Föstudagur 15.10.2010 - 09:04 - 12 ummæli

Ræsum byggingariðnaðinn

Ekki er með fullu vitað hvað atvinnuleysi er mikið í arkitektastétt. En fram hefur komið að um 40% arkitekta sem störfuðu á einkamarkaði eru nú á atvinnuleysisbótum. Til viðbótar þeim hafa margir fundið sér annað starf, eru fluttir til útlanda eða komnir í nám.

Svo eru auðvitað hinir sem eru atvinnulausir án þess að vera á bótum og þeir sem einungis starfa í fagi sínu í 50-70% starfi. 

Það er ekki óvarlegt að álíta að atvinnuleysi í stéttinni sé á bilinu 70-90% miðað við stöðuna fyrir 2007.  En það ástand var auðvitað ekki eðlilegt hér á landi

Samkvæmt opinberum veltutölum hefur orðið 63% samdráttur í þjónustunni s.l. tvö ár sem bendir til þess að samdrátturinn sé enn meiri miðað við árið 2007, þegar best lét.

Arkitektar eru fremstir í keðju byggingariðnaðarins. Ef þeir hafa ekkert að gera er hætta á að“Dominó” ferli fari af stað. Atvinnuleysi arkitekta bitnar strax á öðrum tæknimönnum og þaðan fellur dóminóbitinn á verktaka, síðan iðnaðarmenn og svo á heimilunum og áfram til depurðar og óhamingju.

Atvinnuleysi arkitekta bitar á öllum byggingariðnaðinum þegar fram líða stundir. Þetta er alvörumál.

Við þessu þarf að bregðast sem allra fyrst. Næg eru verkefnin og nægir eru peningarnir. Lífeyrissjóðirnir eru að skima eftir fjárfestingartækifærum og sjóðirnir í bönkunum eru sagðir gríðarlegir. Vandamálið er að það þarf að forgangsraða verkefnunum og nýta peningana þar sem þeir skapa mesta vinnu og mestan virðisauka.

Ef skoðaðar eru áætlanir um ýmis verk ríkisins t.d. í vega- og orkumálum sést að ríkið hefur aðgang að fjármunum þó þá sé ekki að finna í sjóðum ríkisins.

Svo dæmi sé tekið af Vaðlaheiðargöngum dygðu þeir 10 milljarðar sem þangað er stefnt til þess að hrinda af stað og fullklára á annan tug stórra byggingarverkefna. Sama á við um fjármuni ætlaða Sundabraut og til mislægra gatnamóta á höfuðborgarsvæðinu.

Vegaframkvæmdir veita fyrst og fremst vélum vinnu og þess vegna ætti að fresta þeim eins og málin standa.

Íslendingar reka 21 sendiráðsskrifstofu í 17 löndum ef marka má heimasíðu utanríkisráðuneytisins. Mikið af skrifstofunum og sendiherrabústöðunum er í húsnæði í eigu ríkisins. Væri ekki hægt að selja allt húsnæðið og hugsanlega fækka sendiráðunum? Þarna liggur sofandi fé. Ef ég giska rétt eru þarna sennilega um 10 milljarðar króna sem gætu skapað virðisauka í samfélaginu í stað þess að liggja aðgerðarlitlir vítt og breitt um veröldina.

Þeir fjármunir sem liggja í þessum verkefnum og eignum nægðu til þess að koma byggingariðnaðnum á ágætt ról á ný.

Ef ríkið forgangsraðaði verkefnum í anda þeirra þarfa og þess grunnkerfis sem hentar hér á landi væri ekki atvinnuleysi í byggingariðnaðinum.

Skapa þarf hentugt umhverfi lítilla og meðalstórra ráðgjafafyrirtækja og lítilla og meðalstórra verktakafyrirtækja þannig að eðlilegt samkeppnisumhverfi skapaðist hér á landi. Snúum baki við stórkallalegum hugmyndum ársins 2007.

Ég nefni hér nokkur verkefni sem koma upp í huga mér og mikil þörf er fyrir og á eftir að hanna og byggja. Nokkur þessara verka liggja þegar fyrir í frumdrögum eða sem verðlaunatillögur í samkeppnum.:

Byggja þarf við Rimaskóla. Það vantar svona tvo “tvíburaskóla” i Reykjavík. Það vantar viðbyggingu við Vesturbæjarskóla. Menntaskólinn við Sund er í húsnæðisvandræðum. Það vantar íþróttahús við Kvennaskólann, Menntaskólann í Reykjavík og Fjölbraut í Ármúla. Byggja þarf Verkmenntaskóla í Reykjavík.  Trésmíðadeild, sal og íþróttahús vantar við Borgarholtsskóla.  Endurskoða þarf nánast öll deiliskipulög miðborgar Reykjavíkur í kjölfar hrunsins. Þjónustuhús við ferðamannastaði vantar við Geysi, Gullfoss, Landmannalaugar og víðar á landsbyggðinni. Eftir er að klára Korpuskóla. Fyrir liggja verðlaunateikningar að Bókasafni í Hafnarfirði og Mosfellsbæ sem þarf að hanna nánar og byggja. Teikningar af safnaðarheimili og kirkju í Mosfellsbæ liggja fyrir í verðlaunatillögu. Mikil þörf er fyrir margs konar byggingar fyrir aldraða á landsbyggðinni. Landsbyggðafangelsi vantar. Iðnskólann í Hafnarfirði þarf að tvöfalda. Afplánunarfangelsi vantar og svo mætti lengi, lengi telja. 

Allt eru þetta þörf og oftast nauðsynleg verkefni sem munu fá hjól byggingariðnaðarins til að snúast með tilheyrandi tekjum fyrir ríki og sveitarfélög.

Byggingariðnaðurinn vill ekki atvinnuleysisbætur eða atvinnubótavinnu. Iðnaðurinn vill vinna að virðisaukandi verkefnum sem gagnast samfélaginu.

Hvort það sem ég hef gert hér að umræðuefni er raunhæft eða ekki þá bið ég menn um að taka viljann fyrir verkið. Viljinn er allt sem þarf. Stjórnmálamenn, bankar, og lífeyrissjóðir hafa lausnina í hendi sér. Nú er verkefnið að hætta karpinu um keisarans skegg og láta verkin tala.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (12)

  • Magnús Orri

    Fátt er eins arðbært og vel hugsuð verkleg framkvæmd hvort sem er á samgöngusviði, bygging á velhugsuðu og hagkvæmu húsi fyrir einhverja arðbæra starfssemi eða viðhald og eða endurbygging á eldra húsi sem þarf að hressa við til að það fullnægi þeim kröfum sem gera þarf til þess.

    Það er rangur hugsunarháttur að hatast út í verktaka því þeir gera lítið án þess að starfsmenn þeirra komi að málum og það er líka rangt að hatast út í gróða. Hann er lífs-nauðsyn til að fyrirtæki gangi og einhver sé tilbúinn til að standa í atvinnurekstri og fjárfestingu sem er einn af hornsteinum hagvaxtar og sæmilegra lífsskilyrða í hvaða landi sem er.

    Vandinn við svo margar framkvæmdir á undanförnum áratugum (þetta var verra á árunum 2004-2008 en þar utan, en aldrei var það gott) var það að framkvæmdir, áætlanir og í sumum tilfellum hönnun var mjög illa unnin og í sumum tilfellum alls ekki unnin. Önnur dæmi eru um beinlýnis rangar aðferðir, tölur, o.s.fv. bara til að koma einhverju á stað (sérstaklega er þetta var eitthvað pólitíst mál – kjördæmapot). Þær aðferðir þarf einfaldlega að leggja af sama hversu sársaukafullt það kan að vera fyrir einhverja.

    Í þessum geira verða menn að taka sér tak og hætta að láta eins og fífl. En þetta verður erfitt því nú um stundir eru við völd stjórnvöld sem hata verktaka og verklegar framkvæmdir og vita ekki neitt betra en vítiskvalir þeirra sem í þessu starfa. Af því sögðu þá er ljóst á hverju þarf að byrja en menn verða að passa sig á að fá ekki það sama gamla aftur – það þarf að taka sér tak…

  • Ef kr. 1.700.000.000.- er það sem íbúð sendiherrans kostaði í London er hægt að fullyrða að mat Hilmars á hvað miklir fjármunir liggi „sofandi“ í sendiráðseignum er vanmat. Þarna er sennilga hátt á annan tug miljarða að ræða. Með þá fjármuni er ekkert að vanbúnaði til þess að ræsa einhverja tugi meðalstórra byggingaverkefna hér á landi.

    Þetta er sennilega allt rétt,: Næg eru verkefnin og nægir eru peningarnir.

  • Hilmar Þór

    Ég vissi að það liggja miklir peningar í húsnæði í eigu ríkisins sem notað er undir sendiráð erlendis. En að einn sendiherrabústaður kostaði tæpa tvo miljarða var meira en mig óraði fyrir. Nú þarf bara að selja þá alla og nota féð til þess að greiða skuldir ríkisins eða til að ræsa byggingariðnaðinn.

    Þetta birtist á mbl.is rétt í þessu:

    “900 milljóna gróði af sölu sendiherrabústaðar

    Íslenska ríkið seldi sendiherrabústað í Lundúnum á árinu fyrir 1,7 milljarða króna og hefur síðan keypt annað húsnæði fyrir 835 milljónir króna. Þá er áætlað að 35 milljónir króna kosti að koma húsnæðinu í stand.
    Nýi bústaðurinn verður afhentur bráðlega eftir að gerðar hafa verið nauðsynlegar lagfæringar og endurbætur á honum.

    Þetta kemur fram í frumvarpi til fjáraukalaga, sem lagt var fram á Alþingi í kvöld. “

    Slóðin að fréttinni á mbl.is er þessi:

    http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2010/10/15/900_milljona_grodi_af_solu_sendiherrabustadar/

  • Þolinmæði og umburalyndi gagnvart utanríkisþjónustunni og rekstrarkosnaði þar er aðdáunarverð og um leið óskljanleg.

    Hvernig stendur á því að þessi fjáraustu á sér stað meðan fjölskyldurnar í landinu er að missa heimili sín vegna m.a. atvinnuleysis í byggingariðnaði?

    Fækkum sendiráðum og seljum eignir!

  • Árni Ólafsson

    Það felst virðisauki og ákveðin tækifæri í bættum samgöngum. Niðurskurður heilbrigðisþjónustu á Húsavík liti t.d. öðru vísi út ef Vaðlaheiðargöng væru komin. Sennilega hefðu jarðgöng fyrir 50 milljarða komið sér betur fyrir Austfirðinga en Kárahnjúkavirkjun og álverið.

  • Björn Erlings

    Þetta snýst um meiri virðisauka, – steinöldin er að hugsa bara um gröfur og ýtur, en það eru meiri verðmæti að skapa en að moka skurði.

  • Þorsteinn Guðm.

    Mér ber ekki að svara Alla en finnst tilefni til þess.

    Ég verð að segja að það getur varla farið framhjá neinum að lífeyrissjóðirnir eru að leita að stöðum til þess að ávaxta fé sitt. Það er ekki margir kostir í stöðunni þar. Sérstaklega þar sem viðskipti með gjaldeyri eru bönnuð og gengi krónunnar nánast ekki skráð. Bankarnir eru svo fullir af peningum að þeir bjóða vexti til sparifjáreigenda með neikvæðum vöxtum sé tekið tillit til verðbólgu.

    Meðan gjaldeyrishöftin eru safnast upp peningar í sjóðum og bankabókum. Það er allt fullt af peningum. En það er líka rétt að ríkissjóður er meira en tómur.

    Ég er hinsvegar ekki viss um hvort þetta sé eins auðvelt og pistlahöfundur lætur liggja að. En þetta er að minnstakosti þess vert að huxa málið. Vissulega er mikið er í húfi.

  • Takk fyrir góða grein, sem þínar margar fyrri.

  • „nægir eru peningarnir“
    Er það? Er það virkilega??

  • Guðmundur

    Ég vil benda á að innlánsvextir hjá Íslandsbanka eru ekki fáanlegir hærri en 4,2% óverðtryggt. Þetta eru sérkjaravextir fyrir fólk yfir sextugt. Útlansvextir til húsnæðismála, einnig óverðtryggt er lánað með 6,25% vöxtum auk kostnaðar. Bankinn tekur semsagt 2,05% fyrir að geyma peninginn Stjórnun er greidd með innheimtugjöldum og dagmiðakostnaði! Síðasttöldu vextirnir ættu ekki að vera meira en 0,5% yfir innlánsvöxtum. Þ.e.a.s. að hæstu útlánsvextir ættu að vera 4,7%. Bara þetta kæmi byggingariðnaðinum af stað að nýju. Þessar tölur eru svipaðar í öllum bönkunum og sýna hvað bankarnir eru illa reknir og kostnaðarsamir fyrir þjóðfélagið.

    Í rauninni þarf ekki annað en á ýta á entertakkann þá er byggingariðnaðurinn farinn á stað eins og höfundur bloggsins nefnir. Manni virðist ömurlegt ástand byggingariðnaðarins stafi frekar af aðgerðarleysi en verkefnaskorti eða peningaleysi.

  • Hallgrímur G.

    Þetta spurning um forgangsröðun, það er rétt. Sala eigna til að bjarga okkur út úr tímabundnu ástandi er eitthvað sem þarf að fara varlega í. Það á alls eki að selja auðlindir og taka þær varanlega frá komandi kynslóðum. En það er ekkert sjálfsagðara en að losa um þá tæpu 10 milljarða sem liggja í sendiherrabústöðum og -skrifstofum þegar svona stendur á í þjóðfélaginu. Það er bara hið besta mál sem alger sátt væri um.

  • Ég held að við séum með nóg af fjármagni okkar sett í steypu. Eigum erfitt með að halda starfsemi gangandi í öllum byggingunum og því kannski ekki mest aðkallandi að byggja ennþá meira. Nær er að reyna að virkja arkitektana til að hjálpa til við að finna nýjar hugmyndir um nýtingu fyrir allar þessar byggingar sem ekki lengur er grundvöllur fyrir núverandi rekstri.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og sjö? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn