Föstudagur 6.11.2009 - 10:55 - 22 ummæli

HR – Stærsta skipulagsslys síðari tíma?

 

 

 

Stærsta skipulagsslys síðari tíma varð þegar Reykjavíkurborg og háskólaráð  Háskólas í Reykjavík sömdu um 20 hektara lóð fyrir skólann í Nauthólsvík, suðvestan undir Öskjuhlíð.

 

Þar sem skógi vaxin hlíð mætir hafinu til suðvesturs á besta útivistarsvæði borgarinnar er nú að rísa 35 þúsund fermetra háskólabygging með tilheyrandi bílastæðaflæmi. Móðir náttúra tók til fótanna og lagði á flótta undan ósköpunum.

 

Þarna verður skólinn opnaður í vetur án nokkurra ásættanlegra tenginga við borgina.

 

Sama hvernig á það er litið,- skipulagslega, samgöngulega eða félagslega. Skólinn er í raun langt fyrir utan bæinn þegar horft er til aðgangs að þjónustu, sem voru þó helstu rök fyrir staðarvalinu.

 

Í kynningarbæklingi vegna skólans er eitt af markmiðunum talið að: “Byggingin falli vel að umhverfinu og styrki útivistarsvæði Nauthólsvíkur og Öskjuhlíðar”

 

Ekki veit ég hvernig þessi bygging og starfsemin þar “styrkir útivistarsvæðið við Nauthólsvík og Öskjuhlíð” en það fólk sem tók þessa ákvörðun á sínum tíma var auðvitað að gera sitt besta.

 

Það kom fram á sínum tíma að Línuhönnun, VSÓ ráðgjöf og erlendir sérfræðingar frá Rickes Assosiate í Boston hafi verið fengin til þess að leggja mat á staðsetninguna sjálfstætt og án samráðs.

 

Ekki kom fram, hvort leitað hafi verið til arkitekta eða landslagsarkitekta vegna matsins. Þrír staðir voru skoðaðir og það hefur alltaf undrað mig að lóð borgarinnar við Kirkjusand eða Valssvæðið voru ekki meðal valkostanna.

 

Á grundvelli álits þessara aðila tók háskólaráð HR ákvörðun um staðsetninguna.

 

Í frétt af málinu kom fram þessi rökstuðningur.:

 

“Það er mat Háskólans í Reykjavík að Vatnsmýrin skapi einstakt tækifæri til að mynda þekkingar- og nýsköpunarumhverfi á heimsmælikvarða í hjarta höfuðborgarinnar. Auk þess sem íbúum muni fjölga verulega á svæðinu á næstu árum, megi gera ráð fyrir að 20 til 30 þúsund manns verði við nám og störf í þekkingar-, háskóla- og rannsóknarumhverfi á Vatnsmýrarsvæðinu. Það sé álit þeirra sem til þekki að Vatnsmýrin hafi flest það sem gott háskólaumhverfi þarfnist, þ.e.a.s. nálægð við miðborgina, hátæknisjúkrahús, fræða- og menningarsetur, listasöfn, menningarlíf og fjölbreytta þjónustu. Þá verði háskólinn, sem stefni að því að fjölga umtalsvert erlendum nemendum og kennurum, staðsettur rétt við helsta veitinga- og gistihúsasvæði borgarinnar, sem sé afar mikilvægt m.a. vegna alþjóðlegra funda og ráðstefnuhalds fræðimanna.”

 

Af þessu má lesa að forsendan virðist vera að flugvöllurinn fari og að háskólasjúkrahús verði byggt. Hvorugt lá fyrir og ekki eru líkur til þess að flugvöllurinn fari næstu 20 árin.

 

Nálægð við miðborgina, menningarsetur, veitinga- og gistihúsasvæði o.s.frv. er ekki fyrir hendi þarna eins og allir sjá sem vilja sjá. Svo má skynja í fréttinni allnokkurt yfirlæti með draum um heimsathygli í anda þess tíma sem þetta var ákveðið.

Fyrir örfáum misserum var þarna lifandi mannlíf. Fólk kom undan hlíðinni og birtist þegar skóginum sleppti og við tóku tún og móar þar sem börn voru að leik. Nú er þarna kolsvart bílastæðaflæmi og bygging sem hýsir starfsemi sem á ekkert skylt við útivist.

 

Myndin er af vef Landmóta og það skal tekið fram að landmótun og húsahönnun er með miklum ágætum. Það er bara landnotkunin sjálf sem er umhugsunarverð.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 4.11.2009 - 12:49 - 8 ummæli

Kársnes-Vatnsmýrin-Miðborgin

Hugmynd að rammaskipulagi á Kársnesi frá árinu 2008.

 

Skilningur er að aukast á því að það er hagkvæmt og nauðsynlegt að byggja og búa þétt og sem næst þungamiðju höfuðborgarsvæðisins. Stytta þarf fjarlægðir, stytta ferðatíma og styrkja almenningssamgöngur. Við þetta sparast óhemju fjármunir, mengun minnkar, orka sparast og frítími lengist.

 

Þetta hefur verið mikið rætt undanfarin ár og lausna leitað og hefur þá einkum verið horft til byggingamöguleika á flugvallarsvæðinu.

 

Það eru ýmsir aðrir möguleikar sem bent hefur verið á eins og að lagfæra allan austurhluta borgarinnar, endurnýta einskismannsland, endurhæfa þegar byggð athafna- og iðnaðarsvæði og breyta borginni í samfelldan lifandi borgarvef með ofengreind markmið að leiðarljósi.

 

Þá er hægt endurskoða staðsetningu þjónustu, atvinnusvæða, skóla og verslunnar með tilliti til samgangna þannig að umferð einkabíla minnki.

 

Aðstaða gangandi, hjólandi og almenningssamgangna má bæta og gera að betri kost en einkabíllinn er nú, bæði hvað varðar kostnað og þægindi.

 

Þetta er stefnan í flestum Evrópskum borgum. Einkabíllinn er álitinn óheppilegur kostur í þéttbýli og borgirnar eru að skipuleggja sig í samræmi við það.

 

Ein lausn á þessum vanda hefur verið kynnt af bæjarskipulagi Kópavogs. Á Kársnesinu hefur verið sett fram hugmynd um svæði með þéttri borgarbyggð. Þar kemur fram hugmynd um að tengja Kársnesið yfir Fossvog þannig að leiðin til miðborgar Reykjavíkur styttist um 60% og verður vænni til almenningssamgangna.

 

Þetta er gert með því að gera tengingu yfir Fossvoginn. Með þessu kemst Háskólinn í Reykjavík í ásættanlegt samband við umhverfið og hugsanlega verður Hlíðarfótur sunnan við eða undir Öskjuhlíð óþarfur. Þessi lausn gefur líka möguleika á tengingu áfram suður á Álftanes og þaðan áfram til Hafnarfjarðar.

 

Það má færa fyrir því gild rök að þessi tenging sé betri en framlenging Suðurgötu yfir á Álftanes sem hefur verið í umræðunni undanfarið og vegur þar þungt skipulagsmistökin sem urðu við staðsetningu HR undir Öskjuhlíð.

 

Þétt byggð á Kársnesi og tenging yfir Fossvog og áfram suður á Álftanes væri mikið framlag til þess að ná þeim markmiðum sem í upphafi var getið.

Flugvöllurinn á núverandi stað og HR í betri tengslum við höfuðborgarsvæðið.

Miðborgin, flugvöllurinn og stjórnsýslan tengjast betur til suðurs.

Ný tenging til suðurs hentar almenningsflutningum.

Þétta mætt byggðina á uppfyllingunni á Kársnesi enn frekar en hér er sýnt með íbúðum og studentagörðum.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 2.11.2009 - 12:25 - 15 ummæli

Framtíð Reykjavíkurflugvallar

 

 

 

Í kjölfar bankahrunsins hefur orðið verðfall á fasteignum og  byggingarlandi. Eftirspurnin hefur minnkað.

Þetta hefur í för með sér að nú þarf að endurmeta stöðu skipulags borgar og bæja að nýju. Málefni  Reykjavíkurflugvallar og forsendur fyrir framtíð Vatnsmýrarinnar eru allt aðrar en fyrir tveimur árum. Verð landsins sem helgað er vellinum er ekki það sama og  fyrir 2-3 árum og þörfin fyrir það er minni.

Það má því gera ráð fyrir að við munum ekki þurfa á  landinu að halda næsta áratuginn eða jafnvel áratugina

Þurfum við ekki að bregðast við þessu og í stað þess að láta flugvöllinn drabbast niður í einhverju limbói þar sem atburðarásin og ákvarðanir teknar frá degi til dags ráða för?

Í stóru alþjóðlegu samkeppninni sem haldin var árið 2007, þegar farið var að braka í bankakerfinu, var markmiðið að fá „heimsfræga“ stjörnuarkitekta til verksins frekar en góðar hugmyndir.  Samkeppnin mistókst vegna þess að markmiðin voru ekki skýr. Þau voru ekki skýr vegna þess að stjórnmálamenn gátu ekki tekið afstöðu um framtíð flugvallarins. Það var ekki búið að finna vellinum annan stað. Borgin lét ákvörðunina í hendur keppenda.

Þessi tvískinnungsháttur, „þetta haltu mér, slepptu mér“ syndrom veldur okkur tjóni eins og staðsetning Háskólans Reykjavík, færsla Hringbrautar, brýrnar yfir hana og fl. bera glöggt vitni um.

Er ekki rétt að boða til nýrrar samkeppni eða ráða fólk til hugmyndavinnu um flugvallarsvæðið nú þar sem forsendan væri að hann yrði um kyrrt og viðfangsefni vinnunnar væri að aðlaga flugvöllinn borginni þannig að sem mest nýting fengist út úr landinu og að ónæði vegna hans yrði lágmarkað. 

Þetta yrði ekki vinna vegna framtíðar Vatsmýrarinnar heldur um framtíð flugvallarsvæðisins.

Það hefur verið haldin samkeppni sem sýnir okkur hvernig flugvallarsvæðið gæti litið út ef flugvöllurinn færi.  Þurfum við ekki líka að vita hvernig svæðið gæti litið út ef flugvöllurinn yrði í Vatnsmýrinnin til framtíðar?

Áhugavert ítarefni er að finna í aðalskipulagi Reykjavíkur og á þessarri slóð þar sem er að finna úttekt á framtíðarstaðsetningu Reykjavíkurflugvallar:

 

http://www.samgonguraduneyti.is/media/rvkflugvollur-skyrslur/Flugvollur_uttekt.pdf

 

 

Ég leyfi mér að setja hér inn ummæli frá Árna Ólafsyni vegna síðustu færslu minnar. Hægt er að sjá hana í samhengi undir færslunni „Reykjavíkurflugvöllur“

 „Árni Ólafsson // 2. nóv. 2009 kl. 09:38

Ég get ekki annað en verið sammála fyrstu athugasemdinni við pistilinn. Reykjavíkurborg hefur hvergi tekist að byggja „fjölbreytta, þétta, blandaða og lifandi borgarbyggð“ undanfarna áratugi. Flugvallarsvæðið felur í sér mikla möguleika til þess að styðja við og stækka gamla miðbæinn í Reykjavík en fyrst þurfa að verða veigamiklar breytingar á viðhorfum skipulagsyfirvalda til borgarmyndarinnar svo og aðrar endurbætur á borgarbyggðinni. Ég vil sjá áþreifanleg dæmi um slíkt áður en við ráðumst í handahófskennda ústkúfun innanlandsflugsins frá höfuðborginni, m.a. með kostulegum bútasaum eins og Hilmar bendir á (afsakið – en yfirleitt er bútasaumur mjög fallegur og áhugaverður – óheppilegt að nota orðið í þessu samhengi).

1 Hringbrautin er úthverfaskipulag. Þegar ekið er eftir Miklubraut vestur úr Hlíðunum lendir maður allt í einu út út borgarumhverfinu, svífur um einskismannsland og hafnar aftur inni í borginni við Háskólann.

2 Hvernig klappar maður ketti? Með hárunum. Hvernig á skipuleggja Reykjavík? Í samræmi við það hvernig hún hefur vaxið sjálfsprottin hvað sem öllu skipulagi líður. Miðbæjarstarfsemi borgarinnar hefur vaxið eftir austur-vestur ás frá Kvosinni upp fyrir Keldnaholt. Endurbætur, endurbygging og endurnýjun byggðar á þessum ás með þéttri blandaðri byggð, nokkrum áherslupunktum (miðkjörnum) og línulegum almenningssamgöngum myndi skapa miðbæjarumhverfi í grennd við sem næst öll úthverfi borgarinnar og bæta þar með stöðu þeirra og búsetuumhverfi íbúa allra borgarhluta. Ef draumarnir um betra borgarlíf ættu bara að rætast í Vatnsmýrinni myndu allir aðrir Reykvíkingar sitja áfram í sömu (bíla-)súpunni. Vatnsmýrin er ekki lausnin – þótt auðvitað sé auðvelt að sjá ýmislegt fyrir sér þar. Hið erfiða og ögrandi viðfangsefni er að lagfæra allan austurhluta borgarinnar, endurnýta einskismannsland, enduhæfa þegar byggð athafna- og iðnaðarsvæði og breyta borginni í samfelldan lifandi borgarvef. Þegar það hefur tekist skulum við pæla í Vatnsmýrinni – ekki fyrr.

3 Góðar samgöngur við þungamiðju verslunar, þjónustu og stjórnsýslu landsins eru mikilvægar höfuðborg. Ef samband höfuðborgarinnar við landsbyggðina verður stirt og langsótt er viðbúið að eitthvað alvarlegt gerist – t.d. verulegur afturkippur úti á landi og flótti til borgarinnar (enn á ný innrás sveitavargsins) – eða upp komi krafa um flutning stjórnsýslumiðjunnnar. Ef innanlandsflugið verður flutt til Keflavíkur er rökrétt að láta stjórnsýslu ríkis og helstu stofnanir fylgja. Alþingi á Beisnum! Þjóðleikhúsið í Andrews Theater o.s.frv. Ráðuneyti og helstu stofnanir stjórnsýslu og heilbrigðismála yrðu í ríki Árna Sigfússonar. Hins vegar er hugmyndin um Skerjafjarðarflugvöll stórsnjöll – þ.e.a.s. ef hún er raunhæf af flugtæknilegum ástæðum. Umhverfisáhrifin eru talsverð – flugvöllurinn myndi sjást og innan hans í Skerjafirðinum fengist draumaland siglingamanna. Smámál miðað við Kárahnjúka en Reykjavík yrði áfram höfuðborg.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 30.10.2009 - 12:15 - 17 ummæli

Reykjavíkurflugvöllur

 

Framtíð Reykjavíkurflugvallar þarf að ákveða með formlegum hætti með löngum fyrirvara. Það þarf að ákveða hvort hann eigi að vera eða hvort hann eigi að fara.

 

Skipulagsákvarðanir í Vatnsmýrinni eiga að taka mið af niðurstöðunni.

 

Nú hefur maður það á tilfinningunni að verið sé að bola flugvellinum í burtu. Það er að segja, teknar eru smábútaákvarðanir með þeim afleiðingum að flugvellinum verður ekki vært í Vatnsmýrinni og hann verði að fara.

 

Maður óttast að ákvörðun um framtíð Vatnsmýrarinnar verði ekki tekin formlega heldur að atburðarásin taki völdin og boli honum í burtu.

 

Svona ákvaðanaferli er ekki skipulag heldur andstæðan, skipulagsleysi.

 

Undanfarin nokkur ár hafa verið teknar stórar ákvarðanir sem varða Vatnsmýrina sem allar eru því marki brenndar að heildarmynd og framtíðarsýn vantar.

 

Nægir þar að nefna flutning Hringbrautar, byggingu göngubrúa sem enginn veit hvert liggja, byggingu megastórrar bensínstöðvar við enda flugbrautar, skipulag Valssvæðisins, óskiljanlega byggingu Háskólans í Reykjavík án ásættanlegrar tengingar við borgarkerfið, byggingu grunnskóla við enda flugbrautar, lagningu vegar sem tengist Hringbraut og væntanlega Kringlumýrarbraut?, byggingu samgöngumiðstöðvar, lagningu sparkvalla við enda flugbrautar o.fl.

 

Allt þetta hefur gerst án þess að menn hafi náð endanlegri niðurstöðu um framtíð flugvallarins.

 

Hvert skyldu stjórnvöld vera að horfa?

Gríðarleg fjárfesing í samgöngumannvirki án þess að skipulag liggi fyrir á hægri hönd. Hvert er fólkið sem notar göngubrýrnar að fara?  Og hvaðan er það að koma? Hver er forsendan fyrir staðsetningu þeirra?

Skástrikuðu svæðin sýna framkvæmdasvæði á jöðrum Vatsmýrarinnar undanfarin misseri. Kortið er fengið úr símaskránni.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 28.10.2009 - 11:47 - 7 ummæli

Það sem koma skal?

Bo Bojesen sem teiknaði daglega í Politíken á árum áður. Hann var nokkurskonar Halldór Baldursson blaðsins.

Hjálagða mynd teiknaði hann fyrir 50 árum, árið 1959, þegar miklar umræður voru í Danmörku um opið plan í hönnun heimila.

Þetta gekk að mestu út á að opna milli eldhúss og borðstofu og þaðan inn í stofu. Þessi breyting átti sér félagsleg rök þar sem konan var farin að vinna utan heimilis og vildi að heimilisstörfin væru fyrir augum allra og allir tækju þátt. 

Bo Bojesen tók þessa hugmynd lengra í hjálagðri teikningu sinni og bjó til íbúð sem var bara eitt rými.  Fólki fannst þetta spreng hlægileg óraunsæ framtíðarsýn. 

Nú er þessi 50 ára sýn orðin að veruleika og hægt er að sjá umfjöllun um svona íbúðir í arkitektatímaritum.

Ef þið opnið tengilinn:

http://www.oprah.com/media/20091021-tows-stine-home-tour

 

Þá sjáið þið nýlega íbúð í miðborg Kaupmannahafnar. Þar er börnunum komið fyrir í holu á vegg, hjónarúmið er í eldhúsinu og sturta og salerni er nánast í stofunni opið fyrir allra augum.

Þetta er allt vel gert, enda er íbúðin að mér skilst hönnuð af dóttur prófessors Knud Holcher sem er heimsfrægur hönnuður og arkitekt.

 

Manni dettur í hug hin fleygu orð; “It is a nice place to visit, but I would not like to live there”.

 

En eitt er víst að reglugerðapáfarnir um land allt mundu aldrei gefa heimild til að skapa verk eins og þetta.

 

P.S. Þetta er fyrsta sinn sem ég reyni að setja hreyfimynd inn í bloggið. Þið afsakið byrjandabraginn á þessu. Það kemur víst stutt auglýsing á undan efninu.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 26.10.2009 - 15:17 - 6 ummæli

Betri Reykjavík

 

Þegar ég var ungur maður og var að hasla mér völl á starfsvettvangi arkitekta spurði ég Guðrúnu Jónsdóttur arkitekt sem þá var forstöðumaður Borgarskipulagsins hvað ungur maður ætti að gera til þess að nálgast skipulagsverkefni hjá borginni.

Hún gaf mér þau ráð að sýna áhuga, taka þátt í umræðunni, styðja góðar hugmyndir og hafa hátt um það sem betur mætti fara.  Borgin vildi eiga viðskipti við þannig fólk.

Af einhverjum ástæðum breyttist þetta þannig að athugasemdir, uppástungur og aðfinnslur sem áður voru vel þegnar voru nú litnar hornauga. Borgin leit á þá sem gerðu athugasemdir eða voru með aðrar hugmyndir en unnið var að sem andstæðinga sína.

Borgarskipulagið vildi að ráðgjafar væru „góðir í samstarfi“ sem mér fannst alltaf þýða að borgarskipulagið vildi vinna með fólki sem gerði það sem því var sagt og væri ekki með neinar hugmyndir frá sjálfu sér.

Síðustu misseri hefur orðið vart breytinga á þessu og í gær var brotið blað þegar borgin boðaði til Hugmyndaþings í Ráðhúsinu og óskaði eftir aðkomu fólks að skipulagi framtíðarinnar.

Þegar ég kveikti á útvarpinu í gærmorgun heyrði ég að borgarfulltrúarnir Björk Vilhelmsdóttir og Gísli Marteinn Baldursson voru að ræða framtíð Reykjavíkur. Það vakti athygli að þau töluðu einum rómi. Þau voru ekki kynnt sem fulltrúar flokka eða minni- og meirihluta. Þau voru kynnt sem borgarfulltrúar og maður nam að þau voru í sama liði og voru bæði að vinna að hagsmunum borgarbúa.

Það var notaleg tilfinning að heyra að öll borgarstjórn stóð saman um framtíð borgarinnar þar sem kallað var eftir hugmyndum og skoðunum, gagnrýni og hrósi.

Þegar í Ráðhusið var komið sá maður borgarfulltrúa allra flokka á tali við borgarana um málefni líðandi stundar og hvernig fólk vill sjá framtíðina. Þau tóku brosandi við gagnrýni og báðu um skýringar og ræddu það sem borgarbúa lysti.

Mér fannst eins og borgin, stjórnmálamenn og embættismenn væru að segja við okkur borgarbúa: Ræðum nú skipulagið og framtíðina, verum opin og hreinskilin.  Þetta voru góð tíðindi og ég vona að kollegar mínir og aðrir gangi rösklega til verks í umræðunni.

Maður veltir fyrir sér hvers vegna stjórnmálamenn landsmálanna hafa ekki burði til þess að taka höndum saman um málefni landsmanna þvert á flokka eins og borgarfulltrúarnir í Reykjavík sýndu í gær um málefni og framtíð borgarinnar.

 

Myndirnar eru fengnar af vef Reykjavíkurborgar

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 23.10.2009 - 16:05 - 2 ummæli

Þjóðmenningarhúsið við Hverfisgötu

 

Johannes Magdahl Nielsen (1862-1941) sem teiknaði Safnahúsið (Þjóðmenningarhúsið) við Hverfisgötu var þekktur arkitekt í Danmörku fyrir réttum 100 árum um það leyti sem húsið var vígt 1909. Það er útbreiddur misskilningur að hann hafi einnig teiknað Konunglega bókasafnið í Kaupmannahöfn, hann var hins vegar aðstoðarmaður prófessors Hans J. Holm við hönnun þess.

Safnahúsið var til skamms tíma síðasta opinbera bygging okkar, sem hönnuð var í Danmörku, en á þessum árum tóku Íslendingar sem lært höfðu hönnun húsa að hasla sér völl hér á landi og hafa sinnt þeim verkum hér á landi framundir okkar dag oft framúrskarandi vel. 

Nú hafa danskir arkitektar, af óskiljanlegum ástæðum, aftur tekið til við að hanna hús hérlendis :Tónlistarhúsið, Háskólann í Reykjavík, Skuggahverfið, Hátæknisjúkrahús, Flugstöðina í Keflavík og fl. Ástæðan fyrir þessari óheillaþróun liggur ekki í augum uppi en er runnin að mestu undan rifjum opinberra aðila og er það sérstakt umfjöllunarefni út af fyrir sig.

Þegar Safnahúsið var byggt var steinsteypan að ryðja sér til rúms sem byggingarefni hér á landi. Útveggir hússins eru hlaðnir, en allir innveggir og gólf eru steypt. Allt húsið, sem er 3050 m2, er friðað samkvæmt Húsafriðunarlögum, í A-flokki, sem þýðir að óheimilt er að breyta útliti þess eða hrófla við innréttingum.

Einn félagi minn sendi mér, af gefnu tilefni, gamla þekkta latneska kennisetningu í gær sem hljóðar svo: „De gustibus non est disputandum“ sem má útleggjast „smekk er ekki hægt að rökræða“. Svona latneskar kennisetningar eru svo flottar að manni finnst maður hafi ekki burði til þess að efast um þær. En ég efast um þessa. Ég er þess fullviss að allir geta rökstutt sinn smekk fyrir sinn hatt. Það er hins vegar ekki víst að öllum öðrum falli rökin.

Safnahúsið þykir afar fallegt og er að margra mati eitt alfallegasta hús borgarinnar.  Og af hverju skyldi það nú vera?  Skýringin er m.a að húsið fylgir gömlum grundvallarreglum fagurfræðinnar. Til dæmis er það symmetriskt eða samhverft í grunnmynd sinni og útliti, allar fjórar hliðar þess eru samhverfar. Maðurinn og flest dýr merkurinnar eru samhverf.  Nytjahlutir, húsgögn, bílar  og fl eru samhverf. Sama má segja um fegurstu byggingar aldanna, Taj Mahal, Píramidana og jafnvel fjöll sem þekkt eru fyrir fegurð, Fujiama og Kilimajaro eru næstum samhverf. 

Auk þess er að finna í Safnahúsinu „undirsymmetriur“ í gluggaskipan þar sem gluggar þriggja hæða eru rammaðir inn í flöt sem er nákvæmlega í gullna sniðinu. Til viðbótar er grunnmyndin nákvæmlega tveir ferningar, en ferningur er undirstaða gullinsniðsins.

Í mörgum húsum er eins konar falin þekking eða leyndarmál sem ekki blasa við eins og þær staðreyndir sem að ofan getur.

 

Að ofan er frumteikning Johannes Magdahl Nielsen af suðurhliðinni sem snýr að Hverfisgötu. Endanleg niðurstaða er betri en teikningin eins og sjá má af ljósmyndum hér að neðan. Hlutföllin, gluggaskipan, dyraumgjörð og fl. er mun betra á húsinu sjálfu en á frumteikningu Magdahls. 

Ekki veit ég hver skýringin er. Kannski er það umsjónarmanninum og staðgengli Magdahls hér á landi, Frederick Kiörboe arkitekt, að þakka. Hann sá um bygginguna fyrir hönd Magdahls auk þess sem hann teiknaði önnur verk hér á landi í eigin nafni, svo sem kringluna við Alþingishúsið sem Frederik Meldahl teiknaði í upphafi og Reykjanesvita svo dæmi séu tekin.

Sjálfur kom Magdahl aldrei til Íslands og leit húsið aldrei augum. Þegar frumteikningin er borin saman við  húsið eins og það er nú þá læðist að manni sá grunur að hlutur Kiörboe í hönnun hússins sé stærri en halda mætti við fyrstu sýn.

Gluggar þriggja hæða eru rammaðir inn í flöt sem er hið fullkomna gullin snið.

Þrátt fyrir mikið af fjölbreyttum smáatriðum og gluggagerðum er húsið einfalt og agað.

 

Gamli lestrarsalurinn sem margir sakna

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 21.10.2009 - 12:19 - 14 ummæli

Umræður um arkitektúr

 

Nú er ég búinn að skrifa 3 færslur á viku hér á vefinn um arkitektúr, skipulag og staðarprýði í einn mánuð.

Hugmyndin var að gera tilraun í 2-3 mánuði og athuga viðbrögð og áhuga. Ef áhugi minn eða lesendanna er undir væntingum hætti ég, annars má búast við að þetta haldi eitthvað áfram. 

Netheimar eru sérlega vel fallnir til skoðanaskipta vegna þess að ef mönnum líkar ekki málflutningurinn eða ef farið er rangt með,  þá gefst tækifæri til þess að andmæla strax. 

Sama máli gegnir, ef fólki líkar málflutningurinn. Þá er hægt að styðja hann umsvifalaust að lestri loknum og bæta við sjónmarmiðum málinu til stuðnings.

Þetta gefur tækifæri til þess að vera skeleggari en ef um væri að ræða greinarskrif í blöð.

Netið er nánast eins og þjóðfundur hvað þetta varðar, þar sem allir hafa málfrelsi og tillögurétt. Skoðanaskipti á internetinu eru skjótvirk og gagnvirk með svörum og andsvörum.

Þetta er styrkur netsins umfram aðra fjölmiðla. 

Ástæðan fyrir fjölda nafnlausra bloggara og umræðan um þá að undanförnu eiga sér skýringar. 

En, eins og allir vita þá eru margir stjórnendur og þeir sem valdið hafa ekki nægjanlega þroskaðir til þess að skilja venjulega akademiska umræðu. Þeim er ofviða að skilja á milli persónunnar og sjónarmiðsins sem sett er fram. Því geta  sjónarmið stundum bitnað á þeim sem koma fram með þau og jafnvel á starfsframa þeirra ef svo ber undir eins og dæmin sanna.

Því hefur veri haldið fram að þetta hafi valdið „skelfilegri þöggun og þrælsótta heilla stétta, m.a. arkitekta, verkfræðinga og skipulagsfræðinga á umhverfismál, borgarskipulag, borgarmenningu, lífsstíl og þróun byggðar á höfuðborgarsvæðinu“.

Þeir tímar eru vonandi að ganga í garð þar sem frami fólks byggist á athöfnum þeirra og skoðunum. Tími skoðanalausra og þýðlyndra í klíkusamfélagi Íslands er vonandi á undanhaldi.

Í nýlegu viðtali við Júlíus Vifil Ingvarsson formanns skipulagsráðs Reykjavíkur kom fram að hann fagnaði vaxandi áhuga á skipulagsmálum og þeim athugasemdum sem koma frá borgurunum. Þessi ummæli hafði hann í tengslum við umræðuna um breytingar við Ingólfstorg.

Maður getur skilið þessi ummæli Júlíusar svo að hann líti á þá sem gera athugasemdir sem samstarfsmenn sína, ekki andstæðinga. Þetta er nýtt viðhorf og því ber að fagna. Undanfarin mörg ár hefur maður haft á tilfinningunni að borgin hafi stillt þeim upp sem gera athugasemdir sem andstæðingum sínum. Nú sýnist mér breyting sé að verða á þessu.

Umræða um byggingarlist ættu að vera jafn auðveld og þegar verið er að ræða vín.  Það eru nokkur grundvallaratriði vínsins sem þarf að skilgreina og verða að vera í lagi, ilmur, litur og m.fl. Annað er ekki eins mikilvægt.

Þegar dreypt er á víninu þarf hver að dæma fyrir sig og þar hafa allir rétt fyrir sér, hver fyrir sinn smekk. Sumum finnst vínið gott og öðrum finnst það mjög gott og það er þeirra prívat mál.

Svipað á við um byggingalist. Þar eru nokkur grundvallaratriði sem verða að vera í lagi og önnur eru ekki eins mikilvæg. Hver les svo auðvitað að lokum byggingarlistina á sinn hátt.

Teikningin sem hér fylgir er eftir Le Courbusier og sýnir MODULOR.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 19.10.2009 - 11:10 - 16 ummæli

Varist stjörnuarkitekta

 

Nei, þetta er ekki verk óþroskaðra krakka á fyrsta ári í arkitektaskóla sem eru að leika sér með kubbana sína.

Teiknistofa Rem Koolhaas, OMA er þarna að leggja fram nýjar hugmyndir sínar um íbúðabyggð „The Interlace“ í Singapore

Þetta eru íbúðabyggingar sem eru samtals um 170 þúsund fermetrar og rúma 1040 íbúðir auk ýmissa stoðrýma.

Ég hef komið tvisvar til Singapore og þetta er ekki það sem maður vill sjá þar eða nokkurs staðar, enda er ekkert sem minnir á Singapore að finna í þessum hugmyndum. Sennilega fá svona hugmyndir brautargengi í krafti þess að heimsfrægur arkitekt er þarna á ferð.

Þeim sem vilja kynna sér þetta nánar er bent á heimasíðu Rem Koolhaas: 

http://www.oma.nl/

Virtir íslenskir arkitektar og stjórnmálamenn sóttu í smiðju stjörnuarkitektsins Rem Koolhaas til að fá ráðleggingar um uppbyggingu Vatnsmýrarinnar. Þá voru uppi háværar raddir sem vildu búa þannig um hnútana að heimsfrægir stjörnuarkitektar löðuðust að hugmyndavinnunni. Það mistókst. 

Vatnsmýrarsamkeppnin mistókst vegna þess að stjórnmálamennirnir gátu ekki tekið ákvörðun um framtíð flugvallarins og lögðu hana í hendur keppenda. Grundvallarforsenda samkeppninnar lá ekki fyrir og niðurstaðan því undir væntingum.  Umbúðirnar voru miklar og metnaðarfullar og allur ferillinn í anda ársins 2007.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 16.10.2009 - 11:29 - 10 ummæli

Byggingarlistin er útundan

 

 

Maður þarf að leita með smásjá til þess að finna rýni í fjölmiðlum, sem gagn er að og fjallar um byggingarlist, á meðan t.d. bókmenntir eru á síðum blaða og í ljósvakamiðlum á hverjum degi.

 

Það er haldið úti heilum klukkutíma þætti í sjónvarpinu um bókmenntir einu sinni í viku. Og þar sýnist mér meira að segja að bækur um byggingarlist fái litla ef nokkra umfjöllun.

 

Nýverið hafa komið út fjórar bækur um efnið: Bók um Gísla Halldórsson arkitekt eftir Margréti Leifsdóttur, önnur um verk Þóris Baldvinssonar arkitekts og svo bókin “Byggingarlist í augnhæð” eftir Guju Dögg Hauksdóttur að ógleymdri bók Hjörleifs Stefánssonar, Andi Reykjavíkur.

 

Þegar fjallað er um byggingar í fjölmiðlum þá er arkitektúrinn nánast aldrei nefndur. Talað er um stærð hússins, tíma- og kostnaðaráætlanir ásamt upplýsingum um þá sem tóku skóflustungu eða voru í byggingarnefnd og hverjir fjármögnuðu, stundum hverjir voru meistarar í einstökum iðngreinum.

 

Sambærilegt væri að í Kilju sjónvarpsins væri sagt frá hvað prentunin kostaði, hver prentaði bókina, hvað hún er margar síður og hver fjármagnaði útgáfuna. Ekkert um innihald og stíl ritverksins eða höfundinn.

 

Munurinn á myndlist, tónlist og bókmenntum annars vegar og byggingarlist hins vegar er sá að hinar fögru listir, aðrar en byggingarlistin, eru notaðar til hátíðabrigða meðan allir eru notendur byggingarlistarinnar í önnum dagsins alla daga. Engin á sér undankomuleið frá byggingarlistinni.

 

Það er ekki ein af forsendum lífsins að setja plötu á fóninn eða opna bók. Ef þér líkar ekki bókin þá hættir þú að lesa og það sama á við um tónlistina. Þú nýtur bókmennta og tónlistar þér til andlegrar upplyftingar þegar ráð og tími er til, en því er öðruvísi háttað með byggingarlistina, hús, umhverfi og alla nytjalist.

 

Þess vegna vekur athygli hversu lítið er fjallað um byggingarlist yfirleitt.

 

Í grunnskóla eru kenndar bókmenntir, myndlist og tónlist. Þar er líka kennd landafræði og alls konar náttúrufræðigreinar.

 

En enga byggingarlist eða skipulagsfræði er að finna í námsefni grunnskóla. Þegar ég yfirgaf grunnskólann vissi ég meira um aðstæður fólks í Rawalpindi en hvernig Melaskólinn var hugsaður eða skipulag Hagahverfisins átti að þjóna íbúunum.

 

Skrítið.

 

Þetta er sennilega ástæðan fyrir því að fólk kann að ræða hinar fögru listir á málefnalegan og vitrænan hátt að byggingarlistinni undanskilinni.

 

Ólíklegt er til dæmis að tæplega tuttugu þúsund íbúar vesturborgarinnar hefðu látið borgarskipulagið komast upp með að færa matvöruverslun bæjarhlutans út á hafnarvæði, langleiðina út í Örfyrisey ef þeir hefðu fengið skipulagslegt uppeldi (sbr. tónlistarlegt uppeldi) án málefnalegra athugasemda.

 

Á hafnarsvæðinu er nú að finna stærsta hluta matvöruverslunar í vesturborginni meðan hverfaverslunarhúsnæði er tómt eða illa nýtt.  Á Granda er að finna Europrís, Krónuna og Bónus.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn