Þriðjudagur 30.05.2017 - 20:51 - 5 ummæli

Ræða Sigurðar Pálssonar við skólaslit MR.

Hið kunna skáld Sigurður Pálsson, hélt hátíðarræðu við skólaslit MR síðastliðinn föstudag 26 maí.  Hann lagði út frá Dylan, tímanum og tíðarandanum fyrir 50 árum þegar hann og fólk á okkar aldri lauk framhaldsskóla. Ég birti hér ræðu hans í heild sinni með leyfi höfundar. Þetta er eins og við var að búast bæði skemmtileg, fróðleg og vel skrifuð ræða sem á erindi til feliri en þeirra sem sátu í Háskólabíoi við skólaslit Menntaskólans í Reykjavík 2017.

Hann talaði  sérlega fallega um um arkitektúr,  poppmenninguna og fleira.

Hann byrjaði á tilvitnun í Nóbelsverðlaunahafann Bob Dylan.:

++++++

Ágætu nýstúdentar og aðstandendur þeirra, rektor, kennarar, júbílantar, aðrir góðir gestir.

 

While preachers preach of evil fates

         Teachers teach that knowledge waits

         Can lead to hundred-dollar plates

         Goodness hides behind its gates

         But even the president of the United States

         Sometimes must have

         To stand naked.

Svona orti ungt ljóðskáld og lagahöfundur fyrir rúmum fimmtíu árum, hann hafði lag á að draga mikilsverð sannindi saman, stundum í eina línu sem kjarnar ákveðna kennd, til dæmis The Times They Are A-changin’ en það hefur verið tilfinning mannkynsins fyrir nútímanum mestalla tuttugustu öldina, allt til dagsins í dag. The Times They Are A-changin’…

Ágætu nýstúdentar. Í dag eru tímamót í lífi ykkar, þetta er stór dagur. Við júbílantar minnumst þess að ákveðinn árafjöldi er liðinn frá því við vorum í ykkar sporum.

Tíminn. Hann er mikill húmoristi. Fimmtíu ár frá því ég stóð á þessu sviði með skjal í hönd og hvíta húfu á höfði. Ef einhver hefði sagt mér þá, að ég myndi standa á þessu sama sviði eftir fimmtíu ár, fara með ljóðlínur eftir Bob Dylan, sem hefði fengið Nóbelsverðlaunin í bókmenntum haustið áður, þá hefði ég sagt eins og Danir segja svo skemmtilega: Nej, men hold nu kjæft du!

Tíminn. Hann er bæði mælanlegur og ómælanlegur, klukkan mælir hann, hann mælist í árum. Vissulega ekki hægt að mótmæla þeirri hlið tímans sem er mælanleg. En það er ástæða til þess að minna á hina súbjektívu hlið tímans, hina huglægu. Skynjun okkar á tímanum. Hún tengist því sem við megum aldrei missa tengslin við, okkar innri rödd.

Við vitum öll að mikilvægustu stundir lífs okkar eru ekki endilega langar mældar á klukkunni. Skynjun okkar á tíma er vissulega huglæg, ekki hlutlæg.

Tími þýðir líka kennslustund. Ég get nefnt marga kennara í MR sem létu hvern tíma líða eins og hann væri tíu mínútur, læt nægja að nefna tvö nöfn: Björn Bjarnason sem kenndi mér stærðfræði í 4. bekk og Vigdís Finnbogadóttir sem kenndi mér frönsku í fimmta bekk.

Ég man satt best að segja ekki eftir nema einu fagi þar sem mér leið eins og hver tími væri tíu tímar minnst. Það var bókfærsla í þriðja bekk, mér hefur aldrei leiðst jafn mikið, eiginlega aldrei í lífinu. Þetta átti eftir að draga dilk á eftir sér. Þannig var að í óbærilegum leiðindum í bókfærslunni fór ég að skrifa án þess að hugsa, án þess að vitundin væri við stjórnvölinn. Þegar heim var komið varð ég steinhissa: skrifaði ég þetta? Sumar setningarnar fannst mér vera framandlegar á áhugaverðan hátt. Í raun hafði ég praktíserað ósjálfráða skrift án þess að hafa hugmynd um það, eitthvað sem súrrealistarnir í París stunduðu fjörutíu árum fyrr sem æfingu í því að virkja undirmeðvitundina. Þetta var upphafið að ljóðagerð minni og öðrum skrifum. Óbærileg leiðindin í bókfærslu. Kannski eru leiðindi stórlega vanmetin sem aflvaki. Örvæntið því ekki, kæru nýstúdentar, ef ykkur er farið að leiðast núna.

Það eru fimmtíu og fimm ár frá því að ég kom í fyrsta skipti inn í þennan sal, ég gleymi því ekki. Ég var nýkominn til Reykjavíkur, sat í landsprófsdeild Hagaskóla hér í nágrenninu, kom hingað minnir mig á kynningu sem Sinfóníuhljómsveitin var með fyrir skólafólk. En þessi salur, ég hafði hreinlega aldrei séð annað eins, hafði aldrei komið í rými þar sem var svona hátt til lofts. Og vítt til veggja. Og hlutföllin rétt og blátt klæði á sætunum, undarlegur og nútímalegur gúmmidúkur á gólfinu. Þessi frumskynjun á salnum í Háskólabíói tók sér bólfestu einhvers staðar innst í huganum og hefur ekki vikið þaðan síðan.

Stóri salurinn í Háskólabíói þar sem við erum núna, hann getur kennt okkur ýmislegt. Þetta hús er ekki lítilla sanda, lítilla sæva. Maður finnur að arkítektarnir höfðu ekki asklok fyrir himin. Hugsið ykkur þennan sal, þessa byggingu þegar hún var ekki annað en teikning á blaði. Og hugsum okkur enn lengra aftur á bak, þegar þessi bygging var ekki annað en hugmynd í höfði arkítektanna. Þá var mikils virði að hlusta á innri röddina, hún leiðbeinir. Hún predikar ekki, hún kennir. Þessi bygging er stór í sniðum af því að hún er stór í hugsun.

En mér verður hugsað til annars húss sem getur kennt okkur margt. Menntaskólinn í Reykjavík er eitt þeirra fyrirbæra sem á sér langtum lengri sögu en sem nemur mannsævinni.

Við skynjum þannig eitthvað sem er sannarlega stærra en við sjálf. Á það bæði við um skólastarfsemina og einnig hús skólans við Lækjargötu sem var tekið í notkun árið 1846. Hús sem er í réttum hlutföllum enda vissu menn þá, að enginn er yfir gullinsnið hafinn.

Þegar húsið var 140 ára var ég fenginn til að skrifa leikrit fyrir Herranótt. Ég las allt sem ég komst yfir um húsið og skólastarfsemina og heillaðist algjörlega. Leikritið heitir Húsið á hæðinni eða hring eftir hring. Aðalpersónan er húsið og svokallaðir húsandar sem búa þar í veggjunum en síðari hluti titilsins, hring eftir hring, vísar til þess að það var eins og kynslóð fram af kynslóð væru svipuð mál ofarlega á baugi, átök milli aga og agaleysis, milli hefða og byltinga og svo framvegis. Hring eftir hring, réttara væri að segja spíral eftir spíral, því það er þannig sem sagan endurtekur sig, ekki í lokuðum hring heldur spíral.

Það er ákaflega sjaldgæft hér á landi að eiga þess kost að dvelja í húsi sem á sér jafn langa sögu. Þetta var mennta- og menningarmiðstöð þjóðarinnar kynslóð fram af kynslóð. Húsið og skólastarfsemin kenna okkur eitthvað mjög mikilvægt um tímann.

Það eru forréttindi að vera þátttakandi í því ævintýri. En þetta á ekki að gera okkur MR-inga hrokafulla, þvert á móti. Þetta á að vera okkur lexía í hógværu stolti, hvatning til að vera skólanum til sóma. Stolt er algjör andstæða hroka. Aðgangur að fortíðinni getur verið og á að vera stökkpallur inn í framtíðina. Sá sem hefur lifandi aðgang að fortíðinni er betur til þess fallinn að ráða við framtíðina.

Horfum á trén, þá skynjum við að tré sem vex er kennari, lífvera sem hjálpar okkur að sjá hlutina bak við hlutina, fræið bak við tréð. Áform sem vex eins og lífvera, fjölgar sér eins og lífvera.

 

The Times They Are A-changin’.

Eitt dæmi af ótalmörgum: Enn eina ferðina stöndum við á tímamótum. Framundan eru tímar gervigreindar og alls kyns hluta sem mannleg hönd og hugur unnu áður. Og hvað með það? Jú, þá verður ljóst að sköpunarkrafturinn verður stöðugt mikilvægari, eitthvað sem gervigreindin ræður ekki við. Ekki ennþá að minnsta kosti. Sköpunarkraftur og gott samband við innri röddina skiptir öllu.

Árið 1867, fyrir nákvæmlega 150 árum lauk byggingu húss sem við þekkjum vel en það er Íþaka, bókhlaða MR, sem byggð var fyrir fé sem enskur kaupmaður, Charles Kelsall ánafnaði Latínuskólanum í erfðaskrá sinni.

Hann hafði heillast mjög af því að fámenn og sárafátæk þjóð skyldi reyna að halda uppi sjálfstæðu menningarlífi.

Ég hef verið beðinn um að koma því á framfæri að við, 50 ára stúdentar, höfum ákveðið að færa skólanum peningagjöf sem verði varið til að styrkja safnkost Íþöku.

Við vonum að gjöfin komi sér vel, þetta er örlítill þakklætisvottur okkar til skólans sem reyndi af öllu afli að koma okkur til nokkurs þroska og fór held ég langleiðina með það þó svo ekki mætti neinu muna í sumum tilfellum eins og í tilviki þess sem hér talar. Þið takið eftir því að ég notaði bæði tilfelli og tilvik í sömu setningunni, orðið tilfelli var algjört bannorð hjá íslenskukennaranum mínum í sjötta bekk. Ég hef verið að safna kjarki í fimmtíu ár að nota það og vona að það fyrirgefist eftir öll þessi ár. Enda bætti ég óðara við leyfilega orðinu, tilvik.

 

Ágætu nýstúdentar og júbílantar. Enn og aftur: hjartanlega til hamingju með daginn. Ég ætla að lokum að leyfa ykkur að heyra stutt prósaljóð sem ég skrifaði fyrir nokkru.

Það er um tímann og heitir Að vera – að verða og hljóðar svo:

 

Það er erfitt að öðlast djúpan skilning á tímanum. Það reynist miklu auðveldara að skynja hann. Jafnvel skilningur á afstæðiskenningunni breytist óðara í skynjun.

Rabbí Nachman frá Breslau sagði eitt sinn við áheyrendur sína: “Það er bannað að vera gamall.”

Þetta er ekki misheyrn, ekki missýn, hann sagði ekki bannað að verða gamall heldur vera.

Munurinn virðist lítill, einn bókstafur.

Með því að íhuga þessa setningu nánar gæti það gerst að maður skynjaði tímann í leiftursýn, skynjun sem stappaði nærri skilningi eitt augnablik, örstutt.

Verðandin er opin, það er allt í lagi að verða gamall, það er lífrænt.

En veran sjálf er helguð lífsandanum, síungum.

Einmitt þannig: það er bannað að vera gamall.

++++

Hér að neðan kemur myndband þar sem Dylan flytur lagið sem tilvitnaður texti er úr í ávarpi Sigurðar Pálssonar:

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (5)

  • Hilmar Þór

    Ég var í París um daginn og þar er nánast ekkert rifið innan Periferíunnar og ég kom í gær frá Quebec í Kanada þar sem ekkert er rifið innan gömlu borgarmúranna. Sennilega vegna þess að þeir eru meðvitaðir um að „Sá sem hefur lifandi aðgang að fortíðinni er betur til þess fallinn að ráða við framtíðina“.

  • Hilmar Þór

    Það er mikið af gullkornum í þessum pistli.

    Ég vek athygli á einu:

    „Sá sem hefur lifandi aðgang að fortíðinni er betur til þess fallinn að ráða við framtíðina“.

    • Sigríður Björnsdóttir

      „Lifandi aðgang að fortíðinni“! Þetta ættu borgaryfirvöld og arkitektar að hafa í huga þegar þau láta rífa niður gömlu húsin í hrönnum!

  • Þegar ég var þarna sagði stærðfræðikennari að gluggarnir hefðu átt að vera með gullinsniði en iðnaðarmennirnir klúðrað því! Ég sel það ekki dýrara.

    Góð ræða, vart við öðru að búast.

  • Hallgrímur.

    Þetta er fallega skrifað og innihaldsríkt ávarpum tímann og menninguna. Ég hjó eftir þessu: „Hús sem er í réttum hlutföllum enda vissu menn þá, að enginn er yfir gullinsnið hafinn“.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og fimm? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn