Þriðjudagur 03.04.2012 - 10:48 - 28 ummæli

Rafrænar kosningar í Reykjavík.

Nú hefur Reykjavíkurborg gefið borgarbúum kost á að taka virkan þátt í ákvarðanatöku um framkvæmdir í hverfum borgarinnar. Þátttaka borgarbúa á sér stað með rafrænni kosningu sem er vel  þróuð og talin örugg.

Það er ánægjulegt að borgin skuli feta þessa slóð.

Þetta vísar vonandi til breyttrar stjórnsýslu og bjartrar framtíðar með aukinni umræðu og þátttöku borgarbúa. Frumkvæði þetta á vonandi eftir að þróast og ná fótfestu í sveitarfélögum víða um land.

Í kosningunum sem nú standa yfir er kosið um ýmsar minniháttar framkvæmdir og viðhaldsverkefni.

Í Vesturbæjarblaðinu er kosningin kynnt og nefnd nokkur verk sem íbúar Vesturbæjar geta kosið um.

Þar má nefna nýframkvæmdir á borð við að gera þrep niður í fjöru á Eiðisgranda, fjölga boltakörfum í Vesturbænum, setja upp reiðhjólaskýli við Hagaskóla og fleira í þeim dúr. Alt míkroskópisk verkefni í hinu stóra samhengi.

Svo er borgarbúum boðið að kjósa á milli nokkurra viðhaldsverka.  Já, kjósa um viðhald. Hverju á að halda við og hverju ekki?!

Eins og áður sagði þá er þetta vísir að nýrri og virkari stjórnsýslu. Maður veltir hinsvegar fyrir sér málunum sem kosið er um í þetta sinn.  Annarsvegar smávægilegar framkvæmdir og svo viðhaldsverk.  Í mínum huga eru þetta mál sem hverfisráðum er fullkomlega treystandi til að ráða framúr.

Svo maður haldi sig við Vesturbæinn þá hefði ég frekar viljað að íbúarnir hefðu verið spurðir um einhver stærri mál. Ég nefni sameiningu skólalóða við Hagatorg, eða uppbyggingu miðhverfis borgarhlutans við Hofsvallagötu sem gerð yrði að vistgötu.  Eða að fá að kjósa um verulega þéttingu byggðar í hverfi 107 samkvæmt einhverju hverfisskipulagi sem unnið yrði fyrir kosningarnar.

Þá væri upplýsandi ef borgin spyrði borgarbúa um afstöðu þeirra til stærri mála á borð við stoðkerfi borgarinnar. Til dæmis almenningssamgöngur, hjólreiðar, gatnakerfi og auðvitað staðsetningu og ásýnd Landspítala við Hringbraut.

Að spyrja borgarbúa um körfuboltavelli, stíga niður í fjöru eða þá viðhaldsverk virkar á mig eins og einhver dúsa, eða lýðræðisskrum.

Það væri óskandi að svona kosningafyrirkomulag yrði þróað áfram og að stjórnmálamenn  stórra og lítilla sveitarfélaga hefðu kjark til þess að hvetja til umræðna og spyrja kjósendur sína um álit á mikilvægari verkefnum en körfuboltaspjöldum og sjálfsögðum verkefnum á borð við  viðhaldsverk.

Kosningunum lýkur í dag. Ég ætla ekki að taka þátt í þeim að þessu sinni vegna þess að ég hef ekki neina skoðun á þeim málum sem spurt er um. Ég hafði vonað að ég mæti kjósa um hvort stækka ætti ruslafötuna fyrir framan Björnsbakarí við Fálkagötu en svo er ekki enda sá ég í morgun  að hún hefur þegar verið stækkuð. Sennilega án aðkomu borgarinnar.

Það er sjálfsagt að allir þeir sem hafa skoðun á málunum sem kosið er um taki þátt.

Slóðin inná kosningarvefin er þessi:

https://kjosa.betrireykjavik.is/votes/authentication_options

 

Næsta skref hjá borginni verður vonandi að blanda íbúum í stærri ákvarðanir þar sem viðfangsefnið er vel undirbúið og hverfisbúar geta tekið upplýsta ákvörðun. Hér er hugmynd að breytingu á Hagatorgi. Ef tvísmellt er á myndina stækkar hún.

 

Svo má spyrja borgarbúa um stærri mál á borð við Landspítalann við Hringbraut og um stoðkerfi borgarinnar á borð við almenningssamgöngur, hjólreiðastíga og fleira þess háttar.

 

Stundum getur hin fúlasta alvara verið algert grín. Á myndbandinu að ofan gerir borgarstjórinn í Reykjavík grín að lýðræðinu í tilefni íbúakosninganna.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (28)

  • Helga Jónsdóttir

    Man ekki hvort ég var búin að nefna hér áður þá hugmynd mína að gera línuskauta/skautabraut kringum Hagatorg – auða á sumrin en svell á vetrum. Á torginu mætti einnig koma fyrir fallegum markaðsbásum/húsum, t.d. með jólavarning á aðventunni og jafnvel grænmeti eða eitthvað slíkt á sumrin, eða kannski flytja blómabúðina sem er í skúrnum á Birkimel inn í hringinn. Ég fékk þessa hugmynd þegar ég kom til Kaupmannahafnar á aðventunni fyrir nokkrum árum og sá skautabraut á Kongens Nytorv. Mér finnst þetta alls ekki fráleitt því umferðin á torginu er lítil, það er ógnarstórt og í rauninni er það ferlega eyðilegt eins og það er núna og illa farið með gott verk Sigurjóns Ólafssonar að planta því niður á þessari flatneskju.

  • Maður hefur ekkert frétt af kosningunum. Fjölda þáttakenda og niðurstöður, Þetta er spennandi mál sem gaman væri að frétta af.

  • Skráði mig inn um daginn og ætlaði að kjósa í thessu, ég var fljótur að hætta við og loka glugganum, fáar spurningar vörðuðu mig e-ð og thær sem gerðu thað, tja, thað var ekki hægt að ýta á neinn hnapp sem gaf frekari upplýsingar um framkvæmdina, sem mér fannst ég virkilega thurfa til að geta ákveðið mig. P.s. Væri til í að sjá hvar thú vilt thétta í 107, sé thetta ekki alveg fyrir mér.

  • Pétur Örn Björnsson

    Aths. 24 er svar mitt við aths. Gunnars nr. 22.

  • Pétur Örn Björnsson

    Ég hef alltaf verið talsmaður opins og virks lýðræðis, en þá um alvörumál, en ekki tittlingaskít … sú skoðun mín ætti að vera augljós ef menn lesa athugasemdir mínar!

  • þorgeir jónsson

    Einar: Þetta með að færa eitthvað til fólksins er Amerískt „slogan“ (Kommarnir vildu þetta öðruvísi gert) Það er mál að linni hversu við Íslendingar erum að ruglast í skilningi okkar á hvar valdið er og hvaðan það er komið. Við höfum ekki stjórnarskrá sem veitir okkur þennan möguleika. BNA stjórnaskráin hefur þennan möguleika af því að valdið kemur frá fólkinu. Okkar stjórnarskrá gefur bara löglega kjörnum fulltrúum fólksins þetta vald. Á öllum stjórnsýslustigum. Við kjósum þá sem eru í framboði og með því ætlumst við til að þeir noti valdið til að stýra og byggja þjóðfélag sem heldur. Ef ekki, þá geta þeir kvatt og farið að gera eitthvað annað. Annað höfum við ekki tiltækt, (eins og er) Þar til eitthvað annað gerist verðum við að sætta okkur við að valdið kemur að ofan í stjórnarskránni okkar. Þessi rafræna kosning er því stjórnsýslulega marklaus. Þó fólkið vilji fleiri hjólageymslur, eða bara trjágarð á Melhaga er valdstjórnin ekkert skyldug að fara eftir því sérstaklega. Við höfum ekki stjórnarskrárvarinn rétt til þess, nema fjórða hvert ár.

    Svo finnst mér gaman þegar umræðan hér á blogginu snýst ekki bara um byggingarlist. Þetta er nú einu sinni samofið allt saman, bæði ruslafatan í hjólaskýlinu og Fólkspítalinn. (lesist Landspítalinn)

  • Fyrir mér er lýðræði alvörumál. Stærra en flest hin alvörumálin. Nema kannski frelsi og mannréttindi. En það er eiginlega stór hluti af frelsi og mannréttindum.

  • Pétur Örn Björnsson

    Gunnar, mér sýnist við vera sammála um meginmálin, enda er ekkert við þig að sakast í þessum efnum … síður en svo.

    Einar … „dæmigert fyrir umræðuna“ segirðu í nettum hneyklunartón, en samt segirðu réttilega í fyrri athugasemd #8, sem mér sýnist flestir vera sammála um:

    „Svona kosningar eru mikilvægar og vekja upp umræður og samstöðu borgaranna um málefni hverfanna.

    En það er rétt að þessar spurningar eru fáránlega hallærislegar og niðurstaðan skiptir engu máli.“

    Það er kjarni málsins: Á þetta að snúast um alvöru mál, eða ekki?

  • Einar Ólafsson

    Dæmigert fyrir umræðuna. Hér ar verið að tala um að færa ákvarðanatökur til fólksins. Kannski vegna þess að fulltrúalýðræðið er ekki að virka eins og dæmin sanna. Kjósendur eru hættir að treysta fulltrúum sínum á Alþingi og í borgarstjórn. Þessu hefur Þorgeir kannski ekki tekið eftir.
    En nú er umræðan hér aðallega um Hagatorgið og lansann. Hagatorgið er ekki hér til umræðu frekar en Lansinn þó þessi dæmi hafi verið tekin um mikilvægari mál til að kjósa um en ruslafötur og reiðhjólaskýli, ef ég skil framsögumann rétt

  • Pétur: Ástæðan fyrir að ég segi að þetta eigi heima í flokknum stjórnsýsla er að svona kosningar snúast um stjórnsýslu, ekki að ég telji Landspítalamálið snúast um stjórnsýslu 🙂 Ég hef engar forsendur til að meta hvort svo sé og læt það því eiga sig.

  • þorgeir jónsson

    …also malbikaða (ekki balbikaða)..leiðréttist hér

  • þorgeir jónsson

    …sem sagt ágæt hugmynd sem er mjög skammt á veg komin. Hagatorg er íkon skipulagshugmynda sem komu hingað eftir seinna stríð. í öllu svæðinu er ein heildahugmynd sem við höfum vanist vel. Þær eru því miður fárar skipulagshugmyndirnar í dag sem eru svona „grand“ eins og hagatorgshugmyndin var á sínum tíma. Getum við ekki lært eitthvað?

    Svo hvarflaði að mér gamla sagan um balbikaða stubbinn á þjóðvegi 1 sem fékk farþegana að hrökkva við og spyrja: “ Hvaða ráðherra býr hér?, þegar ég horfi á tillöguna um Melhaga sem Allé.

    Hönnuðurinn hlítur hafa ruglast á Hagamel og Melhaga og valið ranga götu. Ákaflega afkáralegt….,nema einhver borgarfulltrúinn búi þarna á Melhaga.

    Svona í lokin langar mig að segja um þessa kosningu að hún er eflaust verðugt úrlausnarefni fyrir vefsnillinga (eins og Gunna Gríms)og án efa vel gerð í alla staði. En ég hélt að ég væri að veita löglega kjörnum fulltrúum umboð mitt til að taka þessar ákvarðanir fyrir okkur.
    En svona er þetta víst í Ameríku líka…þeir eru endalaust að kjósa um hvað á að gera við peninginn í litla skalanum.

  • Pétur Örn Björnsson

    Takk fyrir upplýsingar þínar Gunnar Grímsson, þú ert greinilega heiðarlegur maður sem sgir bara hlutina hreint og beint út,

    enda eru spurningar mínar ætlaðar sérstaklega þeim Jóni Gunnari Kristinssyni og þó einkum Degi Bergþórusyni Eggertssyni … en kannski þeir og þó einkum Dagur lesi alls ekki eina marktæka innlenda bloggið um arkitektúr og skipulagsmál?

  • Pétur Örn Björnsson

    Er þetta kannski alríkislegt vandamál

    evrópska efnahagssvæðisins líka????

  • Pétur Örn Björnsson

    „… og velja flokkinn „Stjórnsýsla“ frekar en „Skipulagsmál“ þar sem málið snýst ekki um staðsetninguna sjálfa heldur stjórnsýslu.“

    Þetta þykja mér mjög athyglisverðar upplýsingar, að þetta sé

    stjórnsýslulegt vandamál!

    Kannski ríkis-stjórn-sýslulegt vandamál,
    kannski glóbal federalískt vandamál????

    Það staðfestir allt það sem ég hef sagt um þetta mál.

  • Þetta er vissulega tilraun í þeim skilningi að þetta hefur ekki verið gert áður en engu að síður er það stefna borgaryfirvalda að þetta sé hluti af stefnubreytingu í stjórnsýslunni.

    Það er eiginlega ekki í verkahring aðstandenda kosninganna að spyrja um Landsspítalann, burtséð frá því að mín persónulega skoðun er að við eigum að fá að kjósa um staðsetningu hans.

    Það getur hver sem er notað t.d. Betri Reykjavík til að gera kröfu um slíkt. Um hver mánaðarmót eru efst mál af Betri Reykjavík tekin til umfjöllunar af fagráðum og borgarráði og þau formlega afgreidd.

    Besta leiðin væri að setja inn hugmynd sem gæti hljóðað t.d. svona: „Staðsetningu Landspítalans í atkvæðagreiðslu borgarbúa“ og velja flokkinn „Stjórnsýsla“ frekar en „Skipulagsmál“ þar sem málið snýst ekki um staðsetninguna sjálfa heldur stjórnsýslu.

    Það ætti að vera auðvelt að fá stuðning á þá hugmynd til að hún yrði efst um næstu mánaðarmót og fljótlega eftir það fer hún fyrir borgarráð. Þá kemur í ljós hver vilji borgaryfirvalda er til slíkrar atkvæðagreiðslu.

  • Hilmar Þór

    Þetta er upplýsandi innlegg hjá Gunnari Grímssyni og það er vafalaust hyggilegt að stökkva ekki beint í djúpu laugina í þessum efnum. Ég áttaði mig ekki á því hversu flókið þetta væri og að hér væri um e.k. tilraun að ræða. Ég hélt satt að segja að þarna væri stefnubreyting í stjórnsýslunni á ferðinni. (innleggið var alls ekki of langt)

    Það verður spennandi að fylgjast með framhaldinu.

    Ég beini því til aðstandenda kosninganna að spyrja um Landspítalann eins og Pétur Örn talar um. Það væri hollt fyrir fulltrúa okkar í borgarstjórn að fá í hendur ábyrga skoðanakönnun meðal borgarbúa í því máli. Landspítalinn er heppilegt efni vegna þess að það hefur verið mikið í umræðunni, rækilega kynnt og flestir þeir sem áhuga hafa á málinu hafa myndað sér skoðun.

    Varðandi ummæli Þorgeirs og Önnu Th þá vil ég ekki samþykkja að hugmundin um Hagatorg sé góð en vanhugsuð. Hún er alls ekki vanhugsuð heldur í mesta lagi skammt á veg komin.

  • Pétur Örn Björnsson

    Miðað við þetta, hefðu þeir Gnarr og Dagur ekki viljað að þjóðin fengi að kjósa um Icesave samninga Svavars Gestssonar.

    Telja þeir félagar, að almenningi sem borgar brúsann sé bara treystandi til að kjósa um spliff, donk eða gengju????

  • Pétur Örn Björnsson

    Mér er það lífsins ómögulegt að skilja af hverju megi ekki kjósa um það hvort

    borgarbúar vilji,

    eða vilji ekki

    fá ígildi 4 Smáralinda samþjappaðra sem virkisvegg sunnan við Gamla Landspítalann. Gnarrinn hefur reyndar talað og skipað okkur sem andæfum Dadaískum tilburðum hans, að við skulum sætta okkur við það, möo þegja, það er íbúalýðræðið þegar kemur að stærri málunum.

    Gnarr, djöfulli hef ég orðið fyrir miklum vonbrigðum með þig!!!!
    Hverjir stýra þér á bakvið tjöldin????

  • Mig langar að skýra aðeins ferlið og í leiðinni útskýra afhverju akkúrat þessar framkvæmdir eru í kosningu. Afsakið lengdina.

    Í desember síðastliðnum var kallað eftir hugmyndum á Betri Reykjavík um nýframkvæmdir og viðhaldsverkefni í borginni. Ákveðið var að setja 300 milljónir í þessa svokölluðu hverfapotta sem er umtalsverð hækkun frá fyrri árum. Upphæðinni er síðan dreift á hverfi borgarinnar skv. ákveðinni reiknireglu sem er auðvelt að finna á https://kjosa.betrireykjavik.is – Þar er einnig að finna mun nákvæmari lýsingu á ferlinu en er við hæfi hér.

    Yfir 350 hugmyndir komu inn og voru þær settar í kostnaðarmat hjá Framkvæmdasviði borgarinnar. Því miður voru margar hugmyndanna dýrari en svo að þær rúmuðust innan ramma fjárveitingar hvers hverfis, þær duttu því út. Hverfaráð höfðu það hlutverk að bæta við hugmyndum og er mismunandi eftir hverfum hversu margar hugmyndir eru frá þeim komnar.

    Semsagt: Megnið af hugmyndum þeim sem kosið er um eru komnar frá borgurunum sjálfum, þetta er það sem þeir telja mikilvægt en vissulega var kostnaðarramminn settur af borgaryfirvöldum.

    Hvað varðar gagnrýni tilgangsleysi þessa ferlis þá verð ég að vera ósammála, fyrst og fremst af einni ástæðu: Einhversstaðar verður að byrja og það er mun betra að byrja smátt á meðan verið er að finna bestu leiðirnar til að vinna svona vinnu. Öfugt við það sem margir halda þá er ekki einfalt mál að framkvæma rafrænar kosningar þó að vissulega eigi þær að vera einfaldar fyrir kjósandann. Það eru ótal atriði sem geta klikkað, fjölmörg álitamál og aðferðir og enn fleiri skoðanir á því hvernig eigi að gera slíkar.

    Hvort það er tilgangslaust að kjósa um akkúrat þessi mál finnst mér eiginlega vera aukaatriði. Aðalatriðið er að þetta er vísir að einhverju sem getur skipt miklu máli í framtíðinni, aðkomu borgara að stjórnun borgarinnar.

    Ég er fullkomlega sammála þeim sem telja að við eigum að fá að kjósa um stóru málin. Fullkomlega. En það er ekkert vit í að hoppa beint út í þá djúpu laug án þess að hafa áður tryggt að öryggi, sanngirni og góð vinnubrögð hafi verið prófuð í grunnu lauginni.

    Það er rétt að komi fram að ég er framkvæmdastjóri Íbúa ses sem eru einn af þeim aðilum sem framkvæma þessa kosningu. Þannig að ég er ekki hlutlaus 🙂

  • Einar Ólafsson

    Svona kosningar eru mikilvægar og vekja upp umræður og samstöðu borgaranna um málefni hverfanna. En það er rétt að þessar spurningar eru fáránlega hallærislegar og niðurstaðan skiptir engu máli.

  • Pétur Örn Björnsson

    Af hverju má ekki fjalla um alvöru-mál, td. tanngarðana 13 sem á að troða niður í nafni vísinda og tækni við hringbraut veruleikafirrtra kerfisliða?

    Af hverju má ekki fjalla um vesaldóm þeirra er um véla í borginni í stíl óskiljanlegs Dada-isma, sem þeir skilja ekki einu sinni sjálfir,

    en líkast til er óþarfi að fjölyrða hér um og hvað þá lasta greyin,

    því þeir vita ekkert hvað þeir eru gera, nema að fylla út í eitt risa tómt excel box, að forskrift AGS og hjúanna Steingríms og Jóhönnu Sigurðardóttur, hvers varaformaður er Dagur Bergþóruson Eggertsson. Egginu fylgir hænan, eða er það öfugt?

    Einni risavaxinni framkvæmd skal á koppinn komið og skilmerkilega skráð í tóma risa excel gatið, en öðru má blæða út í nafni norrænnar velferðar og jafnaðarmennsku … mætti ég benda þá á, að margar eru fjaðrir fíflanna að skreyta sig með, en fíflin vita innst inni að þau eru nakin.

    Hver sagði eiginlega að í excel boxið þyrfti að setja eitt delerium grandiosa Cuckoo´s egg? Væri ekki nær að huga að hina marga og smáa?

    Stundum þarf að tyggja ofaní vesalingana við stjórnvölinn svo þeir skilji og firrtist við, hirðfíflin, en alla vega hefur maður þá hreyft við þeim … vonandi … til mennsku og guð minn góður, já ekki má gleyma staðarandanum og pílárum vagnhjóla tímans.

    En kannski við eigum öll bara að þakka af hógværu lítillæti fyrir að samfylkta besta liðið láti svo lítið að spyrja okkur öll:

    „Borðið þér orma frú Norma?“

  • Pétur Örn Björnsson

    Eins má minna á þekkt sagnaminni um skötulíkið!

  • Pétur Örn Björnsson

    Takk fyrir enn einn þarfan og góðan pistil Hilmar.

    Sýnir okkur keisarnn og hirðina kviknakta í fjöruferð.
    Minnir mig á einn gamlan Megas, því svo er allt sérvalið að ein spurning hefði hér dugað:

    „Borðið þér orma frú Norma?“

  • þorgeir jónsson

    Hagatorg og umhverfið umhverfis er skipulagshugmynd sem ber að varðveita komandi kynslóðum. Þessi tillaga er eflaust góðra gjalda verð og gengur höfundum gott eitt til, en það ætti að vera mögulegt að varðveita skipulagshugmyndina betur og fá fallegan garð eða fallega garða innan svæðis.
    Umferðarskipulagið er afleitt og ég tek undir það sem Anna segir. Hugmyndin er góð en útfærslan er vanhugsuð.

    Svo skil ég ekki af hverju löglega kjörnir fulltrúar okkar borgarbúa eru að afsala sér umboðinu. Þetta er kannski leiðin til að losna við þá fyrir fullt og allt. Borgarstjórinn gæti orðið vefstjóri sem tæki við fyrirskipunum frá Fésbók, bloggi og tísturum. ÁFRAM TVÍUNDARLÝÐRÆÐIÐ!

  • Anna Th. Rögnvaldsdóttir

    Mér líst alveg stórvel á Hagatorgshugmyndina. Með þessari mjög svo einföldu aðgerð væri hægt að „endurheimta“ töluvert land — nánast búa til skemmtigarð.

    Gallinn er bara sá að það er alveg gríðarleg gegnumstreymisumferð á Neshaganum (sunnan við Melaskólann) og hún jókst náttúrlega um árið þegar Hagamelnum (norðan við Melaskólann) var lokað við Hagatorg.

    Þessi tillaga gengur út að gera Neshagann að botnlanga, aðkeyrslu að Melaskóla og Neskirkju. Hagamelurinn tæki þá við gegnumstreymisumferðinni og hann stæði í rauninni ekki undir því.

    Í rauninni þyrfti að tengja Neshaga og Dunhaga með jarðgöngum undir skemmtigarðinum …

  • Gunnar Gunnarsson

    Þetta er ekki annaðhvort „dúsa eða lýðræðisskrum“ þetta er „dúsa og lýðræðisskrum“ með dassi af allskonar gríni….nei djók.

  • Sigurður

    Það ber að fagna þessu frumkvæði en ég óttast að með því að spyrja svona lítilla spurninga þá dragi það úr mikilvægi aðferðarinnar. Og borgarsjórinn þarf að átta sig á því að hann getur ekki gert grín að hverju sem er og alls ekki lýðræðinu eins og hann gerir. Umfjöllun stöðvar2 í gærkvöld jarðaði þetta ágæta tækifæri og gerði það að selskapsleik.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og fjórum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn