitekt hafi einhverntíma sagt opinberlega að menn þyrftu að læra „að hætta við“ vitlausa hluti.

Veltum þessu fyrir okkur.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 26.1.2010 - 16:31 - 5 ummæli

Deiliskipulag Landspítalalóðar

Mér hefur borist til eyrna að skipulags- og byggingasvið borgarinnar sé nú að hefja vinnu við gerð forsagnar vegna gríðarlegrar uppbyggingar á lóð Landsspítalans við Hringbraut.
 
Hugmynd borgarinnar er sú að lýsa í forsögninni áherslum borgaryfirvalda um skipulagsgerðina og uppbyggingu á staðnum. 

 

Forsögnin verði unnin á skipulags- og byggingasviði með aðkomu sérfræðinga þar sem áhersla er lögð á landslagsmótun, samgöngur, yfirbragð byggðar o.s.frv.
 
Forsögnin verður að því loknu kynnt og samþykkt í ráðum og nefndum borgarinnar.
 
Í framhaldi verði svo unnið deiliskipuilag.
 
Það er að segja að ekki verður farið í samkeppnisferli fyrr en forsögn skipulagsyfirvalda liggur fyrir.  Af þessu sést að borgin er meðvituð um ábyrgð sína er varðar manngert umhverfi innan borgarmarkanna.
 
Áhyggjur af því að forræði skipulagsvinnunnar verði alfarið falið helsta hagsmunaaðlanum, verkefnisstjórn LSH, er því tilefnislaus.
 
Þetta eru góð tíðindi ef orðrómurinn á við rök að styðjast og fagfólkinu á skipulags- og byggingasviði tekst að vinna eftir fyrrgreindum markmiðum.
 
Á skipulags- og byggingasviði Reykjavíkurborgar vinnur nú hópur hæfileikaríkra fagmanna. Þeir vinna í umboði skipulagsráðs sem er skipað stjórnmálamönnum.
 
Undanfarin misseri hefur komið í ljós að allt þetta fólk hefur unnið að því að opna umræðuna um skipulagsmál í borginni. Það er mikil breyting frá því sem áður var.
 
Nú er bara að fylgajst með, sýna fagmönnum stuðning, stjárnmálamönnum aðhald og taka þátt í umræðunni.

Áhersla verður lögð á landslagsmótun, samgöngur og yfirbragð byggðar.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn