Þriðjudagur 09.12.2014 - 14:45 - 11 ummæli

Ranakofinn í Svefneyjum – Elsta hús á Íslandi?

225868_225712984122051_7536167_n

 

Því var haldið fram þegar ég var í sveit Svefneyjum á Breiðafirði að Ranakofinn væri eldra hús en nokkuð annað í Vestureyjum Breiðafjarðar. Sumir töldu reyndar Ranakofann elsta hús hús á Íslandi.

Minjastofnun hefur ekki aldursgreint bygginguna en telur hana vera frá seinni hluta 18. aldar. Hún er sennilega miklu eldri vegna þess að það hafa verið álög á húsinu um aldir sem segir að ef þekjan fellur mun ógæfa falla á Svefneyinga. Síðast þegar þekjan féll fórst Svefneyingurinn Eggert Ólafsson skáld og náttúrufræðingur. Það var árið 1768.

Síðan hefur kofanum verið haldið við.

Þegar ég var í Svefneyjum var hesturinn geymdur þarna. Hann hét hinu frumlega nafni „Sörli gamli“.

Nú er hann fyrir löngu dauður. Hann var svo gamall þegar ég var þarna frá árunum 1951-1957 að mamma mín mundi eftir honum þegar hún var stelpa, en hún flutti úr eyjunum 1932, þá 12 ára gömul.

Ranakofinn úr alfaraleið og hann þekkja ekki margir.  Hann er með hlaðinni tóft úr grjóti og með streng,  Svo kemur risþak klætt torfi. Hann hefur mjög hreina og fallega grunnmynd sem endurómar í útlitinu. Kofinn er svona 9,1×5,6 metrar að utanmáli og 6,75×3,25 metrar að innanmáli.

Þegar ég var í Svefneyjum voru tveir burstabæir uppistandandi á eynni auk gamla bæjarins sem var timburhús með torfþaki og mikilli torfhleðsu á norður hlið. Annar burstabærinn var að Ökrum þar sem Sveinbjörn Pétursson hélt fé sitt og hinn var suðvestan við steinhúsið sem byggt var sennilega á fjórða áratug síðustu aldar.

Mér er sagt að af þessum fjórum torfbæjuum sé einn uppistandandi, Ranakofinn.

Sjá einnig um húsin í Flatey:

http://blog.dv.is/arkitektur/2011/03/28/husin-i-flatey-i/

Ljósmyndin sem fylgir færslunni er tekin af Þórði Sveinbjörnssyni sem er fæddur og uppalinn í Svefneyjum

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (11)

  • Árni Ólafsson

    Bænhúsið í Gröf á Höfðaströnd var endurbyggt um miðja 17. öld. Það er að öllum líkindum aftan úr pápísku, þ.e. frá því fyrir siðaskipti. Húsið var síðan endurbyggt með nýjum viðum að miklu leyti á 6. áratug síðustu aldar undir stjórn Kristjáns Eldjárns þjóðminjavarðar. Enn var það endurbyggt fyrir örfáum árum. Haukur Viktorsson arkitekt mældi húsið upp og teiknaði þegar hann var í námi. Hann gæti e.t.v. bætt við einhverjum fróðleik um klassísk hlutföll og samræmi.

    • Hilmar Þór

      Nú hallar á Ranakofann.

      Ég sló á þráðinn til Hauks Viktorssonar arkitekts af tilefni athugasemdar Árna Ólafssonar kollega okkar og á von á innleggi hans um elsta hús á Íslandi!

      Þakka Árna athugasemdina.

  • Stefán Benediktsson

    Við hliðina á Selinu í Skaftafelli stendur eldhús. Það er endurgerð á eldhúsi Skaftafellsbæjarins meðan hann var bara einn og lýsingin fengin frá föðurbróður mínum sem hafði hana frá nafna sínum og afa en hann mundi bygginguna áður en hún var rifin. Ég þekkti eldhúsið sem fjósið í Hæðunum, bæ langafa míns. Viðirnir (stoðir og syllur), grjótið (veggirnir) og hellurnar (þakið) voru nýtt í fjósið. Efnið var því aðgengilegt þegar ráðist var í að endurbyggja gamla eldhúsið. Í Böltanum er svo smiðja gamla bæjarins.

  • Dennis Davíð

    Er ekkert vitað um uppruna þessa mannvirkis. Þarna er verkefni fyrir Minjastofnun Íslands eða Þjóðminjsafnið .
    Í Öxney, sem er á svipuðum slóðum, er skemma sem gæti að stofni til verið frá því fyrir 1600. Talið er að skemman hafið áður verið kapella en getið er um kapellu í Öxney árið 1224. Byggingarefni er timbur, torf og grjót.

    • Tímabært er fyrir margt löngu að hefja leitina að elsta húsi á Íslandi.

      Nú hefur Ranakofinn verið nefndur og Skemman í Öxney og hlöðurnar í Selinu í Skaftafelli.

      Svo eru það Keldur á Rangárvöllum sem er að stofni til jafngömul og húsið í Öxney. En Keldur er ekki sama húsið þó það standi á sama stað og á 12 öld! Og óvíst er hvort Skemman í Öxney sé sama hús og eitt sinn var kapella. Það er samt skemmtileg tilgáta.

      Sennilega hefur Ranakofinn enn vinninginn.

      En þetta þarf að rannsaka.

    • Hilmar Þór

      Þettta er kannski ekki auðvelt og það er hægt að gera þetta flókið.

      T.a.m. hvenær er hús hús og hvenær eru dagar þess taldir?

      Er það sama húsið eftir að það hefur hrunið, brunnið eða grotnað niður og byggt upp aftur í sömu mynd og úr sömu efnum?

      Er það sama húsið eftir að það hefur verið endurbyggt sökkli eldra húss?

      Nú skilst mér að þak Ranakofans hafi verið endurbyggt um miðjan tíunda áratug síðustu aldar. Þá vaknar spurningin hvort notaðir hafi verið sömu viðirnir aftur?

      Einhver sagði ef fótstykkið og sillan væru frá upphafi þá væri um sama hús að ræða!

    • Hilmar Þór

      Ég hef verið leiðréttur.

      Sagt er „ef sillan og sálin“ er upphafleg þá er um sama hús að ræða 🙂

  • Jón Gunnarsson

    Viðeyjarstofa 1753-1755 er elsta steinhús á Íslandi! Ranakofinn er sennilega mikl eldri.

  • stefán benediktsson

    Enginn hefur kannað vísindalega að því er ég best veit hvað hlöðurnar í Selinu í Skaftafelli eru gamlar. Þær eru þrískipa og hafa auðvitað verið endurbyggðar ótal sinnum. Sú eystri var tekin niður og endurbyggð 1954. Ég vann við það sem stuttlari (þjappa mold með ek. tréhamri). Suðurgaflinn er úr timbri nú, en var það ekki áður. Norðurgaflinn með vindauga er listilega hlaðinn, veggjamótin, hornin eru ekki hvöss heldur rúnnuð og hvolfast inn á við til að taka betur við þunga þaksins.

  • Hrikalegt hússtæði!

    • Robespierre

      Aldan brýtur bergið undan kofanum. Einhverntíma hefur verið hægt að ganga í kringum hann.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og sex? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn