Stærsta skipulagsslys síðari tíma varð þegar Reykjavíkurborg og háskólaráð Háskólas í Reykjavík sömdu um 20 hektara lóð fyrir skólann í Nauthólsvík, suðvestan undir Öskjuhlíð.
Þar sem skógi vaxin hlíð mætir hafinu til suðvesturs á besta útivistarsvæði borgarinnar er nú að rísa 35 þúsund fermetra háskólabygging með tilheyrandi bílastæðaflæmi. Móðir náttúra tók til fótanna og lagði á flótta undan ósköpunum.
Þarna verður skólinn opnaður í vetur án nokkurra ásættanlegra tenginga við borgina.
Sama hvernig á það er litið,- skipulagslega, samgöngulega eða félagslega. Skólinn er í raun langt fyrir utan bæinn þegar horft er til aðgangs að þjónustu, sem voru þó helstu rök fyrir staðarvalinu.
Í kynningarbæklingi vegna skólans er eitt af markmiðunum talið að: “Byggingin falli vel að umhverfinu og styrki útivistarsvæði Nauthólsvíkur og Öskjuhlíðar”
Ekki veit ég hvernig þessi bygging og starfsemin þar “styrkir útivistarsvæðið við Nauthólsvík og Öskjuhlíð” en það fólk sem tók þessa ákvörðun á sínum tíma var auðvitað að gera sitt besta.
Það kom fram á sínum tíma að Línuhönnun, VSÓ ráðgjöf og erlendir sérfræðingar frá Rickes Assosiate í Boston hafi verið fengin til þess að leggja mat á staðsetninguna sjálfstætt og án samráðs.
Ekki kom fram, hvort leitað hafi verið til arkitekta eða landslagsarkitekta vegna matsins. Þrír staðir voru skoðaðir og það hefur alltaf undrað mig að lóð borgarinnar við Kirkjusand eða Valssvæðið voru ekki meðal valkostanna.
Á grundvelli álits þessara aðila tók háskólaráð HR ákvörðun um staðsetninguna.
Í frétt af málinu kom fram þessi rökstuðningur.:
“Það er mat Háskólans í Reykjavík að Vatnsmýrin skapi einstakt tækifæri til að mynda þekkingar- og nýsköpunarumhverfi á heimsmælikvarða í hjarta höfuðborgarinnar. Auk þess sem íbúum muni fjölga verulega á svæðinu á næstu árum, megi gera ráð fyrir að 20 til 30 þúsund manns verði við nám og störf í þekkingar-, háskóla- og rannsóknarumhverfi á Vatnsmýrarsvæðinu. Það sé álit þeirra sem til þekki að Vatnsmýrin hafi flest það sem gott háskólaumhverfi þarfnist, þ.e.a.s. nálægð við miðborgina, hátæknisjúkrahús, fræða- og menningarsetur, listasöfn, menningarlíf og fjölbreytta þjónustu. Þá verði háskólinn, sem stefni að því að fjölga umtalsvert erlendum nemendum og kennurum, staðsettur rétt við helsta veitinga- og gistihúsasvæði borgarinnar, sem sé afar mikilvægt m.a. vegna alþjóðlegra funda og ráðstefnuhalds fræðimanna.”
Af þessu má lesa að forsendan virðist vera að flugvöllurinn fari og að háskólasjúkrahús verði byggt. Hvorugt lá fyrir og ekki eru líkur til þess að flugvöllurinn fari næstu 20 árin.
Nálægð við miðborgina, menningarsetur, veitinga- og gistihúsasvæði o.s.frv. er ekki fyrir hendi þarna eins og allir sjá sem vilja sjá. Svo má skynja í fréttinni allnokkurt yfirlæti með draum um heimsathygli í anda þess tíma sem þetta var ákveðið.
Fyrir örfáum misserum var þarna lifandi mannlíf. Fólk kom undan hlíðinni og birtist þegar skóginum sleppti og við tóku tún og móar þar sem börn voru að leik. Nú er þarna kolsvart bílastæðaflæmi og bygging sem hýsir starfsemi sem á ekkert skylt við útivist.
Myndin er af vef Landmóta og það skal tekið fram að landmótun og húsahönnun er með miklum ágætum. Það er bara landnotkunin sjálf sem er umhugsunarverð.