Laugardagur 07.01.2012 - 12:47 - 19 ummæli

Reiðhjólaleiga í Reykjavík

Í desemberhefti fréttabréfsins Gangverk sem gefið er út af verkfræðistofunni Verkís er fjallað um almenningshjólaleigur.

Þar kemur fram að vinsældir slíkrar þjónustu fer hratt vaxandi víða um heim. Höfundur greinarinnar, Daði Hall, upplýsir að árið 2000 voru slík kerfi í fimm löndum  með um 4000 reiðhjólum. Í dag eru hjólin um 236.000 í 33 löndum. Í heiminum fjölgaði almenningshjólaleigum um 76% milli áranna 2008 og 2010.

Nútíma almenningshjólaleigur eru ekki hugsaðar fyrir frístundahjólreiðar heldur sem viðbót við almenningssamgöngukerfið. Oft fer greiðslan fram með notkun snjallkorta, farsíma eða með e.k. númerakerfi. Algengt er að notkunin sé gjaldfrjáls fyrsta hálftímann.

Meginkostir þessa ferðamáta eru þeir að sá sem hjólar kemst tiltölulega hratt yfir á vistvænan,  heilsusamlegan og hljóðlausan hátt án þess að buddan léttist að marki.

Daði segir í grein sinni að áhrifin af auknum hjólreiðum og bættum almenningssamgöngum séu einnig þau að borgin glæðist lífi og borgarbragurinn dafni undir berum himni. Þetta er alveg rétt hjá honum. Það er ekkert sem er jafn leiðinlegt í borgarlífinu og einkabíllinn.

Er ekki sjálfsagt er að koma upp hjólaleigum í Reykjavík? Almenningshjólaleigu í Reykjavík þyrfti að samþætta bættu almenningsflutningakerfi borgarinnar. Þá yrðu reiðhjólastöðvar við Hlemm, háskólana, Borgartún, Flugleiði, Hagatorg, Lækjartorg, Kringlu, Glæsibæ, stórum bílastæðahúsum á jöðrum miðbæjarins og e.t.v. fl. stöðum.

Eins og fram hefur komið í pistlum mínum undanfarið þá er augljóst að einkabíllinn er á  útleið sem aðalsamgöngutæki í borgum. Þetta hafa allir vitað sem sett hafa sig inn í málin undanfarna marga áratugi.  Hinsvegar hefur skipulagið oft verið tregt til þess að fylgja þessari þróun eftir.

Kannanir sýna viðhorfsbreytingu hjá almenningi gagnvart einkabílnum. Ferðavenjukannanir sem voru gerðar árið 2007 og aftur 2010 sýndu verulega hugarfarsbreytingu. T.a.m. vildu 37% Sundabraut árið 2007 en aðeins 8% árið 2010.  Heil 29% vildu bæta almenningssamgöngur árið 2010 en aðeins 6% árið 2007.  Fjórum sinnum fleiri vildu minnka einkabílaumferð árið 2010 en árið 2007 samkvæmt könnununum.

Efst í færslunni er ljósmynd af þrem bissníssmönnum í Parísarborg að fara á fund og virðast vera  að fá leiðbeiningu frá yngri manni.

Þeir velja  heilsusamlegt, hljóðlaust,  hraðvirkt, ódýrt og ómengandi farartæki sem er reiðhjól frá almenningsreiðhjólaleigu.

Í batnandi heimi er best að lifa.

Grein Daða Hall má finna í heild sinni á þessari slóð:

http://www.verkis.is/media/frettabref/Gangverk-Des-2011-web.pdf

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (19)

  • Flott hjá ykkur, Hilmar og Daði, að vekja athygli á hjólaleigukerfum eða almenningshjólaleiga.

    Hópur fólks sem hafa áhuga á svoleiðis kerfi hefur skráð sér í hóp á Facebook :
    http://www.facebook.com/group.php?gid=132960136714797&ref=ts
    Það væri flott ef fólk sem er þar skráð mundi bæta inn smá virkni þannig að Facebook geri ekki hópinn óvirk. Veit ekki hvort enn sé hægt að skrá sér.

    Annar vettvangur þar sem gott væri að ræða þessi mál gæti verið í nefnd eða hópi tengd Landssamtökum hjólreiðamanna. Áhugasamir geta sent skeyti á LHM@LHM.is og ef áhuginn er nægur og einhver tekur að sér að vera tengiliður eða ábyrgðaraðili þá getur hópurinn eða nefndin tekið til starfa. ( Er reyndar ekki búinn að ræða akkúrat þessu í stjórninni, en þessar tillögur eru í samræmi við skipulagi sem hefur verið talað um )

  • þú átt að vera tækifærissinni á hjóli, þegar laust er á götu þá hjólarðu þar, þegar mikil umferð stefnir að þér færirðu þig kannski til á gangstétt eða stíg. Líka öfugt, þ.e. ef of mikil umferð gangandi er á stígum eða gangstétt þá nýturðu færis og ferð yfir á götuna, eina skynsamlega leiðin til að hjóla, sækja í mesta öryggið hvar sem það finnst, ekki með stífan hug á að vera bara á götunni eða bara á gangstétt, tækifærishjólreiðamennska er málið, hafi menn þroska og kunnáttu til þess.

  • Steinarr Kr:
    Hefður þú reynslu af því að nota hjólið sem samgöngutæki árið um kring í Reykjavík?
    Ég fullyrði að flestir mikli það fyrir sér. 90% vetrardaga er það í fínu lagi að hjóla, sé hjólið á nöglum og með góð ljós. Þetta er a.m.k. mín reynsla og flestra sem ég þekki til og hafa prófað.

    Alli: (sem segir „ekki hafa þetta fólk hjólandi út á götu að setja sig og aðra í stórhættu!“)
    Að hjóla á götunni er almennt séð öruggara fyrir fyrir hjólreiðamenn en að hjóla á gangstéttinni, hafi þeir nægan þroska og kunnáttu til þess. Auk þess skapar hjólreiðamaður á götu öðrum vegfarendum minni hættu en hjólreiðamaður á gangstétt. Þessvegna hjóla margir á götunni, einmitt til þess að setja sig og aðra EKKI í stórhættu.

  • Hafði fremur hugsað mér borgarsafn, Svíar eru t.d. með 17 aldar hús undir Stokkhólmssafnið, af hverju getum við borgarbúar ekki haft gamalt hús undir slíkt http://www.stadsmuseum.stockholm.se/

  • Steinarr Kr.

    Alli, við lögreglumenn viljum þetta hús undir safn fyrir lögreglu, fangaverði og dómstóla. Það er meira en nóg til af munum og friðaður dómssalur nú þegar í húsinu. Ólíkt skemmtilegra en að setja enn eitt veitingahúsið þarna inn.

  • Við þurfum ekki að loka fyrir þessa almenningþjónustu í skammdeginu eins og i Árósum og Gautaborg. Þetta er sjálfvirkt allt saman eins og i París. Ef koma dagar sem ekki er hægt að hjóla vegna veðurs, þá hjólar maður ekki. Svo einfalt er það. En þessi rök er ekki hægt að nota fyrir starfsfólk nýja Háskólasjúkrahússbullsins

  • þá þarf almennilega stíga, ekki hafa þetta fólk hjólandi út á götu að setja sig og aðra í stórhættu!

    p.s. Af hverju fjallarðu ekki um gamla hegningarhúsið á skólavörðustíg og vangaveltur um hvað á að nota það í 😉

  • Margrét

    Bílaleigur eins og Zipcar eru líka sniðugar þar sem bílarnir eru staðsettir um alla borg og þú getur leigt þá klukkutíma í senn. Margir gætu hugsað sér að vera bíllausir dags dagslega og hjóla/labba í skóla eða vinnu, en vildu gjarnan hafa möguleika á að fá bíl í skamman tíma til að skjótast í Bónus eða stærri verslunarferðir. Þegar ég hef verið bíllaus erlendis þá hefur mér fundist mikill munur að hafa aðgang að svoleiðis bílaleigu og gert bílleysið auðveldara.

    http://www.zipcar.com/

  • Teitur Atlason

    Sama í Gautaborg. Þetta er ekki í gangi yfir vetrartímann.

  • Ég má til með að benda Steinarri Kr. á að í mörgum borgum eru hjólaleigur árstíðabundnar eins og í Árósum og Kaupmannahöfn, sjá http://www.aarhusbycykel.dk/

  • Þorvaldur Einarsson

    Ég vil bæta við andsvar Stefáns til Steinarrs: það er iðulega líka ófært um Hellis- og Holtavörðuheiði. Timasetning fyrir þessa færslu er fín, einkum vegna árstímans og veðurfarsins.

  • stefán benediktsson

    Steinar! Hvaða leiðir eru mokaðar? Ferðaleiðir bíla, ekki gangandi og hjólandi, nema sáralítið. Síðasti skaflinn á gangstéttum Laugavegarins neðan Snorrabrautar er að hverfa í dag (á móts við nr 70) og enn stórhættulegir svellbunkar á NA horni gatnamóta Snorrabr. og Laugav. Fínt veður í dag og hægt að fara allra ferða á hjóli ef gangstéttar væru jafn auðar og tengi- og stofnbrautir. Áherslan er á bílinn ekki manninn.

  • Steinarr Kr.

    Væri mikið að gera hjá svona leigu þessa dagana? Hef hingað til talið mig harðan úthlaupara, en hamast þessa dagana á bretti.

    Ekki bara að það sé mikill snjór og klaki, heldur er eins og borgaryfirvöldi hafi ekki gert ráð fyrir að þetta gæti gerst.

    Forsendur eru ekki fyrir hendi á Íslandi að reiðhjól séu nýtanleg sem samgöngutæki allt árið um kring.

  • Hilmar Þór

    Jón.

    Í aðalskipulagi Reykjavíkur sem staðfest var í desember 2002 og má sjá á slóðinni hér að neðan er einkabíllinn grunnforsenda samgangna í borginni. Þarna er gert ráð fyrir Miklubraut í göngum, mislægum gatnamótum nánast út um allt. Göngum í gegn um Þingholtin og Öskjuhlíð, Sundabraut og þar fram eftir götunum. Þetta er algert einkabílaskipulag og það er einungis 10 ára gamalt og í fullu gildi. Þetta skipulag er gert áratugum eftir að aðrar borgir tóku til við að minnka vægi eikabílsins í borgunum og eftir að almenningshjólaleigur höfðu sannað sig víða, svo dæmi séu tekin.

    Svarar þetta spurningu þinni “Jón” .

    Hér er slóð að aðalskipulagi Reykjavíkur:

    http://www.reykjavik.is/Portaldata/1/Resources/skipbygg/vefur_2010/skjol/Adalskipulag_framhlid.pdf

    Af skipulaginu má lesa að það er ekki verið að fylgja eftir þeirri hugarfarsbreytingu og nauðsynlegu jákvæðu þróun að minnka hlut einkabifreiðanna í samgöngum borga. Þetta er mér óskiljanlegt.

  • „……….Hinsvegar hefur skipulagið oft verið tregt til þess að fylgja þessari þróun eftir“.

    Hvað er átt við með þessu?

  • Var reihjólaleiga í Rvk á síðustu öld fyrsta skrefið er hjá borginni að leggja fleirri reiðhjólastíga.

  • Hafsteinn Ævar

    Reiðhjólaleigu var komið á laggirnar í Barcelona þegar ég bjó þar 2006 og varð strax gríðarlega vinsælt, ekki síst vegna þess að oft er fljótlegra að hoppa á reiðhjól og hjóla tíu mínútna spotta en að nýta sér almenningssamgöngur. Ég mæli með.

  • Sigurður Ólafsson

    Frábær 10 ára gömul hugmynd sem ég hef séð útfærða í Amsterdam, Kaupmannahöfn og París med yfirgengilega góðum árangri. Ég bið borgina um að ráðast strax í vandaðan undirbúning og opna leiguna á vordögum 2013

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og átta? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn