Fimmtudagur 02.02.2012 - 10:56 - 8 ummæli

Poul Henningsen – „PH“

Ég byrja á tilvitnun í PH sem gaman er að velta fyrir sér: „Vondur smekkur er ekki til,  það er bara til góður smekkur og hann er vondur“ .

Poul Henningsen var mjög virkur í menningarumræðunni í Danmörku alla sína tíð og það var eftir honum tekið þegar hann kvaddi sér hljóðs, sem var alloft.

Hann var mjög menningarpólitískur og gaf út tímaritið „Kritisk Revy“ á árunum 1926-28, skrifaði vinsælar Revíur fyrir leikhús, var blaðamaður og gaf út bækur á borð við „Gamansöm Alvara“ (Alvorlig Sjov) og svo sagði hann: Öll pólitísk list er vond – og öll góð list er pólitísk.

Varðandi hönnun hans eru lamparnir algerlega einstakir. Sagt var árið 1958 þegar  PH5 kom á markað að nú væri búið að teikna borðstofulampann í eitt skipti fyrir öll og ekki þurfi að hugsa um hann framar.  það sýndi sig líka að danska þjóðin tók lampanum opnum örmum. Hann var á viðráðanlegu verði, fallegur og funktional. Að grunni til var hann byggður á öðrum lampa sem PH hannaði árið 1926 og hét PH glaspendel. (sjá að neðan) Því er stundum haldið fram að PH5 lampinn hafi í raun verið teiknaður 1926 og síðan lagfærður, þróaður og honum breytt vegna þess að ljósaperan er öðruvísi nú en þá. 

Og enn er ljósaperan að breytast. Vonandi tekst að laga PH5 að nýju sparperunni.

PH5 lampinn var og er svo vinsæll að ég fyrir minn hlut hef ekki komið inn á danskt heimili þar sem ekki hangir að minnstakosti einn slíkur.

PH var staðararkitekt fyrir Tivoli í Kaupmannahöfn frá árinu 1941 og eru spor hans þar ennþá áberandi, áratugum síðar.

Poul Henningsen, sagði eitt sinn „Að vera frjálslyndur væri ekki réttindi heldur erfið skylda. Frjálslyndi fælist ekki í því að trúa á framfarir, heldur að efast um þær“.

Að neðan eru myndir af nokkrum lömpum PH í tímalínu og neðst kemur ljósmynd af PH sjálfum.

Efst er sjálfsmynd sem Poul Henningssen teiknaði.  Teikningin rennir stoðum undir þá kenningu að sá sem ekki getur teiknað fríhendis skortir rýmisgreind og skilur ekki hlutföll.  Hugsanleg afturför byggingarlistarinnar á kannski rætur sínar að rekja til tölvanna sem treyst er til að reikna út það sem augað sér. Ég sé iðulega teikningar sem sýna að arkitektarnir kunna of mikið á tölvur og of lítið í byggingarlist.

Poul Henningsen fæddist árið  1884 og lést 1967 þjáður af parkinsonsjúkdómnum

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (8)

  • Fróðlegt að kynnast manninum að baki lampans sem hefur hangið yfir sófaborðinu á æskuheimili mínu um áratugi.

  • Árni Ólafsson

    Á forláta PH5 fyrir sparperu, 23W sem samsvarar 100 W glóperu. Platan undir perunni er stillanleg í hæð. Þetta fékkst í Epal fyrir rúmum áratug.

  • stefán benediktsson

    Látið ekki svona strákar ……það eru til halogen perur alveg jafn góðar og glóperur ………og djöfull er ág ákveðinn í að byrja að reykja aftur…..þegar ég verð áttræður….ekki það að ég verði listamaður

  • Leifur Benediktsson

    „ja, men hvad med kulturen?“

  • þorgeir jónsson

    Ps. Sparperur passa alls ekki í PH lampa, mæli með tvistum frekar.

  • þorgeir jónsson

    Það væri gaman að sjá á myndum hvað samtíma hönnuðir á Íslandi voru að gera í þá daga…það eru örugglega nokkrar góðar perlur í því safni. ( þetta á frekar við um næst síðustu færsluna um húsgagnahönnuði en þessa)

  • Einar Ólafsson

    Þessir „pendular“ eru yfirgengilega fallegir og dreifa birtinni vel og það er synd að ekki sé hægt að fá 100 w glóperu lengur. Þessir lampar eru ekki gerðir fyrir sparperur

  • Það má ekki gleyma því að hann var ekki bara í kúltúrpólitík. Hann var líka mjög gagnrýninn á þjóðflélagsmál. Hann var Kommunisti en snéri baki við honum árið 1947 þó svo að hann héldi áfram að vera vinstrisinnaður. Hann flúði nasismann á stríðsárunum. Þessi maður átti sér merkilega sögu, var sekmmtilegur agaður bóhem (hvernig sem það nú samræmist). Nú stefnir allt í að ESB tindátarnir og skriffinnarnir í Brussel ætli að ganaga af PH5 dauðum með reglugerðarfargani sínu. Lampa sem er 86 ára um þessar mundir og er fallegur og virkar vel.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og sjö? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn