Sunnudagur 14.11.2010 - 15:26 - 6 ummæli

Palladium, verslunarmiðstöð í Prag

Í stað þess að byggja verslunarmiðstöð í útjaðri borgarinnar á svipaðan átt og tíðkast í Bandaríkjunum og hér á Höfuðborgarsvæðinu ákvað borgarstjórnin í Prag að skapa aðstöðu fyrir stóra „kringlu“ í miðborginni. Þetta var auðvitað gert til þess að styrkja miðborgina og auka verslun og þjónustu þar. Verslunarmiðstöðin í Prag heitir Palladium og hýsir um 200 verslanir auk 30 veitingahúsa. Þarna er einnig komið fyrir 900 bifreiðastæðum neðanjarðar. Verslunarmiðstöðin sem er um 115 þúsund fermetrar var opnuð í október á því herrans ári 2007.

Verslunarmiðstöðvar, „Moll“, eru allstaðar eins hvar sem er í heiminum. Þessi í Prag sker sig úr fyrir þriggja hluta sakir. Í fyrsta lagi er hún í hjarta borgarinnar. Í öðru lagi hefur arkitektunum tekist að koma fyrir 115 þúsund fermetrum af verslunar- og þjónustuhúsnæði í þröngu viðkvæmu umhverfi miðborgarinnar, án þess að rífa hafi þurft eitt einasta hús í götulínu. Og að lokum er bílastæðafjöldi í lágmarki eða um eitt stæði á hverja 130 fermetra húsnæðis að mér var sagt. Til samanburðar var Kringlan um 30 þúsund fermetrar upphafi og í tengslum við hana voru útveguð um 1200 stæði sem aukin voru upp í 1600 ári eftir opnun. Það gerir tæpega eitt stæði á hverja 20-25 fermetra verslunarmiðstöðvarinnar. Ég man að Ragnari Atla Guðmundssyn framkvæmdastjóra Kringlunnar þótti þetta naumt skammtað. Þetta var eflaust rétt mat hjá honum miðað við aðstæður og skipulag Reykjavíkur sem bílaborg. Þegar  ég sé þessar tölur verð ég að viðurkenna að ég dreg minni mitt í efa.

Ég dvaldi í Prag í nokkra daga nýverið. Þetta er þriðja sinn sem ég kem þangað og ég geri mér sífellt betur ljóst hvílík gersemi borgin er hvað varðar byggingar, skipulag og húsaverndun. Þarna hafa verktakar, arkitektar og fjárfestar haft skilning og þroska til að sjá verðmætin í sögunni og  því sem fyrir er.  Án þess að ég hafi sérstaklega kannað það þá grunar mig að víða sé í borginni svokallaður „fasadismi“  þar sem ytra byrði er látið halda sér eða endurbyggt í gömlum stíl eða ekki í takti við það sem innifyrir er.

Í samkeppni um nýbyggingu fyrir Listaháskóla Íslands sem var haldin árið 2008 voru flestar tillögurnar því marki brenndar að höfundar gengu útfrá að  um hundrað lengdarmetrar af gömlum húsum í götulínu væru látin víkja. Sennilega að óþörfu.

Inni í verslunarmiðstðinni eru gömlu útveggir randbyggðarinnar áberandi.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (6)

  • Fyrir hvert eitt „Palladium“ sem byggt er í miðborg Prag, Búdapest og ámóta borga eru tíu önnur sem byggð eru á útjaðri þeirra. Þar ræður ódýr hönnun og asfaltið ríkjum, rétt eins og það gerði í Smáranum. Þessar borgir eru allar á leiðina í áttina að margfalt meiri bílisma en áður hefur þekkst, og aðeins hinar sögufrægu miðborgir ná að halda sínu.

    Svona verkefni eins og myndirnar sýna hér að ofan ganga þá og því aðeins upp að byggingaraðilinn geti búist við það miklum leigutekjum að hann geti leyft sér svona taktík. Og einungis á stöðum eins og þessum er þetta vel fýsilegt. Hugsanlega hafa borgaryfirvöld „chippað“ einhverju inn, en ég efast um að það sé í raun mikið. Þau hafa hins vegar eflaust gert kröfu um mikla húsvernd. Ámóta verkefni má sjá fyrir sér í miðborg Reykjavíkur, en tæpast nema í litlum skala, enda mun enginn einkaaðili ráðast í slíkar fjárfestingar þar, a.m.k. fyrir verslanarekstur.

  • Árni Ólafsson

    Ímyndið ykkur ef hefðbundin borgarmynd hefði verið fyrirmynd skipulags alls þess byggingarmassa sem hefur risið undanfarinn áratug í Smáranum í Kópavogi.
    Þar var viðfangsefnið e.t.v. ekki ósvipað uppbyggingu Podzdamer-torgs í Berlín – þótt sögulegar forsendur og aðdragandi væri gerólíkur. Hér eru myndir sem sýna tvær sambærilegar verslunarmiðstöðvar og hvaða borgarumhverfi þær eru hluti af. Þetta er gert á svipuðum tíma í sama heimshluta.
    http://www.teikna.is/Ymislegt/Podzdamer-Smara1.jpg
    http://www.teikna.is/Ymislegt/Podzdamer-Smara2.jpg

  • stefán benediktsson

    Þeim tókst þetta líka í New Castle. E

  • Sigurður J. Sigurðarson

    Helstu hindarirnar vegn miðborgarinnar og uppbyggingu þar eru:

    Kröfur um nýtingarhlutfall, kröfur um bílastæði, lélegar almenningssamgöngur

    Prag og bestu borgir heims búa við hátt nýtingarhlutfall, fá bilastæði og góðar almenningssamgöngur

  • Helga Guðmundsdóttir

    Tek undir með Kristínu. Arkitektar eiga að fara sér hægt í eldri hverfum en láta gamminn geysa í nýjum byggðum.
    Spurningin sem leitar á er hvort miðbænum sé við bjargandi? Hvort ekki sé möguleiki á að virkja einhverjar götublokkir (ameriskt hugtak. veit ekki hvað það er kallað á isl) þannig að þær kalli á líf og fjör? Væri ekki hugmynd að fara og leita ráða hjá skipulagsyfirvöldum í Prag og athuga hvort þeir sjá tækifæri í Reykjavík innan Hringbrautar!

  • Kristín Snæland

    Mér finnst alltaf flottara þegar nýjar byggingar í gömlum miðbæjum eru hannaðar með þann stíl í huga sem fyrir er. Þoli ekki byggingar sem eru eins og skrattinn í sauðaleggnum með allt annan stíl en það sem fyrir er. Mér finnst hinsvegar flott þegar byggingar sem standa stakar eða í nýrri hverfum fá að njóta sín með sérstakt útlit.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og fimm? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn