Fimmtudagur 09.02.2012 - 08:41 - 5 ummæli

Poul Kjærholm

 

Poul Kjærholm (1929-1980) var sveitastrákur frá smábæ á Jótlandi, Öster Vrå, skammt frá Hjörring. 

Aðeins 15 ára fetaði hann inn á þann vettvang sem varð ævistarf hans. Hann lærði húsgagnasmíði  og hóf nám í Listiðnaðarskólanum eins og Börge Mogensen og Skarphéðinn Jóhannsson og m. fl á þessum árum. Í framhaldinu hóf hann nám á Konunglegu Listaakademíunni og lærði hjá Hans J Wagner og  professor Kåre Klint.

Hann vann einnig um tíma hjá Jörn Utzon og stúderaði alþjóðlega þekkta hönnuði á borð við Charles Eames, Mies van der Rohe, minimalistann Gerrit Rietveld o.fl.

Kjærholm var sérlega kröfuharður og agaður í öllum sínum störfum og gaf hvergi eftir. Hann sagðist einkum vinna með náttúruleg efni og það er rétt hjá honum. Hinsvegar er burstað stál áberandi í verkum hans. Hann var eitt sinn spurður út í það og svaraði því til að hann teldi stál náttúrulegt efni. Sennilega er það líka rétt hjá honum.

Kona hans, Hanne Kjærholm(1930-2009),  var einnig ættuð frá Hjörringsvæðinu eins og Poul, sem var á bóndaárinu. Ekki veit ég hvort þau felldu hugi saman í sveitinni en þau gengu saman sínar professional breiðgötur og urðu bæði prófessorar við Konunglegu dönsku listaakademíuna fyrir hinar fögru listir í Kaupmannahöfn. 

Hanne var kennari minn einn vetur á Akademíunni. Ég kynntist henni nokkuð og minnist þess að hún var skemmtileg og mikil kvennréttindakona. Hún varð fyrst kvenna professor í byggingalist á Akademíunni en Akademian var stofnuð 31. mars 1754 eða tæplega 240 árum áður en hún varð fyrsti kvenprofessorinn.

Hún teiknaði frægt hús þeirra hjóna í Rungsted árið 1962 o.m.fl.

Ég læt ekki margar ljósmyndir fylgja þessari færslu en visa á afar vandaðan bækling sem skoða má af þessari slóð: http://viewer.zmags.com/publication/0ee2abe9#/0ee2abe9/1

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (5)

  • Sigga Heimis

    Ég varð þeirrar ánægju aðnjótandi að vinna með Hanne að sérútgáfu nokkurra vel valinna húsgagna eftir Poul og það var ótrúlegt. Hún var ljónskörp og ótrúlega fær, orðin háöldruð og leið fyrir heilablóðfall svo hún átti erfitt með tal. Hún lést stuttu síðar og þar fór klár kona.
    Ég stúderaði Poul spjaldanna á milli þegar ég vann að þessu verki og ég hvet alla leika og lærða að skoða verk þessa manns. Hann var ótrúlega nákvæmur og umhyggjusamur um verk sín og er hann í algjöru uppáhaldi hjá mér.
    Ég bendi á bók sem heitir The furniture of Poul Kjærholm; Catalogue Raisonne eftir Michael Sheridan en hann lifir og starfar fyrir verk PK. Sú bók er jafn falleg sem hún er fróðleg og gefur frábæra mynd af meistaranum.

  • Björn Helgason

    Það er næstum óbærilegur léttleiki yfir þessum húsgögnum. Maður trúir varla að þau geti borið meðal mann. En þau eru fullbær um það.

  • Kristján Guðmundsson

    „Lifa og lofa manninn“ átti að standa.
    KG

  • Kristján Guðmundsson

    Frábær húsgagnahönnuður. Á sjalfur tvo PK 22 með fléttu sem eru orðnir 25 ára gamlir og eru fallegri nú en þegar þeir voru nýjir. Kjærholm var aðeins 51 árs þegar hann lést. Verkin lifa og loga manninn.

  • Sigurlaug

    Reglulega skemmtileg yfirferð á framúrskarandi dönskum hönnuðum. Gaman væri að fjalla um íslenska hönnuði sem margir hafa sýnt fína spretti við þröngar aðstæður.(Gunnar Magnússon, Þórdís Zoega, Pétur lútersson o fl)

    http://www.fhi.is/

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og einum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn