Mánudagur 30.01.2012 - 08:59 - 11 ummæli

París – La Défense

La Defence er aðal viðskiptahverfi Parísarborgar. Hverfið stendur vestan við borgina og er á enda áss sem liggur allt frá Louvre safninu í hjarta borgarinnar um Tuileries garðana, Place de la Concorde, Champ-Elysees, Etoile og breiðgötuna Grande Armee 10 km leið sem endar í La Defence.

Það er einhver stór hugsun í skipulagi Parísarborgar sem maður er eiginlega stanslaust hissa á.

Þessi  þráðbeina götulína milli fortíðar og framtíðar, þrungin sögu, er einhver glæsilegasta gata sem um getur.  Ásinn byrjar í Louvre sem er aðeins snuið miðað við ásinn (um 6 gráður að mig minnir) og endar í Grand Arche sem er í um 10 km fjarlægð er snúið nákvæmlega jafn mikið og Louvre miðað við götuna. Þar sem gatan er hæst stendur Sigurbogi Napóleons eftir Chalgrin.

Grand Arch er teiknað af danska arkitekinum Otti von Spreckelsen (1929-1987) sem vann verkið í alþjóðlegsi samkeppni.  Mér hefur verið sagt að íslenski arkitektinn Guðrún Gústafsdóttir sem vann um tíma hjá Spreckelsen hafi komið að verkinu.  Arkitektinn lifði ekki að sjá verk sitt fullklárað árið 1989.

Ég hef oft velt því fyrir mér hvort La Defense hafi verið lausn skipulagsfræðinga til þess að losna við háhýsin úr miðborg Parísar!  Úthýsa þeim úr miðborginni og gefa þeim kjöraðstæður í jaðrinum í stað þess að láta atburðarrásina og tíðaranda liðandi stundar ráða ferðinni eins og oft vill gerast.

Uppúr 1970 var hætt að byggja háhýsi innan Periferíunnar í París, góðu heilli. Svipað var gert í London (Docklands) og víðar þó það hafi ekki gerst með frönskum elegans eins og hér.

Að neðan koma tvær myndir teknar af þaki Sigurbogans til austurs og vesturs. Neðst er svo myndband sem sýnir núverandi byggð í La Defense og væntanlæeg hús. Bandið er kynnt sem 9 mínútna langt en er aðeins um 5 mínútur í spilun.

Ef smellt er tvisvar á myndirnar stækka þær

Á slóðinni hér að neðan má lesa um Spreckelsen.

http://en.wikipedia.org/wiki/Johann_Otto_von_Spreckelsen

Horft til vesturs í átt að La Defence

Horft til austurs eftir frægustu breiðgötu veraldar. Louvre er fyrir enda götunnar

 Hér að neðan koma svo tvær myndir sem Árni Ólafsson hefur bent á. Önnur er teikning af sýn meistara Le Courbusiere frá árinu 1922 (fyrir réttum 90 árum) hin er nokkurra ára ljósmynd frá La Defense. Líkindin eru sláandi.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (11)

  • Sigurjón H. Birnuson

    Nefna má að strangar reglur um hæð bygginga í París hafa verið í gildi allt frá því á 17. öld. Nú mega byggingar ekki vera hærri en 25m í miðborginni, en geta verið allt að 37m annars staðar.

    Helstu undantekningar frá þessari reglu eru skýjakljúfahverfin á Signubökkum (svo sem Front-de-Seine), að slepptum stökum háhýsum á borð við Montparnasse-turninn.

    La Défense er svo utan Parísar sem slíkrar, svo að þar gilda aðrar reglur.

  • Sigurjón H. Birnuson

    Er nokkur kurt að nefna turninn hans Nouvel án þess að minnast á Brâncuși?

  • Sveinn í Felli

    Mér finnast „skýin“ í Grand Arche hálf mislukkuð, hugsanlega var Spreckelsen ekki með puttana í endanlegri útfærslu þeirra.

    La Défense var búin að vera í dálítilli tilvistarkreppu frá olíukreppunni 1973+ og umhverfið ekkert sérstaklega spennandi í kringum 1984 þegar endurnýjunaráætlunin var sett í gang (sem Grand Arche Bræðralagsboginn var hluti af). Mörg eldri háhýsin voru tekin í gegn og önnur byggð.

    Það hefði samt óneitanlega verið gaman að sjá Endalausa turninn hans Nouvel rísa þarna við hlið aðalássins:

    Tour Sans Fins: http://eras.free.fr/html/archi/tsf.html

  • Jón Guðmundsson

    Fyrir réttum 20 árum stikaði ég þennan ás á tveimur jafnfljótum.
    Erik Reitzel samstarfsmaður Spreckelsen við hönnun Grand Arche, Sigurboga Mennskunnar, hafði um veturinn verið burðarþolsleiðbeinandi minn á listaakademiunni.
    Boðskapur Reitzels til okkar nemendanna var sá að helstu takmörkin hvað þyngdarlögmálið varðaði væri hversu langt hugmyndaflugið gæti borið okkur.
    Það var upplifun að heyra þessa skoðun frá þessum magnaða verkfræðingi og hönnuði.
    Með því að rölta frá Louvre yfir í La Defence vonaðist ég til þess að ná betri tilfinningu og skilning á þessu mannvirki.
    Rétt áður en ég náði á enda gekk ég fram glóðvolgt stykki úr Berlínarmúrnum, vegmóður og nokkuð spenntur gekk ég síðan undir Grand Arche og leit inn í framtíðina handan rammans.
    Við mér blöstu kæliturnar kjarnorkuvers í fjarska og í næstu grennd gróinn kirkjugarður. Sólin var að lækka á vesturhimninum og litaði veröldina roðagillta.
    Rúsínan í pylsuendanum var þannig sólin sjálf þar sem hún vomaði yfir kjarnorkuverinu og kirkjugarðinum.
    Ég sat lengi þarna í tröppunum í kvöldsólinni og hugsaði mitt.
    Ásmundur Sveinsson sá fyrir sér verk sitt Helreiðina staðsetta yfir Ártúnsbrekkunni.
    Kannski getur Miklabrautin einhverntíma orðið okkar Sögu Ás sem virkar það spennandi að einhverjum dettur í hug að stika hana endilanga?

  • Jón Sveinsson

    Nú langar mig til Parísar aftur, setja upp skipulagsgleraugun og skoða stóru línurnar.

  • Jón Ólafsson

    Þessi gata og þessi lausn sýnir að verndunarsinnar standa ekki í veginum fyrir „uppbyggingarsinnum“. Þvert á móti hafa uppbyggingarsinnar margsýnt að þeir hafa valdið sogunni tjóni. Og eru enn að.

  • Hilmar Þór

    Þakka þér Árni Ólafsson fyrir sendinguna. Ég setti þessar tvær myndir inn í færsluna lesendum til fróðleiks og skemmtunnar.

  • Árni Ólafsson

    Pæling eftir Parísarheimsókn 2000.
    Sjá eftirfarandi slóð:
    http://www.teikna.is/Ymislegt/Paris1922-2000.jpg

  • Magnús Sigurðar

    Tillitssemi i gamla hluta borgarinnar og arkitaktasprell nútímans i nýja hlutanum. Getur tetta orðið betra?

  • Snæbjörn Brynjarsson

    La defence er einhver flottasti staður í heimi. Alveg stórfenglegt að fylgjast með mannlífinu þar í hádegishlénu og svo rétt eftir. Minnir á sjávaröldu.

  • Tryggvi Ólafsson

    Með vísan til umræðna hér og annarsstaðar um „verndunarsinna“ og „uppbyggingarsinna“ (verktakasinna) er ekki ráð að gera svipað hér og í París. Hringbraut er samsvarandi gata og hringvegurinn umhverfis París. Ég legg til að öll Reykjavík sem skipulögð var af Guðjóni Samúelssyni og fl árið 1928 verði hálffriðuð. Staðarandinn verði látinn halda sér 100%

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og tveimur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn