Mánudagur 02.05.2011 - 08:26 - 5 ummæli

Perla í Berlin- Mies verðlaunin 2011

Gunnlaugur Baldursson arkitekt sem starfar í Þýskalandi skrifaði grein í Lesbók Morgunblaðsins fyrir rúmu ári (16. janúar 2010).  Greinina nefnir hann “Perlur með sögu og sál”.  Þar fjallar hann um byggingarlistarlegar perlur í Reykjavík og víðar.  Í greininni lýsir hann stuttlega Neues Museum í Berlín sem hann lofar mikið. Nú hefur komið á daginn að einmitt þessi bygging hlaut á þessu ári virtustu verðlaun sem veitt eru í byggingalist á heimsvísu. Það eru Mies van der Rohe verðlaunin sem verða formlega afhent í næsta mánuði.

Ég birti hér hluta greinar Gunnlaugs með hans leyfi.

“Dæmigert fyrir varðveislu á gersemi sem Berlinarborg státar af er endurnýjun hins svokallaða  Neues Museum eða „Nýja safns“ á safnaeyjunni i miðri borginni. Erfitt mun vera að finna byggingu í Berlinarborg þar sem saga jafnvel allrar Evrópu fléttast jafn rækilega saman í einum punkti”

“Byggingin varð fyrir svo illri meðferð bæði í seinni heimsstyrjöld og á tíma hins kommúniska austur þýska alþýðulýðveldis, að einungis hlutar hennar stóðu uppi þegar endurreisn mannvirkisins varð að veruleika i lok siðustu aldar. Einstök samvinna enskra og þýskra  sérfræðinga er undirstaða þess sannfærandi árangurs sem náðist við endurgerðina. Aldrei er vafi á því hvað er gamalt og hvað nýtt. Undir stjórn Englendinganna Chipperfield og Harraps var tekin ákvörðun um að halda í allt sem nothæft var og flétta saman við það hlutum og efnum sem framleidd eru á líðandi tímum. Þessari aðferð hafa menn eins og Ítalinn Scarpa eða Norðmaðurinn Fehn beitt með góðum árangri í safnabyggingum eigin landa.

Hin nýju formmeðöl safnsins í Berlin eru einföld og í ætt við þau klassísku svo sem þykkir, gegnheilir byggingarhlutar eða náttúruleg efni. Hvergi sjást annarleg tískufyrirbrigði sem svo oft bera ofurliði það sem taldar eru „djarfar“ nýbyggingar um allan heim.  Í Berlínarsafninu hefur tekist að skapa tímalausa og háleita kyrrð sem ramma fyrir þá hluti sem sýna á í húsinu.

Sýningarmunir eru með öðrum orðum hluti af heildinni. Þetta atriði er þveröfugt við flest  nútímasöfn og nægir það eitt til að gera húsið að einstakri perlu”.

Færslunni fylgja nokkrar myndir af endurbyggðu húsinu.  Neðst koma tvær gamlar ljósmyndir sem gefa til kynna hvernig húsið leit út áður en endurbyggingin hófst.  Þetta er gott innlegg í umræðuna um niðurnídd hús í Reykjavík að undanförnu. Þetta er  dæmi um hvernig endurbyggja má gömul niðurnídd hús og gefa þeim nýtt líf og nýtt hlutverk með fullri virðingu fyrir því gamla án þess að láta það þvælast fyrir sér. Þetta er líka tilefni til þess að velta fyrir sér ummæli nýhyggjumanna í byggingarlistinni sem tala um að hús séu fryst í tíma meðan aðrir tala um sama efnið sem verndun eða endurhæfingu.

Í Berlínarsafninu hefur tekist að skapa tímalausa og háleita kyrrð sem ramma fyrir þá hluti sem sýna á í húsinu.

Hvergi sjást annarleg tískufyrirbrigði sem svo oft bera ofurliði það sem taldar eru „djarfar“ nýbyggingar um allan heim


Hið ytra eru byggingin með upprunalegt útlit

Þetta niðurnídda hús er nú eitt helsta djásn Berlínar og verður úthlutað Mies van der Rohe verðlaununum fyrir árið 2011

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (5)

  • Hafsteinn Guðmundsson

    Frábært að benda á þetta.

    Þetta hús er alvöru arkitektúr með sögulega virðingu, skapandi hugsun, fagleg vinnu allra sem að komu og hér fer fram uppbyggileg umræða.

    Kíkið á þetta:

    http://www.davidchipperfield.com/

  • Jóhannes Árna

    Það hefur margsýnt sig að verndun og endurhæfing húsa hefur margborgað sig og er oftast til vinsælda fallin og styrkir mannlífið. Ég nefni dæmin; Stjórnarráð við Lækjargötu (áður fangelsi) Listasafn Íslands (áður íshús) Listasafn Reykjavíkur (áður pakkhús) o.f. og fl. Ég lýsi eftir einhverjum sem eru óánægð með þessi dæmi. Þetta frystingartal er ekki neitt sem fólk tekur alvarlega held ég. Dæmin sanna að sá ótti er ástæðulaus og órökstuddur. Þetta hús sýnist vel heppnað og sómi að. Annað hús af sama toga sem rómað er víða um lönd er Musee d´Orsey í parís sem er listasafn (áður járnbrautarstöð. Úrtölumenn um endurbyggingu og friðun þurfa að endurhugsa málið því að allar endurbyggingar og verndanir hafa heppnast. Ég man ekki eftir dæmi þar sem það hefur misheppnast. Einhver?

  • Herta Kristjánsdóttir

    Museum Insel dregur mig aftur og aftur til Berlínar, eftir mánuð verð ég þar aftur á ferð til að upplifa sögu og aftur sögu…

  • Hörður Pétursson

    Neues Museum er frábært dæmi um það hvernig má endubyggja gamlar byggingar. Það sem mér þykir vænt um að sjá og Gunnlaugur bendir á að hér er unnið með efni í „nýbyggingunni“ sem hæfa þeirri gömlu án þess þó að vega að henni.
    Augljós greinarmunur er gerður á milli þess sem gamalt er og þess sem er nýtt, án þess að það bitni á byggingunni.

    Til að setja þetta í samhengi við það sem okkur er boðið uppá í RVK þá er afar vinsæl aðferð að „klína“ glerskála við gömul, og oftast mjög faglega uppgerð timburhús. Aðgerð sem að mínu mati er hreinasta móðgun við falleg timburhús.

    Annað sem lesa má úr endurbyggingu Neues Museum er að þar er allri sögu byggingarinnar gert hátt undir höfði en ekki bara einum tímapunkti í sögu hennar. Þeas endurbyggingin gengur ekki útá að húsið sé sem næst upprunalegri mynd . Það er ekki verið að færa bygginguna í það form sem hún var í fyrir eyðilegginguna eins tíðkast svo oft í miðborg RVK. Heldur er ekki verið að endurbyggja húsið með gömlum aðferðum – sem er þó, að mínu mati, eina leiðin ef endurbyggja skal byggingu í upprunalegri mynd – heldur verður sagan að arkitektónísku þema sem síðan gerir bygginguna jafn góða og raun ber vitni.

    Endurbygging Neues Museum er skýrt dæmi um það að arkitektar geta hannað í anda okkar tíma með tillit til þess gamla án þess að rífa, notast gamlar aðferðir eða láta líta út fyrir að nýjar byggingar séu gamlar. Aðferðarfræði sem gaman væri að sjá meira af í miðborg Reykjavíkur.

  • Ragnar Óskars

    Eru þetta skilaboð frá Miesnefndinni um að við eigum að vernda og endurnýja byggingar í gömlu hverfunum í stað þess að rífa og hanna í anda okkar tíma, í anda alþjóðahyggjunnar sem nú ríkir víðast? Það er mín túlkun og ég þakka Miesnefndinni fyrir sitt framla

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og sjö? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn